Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 57 – 57. mál.Frumvarp til lagaum lögmenn.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Með lögmanni er í lögum þessum átt við þann sem hefur leyfi til að vera hæstaréttarlög maður eða héraðsdómslögmaður.
    Lögmenn eru opinberir sýslunarmenn. Njóta þeir réttinda og bera skyldur samkvæmt því.

2. gr.

    Ef aðili fer ekki sjálfur með mál sitt fyrir dómi eða sá sem að lögum getur verið fyrirsvarsmaður hans í dómsmáli verður ekki öðrum en lögmanni falið að gæta þar hagsmuna hans, sbr. þó 3. mgr.
    Ákvæði 1. mgr. gilda um opinber mál með þeim takmörkunum sem kann að leiða af heim ildum í lögum til að fela öðrum en lögmanni að koma þar fram sem verjandi, réttargæslumaður eða talsmaður sakbornings eða ákærða.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur málsaðili falið þeim sem starfar sem lögmaður í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og hefur heimild til að fara þar með mál annarra fyrir dómstóli að gæta hagsmuna sinna í máli fyrir samsvarandi dómstóli hér á landi, enda njóti hann í þing höldum aðstoðar lögmanns sem starfar hér á landi. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um slík störf erlendra lögmanna hér á landi.

II. KAFLI
Lögmannaráð og samtök lögmanna.
3. gr.

    Til að gegna þeim störfum, sem mælt er fyrir um í öðrum ákvæðum þessara laga, skipar dómsmálaráðherra þrjá menn í Lögmannaráð til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara.
    Einn nefndarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Lögmannafélags Íslands, en hina skipar ráðherra án tilnefningar. Eins skal farið að um skipun varamanna. Ráðherra skipar nefndinni formann, svo og varaformann úr röðum varamanna.
    Formaður Lögmannaráðs skal fullnægja skilyrðum til að vera skipaður í embætti héraðs dómara.
    Kostnaður af störfum Lögmannaráðs, þar með talin þóknun til nefndarmanna sem dóms málaráðherra ákveður, skal greiddur úr ríkissjóði af gjaldi skv. 30. gr.

4. gr.

    Meðferð mála fyrir Lögmannaráði fer eftir stjórnsýslulögum nema annað leiði af ákvæðum V. kafla. Lögmannaráð setur sér innan þess ramma nánari reglur um meðferð einstakra mála flokka.
    Ákvarðanir Lögmannaráðs sæta ekki stjórnsýslukæru.

5. gr.

    Lögmannafélag Íslands kemur fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórn völdum um þau málefni sem stétt þeirra varða.
    Lögmannafélag Íslands setur siðareglur fyrir lögmenn. Að fenginni staðfestingu dóms málaráðherra á reglunum í heild eða að hluta gilda þær um alla lögmenn án tillits til þess hvort þeir eru þar félagsmenn.
    Lögmannafélag Íslands skal leitast við að stuðla að því að sérhver sem þarfnast aðstoðar lögmanns fái notið hennar, enda hlíti hann þá ráðum lögmannsins og tryggi greiðslu hæfilegs endurgjalds fyrir aðstoðina.

III. KAFLI
Lögmannsréttindi.
6. gr.

    Réttindi til að vera héraðsdómslögmaður má veita þeim sem um þau sækir og fullnægir þessum skilyrðum:
     1.      er lögráða og svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum lögmanns,
     2.      hefur aldrei orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta,
     3.      hefur óflekkað mannorð, svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis,
     4.      hefur lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands,
     5.      stenst prófraun skv. 7. gr.
    Víkja má frá skilyrði 2. tölul. 1. mgr. að fengnum meðmælum Lögmannaráðs ef um sækjandi hefur haft forræði á fé sínu að minnsta kosti þrjú undanfarin ár.
    Leggja má að jöfnu við próf það, sem um getur í 4. tölul. 1. mgr., sambærilegt próf frá öðrum háskóla ef prófnefnd skv. 1. mgr. 7. gr. telur sýnt að umsækjandi hafi næga þekkingu á íslenskum lögum. Til að staðreyna þetta er nefndinni heimilt að leggja fyrir umsækjanda að gangast undir sérstakt próf á sínum vegum í einni eða fleiri lögfræðigreinum.
    Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð fyrirmæli um undanþágu frá skilyrðum 5. tölul. 1. mgr. handa þeim sem hafa öðlast hliðstæð réttindi í öðru ríki.

7. gr.

    Umsækjandi um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður verður að standast prófraun sem þriggja manna prófnefnd annast. Dómsmálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn. Skal skipa einn nefndarmann eftir tilnefningu Lögmannafélags Íslands, annan samkvæmt til nefningu lagadeildar Háskóla Íslands, en þann þriðja án tilnefningar. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar nefndinni formann, svo og varaformann úr röðum varamanna.
    Prófraunin skal bæði vera bókleg og verkleg og ná til þeirra greina bóknáms og verkmennt unar sem helst varða rækslu lögmannsstarfa, þar á meðal siðareglna lögmanna. Prófnefnd skipuleggur námskeið til undirbúnings prófraun. Henni er heimilt að láta Háskóla Íslands og Lögmannafélag Íslands annast einstaka þætti námskeiðs og prófraunar. Í reglugerð, sem dómsmálaráðherra setur að fengnum tillögum prófnefndar, skal meðal annars kveðið nánar á um námsgreinar, námskeiðahald, framkvæmd prófraunar og lágmarksárangur til að standast hana.
    Efnt skal til námskeiðs og prófraunar ekki sjaldnar en annað hvert ár. Umsækjandi má þreyta prófraunina þótt hann fullnægi ekki skilyrðum um starfsreynslu til að öðlast réttindi héraðsdómslögmanns.
    Dómsmálaráðherra ákveður gjald sem umsækjendur greiða fyrir að þreyta prófraun. Skal fjárhæð þess taka mið af kostnaði af námskeiðum og annarri framkvæmd prófraunarinnar.

8. gr.

    Umsókn um leyfi til að vera héraðsdómslögmaður skal beint til dómsmálaráðherra. Eftir því sem þörf er á skal umsækjandi leggja fram gögn til stuðnings því að hann fullnægi skil yrðum skv. 6. gr. Hann skal að auki vinna að því skriflegt heit að viðlögðum drengskap að hann muni rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum kunna að verða falin sem lögmanni.
    Dómsmálaráðherra gefur út leyfisbréf handa héraðsdómslögmanni.
    Héraðsdómslögmaður má gæta hagsmuna aðila í máli fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli.

9. gr.

    Réttindi til að vera hæstaréttarlögmaður má veita þeim sem um þau sækir og fullnægir þessum skilyrðum:
     1.      hefur haft réttindi til að vera héraðsdómslögmaður í fimm ár,
     2.      fullnægir þeim kröfum sem er getið í 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr.,
     3.      hefur flutt ekki færri en þrjátíu mál munnlega fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli,
     4.      sýnir fram á það með prófraun, sem felst í flutningi tveggja mála fyrir Hæstarétti, að hann sé hæfur til að öðlast réttindin.
    Hæstiréttur tekur afstöðu til umsóknar um heimild til að flytja mál sem hluta prófraunar skv. 4. tölul. 1. mgr. og metur síðan hvort umsækjandi standist hana. Áður en leitað er heim ildar til að þreyta prófraun skal umsækjandi afla staðfestingar dómsmálaráðherra á að hann fullnægi öðrum skilyrðum skv. 1. mgr.
    Að fenginni umsögn Hæstaréttar getur ráðherra vikið frá skilyrðum 1., 3. og 4. tölul. 1. mgr. ef umsækjandi hefur gegnt dómaraembætti í að minnsta kosti tíu ár. Með sama hætti getur ráðherra vikið frá 1. og 4. tölul. 1. mgr. ef umsækjandi hefur um jafnlangan tíma gegnt embætti eða starfi sem fylgir lögum samkvæmt heimild til að flytja opinber mál fyrir dómi.
    Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð fyrirmæli um undanþágu frá skilyrðum 1. og 3. tölul. 1. mgr. handa þeim sem hafa öðlast hliðstæð réttindi í öðru ríki og fullnægja að öðru leyti þeim kröfum sem eru gerðar í 1.–4. tölul. 1. mgr. 6. gr., sbr. 2. og 3. mgr. sömu greinar.

10. gr.

    Umsókn um leyfi til að vera hæstaréttarlögmaður skal beint til dómsmálaráðherra. Skulu fylgja henni eftir þörfum gögn til staðfestingar því að umsækjandi fullnægi skilyrðum 9. gr. til að öðlast réttindin.
    Dómsmálaráðherra gefur út leyfisbréf handa hæstaréttarlögmanni.
    Hæstaréttarlögmaður má gæta hagsmuna aðila í málum fyrir öllum dómstólum landsins.

11. gr.

    Lögmaður getur ráðið til starfa hjá sér fulltrúa sem fullnægir skilyrðum 1.–4. tölul. 1. mgr., sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á því að skilyrðum þessum sé fullnægt og leggja fyrir hann gögn því til stuðnings.
    Að fenginni staðfestingu skv. 1. mgr. skal lögmaður tilkynna dómstólum um ráðningu full trúa. Getur lögmannsfulltrúi upp frá því sótt þing fyrir öðrum dómstólum en Hæstarétti í um boði og á ábyrgð vinnuveitanda síns og gætt þar hagsmuna umbjóðanda vinnuveitandans, en þó ekki við munnlega sönnunarfærslu eða aðalmeðferð máls. Lögmanni ber að tilkynna dómstólum og ráðherra ef fulltrúi hans lætur af störfum.
    Lögmaður getur ráðið annan lögmann til starfa hjá sér. Ber lögmaður ábyrgð á fjárvörslu slíks starfsmanns síns, svo og fébótaábyrgð á störfum hans að öðru leyti.

12. gr.

    Lögmanni er skylt að hafa skrifstofu opna almenningi, varðveita fjármuni annarra á vörslufjárreikningum og afla sér starfsábyrgðartryggingar, allt samkvæmt því sem nánar segir í 19., 23. og 25. gr.
    Lögmaður getur sótt um undanþágu til dómsmálaráðherra frá þeim skyldum sem um ræðir í 1. mgr. á meðan hann:
     1.      gegnir föstu starfi hjá opinberri stofnun eða einkaaðila, enda veiti hann engum öðrum þjónustu sem lögmaður, eða
     2.      starfar hjá öðrum lögmanni, sbr. 3. mgr. 11. gr.
    Lögmaður sem leitar undanþágu skv. 2. mgr. skal leggja fram samþykki vinnuveitanda síns fyrir henni. Ef undanþágu er leitað skv. 1. tölul. 2. mgr. skal lögmaður láta fylgja yfirlýsingu sína um að hann muni ekki hagnýta sér réttindi sín í ríkara mæli en þar greinir. Ef undanþágu er leitað skv. 2. tölul. 2. mgr. skal fylgja staðfesting um þá ábyrgð vinnuveitanda sem um ræðir í 3. mgr. 11. gr. Er vinnuveitanda jafnt sem lögmanni skylt að tilkynna dómsmálaráðherra ef vinnusambandi þeirra er slitið.
    Ef lögmaður fullnægir annars ekki þeim skyldum sem um getur í 1. mgr. ber honum að skila leyfisbréfi sínu og skulu réttindi hans felld niður.

13. gr.

    Dómsmálaráðherra hefur eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lög mannsréttindum skv. 6., 9. og 12. gr.
    Lögmanni er skylt að veita dómsmálaráðherra eða löggiltum endurskoðanda, sem ráðherra tilnefnir í því skyni, allar nauðsynlegar upplýsingar til að metið verði hvort hann fullnægi þeim skyldum sem mælt er fyrir um í 12. gr. Ber sá sem gegnir eftirliti þagnarskyldu um það sem hann kemst að raun um, að því leyti sem það varðar ekki tilgang eftirlitsins.
    Komi fram við eftirlit skv. 1. mgr. að lögmaður fullnægi ekki þeim skilyrðum sem þar greinir ber dómsmálaráðherra að fella úr gildi réttindi hans. Ef atvik eru háð mati getur ráðherra leitað álits Lögmannaráðs áður en hann tekur ákvörðun sína.
    Ef réttindi lögmanns eru felld niður með þeim hætti sem í 3. mgr. segir er honum heimilt að höfða einkamál eftir almennum reglum gegn ríkinu til ógildingar á ákvörðun ráðherra.

14. gr.

    Nú berst Lögmannaráði kvörtun á hendur lögmanni og telur sýnt að hann hafi í störfum sínum brotið svo mjög eða ítrekað gegn lögum eða þeim reglum, sem um getur í 2. mgr. 5. gr., að ekki verði við unað að hann hafi áfram réttindi til að vera lögmaður. Getur þá Lögmannaráð í rökstuddu áliti lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður um tiltekinn tíma eða ótímabundið ef sakir eru miklar.
    Ráðherra ber að taka afstöðu til tillögu Lögmannaráðs skv. 1. mgr. innan tveggja mánaða frá því hún berst honum.
    Felli ráðherra niður réttindi lögmanns samkvæmt framansögðu getur lögmaðurinn höfðað mál um þá ákvörðun með sama hætti og segir í 4. mgr. 13. gr.

15. gr.

    Taki lögmaður við opinberu starfi sem dómsmálaráðherra telur ósamrýmanlegt handhöfn lögmannsréttinda skulu réttindin felld úr gildi. Lögmanninum er heimilt að höfða mál um þá ákvörðun, svo sem um ræðir í 4. mgr. 13. gr.
    Lögmanni er alltaf frjálst að afsala sér réttindum sínum.

16. gr.

    Hafi réttindi lögmanns verið felld niður samkvæmt einhverju því sem í 12.–15. gr. segir eða hann hefur afsalað sér þeim skulu þau veitt honum á ný eftir umsókn hans án endurgjalds eða prófraunar ef hann fullnægir orðið öllum öðrum skilyrðum til að njóta þeirra.
    Hafi réttindi lögmanns verið felld niður ótímabundið samkvæmt því sem í 14. gr. segir getur hann að fimm árum liðnum sótt um heimild til að gangast undir prófraun skv. 7. gr. og sækja í kjölfarið á ný um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður. Slíka heimild veitir dómsmálaráðherra að fenginni umsögn Lögmannaráðs.

17. gr.

    Dómsmálaráðherra skal auglýsa í Lögbirtingablaði veitingu réttinda, svo og ef þau falla niður.
    Í dómsmálaráðuneytinu skal halda skrá um þá sem hafa lögmannsréttindi. Skal þar gerð um það sérstök athugasemd ef lögmaður hefur hlotið undanþágu með þeim hætti sem greinir í 1. tölul. 2. mgr. 12. gr. Skrá þessi skal vera opin almenningi.

IV. KAFLI
Störf lögmanna.
18. gr.

    Lögmönnum ber í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

19. gr.

    Telji lögmaður sér ekki fært vegna heilsufars síns að hafa opna skrifstofu um lengri tíma má hann leita tímabundinnar undanþágu dómsmálaráðherra frá skyldu til þess.
    Lögmönnum er heimilt að stofna félag um rekstur sinn í því formi sem þeir sjálfir kjósa, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð. Slík takmörkun breytir ekki því að lögmaður ber alltaf óskerta ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmaður hans bakar öðrum með störfum sínum.

20. gr.

    Lögmanni er skylt að taka við skipun sem verjandi eða réttargæslumaður í opinberu máli, enda fullnægi hann til þess hæfisskilyrðum og hafi ekki ósamrýmanlegra hagsmuna að gæta vegna sjálfs sín, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda síns.
    Að öðru leyti en leiðir af 1. mgr. er lögmanni aldrei skylt að taka að sér verk sem leitað er til hans um.

21. gr.

    Nú sækir lögmaður eða fulltrúi hans dómþing fyrir aðila, og skal hann þá talinn hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans nema það gagnstæða sé sannað.
    Sé ekki sýnt fram á annað felur umboð aðila til lögmanns í sér heimild til að gera hvaðeina sem venjulegt má telja til að gæta hagsmuna fyrir dómi. Innan þeirra marka er umbjóðandi bundinn af ráðstöfun lögmanns þótt hann fari út fyrir þá heimild sem umbjóðandi hefur veitt honum.
    Lögmaður getur ekki tekið við greiðslu svo bindandi sé gagnvart umbjóðanda nema hann hafi til þess sannanlegt umboð.
    Lögmanni er skylt að inna sjálfur af hendi þau störf fyrir dómi sem honum eru falin nema umbjóðandi hans samþykki annað. Lögmaður getur þó falið fulltrúa sínum eða öðrum lögmanni að sækja fyrir sig dómþing, enda sé það ekki háð til aðalmeðferðar máls eða munnlegrar sönnunarfærslu.
    Umbjóðanda er ætíð heimilt að kalla aftur umboð sitt til lögmanns. Ákvæði um annað í umboði eru ekki skuldbindandi.
    Lögmaður getur á öllum stigum sagt sig frá verki sem honum hefur verið falið, en gæta verður hann þess að umbjóðandi hans verði ekki af þeim sökum fyrir réttarspjöllum.

22. gr.

    Lögmaður ber þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Starfsmaður lögmanns er einnig bundinn þagnarskyldu um slík trúnaðarmál sem hann kann að komast að vegna starfa sinna.
    Áður en lögmaður tekur að sér verk ber honum að vekja athygli þess sem til hans leitar ef hann telur einhverja hættu á að hagsmunirnir sem í húfi eru kunni að rekast á hagsmuni hans sjálfs, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda, eða að samsvarandi tormerki geti risið við rækslu starfans.

23. gr.

    Lögmanni er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé. Skulu slíkir fjármunir varðveittir á sérstökum vörslufjárreikningi.
    Dómsmálaráðherra skal setja nánari reglur um vörslufjárreikninga að fengnum tillögum Lögmannafélags Íslands.

24. gr.

    Lögmanni er rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans eftir því sem unnt er gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast.
    Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans.
    Lögmannafélag Íslands getur gefið út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald, sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af innheimtu peningakröfu. Óheimilt er lögmönnum að nota leiðbeiningar þessar í öðrum tilgangi.

25. gr.

    Lögmaður ber bótaábyrgð á störfum sínum og starfsmanna sinna eftir almennum reglum.
    Lögmönnum er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi, sem hefur starfsleyfi hér á landi, vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum þeirra eða starfsmanna þeirra. Að fengnum tillögum Lögmannafélags Íslands getur dómsmálaráðherra ákveðið með reglugerð að önnur jafngild trygging geti komið í stað ábyrgðartryggingar.
    Dómsmálaráðherra skal að fengnum tillögum Lögmannafélags Íslands og umsögn vátryggingaeftirlitsins ákveða lágmark fjárhæðar ábyrgðartryggingar skv. 2. mgr. og hámark eigin áhættu vátryggingartaka. Skal þá höfð hliðsjón af góðum venjum á sviði vátrygginga og hagsmunum viðskiptamanna lögmanna. Sjálfsáhætta vátryggingartaka samkvæmt tryggingar skilmálum hefur engin áhrif á stöðu þriðja manns.
    Lögmanni er heimilt með samningi um ákveðið verk að takmarka hámark bótaskyldu sinnar vegna rækslu þess við tiltekna fjárhæð sem nemi að minnsta kosti lágmarki ábyrgðar tryggingar skv. 3. mgr. Slík takmörkun bindur aðeins viðsemjanda lögmanns og getur ekki náð til annars tjóns en þess sem stafar af einföldu gáleysi.

V. KAFLI
Ágreiningur um störf lögmanna.
26. gr.

    Ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir Lögmannaráð til úrskurðar.
    Hafi dómsmál ekki verið höfðað um ágreiningsefni skv. 1. mgr. áður en það er lagt fyrir Lögmannaráð verður það ekki borið undir dómstóla á meðan málið er þar rekið.
    Ef lagt er fyrir Lögmannaráð ágreiningsefni sem dómsmál er rekið um getur það að ósk annars eða beggja aðila látið í té álitsgerð til afnota þar. Hafi dómsmáli verið lokið um ágreiningsefnið vísar ráðið því frá sér.

27. gr.

    Nú telur umbjóðandi að lögmaður, sem sinnir verki fyrir hann, hafi gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr., og getur hann þá lagt fyrir Lögmannaráð kvörtun á hendur lögmanninum. Lögmannaráð vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því umbjóðandi átti kost á að koma henni á framfæri.
    Í máli skv. 1. mgr. getur Lögmannaráð gert lögmanni áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur ráðið brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr.

28. gr.

    Mál skal lagt fyrir Lögmannaráð með skriflegu erindi og skulu því fylgja nauðsynleg gögn. Fyrningu kröfu er slitið þegar Lögmannaráði berst erindi um hana.
    Lögmannaráði er heimilt ef sérstaklega stendur á að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna rekstrar máls fyrir ráðinu.
    Þegar máli skv. 26. eða 27. gr. er lokið fyrir Lögmannaráði er aðila að því heimilt að leita fyrir dómi ógildingar á úrskurði þess eða sátt sem gerð er fyrir því eða leita þannig breytingar á niðurstöðu sem þar hefur fengist.
    Úrskurði Lögmannaráðs eða sátt sem kemst á fyrir því má fullnægja með aðför eins og dómsúrskurði eða dómsátt.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
29. gr.

    Það varðar sektum að taka að sér starfa sem lögmenn mega einir gegna skv. 2. gr. ef sá sem það gerir hefur hvorki réttindi sem lögmaður né starfar sem lögmannsfulltrúi. Einnig varðar sektum að bjóða öðrum þjónustu sem lögmaður ef þann sem það gerir skortir til þess réttindi.
    Þeim einum er heimilt að nota starfsheitið lögmaður, héraðsdómslögmaður eða hæstaréttarlögmaður sem hefur fullgild starfsréttindi samkvæmt lögum þessum. Brot gegn þessu ákvæði varðar sektum.
    Brot gegn 1. mgr. 22. gr., 1. mgr. 23. gr. og 2. mgr. 25. gr. varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

30. gr.

    Til að greiða kostnað ríkisins af framkvæmd laga þessara skulu héraðsdómstólar innheimta málagjald við þingfestingu hvers einkamáls, að fjárhæð 400 krónur.


VII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
31. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998. Falla þá úr gildi lög um málflytjendur, nr. 61 4. júlí 1942, með áorðnum breytingum.

32. gr.

    Með lögum þessum raskast ekki réttindi héraðsdómslögmanna og hæstaréttarlögmanna sem hafa verið veitt fyrir gildistöku þeirra, þar á meðal réttindi skv. 2. mgr. 9. gr. eldri laga.
    Hafi maður fyrir gildistöku laga þessara byrjað að þreyta prófraun til að afla sér réttinda sem héraðsdómslögmaður eða hæstaréttarlögmaður en ekki lokið henni skal hann eiga kost á að ljúka henni eftir eldri reglum fyrir 1. júlí 1999. Fer þá um skilyrði til að veita réttindin eftir ákvæðum 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 14. gr. eldri laga.
    Hafi lögmaður verið sviptur réttindum eða lagt þau inn fyrir 1. júlí 1998 eða svo hefur annars orðið ástatt fyrir honum að hann hafi fyrirgert réttindum sínum um sinn gilda ákvæði þessara laga um hvort, hvernig og hvenær hann geti öðlast réttindin á ný.
    Lögmenn, sem telja sig við gildistöku laga þessara fullnægja skilyrðum 2. mgr. 12. gr. til að njóta þargreindrar undanþágu, hafa frest til 1. október 1998 til að leita eftir henni.

33. gr.

    Að öðru leyti en um getur í 31. gr. breytir gildistaka laga þessara í engu ákvæðum annarra laga um Lögmannafélag Íslands eða réttindum þess og skyldum í öðru tilliti.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á Alþingi á 121. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt. Frumvarpið er nú lagt fram á ný með óverulegum breytingum.
    Frumvarp þetta var samið á vegum réttarfarsnefndar að tilhlutan dómsmálaráðherra. Með bréfi dags. 9. nóvember 1994 fól dómsmálaráðherra nefndinni nokkur tiltekin verkefni, en meðal þeirra var að gera heildarendurskoðun á lögum um málflytjendur og semja frumvarp þar að lútandi. Við þessa endurskoðun skyldi haft nauðsynlegt samráð við Lögmannafélag Íslands. Hefur nefndin leitast við að eiga slíkt samráð við stjórn félagsins og einstaka stjórnarmenn, eftir því sem kostur hefur verið, auk þess sem helstu álitaefnin varðandi breytingu á löggjöfinni hafa verið rædd á fundum nefndarinnar með allstórum hópi lögmanna í ágúst og desember 1995. Réttarfarsnefnd hefur ekki komist að einróma niðurstöðu um öll atriði frumvarpsins. Hefur einn nefndarmaður skilað séráliti um nokkur efnisatriði, en þeirra verður nánar getið hér á eftir.
    Frumvarp þetta er liður í þeirri heildarendurskoðun löggjafar er varðar réttarfarsleg málefni og hófst með setningu laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Í kjölfar þeirra fylgdi setning nýrra laga er fólu í sér miklar breytingar á flestum sviðum réttarfars og tóku að mestu leyti gildi 1. júlí 1992. Sum hinna eldri laga voru mjög komin til ára sinna og heildarendurskoðun þeirra löngu tímabær.
    Lög, er varða störf lögmanna, teljast hluti af réttarfarslöggjöf landsins. Um þau efni gilda nú lög nr. 61/1942, um málflytjendur. Með þeim voru sameinuð í einum lögum ákvæði sem áður voru hver í sínum lögunum að því er varðaði annars vegar flutning mála fyrir héraðsdómi og hins vegar Hæstarétti, auk þess sem ýmsar breytingar voru þá gerðar frá eldri skipan. Þrátt fyrir nokkurn aldur gildandi laga hefur lítt verið við þeim hróflað, og standa þau óbreytt eða lítt breytt frá upphaflegri gerð að því er varðar mörg mikilvæg atriði. Nokkrar breytingar á lögunum hafa engu að síður verið gerðar í rúmlega fimmtíu ára gildistíð þeirra. Er þar helst að nefna að með lögum nr. 24/1995 var nýjum greinum bætt inn í lögin er lögðu skyldu á lögmenn til kaupa á starfsábyrgðartryggingum og að geyma fé viðskiptamanna sinna á sérstökum vörslufjárreikningum. Að auki var þá breytt nokkrum ákvæðum laganna, en meðal þeirra var niðurfelling ákvæðis er veitti stjórn Lögmannafélags Íslands dómsvald í tilteknum málefnum er varða störf lögmanna. Aðrar helstu breytingar á lögum um málflytjendur urðu með lögum nr. 32/1962, en þá var meðal annars að nokkru leyti breytt skilyrðum til að öðlast réttindi héraðsdóms- og hæstaréttarlögmanna. Með nokkrum öðrum lögum hefur verið hreyft við fáeinum ákvæðum laganna, en þær breytingar hafa flestar verið minni háttar. Þau lög, sem um ræðir, eru lög nr. 119/1943 (breyting á 14. gr.), lög nr. 25/1953 (breyting á 9. gr. um málflutningsleyfi fyrir Hæstarétti), lög nr. 40/1954 (breyting á 11. og 16. gr. um gjald fyrir málflutningsleyfi), lög nr. 10/1983 (breyting á 8. gr. varðandi sektarmörk), lög nr. 20/1991 (breyting á 5. gr. um einkarétt til málflutningsstarfa, tengd aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds), lög nr. 91/1991 (breyting á 6. og 22. gr. um réttarfarssektir og 13. og 16. gr. um gjafsókn) og loks lög nr. 133/1993 (breyting á 3., 5., 9. og 14. gr.), en hin síðasttöldu varða atvinnuréttindi og leiddi af aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Heildarendurskoðun laganna hefur hins vegar ekki farið fram fyrr en nú, þótt hún hafi verið orðin tímabær og það án tillits til þeirrar endurskoðunar réttarfarslöggjafar að öðru leyti sem áður er nefnd. Árið 1972 lagði dómsmálaráðherra fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um málflytjendur er hann hafði falið Benedikt Sigurjónssyni, þáverandi hæstaréttardómara, að semja. Það frumvarp varð ekki útrætt á því þingi. Það var lagt fram aftur á næsta þingi en dagaði uppi. Frumvarp að nýjum heildarlögum var samið allmörgum árum síðar að frumkvæði Lögmannafélags Íslands, en það frumvarp var ekki lagt fram á Alþingi. Dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi 1983–84 frumvarp til breytinga á nokkrum ákvæðum laganna sem náði ekki heldur fram að ganga. Þá hefur stjórn Lögmannafélags Íslands farið þess á leit við ráðherra að lögin verði endurskoðuð í heild.
    Enn eitt atriði skal nefnt sem ýtir undir að ráðist verði í heildarendurskoðun laganna, en það er sú breyting á stjórnarskránni sem gerð var með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hún hljóðar nú, má engan skylda til aðildar að félagi, en með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Í gildandi lögum um málflytjendur er lögð skylda á lögmenn að vera félagsmenn í Lögmannafélagi Íslands. Stjórnarskrárbreytingin felur því í sér enn eina ástæðuna fyrir þeim tillögum sem hér fara á eftir til nýrra laga á þessu sviði er leysi hin eldri af hólmi.

Helstu efnisatriði frumvarpsins.
I.

    Eitt þeirra álitaefna sem staðið hefur verið frammi fyrir við samningu frumvarpsins er það sem snýr að skyldu lögmanna til aðildar að Lögmannafélagi Íslands og áður er nefnt. Hefur sérstaklega verið haft til skoðunar hvort leggja skuli af skylduaðild lögmanna að félaginu eða takmarka hana við tiltekin viðfangsefni þess. Hafa ýmsir kostir verið athugaðir hér að lútandi, en um þetta hafa verið mjög skiptar skoðanir meðal lögmanna sjálfra. Ákvörðun um þetta atriði mótar tillögurnar óhjákvæmilega að mörgu öðru leyti, meðal annars um það hverjum skuli falið eftirlit með störfum lögmanna. Var þetta atriði lagt til dómsmálaráðherra til ákvörðunar á meðan frumvarpið var enn á undirbúningsstigi. Hefur hann mótað þá stefnu að í frumvarpinu yrði miðað við að skylduaðild að félaginu skyldi aflögð. Hefur frumvarpið verið gert úr garði í samræmi við það. Einn nefndarmaður í réttarfarsnefnd hefur lýst sig andvígan þessari stefnu og talið rétt að skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands verði áfram við lýði.
    Lög nr. 61/1942 bera heitið lög um málflytjendur. Í þessu frumvarpi er hins vegar lagt til heitið lög um lögmenn. Þykir það heiti eiga betur við, meðal annars í ljósi þess að í frumvarpinu er bæði fjallað um samskipti lögmanna við viðskiptamenn sína, dómstóla og stjórnvöld, en ekki aðeins þann þátt starfa þeirra sem snýr að málflutningi. Þá hefur orðið lögmaður stöðugt fest sig í sessi, en notkun orðsins málflytjandi heldur látið undan síga.
    Helstu nýmæli í frumvarpinu og tillögur til breytinga frá gildandi lögum eru að öðru leyti eftirfarandi:
     1. Í 6.– 8. gr. er að finna reglur um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður og í 9.–10. gr. eru ákvæði um málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti. Þessar greinar frumvarpsins hafa að geyma tillögur sem fela í sér miklar breytingar frá gildandi rétti ef samþykktar verða.
    Meginbreytingin skv. 6. gr. er sú að lagt er til að felld verði niður sú tilhögun gildandi laga að sá sem leitar eftir málflutningsréttindum fyrir héraðsdómi þurfi að sýna það með flutningi fjögurra munnlega fluttra mála að hann sé hæfur til að vera héraðsdómslögmaður. Þessi skipan er að flestra áliti gengin sér til húðar og þörf á markvissari undirbúningi við veitingu lögmannsréttinda en flutningur prófmála hefur upp á að bjóða. Gagnrýnin hefur jafnframt beinst að því að aðstaða manna til að fá leyfi lögmanna og umbjóðenda þeirra til að flytja mál sem prófmál sé misjöfn. Feli gildandi fyrirkomulag því í sér mismunun og úr því þurfi að bæta með því að gera aðgang manna að þessum réttindum almennan.
    Í stað þessa prófmálaflutnings fyrir dómi er hér lagt til að komi sérstök prófraun sem þriggja manna nefnd skv. 7. gr. frumvarpsins annist. Sambærilega skipan er að finna í lögum um tilteknar aðrar starfsstéttir, svo sem fasteignasala og verðbréfamiðlara. Í 2. mgr. 7. gr. segir að prófraunin skuli vera bæði bókleg og verkleg í þeim greinum er helst varða rekstur lögmannsstarfa, þar á meðal í siðareglum lögmanna. Að öðru leyti skal ákvarða nánar með reglugerð hvert námsefnið skuli vera, svo og önnur atriði sem að framkvæmd námskeiðsins lúta.
    Aðrar breytingartillögur varðandi réttindi til að vera héraðsdómslögmaður fela meðal annars í sér hert skilyrði að því leyti að umsækjandi um réttindin má aldrei hafa þurft að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta. Varnagli af þessu tagi þykir sjálfsagður í ljósi þeirrar mikilvægu umsýslu með fjármuni manna sem lögmenn hafa einatt með höndum. Krafa í gildandi lögum um tiltekinn lágmarksaldur héraðsdómslögmanna þykir hins vegar óþörf og er lagt til að hún verði afnumin.
    Í 9. gr. er að finna tillögur um réttindi til að vera hæstaréttarlögmaður. Það setur mark sitt á þær að auknar kröfur eru þar gerðar frá gildandi lögum um starfsreynslu áður en tímabært þykir að veita mönnum rétt til málflutningsstarfa fyrir Hæstarétti. Samkvæmt því skal umsækjandi hafa haft réttindi til að vera héraðsdómslögmaður í fimm ár í stað þriggja ára nú áður en honum er heimilt að sækja um réttindin, og enn fremur með kröfu um að hafa flutt munnlega að minnsta kosti þrjátíu mál fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli. Prófmálum er hins vegar fækkað úr þremur í tvö, en ekki þótti rétt að leggja til algert afnám prófmálaflutnings fyrir Hæstarétti, sbr. síðar. Lagt er til að ákvæði um lágmarksaldur til að hljóta réttindin verði afnuminn.
    Í tillögum samkvæmt frumvarpinu felst loks að felld verði niður sérstök heimild fyrir héraðsdómslögmenn, sem flutt hafa a.m.k. 40 mál munnlega fyrir dómi, til að flytja fyrir Hæstarétti mál sem þeir sjálfir eða fulltrúar þeirra hafa flutt í héraði. Þessi regla þykir úrelt og ekki rök fyrir að hún standi áfram í lögum. Gert er þó ráð fyrir að þeir sem hafa öðlast slík réttindi eftir núgildandi lögum fái að halda réttindunum, sbr. 1. mgr. 32. gr. frumvarpsins.
     2. Í 2. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um rétt lögmanns til að gæta hagsmuna málsaðila fyrir dómi. Samkvæmt gildandi lögum hafa lögmenn að mestu einkarétt til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum landsins, auk þess að hafa einkarétt til málflutnings fyrir Hæstarétti. Einkarétturinn á héraðsdómsstigi takmarkast þó við tiltekin umdæmi sem eru Reykjavík og Akureyri. Ráðherra getur ákveðið að einkaréttur lögmanna skuli taka til annarra kaupstaða þar sem ekki er neinn hörgull héraðsdómslögmanna. Hefur ráðherra nýtt þessa heimild, sbr. auglýsingu nr. 242, um einkarétt lögmanna, frá 22. júní 1976. Nær þannig einkaréttur lögmanna nú einnig til Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Kópavogs, Njarðvíkur, Seltjarnarness og Vestmannaeyja.
    Skiptar skoðanir hafa verið í hópi lögmanna um það hvort afnema beri einkarétt lögmanna til málflutningsstarfa eða viðhalda honum. Rökin, sem teflt er fram fyrir afnámi einkaréttar, eru þau helst að ekki eigi að þvinga neinn til að leggja mál sitt í hendur lögmanns ef hann vill sjálfur fela það öðrum sem hann treystir betur. Á móti er bent á að hagsmunum manna sé best borgið í höndum lögmanna vegna þeirrar reynslu sem þeir búi yfir og þekkingar á réttarfars lögum. Slíkt sé í raun óhjákvæmilegt skilyrði þess að geta gætt hagsmuna fólks fyrir dómi og haldið málsástæðum og lagarökum skilmerkilega til haga. Leiðbeiningarskylda dómara gagnvart ólöglærðum, sem mælt er fyrir í lögum, nái ekki að breyta neinu um þá niðurstöðu. Gagnstæð regla hljóti að leiða til þess að menn verði fyrir skakkaföllum að óþörfu, auk þess sem það auki mjög á skilvirkni dómstóla að lögmenn flytji öll mál fyrir dómi sem málsaðilar flytja ekki sjálfir. Sjónarmið um réttaröryggi og neytendavernd styðji þannig að haldið sé ríkjandi fyrirkomulagi sem hafi reynst vel.
    Einkaréttur lögmanna hefur á undanförnum árum í reynd verið takmarkaður með því að ákveðin störf, sem áður töldust til starfa fyrir dómi, gera það ekki lengur. Eftir aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði fara sýslumenn ekki lengur með dómsvald, þannig að rekstur mála við embætti þeirra er ekki lengur háður einkarétti lögmanna.
    Tillögur um þetta atriði koma fram í 3. gr. frumvarpsins og gera ráð fyrir að haldið sé gildandi fyrirkomulagi um einkarétt lögmanna. Taki hann bæði til Hæstaréttar, héraðsdóm stóla og sérdómstóla sem í reynd er einungis Félagsdómur. Einkarétturinn taki framvegis til landsins alls, enda eru ekki lengur fyrir hendi þær ástæður sem upphaflega bundu hann við stærstu kaupstaðina eina, auk þess sem umdæmi héraðsdómstóla eru nú mörkuð með allt öðrum hætti en gert var við setningu laga nr. 61/1942. Til athugunar kom hvort leggja ætti til að víkka út einkarétt lögmanna, þannig að hann næði ekki einungis til dómstóla heldur einnig til að reka mál fyrir tilteknum stjórnvöldum, svo sem matsnefnd eignarnámsbóta og fleirum. Frá þeim hugmyndum var hins vegar horfið þótt vissulega standi nokkur rök til þessa. Í frumvarpinu eru undantekningar frá einkarétti íslenskra lögmanna vegna aðildar Íslands að EES með svipuðu móti og nú gildir.
    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði í gildandi lögum um heimild málsaðila til að fela tilteknum skyldmennum, tengdamönnum og öðrum nákomnum að reka mál sitt fyrir dómi. Í reynd er hér um dauðan bókstaf að ræða. Sama tillaga er gerð varðandi reglu í 19. gr. núgildandi laga um svonefnda málflutningsmenn án lögmannsréttinda, en fáeinir slíkir höfðu atvinnu sína af málarekstri við setningu laganna 1942. Þessi heimild mótaðist af aðstæðum á þeim tíma og hefur runnið sitt skeið á enda. Lagt er til að heimildin verði aflögð. Sama tillaga felst í frumvarpinu að því er varðar heimild í 21. gr. laga nr. 61/1942 um að embættisgengir lögfræðingar án lögmannsréttinda í þjónustu félaga og stofnana flytji mál þeirra fyrir héraðsdómi. Reglan gildir ekki fyrir einstaklinga sem hafa slíka menn í þjónustu sinni, heldur einungis félög og stofnanir. Hún hefur lítt verið notuð í framkvæmd um aðra en starfsmenn ríkisstofnana.
     3. Svo sem áður greinir er lagt til í frumvarpinu að skylda til aðildar að Lögmannafélagi Íslands, sem nú hvílir á lögmönnum, verði felld niður. Í þessu felst ein helsta breytingin sem ráðgerð er í frumvarpinu frá gildandi skipan.
    Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 61/1942, kom fram sú skýring að skylduaðildin væri sett með hliðsjón af samsvarandi ákvæðum í dönskum rétti, en þar eins og hér helgast skylduaðild allra lögmanna af því stjórnsýsluhlutverki sem á félag þeirra er lagt. Með lögum nr. 61/1942 var hlutverk þess félags, sem lögmenn skyldu vera í, markað á þann veg að stjórnin skyldi hafa eftirlit með að félagsmenn færu að lögum í starfa sínum og ræktu skyldur sínar af trúmennsku og samviskusemi. Enn fremur var stjórninni veitt úrskurðarvald ef ágreiningur um endurgjald fyrir málflutningsstarf yrði undir hana borinn. Þá var stjórninni heimilað að veita einstökum félagsmönnum áminningar og gera þeim sektir fyrir framferði í starfa þeirra sem telja megi stétt lögmanna ósamboðið. Loks var sú skylda lögð á stjórn Lögmannafélags Íslands með lögum nr. 24/1995 að hafa eftirlit með félagsmönnum varðandi lögboðin kaup á starfsábyrgðartryggingum og um vörslufjárreikninga.
    Hin síðari ár hefur þeim sjónarmiðum verið haldið fram með vaxandi þunga að óhjákvæmilegt sé að gera breytingu á þessu. Vísað er til breyttra viðhorfa hér og erlendis varðandi það að skylda menn til aðildar að félagi. Þau viðhorf lýsi sér meðal annars í dómi er kveðinn var upp í mannréttindadómstóli Evrópu 30. júní 1993 í máli á hendur íslenska ríkinu. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn skyldum sínum skv. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að hafa gert leigubifreiðarstjórum skylt með lögum að vera félagsmenn í stéttarfélögum í sínum starfsgreinum. Þótti þetta ekki samrýmast grundvallarréttindum til að mega standa utan félaga sem talin voru felast í ákvæðum sáttmálans.
    Með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 var fest í stjórnarskrána ákvæði um svokallað neikvætt félagafrelsi, þ.e. réttinn til að standa utan félaga. Í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar er því nú svofellt ákvæði: „Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“ Meginreglan er því ótvírætt sú að engan megi skylda til aðildar að félagi. Í kjölfar hennar er þó kveðið á um undantekningar, ef almenn skilyrði um lagafyrirmæli og nauðsyn eru uppfyllt, og að auki verða almannahagsmunir að krefjast slíkrar félagsskyldu eða tillit til annarra. Aðstaðan er því sú að til að réttlæta félagsskyldu þarf að sýna fram á að skilyrði fyrir henni séu uppfyllt.
    Svo sem áður getur hefur stjórn Lögmannafélags Íslands samkvæmt gildandi lögum eftirlitshlutverk gagnvart starfandi lögmönnum og getur beitt þá tilteknum agaviðurlögum, ef út af bregður í störfum þeirra. Þetta viðfangsefni félagsins er þess eðlis að skilyrði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar til að mega skylda menn til aðildar að félagi ættu þó ekki að vera því til fyrirstöðu að um slíka skyldu yrði áfram mælt í lögum varðandi lögmenn með einhverjum hætti. Slíkt mundi sennilega ekki heldur brjóta gegn 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig lög nr. 62/1994, um lögfestingu hans. Gagnstæð niðurstaða er þó ekki alveg útilokuð þegar það er virt að unnt er að koma við eftirliti með lögmönnum án þess að félag þeirra þurfi nálægt því að koma.
    Aðstaðan að þessu leyti er hins vegar sú að Lögmannafélag Íslands einskorðar starfsemi sína alls ekki við þau lögmæltu verkefni sem að framan getur. Sem dæmi má nefna að sem félag lögmanna hefur það með höndum margháttaða starfsemi sem felst til dæmis í fræðslu og skemmtun, auk hagsmunagæslu í þágu lögmannsstéttarinnar. Þá tekur félagið með ýmsum hætti afstöðu til margs kyns þjóðmála og er þátttakandi í opinberri umræðu, svo sem með því að gefa umsagnir um lagafrumvörp. Slík opinber afstaða félagsins til einstakra mála getur augljóslega farið þvert gegn viðhorfum einstakra félagsmanna til þeirra. Ljóst er að slík umsvif félagsins tengjast ekki áðurnefndu eftirlitshlutverki með lögmönnum sem á það er lagt í þágu almennings. Því verður augljóslega ekki haldið fram með gildum rökum að skilyrði stjórnarskrár séu eftir setningu laga nr. 97/1995 uppfyllt í hvívetna til að skylda megi lögmenn til að vera í Lögmannafélagi Íslands í óbreyttri mynd.
    Að því gefnu að skynsamlegt sé og nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að viðhalda með einhverjum hætti eftirliti með störfum lögmanna hafa tveir meginkostir komið til athugunar. Annars vegar sá að Lögmannafélag Íslands gegni áfram opinberu hlutverki að þessu leyti og fari með valdheimildir gagnvart félagsmönnum sínum sem geri því kleift að rækja þessi viðfangsefni. Skylduaðild allra lögmanna verði þá áfram að félaginu um þessa tilteknu þætti. Að öðru leyti yrði aðild að því frjáls ef félagið kysi að sinna jafnframt öðrum verkefnum. Það mætti þá til dæmis hafa í deildum sem aðskildar væru frá hinni lögmæltu starfsemi félagsins. Hinn kosturinn er sá að afnema með öllu skylduaðild að Lögmannafélaginu. Það yrði þá félag sem byggðist á frjálsri þátttöku lögmanna, en eftirlit með störfum þeirra yrði framkvæmt á vegum stjórnvalda. Opinbert vald yrði þannig að öllu leyti fært frá Lögmannafélagi Íslands, sem um leið hætti að taka ákvörðun um rétt og skyldu manna á grundvelli lögmælts stjórnsýsluhlutverks. Forsenda samkvæmt fyrrnefndu stjórnarskrárákvæði fyrir skylduaðild að félaginu væri þar með ekki lengur fyrir hendi.
    Eins og áður greinir eru skoðanir um þetta skiptar og hvora leiðina sem er má styðja gildum rökum. Tillögur í frumvarpinu byggjast á síðarnefnda kostinum, þ.e. afnámi félagsskyldunnar og að eftirlit með störfum lögmanna færist að öllu leyti frá félagi þeirra til stjórnvalda. Er þá meðal annars til þess litið að eðlilegt sé í ljósi mannréttindasáttmála Evrópu og breytinga á stjórnarskránni að stíga skrefið til fulls sem sé jafnframt einfaldasta leiðin eins og hér hagar til. Það sé að auki tæpast í samræmi við almenn viðhorf til nútímastjórnsýsluhátta að einni stétt manna, þ.e. lögmönnum, sé falið með lagasetningu að hafa eftirlit með sjálfri sér. Til að gera slíkt eftirlit fyllilega trúverðugt þurfi það að vera í höndum opinberra aðila.
    Til upplýsingar skal þess getið að í þessum efnum er annars staðar á Norðurlöndum ekki fylgt neinni einni samræmdri leið í settum lögum. Á það bæði við um einkarétt lögmanna, skylduaðild að lögmannafélögum og þá um leið hvernig eftirlits- og agavaldi gagnvart lögmönnum er fyrir komið. Í Noregi njóta lögmenn einkaréttar til málflutnings, en þar er félagsskylda ekki fyrir hendi. Í reynd eru samt um 90% allra lögmanna í félaginu, og í því felst ákveðið gæðamerki að lögmaður geti kynnt sig til dæmis í bréfsefni sínu þannig að hann sé í norska lögmannafélaginu. Meginreglan er sú að félagið hefur farið með agavald gagnvart félagsmönnum sínum, en dómsmálaráðuneytið gagnvart utanfélagsmönnum. Ákvörðunum félagsins mun þó að einhverju marki vera unnt að skjóta til sérstakrar nefndar. Í Danmörku er að mestu leyti einkaréttur lögmanna til málflutnings, og þar er jafnframt skylduaðild að lögmannafélaginu. Stjórn þess hefur eftirlitsskyldu með félagsmönnum, en agavald er í höndum 18 manna nefndar, svokallaðrar lögmannanefndar. Í henni eiga sæti þrír dómarar, sex nefndarmenn eru tilnefndir af dómsmálaráðherra og skulu þeir ekki vera lögmenn, en níu eru tilnefndir af lögmannafélaginu. Í einstökum málum er unnið í smærri deildum. Hefur danska lögmannafélagið stofnað hlutafélag sem sér um ýmiss konar þjónustu við lögmenn, svo sem fræðslumál, markaðsmál, lífeyris- og tryggingamál og tölvumál. Í Svíþjóð er enn eitt tilbrigðið að finna í þessum efnum. Einkaréttur lögmanna er ekki fyrir hendi. Hins vegar eru einungis lögmenn skipaðir verjendur í opinberum málum, og ef um er að ræða aðstoð í málum, sem greidd eru af ríkinu samkvæmt lögum um opinbera réttaraðstoð, er einungis lögmönnum heimilað að veita slíka aðstoð. Samkvæmt sænskum réttarfarslögum skal vera til lögmannafélag, en ekki er þó um beina félagsskyldu að ræða, heldur fá menn ekki að kalla sig lögmenn nema þeir séu í sænska lögmannafélaginu. Fyrirkomulag þessara mála í Finnlandi líkist mjög hinu sænska. Í báðum þessum ríkjum er agavald með lögmönnum í höndum nefnda, sem að meiri hluta eru skipaður lögmönnum. Félög lögmanna fara þar með eftirlitshlutverk gagnvart lögmönnum.
     4. Í II., III. og V. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um eftirlit með störfum lögmanna og beitingu agaviðurlaga gagnvart þeim. Í þeim tillögum, sem þar eru, felast miklar breytingar frá gildandi rétti, ef samþykktar verða. Þær leiðir að miklu leyti beinlínis af afnámi félagsskyldu í Lögmannafélaginu, sem áður er gerð grein fyrir.
    Sú stjórnsýsla, sem í þessu felst, yrði annars vegar falin dómsmálaráðuneytinu og hins vegar sérstakri þriggja manna nefnd sem komið yrði á fót, svokölluðu Lögmannaráði. Þessi stjórnvöld tækju samkvæmt því yfir það opinbera hlutverk sem Lögmannafélag Íslands hefur að mestu leyti gegnt hingað til.
    Sá þáttur, sem að ráðuneytinu snýr, kemur einkum fram í 12. og 13. gr. frumvarpsins. Skal það fylgjast með því að héraðsdóms- og hæstaréttarlögmenn uppfylli jafnan þau skilyrði sem krafist er til að öðlast slík réttindi skv. 6. og 9. gr. Að auki fylgist ráðuneytið með að skyldur skv. 1. mgr. 12. gr. séu uppfylltar, en þær lúta að því að hafa skrifstofu opna almenningi, varðveita fjármuni annarra á vörslufjárreikningum og afla sér starfsábyrgðartrygginga. Bregðist það að lögmaður uppfylli öll framangreind skilyrði skal ráðherra fella réttindi hans úr gildi.
    Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins skal komið á fót sérstakri nefnd, Lögmannaráði. Það skal skipað þrem mönnum, þar af einum samkvæmt tilnefningu Lögmannafélags Íslands, en tvo nefndarmenn skipar ráðherra án tilnefningar. Skipunartími er fjögur ár. Við málsmeðferð sína skal ráðið fylgja stjórnsýslulögum, nema annað leiði af reglum frumvarpsins sjálfs.
    Þau viðfangsefni, sem Lögmannráð skal sýsla með, eru tilgreind í V. kafla frumvarpsins, svo og að nokkru í 14. gr. þess. Samkvæmt 26. gr. falla ágreiningsmál milli lögmanns og umbjóðanda hans um endurgjald fyrir störf hins fyrrnefnda undir Lögmannaráð kjósi annar eða báðir deiluaðilar að leggja mál undir úrlausn þess. Samkvæmt 27. gr. falla enn fremur undir Lögmannaráð mál sem byggjast á kvörtun umbjóðanda á hendur lögmanni fyrir háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Getur ráðið gert lögmanni að sæta áminn ingu af því tilefni. Hafi hann áður sætt áminningu eða sakir eru miklar getur ráðið lagt til við ráðherra að réttindi lögmanns verði felld niður. Skal ráðherra taka afstöðu til þess innan tveggja mánaða. Þá ber einnig að vekja athygli á því að í 14. gr. frumvarpsins felst heimild handa Lögmannaráði til að taka til meðferðar kvörtun á hendur lögmanni sem berst frá öðrum en umbjóðanda hans, en slík kvörtun gæti varðað brot lögmanns á lögum eða siðareglum lögmanna.
    Þess skal getið að í frumvarpinu er gert ráð fyrir áframhaldandi tilvist Lögmannafélags Íslands þótt skylduaðild að því sé afnumin. Kemur það víða fram, svo sem í 3. gr. um til nefningu af hálfu félagsins í Lögmannaráð. Í 5. gr. segir að félagið setji siðareglur fyrir lögmenn. Að fenginni staðfestingu ráðherra gilda þær fyrir alla lögmenn, óháð því hvort þeir eru félagsmenn í Lögmannafélagi Íslands eða ekki.
     5. Af breytingum, sem að framan eru raktar, leiðir einnig breyttar málsmeðferðarreglur. Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins skal við meðferð mála fyrir Lögmannaráði farið eftir stjórnsýslulögum, sbr. nú lög nr. 37/1993, nema annað leiði af ákvæðum V. kafla. Hið sama gildir að sjálfsögðu einnig um málsmeðferð fyrir dómsmálaráðuneyti. Með hinum nýju, almennu stjórnsýslulögum voru fest í lögum margvísleg fyrirmæli sem horfa til réttaröryggis í samskiptum borgaranna við stjórnvöld landsins. Meðferð þessara mála fyrir stjórn Lögmannafélags Íslands er samkvæmt gildandi lögum ekki háð reglum stjórnsýslulaga þótt hins vegar sé ljóst að stjórn félagsins hafi vandað málsmeðferð sína eftir föngum. Í V. kafla frumvarpsins eru sérreglur sem víkja frá stjórnsýslulögum og þrengja meðal annars aðgang manna til að bera ágreining um endurgjald fyrir lögmannsstörf undir úrlausn dómstóla meðan sama ágreiningsefni er rekið fyrir Lögmannaráði, auk þess sem settur er frestur til að beina kvörtun á hendur lögmanni til Lögmannaráðs.
     6. Reglur frumvarpsins um sviptingu lögmannsréttinda eru gerðar markvissari en samkvæmt gildandi lögum. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. skal ráðherra fella réttindi lögmanns úr gildi komi í ljós að hann uppfyllir ekki lengur almenn skilyrði til að hljóta lögmannsréttindi skv. 6. og 9. gr. eða starfsskilyrði skv. 1. mgr. 12. gr. sem lúta að skrifstofuhaldi lögmanns, vörslufjárreikningum og starfsábyrgðartryggingu. Að þessu leyti er áfram fylgt þeirri stefnu, sem mörkuð var með 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/1995, um að festa í lögum með ákveðnari hætti en áður beinar skyldur ráðherra til athafna. Þó er stigið skrefinu lengra þar eð vanræksla á skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. skal nú einnig varða sviptingu réttinda.
    Kvörtun til Lögmannaráðs á hendur lögmanni getur hvort heldur byggst á ætluðu broti hans á lögum eða siðareglum lögmanna. Slíku máli getur lokið með áminningu, sbr. 27. gr. frumvarpsins. Alvarlegar eða ítrekaðar brotalamir í starfrækslu hans geta hins vegar leitt til þess að Lögmannaráð geri tillögu til ráðherra um sviptingu réttinda, sbr. 14. gr. Mælir greinin jafnframt fyrir um skyldu ráðherra til að afgreiða slík erindi innan tiltekins tíma.
    Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að leitað sé álits hjá Lögmannafélagi Íslands áður en ráðherra tekur ákvörðun um sviptingu lögmannsréttinda. Í samræmi við afnám skyldu til að vera í því félagi gerir frumvarpið ekki ráð fyrir skyldu til álitsumleitunar þar í slíku máli. Þá er enn fremur lagt til að lögð verði fyrir róða sú regla í gildandi lögum að réttarfarssektir, sem lögmaður hefur sætt, geti varðað hann missi réttinda. Hefur þeirri reglu í reynd aldrei verið fylgt í framkvæmd.
    Í 16. gr. frumvarpsins er að finna reglur um endurveitingu lögmannsréttinda. Þær reglur eru tvenns konar, og byggir sú aðgreining á því hvaða ástæður hafi valdið missi réttindanna. Annars vegar verða þau veitt að nýju án þess að annað þurfi til að koma en umsókn frá viðkomandi. Hafi svipting á réttindum lögmanns hins vegar verið ótímabundin og byggst á lögbrotum hans eða brotum á siðareglum lögmanna þarf meira til að koma svo að réttindi verði veitt honum að nýju. Er við það miðað að hann þurfi að gangast á ný undir prófraun skv. 7. gr. frumvarpsins, og umsókn um það verður fyrst lögð fram fimm árum eftir sviptingu réttindanna.
     7. Í IV. kafla frumvarpsins er að finna ýmis nýmæli varðandi störf lögmanna. Meðal þeirra er að í 19. gr. er beinlínis tekið fram að lögmenn geti stofnað félög um rekstur sinn í því formi sem þeir sjálfir kjósa, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð. Það breytir þó engu um að lögmaður ber alltaf óskerta ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmaður hans bakar öðrum með störfum sínum. Þá eru í 11. gr. frumvarpsins settar skýrari reglur um störf fulltrúa lögmanna en nú eru og um takmörk þess sem þeim verður falið að gera. Í 24. gr. eru ákvæði um heimild fyrir Lögmannafélag Íslands til að gefa út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald vegna kostnaðar af innheimtu peningakröfu. Ákvæði frumvarpsins um vörslufjárreikninga og starfsábyrgðartryggingu eru hins vegar í stórum dráttum með sama sniði og markað var með lögum nr. 24/1995 að frátöldu því sem lýtur að eftirliti með að þessum skyldum sé fylgt.
    Eitt þeirra álitaefna sem komu til umfjöllunar við undirbúning frumvarpsins var það hvort setja beri skorður við því í lögum að aðrir en lögmenn megi eiga hlut í rekstri lögmannsstofu. Að mati réttarfarsnefndar að einum nefndarmanni undanskildum voru þau rök talin vega þyngra sem studdu þá niðurstöðu að ekki bæri að festa hömlur af því tagi í lögum. Þótt eignaraðild annarra að slíku fyrirtæki komi til breytir það engu um skyldur lögmanns, svo sem um þá þagnarskyldu sem á hann er lögð, bæði í frumvarpinu og samkvæmt gildandi lögum. Er því ekki að finna neinar takmarkanir í frumvarpinu að þessu leyti.

II.

    Ákvæðum frumvarpsins er skipt í sjö kafla, en greinar þess eru alls þrjátíu og þrjár. Áður en fjallað er nánar um einstakar greinar frumvarpsins þykir rétt að lýsa hér stuttlega efnisskipan þess.
    Fyrsti kafli frumvarpsins geymir skilgreiningu á því, hverjir séu lögmenn. Þar eru enn fremur reglur um hverjum sé heimilt að fara með mál fyrir dómi.
    Annar kafli fjallar um Lögmannaráð, skipan þess og málsmeðferðarreglur. Þar eru að auki ýmis ákvæði um Lögmannafélag Íslands.
    Í þriðja kafla eru ákvæði um öflun lögmannsréttinda fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, skilyrði til að halda þeim og um sviptingu réttindanna. Þar er einnig ákvæði um undanþágu frá skilyrðum til að halda réttindunum, um lögmannsfulltrúa og um eftirlit dómsmálaráðuneytis með lögmönnum. Loks eru þar reglur um endurveitingu réttinda og skyldu ráðuneytisins til að auglýsa í Lögbirtingablaði veitingu og niðurfellingu réttinda.
    Fjórði kafli hefur að geyma ýmis ákvæði um störf lögmanna, svo sem um umboð þeirra til starfs, þagnarskyldu, fjárvörslureikninga, starfsábyrgðartryggingar og fleira.
    Fimmti kafli fjallar um aga- og eftirlitshlutverk Lögmannaráðs ef um er að ræða ágreining um endurgjald til lögmanna og kvartana á hendur þeim.
    Í sjötta kafla eru fyrirmæli um refsingar fyrir brot á skyldum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og um málagjald til að standa undir kostnaði við framkvæmd laganna.
    Í sjöunda og síðasta kafla frumvarpsins eru ákvæði um gildistöku og tengsl eldri laga og yngri, svo sem um hvernig fari um eldri réttindi sem menn hafa þegar aflað sér eða eru komnir á veg með að öðlast eftir núgildandi reglum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er að finna skilgreiningu á því hverjir séu lögmenn í þeim skilningi sem stuðst er við í frumvarpinu. Samkvæmt því teljast þeir einir lögmenn sem hafa aflað sér og haldið leyfi sínu til málflutnings fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti og geta með því nefnt sig héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmenn. Samkvæmt 2. mgr. er haldið óbreyttri gildandi reglu um stöðu lögmanna sem opinberra sýslunarmanna.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, kemur maður sjálfur fram í máli sínu ef hann er hæfur að lögum til að ráðstafa sakarefni. Í öðrum málsgreinum 17. gr. koma fram nánari reglur um það hver geti verið í fyrirsvari fyrir einstakling eða lögaðila og þar með rekið mál slíks aðila fyrir dómi. Upphafsákvæði 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins felur í sér tilvísun til þessara reglna einkamálalaga. Þar sem ekki er um slíkt fyrirsvar að ræða mælir greinin fyrir um einkarétt lögmanna til að gæta hagsmuna manna fyrir héraðsdómstólum landsins og fyrir Hæstarétti, svo og til reksturs mála fyrir sérdómstólum. Breytingartillögur, sem í greininni felast varðandi umfang einkaréttar lögmanna, eru skýrðar að framan í almennum athugasemdum.
    Í 2. mgr. er fjallað sérstaklega um rekstur opinberra mála þar sem lagt er til að sama meginregla um einkarétt lögmanna gildi. Í lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er að finna sérreglur um heimildir fyrir menn til að gæta síns eigin réttar og til að fela slíkt öðrum en lögmanni, sbr. einkum 34., 37. og 39. gr. þeirra laga. Ekki er gert ráð fyrir að við þeim reglum verði hróflað hér frekar en áðurgreindum ákvæðum einkamálalaga.
    Í 3. mgr. er að finna undantekningu frá einkarétti lögmanna skv. 1. mgr. sem byggist á skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þær reglur eru að mestu leyti hinar sömu og lögfestar voru með lögum nr. 133/1993, um breytingu á lögum nr. 61/1942. Svigrúm erlendra lögmanna er þó rýmkað að því leyti að þeim yrði einungis gert skylt að leita aðstoðar íslenskra lögmanna við framgang mála í þinghöldum, en ekki að öllu leyti eins og nú er.

Um 3. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er mælt fyrir um Lögmannaráð, skipan þess og greiðslu kostnaðar af störfum ráðsins. Eins og rakið er í almennum athugasemdum að framan er hér um að ræða eina helstu breytinguna sem tillaga er gerð um í frumvarpinu. Lögmannafélag Íslands tilnefnir einn af þremur mönnum í ráðinu, en ráðherra skipar tvo án tilnefningar. Er ráðherra ekki bannað að skipa annan þeirra eða jafnvel báða úr hópi lögmanna, en sjónarmið um neytendavernd ráða ferð í tillögum um að lögmenn skuli ekki hafa lögskipaðan meiri hluta í ráðinu. Slíkt hlýtur jafnframt að vera betur til þess fallið að gera þetta nýja fyrirkomulag fyllilega trúverðugt.

Um 4. gr.

    Í greininni segir fyrir um málsmeðferðarreglur og að ákvarðanir Lögmannaráðs sæta ekki stjórnsýslukæru. Þær verða hins vegar bornar undir úrlausn dómstóla eftir almennum reglum.

Um 5. gr.

    Hér er fjallað um Lögmannafélag Íslands. Gert er ráð fyrir áframhaldandi tilvist þess og að starfsemin byggist þá á þátttöku þeirra lögmanna sem sjálfir kjósa að vera þar félagsmenn. Staða félagsins sem málsvari lögmannastéttarinnar helst, sbr. 1. mgr., þótt ekki sé loku fyrir það skotið að önnur félög lögmanna rísi upp við hlið þess.
    Samkvæmt 2. mgr. setur félagið lögmönnum siðareglur. Þær gilda fyrir félagsmenn í Lögmannafélagi Íslands, en að fenginni staðfestingu ráðherra gilda þær fyrir alla lögmenn, óháð því hvort þeir eru í Lögmannafélagi Íslands, öðru félagi lögmanna eða utan slíkra félaga. Þetta ákvæði tengist síðan öðrum greinum frumvarpsins varðandi störf Lögmannaráðs, sbr. 14. og 27. gr.
    Loks er í 3. mgr. nýmæli þess efnis, að félagið skuli leitast við að allir sem þurfi fái notið lögmannsaðstoðar, svo sem þar er nánar skýrt.

Um 6. gr.

    Þessi grein frumvarpsins hefur að geyma ákvæði um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður. Í henni felast tillögur um verulegar breytingar frá ríkjandi skipan, en um það vísast að mestu til almennra athugasemda að framan.
    Vakin skal athygli á skilyrðum 1. tölul. 1. mgr. um andlegt heilbrigði umsækjenda og 3. tölul. sömu málsgreinar um óflekkað mannorð, en ekki eru ákvæði af þessum toga í gildandi lögum. Samkvæmt 3. mgr. er prófnefnd, sem komið skal á fót, heimilað að staðreyna þekkingu umsækjenda með erlend lagapróf á íslenskum lögum í stað þess að ráðherra leggi mat á slíkt eins og nú er. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.

Um 7. gr.

    Þessi grein frumvarpsins fjallar um sérstaka prófraun er komi í stað munnlegs flutnings prófmála fyrir héraðsdómi til að öðlast réttindi sem héraðsdómslögmaður. Er um það fjallað að framan í almennum athugasemdum. Er þess að vænta að nýtt fyrirkomulag í þessum efnum svari betur kröfum tímans svo sem þar er skýrt. Nauðsynlegt er að veita ráðherra heimild til að ákveða með reglugerð sitthvað um tilhögun slíkrar prófraunar svo sem lagt er til í 2. mgr. 7. gr.

Um 8. gr.

    Í greininni er fjallað um útgáfu lögmannsréttinda fyrir héraðsdómi og gögn sem krefja má umsækjanda um til staðfestingar á því að hann uppfylli öll skilyrði sem til þess er krafist. Í 3. mgr. segir að héraðsdómslögmaður megi gæta hagsmuna aðila í máli fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli.

Um 9. gr.

    Hér er að finna ákvæði um réttindi til að vera hæstaréttarlögmaður. Í greininni felast tillögur um breytingar frá því sem nú gildir í þessum efnum, en þær ganga þó ekki jafnlangt og tillögur, sem áður er lýst varðandi réttindi fyrir héraðsdómi. Áður er gerð grein fyrir helstu nýmælunum í þessum tillögum í almennum athugasemdum að framan.
    Tekið skal fram að rétt þótti að leggja til að viðhalda flutningi prófmála fyrir Hæstarétti þótt annað komi í hans stað fyrir héraðsdómi. Prófmálum yrði þó fækkað úr þremur í tvö. Óhjákvæmilegt þykir að hafa eftir sem áður prófraun sem staðfesti að umsækjandi hafi öðlast þá hæfni og þjálfun á starfstíma sínum sem héraðsdómslögmaður sem krefjast megi af þeim sem hyggst gera flutning mála fyrir Hæstarétti að atvinnu sinni. Ekki yrði auðvelt um vik að hafa slíka prófraun með öðrum hætti en verið hefur. Tillaga um fækkun prófmála stendur hins vegar í beinum tengslum við önnur skilyrði fyrir veitingu réttindanna sem eru lágmarksstarfs tími sem héraðsdómslögmaður í fimm ár og að hafa flutt að minnsta kosti 30 mál fyrir héraðs dómi eða sérdómstóli svo sem greinir í 1. og 3. tölul. 1. mgr.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Þessi grein varðar útgáfu lögmannsréttinda fyrir Hæstarétti og er um flest hliðstæð reglum í 8. gr. frumvarpsins um réttindi héraðsdómslögmanna.

Um 11. gr.

    Í gildandi lögum er fáum ákvæðum til að dreifa um lögmannsfulltrúa. Með þessari grein frumvarpsins er gerð tillaga um að marka stöðu þeirra skýrar en nú er, svo og um skyldu til að tilkynna öllum dómstólum um þá. Vísast að öðru leyti um það efni til þessarar greinar frumvarpsins sem skýrir sig sjálf.
    Þá er í greininni fjallað um þá aðstöðu að lögmaður ráði annan lögmann til fastra starfa hjá sér. Eru settar reglur um ábyrgð á störfum lögmanns við þær aðstæður.

Um 12. gr.

    Til að mega halda fengnum réttindum er í 1. mgr. 12. gr. mælt fyrir um skyldu lögmanna til að hafa opna skrifstofu, varðveita fé annarra á vörslufjárreikningum og taka sér starfsábyrgðartryggingu. Er þar síðan vísað til síðari greina frumvarpsins um hvert þessara atriða.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um undanþágur frá skyldum skv. 1. mgr. Sú heimild er einskorðuð við tiltekinn hóp launþega, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. Lögð er skylda á menn að sækja um undanþáguna vilji þeir njóta hennar, en til samanburðar má benda á að samkvæmt gildandi lögum njóta menn sjálfkrafa undanþágu frá reglum um vörslufjárreikninga og starfsábyrgðar tryggingar ef skilyrði til þess eru uppfyllt. Er þessi tillaga gerð í þágu eftirlits opinberra aðila með þeim sem lögmannsréttinda njóta. Uppfylli menn hins vegar skilyrði er gert ráð fyrir að þeir eigi jafnframt rétt til undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. svo sem verið hefur.
    Í öðrum tilvikum ber þeim sem leyfisbréf hefur öðlast og fullnægir ekki skilyrðum skv. 1. mgr., að skila því hafi hann ekki fengið undanþágu samkvæmt framangreindu. Skulu réttindi hans þar með felld niður.

Um 13. gr.

    Í greininni er fjallað um eftirlitshlutverk dómsmálaráðuneytis með starfsemi lögmanna. Er í almennum athugasemdum að framan gerð grein fyrir nýmælum skv. 3. mgr. um skyldu ráðherra til að fella niður lögmannsréttindi ef skilyrði skv. 6., 9. eða 12. gr. eru ekki uppfyllt. Gert er ráð fyrir að eftirlit með fjárvörslu lögmanna fyrir aðra og starfsábyrgðartryggingum færist með þessu frá Lögmannafélagi Íslands til ráðherra. Í lokamálsgrein 13. gr. er að finna heimild til að höfða dómsmál til ógildingar á ákvörðun ráðherra um niðurfellingu lögmannsréttinda. Sams konar heimild er einnig í 14. gr. að því er varðar niðurfellingu réttinda samkvæmt þeirri grein.

Um 14. gr.

    Hér er fjallað um hvernig kvörtun á hendur lögmanni vegna brota á lögum eða siðareglum lögmanna getur leitt til þess að réttindi hans verði felld niður, annað hvort um tiltekinn tíma eða ótímabundið ef sakir eru miklar.

Um 15. gr.

    Telji ráðherra opinbert starf, sem maður með lögmannsréttindi tekur við, vera ósamrýmanlegt handhöfn réttindanna fellir hann þau úr gildi. Mat á umfangi starfs gæti til dæmis legið að baki slíkri ákvörðun ráðherra. Ágreiningur um þá ákvörðun ráðherra verður borin undir dómstóla. Lögmaður getur hins vegar sjálfur, hvenær sem hann svo kýs, afsalað sér réttindum sínum, svo sem fram kemur í 2. mgr. 15. gr.

Um 16. gr.

    Greinin fjallar um endurveitingu lögmannsréttinda sem felld hafa verið niður. Í almennum athugasemdum að framan var lýst mismunandi skilyrðum fyrir endurveitingu réttindanna sem leiðir af því hvaða ástæður lágu til niðurfellingar þeirra. Ef brot á lögum eða siðareglum lögmanna lágu þar að baki þykir rétt að gera ríkar kröfur í þessum efnum.
    Vakin skal athygli á að ekki er lengur gert ráð fyrir svokallaðri innlögn lögmannsréttinda eða „deponeringu“ þeirra, sem stundum er svo nefnd, ef eitthvað skortir á að skilyrði séu uppfyllt fyrir að mega nota þau. Tillögur frumvarpsins ganga út á að réttindi séu einfaldlega felld niður og síðan veitt að nýju ef skilyrði skapast síðar til þess, en eins og tekið er fram í 1. mgr. 16. gr. verður þetta gert án greiðslu gjalds og prófraunar. Með sama hætti er ekki lengur gert ráð fyrir almennri auglýsingu ráðherra um það hver opinber störf séu ósamrýmanleg handhöfn lögmannsréttinda eins og nú er. Um það vísast að öðru leyti til umfjöllunar um 12. og 15. gr. að framan.

Um 17. gr.

    Gera skal heyrumkunnugt hverjum lögmannsréttindi eru veitt og hver eru felld niður. Fjallar frumvarpsgreinin um það efni, svo og skrá sem halda skal í dómsmálaráðuneyti um það hverjir njóti réttinda lögmanna.

Um 18. gr.

    Þessi grein fjallar um störf lögmanna í þágu umbjóðenda sinna og felur ekki í sér efnislegar breytingar frá því sem nú gildir.

Um 19. gr.

    Í 1. mgr. greinir frá þeirri aðstöðu að lögmaður telji sér ekki fært af heilsufarsástæðum að hafa opna skrifstofu um lengri tíma. Getur hann þá leitað undanþágu frá þessu skilyrði. Örðugt er um vik að setja nákvæmari reglur í þessum efnum en lagt er til í frumvarpsgreinunum, og verður því að meta hvert tilvik eftir aðstæðum hverju sinni.
    Í almennum athugasemdum að framan er vikið að efni 2. mgr. 19. gr. sem fjallar um form á rekstri lögmannsstofu og ábyrgð lögmanns. Rekstur lögmannsstofu með takmarkaðri ábyrgð breytir engu um persónulega ábyrgð þess lögmanns sem unnið hefur eða vanrækt það lögmannsstarf sem gefur tilefni til kröfugerðar á hendur honum. Gæti viðskiptamaður krafist fullnustu í eignum hans og eignum viðkomandi félags, en ekki í persónulegum eignum annarra sem eiga félagið eða vinna hjá því.

Um 20. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum er lögmönnum skylt að flytja opinber mál sem þeim eru falin, og gildir það alls staðar á landinu án tillits til einkaréttar lögmanna. Er sú regla áréttuð í 1. mgr. 20. gr. frumvarpsins, en bætt er við ákvæði er þó getur leyst lögmann undan þessari skyldu, þ.e. ef eitthvað skortir á svo hæfiskröfum sé fullnægt eða ef aðrir hagsmunir standa því í vegi að lögmaður megi inna þessi störf af hendi í því tiltekna máli. Í 2. mgr. er tekið fram að lögmanni sé að öðru leyti aldrei skylt að taka að sér verk sem leitað er til hans um. Gildir þessi regla um einkamál og er hún í samræmi við það sem nú gildir.

Um 21. gr.

    Í þessari grein er að finna reglur varðandi umboð er lögmenn hafa til rækslu starfa sinna. Eru reglur þessar efnislega áþekkar þeim sem nú eru í 4. gr. gildandi laga, en framsetningu er þó breytt og nokkuð aukið við sem einkum leiðir af dómum um túlkun gildandi laga.
    Þá er í 4. mgr. 21. gr. vikið að skyldu lögmanns til að inna sjálfur af hendi lögmannsstörf sín og jafnframt heimild til að fela fulltrúum lögmanna tiltekin störf, sbr. einnig 11. gr. sem um þá fjallar. Loks eru í greininni ákvæði um afturköllun umboðs og heimildir lögmanns til að segja sig frá verki. Þær reglur þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins um þagnarskyldu lögmanns er óbreytt frá því sem nú gildir. Bætt er við ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna lögmanna sem ekki er kveðið á um í gildandi lögum.
    2. mgr. greinarinnar hefur að geyma nýmæli um skyldu lögmanns til að gera viðskiptamanni viðvart ef gæsla hagsmuna, sem óskað er eftir að hann taki að sér, kann að mati hans að rekast á aðra, ósamrýmanlega hagsmuni. Reglur af þessum toga eru nú í siðareglum Lögmannafélags Íslands, en rétt þykir að hafa slíka reglu í lögum.

Um 23. gr.

    Skylda samkvæmt þessari grein til að halda fé annarra aðgreindu á sérstökum vörslureikningum er hin sama og sú sem felst í gildandi lögum, sbr. lög nr. 24/1995 sem áður hefur verið fjallað um.

Um 24. gr.

    Tillögur í 1. og 2. mgr. þessarar greinar eru að mestu samhljóða ákvæðum 2. gr. núgildandi laga og lúta að endurgjaldi fyrir störf lögmanna.
    Í 3. mgr. er að finna nýmæli um leiðbeiningar sem Lögmannafélag Íslands getur gefið út handa félagsmönnum sínum og öðrum lögmönnum um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af innheimtu peningakröfu. Tekið skal fram að hér er ekki um að ræða gjaldskrá milli lögmanns og viðskiptamanns hans, heldur leiðbeiningar um hæfilegar bætur úr hendi þriðja manns, þ.e. skuldara, vegna kostnaðar sem viðsemjandi lögmanns hefur af þjónustu hans. Til stuðnings því að taka í lög slíka heimild er á það bent að skuldarinn ræður engu um hvaða lögmaður kemur fram gagnvart honum við innheimtu kröfu, en gjaldskrár lögmanna gagnvart viðskiptamönnum sínum eru misháar. Óhjákvæmilegt sé vegna neytendasjónarmiða að samræma þann kostnað sem á skuldara er felldur, auk þess sem þessi háttur um samræmingu á kostnaðarþátttöku skuldaranna sé ekki samkeppnishamlandi. Óheimilt yrði að nota þessar leiðbeiningar á nokkurn hátt sem ígildi gjaldskrár og þær mættu ekki ná til annars en kostnaðar við innheimtu peningakröfu þar sem framangreind sjónarmið eiga eingöngu við.

Um 25. gr.

    Hér ræðir um bótaábyrgð lögmanna á störfum sínum og starfsmanna sinna og um starfsábyrgðartryggingar. Þar sem rætt er um tjón af völdum gáleysis lögmanns er átt við hvort heldur er einfalt eða stórfellt gáleysi. Eru tillögur frumvarpsgreinarinnar um flest með líkum hætti og fest var í lög með lögum nr. 24/1995 og þarfnast ekki frekari skýringar. Þá er gerð tillaga um heimild fyrir ráðherra til að ákveða með reglugerð að önnur jafngild trygging geti komið í stað ábyrgðartryggingar.

Um 26.–28. gr.

    Í almennum athugasemdum að framan er gerð grein fyrir nýmælum um eftirlit með störfum lögmanna og hlutverk Lögmannaráðs í því sambandi. Í þessum kafla frumvarpsins er fjallað um ágreiningsmál um endurgjald fyrir störf lögmanna og meðferð þeirra fyrir Lögmannaráði og um kvartanir á hendur lögmönnum vegna ætlaðra brota á lögum eða siðareglum lögmanna. Í 28. gr. eru gerðar tillögur um ýmis atriði sem tengjast málsmeðferð fyrir Lögmannaráði, svo sem um fyrningu og aðfararhæfi úrskurða þess. Heimilt verður að bera úrlausnir ráðsins undir dómstóla til ógildingar eða breytinga á þeim eftir almennum reglum.

Um 29. gr.

    Í frumvarpsgreininni eru refsiákvæði vegna brota á lögunum. Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 30. gr.

    Sú stefna er mörkuð í þessari grein frumvarpsins að aflað verði tekna, eins og þar er nánar greint, til að standa undir kostnaði sem á ríkið fellur vegna þeirra eftirlitsstarfa sem það yfirtekur frá Lögmannafélagi Íslands.

Um 31. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku laganna og þarfnast ekki skýringa.

Um 32. gr.

    Hér er fjallað um ýmis atriði varðandi réttindi, sem menn hafa aflað sér til lögmannsstarfa í tíð eldri laga. Sú tillaga er gerð í 1. mgr. að ekki verði við þeim hróflað. Tekur hún jafnframt til réttinda til flutnings mála fyrir Hæstarétti samkvæmt svonefndri 40 mála reglu, sem áður er nefnd.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um rétt manna til að ljúka öflun réttinda sem hafist hefur fyrir gildistöku laganna og um frest til þess. Fer þá eftir eldri reglum hvernig lokið verður við að afla umræddra lögmannsréttinda.
    3. mgr. segir fyrir um endurveitingu réttinda sem felld hafa verið niður eða lögð inn í tíð eldri laga og í 4. mgr. er fjallað um fresti til að sækja um undanþágu skv. 2. mgr. 12. gr. Þessar málsgreinar þarfnast ekki skýringa.

Um 33. gr.

    Áður er fram komið að eftir sem áður er gert ráð fyrir tilvist Lögmannafélags Íslands þótt skylduaðild að því hverfi. Þessi grein frumvarpsins er enn ein áréttingin á því og skýrir sig sjálf.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um lögmenn.

    Frumvarp þetta felur í sér heildarendurskoðun á lögum um málflytjendur, nr. 61/1942, með síðari breytingum. Það er liður í heildarendurskoðun löggjafar er varðar réttarfarsleg málefni sem hófst með setningu laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
    Að mati fjármálaráðuneytis munu eftirfarandi þættir hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs:
    Lagt er til að afnumið verði ákvæði núgildandi laga er felur í sér skylduaðild lögmanna að Lögmannafélagi Íslands. Við það færist eftirlitsstarf af ýmsum toga, sem félagið hefur sinnt, á herðar ríkisins. Til að sinna því starfi að hluta er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að skipað verði þriggja manna lögmannaráð til fjögurra ára í senn. Hlutverk ráðsins er m.a. að taka við kvört unum á hendur lögmönnum og getur það í rökstuddu áliti til dómsmálaráðherra lagt til að rétt indi lögmanns verði felld niður. Heimilt er lögmanni eða umbjóðanda hans, að leggja ágrein ing um endurgjald fyrir lögmannaráð og umbjóðandi getur lagt fyrir ráðið kvörtun telji hann lögmann sinn hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum. Mál skulu lögð fyrir ráðið með skriflegu erindi og því er heimilt, ef sérstaklega stendur á, að skylda máls aðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna rekstrar máls fyrir ráðinu. Miðað við áætlun dómsmálaráðuneytis um störf lögmannaráðs og samanburð við útgjöld tölvunefndar telur fjármálaráðuneyti að kostnaður við ráðið geti numið um 3 m.kr. á ári. Skiptist kostnaður þannig að þóknanir til ráðsmanna eru metnar á 1,5 m.kr. en áætlaður kostnaður vegna starfsmanns ráðsins í hlutastarfi og skrifstofuhalds er um 1,5 m.kr.
    Í 13. gr. er fjallað um eftirlitshlutverk ráðuneytisins með starfsemi lögmanna. Gert er ráð fyrir að eftirlit með fjárvörslu lögmanna fyrir aðra og eftirlit með starfsábyrgðartryggingum færist frá Lögmannafélagi Íslands til dómsmálaráðherra. Ætla má að þetta auki vinnu í dóms málaráðuneyti sem nemi u.þ.b. 1 m.kr.
    Á móti framangreindum kostnaðarauka er í 30. gr. lagt til að innheimt verði málagjald í ríkissjóð að fjárhæð 400 kr. við þingfestingu hvers einkamáls. Miðað við fjölda mála á árinu 1996 gætu tekjur þessar numið um 4 m.kr.
    Lagt er til að umsækjandi um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður verði að standast prófraun sem þriggja manna prófnefnd annast. Ákvæði 7. gr. frumvarpsins um prófnefnd, prófraun og námskeið til undirbúnings prófraun eru ný en prófraunin kemur í stað munnlegs flutnings prófmála fyrir héraðsdómi. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að dómsmála ráðherra ákveði gjald sem umsækjendur greiða fyrir að þreyta prófið og að gjaldið skuli taka mið af kostnaði við námskeið og aðra framkvæmd prófsins. Það er skilningur fjármála ráðuneytisins að gjald þetta eigi að standa að öllu leyti undir kostnaði af framkvæmd ákvæða 7. gr., hver sem hann verður, og því sé ekki um að ræða útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Við þetta fellur brott liður í fjárlögum þar sem er gert ráð fyrir kostnaði vegna prófs málflytjenda. Fram lag í fjárlögum 1997 er 0,4 m.kr. en raunkostnaður er nær 2,5 m.kr.
    Að öllu samanlögðu er það mat fjármálaráðuneytis að verði frumvarpið óbreytt að lögum sé unnt að framfylgja þeim án þess að útgjaldaauki ríkissjóðs verði hærri en 4 m.kr. Tekjur vegna málagjalds af þingfestingu einkamála eiga því að standa undir þeim kostnaði miðað við núverandi forsendur. Tekjur geta hins vegar orðið breytilegar milli ára eftir því hver fjöldi þingfestra einkamála er hverju sinni. Loks lækka útgjöld ríkissjóðs þegar ríkið greiðir ekki lengur kostnað vegna prófs málflytjenda heldur er gert ráð fyrir að umsækjendur um réttindin til að vera héraðsdómslögmenn standi undir kostnaði af námskeiði og prófi.