Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 71 – 71. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um rétt þeirra sem ekki hafa atvinnu.

Flm.: Svavar Gestsson, Kristín Ástgeirsdóttir,


Ögmundur Jónasson, Guðmundur Árni Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og vinnumarkaðarins til þess að semja heildstæða skýrslu um réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu, eru að leita sér að vinnu eða hafa misst vinnu og gera tillögur til að bæta hag þeirra og tryggja þeim skilyrðislaust sömu mannréttindi og aðrir hafa. Nefndin skili áliti fyrir 1. júní 1998 og fjalli m.a. um eftirfarandi atriði:
     1.      Hvort þeir sem ekki hafa atvinnu njóti sömu mannréttinda og þeir sem hafa atvinnu og ef svo er ekki hvaða aðgerða sé þörf til úrbóta, bæði hvað varðar opinbera aðila og einkaaðila.
     2.      Hvernig unnt sé að tryggja að enginn verði atvinnulaus lengur en sex mánuði í senn.
     3.      Hvort líta megi á greiðslur til atvinnulausra sem laun fremur en bætur eins og nú er gert, enda verði nýtt fyrirkomulag ekki notað til að knýja fólk til vinnu sem það á erfitt með að sinna.
     4.      Hvort koma eigi upp miðstöðvum fólks í atvinnuleit um land allt með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur í Reykjavík og á Akureyri.
     5.      Hvort unnt sé að draga verulega úr atvinnuleysi með því að skipta vinnunni jafnar og draga úr yfirvinnu.
     6.      Hvort unnt sé að ná um það víðtæku samkomulagi að afnema atvinnuleysi á tilteknu árabili og tryggja það í lögum eða stjórnarskrá að allir eigi rétt á vinnu við hæfi.

Greinargerð.


    Vinnuaflið er það eina sem ekki verður frá okkur tekið nema við heilsubrest. Flestir hafa framfæri af því að selja vinnuafl sitt og hafa af því tekjur. Vinnuaflið er margs konar þekking eða þjálfun og hvað eina annað. Við höfum tekið ákvörðun um að notast við markaðsþjóðfé lagið sem efnahagslega hreyfivél samfélagsins. Í slíku samfélagi skapast oft þær aðstæður að fólk missir atvinnuna nema gripið sé til sértækra ráðstafana og gildir þá einu hvort um er að ræða ríkisfyrirtæki, annan félagslegan rekstur eða einkafyrirtæki. Hvar sem fólk vinnur getur það orðið fyrir barðinu á atvinnuleysi. Þess vegna er það sameiginlegt verkefni okkar allra en ekki aðeins þeirra sem verða atvinnulausir að grípa til samfélagslegra ráðstafana til þess að tryggja að atvinnulausir geti staðið uppréttir frammi fyrir vandamálum dagsins rétt eins og þeir sem geta selt vinnuafl sitt; að sá sem er án atvinnu njóti með öðrum orðum mann réttinda.
    Mikið vantar á að atvinnulausir geti treyst því að staða þeirra sé metin sem skyldi. Þess vegna er tillagan flutt, bæði til að knýja fram úrbætur og minna á skyldur þingmanna og ráð herra í þessum efnum. Atvinnuleysistryggingasjóður var mikið baráttumál á sinni tíð. Hann hefur þjónað vel en sl. vetur var hann skemmdur verulega með löggjöf sem félagsmálaráð herra knúði í gegnum þingið þar sem m.a. bótaréttur var skertur. Það er mjög alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að verkafólkið á Atvinnuleysistryggingasjóð. Annað sem snýr að at vinnulausum og einnig þarf að skoða er skráningarkerfið, bótagreiðslukerfið og viðmót sam félagsins almennt. Fara þarf yfir það lið fyrir lið hvernig aðrir þættir samfélagsins þjóna at vinnulausum, svo sem bankar eða opinberar stofnanir, aðrar þjónustustofnanir, skólar, heil brigðisstofnanir og hvað eina.
    Tillagan er að nokkru leyti framhald af tillögum Alþýðubandalagsins á fyrri þingum um rétt atvinnulausra. Alþýðubandalagið hafði forustu um setningu síðustu laga um atvinnuleys istryggingar sem afnumin voru af núverandi ríkisstjórn á síðasta þingi. Er Alþýðubandalagið beitti sér fyrir setningu fyrri laga um atvinnuleysistryggingar var það gert í samvinnu við samtök launafólks og með fullri virðingu fyrir þeim sem eiga Atvinnuleysistryggingasjóð. Í upphafi þings minntist starfsaldursforseti, Ragnar Arnalds, Guðmundar J. Guðmundssonar, fyrrverandi þingmanns Alþýðubandalagsins og formanns Dagsbrúnar. Guðmundur komst ein mitt til æðstu áhrifa í verkalýðshreyfingunni eftir verkfallið 1955 er barist var fyrir því að eignast Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er því í beinu framhaldi af baráttu Alþýðubanda lagsins og verkalýðshreyfingarinnar á umliðnum áratugum að þessi tillaga er flutt.
    Hér er einnig hreyft því nýmæli að kannað verði hvort líta eigi á atvinnuleysisbætur sem atvinnuleysislaun. Rökin eru þau að bæturnar séu í raun laun sem samfélagið, sem ber ábyrgð á atvinnuleysinu, greiðir hinum atvinnulausa. Hins vegar er þessi hugmynd vandmeðfarin þar sem hætta gæti verið á því að atvinnuleysislaun yrðu notuð sem skálkasjól til að knýja fólk til að vinna vinnu sem væri því erfið eða til þess að lækka almennt verðið á því vinnuafli sem samið er um laun fyrir hverju sinni. Þess vegna er hér ekki flutt tillaga um atvinnuleysislaun í stað atvinnuleysisbóta heldur að kannað verði hvort slík kerfisbeyting kæmi til greina. Þá er í tillögunni nefnd sú hugmynd að miðstöðvar fólks í atvinnuleit verði til víðar en í Reykja vík og á Akureyri og að komið verði á skipulegu samstarfi þessara aðila.
    Í tillögunni er jafnframt varpað fram þeirri hugmynd hvort draga megi úr atvinnuleysi með því að skipta vinnunni jafnar og draga úr yfirvinnu.
    Loks er lagt til að kannað verði hvort unnt sé að ná víðtæku samkomulagi um að afnema atvinnuleysi stig af stigi á tilteknu árabili. Það er vissulega stórmál, en minna má á að það er að verða aðalkeppikefli vinstriflokka um allan heim að afnema atvinnuleysið. Íslendingar börðust lengi við verðbólgudrauginn og verkalýðshreyfingin réð úrslitum í þeirri glímu. En nú hafa menn atvinnuleysi í staðinn. Það bitnar ekki á öllu þjóðfélaginu á jafnaugljósan hátt og verðbólgan. Í því er vandinn að sumu leyti fólginn og ástæða þess að þeir sem bera ábyrgð á atvinnuleysinu, stjórnvöld og aðrir, vilja ýta því til hliðar. Verðbólgan var aftur á móti eilíft viðfangsefni stjórnvalda.
    Sú hætta er ávallt yfirvofandi að atvinnuleysið gleymist þeim sem ekki eiga við það að stríða. Þó er atvinnuleysi svo útbreitt vandamál á Íslandi að það snertir nánast hverja fjöl skyldu. Algengt er að vandi þeirra sem ekki hafa atvinnu sé settur til hliðar í stjórnmálaum ræðunni. Sláandi er dæmið frá síðustu kosningum í Bretlandi þegar Verkamannaflokkurinn minntist ekki á atvinnuleysi í málflutningi sínum og það komst ekki á dagskrá fyrr en kirkjan minnti á vanda heimilislausra og atvinnulausra. Atvinnuleysið er alvarlegt vandamál sem er á ábyrgð okkar allra.
    Þessi tillaga er flutt til að knýja á um úrbætur og tryggja umræðu um þetta alvarlega þjóð félagsvandamál. Það er skoðun Alþýðubandalagsins að allir í samfélaginu eigi rétt á atvinnu og Alþýðubandalagið hefur hafnað því sem kallað er náttúrulegt atvinnuleysi. Alþýðubanda lagið hefur aldrei viljað beygja sig eða aðra í duftið fyrir markaðslögmálunum þótt sjálfsagt sé að nota markaðinn sem tæki til að dreifa vörum og þjónustu.