Ferill 94. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 94 – 94. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um íslenskt sendiráð í Japan.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Össur Skarphéðinsson, Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á fót íslensku sendiráði í Japan á árinu 1998.

Greinargerð.


    Tillaga um opnun íslensks sendiráðs í Japan var fyrst flutt á 115. löggjafarþingi (þskj. 434) af Hjörleifi Guttormssyni, Gunnlaugi Stefánssyni, Jóni Helgasyni og Kristínu Einarsdóttur. Veiga mikil röksemd með flutningi tillögunnar voru sífellt aukin samskipti Íslendinga og Japana, bæði á sviði menningar og viðskipta. Utanríkismálanefnd fjallaði um tillöguna en hún hlaut ekki af greiðslu.
    Þrátt fyrir opnun sendiráðs í Kína í ársbyrjun 1995 telja flutningsmenn þessarar tillögu enn brýna hagsmuni mæla með því að opnað verði íslenskt sendiráð í Japan, bæði vegna mikilvægis tengsla Íslands og Japans og einnig vegna vaxandi samskipta og markaðsmöguleika í öðrum fjöl mennum ríkjum Austur-Asíu. Sú skoðun hefur komið fram allvíða að undanförnu að ekki sé nægi legt að reka eitt íslenskt sendiráð í þeim heimshluta heldur sé full þörf á öðru til viðbótar til að sinna íslenskum hagsmunum sem skyldi og þá hlýtur opnun sendiráðs í Japan að vera efst á blaði. Sendiráðið í Peking annast nú samskipti við Japan, sbr. fylgiskjal um íslensk sendiráð og starfs mannafjölda. Einnig ber að hafa í huga gagnkvæma hagsmuni Íslendinga og Japana af opnun ís lensks sendiráðs í Japan þar sem það gæti eftir atvikum leitt til þess að Japanir settu á fót eigið sendiráð hérlendis.
    Efnahagsveldi Japana hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár þannig að þeir keppa nú við fremstu stórveldi um forustu í heimsviðskiptum. Ísland og Japan tóku upp stjórnmálasamband á árinu 1956. Hafa komist á traust viðskipti milli Íslands og Japans hin síðari ár og var Japan í öðru til þriðja sæti með Bandaríkjunum á eftir EES-löndunum að því er varðar verðmæti útflutnings héðan til einstakra landa árið 1995 og á árinu 1996 er Japan í fjórða sæti á eftir Bretlandi, Þýska landi og Bandaríkjunum.
    Alls nam verðmæti útflutnings til Japans á árinu 1995 rúmum 13 milljörðum kr. eða 11,3% af heildarútflutningi Íslendinga. Fyrir árið 1993 voru sambærilegar tölur tæpir 9 milljarðar kr. og 9,3% af heildarútflutningi en árið 1994 voru fluttar út vörur til Japans að verðmæti tæplega 16 milljarðar kr. eða 14 % af heildarútflutningi. Langstærstur hluti útflutningsvara til Japans eru fisk afurðir, en árið 1995 var útflutningsverðmætið 11 milljarðar kr. eða 83,7% heildarútflutnings þangað. Mikilvægustu sjávarafurðir okkar á Japansmarkaði á árinu 1995 voru heilfrystur karfi, heilfrystur flatfiskur, fryst loðna, fryst rækja og fryst loðnuhrogn. Árið 1995 voru landbúnaðaraf urðir seldar til Japans fyrir 144 millj. kr. sem er 1,1% af heildarútflutningi og iðnaðarvörur voru seldar fyrir 100 millj. kr. sem er 0,8% af heildarútflutningi. Nefna má að sala á kísiljárni til Japans dróst saman um rúman 1,1 milljarð kr. á milli áranna 1994 og 1995. Annar útflutningur til Japans nam um 2 milljörðum kr. á árinu 1995.
    Vöruskiptajöfnuður Íslands og Japans hefur verið Íslendingum hagstæður. Innflutningur þaðan hefur numið um 4–6% af heildarinnflutningi síðustu ár. Árið 1993 voru fluttar inn vörur frá Japan fyrir rúma 5 milljarða kr., fyrir um 4,1 milljarð kr. á árinu 1994 og á árinu 1995 fyrir um 5 millj arða kr., að stærstum hluta vélar og samgöngutæki og fatnaður. Vöruskiptajöfnuður landanna var því Íslandi hagstæður um 8 milljarða kr. árið 1995.
    Það er flestra álit að viðskipti Íslands og Japans geti vaxið enn frekar frá því sem nú er ef vel er að málum staðið. Í því sambandi getur starfræksla íslensks sendiráðs í Japan skipt verulegu máli til að kynna ímynd Íslands og greiða götu viðskipta og annarra samskipta. Slíkt er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, ekki síst þegar samkeppni fer harðnandi um markaði. Þá er og æskilegt að rækta samskipti sem víðast, m.a. til að geta brugðist við breyttum markaðsaðstæðum. Íslensk fyr irtæki hafa um nokkurra ára skeið starfrækt söluskrifstofur í Tókíó sem sýnir mikilvægi þess markaðar.
    Þótt fjarlægð milli landanna sé mikil er sitthvað skylt með Japönum og Íslendingum. Japan er eyríki eins og Ísland. Einnig þar er sjávarútvegur mikilvæg atvinnugrein og fiskneysla hefðbundin og vaxandi. Bæði löndin hafa stundað hvalveiðar og haft samvinnu um þá hagsmuni, m.a. í Al þjóðahvalveiðiráðinu. Eldvirkni er mikil í Japan eins og hér, jarðskjálftar tíðir og jarðvarmi hag nýttur, m.a. til raforkuframleiðslu. Í Tókíó eru aðalstöðvar Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna en útibú frá þeirri stofnun er starfrækt í Reykjavík.
    Samskipti í menningarmálum hafa verið nokkur og farið vaxandi síðustu árin. Ísland var kynnt á mörgum stöðum í Japan árið 1987 ásamt öðrum ríkjum á Norðurlöndum á sýningunni „Scandi navia today“. Á árunum 1990–1991 var Japan kynnt hér á landi með listviðburðum og sýningum undir fyrirsögninni „Japan today in Iceland“. Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, hafði mikinn áhuga á að efla samskipti milli landanna og heimsótti hún Japan nokkrum sinnum um og eftir 1990. Þess má og geta að japönsk þingmannanefnd kom hingað í boði Alþingis haustið 1989. Sú heimsókn var endurgoldin af forsætisnefnd Alþingis haustið 1991 og var tillaga sem þá var flutt um opnun íslensks sendiráðs í Tókíó að nokkru sprottin upp af þeim kynnum.
    Með stofnun sendiráðs ætti að mega styrkja frekar og auka gagnkvæm samskipti Íslands og Japans. Nefna má að á sviði ferðamála kann að vera sóknarfæri að kynna Japönum Ísland, en fjöldi ferðamanna frá Japan hefur aukist verulega á síðasta áratug. Árið 1985 komu 716 japanskir ferðamenn til landsins en á árinu 1995 voru þeir 2.410 og 2.567 á árinu 1996. Þó var þessi fjöldi aðeins 1,3% af heildarfjölda erlendra ferðamanna sem komu til Íslands árin 1995 og 1996.
    Talsverður kostnaður er því fylgjandi að koma á fót sendiráði og reka það. Í Tókíó er húsnæð iskostnaður hærri en gerist víða annars staðar. Ekki er í tillögunni tekin afstaða til hvort mæta skuli þessum tilkostnaði vegna sendiráðs í Japan með endurskipulagningu á sendiráðsstarfsemi okkar annars staðar, eða hvort nauðsynlegt reynist að auka það fjármagn sem utanríkisþjónustan hefur til ráðstöfunar til að gæta hagsmuna Íslands á erlendri grundu á tímum sífellt aukinna al þjóðasamskipta.
    Gert er ráð fyrir að undirbúningur að því að opna sendiráð í Japan taki um það bil eitt ár og því er í tillögunni gert ráð fyrir að sendiráðið verði opnað á árinu 1998.


Fylgiskjal.


Listi yfir íslensk sendiráð og starfsmannafjölda þeirra,


unninn upp úr handbók utanríkisráðuneytisins.


(Mars 1996.)



1.      Íslensk sendiráð eru í Kaupmannahöfn, Ósló, Stokkhólmi, London, París, Moskvu, Bonn, Brussel, Washington og Peking. Fastanefndir eru í Brussel, Genf og New York.
2.      Umdæmi stofnana þeirra, sem nefndar eru í 1. lið hér að framan, eru:
       a.      Kaupmannahöfn. Í starfsliði eru sendiherra, sendiráðunautur, sendiráðsprestur og tveir ritarar. Auk Danmerkur falla Bosnía og Hersegóvína, Litháen og Tyrkland undir umdæmi sendiráðsins.
       b.      Ósló. Í starfsliði eru sendiherra, sendiráðunautur og tveir ritarar. Auk Noregs falla Króatía, Kýpur, Makedónía, Pólland, Slóvakía og Tékkland undir umdæmi sendiráðsins.
       c.      Stokkhólmur. Í starfsliði eru sendiherra, sendiráðsritari, sendiráðsprestur og tveir ritarar. Auk Svíþjóðar falla Albanía, Eistland, Finnland, Lettland og Slóvenía undir umdæmi sendi ráðsins.
       d.      London. Í starfsliði eru sendiherra, sendifulltrúi, sendiráðsfulltrúi, sendiráðsprestur og tveir ritarar. Auk Stóra-Bretlands og Norður-Írlands falla Grikkland, Holland, Indland og lýð veldið Írland undir umdæmi sendiráðsins.
       e.      París. Í starfsliði eru sendiherra, sendifulltrúi, sendiráðsritari og þrír ritarar. Auk Frakklands falla Ítalía, Portúgal og Spánn undir umdæmi sendiráðsins. Forstöðumaður sendiráðs ins er fastafulltrúi Íslands hjá Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnuninni (OECD), Evrópu ráðinu og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).
       f.      Moskva. Í starfsliði eru sendiherra, sendiráðsritari, viðskiptafulltrúi og tveir ritarar. Auk Rússlands falla Búlgaría, Georgía, Moldóva, Mongólía, Rúmenía og Úkraína undir um dæmi sendiráðsins.
       g.      Bonn. Í starfsliði eru sendiherra, sendiráðsritari, sendiráðsfulltrúi, viðskiptafulltrúi og tveir ritarar. Sendiráðið er með útibú í Berlín og hafa viðskiptafulltrúinn og annar ritarinn aðset ur þar. Auk Þýskalands falla Austurríki, Serbía-Svartfjallaland, Sviss og Ungverjaland undir umdæmi sendiráðsins.
       h.      Brussel. Tvær skrifstofur eru í Brussel:
             1.      Fyrir sendiráðið í Belgíu. Í starfsliði eru sendiherra, sendiráðunautur, tveir sendiráðsritarar, sendiráðsfulltrúi, fulltrúi fjármálaráðuneytis, fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamála ráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, fulltrúi landbúnaðar- og samgönguráðuneytis, tveir fulltrúar menntamálaráðuneytis, fulltrúi sjávarútvegsráðuneytis, fulltrúi umhverfisráðu neytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og þrír ritarar. Auk Belgíu falla Liechtenstein og Lúxemborg undir umdæmi sendiráðsins. Forstöðumaður sendiráðsins er sendiherra hjá Evrópusambandinu.
             2.      Fyrir fastanefnd Íslands hjá Norður-Atlantshafsráðinu (NATO) og Vestur-Evrópusambandinu. Í starfsliði eru fastafulltrúi (sendiherra), varafastafulltrúi, sendiráðsritari og rit ari.
       i.      Washington. Í starfsliði eru sendiherra, sendifulltrúi og þrír ritarar. Auk Bandaríkja Norður-Ameríku falla Argentína, Brasilía, Chile, Kanada, Kólumbía, Mexíkó, Perú, Úrúgvæ og Venesúela undir umdæmi sendiráðsins.
       j.      Peking. Í starfsliði eru sendiherra, sendiráðsritari, sendiráðsfulltrúi og einn ritari. Auk alþýðulýðveldisins Kína falla Indónesía, Japan, Norður-Kórea, Suður-Kórea, Tæland og Víetnam undir umdæmi sendiráðsins.
       k.      Genf. Í starfsliði eru fastafulltrúi, varafastafulltrúi, sendiráðsritari og tveir ritarar. Forstöðumaður fastanefndarinnar í Genf er fastafulltrúi hjá Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), Evrópuskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðastofnunum sem aðsetur hafa í Genf.
       l.      New York. Í starfsliði eru, að meðtöldu starfsliði aðalræðisskrifstofunnar í New York, fastafulltrúi, aðalræðismaður, varafastafulltrúi, sendiráðunautur, viðskiptafulltrúi, sendi ráðsfulltrúi og ritari. Forstöðumaður fastanefndarinnar í New York er fastafulltrúi Íslands í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.