Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 95 – 95. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um tilraunaveiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson,


Einar Oddur Kristjánsson, Sighvatur Björgvinsson,
Kristinn H. Gunnarsson.

    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að heimila tímabundnar tilraunaveiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum. Náttúrustofa Vestfjarða hafi eftirlit með tilraunaveiðun um og gefi ráðherra skýrslu þar sem fram komi niðurstöður tilraunarinnar. Að tilraunatíma bilinu loknu verði mat lagt á nauðsyn á framhaldi veiða á ref og mink á svæðinu.

Greinargerð.


         Árið 1985 var ákveðið að friðlýsa svæðið norðvestan Skorarheiðar í Norður-Ísafjarðar sýslu. Þar með voru veiðar á ref og mink bannaðar á svæðinu. Meðal reglna sem gilda um friðlandið er að hvers konar meðferð skotvopna er öllum bönnuð nema samkvæmt sérstakri heimild sýslumanns mánuðina júní til september og utan þess tíma einungis heimil landeig endum til hefðbundinna nytja.
    Hér er verið að leggja til að umhverfisráðherra nýti rétt til undanþágu frá settum reglum í friðlýsingu, enda liggja til þess ríkar ástæður í þessu tilviki.
    Meginregla laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, er að villt dýr séu friðuð, en undantekningar eru gerðar um einstakar dýrategundir. Þá segir í 7. gr. þeirra að í reglugerðum skuli kveðið á um vernd, friðun og veiðar einstakra tegunda villtra dýra. Þar skuli m.a. kveða á um hvaða tegundir séu alfriðaðar, hverjar sé heimilt að veiða, hvar megi veiða þær, gerð vopna, veiðiaðferðir, lengd veiðitímabils, sérákvæði vegna hefðbundinna fuglanytja, hvað teljist til fágætra fugla, skylduskil á þeim, umgengni við hreiður þeirra og annað sem máli skiptir. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur umhverfisráðherra sett reglugerð nr. 358/1994.
    Í VI. kafla laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er að finna sérákvæði um veiðar. Í 12. gr. er ákvæði um refi, svohljóðandi:
    Refir. Óheimilt er að eyðileggja greni. Ekki má láta hunda hlaupa um á greni á grenjatímanum né hafa þar óþarfa umgang. Sveitarstjórnir skulu halda skrá yfir öll þekkt greni í sínu umdæmi ásamt lýsingu á þeim og skulu afrit af skránum varðveitt hjá veiðistjóra embættinu.
    Þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum veiðistjóraembættis, að nauðsynlegt sé að láta veiða refi til þess að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum, sbr. 7. gr., er sveitarstjórn skylt að ráða skotmann til grenjavinnslu og skal hann hafa með sér aðstoðarmann. Þar sem veiðistjóraembætti og sveitarstjórn þykir betur henta má skipu leggja refaveiðar að vetrarlagi í stað grenjavinnslu og fela þá skotmanni með sama hætti framkvæmdina. Eigi fleiri sveitarfélög sameiginlegt upprekstrarland skulu sveitarstjórnir fela stjórn viðkomandi upprekstrar- eða fjallskilafélags umsjón refaveiða samkvæmt þessari málsgrein.
    Á svæðum, þar sem friðun refa hefur verið aflétt, sbr. 7. gr., eru refaveiðar utan grenjatíma öllum heimilar sem til þess hafa leyfi samkvæmt lögum.
    Umhverfisráðherra ákveður árlega viðmiðunartaxta launa til skotmanna og aðrar greiðslur fyrir unna refi sem veiddir eru skv. 2. og 3. mgr. Viðkomandi sveitarstjórnir skulu árlega gefa skýrslur til veiðistjóraembættis um refaveiðar og kostnað við þær, hver á sínu svæði, og endurgreiðir ríkissjóður þá hluta kostnaðar við veiðarnar m.a. með tilliti til fjárhagslegrar getu hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum. Umhverfisráðherra getur í samráði við veiðistjóra heimilað sveitarstjórnum að ráða skot menn til refaveiða á tilteknum svæðum til viðbótar þeim sem ákvörðuð hafa verið skv. 2. mgr. og falla þau þá ekki undir greiðsluskyldu ríkissjóðs.
    Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. mega bændur og æðarræktendur, eða aðilar á þeirra vegum, skjóta refi sem búfénaði eða æðarvarpi stafar hætta af. Skal viðkomandi tilkynna skotmönnum, sbr. 2. mgr., um slíka veiði svo fljótt sem auðið er.

    Í 13. gr. eru sérákvæði um minka, og er ákvæðið svohljóðandi:
     Minkar. Minkar njóta ekki friðunar samkvæmt lögum þessum. Þó er umhverfisráðherra heimilt, að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar um villt dýr, að friða minka í rannsóknar skyni á takmörkuðu svæði í skamman tíma.
    Þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum veiðistjóraembættis, að minkaveiðar séu nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum minka er sveitarstjórn skylt að ráða menn til minkaveiða.
    Umhverfisráðherra ákveður árlega viðmiðunartaxta launa og annarra greiðslna fyrir unna minka sem veiddir eru skv. 2. mgr. Viðkomandi sveitarstjórnir skulu árlega gefa skýrslur til veiðistjóraembættis um minkaveiðar og kostnað við þær, hver á sínu svæði, og endurgreiðir ríkissjóður þá allt að helming kostnaðar við veiðarnar eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum. Umhverfisráðherra setur reglugerð um framkvæmd veiðanna og um
tilhögun endurgreiðslna á hlut ríkissjóðs í kostnaði við þær.

    Þannig er meginregla laganna sú að refir séu friðaðir, en minkar ekki.
    Með tillögu þessari til þingsályktunar er þess farið á leit við umhverfisráðherra að nýtt verði heimild ráðherra til að veita undanþágu frá ákvæðum friðlýsingar, sbr. 28. gr. laga um náttúruvernd, nr. 93/1996, en þar er fjallað um friðlýsingu landsvæða og er ákvæðið svo hljóðandi:
     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðað í heild landsvæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs, og nefnast þau landsvæði friðlönd. Má þar ekki raska náttúrufari né gera mannvirki sem spilla svip landsins. Í frið lýsingu skal nánar kveðið á um hversu víðtæk friðunin er, að hve miklu leyti framkvæmdir á landinu eru takmarkaðar umferð og umferðarrétt almennings og notkun veiðiréttar. Þá mega og fylgja friðlýsingu fyrirmæli um nauðsynlegar aðgerðir til þess að almenningur njóti svæðisins, svo sem um lagningu göngustíga, girðingar og þess háttar.
    Friðlöndum má enginn, hvorki landeigendur, ábúendur né aðrir, raska að því leyti sem
fyrirmæli friðlýsingarinnar taka til.
    Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá settum fyrirmælum í friðlýsingu ef ástæður eru fyrir hendi.

    Athygli hefur verið vakin á því að með því að veiðar á ref og mink eru ekki heimilaðar í friðlandinu á Hornströndum hafi orðið gríðarleg fjölgun á þessum tegundum. Ferðamenn og aðrir þeir sem eiga leið um svæðið hafa veitt því eftirtekt að mófuglar sjást þar tæplega og augljóst að þeir hafa orðið ref og mink að bráð. Skynsamleg veiði á þessum tegundum myndi því auðga lífríkið og söngur mófuglanna hæfist að nýju.
    Íbúar nærliggjandi byggða, jafnt á Ströndum sem við Ísafjarðardjúp, hafa og bent á að gengdarlaus fjölgun á ref og mink í friðlandinu ylli miklum búsifjum utan friðlandsins. Hjarðir minka og refa streyma suður Strandir og inn í Djúp, leggjast á búfénað, granda fuglum og eyðileggja veiðiár. Hlunnindabændur hafa þannig vakið athygli á að mikil fjölgun refa og minka hafi leitt af sér stórtjón í æðarvörpum og laxveiðiám og skaðað þannig bændur og rýrt afkomu þeirra.
    Af þessu hefur síðan leitt að kostnaður við grenjaleit og veiðar á mink hefur vaxið gríðar lega í sveitarfélögum sem næst liggja friðlandinu. Fámenni þeirra hefur hins vegar gert að verkum að stóraukinn veiðikostnaður verður þeim ofviða og eykur enn vandamálið.
    Af þessu sést að brýna nauðsyn ber til að aflétt sé banni við veiðum á mink og ref í friðlandinu á Hornströndum. Á hinn bóginn er skynsamlegt að þessar veiðar fari fram undir eftirliti, vegna þess að um friðland er að ræða. Eðlilegast er að nýstofnuð Náttúrustofa Vestfjarða annist eftirlitið og leggi mat á það innan hæfilegs tíma hvernig staðið skuli að verki til frambúðar.
    Í viðtali við Ásbjörn Dagbjartsson veiðistjóra í Morgunblaðinu 28. september sl. víkur hann meðal annars að því að minkur hafi verið veiddur í landinu frá árinu 1937 með óbreyttu álagi. „Útkoman er sú að minkurinn hefur gersigrað okkur,“ segir hann. Enn fremur segir hann um minkinn: „Hann hefur farið hringveginn og stofninn hefur alltaf verið í vexti. Það er aðeins á afmörkuðum svæðum þar sem miklu er kostað til að tekist hefur að halda honum í burtu.“
    Veiðistjóri segir að stofnstærð refsins hafi þrefaldast á síðustu 20 árum þó svo að veiðar hafi verið svipaðar og áður. „Veiðin hefur minnkað nokkuð síðustu tvö árin og mesta hættan núna er sú að nýliðun í refastofninum aukist í kjölfarið. Það væri í raun stórhættulegt að aflétta snögglega veiðiálagi.“
    Hér ber allt að í einu. Öll rök hníga að því að veiðar á ref og mink skuli auknar og einkan lega á það við í friðlandi sem á Hornströndum, þar sem fjölgun þessara tegunda er orðin að alvarlegu vandamáli.



Fylgiskjal.


Auglýsing um friðland á Hornströndum.
(Stjt. nr. 332, 13. ágúst 1985.)


(2 bls. myndaðar)