Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 96 – 96. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 4 frá 19. febrúar 1963, um ráðherraábyrgð.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson,


Ásta R. Jóhannesdóttir.

1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist nýr liður, c-liður, er orðast svo:
c.     ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á 116. löggjafarþingi flutti háttvirtur þingmaður og núverandi félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðherraábyrgð. Með frumvarpinu fylgdi þá svohljóðandi greinargerð:
    „Lögin um ráðherraábyrgð frá 4. febrúar 1963 taka ekki til ábyrgðar ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir því rangt frá, gefur því villandi upplýsingar eða leynir það upplýsing um er mikilvægar eru fyrir meðferð máls. Ráðherrar hafa því ekki nauðsynlegt aðhald og geta freistast til að gefa Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna það mikilvægum upp lýsingum. Þetta getur leitt til óvandaðrar meðferðar mála og orsakað fullkominn trúnaðar brest Alþingis og ráðherra. Í lögum Dana um ráðherraábyrgð (Lov 1964-04-15 nr. 117 om ministres ansvarlighed) eru hins vegar skýr ákvæði um þetta atriði. Lagt er til að þau ákvæði verði tekin í íslensk lög. Það er mjög mikilvægt að Alþingi geti treyst því að upplýsingar, er ráðherrar gefa því, séu fullnægjandi og sannleikanum samkvæmar og að ráðherra leyni ekki upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls.“
    Í framsöguræðu flutningsmanns kom fram að hann teldi ákaflega mikilvægt að Alþingi geti treyst þeim upplýsingum sem ráðherrar gefa og það geti treyst því að ráðherra segi allan sannleikann og ekkert nema sannleikann í ræðustóli. Jafnframt kom fram að trúverðugleiki er mikið höfuðatriði í þessu efni og höfuðnauðsyn til þess að Alþingi geti tekið réttar ákvarð anir.
    Fram kom einnig að frumvarpið væri bundið við formlegar upplýsingar til Alþingis. Orð rétt sagði framsögumaður: „Ég tel að þetta eigi einungis að gilda um upplýsingar sem ráð herra gefur Alþingi, þjóðþinginu, með formlegum hætti. Þeim upplýsingum verður að vera hægt að treysta. Annars getur Alþingi ekki tekið réttar eða skynsamlegar ákvarðanir ef það er leitt í villu eða af framkvæmdarvaldsins hálfu leynt staðreyndum.“
    Taldi flutningsmaður að það ætti að vera refsivert ef ráðherra greinir Alþingi formlega rangt frá staðreyndum eða leynir þýðingarmiklum upplýsingum þegar hann veit sannanlega betur. Jafnframt kom fram hjá flutningsmanni að hægt væri að finna fjölmörg dæmi úr fortíð og nútíð þar sem ráðherrar hafi farið frjálslega með sannleikann. Kom fram í ræðunni að á síðustu og verstu tímum hafi þetta gengið lengra en áður hefur tíðkast.
    Frumvarpið um breytingu á lögum um ráðherraábyrgð, sem flutt var á 116. löggjafarþingi, er hér tekið upp óbreytt og taka flutningsmenn þess bæði undir það sem fram kom í greinar gerð með frumvarpi Páls Péturssonar um nauðsyn breytingarinnar og þau orð úr ræðu þing mannsins sem vitnað er til hér að framan
    Tilefni flutnings þessa frumvarps nú er ekki síst að flutningsmaður nefnds frumvarps frá 116. löggjafarþingi og núverandi ráðherra, Páll Pétursson, hefur með eigin verkum sannað nauðsyn þessarar breytingar. Tvívegis á síðasta Alþingi var ráðherrann borinn þeim sökum að hafa gefið Alþingi rangar og villandi upplýsingar, um stöðu félagslega húsnæðiskerfisins og um samanburð á afföllum og kostnaði húsbréfakerfisins við húsnæðislánakerfið frá 1986, auk þess að leyna Alþingi upplýsingum sem höfðu verulega þýðingu fyrir málið. Þær ásakanir voru studdar gögnum frá Ríkisendurskoðun og Húsnæðisstofnun. Það er grundvallaratriði til að styrkja bæði þingræðið í landinu og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu að hægt sé að treysta upplýsingum sem ráðherrar gefa þinginu. Þegar fyrir liggur að alvar legur trúnaðarbrestur er kominn upp milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins verður að taka á því máli eins og hér er lagt til að verði gert.
    Verði frumvarpið að lögum munu 10. og 11. gr. laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, hljóða svo:
    

„10. gr.

    Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:
a.      ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín,
b.      ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir,
c.      ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu.

11. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða, eftir málavöxtum, embættismissi, sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.
    Við ákvörðun refsingar skal höfð hliðsjón af 70. gr. almennra hegningarlaga.
    Hafi ráðherra jafnframt brotið gegn hinum almennu hegningarlögum, skal hegning sú, sem hann hefur til unnið, tiltekin í einu lagi samkvæmt reglum 77. gr.almennra hegningarlaga.“



Fylgiskjal.


Dönsku lögin um ráðherraábyrgð.
(Lög 1964-04-15 nr. 117.)


1. gr.

    Lögin gilda um ábyrgð ráðherra á embættisfærslu sinni.

2. gr.

    Ákvæði almennra hegningarlaga taka einnig til starfa ráðherra.


3. gr.

    Ákvæðum almennra hegningarlaga um hlutdeild í lögbroti taka til ráðherra fyrir athafnir undirmanns hans þegar:
    honum hefur verið kunnugt um þær og ekki gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær,
    brotið er nauðsynlegur eða eðlilegur þáttur framkvæmdar á ákvörðun sem ráðherrann ber ábyrgð á,
    hann hefur stuðlað að brotinu með því að sinna ekki eðlilegu eftirliti eða setja skýr fyrir mæli.

4. gr.

    Ábyrgð á embættisathöfn, sem atbeina konungs þarf til, hvílir bæði á þeim ráðherra sem hefur áritað með konungi og þeim ráðherrum sem hafa stuðlað að þeirri athöfn.

5. gr.

    Ráðherra skal sæta refsingu ef hann af ásetningi eða af vítaverðu gáleysi vanrækir þær skyldur sem á honum hvíla samkvæmt stjórnarskrá, almennum lögum eða embættisstöðu hans.
    Ákvæði 1. mgr. eiga við ef ráðherra veitir þinginu rangar eða villandi upplýsingar eða leynir mikilvægum upplýsingum við meðferð máls á þingi.

6. gr.

    Brot á ákvæðum 5. gr. varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Ef brotið er framið af gáleysi varðar það sekt eða varðhaldi.
    Við ákvörðun fjársektar skal taka mið af ákvæðum almennra hegningarlaga um dagsektir.

7. gr.

    Ákvæði 6. gr. gilda því aðeins að önnur lög tiltaki ekki þyngri refsingu.
    Ákvæði 155.–157. gr. almennra hegningarlaga gilda ekki um ráðherra.

8. gr.

    Ábyrgð ráðherra fyrnist samkvæmt ákvæðum 93.–95. gr. almennra hegningarlaga. Fyrningarfrestur er þó aldrei skemmri en fimm ár.

9. gr.

    Um skaðabótaábyrgð vegna embættisfærslu ráðherra gilda almennar reglur um skaðabætur vegna tjóns sem opinberir embættismenn valda í störfum sínum í þjónustu ríkisins.