Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 98 – 98. mál.Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    (Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 12. gr. laganna:
     a.      10. tölul. orðast svo: Sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi, enda sé þjónustan nýtt að öllu leyti erlendis. Skattskyld þjónusta sem veitt er í tengslum við menningarstarfsemi, listastarfsemi, íþróttastarfsemi, kennslustarfsemi og aðra hliðstæða starfsemi telst ávallt nýtt hér á landi. Jafnframt er sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu þó að þjónustan sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skrán ingarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. Sé þjónusta ekki að öllu leyti nýtt erlendis er skilyrði fyrir undanþágu að fyrir liggi í bókhaldi seljanda vottorð frá bærum yfirvöldum í heimalandi kaupanda þar sem fram kemur hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum og gildir vottorð þetta í tvö ár frá útgáfudegi. Eftirtalin þjónusta fellur undir þennan tölulið:
       a.      framsal á höfundarrétti, rétti til einkaleyfis, vörumerkis og mynsturs, svo og framsal annarra sambærilegra réttinda,
       b.      auglýsingaþjónusta,
       c.      ráðgjafarþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærileg sérfræðiþjónusta, þó ekki vinna við eða þjónusta sem varðar lausa fjármuni eða fasteignir hér á landi,
       d.      tölvuþjónusta, önnur gagnavinnsla og upplýsingamiðlun,
       e.      kvaðir og skyldur varðandi atvinnu- eða framleiðslustarfsemi eða hagnýtingu réttinda sem kveðið er á um í þessum tölulið,
       f.      atvinnumiðlun,
       g.      leiga lausafjármuna, þó ekki neins konar flutningatækja,
       h.      þjónusta milligöngumanna sem fram koma í nafni annars og fyrir reikning annars að því er varðar sölu eða afhendingu þjónustu sem um ræðir í þessum tölulið.
     b.      11. tölul. orðast svo: Þjónusta sem felst í endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna.


2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skattskylda þjónustu“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: þjónustu sem talin er upp í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Aðili, sem skylt er að greiða virðisaukaskatt skv. 1. mgr., skal ótilkvaddur gera grein fyrir kaupum á þjónustu á sérstakri skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Greiðslu ásamt skýrslu skal skila til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en á gjalddaga.

3. gr.

    Í stað orðanna „erlendir ferðamenn“ í 1. mgr. 43. gr. laganna kemur: aðilar búsettir erlendis.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á ákvæðum virðisaukaskattslaganna varðandi skatt skyldu vegna sölu á þjónustu til erlendra aðila. Frá 1. júlí sl. hafa gilt nýjar og strangari reglur um slíka sölu, en með lögum nr. 55/1997, um breyting á lögum um virðisaukaskatt, voru gerðar ýmsar breytingar er lutu að afdráttarlausari ákvæðum um skattskyldu og ákvörðun hennar í lögunum. Þannig voru felld brott ákvæði laganna um heimild fjármálaráðherra til þess að kveða á um skattskyldu, undanþágur og endurgreiðslur í reglugerðum. Meðal þeirra breytinga sem þá voru gerðar var að fella brott heimild til að kveða á í reglugerð um undan þágur vegna sölu á þjónustu til erlendra aðila sem ekki hafa heimilisfesti hér á landi. Þess í stað var lögfest með skýrum hætti í 12. gr. laganna hvaða þjónusta væri undanþegin við sölu til erlendra aðila og að uppfylltum hvaða skilyrðum. Um leið voru undanþágur takmarkaðar við þjónustu sem nýtt er erlendis en áður var nægjanlegt að uppfylla annað tveggja skilyrða, þ.e. að þjónustan væri nýtt erlendis eða að hinn erlendi aðili væri í starfsemi sem teldist skattskyld samkvæmt íslenskum virðisaukaskattslögum. Hins vegar voru undanþágur rýmkaðar að því leyti að þær ná nú til allrar þjónustu sem mögulega getur verið nýtt erlendis í stað upptalningar þeirrar sem fram kemur í reglugerð nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Í reynd hafði þessi breyting ekki áhrif á skattbyrði fyrirtækja því að allir aðilar sem á annað borð gætu fengið skráningu samkvæmt íslenskum virðisaukaskattslögum geta fengið þann virðisaukaskatt endurgreiddan sem heimilt er að telja til innskatts skv. 15. og 16. gr. virðisaukaskattslaga. Í breytingunni fólst m.a. að skatteftirlit yrði tryggara og skattframkvæmdin sömuleiðis og hins vegar var sett regla sem talin var einfaldari í framkvæmd þar sem ekki þyrfti að túlka hvaða tegund þjónustu væri veitt heldur einungis hvar hún væri nýtt.
    Nýja fyrirkomulagið, sem tók gildi 1. júlí sl., hefur mætt nokkurri gagnrýni af hálfu hagsmunaaðila, þ.e. þeirra sem að jafnaði selja þjónustu til erlendra aðila. Helstu umkvartanir lúta að því að það krefjist meiri fyrirhafnar af hálfu hins erlenda aðila að þurfa að greiða virðisaukaskatt af keyptri þjónustu og sækja síðan um endurgreiðslu, heldur en að fá þjónustuna afhenta án virðisaukaskatts. Jafnframt hafa heyrst þau sjónarmið að í einhverjum tilvikum sé hætta á röskun samkeppnisstöðu og í því sambandi á það bent að ekki sé alltaf skýrt hvenær þjónusta sé nýtt erlendis en á þá túlkun reynir mun meira eftir breytinguna 1. júlí sl. Með hliðsjón af þessum ábendingum var ákveðið að taka breytinguna frá 1. júlí til endurskoðunar. Með þessu frumvarpi er lagt til að fyrirkomulag skattmeðferðar á þjónustu við erlenda aðila sem ekki hafa starfsstöð hér á landi verði fært til fyrra horfs í meginatriðum og um leið til samræmis við þær reglur sem gilda annars staðar í Evrópu.
    Í frumvarpinu er lagt til að meginreglur reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, sem féll úr gildi 1. júlí sl. séu lögfestar. Þessi breyting hefur í raun ekki áhrif á skattbyrði erlendra aðila sem stunda virðisaukaskattsskylda starfsemi samkvæmt íslenskum virðisaukaskattslögum. Þeir aðilar hafa átt þess kost að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts af allri þjónustu sem undan þegin verður skatti samkvæmt þessu frumvarpi. Á hinn bóginn verður eftirlit með fram kvæmdinni ekki jafn reglubundið og ella og því reynir frekar á það að skattstjórar hafi frum kvæði að því að kanna framkvæmd reglnanna og mun fjármálaráðuneytið leggja áherslu á að átak verði gert í þeim málum. Til að auðvelda framkvæmdina er lagt til að kveðið verði skýrar á um það hvenær þjónusta telst vera nýtt hér á landi og er þessi breyting m.a. hugsuð til þess að auðvelda framkvæmd og eftirlit með þessum reglum.
    Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna verði breytt, þannig að endurgreiðsluheimildin miðist við aðila sem búsettir eru erlendis en ekki eingöngu erlenda ferðamenn eins og samkvæmt núgildandi ákvæði. Tilgangur breytingarinnar er að gera Íslendingum búsettum erlendis kleift að kaupa vörur á Íslandi án virðisaukaskatts og taka með sér úr landi á sama hátt og aðrir ferðamenn. Að öðru leyti vísast til athugasemda með einstökum greinum til frekari skýringa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þessari grein er lagt til að lögfestar verði meginreglur ákvæða reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Er lagt til að ákvæði 1., 2. og 3. gr. reglugerðarinnar verði felld undir 10. –11. tölul. 12. gr. laganna. Þó er vikið í einstökum atriðum frá orðalagi og/eða efni reglugerðarinnar, sbr. eftirfarandi:
*    Í öðrum málslið a-liðar er gert ráð fyrir að sala skattskyldrar þjónustu sem veitt er í tengslum við ýmsa starfsemi sem er undanþegin skv. 3. mgr. 2. gr. laganna skuli ávallt talin nýtt hér á landi. Hér er fyrst og fremst verið að ákvarða skattlagningarstað þjónustu sem í flestum tilvikum væri afhent og þá nýtt hérlendis, til dæmis þjónusta sem veitt er í sambandi við samkomuhald hér á landi.
*    Í c-lið sem kveður á um undanþágu vegna ýmissar sérfræðiþjónustu (3. tölul. 2. gr. reglug.) er settur fyrirvari sem þó er efnislega sá sami og kveðið er á um í 4. og 5. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar. Hann er sá að undanþágan taki ekki til vinnu við eða þjónustu sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi. Rökin fyrir því eru m.a. þau að um er að ræða þjónustu sem er ekki flytjanleg milli landa ásamt því að í þeim tilvikum sem þjónustan varðar fasteignir væri um að ræða þjónustu sem ekki væri innskattsfrádráttarbær nema viðkomandi aðili hefði með höndum skattskylda starfsemi hér á landi og félli þar af leiðandi ekki undir gildissvið reglnanna. Jafnframt verður að telja að erlendur aðili, sem hefur ekki með höndum skattskylda starfsemi hér á landi, væri í fáum tilvikum að kaupa vinnu eða þjónustu er varðar lausafjármuni hans hér á landi. Ákvæðið er því sett til öryggis og ef svo bæri undir að erlendur aðili keypti slíka þjónustu án þess að hafa með höndum starfsemi hér á landi gæti hann í þeim tilvikum, þegar um frádráttarbæran innskatt að ræða, sótt um endurgreiðslu á skattinum samkvæmt reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.
*    Felld er brott undanþága á ábyrgðarviðgerðum þar sem yfirskattanefnd hefur úrskurðað á þann veg að greiðsla til innlends viðgerðaraðila sem ber ábyrgð á söluhlut teljist greiðsla skaðabóta en ekki sala á skattskyldri þjónustu.
*    Felld er brott undanþága varðandi vöruflutninga enda ekki um að ræða þjónustu í því tilfelli sem er hreyfanleg á milli landa. Ástæðan fyrir þessari undanþágu í reglugerðinni var að tilvik sem þessi komu upp árið 1994, en þá var ekki fyrir hendi í lögunum heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Var því málið leyst með því að setja ákvæðið í reglugerð nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Heimildarákvæðið var lögfest með lögum nr. 40/1995, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og á grundvelli þess var sett reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.
    Verði frumvarpið samþykkt hafa allar efnisreglur reglugerðar nr. 194/1990, um virðis aukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, verið lögfestar og útgáfa annarrar reglugerðar til frekari útfærslu óþörf. Það sem einkennir þær þjónustugreinar sem taldar eru upp í 10. tölul. er að um er að ræða þjónustu sem er flytjanleg á milli landa, þ.e. að auðvelt er að veita hana án þess að setja á stofn starfsstöð í öðru landi. Til nánari skýringar á einstökum stafliðum í upptalningu 10. tölul. skal eftirfarandi tekið fram:
*    Undir ákvæði a-liðar 10. tölul. fellur hvers kyns framsal á hugverkaréttindum án tillits til hvort þau eru framseld í heild eða hluta. Jafnframt fellur leiga á þessum réttindum gegn endurgjaldi undir ákvæðið án þess að beinlínis sé um sölu að ræða.
*    Við mat á því hvað teljist undanþegið skattskyldri veltu við sölu á sérfræðiþjónustu skv. c-lið 10. tölul. þarf að líta til 2. málsl. c-liðar.
*    Í ákvæði e-liðar 10. tölul. sem fjallar um kvaðir og skyldur varðandi atvinnu- og framleiðslustarfsemi er m.a. átt við samkeppniskvaðir og afsal á hagnýtingu réttinda skv. a-lið. Samkeppniskvaðir fela t.d. í sér áskilnað um að reka ekki atvinnustarfsemi á tilteknum stað í tiltekinn tíma í því skyni að varna samkeppni.
*    Ákvæði g-liðar 10. tölul. tekur bæði yfir langtímaleigu og leigu til styttri tíma, svo og eignarleigu.
    Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að efni 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 194/1990 verði fellt undir sérstakan tölulið (11. tölul.), þ.e. undanþága á þjónustu sem felst í endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna. Ástæðan er sú að þessi þjónusta er í eðli sínu frá brugðin þeirri sem talin er upp í 10. tölul., þar sem hún er ávallt nýtt hér á landi og ein staklingar eru ávallt kaupendur þjónustunnar.


Um 2. gr.

    Í þessari grein er verið að samræma reglur laganna um í hvaða tilvikum þjónusta er skatt skyld hér á landi við sölu erlendis frá. Með lagabreytingunni síðasta vor var gert ráð fyrir að öll þjónusta væri skattskyld á sama hátt og öll þjónusta seld til útlanda var undanþegin skattskyldri veltu. Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar sem lúta að því að telja upp hvaða þjónustugreinum er heimilt að halda utan skattskyldrar veltu við sölu úr landi. Hér er lagt til að sömu þjónustugreinar verði skattskyldar við sölu til landsins. Með þessari reglu er tryggt að ekki komi til tvísköttunar við kaup á þjónustu frá löndum sem hafa sambærilegar reglur um skattlagningu á þjónustu á milli landa. Jafnframt er kveðið á um hvernig kaupandi á að standa að skilum skattsins.

Um 3. gr.

    Með þessari grein er lagt til að rýmkuð verði heimild laganna til endurgreiðslu á virðis aukaskatti vegna kaupa erlendra ferðamanna á vörum hér á landi. Lagt er til að heimildin nái til allra aðila sem búsettir eru erlendis, í stað þess að ná einungis til erlendra ferðamanna eins og nú er. Við þessa breytingu öðlast Íslendingar búsettir erlendis sama rétt og erlendir ferðamenn hafa til endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vörum er þeir kaupa hér á landi og hafa með sér úr landi. Þessi breyting er í samræmi við framkvæmd þessara mála í nágranna löndum okkar, en þar miðast réttur til endurgreiðslu við búsetu en ekki ríkisborgararétt.


Um 4. gr.

    Ákvæði þetta þarfnast ekki skýringar.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum laga um virðisaukaskatt á þjónustu sem seld er erlendum aðilum. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.