Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 151 – 151. mál.Frumvarp til lagaum verslunaratvinnu.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

    Lög þessi taka til verslunar í atvinnuskyni hvort sem hún er gerð fyrir eigin reikning eða reikning annars manns eða í eigin nafni eða í nafni annars manns.
    Með orðinu verslun er átt við hvers kyns milligöngu um yfirfærslu á beinum eignarrétti að lausafé.
    Lög þessi taka þó ekki til sérákvæða annarra laga sem setja sérstök skilyrði varðandi til teknar vörur eða tilteknar atvinnugreinar.
    Verði ágreiningur um hvort um verslun fari samkvæmt lögum þessum sker firmaskrárritari úr honum innan þrjátíu daga. Þeim úrskurði má áfrýja til viðskiptaráðuneytisins innan þrjátíu daga frá því að kæranda berst tilkynning um úrskurð firmaskrárritara. Úrskurður ráðu neytisins skal liggja fyrir innan þrjátíu daga frá því að kæra er móttekin.

2. gr.

    Til að stunda verslun á Íslandi eða í íslenskri landhelgi skal uppfylla skilyrði laga þessara og atvinnustarfsemin skal skráð í samræmi við lög um fyrirtækjaskrá, firmu og prókúruumboð.

3. gr.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
    föst starfsstöð: húsnæði eða annað rými þar sem rekin er, staðbundið og reglulega, verslun í atvinnuskyni,
    hreyfanleg starfsstöð: rými sem er færanlegt og þar sem rekin er reglulega verslun í atvinnuskyni, svo sem bifreiðar og dráttarvagnar,
    markaður: verslun í atvinnuskyni sem fram fer utan fastrar starfsstöðvar, hvort heldur sem er innan eða utan húss (sala á torgum),
     farandsala: verslun í atvinnuskyni utan fastrar starfsstöðvar, þar með taldar hreyfanlegar starfsstöðvar og markaðir,
     sjálfsali: tæki sem notað er til verslunar og afhendingar vöru gegn endurgjaldi.

II. KAFLI
Almenn skilyrði fyrir rétti til að stunda verslun.

4. gr.

    Skylt er að skrásetja í firma- eða hlutafélagaskrá eftir því sem við á verslun sem stunduð er skv. 1. gr. þessara laga.
    Dánarbú eða gjaldþrotabú hefur rétt til að stunda áfram verslun í samræmi við ákvæði laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.
    Verslun á grundvelli starfsleyfis skv. V. kafla skal rekin á fastri starfsstöð. Á fastri starfs stöð skal framkvæmdastjóri eða yfirmaður viðkomandi starfsemi fullnægja skilyrðum 1.–4. tölul. og 6. tölul. 1. mgr. 14. gr. Þetta á þó ekki við um útibú hlutafélags eða einkahlutafélags sem hlotið hefur leyfi til sölu notaðra ökutækja.

5. gr.

    Á hinni föstu starfsstöð skal vera nafnspjald með nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem hefur skráð verslunarrekstur. Sjálfsalar skulu einnig merktir með sama hætti. Á bréfsefni, pöntunareyðublöðum og svipuðum skjölum þess sem skráð hefur verslun skal greina heiti verslunar, kennitölu og heimilisfang. Sama á við um verslun með fjarskiptatækni (fjarsölu).

6. gr.

    Firmaskrárritari lætur í té staðfestingu á því að verslun hafi verið skráð samkvæmt lögum þessum.

III. KAFLI
Smásöluverslun utan fastrar starfsstöðvar — farandsala.
7. gr.

    Að því leyti sem ekki eru sett ákvæði um það í lögum þessum skulu samþykktir sveitar stjórna gilda um réttindi og skyldur þeirra sem stunda farandsölu.

8. gr.

    Hverjum þeim er stundar farandsölu samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim ber að afhenda kaupanda nafnspjald með nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem skráð hefur verslunarrekstur.

IV. KAFLI
Um sölu notaðra lausafjármuna.

9. gr.

    Þegar notuðum lausafjármunum er veitt móttaka til endursölu eða umboðssölu skulu þeir skráðir og verðmerktir.

10. gr.

    Heimilt er ráðherra með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd skráningar og varð veislu skrárinnar.
    

11. gr.

    Sá sem verslun rekur samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal jafnan sýna fyllstu aðgát við kaup og sölu notaðra lausafjármuna. Telji hann ástæðu til skal hann krefja seljanda um per sónuskilríki.
    Óheimilt er að kaupa eða veita móttöku notuðum lausafjármunum til endursölu frá ólögráða aðila.


V. KAFLI
Um sölu notaðra ökutækja.
12. gr.

    Ákvæði þessa kafla gilda um sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja sem fram fer með eftirgreindum hætti:
     1.      Milliganga um sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi milligönguaðilans.
     2.      Sala á notuðum skráningarskyldum ökutækjum í eigu seljandans þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi hans.
    Lögin taka ekki til nauðungarsölu notaðra ökutækja.


13. gr.

    Hver sá sem vill reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki skal hafa til þess sérstakt leyfi viðskiptaráðherra.
    Viðskiptaráðuneytið skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa til starfsemi samkvæmt kafla þessum.
    Heimilt er bifreiðasala að leggja inn til ráðuneytisins starfsleyfi sitt. Óheimilt er honum að segja upp starfsábyrgðartryggingu sinni fyrr en að fenginni staðfestingu ráðuneytisins á inn lögn leyfisins.

14. gr.

    Leyfi skv. 13. gr. skal veitt til fimm ára í senn og verður einungis veitt einstaklingum eða lögaðilum sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
     1.      Eru búsettir á Íslandi.
     2.      Hafa náð tuttugu ára aldri.
     3.      Eru lögráða og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og lögum um sölu notaðra ökutækja.
     4.      Hafa forræði á búi sínu.
     5.      Hafa lagt fram skírteini því til sönnunar að þeir hafi tekið ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingarfélagi, aflað sér bankatryggingar eða lagt fram aðrar tryggingar sem ráðherra metur gildar og bæta viðskiptamönnum tjón er þeir kunna að baka þeim með störfum sínum sem bifreiðasalar. Nánari ákvæði um ábyrgðartrygginuna, m.a. um lág marksfjárhæð og vátryggingarskilmála, skulu ákveðin með reglugerð.
     6.      Hafa sótt námskeið og lokið þar prófi samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð sem ráðherra ákveður. Kostnað vegna námskeiða og prófa skal greiða með kennslu- og prófgjöldum er viðskiptaráðuneytið ákveður. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði mæli sérstakar ástæður með því.
    Meiri hluti stjórnarmanna lögaðila skal fullnægja skilyrðum 1.–4. tölul. 1. mgr. Þó eru stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, undanþegnir bú setuskilyrðum 1. tölul. Ráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins eða yfirmaður viðkomandi starfsemi innan þess skal full nægja skilyrðum 1.–4. og 6. tölul. 1. mgr.
    Aðili sem sviptur hefur verið leyfi skv. 20. gr. skal sitja námskeið og standast prófkröfur, sbr. 6. tölul., áður en honum er veitt starfsleyfi á ný.

15. gr.

    Bifreiðasali skal afla upplýsinga, sem staðfestar skulu skriflega af seljanda, um akstur og ástand skráningarskylds ökutækis, svo og annarra þeirra upplýsinga sem kaupanda eru nauð synlegar vegna kaupanna. Gögn þessi skulu fylgja afsali og skal bifreiðasali jafnframt varð veita þau í eitt ár frá söludegi viðkomandi ökutækis.
    Þá skal fylgja vottorð úr ökutækjaskrá sem sýnir ótvírætt að seljandi sé eigandi þess ökutækis sem selt er eða hafi umboð til sölunnar. Bifreiðasali skal staðfesta að fullnægjandi ástandslýsing, sbr. 1. mgr., fylgi ökutæki og einnig skal hann staðreyna upplýsingar um eig anda þess og hvort veðbönd hvíli á ökutækinu.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla fyrir um þær lágmarksupplýsingar sem lagðar skulu fram við sölu notaðra ökutækja og fram eiga að koma í kaupsamningi og afsali vegna sölu þeirra. Þar á meðal er ráðherra heimilt að kveða á um sérstaka skrá þar sem fram komi fyrri eigendur og tjónaferill viðkomandi ökutækis.

16. gr.

    Bifreiðasali skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal gæta þess að viðskiptamenn hans njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör, svo og þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skil málar í samningum. Bifreiðasali ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við sölu ökutækja sem væru þau verk hans sjálfs. Bifreiðasali skal, áður en gengið er frá afsali notaðs ökutækis, greina kaupanda með sannanlegum hætti frá þeim rétti hans að láta óháðan aðila meta ástand ökutækis, svo sem faggilta skoðunarstofu eða faggilt skoðunarverkstæði. Kostnað við slíkt mat skal kaupandi greiða nema um annað verði samið.
    Bifreiðasali skal með áberandi hætti vekja athygli á gjaldskrá fyrir söluþóknun, þar á með al þegar um skipti á bifreiðum er að ræða. Einnig er skylt að leyfisbréf vegna starfseminnar liggi frammi á starfsstöð.
    Hafi bifreiðasali ástæðu til að ætla að ástandi ökutækis sé ábótavant ber honum að vekja athygli kaupanda á þeim annmarka.

17. gr.

    Bifreiðasali skal annast um að endanlega sé gengið frá kaupsamningi, afsali og öðrum skjölum vegna viðskipta á hans vegum og skal geta þess í skjölunum, þar á meðal í kauptilboð um, kaupsamningum, afsölum og skuldabréfum, hver samið hafi og greina nafn hans svo að eigi verði um villst.
    Bifreiðasali skal ábyrgjast að tilkynning um eigendaskipti sé send ökutækjaskrá án tafar.

18. gr.

    Hyggist bifreiðasali, fyrirtæki er hann starfar við eða aðrir starfsmenn við sölu notaðs öku tækis selja eigið ökutæki eða kaupa ökutæki sem þessum aðila hefur verið falið að annast sölu á skal viðskiptamanni kynnt það sérstaklega og þess jafnframt getið í kaupsamningi. Sama gildir um maka og náin skyldmenni bifreiðasala eða starfsmanna við söluna.

19. gr.

    Þeim einum er rétt að nefna sig bifreiðasala sem fengið hefur leyfi til sölu notaðra ökutækja samkvæmt lögum þessum.


20. gr.

    Eftirlit með starfsemi bifreiðasala er í höndum lögreglustjóra í því umdæmi þar sem starfs stöð bifreiðasala er.
    Nú fylgir bifreiðasali ekki lögum og reglum sem um starfsemi þessa gilda þrátt fyrir tilmæli lögreglustjóra eða fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna og skal þá lögreglustjóri tilkynna það viðskiptaráðherra sem sviptir viðkomandi starfsleyfi.
    Nú rekur aðili starfsemi sem leyfi þarf til samkvæmt lögum þessum án tilskilinna réttinda og skal þá lögreglustjóri þegar í stað stöðva þá starfsemi, þar á meðal með lokun starfsstöðvar.

VI. KAFLI
Frjáls uppboð.

21. gr.

    Þeim sem hafa skráð verslunarrekstur samkvæmt lögum þessum er heimilt að selja lausa fjármuni á frjálsu uppboði nema aðrar takmarkanir séu gerðar í lögum eða reglum settum sam kvæmt þeim.
    Frjáls uppboð utan fastrar starfsstöðvar eru háð leyfi lögreglustjóra í umdæmi því þar sem uppboð skal haldið hverju sinni. Rétt er lögreglustjóra að synja um leyfi ef almannahagsmunir krefjast eða hann telur að skipulagi uppboðsins sé verulega áfátt. Þetta á þó ekki við frjálst uppboð á listmunum sem fram fer í öðru húsnæði en fastri starfsstöð.
    Heimilt er sveitarstjórn að setja nánari reglur um frjálst uppboðshald á grundvelli laga þessara.

22. gr.

    Sá sem ber ábyrgð á frjálsu uppboði er í kafla þessum nefndur uppboðsstjóri.

23. gr.

    Uppboðsstjórar mega hvorki gera boð á uppboði sjálfir né láta aðra gera það fyrir sína hönd.

24. gr.

    Uppboðsstjóri skal kynna uppboðsskilmála skriflega og skulu þeir lesnir áður en uppboð hefst.
    Í uppboðsskilmálum skal gera grein fyrir gjöldum, er leggjast ofan á söluverð, greiðsluskil málum, ef ekki er um staðgreiðslu að ræða, ásamt öðrum skilmálum sem uppboðsstjóra er skylt að geta og því hvenær ábyrgð á hinu selda flyst úr hendi seljanda til kaupanda.
    Kaupandi uppboðsmunar getur ekki borið fyrir sig galla á honum, nema hann svari ekki til þess heitis er hann var auðkenndur með við söluna, seljandi hafi haft svik í frammi eða almennt sé talið óheiðarlegt að skjóta sér undan ábyrgð.
    Uppboð eru opin almenningi og skulu munir vera til sýnis og skoðunar í hæfilegan tíma fyrir uppboðið.
    Þegar sérstaklega stendur á má veita aðilum leyfi til að halda lokað uppboð í því skyni að styrkja viðurkennt líknarstarf og kirkjustarf, menntir, vísindi og menningu.
    Á málverk, myndir og listmuni sem seldir eru á listmunauppboðum skal leggja 10% gjald er renni til listamannanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum. Sé höfundarréttur fallinn niður eða fénu verður ekki ráðstafað rennur það til starfslauna handa myndlistar mönnum. Menntamálaráðherra getur sett nánari reglur um ráðstöfun gjaldsins að höfðu sam ráði við Samband íslenskra myndlistarmanna. Um undanþágu frá virðisaukaskatti vegna sölu á listmunauppboði vísast til 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

VII. KAFLI
Samþykktir um lokunartíma sölubúða.
25. gr.

    Sveitarstjórnir geta sett samþykktir um afgreiðslutíma verslana.

26. gr.

    Í samþykktum þessum má kveða á um að kaup og sala megi eigi fara fram í verslunum til tekinn tíma á sólarhring hverjum eða tiltekna daga, eftir því sem til hagar á hverjum stað, svo og að kaupmenn skuli skyldir til að loka verslunum sínum á tilteknum tíma.

27. gr.

    Nú hefur sveitarstjórn gert samþykkt skv. 25. gr., og skal hún þá senda frumvarpið til stað festingar viðskiptaráðherra.
    Nú virðist ákvæði í samþykkt ganga of nærri rétti manna eða atvinnufrelsi eða brjóta í bág við almennar grundvallarreglur laga, og skal þá synja samþykkt staðfestingar en tilkynna skal sveitarstjórn um ástæður fyrir synjun. Að öðrum kosti staðfestir ráðherra samþykktina og ákveður hvenær hún skuli koma til framkvæmda.
    Samþykkt heldur gildi sínu 10 ár í senn nema breytt sé eða afnumin áður en endurnýja má hana á sama hátt og hún var sett, jafnlangan tíma.

28. gr.

    Staðfestar samþykktir sveitarstjórna samkvæmt lögum þessum skal birta í B-deild Stjórn artíðinda.


VIII. KAFLI
Viðurlög við brotum.

29. gr.

    Með brot gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
    Sá sem vanrækir tilkynningar til firmaskrár samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum eða varðhaldi. Heimilt er að krefjast þess að verslun verði afmáð úr firmaskrá í samræmi við lög um fyrirtækjaskrá, firmu og prókúruumboð hafi skráð verslun ítrekað brotið gegn ákvæðum laga er um starfsemina gilda.
    Nú hefur sá sem ábyrgð ber á verslun verið dæmdur til greiðslu sektar vegna brots í starfi sínu og ber firmað þá ábyrgð á greiðslu sektar ef innheimta hefur orðið árangurslaus hjá söku naut sjálfum. Ef ekki eru ákvæði í refsidómi um ábyrgð firma verður sektin því aðeins inn heimt með aðför hjá því að dæmt sé um skyldu þess í sérstöku opinberu máli.
    Brot á samþykktum sveitarstjórna, sem settar verða samkvæmt lögum þessum, varða sekt um.

IX. KAFLI
Gildistaka o.fl.
30. gr.

    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um hana. Fyrir skráningu á verslun samkvæmt lögum þessum greiðist gjald til ríkissjóðs skv. 13. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.


31. gr.

    Lög þessi öðlast gildi hinn 1. janúar 1998. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 41/1968, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum, lög nr. 61/1979, um sölu notaðra lausafjármuna, með síðari breytingum, lög nr. 36/1987, um listmunauppboð o.fl., með síðari breytingum, lög nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja, með síðari breytingum, lög nr. 17/1936, um samþykkt ir um lokunartíma sölubúða, með síðari breytingum, svo og 1.–5. tölul. 11. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.

     Ákvæði til bráðabirgða.

    Þegar útgefin verslunarleyfi koma til endurnýjunar skal skrá viðkomandi verslunarstarfsemi hjá firma- eða hlutafélagaskrá í samræmi við ákvæði laga þessara. Skráningu á versl unarstarfsemi skal lokið innan fimm ára frá gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Gildandi lög um verslunaratvinnu eru nr. 41 frá 2. maí 1968, ásamt síðari breytingum. Auk þeirra laga hafa verið sett ýmis sérlög um sérmálefni sem varða verslunaratvinnu, sbr. t.d. lög um sölu notaðra lausafjármuna, lög um sölu notaðra ökutækja o.s.frv. Með bréfi viðskipta ráðherra dags. 8. október 1996 var skipuð nefnd sú sem samið hefur þetta frumvarp.
    Nefndina skipuðu:
    Atli Freyr Guðmundsson, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, formaður, Baldvin Haf steinsson hdl. frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Símon Sigurpálsson frá Kaupmannasam tökum Íslands, Skúli Skúlason frá Samtökum samvinnuverslana, Þuríður Jónsdóttir hdl. frá Neytendasamtökunum og Tryggvi Axelsson, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, ritari nefndarinnar.
    Um árabil hefur verið rætt um nauðsyn þess að færa lög um verslunaratvinnu til nútíma legra horfs. Árið 1987 var skipuð nefnd sem skyldi endurskoða lög um verslunaratvinnu. Frumvarp það sem nefndin samdi var lagt fram á 111. löggjafarþingi 1988–89 en náði ekki fram að ganga.
    Í kjölfar samningsins um evrópska efnahagssvæðið voru gerðar smávægilegar breytingar á gildandi lögum um verslunaratvinnu, sbr. lög nr. 70/1993, en ekki varð af því að lögin væru tekin til heildarendurskoðunar. Auk þess hefur gildandi starfslögum verið breytt smávægilega nokkrum sinnum frá því að þau voru sett árið 1968.
    Sem fyrr segir var í október 1996 skipuð ný nefnd til þess að taka gildandi lög um versl unaratvinnu til heildarendurskoðunar. Fljótlega varð ljóst að auk endurskoðunar á gildandi lögum um verslunaratvinnu væri eðlilegast að fella inn í heildarlöggjöf um verslunaratvinnu ýmis lög sem sett hafa verið í tímans rás og varða verslunina sérstaklega. Árangur af því starfi birtist í þessu frumvarpi en eins og fram kemur í 31. gr. frumvarpsins eru felld úr gildi ýmis sérlög um málefni verslunarinnar. Nefndin hefur þó gætt þess að ekki séu felld brott ákvæði úr þeim lögum sem enn þá hafa efnislega þýðingu að hennar mati.
    Brýnt er að færa löggjöf um verslunaratvinnu í nútímalegra horf. Þetta frumvarp felur því í sér þá meginbreytingu að ekki verður framar krafist sérstakra verslunarleyfa af þeim sem vilja stunda hinar ýmsu tegundir verslunar, svo sem smásölu, heildsölu og umboðssölu. Þeir sem uppfylla skilyrði frumvarpsins og ákvæði laga um skráningu í firma- eða hlutafélagaskrá, eftir því sem við getur átt, hafa því rétt til að stunda verslunaratvinnu.
    Jafnframt er staðfest sú stefna að einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa skráð verslunar rekstur sinn sé eins frjálst að stunda verslun um landið allt og frekast er kostur og eru því versl unarleyfi ekki framar háð þröngum staðartakmörkunum svo sem verið hefur.
    Verslunarhættir hafa verið í örri þróun á Íslandi á undanförnum árum og því er mikilvægt að lög um verslunaratvinnu séu í fullu samræmi við þróunina og réttarframkvæmdina. Endur skoðun laga um verslunaratvinnu er því nauðsynleg til þess að skapa eðlilegan ramma fyrir verslunaratvinnu sem stunduð er í landinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í þessari grein er skilgreint til hvaða verslunaratvinnu frumvarpinu er ætlað að taka. Af 1. mgr. þess er ljóst að ákvæði þess taka jafnt til smásölu- og heildsöluverslunar og umboðssölu. Í 2. mgr. er skilgreint hvað átt er við með orðinu verslun en þar er átt við þá þjónustu sem veitt er við kaup og endursölu á hvers kyns lausafé.
    Í 3. mgr. kemur fram að ákvæði sérlaga sem kunna að hafa verið sett um verslun halda gildi sínu, sbr. t.d. sérákvæði um áfengi, lyf og matvæli.
    Í 4. mgr. er lagt til að úrskurðarvald um til hvaða starfsemi lög þessi taki verði í höndum firmaskrárritara en úrskurði hans má í samræmi við stjórnsýslulög skjóta til viðskiptaráðu neytisins innan þrjátíu daga frá því að kæranda berst tilkynning um úrskurð firmaskrárritara.

Um 2. gr.

    Í þessari grein kemur fram að til þess að mega stunda verslun á Íslandi eða í íslenskri land helgi er skylt að viðkomandi verslunarrekstur hafi uppfyllt skilyrði frumvarpsins um skráningu verslunar hjá firmaskrá o.s.frv.

Um 3. gr.

    Nauðsynlegt er að skilgreina nokkur hugtök sem notuð eru í frumvarpinu og er það gert í greininni. Föst starfsstöð er skilgreind sem húsnæði eða annað rými þar eða þaðan sem rekin er, staðbundið og reglulega, verslun í atvinnuskyni. Algengast er að verslun sé rekin í fastri starfsstöð og er gert ráð fyrir því að svo verði áfram. Verslunarhættir eru í örri þróun og annar háttur á verslunarstarfsemi hefur orðið algengari en var en það er verslun í því sem nefnt er í frumvarpinu hreyfanleg starfsstöð. Þar er um að ræða verslun sem rekin er í starfsstöð sem er hreyfanleg, svo sem bifreiðar sem innréttaðar eru sem verslanir og vagnar sem dregnir eru frá einum stað til annars. Markaðir eru í frumvarpinu skilgreindir sérstaklega en þar er um að ræða verslun sem rekin er utan fastrar starfsstöðvar hvort heldur sem er innan eða utan húss, t.d. sala á torgum eða önnur álíka starfsemi. Í þessari grein er einnig skilgreint hugtakið farandsala en það er verslun sem fram fer utan fastrar starfsstöðvar með þeim hætti að sá sem skráð hefur verslunarrekstur fer fótgangandi hús úr húsi eða ekur t.d. milli bæja í dreifbýli og veitir þjónustu með þeim hætti. Loks er skilgreint hugtakið sjálfsali en það er nauðsynlegt, m.a. vegna ákvæða 5. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í þessari grein kemur fram það grundvallarskilyrði frumvarpsins að til þess að mega stunda verslunaratvinnu ber að skrá verslunarreksturinn í firma- eða hlutafélagaskrá eftir því sem við getur átt og í samræmi við þau lög sem um hana gilda. Skráningarskyldan tekur því til allrar verslunar hvort heldur sem um er að ræða starfsemi hlutfélags eða einkahlutafélags, sam eignarfélags , stofnunar eða verslunaratvinnu sem einstaklingar stunda. Eldri lög um versl unaratvinnu hafa byggst á því að allir sem stunda vilja verslunaratvinnu skuli fá útgefið versl unarleyfi. Nefndin telur að slíkum leyfisveitingum fylgi skrifræði sem íþyngi þeim sem stunda verslunaratvinnu. Nauðsynlegt er þó að aðhald og eftirlit sé með þeim sem hana stunda og miða ákvæði þessa frumvarps að því að settur verði slíkur rammi um verslunina. Nefndin sem samið hefur frumvarpið telur eðlilegt að notað sé það eftirlitskerfi sem felst í lögum um skráningu firma og félaga og ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir sérstökum leyfisbréfum svo sem verið hefur heldur að byggt verði á því að öll verslun skuli skráð í firma- eða hlutafélagaskrá (fyrirtækjaskrá). Loks má geta þess að samkvæmt gildandi lögum um versl unaratvinnu eru gerðar menntunarkröfur til þeirra sem vilja stunda hana. Í lögunum er þó undanþáguheimild frá þeim ákvæðum og hefur henni verið beitt í ríkum mæli nánast frá því að lögin voru sett árið 1968. Í reynd hefur réttarframkvæmd við veitingu verslunarleyfa verið afar rúm og eru því ákvæði frumvarpsins í reynd staðfesting á ríkjandi fyrirkomulagi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um rétt dánarbúa og gjaldþrotabúa til að stunda áfram verslun sam kvæmt ákvæðum laga um firmaskrár.
    Í 3. mgr. er tekið fram að sala notaðra ökutækja sé eingöngu heimil á fastri starfsstöð. Þá er hér lagt til að á sérhverri starfsstöð skuli framkvæmdastjóri eða yfirmaður hafa leyfi skv. 14. gr. Þetta á þó ekki við ef um er að ræða útibú hlutafélags eða einkahlutafélags sem fengið hefur slíkt leyfi.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er sett regla til hagsbóta fyrir neytendur og aðra viðskiptavini þess sem skráður er fyrir verslunarrekstri. Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins skal setja upp nafnspjald sem sýni á greinilegan hátt nafn, kennitölu og heimilisfang verslunarinnar. Erfitt kann oft á tíðum að vera fyrir neytendur og aðra viðskiptavini að átta sig á því hver ber ábyrgð á þeirri verslun sem þeir eiga viðskipti við, t.d. sjálfsala, farandsala og torgsölu. Ákvæðinu er ætlað að koma til móts við þau sjónarmið að ávallt sé skýrt hver sé ábyrgur fyrir þeim verslunar rekstri sem stundaður er. Ákvæði af þessu tagi eru þekkt annars staðar á Norðurlöndum.
    Einnig er lagt til að á pöntunareyðublöðum, bréfsefni og öðrum skjölum sem verslun notar í viðskiptum sínum komi fram upplýsingar um þann sem hefur skráð verslunarrekstur. Loks er í ákvæðinu tekið fram að hið sama skuli gilda um svonefnda fjarsölu en það er verslun sem að öllu leyti fer fram með notkun fjarskiptatækni.
    Fjarsala byggist á því að við samningsgerð er notaður hvers kyns fjarskiptabúnaður, svo sem tölvur. Í viðskiptaráðuneytinu er í undirbúningi frumvarp til laga um fjarsölusamninga og neytendavernd þegar notuð er fjarskiptatækni við vörukaup.
    Rétt er því að taka fram sérstaklega í þessu frumvarpi að ákvæði þessarar greinar um auð kenningu verslunar eigi við með sama hætti um fjarsölu og þegar sala á sér stað á hefðbundinn hátt.

Um 6. gr.

    Firmaskrárritari eða hlutafélagaskrá, eftir því sem við getur átt, lætur í té staðfestingu á því að verslun sé skráð í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Að öðru leyti þarfnast ákvæði þetta ekki skýringar.

Um 7. gr.

    Verslun og þjónusta í tengslum við hana er í stöðugri þróun. Ljóst er að ekki er ávallt rekstrargrundvöllur fyrir verslun í fastri starfsstöð, einkum í hinum dreifðari byggðum lands ins. Ýmiss konar farandsala hefur oft leyst úr brýnni þörf neytenda fyrir verslunarþjónustu á heimili þeirra eða í nágrenni heimilisins. Auk þess hefur farandsala oft leitt til aukins vöru framboðs og stuðlað að aukinni samkeppni, bæði hvað varðar verð vöru og gæði. Frjáls sam keppni á sviði verslunar og þjónustu er hornsteinn þess að neytendum standi til boða vörur á eins lágu verði og markaðsaðstæður leyfa hverju sinni. Mikilvægt er því að í lögum sé ekki þrengt að farandsölu til þess að framangreindum markmiðum verði náð. Í frumvarpinu eru því ekki ákvæði sem takmarka á nokkurn hátt farandsölu og ber við þá starfsemi einungis að fara eftir þeim almennu ákvæðum sem um verslunina gilda samkvæmt frumvarpinu, svo og þeim sérlögum sem kunna að eiga við hverju sinni, svo sem lög um matvæli, lyfjalög, o.s.frv. Rétt þykir þó að veita sveitarstjórnum heimild í þessari grein til þess að setja staðbundnar sam þykktir sem varða réttindi og skyldur farandsala ef þær telja ástæðu til þess. Hér er haft í huga að nauðsynlegt kann að þykja að setja slíkar reglur, svo sem um það á hvaða dögum slík starfsemi kann að vera bönnuð og þess háttar. Samþykktir sveitarstjórna ber að senda til ráðuneytisins til samþykktar, sbr. ákvæði 27. gr. frumvarpsins, og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda enda telji ráðuneytið að ákvæði 26. gr. frumvarpsins standi ekki í vegi fyrir því.

Um 8. gr.

    Þeir sem stunda farandsölu skulu afhenda kaupanda vöru upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang þess sem er ábyrgur fyrir verslunarresktrinum og er þetta svipað ákvæði og í 5. gr. frumvarpsins. Rétt þykir að ítreka hér framangreinda skyldu skv. 5. gr.

Um 9.–11. gr.

    Í 9.–11. gr. eru ákvæði sem eru efnislega samhljóða ákvæðum í lögum nr. 61/1979, um sölu notaðra lausafjármuna.
    Rétt þykir að krefjast þess að þeir sem taka að sér endur- eða umboðssölu á notuðum lausa fjármunum sýni fyllstu aðgát við kaup þeirra og sölu. Seljendum ber skylda til þess að skrá og verðmerkja allan slíkan varning. Í reglugerð sem ráðherra setur er heimilt að kveða nánar á um skráningu varnings og varðveislu skrárinnar.

Um 12.–20. gr.

    Í þessum kafla frumvarpsins eru ákvæði sem eru efnislega samhljóða ákvæðum í lögum nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja, ásamt síðari breytingum á þeim lögum. Auk þeirra at hugasemda sem hér fara á eftir þykir rétt varðandi athugasemdir við einstakar greinar að vísa til athugasemdanna sem fylgdu því frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja.
    Í 12. gr. kemur fram að um sölu notaðra ökutækja gilda ákvæði þessa kafla auk annarra ákvæða frumvarpsins. Sem fyrr segir hafa sérlög sem áður giltu um þetta efni verið felld inn í frumvarpið sem sérstakur kafli.
    Í 13. gr. er kveðið á um að þeir sem hafa milligöngu um sölu notaðra ökutækja skuli hafa ábyrgðartryggingu og hafa lokið sérstöku námskeiði og prófi. Um tryggingar, svo og námskeið og próf, skal enn fremur vísað til ákvæða í gildandi reglugerðum um þetta efni, sbr. reglugerð nr. 406/1994 og reglugerð nr. 407/1994.
    Í 14.–20. gr. frumvarpsins eru efnisreglur um réttindi og skyldur bifreiðasala sem eru að öllu leyti samhljóða gildandi lögum um þetta efni. Að öðru leyti þarfnast ákvæðin ekki skýr ingar.

Um 21. gr.

    Í 21.–24. gr. eru tillögur um að sett verði í lög sérstök ákvæði um frjáls uppboð og er það nýmæli. Þangað til lög voru sett um aðgreiningu dómsvalds og umboðsvalds í héraði og þær lagabreytingar urðu sem fylgdu í kjölfar þeirra var litið svo á að einungis sýslumenn og fóget ar hefðu heimild til að halda frjáls uppboð, sbr. Hrd. XXV: 494. Þetta byggðist á því að fram til þess tíma voru í gildi ákvæði tilskipunar frá 16. desember 1693 um uppboðsþing í Danmörku og Noregi en hún hefur nú verið felld brott.
    Í 1. mgr. er tekið fram að þeim sem hafa skráð verslunaratvinnu er því heimilt að halda upp boð. Rétt þykir þó að settar séu nánari reglur um uppboðshaldið, sbr. ákvæði 21.–24. gr. frum varpsins.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að lögreglustjórar í því umdæmi þar sem uppboð skal haldið utan fastrar starfsstöðvar veiti leyfi til uppboðshaldsins hverju sinni enda eðlilegt með tilliti til almannareglu. Þetta á þó ekki við frjálst uppboð á listmunum sem fram fer í öðru húsnæði en fastri starfsstöð.
    Í 3. mgr. er einnig heimild fyrir sveitarstjórnir til þess að setja nánari reglur um uppboðs hald á grundvelli ákvæða frumvarpsins telji þær ástæðu til þess.

Um 22. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 23. og 24. gr.

    Í þessum greinum er kveðið nánar á um skyldur þess er stendur fyrir uppboði, þ.e. uppboðs stjóra, og hvernig hann skuli haga uppboðshaldinu.
    Mikilvægt er að uppboðsskilmálar séu skýrir og þannig að þeir veiti uppboðsgestum full nægjandi upplýsingar. Hér er einnig kveðið á um rétt uppboðsgesta til að skoða þá hluti sem sem seldir eru því að hæstbjóðandi verður eigandi við hamarshögg nema uppboðsskilmálar mæli fyrir um að það skuli vera á annan veg. Mótbárum sem kaupandi getur haft uppi vegna þeirrar vöru sem hann kaupir á uppboði eru þrengri skorður settar en almennt gerist við kaup og sölu, sbr. 3. mgr. 24. gr.
    Verði lögfest almenn ákvæði um frjáls uppboð með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu er ekki framar þörf fyrir sérstök lög um listmunauppboð og er í 31. gr. frumvarpsins lagt til að lög nr. 36/1987, um listmunauppboð o.fl., verði felld úr gildi. Í þeim lögum er hins vegar ákvæði um að sérstakt gjald sem lagt skal á málverk, myndir og listmuni skuli renna til lista manna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum en samsvarandi ákvæði er í 6. mgr. 24. gr. þessa frumvarps. Sé höfundarréttur fallinn niður rennur gjald þetta til starfslauna handa myndlistarmönnum og er menntamálaráðherra falið að setja nánari reglur um ráðstöfun gjaldsins en nánar vísast um það til gildandi reglugerðar um þetta efni, sbr. reglugerð nr. 244/1993. Sem fyrr segir hefur verið lögð á það áhersla við samningu þessa frumvarps að ekki séu felld brott þau ákvæði gildandi sérlaga sem telja verður að hafi enn sjálfstæða efnislega þýðingu. Ákvæði 6. mgr. 24. gr. frumvarpsins er einmitt dæmi um slíkt ákvæði.

Um 25.–28. gr.

    Í 25.–28. gr. eru ákvæði um samþykktir um lokunartíma sölubúða. Ákvæðin eru efnislega í samræmi við gildandi lög um þetta efni, nr. 17/1936, en þau lög eru jafnframt felld úr gildi, sbr. ákvæði 31. gr. frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að samþykktir sveitarstjórna verði staðfestar af viðskiptaráðuneytinu en hingað til hefur slík staðfesting fengist í félagsmálaráðuneytinu. Við undirbúning þessa frum varps taldi félagsmálaráðuneytið réttast að slíkar samþykktir yrðu framvegis staðfestar af viðskiptaráðherra og er við það miðað í 27. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti þarfnast ákvæðin ekki frekari skýringar.

Um 29. gr.

    Í þessari grein er kveðið svo á að um brot gegn lögunum fari að hætti opinberra mála auk þess sem kveðið er á um viðurlög við brotum.
    Í fyrri málslið 2. mgr. er fólgið almennt refsiákvæði ef tilkynningar eru vanræktar til firma skrár en samkvæmt ákvæðinu geta slík brot varðað sektum eða varðhaldi. Í síðari málslið 2. mgr. er lagt til að unnt sé að beita þeim úrræðum sem firmaskrá hefur til að afmá fyrirtæki úr firmaskrá hafi sá sem skráð hefur verslun ítrekað brotið gegn þeim lagaákvæðum sem um verslunarstarfsemi gilda. Nauðsynlegt er að í lögum sé slík heimild til að koma í veg fyrir að þeir sem ítrekað brjóta lög, svo sem með því að setja á markað vörur sem eru hættulegar lífi og heilsu manna eða með öðrum samsvarandi hætti, geti stundað verslunarrekstur áfram.
    Í 3. mgr. er heimild til þess að dæma firma til greiðslu sektar. Að öðru leyti þarfnast ákvæð ið ekki skýringar.

Um 30. gr.

    Í greininni er tekið fram að viðskiptaráðherra skuli fara með framkvæmd laganna og honum veitt heimild til að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þeirra ef þörf krefur. Einnig er lagt til að fyrir skráningu á verslun samkvæmt frumvarpinu verði greitt skráningargjald í samræmi við 13. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 31. gr.

    Í þessari grein eru felld úr gildi ýmis lög sem sett hafa verið um verslunaratvinnu á árunum 1936–1996 en eins og áður hefur komið fram þykir rétt að ákvæðum þessara laga sé nú skipað með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu. Auk þess er er hér lagt til að felldir verði brott 1.–5. tölul. 11. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, sem kveða á um greiðslu fyrir verslunarleyfi samkvæmt lögum nr. 41/1968, um verslunaratvinnu, sem felld eru úr gildi með þessu frumvarpi. Verði frumvarpið að lögum eiga fyrrgreind ákvæði ekki við. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda og athugasemda við einstakar greinar frum varpsins.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í gildandi lögum nr. 41/1968, um verslunaratvinnu, er gert ráð fyrir að verslunarleyfi séu gefin út til fimm ára í senn. Að þeim tíma liðnum ber að endurnýja leyfin. Gert er ráð fyrir því samkvæmt ákvæði til bráðabirgða að jafnóðum og leyfishafar leita eftir endurnýjun þeirra leyfa sem þeim hafa verið veitt á grundvelli gildandi laga skrái firmaskrá viðkomandi versl unarstarfsemi á grundvelli ákvæða í þessu frumvarpi. Innan fimm ára frá gildistöku laganna ætti því skráningu á þeim rétthöfum sem nú hafa gild verslunarleyfi að vera lokið.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um verslunaratvinnu.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að nokkur lög er varða verslun og viðskipti verði sameinuð í einn lagabálk. Í 31. gr. er lagt til að 1.–5. tölul. 11. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs falli niður. Í þeim lagagreinum er kveðið á um að heildsöluleyfi skuli kosta 70.000 kr., umboðssöluleyfi 50.000 kr., smásöluleyfi 50.000 kr., lausaverslunarleyfi 50.000 kr. og end urnýjun verslunarleyfis 20.000 kr. Ekki eru til gögn um tekjur af útgáfu þessara leyfa sérstak lega, en heildartekjur af útgáfu leyfa til atvinnustarfsemi og tengdra leyfa námu 24,5 m.kr. á árinu 1996. Nái frumvarpið að verða að lögum munu tekjur þessar falla brott hvað umrædd leyfi varðar. Á móti kemur að skv. 4. gr. er skylt að skrásetja stundaða verslun í firma- eða hlutafélagaskrá, en það hefur ekki verið skylda til þessa þegar um einstaklinga er að ræða. Slík skráning kostar 40.000 kr. skv. 4. tölul. 13. gr. aukatekjulaganna. Árlegar tekjur ríkissjóðs vegna framangreindra breytinga munu lækka eitthvað. Erfitt er að meta með nákvæmni hve lækkunin er mikil, en 2–4 m.kr. er ekki ósennilegt.