Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 164 – 164. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra skipar þriggja manna nefnd er nefnist örnefnanefnd. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár í senn. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Örnefnastofnun Íslands, annar af umhverfisráðuneyti en hinn þriðja, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, skipar ráðherra án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Allir skulu nefndarmenn vera kunnáttumenn á sviði örnefna- og staðfræði.
    Örnefnanefnd fer með ákvörðunarvald um býlanöfn samkvæmt lögum þessum og jafnframt ákvarðar hún hvaða örnefni verða sett á landabréf sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirrar stofnunar, sé ágreiningur eða álitamál um það efni. Þá sker nefndin úr ágreiningi um ný götunöfn og sambærileg örnefni innan sveitarfélaga. Málsaðild eiga Landmælingar Íslands, aðrir kortagerðarmenn, Örnefnastofnun Íslands, landeigendur, sveitarstjórnir og hlutaðeigandi ráðuneyti, en um málsaðild fer að öðru leyti að hætti stjórn sýslulaga. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslusviði. Heimilt er nefndinni að leita álits sérfræðinga áður en ákvarðanir eru teknar.
    Í reglugerð, sem menntamálaráðherra setur, skal kveðið nánar á um starfsemi örnefna nefndar. Skulu þar m.a. vera ákvæði um undirbúningsferli ákvarðana nefndarinnar um nafn setningar á landabréf, þar á meðal um að örnefni, sem ágreiningur er um, skuli auglýst fyrir almenningi með hæfilegum fyrirvara þannig að hverjum þeim sem telur sig búa yfir vitneskju eða ábendingum, er að haldi komi, gefist færi á að kynna nefndinni álit sitt. Einnig má þar setja ákvæði um sambærilegt undirbúningsferli að annars konar ákvörðunum nefndarinnar.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Nöfnum á býlum utan kaupstaða og kauptúna eða þorpa, sem skráð hafa verið hjá Fast eignamati ríkisins, má ekki breyta nema með leyfi örnefnanefndar.

3. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Eigi má taka upp nafn á nýbýli utan kaupstaða, kauptúna eða þorpa nema með leyfi ör nefnanefndar.

4. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
    Ágreiningi um nafngift skv. 1. mgr. verður skotið til endanlegs úrskurðar örnefnanefndar.

5. gr.

    Fimm fyrstu málsliðir 8. gr. laganna orðast svo: Örnefnanefnd skal svo fljótt sem henni er mögulegt eftir að henni hafa borist beiðnir um nafnfesti á býlum eða þorpum eftir 5. og 7. gr., sem og önnur erindi til ákvörðunar, leggja rökstuddan úrskurð á málið. Telji nefndin nafntökunni ekkert til fyrirstöðu gefur hún út leyfisbréf til hennar. Nú telur örnefnanefnd ekki rétt að lögfesta nafn sem um er beðið á nýbýli og skal hún þá tilkynna það umsækjanda og jafnframt benda honum á nöfn sem hann megi velja á milli á býli sitt. Hafi umsækjandi ekki innan sex mánaða valið eitt þeirra eða nýtt nafn sem nefndin fellst á og tilkynnt það örnefnanefnd úrskurðar nefndin um það hvert nafn býlið skuli fá og gefur út fyrir því leyfisbréf. Leyfisbréf fyrir nafntöku býlis sendir örnefnanefnd hlutaðeigandi þinglýsingar stjóra til þinglýsingar og skal hann skýra þinglýstum veðhöfum frá nafnbreytingunni ef þeir eru kunnir.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1998. Rennur þá jafnframt út skipunartími þeirrar örnefna nefndar er starfað hefur samkvæmt heimild í 2. gr. núgildandi laga.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laga þessara er menntamálaráðherra heimilt að skipa örnefnanefnd fyrir þann tíma sem þar er greindur þannig að hún geti tekið við störfum 1. ágúst 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þessa efnis var lagt fram á 121. löggjafarþingi en varð þá eigi útrætt. Frumvarpið hefur nú verið endurskoðað með hliðsjón af þeim umsögnum sem menntamálanefnd aflaði.
    Efni frumvarpsins hefur nokkur tengsl við frumvarp til laga um Örnefnastofnun Íslands sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi. Með frumvörpunum er stefnt að því að ef þau ná lögfestingu verði búinn fullnægjandi lagarammi um stjórn örnefnamálefna, að því marki sem þau heyra undir menntamálaráðuneytið.
    Haft var samráð við umhverfisráðuneyti og fulltrúa Landmælinga Íslands hvað varðar þann þátt þessa frumvarps er snýr að úrskurðarvaldi um það hvaða örnefni verða sett á opinber landabréf.
    Meginatriði frumvarpsins miðar að því að komið verði á fullnægjandi aðferð til þess að 1) fara með ákvörðunarvald um býlanöfn og nöfn á nýjum þéttbýliskjörnum og 2) skera úr um ágreiningsatriði og álitamál um nafnsetningar á landakort og um ný eða breytt gatnanöfn og þess háttar. Um fyrra atriðið hafa verið ákvæði í lögum nr. 35/1953, um bæjanöfn o.fl., og á grundvelli þeirra hefur menntamálaráðherra farið með ákvörðunarvaldið en sérstök nefnd, örnefnanefnd, verið ráðgefandi í því efni. Um síðara atriðið er það hins vegar að segja að um það hafa engin ákvæði verið í lögum til þessa og hefur það í reynd verið bagalegt. Samkvæmt lögum um bæjanöfn o.fl. er örnefnanefnd þó ætlað að vera til ráðgjafar um nafnsetningar á landabréf, en úrskurðar- eða ákvörðunarvald hefur hún ekki á því sviði. Er tímabært að úr þessu verði bætt með viðunandi hætti.
    Er hér lagt til að ákvörðunarvaldið um báða þá stjórnsýsluþætti sem nú voru nefndir verði alfarið lagt í hendur nefndarinnar og þannig að úrskurðir hennar séu endanlegir á stjórnsýslu sviði sem táknar að þeim verði ekki skotið undir æðra stjórnvald, þ.e. ráðuneyti, til endurskoðunar. Nefndin sjálf heyrir hins vegar stjórnarfarslega undir menntamálaráðuneyti sem hefur almennt eftirlit með starfi hennar og lögmæti einstakra úrskurða hennar verður jafnframt borið undir dómstóla á venjubundinn hátt, ef því er að skipta. Þykir rétt vera og eðlilegt að örnefnanefnd, sem skipuð verður sérfróðum mönnum, fjalli um bæði þau svið örnefnamálefna sem hér var vikið að fremur en að sérstök nefnd starfi á hvoru sviði um sig.
    Tekið skal fram að með ákvæðum frumvarps þessa um starfsemi örnefnanefndar er á engan hátt stefnt að því að draga úr núverandi frumkvæði sveitarstjórna varðandi nafngiftir gatna, torga og þess háttar heldur er hér einungis fjallað um úrskurðarvald vegna ágreinings á því sviði.
    Það fyrirkomulag sem hér var lýst er sambærilegt við það form á úrskurðarvaldi um manna nöfn sem verið hefur síðari ár samkvæmt lögum um það efni og bærilega hefur þótt gefast. Á þetta m.a. við um tölu nefndarmanna en einnig um það fyrirkomulag að úrskurðir nefndarinnar séu endanlegir. Minnt skal á að þau fræði er lúta að mannanöfnum og örnefnum heyra undir greinina nafnfræði sem er viðurkennd sérgrein á sviði málvísinda.
    Ekki þótti að sinni næg ástæða til þess að gera tillögur til víðtækari breytinga á lögum um bæjanöfn en sem svarar til þess markmiðs er hér var lýst.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Um meginatriði ákvæðisins vísast til almennra athugasemda hér að framan. Sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á síðustu málsgrein 2. gr. laganna eins og henni er ætlað að hljóða hljóti frumvarpið lögfestingu. Þar segir að í reglugerð skuli kveðið nánar á um starfsemi örnefnanefndar, m.a. um undirbúningsferli ákvarðana nefndarinnar um nafnsetningar á landabréf, en um það efni hafa engin ákvæði gilt til þessa. Hér er gert ráð fyrir að örnefni, sem ágreiningur er um, verði auglýst fyrir almenningi með hæfilegum fyrirvara þannig að unnt sé að koma við ábendingum sem að gagni kunna að koma í því sambandi. Þetta fyrirkomulag á sér m.a. nokkra fyrirmynd í bandarískri stjórnsýslu á sambærilegu sviði og hefur þótt gefast vel þar. Má einnig benda á að með þessu móti er skírskotað til almennings líkt og er nú lögboðið á sviði tiltekinna umhverfismála sem geta varðað marga, sbr. ákvæði þar um varðandi skipulagsmál og umhverfismat. Þá er og lagt til að í reglugerð megi kveða á um sambærilegt undirbúningsferli að annars konar ákvörðunum nefndarinnar.
    Í greininni er gert ráð fyrir breyttri skipan örnefnanefndar. Í stað fimm manna, sem ráðherra skipar án tilnefningar eftir gildandi lögum, koma þrír og skal einn þeirra tilnefndur af Örnefnastofnun Íslands en annar af umhverfisráðuneyti.

Um 2.–4. gr.

    Þær breytingar á hlutaðeigandi ákvæðum núgildandi laga sem hér koma fram eru einfaldar og leiðir beinlínis af hinni nýju skipan á úrskurðarvaldi á þessu sviði sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Að öðru leyti þarfnast ákvæðin ekki sérstakra skýringa.

Um 5. gr.

    Þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á 8. gr. núgildandi laga, eru í samræmi við það meginmarkmið frumvarpsins sem lýst var í almennum athugasemdum. Auk þess er sú breyting gerð að ábending örnefnanefndar, ef hún fellst ekki á nafnumsókn, er ekki bundin við þrjú nöfn eins og í gildandi lögum.

Um 6. gr.

    Gildistökuákvæðið tekur mið af því tímamarki sem fram kemur í frumvarpi til laga um Örnefnastofnun Íslands, en um skyldleika frumvarpanna vísast til almennra athugasemda. Rétt þótti að miða jafnframt við það að á sama tíma renni út skipunartími þeirrar örnefnanefndar sem starfað hefur eftir gildandi lögum.

Um ákvæði til bráðbirgða.

    Rétt þykir að gerðar verði ráðstafanir til þess að unnt verði að skipa nýja örnefnanefnd það tímanlega að hún geti tekið við störfum 1. ágúst 1998.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bæjarnöfn o.fl.,
nr. 35/1953, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að fela örnefnanefnd ákvörðunarvald hvað varðar nafngiftir á býlum og nýjum þéttbýliskjörnum og fara með úrskurðarvald í ágreiningi um nafngiftir gatna, torga, nafngiftir á landabréfum og þess háttar. Samkvæmt gildandi lögum er vald þetta hjá menntamálaráðuneytinu og nefndin ráðgefandi.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að nefndarmönnum í örnefnanefnd fækki úr fimm í þrjá og að vinna við úrskurði og ákvarðanatöku færist frá menntamálaráðuneyti til örnefnanefndar. Að því er séð verður mun frumvarpið ekki hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs.