Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 175 – 175. mál.Frumvarp til vopnalaga.(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)I. KAFLI
Gildissvið laganna.
1. gr.

    Með vopni er í lögum þessum átt við hvert það tæki eða efni sem unnt er að beita til að deyða eða skaða heilsu manna eða dýra tímabundið eða varanlega, enda sé með tilliti til aðstæðna ástæða til að ætla að fyrirhugað sé að nota tækið eða efnið í slíkum tilgangi.
    Með skotvopni er í lögum þessum átt við vopn eða tæki sem hægt er með sprengikrafti, samanþjöppuðu lofti eða á annan sambærilegan hátt að skjóta úr kúlum, höglum eða öðrum skeytum.
    Með skotfærum er í lögum þessum átt við hvers konar skot eða skeyti sem gerð eru til að skjóta úr skotvopnum.
    Með sprengiefni er í lögum þessum átt við fast eða fljótandi efni eða efnablöndu sem hefur þann eiginleika að geta sprungið við högg, þrýsting eða hita, svo og kveikiefni, svo sem hvellhettur og kveikiþræði.
    Með skoteldum er í lögum þessum átt við flugelda, reyk- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrautelda.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða nánar en um getur í 2.–5. mgr. hvaða efni og tæki skuli teljast skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skoteldar og kveða nánar á um flokkun þeirra.

2. gr.

    Ákvæði laga þessara gilda um:
     a.      skotvopn,
     b.      skotfæri,
     c.      sprengiefni,
     d.      skotelda,
     e.      önnur vopn, svo sem hnúajárn, örvaboga, högg-, stungu- eða eggvopn, rafmagnsvopn og gasvopn,
     f.      efni og tæki sem samkvæmt skilgreiningu 1. gr. teljast ekki til skotvopna, skotfæra, sprengiefna eða skotelda en hafa svipaða eiginleika og verkanir og
     g.      eftirlíkingar þeirra vopna sem getur í liðum a.–f.
    Ákvæði laganna gilda einnig um einstaka hluta þeirra efna og tækja sem tilgreind eru í 1. mgr., svo sem láshús, hlaup, hvellhettur og púður.
    Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um meðferð og notkun vopna sem greinir í 1. og 2. mgr. Þar er m.a. heimilt að kveða á um bann við einstökum vopnum.

3. gr.

    Lög þessi gilda ekki um vopn, tæki og efni skv. 1. og 2. gr. sem eru í eigu Landhelgisgæslu, lögreglu eða fangelsa. Ráðherra setur um þau sérstakar reglur.
    Ákvæði laganna gilda ekki um eftirgreind tæki og efni:
     a.      naglabyssur og skothamra sem ætluð eru til að nota í byggingariðnaði,
     b.      línubyssur og tilheyrandi skotfæri, merkjabyssur eða önnur slík skotvopn og skotelda sem eingöngu eru notaðir við björgunarstörf,
     c.      vopn og tæki sem eingöngu eru notuð við aflífun dýra í löggiltum sláturhúsum,
     d.      önnur tæki og efni sem valda óverulegri hættu samkvæmt ákvörðun ráðherra.

II. KAFLI
Framleiðsla, innflutningur, útflutningur og verslun.
4. gr.

    Enginn má framleiða skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda í atvinnuskyni nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar lögreglustjóra, Vinnu eftirlits ríkisins og slökkviliðsstjóra eða annarra yfirvalda er með brunamál fara.
    Leyfi skv. 1. mgr. má aðeins veita þeim einstaklingi sem hefur skotvopnaleyfi og sýnir að öðru leyti fram á hæfni sína til framleiðslunnar.
    Heimilt er að veita skráðu félagi eða firma leyfi skv. 1. mgr., enda tilnefni það einn starfsmann sinn eða fleiri sem fullnægja skilyrðum 2. mgr. til þess að annast framleiðsluna.
    Handhafa skotvopnaleyfis er heimilt að fengnu leyfi lögreglustjóra að hlaða skothylki til eigin nota í þau skotvopn sem hann hefur leyfi fyrir, enda sé heimilt að nota slík skotfæri hér á landi. Skilyrði slíks leyfis eru að lögreglustjóri telji viðkomandi hafa nægilega þekkingu til þess að hlaða skothylki og fara með hleðslubúnað, að hann hafi haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár og gengist undir námskeið í hleðslu skotfæra, en ríkislögreglustjóri þarf að samþykkja námsefni og fyrirkomulag slíkra námskeiða. Í leyfi skal koma fram hversu mikið magn af púðri, hvellhettum og skothylkjum leyfishafa er heimilt að kaupa.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um réttindi og skyldur framleiðanda samkvæmt þessari grein, þar með talið um framleiðslu, búnað framleiðsluhúsnæðis og nauðsynlegar öryggisreglur. Áður en slík reglugerð er sett skal haft samráð við Vinnueftirlit ríkisins og Brunamálastofnun ríkisins.

5. gr.

    Enginn má flytja til landsins skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Leyfi til verslunar með skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda skv. 7. gr. felur jafnframt í sér leyfi til innflutnings á þeim vörum. Ríkislögreglustjóra er heimilt að fela lögreglustjórum að veita slík leyfi. Áður en leyfi er veitt til innflutnings skotvopna skal leita umsagnar lögreglustjóra, slökkviliðsstjóra eða annarra yfirvalda er með brunamál fara. Sé sótt um leyfi til innflutnings á sprengiefni skal og leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins.
    Ríkislögreglustjóra er heimilt að veita þeim sem hafa skotvopnaleyfi leyfi til innflutnings skotvopna og skotfæra til eigin nota samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð.
    Óheimilt er að flytja til landsins eða framleiða skotvopn sem ekki eru númeruð eintaksnúmeri framleiðanda. Ríkislögreglustjóra er heimilt að víkja frá þessu skilyrði þegar skotvopn hefur ótvírætt söfnunargildi.
    Óheimilt er að flytja inn eða framleiða:
     a.      sjálfvirka eða hálfsjálfvirka skammbyssu,
     b.      sjálfvirkan eða hálfsjálfvirkan riffil,
     c.      sjálfvirka haglabyssu,
     d.      hálfsjálfvirka eða handhlaðna fjölskota haglabyssu með skothylkjahólfum sem tekur fleiri en tvö skothylki nema henni hafi verið breytt til samræmis við þennan áskilnað.
    Innflutningur og framleiðsla á eftirlíkingum vopna er bannaður, enda sé ástæða til að ætla að erfitt sé að greina þær frá fyrirmyndinni.
    Óheimilt er að flytja til landsins, framleiða eða eiga sérstaklega hættulegar tegundir vopna sem eingöngu eru ætluð til nota í hernaði, svo og slík skotfæri, skotelda og sprengiefni.
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–6. mgr. er heimilt með leyfi ríkislögreglustjóra að framleiða vopn til útflutnings. Ríkislögreglustjóri getur og heimilað innflutning slíkra vopna ef þau hafa ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs þeirra eða tengsla við sögu landsins.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd innflutnings samkvæmt þessari grein, m.a. um staðfestingu lögreglustjóra á vörureikningum áður en tollafgreiðsla fer fram, um innflutning þeirra efna og tækja sem greind eru í 3.–6. mgr. og eftirlíkinga þeirra. Í reglugerðinni er einnig heimilt að ákveða nánar hvaða efni og tæki megi flytja til landsins.

6. gr.

    Enginn má flytja úr landi skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri má fela lögreglustjórum að gefa út slík leyfi þar sem um er að ræða tímabundinn flutning á milli landa.
    Ekki þarf leyfi fyrir greindum tækjum og efnum sem flutt eru úr landi með skipum eða flugförum ef þessar vörur teljast vera nauðsynlegur búnaður skips eða flugfars.

7. gr.

    Enginn má versla með skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda nema að fengnu leyfi ríkislögreglustjóra.
    Leyfi skv. 1. mgr. má aðeins veita þeim einstaklingi sem hefur verslunarleyfi og skotvopnaleyfi eða sérþekkingu á þeim vörum sem þar um ræðir eftir nánari reglum sem ráðherra setur.
    Leyfi skv. 1. mgr. má veita skrásettu firma eða félagi sem hefur verslunarleyfi, enda tilnefni firmað eða félagið mann sem fullnægi skilyrðum 2. mgr. og hafi umsjón með daglegri verslun og ábyrgist vörslu varanna ásamt stjórnendum firmans eða félagsins.
    Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita félagasamtökum leyfi til þess að selja skotelda í smásölu, enda þótt þau hafi ekki verslunarleyfi. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur ríkislögreglustjóri heimilað lögreglustjórum að veita leyfi til að selja skotelda í smásölu.
    Aðeins skal veita þeim leyfi skv. 1. mgr. sem hafa til umráða fullnægjandi húsnæði til þess að geyma í þargreindar vörur. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um slíkt húsnæði og um vörslu varanna.
    Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt skal leita umsagnar viðkomandi lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra eða annarra yfirvalda sem með brunamál fara.
    Leyfi skv. 1. mgr. skal ekki veita til lengri tíma en fimm ára eða til skemmri tíma ef ástæða þykir til að mati ríkislögreglustjóra.

8. gr.

    Ríkislögreglustjóra er heimilt að veita leyfi til reksturs skotvopnaleigu, enda sé fullnægt ákvæðum 2., 3., 5., 6. og 7. mgr. 7. gr.
    Ráðherra skal setja reglugerð um rekstur skotvopnaleigu og þar skal m.a. kveða nánar á um skilyrði sem leigutaki og leigusali skulu fullnægja, svo og um starfsemina að öðru leyti.

9. gr.

    Verslunareigandi, innflytjandi eða framleiðandi skotvopna, skotfæra, sprengiefna og skotelda skal halda færslubók yfir keypt og seld skotvopn og skotfæri. Skal hann gefa viðkomandi lögreglustjóra, hvenær sem hann óskar þess, nákvæmar upplýsingar um seldar vörur og óseldar vörubirgðir.
    Lögreglustjóri getur, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að húsnæði þar sem skotvopn, skotfæri, skoteldar eða sprengiefni er framleitt eða þar sem birgðir af þessum vörum eru geymdar.

10. gr.

    Sá sem hefur fengið leyfi til að versla með skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda eða leyfi til reksturs skotvopnaleigu má ekki selja eða á annan hátt afhenda þargreindar vörur öðrum en þeim sem sýnir skilríki fyrir því að hann megi kaupa eða taka á móti vörunum.
    Óheimilt er að afhenda kaupanda skotfæri í önnur vopn en þau sem hann hefur heimild til að nota samkvæmt skilríkjum þeim sem hann framvísar skv. 1. mgr. Sama gildir um kaup á púðri og nauðsynlegum hlutum til hleðslu skotfæra skv. 2. mgr. 2. gr.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja takmarkanir á magn skotfæra sem einstaklingi er heimilt að kaupa.

11. gr.

    Sá sem hefur leyfi til verslunar með skotvopn, skotfæri eða sprengiefni eða reksturs skotvopnaleigu og sá sem hefur leyfi til sýninga og söfnunar skv. 15. gr. er ekki heimilt að nota greindar vörur nema með leyfi viðkomandi lögreglustjóra.

III. KAFLI
Meðferð skotvopna og skotfæra.
12. gr.

    Enginn má eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Leyfið veitir lögreglustjóri í umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili. Lögreglustjóra er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um að hafa skotvopnaleyfi fyrir þann sem er á æfingum á vegum viðurkenndra skotfélaga á viðurkenndu æfingasvæði.
    Skotvopnaleyfi skal vera skriflegt. Í því skal tilgreina nafn, kennitölu og heimilisfang leyfishafa. Þar skal vera nýleg ljósmynd af leyfishafa. Einnig skal tilgreina nákvæmlega hvers konar skotvopn leyfishafa er heimilt að nota. Í skotvopnaleyfi skal skrá öll skotvopn í eigu leyfishafa, gerð þeirra, lástegund, hlaupvídd, hámarksfjölda skota og eintaksnúmer framleiðanda. Lögreglustjóra er heimilt að setja sérstök skilyrði fyrir leyfi telji hann þess þörf.
    Skotvopnaleyfi skal ekki gefið út til lengri tíma en tíu ára í senn og til skemmri tíma ef ástæða þykir til. Við endurnýjun skotvopnaleyfis er lögreglustjóra heimilt að kanna hæfni leyfishafa ef sérstök ástæða þykir til.

13. gr.

    Veita má leyfi fyrir skotvopnum til veiða, íþróttaiðkunar skv. 17. gr., starfa skv. 14. gr. og til sýninga og söfnunar skv. 15. gr. Umsækjandi skal gera grein fyrir því í hverju skyni sótt sé um leyfi. Skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis eru:
     a.      að hafa náð 20 ára aldri og hafa ekki verið sviptur sjálfræði. Í reglugerð er heimilt að víkja frá þessu aldursskilyrði vegna íþróttaskotfimi, sbr. 17. gr.,
       b.      að hafa ekki gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni, laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða þessara laga,
     c.      að hafa nægilega kunnáttu til þess að fara með skotvopn, vera andlega heilbrigður og að öðru leyti hæfur til þess að fara með skotvopn.
    Lögreglustjóri getur veitt leyfi fyrir skotvopni þótt viðkomandi hafi brotið ákvæði laga þeirra sem tilgreind eru í b-lið 1. mgr. ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að brot var framið. Að liðnum tveimur árum frá því að brot var framið getur lögreglustjóri þó veitt umsækjanda leyfi, enda hafi refsing ekki farið fram úr sektum eða varðhaldi og ekki verið um að ræða árásar- eða ofbeldisbrot, brot á lögum um ávana- og fíkniefni, ítrekuð ölvunarbrot eða brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða lögum þessum.
    Þeir sem sækja um leyfi fyrir skotvopnum skulu sækja námskeið í meðferð og notkun skotvopna. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um námskeið þessi.

14. gr.

    Lögreglustjóri getur veitt félagi, stofnun eða einstaklingi leyfi til þess að eiga skotvopn ef slíkur aðili þarf nauðsynlega á því að halda vegna starfsemi sinnar. Í slíku tilviki skal tilnefndur ákveðinn aðili er annist vörslu skotvopnanna og tilheyrandi skotfæra.
    Lögreglustjóra er heimilt, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, að víkja frá ákvæði laganna um að skotvopn skuli númerað eintaksnúmeri framleiðanda við veitingu leyfa skv. 1. mgr. þegar um er að ræða umsókn bónda sem er ábúandi á lögbýli eða dýralæknis um leyfi fyrir hlaupstuttri einskota byssu, þó ekki stærri en 22 cal. (fjárbyssu) til aflífunar búfjár.

15. gr.

    Ríkislögreglustjóri getur heimilað einstaklingi, samtökum og opinberu safni að eiga og varðveita skotvopn sem hefur ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs, tengsla við sögu landsins eða af öðrum sérstökum ástæðum. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um þessi atriði. Heimilt er að veita sömu aðilum leyfi til að eiga og varðveita takmarkað magn skotfæra fyrir framangreind vopn, enda hafi skotfærin ótvírætt söfnunargildi.
    Óheimilt er að nota vopn skv. 1. mgr. til veiða og kaupa fyrir þau skotfæri nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Vopn þessi skal skrá sérstaklega í skotvopnaskrá.

16. gr.

    Skotvopni, sem er hluti dánarbús, skal innan tólf mánaða frá andláti leyfishafa ráðstafað til aðila sem hefur leyfi til að eiga slíkt skotvopn. Þegar um er að ræða skotvopn sem hefur ótvírætt minja- eða tilfinningagildi er heimilt að víkja frá þessu skilyrði.

17. gr.

    Félagi er óheimilt að hafa iðkun skotfimi að markmiði án leyfis ríkislögreglustjóra. Áður en slíkt leyfi er gefið út skal ríkislögreglustjóri afla umsagnar lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um slík leyfi.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um skotvopnaleyfi til einstaklinga til iðkunar skotfimi og um leyfi til skotfélaga til eignar á skotvopnum.

18. gr.

    Halda skal sérstaka skotvopnaskrá fyrir landið í heild. Í hana skrá lögreglustjórar upplýsingar um veitt skotvopnaleyfi samkvæmt reglum er ráðherra setur í reglugerð. Í skotvopnaskrá skal skrá allar breytingar á skotvopnum skv. 38. gr. Þar skal jafnframt skrá öll horfin skotvopn.

19. gr.

    Eiganda skotvopns er óheimilt að selja, gefa eða afhenda á annan hátt skotvopn til eignar, nema viðtakandi sýni fram á að hann hafi leyfi lögreglustjóra til að eiga það eða nota.
    Eiganda skotvopns er heimilt að lána það manni til tímabundinna afnota sem leyfi hefur til að nota sams konar skotvopn. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um slík afnot.

20. gr.

    Hver sá sem ber á sér eða notar skotvopn skal hafa skotvopnaleyfi meðferðis og sýna það þegar lögregla krefst þess. Nú sýnir maður ekki skotvopnaleyfi og getur þá lögregla tekið vopnið í sína vörslu til bráðabirgða þar til viðkomandi leggur fram skilríki fyrir því að hann hafi heimild til þess að nota vopnið.
    Nú er viðkomandi með vopnið að láni eða á leigu og skal hann þá leggja fram skriflega heimild eiganda skotvopnsins því til sönnunar.

21. gr.

    Sá sem fer með eða notar skotvopn skal ætíð gæta fyllstu varúðar. Óheimilt er að bera skotvopn á almannafæri.
    Sá sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa er óheimil meðferð skotvopns.
    Þegar ástæða er til að ætla að maður hafi brotið framangreind ákvæði getur lögregla fært hann til læknisrannsóknar, þar á meðal blóð- og þvagrannsóknar, og er honum þá skylt að hlíta þeirri meðferð sem heilbrigðisstarfsmaður telur nauðsynlega vegna rannsóknarinnar.
    Ekki má hleypa af skoti á vegi, yfir veg, úr ökutæki, á almannafæri eða annars staðar þar sem hætta getur stafað af, nema nauðsyn krefji.
    Ekki má hleypa af skoti á annars manns landi eða skjóta yfir annars manns land án leyfis landeiganda eða ábúanda nema lög mæli öðruvísi fyrir um. Mál út af broti á ákvæðum þessarar málsgreinar skal því aðeins höfða að sá krefjist sem misgert var við.

22. gr.

    Ekki má afhenda öðrum skotfæri en þeim sem skráður er fyrir því skotvopni sem þau eru ætluð fyrir, enda framvísi viðkomandi leyfi fyrir skotvopninu. Ráðherra getur sett nánari ákvæði um afhendingu skotfæra í reglugerð, þar á meðal um bann við einstökum gerðum skotfæra.

23. gr.

    Eigandi eða vörsluaðili skotvopns og skotfæra skal ábyrgjast vörslu þeirra með þeim hætti að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra.
    Þegar skotvopn og skotfæri eru ekki í notkun skulu skotvopn annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í aðskildum og læstum hirslum. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um vörslu skotvopna og skotfæra. Er m.a. heimilt að setja skilyrði um tiltekna geymslu skotvopna eftir að tilteknum skotvopnafjölda er náð.

24. gr.

    Skotfélagi eða öðrum er óheimilt að efna til skotkeppni eða skotæfinga á öðru svæði en lögreglustjóri hefur leyft að notað verði til slíkrar starfsemi.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gerð og búnað skotsvæða, þar með talið um geymslu skotvopna og skotfæra. Samráð skal haft við Vinnueftirlit ríkisins og Brunamála stofnun ríkisins áður en slíkar reglur eru settar.
    Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt skal lögreglustjóri leita umsagnar sveitarstjórnar, Vinnueftirlits ríkisins og Brunamálastofnunar ríkisins.

25. gr.

    Nú eyðileggst skotvopn eða því er fargað og skal það þá afskráð. Týnist skotvopn eða sé því stolið skal eigandi þess tilkynna lögreglu um það þegar í stað og skal hvarfið skráð í skotvopnaskrá.

IV. KAFLI
Meðferð sprengiefnis.
26. gr.

    Enginn má kaupa sprengiefni nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Leyfið veitir lögreglustjóri í því umdæmi þar sem leyfisbeiðandi hefur lögheimili. Ef umsækjandi er lögaðili veitir lögreglustjóri leyfið þar sem starfsstöð umsækjandans er.
    Aðeins má veita þeim leyfi til þess að kaupa sprengiefni sem sýnir fram á að honum sé það nauðsynlegt.
    Leyfi samkvæmt þessari grein skal gefið út fyrir ákveðinni tegund og magni sprengiefnis.
    Eigandi sprengiefnis skal ábyrgjast vörslur þess og sjá um að óviðkomandi nái ekki til þess.
    Þegar lögaðili fær leyfi skv. 1. mgr. skal hann að jafnaði tilnefna ákveðinn mann eða menn sem annist vörslur sprengiefnisins.
    Þeim sem fengið hefur leyfi til þess að kaupa sprengiefni er óheimilt að afhenda það öðrum nema með leyfi lögreglustjóra.

27. gr.

    Sá einn má fara með sprengiefni og annast sprengingar sem fengið hefur til þess leyfi lögreglustjóra. Leyfið veitir lögreglustjóri í því umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili og gildir það í fimm ár frá útgáfudegi.
    Aðeins má veita þeim leyfi skv. 1. mgr. sem að mati Vinnueftirlits ríkisins hefur næga kunnáttu til þess að fara með sprengiefni eftir nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð.
    Sá sem fer með og notar sprengiefni skal ætíð gæta fyllstu varúðar.

28. gr.

    Sprengiefni skal geyma í sérstakri sprengiefnageymslu.
    Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um geymslu á sprengiefni, um flutning á því og meðferð þess. Áður en slík reglugerð er sett skal leita eftir tillögum frá Brunamálastofnun ríkisins og Vinnueftirliti ríkisins.

29. gr.

    Nú finnst sprengiefni eða hlutir, sem ætla má að hafi að geyma sprengiefni, rekið á land eða á víðavangi og skal þá finnandi, landeigandi eða ábúandi þegar tilkynna lögreglustjóra um fundinn.

V. KAFLI
Meðferð annarra vopna.
30. gr.

    Vopnaburður á almannafæri er bannaður. Heimilt er að bera á sér bitvopn þar sem eðlilegt og sjálfsagt getur talist, svo sem við vinnu eða veiðar eða í öðrum tilvikum þegar engin hætta er því samfara.
    Bannað er að flytja til landsins, framleiða, eignast eða hafa í vörslum sínum:
     a.       bitvopn ef blaðið er lengra en 12 cm, enda sé það ekki ætlað til notkunar við heimilishald eða atvinnu,
     b.      fjaðrahníf, fjaðrarýting, fallhníf, fallrýting, stunguvopn eða önnur slík vopn,
     c.      höggvopn, svo sem hnúajárn, gaddakylfu, felukylfu, kylfu sem ekki er ætluð til íþróttaiðkunar eða önnur slík vopn, svo og rafmagnsvopn,
     d.      sverð, sem eru sambland högg- og bitvopna,
       e.      kaststjörnu, kasthníf eða önnur slík vopn,
     f.      lásboga, langboga, slöngubyssu eða önnur slík vopn, svo og örvarodda. Þetta tekur þó ekki til boga sem ætlaðir eru til æfinga eða keppni í bogfimi.
    Heimilt er að víkja frá banni 2. mgr. með leyfi ríkislögreglustjóra ef vopn hefur söfnunargildi eða sérstakar ástæður mæla með.
    Öðrum en lögreglu er óheimilt að flytja til landsins, framleiða eða eignast handjárn og fótajárn úr málmi eða öðru efni. Sama gildir um gasvopn.

31. gr.

    Barni yngra en 16 ára má ekki selja eða afhenda örvaboga með meiri togkrafti en 7 kg eða oddhvassar örvar.

VI. KAFLI
Meðferð skotelda.
32. gr.

    Bannað er að selja eða afhenda skotelda barni yngra en 16 ára sé þess getið í leiðbeiningum með skoteldum. Öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára er óheimil.

33. gr.

    Þeir sem fara með skotelda skulu ætíð gæta fyllstu varúðar.
    Ráðherra setur ákvæði í reglugerð um sölu og meðferð skotelda, þar á meðal getur hann sett reglur um að ekki megi selja almenningi ýmsar skaðlegar tegundir skotelda. Jafnframt getur hann kveðið á um sérstakt eftirlit í því skyni og að innflytjandi skuli eftir atvikum bera kostnað af því.

VII. KAFLI
Refsingar, eignaupptaka o.fl.
34. gr.

    Leyfi samkvæmt lögum þessum getur leyfisveitandi afturkallað hvenær sem er ef ekki teljast lengur vera fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu, leyfishafi hefur ekki farið eftir settum fyrirmælum eða ætla má að leyfishafi muni fara óforsvaranlega með efni og tæki sem leyfið tekur til.
    Þegar um er að ræða leyfi skv. 12. gr. eða 27. gr. skal lögreglustjóri í því umdæmi þar sem leyfishafi á lögheimili taka ákvörðun um leyfissviptingu án tillits til þess hvar leyfið er upphaflega gefið út.
    Lögreglustjóra er heimilt að afturkalla leyfi til bráðabirgða án fyrirvara ef brýna nauðsyn ber til.
    Nú er húsnæði, framleiðsluháttum eða vörslu vara ábótavant að mati lögreglustjóra og getur hann þá til bráðabirgða og án fyrirvara lagt hald á skotvopn, skotfæri, skotelda eða sprengiefni.

35. gr.

    Þegar leyfi samkvæmt lögum þessum er afturkallað skal sá sem sviptur er leyfinu skila því til lögreglu ásamt þeim vopnum, efnum og tækjum sem hann hefur í vörslum sínum á grundvelli leyfisins.
    Þegar ekki eru fyrir hendi skilyrði til eignaupptöku getur lögreglustjóri að liðnum einum mánuði frá leyfissviptingu ákveðið að selja greindan varning. Við sölumeðferð skal svo sem kostur er haft samráð við eiganda varningsins. Söluandvirði að frádregnum kostnaði skal renna til eiganda.
    Nú telur lögreglustjóri vopn, efni eða tæki svo lélegt og verðlaust eða verðlítið að ekki sé rétt að selja það og skal þá eyðileggja það eða gera óvirkt án greiðslu bóta til handa eiganda.

36. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 4 árum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim eru refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

37. gr.

    Skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skoteldar, sem fluttir hafa verið til landsins eða framleidd eru í landinu án heimildar eða finnast vörslulausir eða í vörslu manns án heimildar, skal gera upptæk til ríkissjóðs. Jafnframt skal gera upptæk með sama hætti önnur vopn sem ólögmæt teljast samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.
    Nú fremur maður brot með nefndum tækjum eða efnum og skilyrði til upptöku þeirra er fyrir hendi, og er þá heimilt, ef brot er stórfellt, að gera einnig upptæk önnur slík tæki og efni sem sökunautur hefur leyfi fyrir.
    Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku samkvæmt ákvæðum 69. gr. almennra hegningar laga.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
38. gr.

    Allar breytingar, svo sem á lásgerð, mögulegum skotafjölda eða aukabúnaði sem hefur áhrif á eiginleika skotvopns eða verkan, eru óheimilar nema með leyfi lögreglustjóra.
    Breytingar skv. 1. mgr. skulu skráðar í skotvopnaskrá og í skotvopnaleyfi.

39. gr.

    Ráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

40. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um skotvopn, sprengiefni og skotelda, nr. 46 13. maí 1977.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 121. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu. Frumvarpið er nú lagt fyrir Alþingi á ný óbreytt að því frátöldu að gerðar hafa verið fáeinar lagfæringar á orðalagi.
    Hinn 13. febrúar 1995 skipaði dómsmálaráðherra nefnd sem falið var að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skotelda. Var nefndinni falið að skila drögum að lagafrumvarpi og reglugerðum varðandi öll tæki sem telja má til vopna. Var nefndinni og falið að gera tillögur um meðferð vopna í eigu lögreglu og fangelsa og þjálfun í meðferð þeirra.
    Í nefndinni áttu sæti Páll Hersteinsson, fyrrverandi veiðistjóri, Helgi Skúlason, kennari við Lögregluskóla ríkisins, og Högni S. Kristjánsson, fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar.
    Nefndin ákvað í upphafi að láta vinnu við gerð almennra laga og reglna um skotvopn, skotfæri og önnur vopn, sprengiefni og skotelda hafa forgang umfram gerð reglna um meðferð vopna hjá opinberum valdhöfum.
    Nefndin aflaði sér upplýsinga um gildandi reglur á öðrum Norðurlöndum og hafði til hliðsjónar við samningu frumvarpsins og draga að reglugerð.
    Nefndin ákvað að leitast við að eiga samstarf við þau samtök sem hagsmuna hafa að gæta af löggjöf sem þessari. Var í því skyni leitað eftir hugmyndum frá Skotsambandi Íslands og Skotveiðifélagi Íslands (SKOTVÍS). Jafnframt var óskað hugmynda frá Skotfélagi Austurlands, Skotfélagi Reykjavíkur, umhverfisráðuneytinu, Eldvarnaeftirliti Reykjavíkur og Vinnueftirliti ríkisins. Einnig var leitað eftir afstöðu tollstjóraembættisins í Reykjavík og allra lögreglustjóra. Á lokastigum frumvarpsgerðarinnar átti nefndin fundi með forsvars mönnum SKOTVÍS og Skotsambands Íslands.
    Nefndin aflaði sér upplýsinga um fjölda skráðra skotvopna í landinu, sbr. fylgiskjal I. með frumvarpi þessu.
    Frumvarp þetta byggir efnislega á tillögum framangreindrar nefndar, en orðalagi hefur víða verið breytt.

II. Almennar athugasemdir.

    Hér á landi voru fyrst sett ákvæði um skráningu skotvopna, svo og um innflutning og sölu skotvopna, skotfæra og sprengiefna, með lögum nr. 69/1936. Þau lög sættu ekki breytingum fyrr en árið 1977 þegar samþykkt voru gildandi lög um skotvopn, sprengiefni og skotelda. Á gildistíma laganna hafa orðið ýmsar breytingar á sviði skotvopnamála. Má þar m.a. nefna aukningu á vopnaeign til veiða, aukna iðkun skotíþrótta o.fl. Er eðlilegt að slíkum nýjungum sé markaður skýrari grundvöllur í löggjöf, ekki síst eftir setningu laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994 (hér eftir nefnd veiðilöggjöf), svo sem nánar verður vikið að síðar.
    Nefndin valdi að semja nýtt frumvarp um málefnið á grundvelli gildandi laga þar sem það var mat nefndarmanna að í grundvallaratriðum væri um að ræða löggjöf sem staðist hefði tímans tönn.
    Í vinnu sinni setti nefndin sér þær forsendur:
     a.      að vopn væru hættuleg tæki og almennt bæri að stuðla að því að þau væru ekki höfð um hönd nema í undantekningartilvikum þegar það styddist við gild rök,
     b.      að það sé þekkt vandamál um allan heim að vopn tengjast afbrotum og af þeirri ástæðu verði að leitast við að takmarka vopnaeign svo sem kostur er,
     c.      að meginreglan sé sú að öll vopn séu bönnuð nema þau séu sérstaklega leyfð samkvæmt lögum,
     d.      að samræmi eigi að vera á milli löggjafar í landinu sem varðar meðferð skotvopna.
    Ísland er bundið af ýmsum alþjóðaskuldbindingum á þessu sviði löggjafarinnar. Höfð hefur verið hliðsjón af þessum skuldbindingum við gerð frumvarpsins. Hins vegar eru íslenskar reglur að ýmsu leyti strangari en hinar alþjóðlegu skuldbindingar.
    Með setningu veiðilöggjafarinnar á árinu 1994 voru settar ýmsar reglur sem snertu beint meðferð skotvopna og annarra vopna við veiðar. Eftir gildistöku laganna er m.a. óheimilt að nota við veiðar ýmis stungu- og eggvopn, rafvædd vopn og búnað til þess að miða í myrkri með rafeindatækjum. Einnig er nú óheimilt að nota við veiðar sjálfvirk skotvopn, svo og handhlaðnar fjölskotabyssur og hálfsjálfvirk skotvopn, með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki. Hefur þetta verið túlkað svo að heimilt sé að nota skotvopn sem taka tvö skothylki í skothylkjahólf og eitt í hlaup eða alls þrjú skot. Í frumvarpi að veiðilöggjöfinni kemur fram að þær takmarkanir, sem settar eru um hvaða vopn megi nota við veiðar, eiga sér allar uppruna í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Með hliðsjón af því ákvað nefndin að leggja til í frumvarpinu að hér á landi verði einungis leyfður innflutningur skotvopna er samræmast framangreindu ákvæði veiðilöggjafarinnar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að frá meginreglunni megi víkja í íþróttaskotfimi, söfnun og sýningu á skotvopnum. Í frumvarpinu er ekki hróflað við tilvist þeirra vopna sem lögleg eru samkvæmt gildandi lögum. Má ætla að þau hverfi smám saman úr notkun, en hafa verður í huga að við notkun þeirra við veiðar verða þau að fullnægja skilyrðum veiðilöggjafarinnar.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði rúmar heimildir ráðherra til útgáfu reglugerða. Má því segja að á ýmsum sviðum sé um rammalöggjöf að ræða. Kostur þessa fyrirkomulags felst í því að þetta er sveigjanlegt form og gefur möguleika til að bregðast við ófyrirséðri þróun á þessu sviði sem að mati nefndarinnar er nauðsynlegt.

III. Helstu nýmæli.

    Í frumvarpinu er að finna nokkur nýmæli frá gildandi lögum:
     1.      Í frumvarpinu er hugtakið vopn skilgreint. Er skilgreiningin nokkuð víðtæk, enda er henni ætlað að ná til allra tækja og efna sem nota má til að deyða eða skaða heilsu manna eða dýra tímabundið eða varanlega. Markmiðið með skilgreiningunni er að ná yfir öll tæki sem flokka má undir árásarvopn við tilteknar aðstæður. Með því að binda skilgreininguna við tilteknar aðstæður er leitast við að flokka frá þau tilvik þar sem handhöfn vopna í þessum skilningi er eðlileg, svo sem við vinnu.
     2.      Um langt skeið hefur skotfimi verið stunduð hér á landi sem íþrótt. Ekki hefur í lögum verið tekið á því hvernig skuli almennt fara um iðkun þessarar íþróttar. Hún hefur þá sérstöðu að notuð eru tæki sem strangar takmarkanir gilda um. Er í frumvarpinu kveðið á um að skotvopnaleyfi verði m.a. veitt til iðkunar íþróttaskotfimi. Í 13. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að víkja frá aldursskilyrði í þessu tilviki. Í 17. gr. frumvarpsins er almenn heimild fyrir ráðherra til að útfæra í reglugerð þann ramma sem settur skal þessari starfsemi.
     3.      Í frumvarpinu er að finna sérstök ákvæði um söfnun og sýningar vopna. Er nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um þennan þátt vopnaeignar þar sem nokkuð er um að í skjóli söfnunar hafi einstaklingar komið sér upp verulegu magni skotvopna. Í frumvarpinu er leitast við að setja strangari takmarkanir við söfnun skotvopna en verið hafa.
     4.      Kveðið er á um samræmda landsskrá yfir skotvopn. Hefur um nokkurt skeið verið unnið að gerð slíkrar skrár í dómsmálaráðuneytinu. Með því að koma upp samræmdri landsskrá yfir skotvopn verður allt eftirlit mun virkara.
     5.      Sérstök ákvæði er að finna í frumvarpinu um hnífa og önnur árásarvopn. Vísað er til þess með tillögu um breytt heiti á löggjöfinni. Er hér í fyrsta sinn tekið heildstætt á öllum vopnum í landinu. Frá árinu 1988 hefur verið að finna ákvæði um vopn sem þessi í reglugerð um skotvopn og skotfæri, sbr. nú 37. gr. reglugerðar nr. 265/1997. Þau ákvæði hafa að ýmsu leyti verið gölluð. Hér er lagt til að ákvæðin verði tekin upp í löggjöf nokkuð breytt.
     6.      Á undanförnum árum hafa gengið nokkrir dómar sem kveðið hafa á um að upptökuákvæði gildandi laga taki ekki til hnífa og annarra slíkra vopna. Er bætt úr þessu í frumvarpinu.
     7.      Frumvarpið gerir ráð fyrir að sú meginregla gildi að ekki skuli veitt leyfi fyrir öðrum skotvopnum en þeim sem eru lögleg samkvæmt veiðilöggjöfinni. Gert er ráð fyrir undantekningum í ákveðnum tilvikum.
     8.      Lagt er til að heimilað verði að reka skotvopnaleigu. Er það rökstutt sérstaklega í athugasemdum með viðkomandi ákvæði frumvarpsins.
     9.      Lagt er til að ríkislögreglustjóri taki yfir þau stjórnsýsluverkefni sem ráðherra fer með samkvæmt gildandi lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um gildissvið þess en þar er að mestu leyti miðað við gildandi lög.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er hugtakið vopn skilgreint. Er skilgreiningin mjög rúm þar sem henni er ætlað að taka yfir öll þau tæki sem nota má til að deyða eða skaða heilsu manna eða dýra tímabundið eða varanlega. Tekur skilgreiningin þannig til allra skotvopna, eggvopna, stunguvopna, raf magnsvopna o.fl. Sama gildir um tæki sem markaðssett eru sem tæki til sjálfsvarnar og ætlað er að lama einstakling með einum eða öðrum hætti. Skilgreining þessi er nauðsynleg þar sem frumvarpinu er ætlað að taka til fleiri hluta en skotvopna. Í ljósi þess hversu rúm skilgreiningin er þykir nauðsynlegt að binda hana við tilteknar aðstæður. Í því felst að tæki sem í venjulegum skilningi eru ekki vopn geta orðið það við tilteknar aðstæður, þ.e. þegar gera má ráð fyrir að þeim sé ætlað að skaða heilsu manna eða dýra.
    Í 2. mgr. er hugtakið skotvopn skilgreint. Sú skilgreining er í samræmi við 1. mgr. 1. gr. gildandi laga. Tekur skilgreiningin í raun til allra þeirra tækja sem búin eru þeim eiginleikum að senda frá sér tiltekin skeyti sem til þess eru fallin að valda tjóni á mönnum, dýrum eða hlutum, nema slík tæki séu sérstaklega undanskilin svo sem gert er í 3. gr. frumvarpsins. Hefur þessi skilgreining ekki valdið vandræðum í framkvæmd.
    Í 3. mgr. er hugtakið skotfæri skilgreint. Er skilgreiningin í samræmi við 2. mgr. 1. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að ekki er talin ástæða til að taka sérstaklega fram að skilgreiningin nái yfir einstaka hluta skotfæranna eins og púður og hvellhettur. Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins segir að ákvæði þess gildi einnig um einstaka hluta þeirra efna og tækja er ákvæði frumvarpsins taka til, svo sem hvellhettna og púðurs. Felur skilgreiningin þannig í sér að ekki er nauðsynlegt að skeytið innihaldi púður, högl eða slíkt heldur getur t.d. einnig verið um vökva að ræða.
    Í 4. mgr. er hugtakið sprengiefni skilgreint. Er skilgreiningin í samræmi við skilgreiningu þess í gildandi reglugerð um sprengiefni.
    Í 5. mgr. er hugtakið skoteldur skilgreint. Skilgreining þess er í samræmi við 4. mgr. 1. gr. gildandi laga. Hefur skilgreining hugtaksins ekki valdið vafa í framkvæmd.
    Í 6. mgr. er ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um hvaða efni og tæki falli undir 2.–5. mgr. og um nánari flokkun þeirra. Byggist heimild þessi á því að nauðsynlegt er að löggjöfin sé sveigjanleg og veiti ráðherra heimildir til að bregðast við þróun mála á sviði vopna. Telja verður að heimild þessari muni ekki verða mikið beitt með hliðsjón af öðrum ákvæðum frumvarpsins. Felst einnig í ákvæðinu heimild til að flokka vopn nánar en gert er í frumvarpinu en slíkt kann að verða nauðsynlegt, t.d. vegna alþjóðlegra skuldbindinga.

Um 2. gr.

    Hér eru talin upp vopn sem frumvarpinu er ætlað að taka til. Er m.a. um að ræða sömu vopn og greinir í 2.–5. mgr. 1. gr. frumvarpsins en að auki er í e- og f-lið bætt við ýmsum efnum og tækjum sem greind eru í 3. gr. gildandi laga. Sú breyting er gerð frá 3. gr. gildandi laga að beinlínis er kveðið á um að tilgreind vopn skuli falla undir ákvæði frumvarpsins í stað þess að ráðherra geti ákveðið að lögin taki til tilgreindra hluta. Þykja almannahagsmunir leiða til þess að lögfesta eigi takmarkanir við handhöfn þeirra tækja er greinir í e-lið 1. mgr. Ákvæði 37. gr. gildandi reglugerðar um skotvopn og skotfæri, nr. 265/1997, sem fjallar um ýmis þessara vopna, hefur reynst ófullkomið að ýmsu leyti. Við upptalningu e-liðar er við gildandi ákvæði bætt rafmagnsvopnum og gasvopnum.
    Annað nýmæli í 1. mgr. er að sérstaklega er kveðið á um það í g-lið að eftirlíkingar þeirra vopna er greinir í a–f-liðum falli einnig undir ákvæði frumvarpsins. Er röksemdin fyrir þessu sú að eftirlíkingar eru orðnar þannig úr garði gerðar að þær líkjast mjög fyrirmyndum sínum, og við það hefur aukist hætta á að slík tæki séu notuð við brotastarfsemi.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli sem er í samræmi við norræna löggjöf þar sem sérstaklega er tekið fram að ákvæði frumvarpsins taki einnig til einstakra hluta þeirra efna og tækja sem fjallað er um í 1. mgr. Felur þetta í sér að ákvæðin eiga við um einstaka hluta skotvopna og verða þeir því t.d. ekki fluttir inn án leyfis ríkislögreglustjóra. Er í dæmaskyni talið upp láshús, hlaup, hvellhettur og púður.
    Í 3. mgr. er lagt til að ráðherra fái heimild til að setja nánari reglur um vopn sem greinir í 1. og 2. mgr. og eftir atvikum banna þau. Þykir nauðsynlegt að ráðherra hafi ótvíræða heimild til að banna tiltekin vopn.

Um 3. gr.

    Í greininni er fjallað um þau vopn, tæki og efni sem eru undanþegin ákvæðum frumvarpsins. Er ákvæðið að mestu leyti í samræmi við 2. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. segir að vopn í eigu lögreglu, Landhelgisgæslu og fangelsa séu undanþegin ákvæðum frumvarpsins en ráðherra setji um þau sérstakar reglur. Þetta ákvæði er í samræmi við gildandi lög og löggjöf annarra þjóða og alþjóðasamninga þar sem vopn opinberra yfirvalda eru almennt undanþegin almennum reglum.
    Í 2. mgr. eru í fjórum liðum talin upp tæki og efni sem undanþegin eru ákvæðum frumvarpsins. Þar er lagt til að sú breyting verði gerð frá gildandi lögum að umrædd tæki og efni verði alfarið undanþegin ákvæðum frumvarpsins. Í gildandi lögum er um að ræða heimild til handa dómsmálaráðherra til að undanþiggja þau. Þeirri heimild hefur verið beitt og eru tækin sem tilgreind eru í a- og b-liðum undanþegin reglum gildandi laga. Þá er lögð til orðalagsbreyting að því er varðar björgunartæki þannig að ljóst sé að tækin séu undanþegin ákvæðum frumvarpsins án tillits til þess hvar ætlunin er að nota þau við björgun. Verður ekki séð að rök standi til að setja takmarkanir að því leyti. Í c-lið er að finna nýmæli þar sem lagt er til að vopn og tæki sem notuð eru við aflífun dýra í löggiltum sláturhúsum verði undanþegin ákvæðum frumvarpsins. Samkvæmt 35. gr. gildandi reglugerðar um skotvopn og skotfæri eru undanþegin ákvæðum hennar skotvopn sem eingöngu eru notuð við slátrun dýra og eru þannig úr garði gerð að ekki hleypur af skot en út þrýstist pinni. Þykja ekki standa rök til að binda undanþáguna við þessa gerð skotvopna. Með því að takmarka undanþágu við löggilt sláturhús er komið í veg fyrir að skotvopn bænda verði undanþegin ákvæðum frumvarpsins. Í d-lið er að finna heimild til handa ráðherra til að ákveða frekari undanþágur og er sú heimild í samræmi við gildandi lög. Er rétt að taka fram að ákvæði þetta skerðir ekki heimildir Vinnueftirlits ríkisins til setningar reglna um meðferð þessara vopna og tækja.

Um II. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um framleiðslu, innflutning, útflutning og verslun með vopn.
    Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á ákvæðum 8. gr. þar sem lagt er til það nýmæli að ríkislögreglustjóra verði heimilt að veita leyfi til reksturs skotvopnaleigu.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði 5. og 6. gr. gildandi laga verði sameinuð í eitt ákvæði. Þar segir að leyfi ríkislögreglustjóra þurfi til framleiðslu á skotvopnum, skotfærum, sprengiefni eða skoteldum.
    Í 1. mgr. er lagt til að settar verði nákvæmari reglur en nú gilda um hvernig staðið skuli að leyfisveitingu á grundvelli ákvæðisins. Lagt er til að leita skuli umsagnar lögreglustjóra, Vinnueftirlits ríkisins og yfirvalda brunamála. Það er eðlileg öryggiskrafa að þessir aðilar kanni aðstæður á framleiðslustað.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um skilyrði þess að leyfi til framleiðslu verði veitt. Þar segir að einstaklingur skuli hafa skotvopnaleyfi svo sem nú gildir og sýna að öðru leyti fram á hæfni sína til framleiðslunnar. Hér á landi er ekki löggilt iðngrein á þessu sviði og veldur það nokkrum erfiðleikum við að móta þær kröfur sem rétt er að setja, en í öðrum ríkjum er unnt að stunda sérstakt nám í þessari iðn. Með hliðsjón af framansögðu er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja í reglugerð skilyrði um próf á þessu sviði.
    Í 3. mgr. er fjallað um skilyrði þess að félag eða firma fái leyfi til framleiðslu og er ákvæðið óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 4. mgr. er lagt til að handhafa skotvopnaleyfis sé, að fengnu leyfi lögreglustjóra, heimilt að hlaða skothylki til eigin nota. Er ákvæðið í samræmi við 1. mgr. 5. gr. gildandi laga og 33. gr. gildandi reglugerðar. Hins vegar er nokkuð aukið við þau skilyrði sem sett eru og m.a. kveðið á um að viðkomandi þurfi að hafa haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár og gangist undir sérstakt námskeið í þessu skyni. Er þetta gert til að tryggja að þeir er fást við að hlaða skotfæri, gjarnan í heimahúsum, hafi næga þekkingu og reynslu til að bera. Slíkt er nauðsynlegt til að tryggja öryggi. Ríkislögreglustjóra er veitt heimild til að útfæra þessi skilyrði nánar og er í því efni m.a. horft til þess að unnt væri að koma á fót námskeiðum í samvinnu við hagsmunaaðila. Gert er ráð fyrir því að lögreglustjóri kveði í leyfi til hleðslu skothylkja á um það magn púðurs, hvellhettna og skothylkja sem leyfishafa er heimilt að kaupa.
    Í 5. mgr. er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um framleiðsluna og um hleðslu skotvopnaleyfishafa á skotfærum og að áður en slík reglugerð verður sett skuli hafa samráð við Vinnueftirlit ríkisins og Brunamálastofnun. Slíkt ákvæði í gildandi lögum hefur ekki verið nýtt.

Um 5. gr.

    Í greininni er fjallað um innflutning á skotvopnum, skotfærum, sprengiefni og skoteldum. Ákvæðin svara til 7. gr. gildandi laga og ákvæða í reglugerð um skotvopn og skotfæri.
    Í 1. mgr. er lagt til að leyfi ríkislögreglustjóra þurfi til innflutnings á þar tilgreindum vörum og að tekið verði upp það nýmæli að þeir sem fái leyfi til verslunar með skotvopn og skotfæri skv. 7. gr. fái um leið innflutningsleyfi. Reynslan sýnir að vel flestir sem á annað borð hafa leyfi til verslunar með skotvopn og skotfæri hafa einnig leyfi til innflutnings á viðkomandi vörum. Horfir þetta fyrirkomulag til einföldunar. Þá er lagt til að ríkislögreglustjóri geti falið lögreglustjórum að veita slík leyfi. Hefur dómsmálaráðherra gert það varðandi innflutning skotelda en samkvæmt gildandi reglugerð er yfirumsjón þess í höndum lögreglustjórans í Reykjavík.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli sem lýtur að heimild ríkislögreglustjóra til að veita einstaklingi heimild til innflutnings skotvopna og skotfæra til eigin nota. Í slíkum tilvikum þarf almennt ekki að viðhafa sömu málsmeðferð og við veitingu leyfa skv. 1. mgr. og því eðlilegt að um hann gildi sérstakar reglur.
    Í a-lið 4. mgr. er lagt til að bannað verði að flytja inn eða framleiða hálfsjálfvirka eða sjálfvirka skammbyssu. Er þetta ákvæði nýmæli. Samkvæmt gildandi lögum er þetta ekki bannað beinlínis, en þar eru hömlur á því að eignast vopn sem þessi. Í b-lið er lagt til að bannað verði að framleiða eða flytja til landsins sjálfvirkan og hálfsjálfvirkan riffil og er það í samræmi við gildandi reglugerð. Í c-lið er lagt til að óheimilt verði að flytja inn eða framleiða sjálfvirka haglabyssu og í d-lið er lagt til að bannað verði að flytja inn eða framleiða hálfsjálfvirka eða handhlaðna fjölskota haglabyssu sem tekur fleiri en tvö skothylki. Taki haglabyssa fleiri en tvö skothylki verður að breyta henni til samræmis við þennan áskilnað.
    Í 5. mgr. er lagt til að innflutningur og framleiðsla á eftirlíkingum skotvopna verði almennt bannaður. Gildir það um skotvopn þar sem ástæða er til að ætla að erfitt sé að greina eftirlíkinguna frá fyrirmynd hennar. Þetta er lagt til því fordæmi eru fyrir því hér á landi og erlendis að afbrot hafa verið framin með eftirlíkingum skotvopna. Þá er það staðreynd að oft er um að ræða eftirlíkingar sem fyrir allflesta er erfitt að greina frá fyrirmyndinni. Með þessu ákvæði verður ekki bannað að flytja inn eða framleiða tæki sem bersýnilega eru leikföng.
    Í 6. mgr. er lagt til bann við innflutningi á sérstaklega hættulegum tegundum vopna sem ætluð eru til nota í hernaði. Styðst slíkt bann við þau rök að hér á landi er ekki her sem kallar á slíkan innflutning. Ríkislögreglustjóra verður heimilt að veita undanþágu frá ákvæðinu hafi vopn ótvírætt söfnunargildi eða tengsl við sögu landsins. Er það lagt til m.a. vegna þess að atburðir í sögu landsins geta legið því til grundvallar að safnað sé gömlum hernaðartækjum sem tengjast henni.
    Í 7. mgr. er að finna ákvæði er heimilar undantekningu frá ákvæðum greinarinnar þegar um er að ræða framleiðslu vopna til útflutnings. Þá er ríkislögreglustjóra heimilað að leyfa innflutning vopna er greinir í 1.–6. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Á það t.d. við þegar reglur um íþróttaskotfimi og söfnun réttlæta slíkt en gert er ráð fyrir að slíkar viðmiðanir verði útfærðar í reglugerð.

Um 6. gr.

    Greinin er í samræmi við 8. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að lagt er til að heimild ríkislögreglustjóra til að framselja lögreglustjórum vald til að gefa út útflutningsleyfi verði takmörkuð við leyfi þar sem um er að ræða tímabundinn flutning á milli landa. Má t.d. nefna það tilvik að skotíþróttamenn fara til keppni erlendis.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er fjallað um leyfi til verslunar með skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda. Er hún að mestu leyti í samræmi við gildandi lög en þó er á einstökum sviðum leitast við að færa skilyrði leyfisveitinga að þeirri framkvæmd sem mótast hefur í dómsmálaráðuneytinu.
    Í 1. mgr. er lagt til að ríkislögreglustjóri veiti leyfi til verslunar með tilgreind tæki og í 2. mgr. er kveðið á um þau skilyrði sem umsækjandi verður að fullnægja til að fá leyfi til verslunar. Eru þau í samræmi við gildandi lög að öðru leyti en því að ekki er skilyrði að umsækjandi hafi sérþekkingu á umræddum vörum. Er í þessu efni talið nægilegt að viðkomandi hafi skotvopnaleyfi. Hins vegar er og tekið fram að í stað skotvopnaleyfis geti komið sannanleg sérþekking á greindum vörum.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að ríkislögreglustjóri geti veitt leyfi til reksturs skotvopnaleigu. Markmiðið með þessu ákvæði er að einstaklingar geti í auknum mæli haft skotvopnaleyfi án þess að eiga sjálfir skotvopn. Hér á landi er það helst rjúpa og gæs sem veiddar eru með skotvopnum og er veiðitímabilið takmarkað. Margir nota skotvopn ekki til annarra hluta. Sá sem sjaldan fer til veiða kann frekar að kjósa að leigja sér skotvopn eða fá það lánað. Með skotvopnaleigu er lagður grunnur að því að fækka eigendum skotvopna og þar með þeim stöðum þar sem skotvopn eru varðveitt.

Um 9. gr.

    Í greininni er að finna sams konar heimildir og eru í 11. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um almennar heimildir lögreglu til eftirlits. Í 1. mgr. er lagt til að lögfest verði að þeir sem í ákvæðinu greinir skuli halda sérstakar færslubækur yfir keypt og seld skotvopn og skotfæri. Þykir þetta nauðsynlegt til að tryggja að ávallt sé unnt að rekja uppruna skotvopns og skotfæra.

Um 10. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um skyldur þeirra sem hafa leyfi til verslunar og leigu skotvopna og skotfæra til að ganga eftir því að viðskiptavinir framvísi skilríkjum fyrir því að mega eignast þær vörur sem frumvarpið fjallar um. Er ákvæðið í samræmi við 12. gr. gildandi laga, en aukið er við það þannig að óheimilt er að afhenda kaupanda skotfæri í önnur vopn en hann hefur heimild samkvæmt skilríki sínu til að nota. Sama gildir um þá sem kaupa efni í skotfæri til eigin hleðslu.
    Í 3. mgr. er heimild til handa ráðherra að takmarka þann fjölda skotfæra sem einstaklingi er heimilt að kaupa.

Um 11. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við 13. gr. gildandi laga og fela í sér að þótt einstaklingur hafi leyfi til að versla með skotvopn og skotfæri eða til að leigja slíkar vörur eða safna þeim felur það ekki í sér heimild til að nota umrædd vopn án þess að hafa fyrir þeim tilskilin leyfi.

Um III. kafla.

    Í III. kafla frumvarpsins eru almenn ákvæði um meðferð skotvopna og skotfæra, svo sem um leyfisveitingu, skilyrði leyfis o.s.frv.
    Helstu nýmæli sem hér eru lögð til eru að í 13. gr. er tekið fram í hvaða tilgangi veitt verði skotvopnaleyfi. Jafnframt eru nýmæli í 15.–17. gr. um söfnun og sýningar skotvopna, arfleiðslu á skotvopnum og um íþróttaskotfimi. Í 19. gr. eru lagðar til breyttar reglur að því er varðar afnot annarra en leyfishafa af skráðu skotvopni. Þá skal sérstaklega nefnt ákvæði í 23. gr. um heimild til handa ráðherra til að krefjast sérstakra geymslna fyrir vopn hjá þeim einstaklingum sem hafa leyfi fyrir tilteknum fjölda skotvopna og í 18. og 25. gr. er að finna nýmæli að því er varðar skráningu skotvopna.

Um 12. gr.

    Í greininni er fjallað um útgáfu á skotvopnaleyfum.
    Samkvæmt 1. mgr. má enginn eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Ekki er nauðsynlegt að sá sem aflar sér skotvopnaleyfis eigi skotvopn. Með skotvopnaleyfi er hann einungis að afla sér heimildar til að nota skotvopn. Eignist hann skotvopn er það fært á skotvopnaleyfi hans, ella kemur fram í skilríkjum hans að hann hafi heimild til að nota skotvopn. Talið er að þetta ásamt öðru geti dregið úr skotvopnaeign einstaklinga og e.t.v. í auknum mæli stuðlað að því að einstaklingar fái lánuð eða leigð skotvopn í þau fáu skipti sem vopn eru notuð. Lagt er til að lögreglustjóra verði heimilt að veita undanþágu frá ákvæðinu vegna æfinga á vegum viðurkenndra skotfélaga á viðurkenndum æfingasvæðum. Er með þessu komið til móts við skotfélög sem telja mikilvægt fyrir íþrótt sína að hafa rýmri reglur að þessu leyti. Þrátt fyrir rýmkun þessa er leitast við að tryggja öryggi með því að binda heimildina við viðurkennd skotfélög á viðurkenndu skotsvæði.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um hvað skrá skuli í skotvopnaleyfi. Þar segir m.a. að í skotvopnaleyfi skuli skrá, auk persónulegra upplýsinga um leyfishafann, hvaða skotvopn honum er heimilt að nota. Jafnframt að skrá skuli í leyfi öll skotvopn í eigu leyfishafa ásamt nánar tilgreindum upplýsingum um hvert einstakt skotvopn. Þar segir að í skotvopnaleyfi skuli vera nýleg mynd af leyfishafa. Þá er lögreglustjóra heimilt að setja sérstök skilyrði fyrir útgáfu skotvopnaleyfis, t.d. að leyfi sé veitt fyrir ákveðinni stærð skotvopns og að það megi einungis nota í tilteknu skyni o.s.frv.

Um 13. gr.

    Í þessari grein er fjallað um þau skilyrði sem einstaklingur þarf að fullnægja til að fá heimild skv. 12. gr. til að eignast og nota skotvopn.
    Í 1. mgr. eru lagðar til nokkrar breytingar frá gildandi reglum þar sem mælt er fyrir um í hvaða skyni veitt verði leyfi til notkunar skotvopna. Undirstrikar það enn frekar að útgáfa leyfa sem þessara er undantekning frá banni við vopnanotkun. Í ákvæðinu segir að leyfi verði einungis veitt til að stunda veiðar, til íþróttaskotfimi, vegna atvinnustarfsemi og til söfnunar og sýninga. Er gert ráð fyrir að umsækjandi geri grein fyrir í hvaða skyni sótt er um leyfi og fer mat á umsókn hans m.a. eftir því hver uppgefin ástæða er.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um hvaða skilyrði sett eru fyrir útgáfu skotvopnaleyfis. Eru þau að flestu leyti þau sömu og í gildandi lögum. Aldurstakmörk eru t.d. þau sömu, en þó er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja í reglugerð ákvæði um frávik frá þeim vegna íþróttaskotfimi. Með þessu er aukið svigrúm þeirra félaga sem stunda skotfimi til að bjóða yngra fólki til æfinga og keppni, að almennum skilyrðum reglugerðar uppfylltum. Er ástæða til að ætla að slíkar æfingar geti verið jákvæðar fyrir viðhorf ungmenna gagnvart þeirri takmörkuðu heimild sem almennt gildir um notkun skotvopna. Þá segir að umsækjandi megi ekki hafa gerst brotlegur við tiltekin lög og er þar um sömu ákvæði að ræða og í 15. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að lagt er til að brot gegn lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum hafi sömu áhrif og brot gegn tilgreindum lögum. Er með þessu lögð rík áhersla á alvarleika þess að brjóta gegn ákvæðum þeirra laga. Helgast það af því að með broti á þeim er brotið gegn ákveðnu trausti sem mönnum er sýnt en leyfi fyrir notkun skotvopns er byggt á því trausti.
    Í 2. mgr. eru lagðar til undanþágur frá b-lið 1. mgr. sem fela í sér nokkrar breytingar frá gildandi ákvæðum. Lagt er til að lögreglustjóri geti þrátt fyrir þessi brot veitt leyfi ef brot var smávægilegt eða langt er um liðið. Ekki þykir rétt að setja fram ákveðin tímamörk hvað þetta varðar. Verður að meta slíkt í hverju tilviki, en áhersla er lögð á að hér er um undantekningu að ræða sem eðli máls samkvæmt ber að túlka þröngt, eins og dómsmálaráðherra hefur gert í samræmi við gildandi lög. Í gildandi reglugerð um skotvopn og skotfæri segir að lögreglustjóri geti gefið út skotvopnaleyfi þegar tvö ár eru liðin frá broti, enda hafi refsing ekki farið fram úr sektum eða varðhaldi og ekki verið um að ræða brot gegn tilteknum ákvæðum tilgreindra laga. Lagt er til að þetta ákvæði verði lögfest og jafnframt að afnumin verði heimild dómsmálaráðherra til að veita undanþágur frá þessum ákvæðum.
    Í 3. mgr. er lagt til að þeir sem sæki um leyfi til að nota eða eignast skotvopn skuli sækja sérstakt námskeið í meðferð og notkun skotvopna eftir nánari reglum er ráðherra setur í reglugerð. Skotvopnanámskeið eru nú byggð upp með þeim hætti að umsækjandi öðlast fræðslu um vopnið og veiðar. Samkvæmt reglugerð um veiðikort og hæfnispróf veiðimanna, nr. 291/1995, skulu umsækjendur um veiðikort sækja tiltekin námskeið um veiðar. Æskilegt er að námskeið lögreglustjóra um skotvopn og skotfæri verði endurskipulögð og eftir atvikum sameinuð námskeiðum um veiðar.

Um 14. gr.

    Hér er lagt til að eins og í gildandi lögum geti fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir sótt um leyfi fyrir skotvopnum, enda tilnefni þau hæfan aðila til að annast viðkomandi skotvopn. Slík heimild er nauðsynleg svo að lögaðili sem þarf á skotvopni að halda vegna eðlis starfsemi sinnar geti fengið slíkt leyfi en þurfi ekki að sækja um það í nafni tiltekins einstaklings. Má í þeim efnum nefna veiðistjóra, atvinnustarfsemi sem verjast þarf vargi o.s.frv. Í greininni er einnig að finna heimild til að veita leyfi fyrir hlaupstuttum einskota skotvopnum en samkvæmt gildandi reglum er slík heimild takmörkuð við bændur. Er sú breyting lögð til að þessi heimild verði bundin við skotvopn af stærðinni 22 cal. og að hið sama gildi um dýralækna. Hins vegar er lagt til að afnumin verði heimild til útgáfu á skammbyssuleyfum til meindýraeyða þar sem gild rök eru ekki talin vera fyrir hendi.

Um 15. gr.

    Hér er lagt til nýmæli. Nokkur dæmi eru um að gefin hafi verið út söfnunarleyfi til einstaklinga sem eiga töluvert magn af skotvopnum. Lagt er til að það fyrirkomulag verði afnumið og þess í stað lögfest ákvæði um leyfi til söfnunar sem verði bundið við eldri vopn.
    Ekki er ætlunin að unnt sé í skjóli söfnunarleyfis að safna vopnum sem ella fengist ekki leyfi fyrir með sjálfstæðri umsókn heldur er með ákvæði þessu fyrst og fremst verið að stuðla að því að einstaklingar og opinber söfn geti innan skýrra marka safnað skotvopnum sem hafa gildi fyrir sögu lands og þjóðar, svo sem tengdum styrjöldum, sérstökum veiðiaðferðum o.s.frv. Þrátt fyrir slíka heimild er ástæða til að gjalda varhuga við því að heimilað verði að einstaklingar komi sér upp safni vopna á grundvelli söfnunarleyfis.
    Í 2. mgr. er lagt til að óheimilt verði að nota vopn sem safnað er í skjóli heimildar skv. 1. mgr., svo og að kaupa skotfæri í þau, nema að fengnu leyfi ríkislögreglustjóra. Rökin að baki þessari takmörkun eru m.a. þau að vopn sem safnað er kunna að vera þess eðlis að þau séu beinlínis hættuleg vegna aldurs eða að notkun þeirra brjóti gegn ákvæðum frumvarpsins að öðru leyti.

Um 16. gr.

    Í greininni eru tillögur um hvernig fara eigi með skotvopn sem tilheyrir dánarbúi. Segir þar að skotvopni skuli innan tólf mánaða ráðstafað til aðila sem leyfi hefur fyrir sambærilegu vopni. Með ákvæðinu er leitast við að tryggja að skotvopn, sem er hluti dánarbús, fari í tiltekinn lögbundinn farveg. Tólf mánaða fresturinn er m.a. til að erfingi geti aflað sér skotvopnaleyfis ef hann kýs svo. Þegar um er að ræða skotvopn sem hefur ótvírætt minja- eða tilfinningagildi er heimilt að víkja frá þessu skilyrði. Með þessu er leitast við að koma til móts við tilfinningalegt gildi sem á stundum er bundið við skotvopn sem hluta af dánarbúi. Í þessu felst að ríkislögreglustjóri getur heimilað að skotvopn verði í eigu erfingja þrátt fyrir að hann hafi ekki skotvopnaleyfi og í því skyni vikið frá skilyrðum laganna sem annars eru fyrir því að eiga skotvopn.

Um 17. gr.

    Í greininni er lagt til að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um skilyrði fyrir því að skotfélag fái viðurkenningu sem slíkt og um leyfi til slíkra félaga og félagsmanna þeirra til að eiga skotvopn til iðkunar á skotfimi. Það er reynsla dómsmálaráðuneytisins að nauðsynlegt sé að setja veitingu slíkra leyfa í fastari skorður. Er markmiðið fyrst og fremst að marka starfseminni ákveðinn ramma. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa rúma heimild til setningar reglugerðar. Markmiðið er að setja ákveðnar reglur um þau skilyrði sem félag þarf að fullnægja til að fá viðurkenningu sem skotfélag og að komið verði í veg fyrir að félög verði stofnuð til málamynda til þess eins að afla leyfa fyrir skotvopnum sem ella fengist ekki leyfi fyrir.
    Í Noregi og Danmörku er skotfélögum almennt veitt nokkurt gildi með því að leyfi fyrir tilteknum skotvopnum eru bundin því skilyrði að leyfishafi sé í skotfélagi og stundi þar æfingar og keppni í skotfimi. Jafnframt eru þeir flokkar skotvopna sem veitt er heimild fyrir bundnir við keppnisskrár skotfélaganna. Með þessu er leitast við að koma til móts við skotfimi sem íþrótt en jafnframt tryggja ákveðna stjórn á málaflokknum. Er lagt til að svipuð leið verði farin hér á landi.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra setja í reglugerð ákvæði um skotvopnaleyfi til einstaklinga til iðkunar skotfimi og um leyfi til skotfélaga til eignar á skotvopnum. Í þessu felst rúm heimild til handa ráðherra til að mæla fyrir um reglur sem gilda skuli um skotfimiiðkun á vegum skotfélaga og eign skotvopna í því sambandi, en ekki þykir æskilegt að mæla ítarlega fyrir um slíkt í lögum. Er gert ráð fyrir að í þessum reglum sé m.a. kveðið á um það hvaða vopn sé heimilt að nota við skotfimi, þar með taldar skammbyssur, hvaða skilyrði einstaklingur þarf að uppfylla til að fá leyfi fyrir slíkum vopnum persónulega, í hvaða tilvikum skotfélagi er heimilt að eiga slík vopn og lána til félagsmanna við æfingar, um skotfimiiðkun yngri en 20 ára o.s.frv.

Um 18. gr.

    Hér er lagt til að haldin skuli skotvopnaskrá fyrir landið í heild og að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um hana. Til viðbótar gildandi ákvæðum um skráningu skotvopna er gert ráð fyrir að um landsskrá verði að ræða, en ekki einungis skráningu í hverju umdæmi, sem felur í sér að allir lögreglustjórar munu skrá útgefin skotvopn í sömu skrána. Slík skráning bætir möguleika á eftirliti o.fl. Í greininni segir að í skotvopnaskrá skuli skrá allar breytingar sem gerðar eru á skotvopni skv. 38. gr. frumvarpsins, en það er eðlilegt þar sem rétt er að skotvopnaskrá endurspegli hvernig vopn er raunverulega úr garði gert. Öll horfin skotvopn skal og skrá, sbr. og 25. gr. frumvarpsins. Þetta leiðir til þess að með landsskrá verður á allan hátt einfaldara að halda saman upplýsingum um skotvopn sem hverfa hér á landi.

Um 19. gr.

    Í 1. mgr. eru ákvæði um heimild eiganda skotvopns til að ráðstafa því til annars manns og eru þau í samræmi við ákvæði 18. gr. gildandi laga. Lagt er til að meginreglan verði sú að óheimilt sé að selja, gefa eða afhenda á annan hátt skotvopn til eignar, nema viðtakandi sýni fram á að hann hafi leyfi lögreglustjóra fyrir slíku vopni. Er þessi regla í samræmi við þá gildandi meginreglu að óheimilt sé að hafa skotvopn undir höndum nema með leyfi lögreglustjóra.
    Í 2. mgr. er ákvæði er heimilar að eigandi skotvopns láni það öðrum manni sem leyfi hefur til að nota sams konar skotvopn. Er sú regla í samræmi við 18. gr. gildandi laga. Er með þessu haldið í þá meginreglu að skotvopn séu ekki í höndum annars en þess er leyfi hefur til að nota slík vopn.

Um 20. gr.

    Ákvæði greinarinnar er í samræmi við 19. gr. gildandi laga þar sem mælt er fyrir um skyldu þess er hefur skotvopn undir höndum að sýna fram á heimild sína til þess að nota vopnið. Mælt er fyrir um heimildir lögreglu til aðgerða ef skotvopnaleyfi er ekki sýnt. Heimild til aðgerða er bundin við lögreglu. Með þessu er átt við að þeir sem fara með lögregluvald, hvort heldur á sjó eða landi, geti gripið til þessara ráðstafana.
    Í 2. mgr. er tekið fram að hafi viðkomandi vopn að láni eða á leigu beri honum að leggja fram skriflega heimild því til staðfestingar. Er þetta í samræmi við 1. mgr. og til þess gert að tryggja að fyrir liggi annars vegar að viðkomandi hafi almenna heimild til notkunar skotvopna og hins vegar að hann sé löglega að því vopni kominn sem hann hefur undir höndum.

Um 21. gr.

    Í þessari grein er almenn varúðarregla svo sem nú er í 20. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. er lagt til að óheimilt verði að bera skotvopn á almannafæri. Með þessu er átt við að óheimilt sé að bera skotvopn við aðstæður sem ekki teljast eðlilegar í ljósi annarra ákvæða frumvarpsins eða annarra laga. Í því felst að ekki er bannað að bera vopn við veiðar á afréttum eða almenningum, við aflífun dýra eða á leið frá húsi til bifreiðar, á leið til veiða o.s.frv. Hins vegar er ljóst að óheimilt er að bera á sér skotvopn á ferð í þéttbýli nema á leið til og frá lögmætum aðgerðum.
    Samkvæmt 2. mgr. er meðferð skotvopna bönnuð undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og skv. 3. mgr. er heimilt að færa þann sem grunaður er um brot á 2. mgr. til nauðsynlegra læknisrannsókna. Eru ákvæðin með sama hætti og 2. og 3. mgr. 20. gr. gildandi laga.
    Í 4. mgr. er ákvæði sem er í samræmi við 4. mgr. 20. gr. gildandi laga. Þar er að finna þá öryggisreglu um meðferð skotvopna að óheimilt sé að beita þeim við þær aðstæður og með þeim hætti að leitt geti til hættu fyrir almenna vegfarendur. Frá þessu er heimilt að víkja ef nauðsyn krefur. Með því er átt við að í tilteknum tilvikum kunni að vera nauðsynlegt að víkja frá þessari reglu vegna neyðarréttarsjónarmiða.
    Í 5. mgr er ákvæði sem er í samræmi við 5. mgr. 20. gr. gildandi laga um bann við að hleypa af skoti á eða yfir annars manns landi, nema lög mæli á annan veg. Með ákvæðinu er leitast við að vernda rétt landeiganda til þess að ráða yfir eigin landi.

Um 22. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við 21. gr. gildandi laga og 1. mgr. 32. gr. reglugerðar um skotvopn og skotfæri. Með orðalagsbreytingu er lögð áhersla á að skotfæri verði ekki afhent nema gegn framvísun skotvopnaleyfis sem staðfesti að viðkomandi hafi heimild til að nota skotvopn sem þau skotfæri eru ætluð fyrir. Er með öðrum orðum ætlast til þess að allir sem taka við skotfærum framvísi skotvopnaleyfi sínu í hvert sinn. Brot á þessum ákvæðum getur varðað afturköllun leyfis skv. 34. gr. frumvarpsins.
    Í greininni er það nýmæli að ráðherra er heimilt að mæla fyrir um bann við tilteknum gerðum skotfæra en slíkt telst nauðsynlegt til að unnt sé að bregðast við þróun á markaði fyrir skotfæri. Getur ráðherra með heimild í þessu ákvæði sett í reglugerð bann við tilteknum gerðum skotfæra sem samræmast ekki þeirri notkun skotvopna sem heimil er. Hér er og átt við skotfæri í skotvopn sem samkvæmt ákvæðum frumvarpsins eru bönnuð eða má að öðru leyti telja hættuleg.

Um 23. gr.

    Í 1. mgr. er lögð til regla sem er í samræmi við 1. mgr. 22. gr. gildandi laga. Er um að ræða varúðarreglu sem leggur þá skyldu á eigendur eða umráðamenn skotvopna að þeir varðveiti skotvopn með þeim hætti að tryggt sé svo sem kostur er að óviðkomandi aðilar nái ekki til þeirra. Um vörslu skotvopna og skotfæra er fjallað nánar í 2. mgr.
    Í öðrum ríkjum er það vaxandi vandamál að óviðkomandi hafi komist yfir skotvopn með ólögmætum hætti, t.d. innbroti. Hér á landi eru og dæmi um að einstaklingar komist yfir skotvopn sem varðveitt eru á heimilum manna og fremji með þeim voðaverk. Af þessu tilefni er að finna þá heimild, sem lögð er til í 2. mgr., um að ráðherra geti mælt fyrir um sérstakar geymslur þegar tilteknum skotvopnafjölda er náð. Ljóst er að fjölmargir einstaklingar eiga verulegt safn skotvopna og er nauðsynlegt að leitast við að tryggja vörslur slíkra vopna.

Um 24. gr.

    Í þessari grein er ákvæði sem er í samræmi við 23. gr. gildandi laga þar sem mælt er fyrir um að óheimilt sé að efna til skotkeppni eða skotæfinga nema á svæði sem hlotið hefur viðurkenningu lögreglustjóra. Í því felst að skotfélögum er óheimilt að koma sér upp æfingaaðstöðu án þess að lögreglustjóri samþykki að svæðið sé notað fyrir slíka starfsemi. Með þessu er ekki ætlunin að koma í veg fyrir venjulega notkun skotvopna, svo sem prófun þeirra við eðlilegar aðstæður.
    Í 2. og 3. mgr. eru nýmæli sem ætlað er að styrkja frekar að aðstæður á viðurkenndu skotsvæði séu fullnægjandi þar sem lagt er til að reglur um þau verði settar að fengnu áliti Vinnueftirlits ríkisins og Brunamálastofnunar þannig að lögreglustjórar hafi skýrar viðmiðanir til að vinna eftir þegar beðið er um viðurkenningu á skotsvæði. Er þar m.a. mælt fyrir um setja skuli reglur um gerð og búnað skotæfingasvæða.

Um 25. gr.

    Í greininni er lagt til að eiganda skotvopns verði skylt að tilkynna lögreglu þegar skotvopn hverfur. Það er í samræmi við 24. gr. gildandi laga. Í greininni er það nýmæli að þegar skotvopn eyðileggst eða því er fargað skuli það afskráð. Jafnframt er mælt fyrir um að hverfi skotvopn skuli hvarfið skráð í skotvopnaskrá. Með þessu er stefnt að því að skotvopnaskráning endurspegli ávallt raunverulega stöðu mála á þessu sviði.

Um IV. kafla.

    Í IV. kafla frumvarpsins er að finna reglur um sprengiefni. Er í kaflanum mælt fyrir um reglur varðandi kaup, notkun og meðferð sprengiefnis. Rétt er að vekja athygli á að í gildi er reglugerð um notkun og meðferð spengiefnis, nr. 497/1996.
    Ákvæði þessa kafla eru í samræmi við ákvæði IV. kafla gildandi laga.

Um 26. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. má enginn kaupa sprengiefni nema að fengnu leyfi lögreglustjóra.
    Í 2. mgr. er lagt til að sá sem óskar eftir heimild til að kaupa sprengiefni skuli sýna fram á að honum sé nauðsyn að kaupa það. Samkvæmt þessu veitir það eitt ekki sjálfstæða heimild til að kaupa ótakmarkað magn af sprengiefni þótt viðkomandi hafi heimild til að nota og fara með slík efni. Sýna þarf fram á ákveðna þörf hverju sinni.
    Í 3. mgr. segir að lögreglustjóri skuli gefa út leyfi fyrir ákveðinni tegund og tilteknu magni sprengiefnis hverju sinni.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um ábyrgð leyfishafa á vörslum sprengiefnis.
    Í 5. mgr. eru ákvæði um tilnefningu ábyrgðarmanna á sprengiefni í þeim tilvikum að lögaðili hefur fengið leyfi til kaupa á sprengiefni.
    Í 6. mgr. er lagt bann við því að leyfishafi afhendi öðrum sprengiefni án sérstaks leyfis lögreglustjóra.

Um 27. gr.

    Í greininni er lagt til að þeir einir megi fara með sprengiefni og annast sprengingar sem hafi til þess leyfi lögreglustjóra og til þess að fá slíkt leyfi þurfi Vinnueftirlit ríkisins að staðfesta að viðkomandi hafi næga kunnáttu til að fara með sprengiefni.

Um 28. gr.

    Hér er lagt til að sprengiefni skuli geyma í sérstökum sprengiefnageymslum sem fullnægi nánari kröfum sem settar verði í reglugerð.

Um 29. gr.

    Ákvæði þessarar greinar er óbreytt frá 28. gr. gildandi laga og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um V. kafla.

    Í V. kafla frumvarpsins er mælt fyrir um reglur um önnur vopn en skotvopn og sprengiefni.
    Í 3. gr. gildandi laga er mælt fyrir um heimild til handa dómsmálaráðherra til að ákveða að ákvæði laganna gildi að einhverju eða öllu leyti um vopn eins og hnúajárn, örvaboga og högg-, stungu- eða eggvopn. Að öðru leyti er ekki ákvæði í lögum um þessi vopn. Hins vegar var með reglugerð nr. 474/1988 sett ákvæði um bann við tilteknum vopnum og eru þau óbreytt í gildandi reglugerð.
    Í þessum kafla frumvarpsins er lagt til að þessi ákvæði reglugerðarinnar verði lögfest nokkuð breytt. Slíkt er nauðsynlegt m.a. til að tryggja að heimilt verði að gera vopn sem þessi upptæk án tillits til þess hvort með þeim hefur verið framið brot eður ei.

Um 30. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að vopnaburður sé bannaður á almannafæri. Með slíku banni verður lögfest að allur hnífaburður á almannafæri verður ólöglegur nema við þær aðstæður sem eðlilegar geta talist. Gildir einu hvort vopn er borið opinberlega í þeim skilningi að það sé sýnilegt eða hvort það er borið innanklæða og með þeim hætti falið. Með hliðsjón af skilgrein ingu 1. gr. frumvarpsins á hugtakinu vopn felst í þessari grein að óheimilt er að bera á sér á almannafæri ýmis tæki sem í venjulegum skilningi og umhverfi teldust ekki vopn en unnt er að nota til að skaða fólk eða dýr.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði ákvæði sem nú eru í reglugerð um bann við því að flytja til landsins, framleiða eða eignast tiltekin vopn. Er markmiðið með því að stemma stigu við innflutningi og notkun alls kyns felu- og götuvopna, en hin síðari ár hafa slík vopn orðið algengari hér á landi, sem og í nágrannalöndum.
    Þau vopn, sem lagt er til að verði bönnuð samkvæmt greininni, eru:
     1.      Bitvopn ef blaðið er lengra en 12 cm, enda sé það ekki ætlað til notkunar við heimilishald eða atvinnu: Með þessu ákvæði er leitast við að setja ákveðin stærðarmörk á þau bitvopn sem heimiluð eru í landinu. Eru þessi stærðarmörk þau sömu og samkvæmt gildandi reglum og sett að danskri fyrirmynd. Þess er hins vegar sérstaklega getið að þetta eigi ekki við um bitvopn sem ætluð eru til heimilishalds eða atvinnu þar sem ljóst er að þörf er á að nota stærri bitvopn.
     2.      Fjaðrahnífar, fjaðrarýtingar, fallhnífar, fallrýtingar, stunguvopn eða önnur slík vopn: Hér er lagt til bann við tilteknum götuvopnum og hættulegum vopnum. Fjaðrahnífar eru þannig útbúnir að blaðið er falið í skaftinu. Með því að ýta á hnapp skýst blaðið fram fyrir áhrif fjaðrarinnar. Fjaðrarýtingar eru sama eðlis að öðru leyti en því að í stað hnífsblaðs er rýtingsblað eða stingur. Fallhnífur eða fallrýtingur hefur sömu virkni, en útbúnaðurinn er þannig að opinu á skaftinu er snúið niður og ýtt á takka og fellur þá hnífsblaðið niður vegna þunga síns. Undir ákvæðið mundu falla svokallaðir „Butterfly“ hnífar sem eru þess eðlis að skaftið er tvískipt og þegar það er opnað kemur hnífsblaðið í ljós. Hægt er að opna skaftið með snöggri handarhreyfingu.
     3.      Höggvopn, svo sem hnúajárn, gaddakylfur, felukylfur, kylfur sem ekki eru ætlaðar til íþróttaiðkunar eða önnur slík vopn, svo og rafmagnsvopn: Samkvæmt þessu er lagt bann við ýmsum vopnum sem notuð eru til að komi höggi á annan mann. Sem dæmi um felukylfur má nefna kylfu sem þannig er úr garði gerð að hún fellur inn í skaftið en er með gormi innan í sem hefur stálkúlu á endanum. Með snöggri handarhreyfingu er kylfunni skotið fram úr skaftinu og er þá um að ræða banvænt vopn. Að öðru leyti er í ákvæðinu lagt almennt bann við kylfum, hnúajárnum o.fl.
     4.      Sverð sem eru sambland högg- og bitvopna: Tæki sem þessi hafa í nokkrum mæli verið flutt inn en þykja engu hættuminni en þau sem bönnuð hafa verið.
     5.      Kaststjörnur, kasthnífar eða önnur slík vopn: Kaststjörnur eru málmskífur í laginu eins og stjörnur með beittum brúnum. Eru þær eins og nafnið gefur til kynna ætlaðar til að kasta. Jafnframt eru til sérstakir kasthnífar sem eðlilegt er að banna.
     6.      Lásbogar, langbogar, slöngubyssur eða önnur slík vopn, svo og örvaroddar, sbr. þó 15. og 17. gr. vegna íþróttaiðkunar eða söfnunar: Í ákvæðinu er lagt bann við tilteknum bogum og slöngubyssum. Slöngubyssur eru sérstaklega hættuleg tegund af teygjubyssum. Eru þær gerðar til að skjóta stálkúlum og eru hættulegar fyrir það að kúlan nær miklum hraða og lendir með miklum krafti á skotmarki innan ákveðinnar fjarlægðar, svo og að hægt er að miða með nokkurri nákvæmni. Í ákvæðinu er lagt bann við innflutningi örvar odda en ekki hefur tíðkast að nota slík tæki til veiða hér á landi og því ekki ástæða til annars en að banna þá. Sérstaklega eru undanþegin þessu ákvæði bogar sem notaðir eru til íþróttaiðkunar, en bogfimi er stunduð hér á landi sem íþróttagrein.
    Í 3. mgr. er að finna heimild til að víkja frá banni 2. mgr. með leyfi ríkislögreglustjóra ef vopn hefur söfnunargildi eða sérstakar ástæður mæla með. Við mat á þessu verður að hafa hliðsjón af því að almennt eru þessi vopn bönnuð og frá því verður ekki vikið nema fyrir því séu gild rök.
    Samkvæmt 4. mgr. er öðrum en lögreglu óheimilt að flytja til landsins, framleiða eða eignast handjárn og fótajárn úr málmi eða öðru efni. Sama gildir um gasvopn. Er um að ræða slík tæki að eðlilegt þykir að setja takmörk sem þessi en þau eru í samræmi við gildandi reglugerð.

Um 31. gr.

    Í greininni er lagt til bann við sölu á tilteknum bogum og örvum til barna yngri en 16 ára. Er ákvæðið í samræmi við gildandi reglur. Þykir eðlilegt að setja tiltekin takmörk við kaupum barna á bogum sem kunna að hafa slíkan togkraft að sérstakri hættu geti valdið.

Um VI. kafla.

    Í VI. kafla frumvarpsins eru ákvæði um meðferð skotelda sem eru að mestu óbreytt frá ákvæðum gildandi laga.

Um 32. gr.

    Í greininni er lagt til að bannað verði að selja börnum yngri en 16 ára skotelda komi það fram í leiðbeiningum að skoteldur sé ekki ætlaður yngri börnum en 16 ára. Er jafnframt lagt til að lögfest verði bann við sölu allra skotelda til barna yngri en 12 ára. Slíkt bann hefur fram til þessa verið í reglugerð en eðlilegra þykir að það sé í lögum.

Um 33. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er lögð til almenn varúðarregla. Auk þess er lögð til heimild til handa ráðherra til að setja í reglugerð nánari ákvæði um sölu og meðferð skotelda. Tekur það m.a. til þess hvenær heimilt er að nota skotelda.

Um VII. kafla.

    Í VII. kafla frumvarpsins eru ákvæði um refsingar, eignaupptöku, afturköllun leyfa o.fl. Er hér um að ræða samsvarandi ákvæði og nú eru í VI. og VII. kafla gildandi laga. Leitast er við að skýra og skerpa á einstökum atriðum frá því sem er samkvæmt gildandi lögum.

Um 34. gr.

    Í þessari grein er fjallað um afturköllun leyfa. Ákvæði greinarinnar taka til allra leyfa samkvæmt frumvarpinu.
    Í 1. mgr. er almennt ákvæði um heimild til afturköllunar leyfa og er það með sama hætti og í 1. mgr. 31. gr. gildandi laga. Mat á því hvort afturkalla skuli leyfi er í höndum hvers lögreglustjóra. Það sem kemur til skoðunar hverju sinni er hvort skilyrði fyrir leyfi séu ekki lengur fyrir hendi, hvort farið sé að settum fyrirmælum o.s.frv. Í dæmaskyni má nefna að handahafi skotvopnaleyfis sé orðinn andlega vanheill eða að varsla á skotfærum eða skoteldum fullnægi ekki öryggisskilyrðum. Heimild þessari verður ekki beitt nema fyrir hendi séu nægjanlega ríkar ástæður til afturköllunar.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um hvaða lögreglustjóri skuli afturkalla skotvopnaleyfi þegar leyfishafi hefur flutt milli umdæma eftir útgáfu leyfis.
    Í 3. mgr. er lagt til það nýmæli að lögreglustjóri geti afturkallað leyfi til bráðabirgða án fyrirvara beri brýna nauðsyn til. Með þessu er átt við að lögreglustjóri geti afturkallað leyfi til bráðabirgða án þess að gæta reglna stjórnsýslulaga um andmælarétt. Þessi regla er reyndar talin gilda, þótt ólögfest sé, á grundvelli öryggissjónarmiða. Hins vegar ber að lokinni afturköllun til bráðabirgða að fara að reglum stjórnsýslulaga við endanlega ákvörðun í málinu, þar með talið um andmælarétt.
    Í 4. mgr. er lagt til að lögfest verði sams konar heimild að því er varðar haldlagningu á vörum sem varðveittar eru á ótryggan hátt. Er ákvæðið í samræmi við 3. mgr. 11. gr. gildandi laga, en eðlilegra þykir að skipa því hér innan frumvarpsins með öðrum ákvæðum um afturköllun og viðurlög.
                             

Um 35. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við 32. gr. gildanda laga.
    Í 1. mgr. er lagt til að við afturköllun leyfis beri leyfishafa að skila til lögreglu vopnum, efnum og tækjum sem hann hefur í vörslu sinni og tengjast því leyfi sem afturkallað hefur verið.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um ráðstöfun á vopnum, efnum og tækjum þegar skilyrði eignaupptöku eru ekki fyrir hendi. Eignaupptaka kemur einkum til þegar framið hefur verið refsivert brot með munum eða þeirra aflað með ólögmætum hætti. Þegar hlutir sem þessir komast í vörslu lögreglu er ekki ávallt um tengsl hluta við refsiverða háttsemi að ræða heldur getur t.d. verið um að ræða afturköllun á leyfi án þess að lögbrot hafi verið framið. Eru þá skilyrði eignaupptöku ekki til staðar. Í slíkum tilvikum ber að ráðstafa greindum munum eins og hér er lagt til, þ.e. með sölu. Ekki er kveðið sérstaklega á um söluaðferð slíkra muna og er það því í valdi lögreglustjóra hverju sinni hvernig salan fer fram en gæta ber þess að fyrir muni fáist sanngjarnt verð og er í því skyni eðlilegt að haft sé samráð við eiganda viðkomandi muna en söluverð að frádregnum kostnaði rennur til hans.
    Í 3. mgr. er lagt til að lögreglu sé heimilt að eyðileggja muni sem teljast lélegir og verðlausir eða verðlitlir.

Um 36. gr.

    Í þessari grein er lagt til að fyrir brot á frumvarpinu og reglum settum samkvæmt því verði refsað með sekt, varðhaldi eða fangelsi allt að 4 árum. Þá er einnig lagt til að tilraun og hlutdeild verði refsiverð. Lagt er til að refsirammi verði þyngdur nokkuð frá því sem er í 34. gr. gildandi laga. Með hliðsjón af því hve alvarleg þessi brot geta verið og afleiðingar af þeim þykir nauðsyn að þyngja nokkuð refsingar.

Um 37. gr.

    Í þessari grein er heimild til eignaupptöku skotvopna, skotfæra sprengiefnis og skotelda sem aflað hefur verið andstætt ákvæðum frumvarpsins eða finnast vörslulausir. Ákvæðið er að mestu í samræmi við 1. mgr. 35. gr. gildandi laga. Þó er sérstaklega tekið fram í ákvæðinu nú að heimild til eignaupptöku taki einnig til annarra vopna sem ólögmæt teljast samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Nauðsynlegt er að þessi ákvæði verði lögfest til að upptökuheimildin nái einnig til hnífa og annarra þeirra vopna er greinir í 30. gr. en dómar hafa gengið þess efnis að upptökuheimild gildandi laga taki ekki til slíkra vopna.
    Í 2. mgr. er ákvæði, sem einnig er í 2. mgr. 35. gr. gildandi laga, um heimild til að gera önnur tæki og efni þess er brýtur af sér með nefndum tækjum eða vopnum upptæk þótt hann hafi ekki beitt þeim við brot. Er um að ræða eðlilegt ákvæði með tilliti til þess atferlis sem viðkomandi hefur gerst sekur um. Er ákvæðið byggt á öryggis- og almannahagsmunum.

Um VIII. kafla.

    Í VIII. kafla frumvarpsins eru ýmis ákvæði, svo sem um heimild ráðherra til að setja reglugerð, um breytingar á skotvopnum og gildistöku.
Um 38. gr.
    Í þessari grein er lagt til að allar breytingar og/eða aukabúnaður sem hefur áhrif á eiginleika skotvopns eða verkan verði óheimilar nema með leyfi lögreglustjóra. Eru í dæmaskyni nefndar breytingar á lásgerð eða mögulegum skotafjölda skotvopns. Má þannig nefna styttingu á hlaupi, breytingu á skotgeymi o.s.frv. Einnig tekur ákvæðið til aukahluta sem settir eru á skotvopn og er þar t.d. átt við hljóðdeyfa.
    Í 2. mgr. segir að allar breytingar sem heimilaðar eru og allir aukahlutir sem leyfðir eru á skotvopn skuli skráðir í skotvopnaskrá og í skotvopnaleyfi. Þykir slíkt eðlilegt til að fylgjast með þróun þessa og til að halda skrá um eiginleika skotvopna.

Um 39. og 40. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal I.


Fjöldi skráðra skotvopna á Íslandi 19951.
Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til vopnalaga.

    Frumvarpið byggist á lögum nr. 46/1977, um skotvopn, sprengiefni og skotelda, en er víðtækara og nær til allra tækja sem telja má til vopna. Frumvarpið miðar einnig að því að setja rammalöggjöf en lagt er til að lögfestar verði rúmar heimildir dómsmálaráðherra til útgáfu reglugerða. Helstu nýmæli frá núgildandi lögum eru rakin í greinargerð. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að haldin verði samræmd landsskrá yfir skotvopn en í núgildandi lögum er kveðið á um að lögreglustjórar skuli halda skrá yfir veitt skotvopnaleyfi. Landsskrá þessi er víðtækari og hefur um nokkurt skeið verið unnið að gerð hennar í dómsmálaráðuneytinu en ekki er talið að það hafi teljandi kostnaðaráhrif í för með sér. Að öðru leyti er það mat fjármálaráðuneytis að nýmæli frumvarpsins muni hafa lítil eða hverfandi áhrif
á útgjöld ríkissjóðs.