Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 176 – 176. mál.Frumvarp til lagaum dómstóla.

     (Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)I. KAFLI

Dómstólaskipanin.

1. gr.

    Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins. Hann er áfrýjunardómstóll og hefur aðsetur í Reykjavík.

2. gr.

    Dómstólar í héraði eru átta. Heiti þeirra, aðsetur og umdæmi eru sem hér segir:
     1.     Héraðsdómur Reykjavíkur hefur aðsetur í Reykjavík og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.
     2.     Héraðsdómur Vesturlands hefur aðsetur í Borgarnesi og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Skilmannahreppur, Innri-Akraneshreppur, Leirár- og Melahreppur, Andakílshreppur, Skorradalshreppur, Lundarreykjadalshreppur, Reykholtsdalshreppur, Hálsahreppur, Hvítársíðuhreppur, Þverárhlíðarhreppur, Borgarhreppur, Borgarbyggð, Álftaneshreppur, Kolbeinsstaðahreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Eyrarsveit, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Skógarstrandarhreppur, Dalabyggð og Saurbæjarhreppur.
     3.     Héraðsdómur Vestfjarða hefur aðsetur á Ísafirði og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Hólmavíkur hreppur, Kirkjubólshreppur, Broddaneshreppur og Bæjarhreppur.
     4.     Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur aðsetur á Sauðárkróki og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Staðarhreppur, Fremri-Torfustaðahreppur, Ytri-Torfustaðahreppur, Hvammstangahreppur, Kirkjuhvammshreppur, Þverárhreppur, Þorkelshólshreppur, Áshreppur, Sveinsstaðahreppur, Torfalækjarhreppur, Blönduósbær, Svínavatnshreppur, Bólstaðarhlíðarhreppur, Engihlíðarhreppur, Vindhælishreppur, Höfðahreppur, Skaga hreppur, Skefilsstaðahreppur, Skarðshreppur, Sauðárkrókskaupstaður, Staðarhreppur, Seyluhreppur, Lýtingsstaðahreppur, Akrahreppur, Rípurhreppur, Viðvíkurhreppur, Hóla hreppur, Hofshreppur, Fljótahreppur og Siglufjarðarkaupstaður.
     5.     Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur aðsetur á Akureyri og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Ólafsfjarðarkaupstaður, Grímseyjarhreppur, Dalvíkurhreppur, Svarfaðardalshreppur, Hríseyjarhreppur, Árskógshreppur, Arnarneshreppur, Skriðuhreppur, Öxnadalshreppur, Glæsibæjarhreppur, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Hálshreppur, Ljósavatnshreppur, Bárðdælahreppur, Skútustaðahreppur, Reykdælahreppur, Aðaldælahreppur, Reykjahreppur, Húsavíkurkaupstaður, Tjörneshreppur, Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur, Raufarhafnarhreppur, Svalbarðshreppur og Þórshafnarhreppur.
     6.     Héraðsdómur Austurlands hefur aðsetur á Egilsstöðum og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Skeggjastaðahreppur, Vopnafjarðarhreppur, Hlíðarhreppur, Jökuldals hreppur, Fljótsdalshreppur, Skriðdalshreppur, Vallahreppur, Egilsstaðabær, Fellahreppur, Tunguhreppur, Eiðahreppur, Hjaltastaðahreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Neskaupstaður, Eskifjarðarkaupstaður, Reyðarfjarðarhreppur, Mjóafjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Bæjarhreppur, Hornarfjarðarbær, Borgarhafnarhreppur og Hofshreppur.
     7.     Héraðsdómur Suðurlands hefur aðsetur á Selfossi og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Austur-Eyjafjallahreppur, Vestur-Eyjafjallahreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur-Landeyjahreppur, Fljótshlíðarhreppur, Hvolhreppur, Rangárvallahreppur, Holta- og Landsveit, Ásahreppur, Djúpárhreppur, Vestmannaeyjabær, Gaulverjabæjarhreppur, Stokkseyrarhreppur, Eyrarbakkahreppur, Sandvíkurhreppur, Selfossbær, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur, Skeiðahreppur, Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Biskupstungnahreppur, Laugardalshreppur, Grímsneshreppur, Þingvallahreppur, Grafningshreppur, Hveragerðisbær og Ölfushreppur.
     8.     Héraðsdómur Reykjaness hefur aðsetur í Hafnarfirði og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Grindavíkurkaupstaður, Sandgerðisbær, Gerðahreppur, Reykjanesbær, Vatnsleysustrandarhreppur, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Bessastaðahreppur og Kópavogskaupstaður.
    Umdæmi hvers héraðsdómstóls skal vera ein þinghá. Frá þessu má dómsmálaráðherra þó víkja með reglugerð sem hann getur sett að fengnum meðmælum hlutaðeigandi héraðsdómstóls og dómstólaráðs.
    

    3. gr.

    Aðrir dómstólar eru Félagsdómur og Landsdómur. Um þá sérdómstóla gilda ákvæði í öðrum lögum.
    

    II. KAFLI
    Hæstiréttur Íslands.
    4. gr.

    Í Hæstarétti eiga sæti níu dómarar, sem forseti Íslands skipar ótímabundið samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra.
    Þann einn má skipa í embætti hæstaréttardómara sem fullnægir þessum skilyrðum:
     1.     Hefur náð 35 ára aldri.
     2.     Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
     3.     Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
     4.     Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
     5.     Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
     6.     Hefur lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt.
     7.     Hefur starfað í minnst þrjú ár sem héraðsdómari, hæstaréttarlögmaður, prófessor í lögum, lögreglustjóri, sýslumaður, ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari, saksóknari, ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu eða umboðsmaður Alþingis eða hefur um jafnlangan tíma gegnt öðru líku starfi sem veitir hliðstæða lögfræðilega reynslu.
     8.     Telst vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar.
    Í embætti hæstaréttardómara má ekki skipa þann sem er eða hefur verið í hjúskap við dómara sem þar er skipaður fyrir eða skyldur slíkum dómara eða mægður að feðgatali, niðjatali eða öðrum lið til hliðar.
    Áður en skipað verður í dómaraembætti skal dómsmálaráðherra leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna því. Umsækjanda verður ekki veitt embættið ef í umsögninni kemur fram það álit að hann fullnægi ekki skilyrðum 5. eða 8. tölul. 2. mgr.
    

    5. gr.

    Hæstaréttardómarar kjósa sér forseta til tveggja ára í senn og varaforseta til sama tíma. Varaforseti gegnir störfum forseta þegar hann hefur forföll eða er fjarstaddur. Biðjist forseti eða varaforseti lausnar frá því starfi eða láti hann af dómaraembætti áður en kjörtímabili er lokið skulu dómarar kjósa annan í hans stað til loka þess. Hæstiréttur tilkynnir um kjör forseta og varaforseta með auglýsingu í Lögbirtingablaði.
    Forseti fer með yfirstjórn Hæstaréttar. Með þeim takmörkunum, sem leiðir af öðrum ákvæðum laga, stýrir forseti meðal annars þeirri starfsemi Hæstaréttar sem er ekki hluti af meðferð máls fyrir dómi, skiptir verkum milli dómara og annarra starfsmanna og fer með agavald yfir þeim. Hann ber ábyrgð á rekstri Hæstaréttar og fjárreiðum og kemur fram af hálfu dómstólsins út á við, auk þess að gegna þeim sérstöku störfum sem mælt er fyrir um í öðrum lögum.
    Nú eru hvorki forseti Hæstaréttar né varaforseti við störf eða hvorugur þeirra getur tekið þátt í afgreiðslu máls eða öðru embættisverki, og kemur þá í stað forseta sá dómari sem lengst hefur verið skipaður hæstaréttardómari.
    

    6. gr.

    Forseti Hæstiréttar skipar dómstólnum skrifstofustjóra samkvæmt ákvörðun dómenda þar. Skrifstofustjóri stýrir daglegum rekstri dómstólsins eftir nánari ákvörðun forseta og í umboði hans, auk þess að gegna öðrum störfum sem forseti kann að mæla fyrir um. Skrifstofustjóri Hæstaréttar er embættismaður og fer um stöðu hans að öðru leyti eftir almennum reglum um slíka starfsmenn ríkisins. Þann einn má skipa í embættið sem hefur lokið embættisprófi í lögum eða hliðstæðri prófgráðu í lögfræði eða annarri grein við háskóla.
    Forseti ræður til Hæstaréttar lögfræðimenntaða aðstoðarmenn og aðra starfsmenn og ákveður verksvið þeirra og stöðu. Hann fer og með vald til að slíta ráðningu þeirra eftir þeim almennu reglum sem gilda um starfsmenn ríkisins.
    

    7. gr.

    Eftir ákvörðun forseta taka þrír eða fimm dómarar við Hæstarétt hverju sinni þátt í meðferð máls fyrir dómi. Í sérlega mikilvægum málum getur forseti þó ákveðið að sjö dómarar skipi dóm. Þá getur forseti ákveðið að einn dómari skipi dóm í kærumáli sem er skriflega flutt og varðar ekki mikilsverða hagsmuni, svo og að einn dómari haldi þing til að taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm.
    Þegar fimm eða sjö dómarar skipa dóm í máli skulu að jafnaði eiga þar sæti þeir sem lengst hafa verið skipaðir hæstaréttardómarar. Varadómari skv. 8. gr. verður ekki kvaddur þar til setu nema tölu dómara verði ekki náð vegna vanhæfis eða forfalla reglulegra dómara.
    Ef mál er umfangsmikið getur forseti ákveðið að dómari, sem tekur ekki annars þátt í meðferð þess, hlýði á málflutning og taki sæti í dóminum ef annar dómari verður síðar fyrir forföllum.
    Þegar Hæstiréttur fæst lögum samkvæmt við annað en meðferð máls fyrir dómi taka allir reglulegir dómarar þátt í ákvörðun nema mælt sé á annan veg í lögum. Hafi dómari forföll eða sé hann vanhæfur skal að jafnaði ekki kvaddur til varadómari skv. 8. gr. nema færri en fimm hæstaréttardómarar geti sinnt því.
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. getur Hæstiréttur falið þremur eða fimm dómurum að taka afstöðu til einstakra flokka erinda, svo sem umsókna um áfrýjunarleyfi eða endurupptöku máls. Þá getur Hæstiréttur einnig falið forseta einum að ráða til lykta ýmsum minni háttar málefnum.
    

    8. gr.

    Nú er hæstaréttardómari vanhæfur til að skipa dóm í máli eða hann fær leyfi eða hefur forföll frá störfum um skamman tíma, og skipar þá dómsmálaráðherra samkvæmt tillögu forseta varadómara til að taka sæti hans í tilteknu máli. Varadómari skal vera úr röðum héraðsdómara, prófessora í lögum, hæstaréttarlögmanna eða fyrrverandi dómara við Hæstarétt og fullnægja skilyrðum til að skipa megi hann í embætti hæstaréttardómara.
    Séu allir hæstaréttardómarar vanhæfir til að skipa dóm í máli skal forseti gera tillögu til dómsmálaráðherra um einn varadómara til að sitja þar í forsæti. Þegar slíkur varadómari hefur verið skipaður gerir hann tillögu til ráðherra um skipan dómsins að öðru leyti.
    Varadómari verður ekki leystur frá starfi í máli nema samkvæmt eigin ósk eða hann missi að mati Hæstaréttar almenn dómaraskilyrði áður en starfi hans lýkur.
    Hæstiréttur ákveður þóknun handa varadómara fyrir hvert mál sem hann tekur sæti í.
    

    9. gr.

    Hæstaréttardómara verður ekki veitt leyfi frá störfum af öðrum sökum en vegna veikinda í lengri tíma en tólf mánuði samfleytt. Dómsmálaráðherra veitir dómara leyfi frá störfum. Að fenginni tillögu Hæstaréttar setur ráðherra dómara í embætti meðan á leyfi reglulegs dómara stendur, enda verði ekki farið svo að á leyfistímanum sem í 8. gr. segir.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ráðherra heimilt að veita hæstaréttardómara leyfi frá störfum að eigin ósk til allt að sex ára til þess að hann geti tekið sæti í alþjóðlegum dómstóli eða við starfi við alþjóðastofnun. Skal embættið þá auglýst laust til setningar á leyfistímanum, en við veitingu þess skal gætt ákvæða 4. mgr. 4. gr.
    Sá einn verður settur til að gegna embætti hæstaréttardómara sem fullnægir skilyrðum til að verða skipaður í það. Meðan á setningu stendur nýtur sá sem hana hefur fengið sömu stöðu og skipaður dómari nema að því leyti sem leiðir af því að starfi hans er markaður ákveðinn tími.
    

    10. gr.

    Hæstiréttur heldur dómþing í Reykjavík nema sérstök ástæða sé til annars.
    Forseti Hæstaréttar stýrir dómi ef hann á þar sæti, en ella varaforseti. Taki hvorugur þeirra þátt í meðferð máls situr þar í forsæti sá dómari í málinu sem lengst hefur verið skipaður hæstaréttardómari.
    Hæstiréttur getur ákveðið að draga úr eða fella niður tímabundið reglulega starfsemi til að koma megi við orlofi dómara og annarra starfsmanna.
    

    11. gr.

    Um þingbækur, dómabækur, atkvæðabækur og málaskrár fer samkvæmt reglum sem Hæstiréttur setur.
    Dómar Hæstaréttar skulu gefnir út. Um tilhögun útgáfunnar fer eftir ákvörðun Hæstaréttar að fengnu samþykki dómsmálaráðherra.
    

    III. KAFLI
    Héraðsdómstólar.

    12. gr.

    Dómarar í héraði eru 38 að tölu og skipaðir ótímabundið í embætti héraðsdómara af dómsmálaráðherra.
    Þann einn má skipa í embætti héraðsdómara sem fullnægir þessum skilyrðum:
          1.      Hefur náð 30 ára aldri.
          2.      Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
          3.      Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
          4.      Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
          5.      Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi, sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti, né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
          6.      Hefur lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt.
          7.      Hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður, stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu eða sveitarfélagi, en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum.
    Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Skipunartími í nefndina er þrjú ár, en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út hvert ár. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.
    Dómnefnd skv. 3. mgr. skal láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara. Ráðherra setur að öðru leyti nánari reglur um störf nefndarinnar.
    

    13. gr.

    Í dómstólaráði eiga sæti þrír menn sem dómsmálaráðherra skipar. Tveir þeirra skulu kjörnir af héraðsdómurum úr þeirra röðum, en ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann ekki vera starfandi dómari. Skipunartími í dómstólaráð er sex ár, en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út annað hvert ár. Hver þessara þriggja manna skal hafa varamann sem skipaður er og eftir atvikum tilnefndur á sama hátt og aðalmaður. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í dómstólaráði oftar en tvisvar samfleytt.
    Láti héraðsdómari, sem á sæti í dómstólaráði, af embætti áður en skipunartími hans er á enda eða fái hann lausn frá setu í ráðinu skal annar kjörinn og skipaður í hans stað til loka skipunartímans. Ráðherra skipar til sama tíma nýjan mann í dómstólaráð ef sá sem hann skipar án tilnefningar hverfur frá starfinu áður en skipunartíma lýkur.
    Dómstólaráð kýs sér formann frá byrjun hvers árs að telja. Það ákveður hvar starfsemi þess fer fram.
    Dómsmálaráðherra ákveður þóknun fyrir setu í dómstólaráði.

    14. gr.

    Auk þess sem mælt er fyrir um í öðrum ákvæðum þessara laga er hlutverk dómstólaráðs sem hér segir:
     1.     Að fara með á sína ábyrgð fjárreiður héraðsdómstóla, gera tillögur til dómsmálaráðherra um sameiginlega fjárveitingu til þeirra og skipta á milli þeirra fé sem skal veitt þeim í einu lagi með fjárlögum.
     2.     Að ákveða fjölda dómara og annarra starfsmanna við hvern héraðsdómstól, svo og að setja almennar reglur um flutning dómara á milli þeirra.
     3.     Að skipuleggja endurmenntun héraðsdómara og annarra lögfræðinga í þjónustu héraðsdómstóla.
     4.     Að setja starfsreglur um samræmda framkvæmd við héraðsdómstóla, en dómstólaráð getur ákveðið að slíkar reglur verði bindandi ef þær varða ekki meðferð dómsmáls að því leyti sem dómari ber einn ábyrgð á henni, sbr. 1. mgr. 24. gr.
     5.     Að safna upplýsingum um fjölda og afgreiðslu mála við héraðsdómstóla og gera eftir þörfum ábendingar af því tilefni, svo og að stuðla að öðru leyti að því að gætt sé þar skilvirkni og hraða við rekstur dómsmála.
     6.     Að setja eftir þörfum almennar reglur um viðveruskyldu héraðsdómara á vinnustað og tilhögun orlofs þeirra, þar á meðal um hvort og þá hvernig dregið verði úr starfsemi héraðsdómstóla vegna orlofs dómara og annarra starfsmanna.
     7.     Að koma fram gagnvart stjórnvöldum og öðrum í þágu héraðsdómstólanna sameiginlega.
     8.     Að gera tillögur um hvað eina sem getur orðið til úrbóta í störfum héraðsdómstóla eða löggjöf sem um þá gildir.
    Dómstólaráð skal gefa út ársskýrslu um starfsemi sína og héraðsdómstólanna.
    

    15. gr.

    Dómstólaráð ákveður við hvaða héraðsdómstól dómari skuli eiga fast sæti. Heimilt er þó að ákveða að allt að þrír héraðsdómarar eigi ekki fast sæti við tiltekinn dómstól, heldur sinni þeir störfum við alla héraðsdómstóla eftir því sem þeim kann að vera úthlutað af málum við hvern þeirra í skjóli almennrar heimildar dómstólaráðs. Dómstólaráð ákveður hvar slíkir dómarar hafi starfsstöð.
    Ákvörðun dómstólaráðs um starfsvettvang skv. 1. mgr. skal hvort heldur gilda um óákveðinn tíma eða tiltekið tímabil. Þegar embætti héraðsdómara er laust skal að jafnaði taka ákvörðun um fyrsta starfsvettvang væntanlegs dómara áður en það er auglýst laust til umsóknar.
    Eftir því sem frekast er unnt skal dómstólaráð taka tillit til óska héraðsdómara þegar starfsvettvangur hans er ákveðinn.
    Héraðsdómari á rétt á að skipta um starfsvettvang svo fljótt sem verða má eftir að hafa starfað í þrjú ár samfleytt við sama dómstól eða án fasts sætis við tiltekinn dómstól, enda standi ákvæði 5. mgr. því ekki í vegi að fengið verði fyrir hann dómarasæti á öðrum vettvangi, sbr. og 39. gr.
    Héraðsdómari verður ekki færður á nýjan starfsvettvang gegn vilja sínum í lengri tíma en sex mánuði á hverju tíu ára tímabili ef hann getur ekki með góðu móti sótt vinnu þar án búferlaflutninga. Þetta gildir þó ekki ef flytja þarf dómara af starfsvettvangi sínum vegna varanlegrar fækkunar dómara þar.
    Ef þörf er á héraðsdómara, sem á fast sæti við héraðsdómstól, til að starfa að tilteknu dómsmáli við annan héraðsdómstól, þar á meðal í fjölskipuðum dómi, ákveður dómstólaráð hverjum verði falið starfið. Dómara er skylt að hlíta slíkri ákvörðun dómstólaráðs.
    

    16. gr.

    Dómsmálaráðherra skipar dómstjóra við hvern héraðsdómstól til fimm ára í senn. Þar sem þrír eða fleiri dómarar eiga fast sæti við héraðsdómstól kjósa þeir einn úr sínum röðum til að gegna starfinu, en séu dómararnir tveir tilnefnir dómstólaráð annan þeirra til starfans ef þeir koma sér ekki saman um valið. Kosning eða tilnefning bindur ekki ráðherra um skipun dómstjóra. Ef dómari er einn við héraðsdómstól skal hann skipaður þar dómstjóri. Skipun dómstjóra raskast ekki þótt dómurum við dómstól fjölgi eða fækki á skipunartímanum.
    Við héraðsdómstól þar sem þrír eða fleiri héraðsdómarar eiga fast sæti er þeim heimilt að kjósa varadómstjóra, en að öðrum kosti telst staðgengill dómstjóra vera sá dómari við dómstólinn sem lengst hefur verið skipaður í embætti héraðsdómara.
    Flytjist dómari, sem gegnir starfi dómstjóra, til annars dómstóls eða sé honum veitt lausn frá starfinu eða embætti héraðsdómara skal skipaður nýr dómstjóri samkvæmt því sem segir í 1. mgr.
    Nú telur dómstólaráð dómstjóra brjóta af sér í því starfi og skal það þá gefa honum kost á að tjá sig um ávirðingarnar. Telji dómstólaráð skýringar dómstjóra óviðunandi getur það veitt honum skriflega áminningu. Ef sakir eru miklar eða brot ítrekað getur dómstólaráð lagt til í rökstuddu erindi að dómstjóra verði veitt lausn frá starfinu. Dómsmálaráðherra tekur ákvörðun um hvort dómstjóra verði veitt lausn, en um meðferð slíks máls gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga.
    Auk þess að gegna dómstörfum hefur dómstjóri með höndum stjórn héraðsdómstóls og ber ábyrgð á starfsemi hans. Dómstjóri skiptir verkum milli dómara og annarra starfsmanna, hann getur skipt dómurum í deildir og úthlutar dómurum eða deildum þeirra málum. Dómstjóri ræður aðra starfsmenn dómstóls en héraðsdómara og slítur ráðningu þeirra. Honum ber að fylgjast með störfum dómara og annarra starfsmanna og gæta aga gagnvart þeim að því leyti sem ekki kemur í hlut annarra samkvæmt ákvæðum 28.–30. gr. Hann fer á eigin ábyrgð með fé sem dómstólaráð leggur dómstólnum í hendur, hann annast samskipti við dómstólaráð um þau málefni sem undir það heyra og hefur annars með höndum verkefni sem dómstólaráð kann að fela honum sérstaklega. Þá kemur dómstjóri að öðru leyti fram út á við í þágu dómstólsins og er í fyrirsvari um sérstök málefni hans.
    

    17. gr.

    Til aðstoðar dómurum má ráða til héraðsdómstóla lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 12. gr. Dómstjóri annast slíka ráðningu og gilda um hana almennar reglur um starfsmenn ríkisins að öðru leyti en því að hún skal vera tímabundin og ekki til lengri tíma en fimm ára við sama dómstól.
    

    18. gr.

    Við úthlutun mála til dómara eða deilda þeirra skal dómstjóri gæta þess að starfsálag þeirra verði svo jafnt sem auðið er, en eftir föngum skal leitast við að tilviljun ráði hvaða dómari fær mál til meðferðar. Dómstólaráð getur sett leiðbeiningarreglur um úthlutun mála.
    Sé máli úthlutað deild dómara ákveða þeir sem hana skipa hver þeirra fari með það.
    Einn héraðsdómari skipar dóm í hverju máli nema annað sé skylt að lögum. Dómstjóri getur þó ákveðið að neytt verði heimildar í öðrum lögum til að dómur verði fjölskipaður héraðsdómurum. Hann úthlutar þeim þá máli í sameiningu og velur einn úr hópi þeirra til að sitja þar í forsæti. Sé þörf á héraðsdómara frá öðrum dómstóli til að skipa dóm í máli leitar dómstjóri til dómstólaráðs sem felur dómara verkið.
    Dómara er heimilt að biðjast undan úthlutun máls vegna tengsla við efni þess, aðila, fyrirsvarsmann eða lögmann þótt hann verði ekki talinn vanhæfur til að fara með það, enda sé beiðni hans studd haldbærum rökum og kostur annars dómara við dómstólinn til að fara með málið. Þá er dómara og heimilt að biðjast undan úthlutun vegna sérstakra anna eða þess að jafnaðar sé ekki gætt með henni. Dómstjóri tekur afstöðu til beiðna sem þessara, en dómara þeim sem í hlut á er heimilt að skjóta ákvörðun hans til úrlausnar dómstólaráðs. Þeirri úrlausn verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
    Dómstjóra er heimilt að draga aftur úthlutun án beiðni þess dómara sem hefur fengið mál til meðferðar ef hann verður ekki við tilmælum dómstjóra um að ljúka því innan hæfilegs frests eða veikindi hans eða hliðstæð atvik torvelda að hann geti sinnt því. Hlutaðeigandi dómara er heimilt að skjóta slíkri ákvörðun dómstjóra til úrlausnar dómstólaráðs. Þeirri úrlausn verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
    Nú víkur héraðsdómari sæti í máli, og skal þá dómstjóri úthluta því á ný, enda fullnægi annar dómari sérstökum hæfisskilyrðum til að fara með það. Ef með þarf getur dómstjóri leitað til dómstólaráðs um að það feli dómara við annan dómstól að taka við úthlutun málsins.
    

    19. gr.

    Fullnægi enginn dómari við héraðsdómstól sérstökum hæfisskilyrðum til að fara með mál kveður dómstjóri í einu lagi upp úrskurð um að þeir víki allir sæti í því. Reynist enginn dómari við annan dómstól heldur hæfur til að fara með málið gefur dómstólaráð skriflegt og rökstutt álit um það. Skal þá dómsmálaráðherra skipa setudómara til að fara með málið.
    Setudómari skal fullnægja skilyrðum til að fá skipun í embætti héraðsdómara. Nú hefur setudómari verið skipaður og hann telur þörf á að dómur verði fjölskipaður í málinu með öðrum en sérfróðum meðdómsmönnum eða það er skylt að lögum. Skal dómsmálaráðherra þá að ósk hans skipa aðra tvo setudómara til að fara með málið með honum en sá sem fyrst var skipaður situr í forsæti í dóminum.
    Setudómara verður ekki vikið úr starfi nema eftir sömu reglum og gilda um skipaða dómara.
    Dómstólaráð ákveður þóknun setudómara og greiðist hún úr ríkissjóði.
    

    20. gr.

    Héraðsdómara verður ekki veitt leyfi frá störfum í lengri tíma samfleytt en tólf mánuði nema vegna veikinda. Dómstólaráð getur þó veitt undanþágu til leyfis í lengri tíma, til mest tólf mánaða í senn, ef dómari leitar eftir því til náms. Dómstólaráð setur að öðru leyti reglur um leyfi héraðsdómara frá störfum. Dómstólaráð veitir leyfi vegna orlofs, auk þess að taka afstöðu til umsóknar um leyfi í öðru skyni, sem stendur í heild í mánuð eða skemmri tíma. Að öðrum kosti gerir það tillögu um afgreiðslu umsóknar héraðsdómara um leyfi, en dómsmálaráðherra ákveður hvort það skuli veitt að fenginni slíkri tillögu.
    Nú hefur héraðsdómari forföll eða honum er veitt leyfi skv. 1. mgr., og verður þá annar því aðeins settur í embætti hans að sérstakar annir krefji og dómstólaráð mæli með því. Dómsmálaráðherra setur þá dómara að fenginni ábendingu dómstólaráðs um mann til starfans. Ráðherra getur þó að eigin frumkvæði eða eftir tillögu dómstólaráðs auglýst embættið laust til setningar meðan á leyfi skipaðs dómara stendur, en dómstólaráð skal þá velja einn úr hópi umsækjenda til að benda á til starfans.
    Þrátt fyrir framangreint er dómsmálaráðherra heimilt að veita héraðsdómara leyfi að eigin ósk frá störfum til allt að sex ára til þess að hann geti tekið sæti í alþjóðlegum dómstóli eða við starfi við aðra alþjóðastofnun. Skal embættið þá auglýst laust til setningar annars dómara á leyfistímanum, en við veitingu þess skal gætt ákvæða 3. og 4. mgr. 12. gr.
    Sá einn verður settur til að gegna embætti héraðsdómara sem fullnægir skilyrðum til að fá skipun í það. Meðan á setningu stendur nýtur sá sem hana hefur fengið sömu stöðu og skipaður dómari.

    21. gr.

    Héraðsdómstólar skulu hver um sig hafa fastan þingstað á aðsetri sínu, svo og annars í hverri þinghá samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra séu þær fleiri en ein innan umdæmis dómstóls. Um slíka ákvörðun skal mælt í reglugerð sem ráðherra setur að fenginni tillögu hlutaðeigandi dómstóls.
    Héraðsdómari getur háð þing utan fasts þingstaðar til að taka fyrir mál innan umdæmis síns ef það þykir heppilegt vegna rekstrar þess. Með sama skilyrði getur héraðsdómari einnig háð þing utan umdæmis síns til að taka fyrir mál eftir þingfestingu þess.
    

    22. gr.

    Við héraðsdómstóla skulu háð regluleg dómþing á föstum þingstöðum samkvæmt því sem dómstólaráð ákveður að fengnum tillögum dómstjóra. Dómstólaráð tilkynnir slíka ákvörðun með auglýsingu í Lögbirtingablaði.
    

    IV. KAFLI
     Réttindi og skyldur dómara.
    23. gr.

    Ákvæði þessa kafla taka jafnt til dómara við Hæstarétt og héraðsdómara nema annars sé sérstaklega getið.
    Til að gegna störfum sem mælt er nánar fyrir um í þessum kafla skipar dómsmálaráðherra þrjá menn til að sitja í nefnd um dómarastörf, svo og jafnmarga til vara. Einn nefndarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Dómarafélags Íslands en hina tvo skipar ráðherra án tilnefninga, þar af annan sem formann nefndarinnar og skal hann fullnægja skilyrðum til að verða skipaður í embætti hæstaréttardómara. Skipunartími nefndarmanna er sex ár en þó þannig að skipunartími eins þeirra rennur út annað hvert ár. Sömu reglur gilda um skipun varamanna. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.
    Úrlausnum nefndar um dómarastörf verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
    Nefnd um dómarastörf skal hafa eftir þörfum samvinnu við dómstólaráð um starfsemi sína. Dómsmálaráðherra ákveður þóknun fyrir setu í nefndinni.
    

    24. gr.

    Dómarar eru sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn máls fara þeir eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra. Dómsathöfn verður ekki endurskoðuð af öðrum nema með málskoti til æðra dóms.
    Dómara er skylt að ljúka á eðlilegum tíma þeim málum sem hann fær úthlutað til meðferðar og rækja störf sín af alúð og samviskusemi. Dómara ber að hlíta boði forstöðumanns dómstóls um önnur atriði varðandi störf sín en meðferð og úrlausn máls. Héraðsdómurum ber og að hlíta lögmætum ákvörðunum dómstólaráðs.
    Dómurum ber að leitast við að halda við þekkingu sinni í lögum. Þeim skal eftir föngum gefinn kostur á leyfi og stuðningi til endurmenntunar.
    

    25. gr.

    Kjaradómur ákveður laun dómara fyrir embættisstörf þeirra. Dómarar eiga ekki rétt á frekari greiðslum vegna embættisstarfa sinna en hér segir: 
     1.     Greiða skal héraðsdómurum samkvæmt almennri ákvörðun kjaradóms fyrir útkallsvaktir og útköll utan reglulegs vinnutíma.
     2.     Greiða skal kostnað af nauðsynlegum ferðum dómara vegna rækslu starfa þeirra samkvæmt almennum reglum sem gilda um starfsmenn ríkisins.
     3.     Greiða skal héraðsdómurum staðaruppbót samkvæmt ákvörðun Kjaradóms vegna tímabundinna starfa þeirra við dómstól þar sem þeir eiga ekki fast dómarasæti, enda sé dómstóllinn í þeirri fjarlægð frá heimilum þeirra að þeir geti ekki með góðu móti sótt þaðan vinnu sína daglega.
     4.     Greiða skal kostnað héraðsdómara af búferlaflutningum sem tengjast tilfærslu milli starfa, enda séu flutningarnir nauðsynlegir til að þeir geti með góðu móti sótt vinnu á nýjum vettvangi.
    Dómstólaráð tekur ákvörðun um greiðslur til héraðsdómara skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. en forseti Hæstaréttar um greiðslur til hæstaréttardómara skv. 2. tölul. 1. mgr. Rísi ágreiningur um rétt til greiðslu skal hann lagður fyrir nefnd um dómarastörf til úrlausnar.
    Um rétt dómara til orlofs, réttindi þeirra vegna veikindaforfalla, lífeyrisréttindi og önnur áþekk atriði fer eftir almennum reglum um starfsmenn ríkisins eftir því sem átt getur við, enda leiði ekki annað af ákvæðum þessara laga.
    

    26. gr.

    Dómara er óheimilt að taka að sér starf eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki ef slíkt fær ekki samrýmst stöðu hans eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi.
    Nefnd um dómarastörf setur almennar reglur um hvers konar aukastörf geti samrýmst embættisstörfum dómara. Dómari skal tilkynna nefndinni um aukastarf áður en hann tekur við því. Sé ekki getið um heimild til að gegna starfinu í almennum reglum nefndarinnar skal dómari þó fyrir fram leita leyfis hennar til þess.
    Nefnd um dómarastörf setur almennar reglur um að hvaða marki samrýmanlegt sé embætti dómara að hann eigi hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Dómari skal tilkynna nefndinni um hlut sem hann eignast í félagi eða fyrirtæki. Sé ekki getið um heimild til að eiga slíkan hlut í almennum reglum nefndarinnar skal dómari þó fyrir fram leita leyfis hennar til þess.
    Með rökstuddri ákvörðun getur nefnd um dómarastörf meinað dómara að gegna aukastarfi eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Dómara ber að hlíta slíku banni, en heimilt er að leita úrlausnar dómstóla um lögmæti þess.
    

    27. gr.

    Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf. Í slíkri kvörtun skal greint frá atvikum og röksemdum fyrir því að brotið hafi verið á rétt þess sem hana ber fram. Berist nefndinni kvörtun sem hún telur þegar sýnt að gefi ekki tilefni til frekari aðgerða vísar hún kvörtuninni frá sér. Að öðrum kosti gefur nefndin hlutaðeigandi dómara og forstöðumanni dómstóls kost á að skila skriflegum athugasemdum innan tiltekins frests. Heimilt er nefndinni að taka í einu lagi til meðferðar tvær eða fleiri kvartanir sem beinast að sama dómara.
    Sé kvörtun metin tæk til meðferðar skal nefnd um dómarastörf ljúka málinu með skriflegu og rökstuddu áliti. Telji nefndin kvörtunina gefa tilefni til aðgerða getur hún í áliti sínu fundið að störfum hlutaðeigandi dómara eða veitt honum áminningu eftir ákvæðum 28. gr.
    

    28. gr.

    Nú telur forstöðumaður dómstóls að háttsemi dómara eða vanræksla í starfi eða framferði hans utan starfs sé slík að aðfinnsluvert sé án þess þó að ákvæði 2. mgr. eigi við. Getur þá forstöðumaðurinn beint munnlegum eða skriflegum tilmælum til dómarans um úrbætur.
    Beri tilmæli skv. 1. mgr. ekki árangur eða telji forstöðumaður dómstóls ávirðingar dómara alvarlegri en svo að tilmæli hans ein séu við hæfi skal hann beina málinu til nefndar um dómarastörf með skriflegu og rökstuddu erindi. Eins skal farið að ef dómari hlítir ekki ákvörðun dómstólaráðs eða banni skv. 4. mgr. 26. gr.
    Dómsmálaráðherra er heimilt að beina máli til nefndar um dómarastörf með sama hætti og greinir í 2. mgr. Þá er nefndinni og heimilt að taka mál upp að eigin frumkvæði ef atvik eru með þeim hætti sem þar segir.
    Berist nefnd um dómarastörf mál samkvæmt því sem um ræðir í 2. eða 3. mgr. skal hún gefa hlutaðeigandi dómara kost á að taka til andsvara í skriflegri greinargerð. Nefndinni ber að öðru leyti að afla gagna eftir því sem hún telur nauðsyn bera til. Um meðferð máls fer annars samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem átt getur við.
    Nefnd um dómarastörf skal ljúka máli með skriflegri og rökstuddri ákvörðun um hvort hlutaðeigandi dómara verði veitt áminning. Sé áminning veitt skal hún birt dómaranum með sannanlegum hætti, en jafnframt skal þá ákvörðunin send forstöðumanni dómstólsins sem hann starfar við auk dómsmálaráðherra. Dómstólaráði skal jafnframt send ákvörðunin ef héraðsdómari á í hlut.
    Dómara, sem hefur sætt áminningu, er heimilt að höfða mál á hendur dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisins til að fá hana fellda úr gildi, en það skal þá gert innan mánaðar frá því hún var birt dómaranum.
    

    29. gr.

    Veita má dómara lausn frá embætti um stundarsakir ef hann hefur sætt áminningu en lagar sig ekki að henni innan hæfilegs tíma eða gerist innan þriggja ára á ný sekur um ávirðingar sem gefa tilefni til áminningar. Dómara verður einnig veitt lausn frá embætti um stundarsakir ef hann missir almenn hæfisskilyrði til að gegna því. Það sama gildir jafnframt ef opinber rannsókn beinist að dómara eða opinbert mál er höfðað á hendur honum og áfellisdómur um sakirnar sem hann er borinn yrði til þess að hann missti almenn hæfisskilyrði.
    Forseti Íslands veitir dómara við Hæstarétt lausn frá embætti um stundarsakir samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra, en ráðherra veitir héraðsdómara slíka lausn. Áður en lausn er veitt um stundarsakir skal ráðherra afla skriflegrar umsagnar frá nefnd um dómarastörf.
    Nú hefur dómara verið veitt lausn frá embætti um stundarsakir af öðrum ástæðum en þeim sem getur í lokamálslið 1. mgr., og skal þá innan tveggja mánaða höfða á hendur honum mál samkvæmt því sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 30. gr., en ella fellur lausnin sjálfkrafa niður. Verði máli vísað frá dómi eða sé það fellt niður fellur lausnin jafnframt sjálfkrafa niður ef nýtt mál er ekki höfðað innan tveggja vikna en þannig verður þó ekki farið að oftar en eitt skipti. Lausn sem veitt hefur verið um stundarsakir eftir ákvæði lokamálsliðar 1. mgr. stendur þar til opinberri rannsókn lýkur með ákvörðun um að hlutaðeigandi dómari verði ekki sóttur til sakar, sex mánuðir eru liðnir án þess að ákæra sé gefin út á hendur honum eða opinberu máli lýkur með endanlegum dómi um sýknu hans en annars þar til tvær vikur eru liðnar frá því endanlegur dómur hefur gengið um sakfellingu hans.
    Dómari heldur fullum embættislaunum meðan á lausn um stundarsakir stendur.
    

    30. gr.

    Þegar dómara hefur verið veitt lausn frá embætti um stundarsakir höfðar dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisins mál á hendur honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með kröfu um að honum verði vikið úr embætti með dómi. Um rekstur máls fer eftir almennum reglum um meðferð einkamála að öðru leyti en því að það sætir flýtimeðferð og skal dómur skipaður þremur héraðsdómurum.
    Þótt dómur gangi í héraði í máli skv. 1. mgr. stendur lausn um stundarsakir áfram meðan kostur er á áfrýjun innan almenns frests, svo og enn eftir það meðan mál er rekið fyrir Hæstarétti ef áfrýjað er.
    Endanlegur dómur um að dómara sé vikið frá leiðir sjálfkrafa til lausnar hans úr embætti.
    Sé dómari sýknaður af kröfu um frávikningu tekur hann sjálfkrafa við embætti sínu á ný frá þeim tíma sem dómur um það telst endanlegur.
    

    31. gr.

    Forseti Íslands veitir dómurum við Hæstarétt lausn frá embætti samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra en dómsmálaráðherra héraðsdómurum.
    Dómara skal veitt lausn frá embætti ef hann leitar eftir henni sjálfur, enda sé það gert með þeim fyrirvara, sem gildir almennt um starfsmenn ríkisins.
    Dómari telst sjálfkrafa fá lausn frá embætti ef hann tekur við skipun í annað embætti.
    Heimilt er að veita dómara lausn frá embætti án óskar hans ef hann er orðinn 65 ára, en hann skal þá upp frá því taka eftirlaun svo sem hann hefði gegnt embættinu til 70 ára aldurs nema hann njóti ríkari réttar samkvæmt stjórnskipunarlögum.
    Dómara skal veitt lausn frá embætti ekki síðar en frá þeim degi sem hann nær 70 ára aldri.
    

    32. gr.

    Um refsiábyrgð dómara vegna háttsemi hans í embætti fer eftir almennum hegningarlögum og sérákvæðum annarra laga. Mál af slíku tilefni verður rekið eftir almennum reglum.
    Verði athafnir dómara í starfi eða athafnaleysi öðrum til tjóns ber ríkið á því bótaábyrgð eftir almennum reglum. Dómari verður ekki sjálfur krafinn um bætur, en ríkinu er þó heimilt að gengnum áfellisdómi að beina að honum framkröfu, enda hafi ásetningsverk hans leitt til bótaskyldu.
    Vísa skal frá dómi máli á hendur ríkinu til heimtu skaðabóta skv. 2. mgr. sé það ekki höfðað innan sex mánaða frá því að tilefni til bótaskyldu mátti vera orðið ljóst, nema afsakanlegt þyki að það hafi ekki verið gert innan þess frests. Um rekstur slíks máls fer að öðru leyti eftir almennum reglum.
    

    33. gr.

    Um önnur atriði en að framan greinir gilda almennar reglur um starfsmenn ríkisins um dómara eftir því sem átt getur við.
    

    V. KAFLI
     Gildistaka, brottfall laga o.fl.
    34. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998 að undanteknum ákvæðum 38. gr. sem taka þegar gildi.
    

    35. gr.

    Við gildistöku þessara laga falla brott eftirtalin lög og ákvæði laga:
     1.     Lög um Hæstarétt Íslands, nr. 75 21. júní 1973, með áorðnum breytingum.
     2.     I. kafli laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92 1. júní 1989, með áorðnum breytingum.
     3.     2. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um aðför, nr. 90 1. júní 1989.
     4.     160. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.
     5.     3. mgr. 3. gr., 2. málsl. 4. mgr. 4. gr., 3. mgr. 6. gr., 3. mgr. 143. gr. og 4. mgr. 165. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991, með áorðnum breytingum.
    

    36. gr.

    Við gildistöku þessara laga verða svofelldar breytingar á ákvæðum annarra laga:
     1.     Í 10. gr. laga um landsdóm, nr. 3 19. febrúar 1963, fellur brott orðið „Hæstaréttarritari“, en í stað þess kemur: Skrifstofustjóri Hæstaréttar.
     2.     Heiti laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, verður: Lög um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.
    Kaflanúmer og kaflafyrirsagnir í sömu lögum falla brott.
    Greinarnúmer í sömu lögum breytast þannig að 10.–16. gr. verða 1.–7. gr.
    Í 1. gr. (áður 10. gr.) sömu laga fellur brott tilvísun í 12. gr., en í staðinn kemur: 3. gr.
    Í 2. mgr. 5. gr. (áður 2. mgr. 14. gr.) sömu laga falla brott orðin „1. og 3.–7. tölul. 1. mgr. 5. gr.“, en í staðinn kemur: almennum skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara, öðrum en um lágmarksaldur.
    Í 3. mgr. 6. gr. (áður 3. mgr. 15. gr.) sömu laga falla brott orðin „ákvæði 1. og 3.–6. tölul. 1. mgr. 5. gr.“, en í staðinn kemur: sömu reglur og um sýslumenn að öðru leyti en um starfsreynslu.
    17.–20. gr. sömu laga falla brott.
     3.     Í 1. mgr. 5. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með áorðnum breytingum falla brott orðin „hann þá með samþykki forstöðumanns dómstólsins kvatt til tvo aðra héraðsdómara til setu í dómi“, en í stað þeirra kemur: dómstjóri þá ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu.
    Í 1. og 3. mgr. 155. gr. sömu laga falla brott orðin „hæstaréttarritari“ og „hæstaréttarritara“, en í staðinn koma í viðeigandi falli orðin: skrifstofa Hæstaréttar.
     4.     Í 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991, með áorðnum breytingum falla brott orðin „hann kveðji“, en í stað þeirra kemur: kvaddir verði.
    Í 3. mgr. sömu greinar falla brott orðin: „er dómara rétt, að fengnu samþykki forstöðumanns dómstólsins, að kveðja til héraðsdómara til setu í dómi með einum sérfróðum meðdómsmanni eða tvo héraðsdómara“, en í stað þeirra kemur: getur dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu eða tveir héraðsdómarar með einum sérfróðum meðdómsmanni.
    Í 2. mgr. 3. gr. sömu laga fellur brott orðið „hæstaréttarritara“, en í stað þess kemur: starfsmenn hæstaréttar.
    Upphafsmálsliður 3. mgr. 155. gr. sömu laga verður svohljóðandi: Synjað skal um útgáfu áfrýjunarstefnu ef hún telst ekki vera í réttu horfi. Í lokamálslið sömu málsgreinar fellur brott orðið „hæstaréttarritara“.
    Í 1., 2. og 4. mgr. 155. gr., 3. mgr. 156. gr. og 1. mgr. 158. gr. sömu laga falla brott orðin „hæstaréttarritari“ og „hæstaréttarritara“, en í staðinn koma í viðeigandi falli orðin: skrifstofa Hæstaréttar.
     5.     3. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70 11. júní 1996, svo sem því ákvæði var breytt með 9. gr. laga nr. 150/1996, verður svohljóðandi: Hæstaréttardómarar, skrifstofustjóri Hæstaréttar og héraðsdómarar.

    VI. KAFLI
     Ákvæði til bráðabirgða.
    37. gr.

    Með gildistöku laga þessara er ekki raskað skipun eða setningu í dómaraembætti.
    Þeir sem gegna embættum héraðsdómara við héraðsdómstóla við gildistöku laga þessara hljóta þá sjálfkrafa embættisheitið héraðsdómari sem ekki verður bundið við ákveðinn dómstól.
    Þeir sem gegna starfi dómstjóra við héraðsdómstóla þegar lög þessi öðlast gildi skulu halda þeim starfa til loka yfirstandandi skipunartímabils.
    

    38. gr.

    Dómsmálaráðherra skipar menn í dómstólaráð, dómnefnd um héraðsdómaraembætti og nefnd um dómarastörf þegar þessi grein hefur öðlast gildi. Ráðið og nefndirnar taka þá þegar til starfa.
    Þegar skipað er í fyrsta sinn í dómstólaráð skal einn aðalmaður ásamt varamanni vera skipaður til tveggja ára, annar aðalmaður ásamt varamanni til fjögurra ára, en þriðji aðal maðurinn og varamaðurinn til sex ára. Skal skipunartími hvers ákveðinn af tilviljun þegar ráðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa.
    Við gildistöku þessarar greinar fellur niður skipun nefndar skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989. Þegar skipað er í fyrsta sinn í nýja dómnefnd um héraðsdómaraembætti skal einn aðalmaður ásamt varamanni vera skipaður til eins árs, annar aðalmaður ásamt varamanni til tveggja ára, en þriðji aðalmaðurinn og varamaðurinn til þriggja ára. Skal skipunartími hvers ákveðinn af tilviljun þegar ráðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa.
    Þegar skipað er í fyrsta sinn í nefnd um dómarastörf skal farið eins að og um ræðir í 2. mgr.
    

    39. gr.

    Héraðsdómara, sem er skipaður í embætti við gildistöku þessara laga, verður ekki gert að skipta um starfsvettvang gegn vilja sínum nema hann geti með góðu móti sótt vinnu á nýjum vettvangi án búferlaflutninga. Þetta gildir þó ekki ef flytja þarf dómara af starfsvettvangi sínum vegna varanlegrar fækkunar dómara þar.
    Ákvæði 6. mgr. 15. gr. gilda um héraðsdómara þótt hann hafi verið skipaður í embætti fyrir gildistöku laga þessara.
    

    40. gr.

    Innan mánaðar frá gildistöku þessara laga ber dómurum við Hæstarétt og héraðsdómurum, sem hafa með höndum aukastörf, ótilkvöddum að gera nefnd um dómarastörf grein fyrir þeim og leita eftir atvikum heimildar hennar til að gegna þeim áfram. Telji nefndin dómara óheimilt að gegna aukastarfi áfram skal hann fá sig leystan frá því innan sex mánaða frá því að honum er tilkynnt um afstöðu nefndarinnar.
    Ákvæðum 1. mgr. skal einnig beitt um eignarhlut dómara í félögum og atvinnufyrirtækjum, en þó þannig að frestur til að láta af hendi hlutann skal vera eitt ár frá tilkynningu um að nefndin telji dómara óheimilt að eiga hann.
    

    41. gr.

    Þeir sem skipaðir eru í starf dómarafulltrúa við gildistöku þessara laga skulu eiga kost á starfi skv. 17. gr., en þó þannig að þargreindar takmarkanir á ráðningartíma gilda ekki um þessa starfsmenn.
    Starfandi dómarafulltrúar við gildistöku laga þessara, sem neyta ekki heimildar skv. 1. mgr., skulu eiga kost á að láta af störfum fyrir árslok 1998 með rétti til biðlauna. Um biðlaunarétt þeirra gilda annars almennar reglur um starfsmenn ríkisins.
    

    42. gr.

    Verði heiti sveitarfélags, sem getið er í 2. gr., breytt eða sameinist tvö eða fleiri þeirra skal litið svo á að sveitarfélagið, sem til verður í staðinn, heyri til dómumdæmisins, sem það eldra eða þau eldri heyrðu til. Ef sameinuð eru tvö eða fleiri sveitarfélög sem hvort eða hvert heyra til síns dómumdæmis eftir ákvæðum 2. gr., skal dómsmálaráðherra ákveða með reglugerð undir hvaða umdæmi nýja sveitarfélagið eigi þar til annarri skipan verður komið á með lögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra. Unnið var að frumvarpinu í nánu samráði við réttarfarsnefnd, en að auki var fjallað um efni þess á fundum með stjórn Dómara félags Íslands og nokkrum fjölda starfandi dómara, svo og á fundum á vegum félagsins. Þá voru drög að frumvarpinu kynnt stjórn Lögmannafélags Íslands og veitti hún ýmsar ábendingar.
    Frumvarpinu er einkum ætlað að koma í stað núgildandi reglna um dómstóla og dómendur, sem eru annars vegar í lögum um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973, og hins vegar í I. kafla laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989. Í fyrrnefndu lögunum eru einu ákvæðin í réttarfarslöggjöf sem hafa ekki enn komið til heildarendurskoðunar í vinnu á undanförnum áratug að nýskipan á því sviði. Reglum í síðarnefndu lögunum um héraðsdómstóla og héraðsdómara, sem tóku gildi 1. júlí 1992, var ekki ætlað að standa til frambúðar, enda voru lögin sett til að hrinda í framkvæmd umfangsmikilli breytingu á dómstólaskipaninni í héraði og var við það miðað að á síðari stigum yrðu ákvæði þeirra um þetta efni færð í nýja heildarlöggjöf um dómstóla. Með gerð frumvarpsins er því í reynd verið að ljúka heildarendurskoðun íslenskra réttarfarslaga sem hófst á árinu 1987.
    Áður en vikið verður að einstökum ákvæðum frumvarpsins verður gerð grein fyrir meginefni þess og helstu sjónarmiðum að baki því, svo og veigamestu breytingunum, sem eru lagðar hér til frá núgildandi lögum.
    

    I.

    Í 2. gr. stjórnarskrárinnar segir að dómendur fari með dómsvaldið. Því er ljóst að samkvæmt stjórnskipunarlögum skulu vera til dómstólar og dómendur, sem annast meðferð dómsmála. Stjórnarskráin tryggir einnig hlutleysi dómenda í störfum sínum. Þannig segir í 61. gr. hennar að dómendur skuli í embættisverkum sínum einungis fara eftir lögum. Stjórnarskráin hefur ekki sjálf að geyma nánari ákvæði til skýringar á þessu, en ljóst er að þessi regla felur meðal annars í sér að dómara sé í störfum sínum óheimilt og óskylt að taka við fyrirmælum frá öðrum, hvort sem er opinberum aðilum eða einkaaðilum. Einnig er mælt svo fyrir í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 92/1989 að sérhver héraðsdómari starfi sjálfstætt og á eigin ábyrgð. Stjórnarskráin hefur að auki að geyma ákvæði sem eiga að tryggja persónulegt starfsöryggi dómenda. Þessi ákvæði öll sýna svo ekki verður um villst að íslenska stjórnarskráin tryggir að hér skuli vera til sjálfstæðir og óháðir dómstólar. Þessu til viðbótar segir í 59. gr. stjórnarskrárinnar að skipan dómsvaldsins verði ekki ákveðin nema með lögum. Þetta ákvæði hefur verið skilið þannig að reglur þurfi að vera í settum lögum um dómstóla, dómendur og meðferð dómsmála. Er með þessu beint athyglinni að því að öll starfsumgjörð dómstóla og dómenda þurfi að vera ákveðin með lögum og nægi ekki í því efni stjórnvaldsfyrirmæli eða aðrar slíkar ákvarðanir.
    Hér á landi var viðhlítandi aðskilnaði á milli dómsvalds og framkvæmdarvalds í héraði ekki komið á fyrr en við gildistöku laga nr. 92/1989 á miðju árinu 1992 og var það löngu síðar en í öðrum vestrænum ríkjum. Frá þeim tíma hefur umræða hér um skipan dómstóla og skilin á milli þeirra og framkvæmdarvaldsins hins vegar beinst að líkum atriðum og í næstu nágrannalöndum. Í slíkum umræðum hefur borið hvað hæst undanfarið hvort samrýmanlegt sé meginreglunni um sjálfstæða og óháða dómstóla að ákvörðunarvald um svokölluð innri málefni dómstóla, þar á meðal um beiðnir um fjárveitingar til þeirra, sé að meira eða minna leyti í höndum ráðherra, en hér á landi gætir þess í nokkrum mæli að dómsmálaráðherra hafi með hendi slíkt vald. Í umræðu um þessi efni hefur verið bent á að ráðherra gæti með afskiptum sínum af beiðnum um fjárveitingar, starfsmannahaldi og veitingu dómaraembætta haft talsverð áhrif á starfsemi dómstólanna. Við þetta bætist að hér á landi eins og í öðrum norrænum ríkjum fer dómsmálaráðherra með æðstu stjórn ákæruvalds og lögreglu. Af þessum sökum hefur því verið hreyft að unnt sé að draga í efa að dómstólar séu fyllilega sjálfstæðir og óháðir þessum þáttum ríkisvaldsins. Við mótun frumvarpsins hefur tillit verið tekið til þessarar umræðu. Þá hefur einnig verið hugað sérstaklega að þróun sambærilegrar löggjafar í öðrum ríkjum Evrópu. Þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands, einkum hvað varðar mannréttindi og viðskipti, valda því að sú viðmiðun er ekki aðeins eðlileg, heldur í sumum tilvikum einnig óhjákvæmileg.
    Við mótun löggjafar um dómstólana verður að hafa í huga að þeim ber að hafa eftirlit með hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins, löggjafarvaldinu annars vegar og framkvæmdarvaldinu hins vegar. Þannig kemur í hlut dómstóla að skera endanlega úr um embættistakmörk yfirvalda, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, og hvort löggjafinn hafi haldið sér innan þess ramma sem honum er settur með stjórnarskránni. Hér ber einnig að nefna það mikilvæga hlutverk dómstóla að dæma í refsimálum sem framkvæmdarvaldið höfðar á hendur sökuðum mönnum.
    Með framangreint í huga hefur þeirri stefnu verið fylgt við samningu frumvarpsins að tryggja verði í sem ríkustum mæli að dómstólarnir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins sem þeir hafa eftirlit með. Verði jafnframt að miða ákvæði frumvarpsins við það að ekki sé nægilegt að þetta sjálfstæði dómstólanna sé tryggt í raun, heldur að sjálfstæðið og trúverðugleikinn, sem því fylgir, sé öllum sýnilegur. Þá hefur og verið fylgt þeirri stefnu, sem þróun beinist tvímælalaust í átt til í nágrannalöndunum, að búa verði svo um hnútana að dómstólar séu einnig sjálfstæðir í ríkum mæli varðandi stjórn innri málefna sinna.
    Samkvæmt fyrrgreindum sjónarmiðum gæti virst rökrétt að með frumvarpinu yrði stefnt að því að dómstólar væru sjálfstæðir í sérhverju tilliti, þannig að þeir féllu hvorki undir ákvörðunarvald löggjafans né framkvæmdarvaldsins í fjárhagslegu eða stjórnunarlegu tilliti. Sjálfstæði í þeim mæli gengi þó of langt og væri ekki í samræmi við íslenskar stjórnskipunar reglur. Að auki ætti slík skipan sér vart fordæmi í ríkjum Vestur-Evrópu. Með svipuðum hætti væri hugsanleg sú lausn að fjárhagsmálefni dómstóla ættu beint undir Alþingi. Það hefði þó ókosti sökum þess að dómstólar hafa ekki aðeins úrskurðarvald um athafnir framkvæmdar valdsins, heldur einnig löggjafarvaldsins. Með henni yrði jafnframt að engu pólitísk ábyrgð ráðherra á þessu sviði. Með þetta í huga hefur niðurstaðan orðið sú við mótun frumvarpsins að styrkja verði sjálfstæði dómstólanna í innri málefnum sínum án þess að gera grundvallar breytingar á því kerfi sem fyrir er.
    

    II.

    Megintilgangur frumvarpsins er að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstólanna sem þriðju valdstoð ríkisins og meðal annars auka þannig tiltrú almennings á starfsemi þeirra. Við samningu frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af nýlegum dönskum og norskum lagafrumvörpum um stjórn dómstóla. Jafnframt hefur verið tekið tillit til tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R (94) frá 13. október 1994, um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómenda, svo og meginreglna Sameinuðu þjóðanna um sjálfstæði dómsvalds sem samþykktar voru á allsherjarþingi þeirra í nóvember 1985. Loks hefur verið litið til sáttmála dómenda í Evrópu frá árinu 1993, með breytingum frá 1996, sem samþykktur var af evrópsku dómarasamtökunum.
    Hér á landi hafa ekki verið til dómstólalög sem hafa að geyma samfelldar reglur um skipan dómstólanna í héraði og á áfrýjunarstigi, skilyrði fyrir veitingu dómaraembætta, réttindi og skyldur dómenda og fleiri atriði sem snerta dómstólana. Á hinn bóginn eru að nokkru leyti í gildi sambærilegar reglur og lagðar eru til í frumvarpinu í lögum nr. 75/1973 og I. kafla laga nr. 92/1989. Ákvæði um þetta efni má einnig finna í öðrum lögum. Með frumvarpinu er stefnt að því að færa þessi dreifðu ákvæði í einn lagabálk sem yrði meðal annars til að gera löggjöfina gleggri yfirlits. Þá felur frumvarpið í sér ýmis mikilvæg nýmæli, sem eins og fyrr greinir er ætlað það meginhlutverk að styrkja sjálfstæði dómstólanna í sem ríkustum mæli. Af þeim meiði eru tvö atriði öðrum mikilvægari.
    Annars vegar er ein meginbreytingin, sem stefnt er að með frumvarpinu, fólgin í því að innri stjórnsýsla héraðsdómstólanna, að því leyti sem hún á ekki undir forstöðumenn þeirra sjálfra, verður að verulegu leyti falin sérstakri stjórnarnefnd sem kallist dómstólaráð. Valdsviði dómstólaráðs er ekki ætlað að ná til Hæstaréttar, enda fer hann þegar að gildandi lögum sjálfur fyrir sitt leyti með mörg þau atriði sem dómstólaráði er ætlað að annast varðandi héraðsdómstólana, og er ekki ráðgerð með frumvarpinu breyting að því leyti. Samkvæmt frumvarpinu á dómstólaráð að vera sjálfstæð stofnun sem dómarar skipi að meiri hluta til. Er meðal annars gert ráð fyrir því að dómstólaráð verði sameiginlegur málsvari héraðsdómstólanna út á við, hafi eftirlit með starfsemi þeirra og verði aflvaki að ýmsum breytingum og nýjungum í starfsháttum. Þannig er lagt til að dómstólaráð komi fram gagnvart stjórnvöldum og öðrum í þágu héraðsdómstólanna sameiginlega. Enn fremur að dómstólaráð fari með fjárreiður héraðsdómstólanna og geri tillögur til dómsmálaráðherra um fjárveitingar til þeirra sameiginlega. Dómstólaráði er ætlað að hafa eftirlit með héraðsdómstólunum, meðal annars með því að safna upplýsingum um afgreiðslu mála og gefa út ársskýrslu um starfsemi þeirra, svo sem nánar getur í 14. gr. frumvarpsins. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því í sama ákvæði að dómstólaráð geri tillögur um hvaðeina sem geti orðið til úrbóta á störfum héraðsdómstóla eða löggjöf sem um þá gildir. Samkvæmt því er ljóst að dómstólaráði er einnig ætlað að gegna því hlutverki að vera aflvaki að hvers kyns nýbreytni í starfsemi héraðsdómstólanna.
    Hins vegar er önnur meginbreyting samkvæmt frumvarpinu fólgin í því að sett verður á stofn óháð nefnd um dómarastörf. Lagt er til að valdsvið þeirrar nefndar taki til allra dómstóla landsins, einnig Hæstaréttar. Nefndinni er meðal annars ætlað það hlutverk að setja almennar reglur um hvers konar aukastörf geti samrýmst embættisstörfum dómara og leysa úr því hvort dómari megi gegna tilteknum störfum af þeim meiði, svo og að gegna samsvarandi hlutverki varðandi heimildir dómara til að eiga hlut í félögum og fyrirtækjum. Einnig er nefndinni ætlað að taka við og leysa úr kvörtunum sem berast frá hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á sinn hlut við rækslu dómstarfa. Lagt er til að nefndin taki til meðferðar sambærilegar kvartanir frá forstöðumönnum dómstóla og dómsmálaráðherra. Þá er miðað við að nefndin hafi með hendi vald til að veita dómara áminningu vegna framferðis hans í starfi eða utan þess sem geti orðið grundvöllur fyrir því að dómsmálaráðherra veiti honum lausn frá embætti um stundarsakir, en um slíka ráðstöfun yrði að leita umsagnar nefndarinnar, sbr. 29. gr. frumvarpsins.
    Eftir núgildandi lögum fer dómsmálaráðherra með yfirstjórn og ákvörðunarvald í mörgum þeim málaflokkum sem lagt er til í frumvarpinu að færðir verði í hendur dómstólaráðs eða nefndar um dómarastörf. Þannig hefur ákvörðun um beiðnir um fjárveitingar handa dómstólunum í raun verið í höndum dómsmálaráðherra, þótt forstöðumenn dómstólanna hafi auðvitað beint þangað beiðnum og rökstutt þær eftir þörfum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir þeirri breytingu í þessum efnum að dómstólaráð geri tillögu til ráðherra um sameiginlega fjárveitingu handa héraðsdómstólunum og skipti síðan á milli þeirra því fé sem veitt yrði á fjárlögum. Kæmi síðan í hlut dómstólaráðs að bera ábyrgð á fjárreiðum héraðsdómstólanna. Með hliðstæðum hætti er ráðgert í frumvarpinu að dómstólaráði verði falin ýmis málefni, sem snerta innri stjórnsýslu héraðsdómstólanna. Ákvörðunarvald um sambærileg atriði er nú að miklu leyti hjá dómsmálaráðherra, en í einstökum tilvikum hjá forstöðumönnum dómstólanna. Þessar valdheimildir eru í mörgum tilvikum lítt notaðar, en í öðrum er réttarstaðan óljós eða ómarkviss. Þetta á til dæmis við um skipulag og framkvæmd endurmenntunar dómara og setningu reglna um samræmda starfsemi dómstólanna. Þá er dómstólaráði einnig ætlað að annast ýmis mikilvæg verkefni sem ekki er sérstaklega fjallað um í núgildandi lögum. Sem dæmi um þetta má benda á að lagt er til að dómstólaráð fari með vald til að ákveða fjölda dómara og annarra starfsmanna við einstaka héraðsdómstóla, hafi margþætt eftirlit með starfsemi dómstólanna og komi fram út á við í þágu þeirra allra í senn. Svipaða sögu má segja um þau viðfangsefni sem falin eru nefnd um dómarastörf með ákvæðum frumvarpsins.
    Þótt frumvarpið miði að því samkvæmt framansögðu að færa ákvörðunarvald um ýmis mikilvæg atriði varðandi fjárreiður og innri starfsemi dómstólanna frá dómsmálaráðherra er ljóst að eftir sem áður hefði hann valdið til ákvörðunar um margvísleg atriði ef frumvarpið yrði að lögum. Þannig má nefna að gert er ráð fyrir að ráðherra skipi héraðsdómara, veiti þeim lausn um stundarsakir eða að fullu og öllu, svo og að hann geri tillögur til forseta Íslands um sömu atriði varðandi hæstaréttardómara. Jafnframt er lagt til að ráðherra skipi dómstjóra við héraðsdómstóla. Því hefur verið hreyft í umræðum í sumum nágrannalöndum að skipan sem þessi sé óeðlileg í ljósi þess að dómsmálaráðherra sé jafnframt æðsti yfirmaður lögreglunnar, hafi eftirlit með ákæruvaldi og geti farið með það vald í vissum málum. Geti af þessum sökum farið betur á því að annar ráðherra en dómsmálaráðherra fari með það vald varðandi dómstólana sem hér um ræðir. Við gerð frumvarpsins var ekki talið að tilefni væri til að gera tillögur um breytingar á núverandi skipan að þessu leyti, en slíkur kostur hefur heldur ekki orðið fyrir valinu annars staðar í nágrannalöndum okkar, þar sem umræður sem þessar hafa farið fram. Í því sambandi er meðal annars haft hér í huga að ef frumvarpið verður að lögum yrði sjálfstæði dómstóla aukið til muna, þannig að nægilegt sé með tilliti til atriða sem þessara.
    

    III.

    Efni frumvarpsins er skipað í sex kafla. Í þeim fyrsta er mælt fyrir um meginatriði dómstólaskipunarinnar. Í öðrum kafla frumvarpsins eru ákvæði um Hæstarétt, en í þeim þriðja eru reglur um héraðsdómstóla. Í fjórða kafla eru síðan fyrirmæli um réttindi og skyldur dómara sem eiga að taka jöfnum höndum til hæstaréttardómara og héraðsdómara. Í fimmta kafla eru kveðið á um gildistöku, brottfall laga og breytingar á lögum, en í sjötta og síðasta kafla frumvarpsins eru nokkur ákvæði til bráðabirgða.
    Til glöggvunar verður nú gerð stuttlega grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins, einkum að því er varðar nýmæli sem felast í því.
     1.     Eins og ráðið verður af I. kafla frumvarpsins er lagt til að dómstig hér verði eins og hingað til tvö, með því að Hæstiréttur sé áfrýjunardómstig en héraðsdómstólar fari með mál á fyrsta stigi. Þá er ráðgert í frumvarpinu að héraðsdómstólar verði áfram átta talsins og að umdæmi þeirra verði óbreytt frá því sem nú er. Í því sambandi er þó til þess að líta að ýmis ákvæði frumvarpsins miða að því að draga úr skilum á milli héraðsdómstóla. Þannig er sem áður segir lagt til að allir héraðsdómstólarnir eigi undir sameiginlega stjórn dómstólaráðs á ýmsum atriðum, svo sem nánar verður gerð grein fyrir hér síðar. Þá er ráðgert að héraðsdómarar verði ekki lengur skipaðir til starfa við tiltekinn dómstól, heldur geti þeir færst á milli dómstóla samkvæmt ákvörðun dómstólaráðs og skipt þannig um starfsvettvang. Ákvæði frumvarpsins stefna þannig að vissu marki að því að gera héraðsdómstólana að einni einingu. Má telja að það hafi margvíslega kosti, þar á meðal að jafna álagi á dómstólana, stuðla að samræmi í framkvæmd við þá og styrkja stöðu minni dómstóla, sem væntanlega yrðu mannaðir af reyndum dómurum fremur en hingað til. Benda má á að yfirliti yfir dómstólaskipanina í I. kafla frumvarpsins lýkur með því að tekið er fram í 3. gr. að auk Hæstaréttar og héraðsdómstólanna séu Félagsdómur og Landsdómur einnig dómstólar. Með þessu eru íslenskir dómstólar tæmandi taldir með sama hætti og leiðir af núgildandi löggjöf.
     2.     Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar frá núgildandi reglum um skilyrðin sem verður að vera fullnægt til að skipa megi mann í embætti hæstaréttardómara. Helstu breytingarnar felast í ákvæðum 4.–8. tölul. 2. mgr. greinarinnar, svo og 4. mgr. hennar, en nánari greinargerð er um þetta í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins.
     3.     Í 5. og 6. gr. frumvarpsins eru öllu ítarlegri reglur en í núgildandi lögum um stjórnun Hæstaréttar, þar á meðal um verksvið forseta dómsins, svo og skrifstofustjóra, en verði frumvarpið að lögum kemur það embætti í stað stöðu hæstaréttarritara sem verður þá lögð niður. Forseta dómsins er ætlað að skipa skrifstofustjóra samkvæmt ákvörðun dómenda og á skrifstofustjórinn að stýra daglegum rekstri dómstólsins eftir nánari ákvörðun forseta og í umboði hans. Skilgreining á starfi skrifstofustjóra er nokkuð önnur en á starfi hæstaréttarritara samkvæmt núgildandi lögum. Hlutverk og störf forseta Hæstaréttar, sem ekki lúta beinlínis að meðferð mála fyrir dómi, eru jafnframt skilgreind í 5. gr. frumvarpsins. Þar segir meðal annars að forseti fari með yfirstjórn Hæstaréttar og stýri þeirri starfsemi hans sem er ekki hluti af meðferð máls fyrir dómi. Þá kemur þar einnig fram að forseti beri ábyrgð á rekstri Hæstaréttar og fjárreiðum. Samsvarandi ákvæði er ekki að finna í núgildandi löggjöf.
     4.     Hæstiréttur þarf að taka ýmsar ákvarðanir, sem lúta ekki beinlínis að meðferð einstakra dómsmála. Í núgildandi lögum er ekki að finna skýr ákvæði um hvert sé hlutverk forseta dómsins í þessum efnum eða hvernig dómstóllinn taki að öðru leyti ákvarðanir sínar. Þykir nauðsynlegt að bæta úr þessu, svo sem leitast er við í 5. og 7. gr. frumvarpsins. Kemur þar meðal annars fram sú aðalregla að allir dómarar skuli taka þátt í ákvörðun nema mælt sé á annan veg í lögum, sbr. 4. mgr. 7. gr. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar gæti þó Hæstiréttur falið þremur eða fimm dómurum að taka afstöðu til einstakra flokka erinda, svo sem umsókna um áfrýjunarleyfi eða endurupptöku máls. Einnig gæti Hæstiréttur falið forseta einum að ráða til lykta ýmsum minni háttar ákvörðunaratriðum. Með þessum reglum er ekki stefnt að verulegum efnisbreytingum miðað við þær starfsreglur sem Hæstiréttur hefur myndað og leiða að öðru leyti af eðli málsins.
     5.     Í 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að settar verði skýrar reglur um leyfi hæstaréttardómara frá störfum af öðrum sökum en vegna veikinda. Í þessum nýmælum er aðalreglan sú að dómara verði ekki veitt leyfi, til dæmis vegna náms eða starfs annars staðar, til lengri tíma en tólf mánaða samfleytt. Ráðgert er að við veitingu slíks leyfis verði annað tveggja að setja dómara til tímabundinna starfa eða kveðja varadómara skv. 8. gr. til setu í einstökum málum. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. mætti þó gera undantekningu frá framangreindri reglu ef hæstaréttardómari tæki sæti í alþjóðlegum dómstóli eða við starfi hjá alþjóðastofnun. Í því tilviki gæti ráðherra veitt dómaranum leyfi í allt að sex ár, en þá væri skylt að auglýsa embættið laust til setningar á leyfistímanum.
     6.     Í frumvarpinu er lagt til að fjöldi héraðsdómara verði óbreyttur frá því sem nú er, þannig að þeir verði alls 38. Við gerð frumvarpsins hefur ekki komið til svo rækilegrar upplýsingasöfnunar sem þyrfti til að leggja rökstutt mat á það hvort þessi fjöldi dómara sé hæfilegur. Verði frumvarpið að lögum má hins vegar gera ráð fyrir því að dómstólaráð muni fljótlega hefjast handa við að safna upplýsingum um fjölda dómsmála og afgreiðslu þeirra á grundvelli 14. gr. frumvarpsins og geti þá gert tillögur um hvort og þá hvernig aukin skilvirkni og hraði náist við rekstur dómsmála. Þá kæmi einnig í ljós að hvaða marki nýmæli um starfsvettvang héraðsdómara, sem nánar er vikið að í næsta lið hér á eftir, kynnu að leiða til hagræðingar og aukinna afkasta. Með þessu gæti hugsanlega orðið grundvöllur til að fækka héraðsdómurum á síðari stigum að fenginni reynslu af breyttri skipan.
     7.     Það er nýmæli samkvæmt frumvarpinu að héraðsdómarar verði ekki skipaðir til starfa við ákveðinn dómstól, heldur í embætti héraðsdómara og gætu á grundvelli þeirrar skipunar starfað við hvaða héraðsdómstól sem verða vildi. Þetta er lagt hér til með það í huga að auðveldara yrði að koma við breytingu á starfsvettvangi dómara í styttri eða lengri tíma, en gert er ráð fyrir að slík tilhögun sé til þess fallin að skila aukinni skilvirkni en nú er. Þessi tilhögun ætti auk þess að skila betur samræmdum vinnubrögðum héraðsdómstólanna og verða hvati til að dómendur afli sér aukinnar reynslu og þekkingar. Í frumvarpinu er lögð til sú aðalregla að dómstólaráð ákveði við hvaða héraðsdóm hver og einn dómari skuli eiga fast sæti. Slík ákvörðun gæti verið tekin til tiltekins tímabils eða staðið um óákveðinn tíma. Dómstólaráð gæti hins vegar gert undantekningu frá þessu, þannig að allt að þrír héraðsdómarar ættu ekki fast sæti við tiltekinn dómstól. Slíkir dómarar gætu sinnt störfum við alla héraðsdómstólana eftir því sem þörf krefði og dómstólaráð mundi ákveða. Í 15. gr. frumvarpsins eru sérstakar reglur um rétt eða skyldu héraðsdómara til að skipta um starfsvettvang. Gert er ráð fyrir því að tekið skuli að jafnaði fram við auglýsingu lauss embættis héraðsdómara hver verði fyrsti starfsvettvangur þess sem það hlýtur. Eftir þetta ætti héraðsdómari rétt á að skipta um starfsvettvang svo fljótt sem verða mætti eftir að hafa starfað í þrjú ár samfleytt á sama vettvangi. Héraðsdómari yrði hins vegar ekki færður á nýjan starfsvettvang gegn vilja sínum í lengri tíma en sex mánuði samfleytt á hverju tíu ára tímabili ef hann gæti ekki með góðu móti sótt þar vinnu án búferlaflutninga. Ákvæði um skylduflutning dómara við sambærilegar aðstæður eiga sér erlendar fyrirmyndir. Verði frumvarpið að lögum mundi þessi heimild til að flytja dómara tímabundið til annars starfsvettvangs gegn vilja hans þó ekki að gilda um héraðsdómara, sem skipaðir hafa verið fyrir gildistöku laganna, sbr. 39. gr. frumvarpsins. Slíkum dómara yrði ekki gert að skipta um starfsvettvang gegn vilja sínum nema hann gæti sótt vinnu á nýjum vettvangi án búferlaflutninga. Í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir þeirri undantekningu frá öllum framangreindum takmörkunum á heimildum til að færa héraðsdómara til í starfi gegn vilja hans að hann verði að sæta slíkri tilfærslu sé verið að fækka dómurum varanlega við þann dómstól þar sem hann hefur starfað. Verði frumvarpið að lögum getur reynt á það í ýmsum tilvikum að héraðsdómarar verði eftir ákvörðun dómstólaráðs að taka sæti í dómstólum annars staðar en fastur starfsvettvangur þeirra er í lengri eða skemmri tíma. Það getur til dæmis átt við ef þörf væri á dómara til að starfa að tilteknu dómsmáli við annan héraðsdómstól. Þetta gæti einnig orðið raunin vegna tímabundins álags við tiltekinn dómstól ef dómara vantaði í fjölskipaðan dóm eða vegna vanhæfis eða forfalla reglulegs dómara við dómstólinn. Allir héraðsdómarar yrðu skyldir til að verða við boði dómstólaráðs um að starfa að tilteknu dómsmáli við annan héraðsdómstól og mundi þá ekki skipta máli hvenær þeir hafa verið skipaðir í dómaraembætti.
     8.     Sem fyrr greinir er lagt til það nýmæli með frumvarpinu að sett verði á stofn dómstólaráð þar sem þrír menn ættu sæti, þar af tveir héraðsdómarar, sbr. 13. gr. Þessari reglu um skipan dómstólaráðs er ætlað að tryggja að meiri hluti þess verði ávallt skipaður úr röðum héraðsdómaranna sjálfra. Samkvæmt frumvarpinu yrði dómstólaráð sjálfstæð stofnun, sem lyti hvorki boðvaldi ráðherra né annarra. Hlutverk þess yrði sem áður segir að fara með fjárreiður héraðsdómstólanna og taka ákvarðanir um ýmis önnur málefni sem varða innri málefni dómstólanna. Viðfangsefni dómstólaráðs eru að þó nokkru leyti talin upp í 14. gr., en auk þess er mælt fyrir um frekari viðfangsefni ráðsins í öðrum ákvæðum frumvarpsins. Eins og áður segir miðar hugmyndin um sérstaka óháða stofnun, sem falið yrði að taka ákvarðanir um fjárreiður og ýmis innri málefni héraðsdómstólanna, að því að styrkja stöðu þeirra. Í stjórnskipun ríkisins er gert ráð fyrir sjálfstæðum og óháðum dómstólum og verður sjálfstæði þeirra og hlutleysi að vera hafið yfir allan vafa. Er því ekki nægjanlegt að sjálfstæðið og hlutleysið sé tryggt í reynd, heldur verður það einnig að vera sýnilegt hverjum sem er. Ekki verður talið að það sé fallið til að skapa traust á dómstólum ef pólitískur ráðherra getur tekið lokaákvarðanir um ýmislegt sem snertir innri málefni þeirra. Sjálfstætt dómstólaráð, sem yrði skipað og hefði með höndum verkefni eins og lagt er til í frumvarpinu, ætti hins vegar vafalaust að styrkja þá ímynd að dómstólar standi sterkt gagnvart öðrum þáttum ríkisvaldsins. Hugmyndin um sjálfstæða stofnun, sem fari með líkt hlutverk og dómstólaráði er ætlað í frumvarpinu, hefur verið uppi víða erlendis á síðustu árum, þar á meðal annars staðar á Norðurlöndunum, og er henni þar ætlað að þjóna sama tilgangi og vikið hefur verið að hér. Þess skal að lokum getið að þau störf, sem lagt er til í frumvarpinu að dómstólaráði verði falin, hafa til þessa að sumu leyti átt undir dómsmálaráðuneytið eða forstöðumenn einstakra dómstóla. Að öðru leyti er hér um að ræða störf, sem ekki hefur áður verið sinnt, til dæmis gerð ársskýrslna um starfsemi héraðsdómstóla og að koma fram gagnvart stjórnvöldum og öðrum í þágu dómstólanna allra í senn.
     9.     Dómarafulltrúar hafa um langa hríð starfað við flesta héraðsdómstóla landsins. Réttarstaða þeirra var áður fyrr ekki eins trygg og skipaðra dómenda, enda var meðal annars unnt að segja þeim upp störfum. Dómarafulltrúar hafa framkvæmt dómsathafnir í umboði og á ábyrgð forstöðumanns viðkomandi héraðsdómstóls, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 92/1989. Löng venja var fyrir því að dómarafulltrúar færu með og dæmdu í hvers kyns dómsmálum, bæði einkamálum og sakamálum. Á þessu varð breyting eftir dóm Hæstaréttar frá 18. maí 1995 þar sem talið var að meðferð dómarafulltrúa á mikilvægum dómsmálum væri brot á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Í kjölfar þessa dóms var 6. gr. laga nr. 92/1989 breytt með lögum nr. 80/1995 á þann veg að dómarafulltrúar mættu ekki fara með og leysa úr deiluefni í einkamálum þar sem vörnum er haldið uppi. Einnig var girt þar fyrir að dómarafulltrúar mættu fara með opinber mál frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Með sömu lögum var 8. gr. laga nr. 92/1989 hins vegar breytt þannig að réttarstaða dómarafulltrúa var bætt að nokkru leyti. Þessar reglur eru nú í gildi. Við mótun nýrrar löggjafar um þetta efni þykir rétt að rifja upp að bæði hér á landi og á alþjóðlegum vettvangi er það skilyrðislaus krafa að dómstólar sem stofnanir og dómendur sem persónur skuli njóta sjálfstæðis. Dómarar eiga þannig að vera sjálfstæðir í starfi sínu og njóta enn fremur öryggis í starfi. Þessu til viðbótar verða dómstólar að vera þannig að skipan að ekki sé unnt að draga í efa sjálfstæði þeirra út frá fyrrgreindum sjónarmiðum. Sjálfsagt er unnt að styrkja réttarstöðu dómarafulltrúa enn frekar en nú er og notast þannig við núgildandi kerfi áfram. Þetta þykir hins vegar ekki heppileg leið vegna fyrrgreindra röksemda og þróun hugmynda um aukið réttaröryggi. Í frumvarpinu er því ráðgert að staða dómarafulltrúa verði alveg lögð niður í núverandi mynd, en um réttarstöðu þeirra sem gegna slíku starfi við gildistöku laganna ef frumvarpið nær fram að ganga eru lagðar til sérstakar reglur í 41. gr. Í stað dómarafulltrúa er lagt til að tekin verði upp störf löglærðra aðstoðarmanna héraðsdómara. Um starfssvið slíkra aðstoðarmanna eru ekki nánari ákvæði í frumvarpinu, en svo sem starfsheitið bendir til er ætlunin að þeir verði héraðsdómurum til aðstoðar og geti þannig innt af hendi ýmis verk við undirbúning og framkvæmd þinghalda og meðferð einstakra mála. Dómstólaráð og héraðsdómstólarnir hefðu þannig svigrúm til að móta stefnuna í þessum efnum.
     10.     Í núgildandi lögum er ekki að finna efnisákvæði um hvernig málum fyrir héraðsdómi skuli úthlutað til einstakra dómenda eða deilda innan dómsins. Í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 92/1989 segir þó að dómstjórar við héraðsdómstóla úthluti dómurum málum til meðferðar. Miklu skiptir að reglur um úthlutun dómsmála leiði til þess að tilviljun ráði því að jafnaði hvaða dómari fari með tiltekið mál. Alveg er ljóst að aðilar máls eða aðrir utanaðkomandi eigi ekki að geta haft áhrif á þetta, enda gæti slík skipan ekki samrýmst skoðunum um sjálfstæða og óháða dómstóla. Þá þarf einnig að hafa í huga að úthluta verður málum með þeim hætti að gætt sé jafnræðis og fyllstu sanngirni á milli einstakra dómenda eða deilda þeirra. Á hinum Norðurlöndunum eru ekki mjög strangar reglur um úthlutun dómsmála. Dómsforseti hefur þar víðast hvar talsverð völd til að meta hvernig úthlutun verði best við komið, enda gæti hann ávallt fyrrgreindra meginsjónarmiða. Í Þýskalandi eru hins vegar mjög strangar og ítarlegar reglur um úthlutun mála, en með þeim á að tryggja að einber tilviljun ráði hvaða dómari fái mál til meðferðar. Í 18. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um efnisreglu um úthlutun mála þar sem byggt er á áðurnefndum meginsjónarmiðum án þess að ganga svo langt sem síðast var hér getið um erlendan rétt. Samkvæmt frumvarpinu er dómstólaráði þó ætlað að setja nánari leiðbeiningarreglur um þetta efni. Í ákvæðinu eru jafnframt reglur um heimild dómara til að biðjast undan úthlutun máls með ákveðnum skilyrðum, svo og um heimild til að draga aftur úthlutun án beiðni viðkomandi dómara. Einnig má vekja athygli á því að ráðgert er að bera megi ágreining á milli dómara og dómstjóra um úthlutun undir dómstólaráð. Nauðsynlegt er að hafa reglur um þetta til þess að náð verði þeim megintilgangi, sem stefnt er að með reglum um úthlutun dómsmála, að hún verði bæði hlutlæg og réttlát.
     11.     Um skipun og störf dómstjóra við héraðsdómstóla er nú fjallað í 4. og 5. mgr. 4. gr. laga nr. 92/1989. Þar segir meðal annars að dómstjórar hafi með höndum yfirstjórn héraðsdómstóla og beri ábyrgð á henni. Þeir fari hver um sig með fyrirsvar héraðsdómstólsins út á við. Þeir úthluti einnig dómsmálum til héraðsdómara og skipi þeim í deildir ef dómstóllinn er deildarskiptur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að starfssvið dómstjóra breytist nokkuð frá því sem nú er. Eiga sum störf þeirra að færast til dómstólaráðs, til dæmis þau sem lúta að gerð tillagna um fjárveitingar og yfirumsjón með fjárreiðum viðkomandi dómstóls. Svipað má eflaust segja um ýmis önnur störf, til dæmis að safna upplýsingum um afgreiðslu dómsmála og setja reglur um viðveruskyldu héraðsdómara á vinnustað. Önnur störf yrðu hins vegar eftir hjá dómstjórum og er í sumum tilvikum kveðið skýrar á um þau. Þá verða einnig til samkvæmt frumvarpinu ný störf, sem dómstjórum bæri að inna af hendi. Hér má sem dæmi nefna öll samskipti við dómstólaráð, svo og önnur þau störf sem dómstólaráð kynni að fela dómstjórum sérstaklega. Sérstök ákvæði um störf dómstjóra eru einkum í 5. mgr. 16. gr. frumvarpsins. Þau ákvæði eru að ýmsu leyti ítarlegri en núgildandi reglur og miða að því að gera sem skýrust valdmörk dómstjóra annars vegar og dómstólaráðs hins vegar. Í umræddri málsgrein kemur meðal annars fram að dómstjórar hafi með höndum stjórn héraðsdómstóla, beri ábyrgð á starfsemi þeirra og komi fram út á við fyrir hönd þeirra. Dómstjórum er þar ætlað að skipta verkum á milli dómara og annarra starfsmanna, þeim er heimilað að skipa dómurum í deildir og þeim ber að úthluta málum til dómara eða deilda þeirra. Þá er dómstjórum falið að ráða aðra starfsmenn við dómstólana en héraðsdómara og slíta ráðningu þeirra. Þeim ber einnig að fylgjast með störfum dómara og annarra starfsmanna og gæta aga gagnvart þeim. Dómstjórar eiga jafnframt að bera ábyrgð á fé, sem dómstólaráð leggur dómstólunum í hendur, og annast samskipti við dómstólaráð um þau efni sem undir það heyra. Þá verður að sjálfsögðu að gera ráð fyrir því að dómstjórar fari með dómsmál og leysi úr þeim eins og aðrir dómendur, eftir því sem önnur störf þeirra leyfa.
     12.     Í 20. gr. frumvarpsins eru lagðar til skýrari reglur en nú gilda um leyfi héraðsdómara frá störfum. Gert er ráð fyrir þeirri aðalreglu að héraðsdómara verði ekki veitt lengra leyfi frá störfum samfleytt en í tólf mánuði nema vegna veikinda. Heimild væri þó til að veita undanþágu til leyfis í lengri tíma, mest til tólf mánaða í senn, ef dómari leitaði eftir því til náms. Slíka undanþágu mundi dómstólaráð veita, enda bæri það ábyrgð á fjárreiðum viðkomandi dómstóls. Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á því að alls ekki er víst að til setningar dómara kæmi í tilefni af leyfisveitingu, sbr. 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins. Þvert á móti gæti verið að þeir dómarar, sem fyrir eru, gætu annað auknu álagi eða dómstólaráð mundi beita heimildum sínum til að skipa fyrir um tímabundinn flutning héraðsdómara á milli dómstóla til að jafna það aukna álag sem kynni að leiða af leyfi annars dómara. Þá er í 20. gr. gert ráð fyrir að sams konar heimild gildi og um hæstaréttardómara til að veita héraðsdómara leyfi til allt að sex ára til að taka við starfi við alþjóðlegan dómstól eða alþjóðastofnun. Fyrirmælin í 20. gr. frumvarpsins um leyfisveitingar handa héraðsdómurum eru mun rýmri en ákvæði 9. gr. um hæstaréttardómara. Er þannig einkum leitast við að örva yngri héraðsdómara til frekari menntunar eða endurmenntunar.
     13.     Í IV. kafla frumvarpsins eru lagðar til öllu ítarlegri reglur um einstök atriði varðandi réttindi og skyldur dómara en eru í núgildandi sérlögum um þá. Um ýmis ákvæði kaflans af þeim meiði verður þó sagt að samsvarandi reglur hafi gilt til þessa um dómara, ýmist með ályktun af öðrum lögum, svo sem stjórnarskránni eða almennum lögum um starfsmenn ríkisins, vegna eðli máls eða sem óskráðar meginreglur. Tilgangurinn með því að taka reglurnar upp í frumvarpinu er einkum sá að gefa gleggri heildarmynd af stöðu dómara, svo og að komast sem mest hjá óvissu um það að hvaða marki almennar reglur um starfsmenn ríkisins, sem taka einkum mið af stöðu starfsmanna á sviði framkvæmdarvaldsins, geti gilt um dómara.
     14.     Í frumvarpinu felst sem áður segir það nýmæli að komið verði á fót sérstakri og óháðri nefnd sem hefði tiltekið valdsvið varðandi skyldur dómenda. Gagnstætt því sem lagt er til um dómstólaráð tæki valdsvið þessarar nefndar bæði til hæstaréttardómara og héraðsdómara. Nefndinni er ætlað að vera algerlega óháð í störfum sínum og að vera æðsta stjórnvald í þeim málum sem henni eru falin. Samkvæmt frumvarpinu yrðu störf nefndar um dómarastörf einkum þrenns konar. Í fyrsta lagi kæmi í hlut hennar að setja almennar reglur um aukastörf dómara og heimildir þeirra til að eiga hlut í félögum og fyrirtækjum, svo og að leysa úr um heimildir dómara í þeim efnum í einstökum tilvikum. Í öðru lagi tæki nefndin við kvörtunum vegna starfa dómara, en með því væri almenningi gefinn kostur á að fá leyst úr slíku. Í þriðja lagi gæti forstöðumaður dómstóls eða dómsmálaráðherra sent nefndinni erindi vegna ætlaðra ávirðinga dómara, en af slíku tilefni gæti nefndin veitt dómara áminningu. Þá kæmi einnig í hlut nefndarinnar að gefa umsögn um ávirðingar á hendur dómara áður en honum yrði veitt lausn frá embætti um stundarsakir. Í núgildandi lögum er ekki að finna sambærileg ákvæði. Sá sem telur dómara hafa brotið á rétti sínum getur kvartað um það til forstöðumanns dómstóls eða dómsmálaráðherra, en það fer eftir viðbrögðum viðkomandi hvort eitthvað frekar verður aðhafst í máli. Einnig er í vissum tilvikum unnt að bera ágreining af þessu tagi undir Hæstarétt ef kvörtun varðar starf héraðsdómara, sbr. 3. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Getur Hæstiréttur þá veitt dómara áminningu eða gert honum sekt. Þá er að finna í 8. gr. laga nr. 92/1989 ákvæði um áminningu á hendur héraðsdómara. Áminninguna getur forstöðumaður dómstóls veitt þegar hún beinist að dómara eða dómarafulltrúa, en forseti Hæstaréttar ef forstöðumaður héraðsdómstóls á í hlut. Þessi ákvæði eru ómarkviss og hafa ekki þótt gefa góða raun í framkvæmd. Að því er varðar aukastörf dómara og eignarhald þeirra að hlutum í félögum og fyrirtækjum eru reglur allar óljósar í gildandi rétti. Tilgangur ákvæða frumvarpsins um sérstaka nefnd um dómarastörf er enn og aftur að styrkja stöðu dómstólanna sem sjálfstæðra og óháðra stofnana, jafnt inn á við sem út á við. Nefnd af því tagi, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, á sér fyrirmyndir í ýmsum nágrannaríkjum okkar. Augljóst er að gagnsæjar reglur um aukastörf dómara og eignaraðild þeirra að félögum og fyrirtækjum eru fallnar til að ná fyrrnefndu markmiði. Á það enn frekar við um kæruheimild almennings, sem telur dómara hafa gert á sinn hlut. Loks auðveldar aðgangur forstöðumanna dómstóla og dómsmálaráðherra að nefndinni eftirlit með dómurum.
     15.     Núgildandi reglur um brottvikningu dómara er einkum að finna í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989. Með frumvarpinu er ekki stefnt að stórfelldum breytingum í þessu efni, en leitast er við að gera reglurnar skýrari og ítarlegri. Í 29. gr. frumvarpsins er ráðgert að dómara verði veitt lausn frá embætti um stundarsakir í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi ef dómari hefur sætt áminningu, sem nefnd um dómarstörf veitir, en lagar sig ekki að henni eða gerist sekur um nýjar ávirðingar innan þriggja ára. Í öðru lagi ef dómari missir almenn dómaraskilyrði, en í því sambandi má vekja athygli á að í 5. tölul. 2. mgr. 4. gr. og 5. tölul. 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins er meðal annars sett það almenna hæfisskilyrði að dómari megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verði almennt að njóta. Í þriðja lagi ef opinber rannsókn beinist að dómara eða opinbert mál er höfðað á hendur honum og áfellisdómur um sakirnar, sem beinast að honum, yrði til þess að hann missti almenn dómaraskilyrði. Í öllum þessum tilvikum yrði dómsmálaráðherra að afla skriflegrar umsagnar nefndar um dómarastörf áður en lausn um stundarsakir yrði veitt. Samkvæmt frumvarpinu er aðalreglan sú að lausn dómara frá embætti um stundarsakir yrði að fylgja eftir með dómsmáli, sem dómsmálaráðherra höfðar á hendur honum þar sem krafist yrði að honum yrði vikið úr embætti. Hér er um að ræða sambærilega reglu og nú gildir. Nýmæli eru hins vegar í frumvarpinu um að málið verði að höfða innan tveggja mánaða frá því að lausn var veitt um stundarsakir, en annars falli lausnin niður. Frá þessu er þó gert ráð fyrir undantekningu vegna tilvika þar sem dómara væri veitt lausn um stundarsakir vegna opinberrar rannsóknar eða höfðunar opinbers máls, svo sem nánar er vikið að í athugasemdum við 29. gr. Ástæðan fyrir þessu er sú að ekki þykir fært að láta dómara gegna störfum sínum á meðan opinber rannsókn á alvarlegum sakargiftum stendur yfir eða rekstur opinbers máls á hendur honum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


    Um 1. gr.

    Þessi grein frumvarpsins er upphafsákvæði I. kafla þess þar sem tekið er saman eins konar yfirlit yfir dómstólaskipanina hér á landi. Í 1. gr. er mælt fyrir um Hæstarétt, en í 2. gr. um héraðsdómstóla. Loks er í 3. gr. mælt fyrir um aðra dómstóla, Félagsdóm og Landsdóm sem eru sérdómstólar. Með þessu eru tæmandi taldar þær stofnanir ríkisins sem teljast dómstólar í lagalegri merkingu.
    Af ákvæðum I. kafla má ráða að lagt er til grundvallar í frumvarpinu að ekki verði gerð breyting á þeirri skipan að dómstig hér á landi séu tvö eða á þeirri stefnu, sem var fylgt við endurskoðun dómstólaskipunarinnar í tengslum við setningu laga nr. 92/1989, að sérdómstólar skyldu heyra til algerra undantekninga. Varðandi fjölda dómstiga má rifja upp að á árum áður var oft hreyft hugmyndum um að koma á fót þriðja dómstigi, sem stæði á milli héraðsdómstólanna og Hæstaréttar, og var meðal annars flutt á Alþingi á árunum kringum 1980 frumvarp til laga um lögréttu, sem miðaði að þessu. Öðrum þræði beindust slíkar hugmyndir að því að koma fram aðskilnaði á milli dómsvalds og framkvæmdarvalds, en einnig var því stundum haldið fram að þriðja dómstigið yrði eina raunhæfa leiðin til að létta álagi af Hæstarétti og draga úr óhæfilegum biðtíma mála þar. Sem kunnugt er var skilið á milli umræddra greina ríkisvaldsins með þeirri skipan sem komið var á með lögum nr. 92/1989, án þess að komið væri á millidómstigi. Sú skipan hefur ekki sætt teljandi gagnrýni, svo séð verði. Þá hafa breytingar, sem voru gerðar 1994 á reglum um meðferð mála fyrir Hæstarétti og að nokkru á reglum um skipan réttarins, orðið til þess að stytta þar biðtíma mála svo verulega að nú verður vel við unað, enda tekur líklega hvergi orðið í nágrannalöndunum okkar skemmri tími að ljúka málum á áfrýjunardómstigi en hér á landi. Hafa hugmyndir um þriðja dómstig því lítið sem ekkert komið til tals í tengslum við gerð þessa frumvarps, en slík tilhögun yrði til að auka mjög kostnað af dómstólakerfinu og er hætt við að hún yrði einnig til tafa við að koma fram málalokum. Meðal annars mundu sömu ókostir fylgja því að setja á fót sérdómstóla til að fara með tilteknar tegundir mála.
    Ákvæði 1. gr. svara til fyrirmæla í 1. gr. laga nr. 75/1973 um Hæstarétt Íslands. Ekki verður séð að þessi grein þarfnist sérstakra skýringa.
    

    Um 2. gr.

    Samkvæmt upphafsorðum 1. mgr. 2. gr. miðar frumvarpið að því að héraðsdómstólar á landinu verði átta og er það óbreytt skipan frá því sem nú gildir, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Við undirbúning frumvarpsins voru kannaðir ýmsir kostir varðandi sameiningu héraðsdómstóla en hugmyndir í þeim efnum snerust um allt frá því að fækka dómstólum um einn með sameiningu dómstólanna tveggja á Norðurlandi og til þess að sameina alla héraðsdómstóla í einn, en mæla fyrir um fastar starfsstöðvar slíks dómstóls á nokkrum fjölda staða um land allt. Mjög skiptar skoðanir voru um þetta efni meðal starfandi dómara og annarra sem létu í ljós álit á þessu. Var því horfið að því ráði að leggja til að fjöldi héraðsdómstóla yrði óbreyttur. Því til mótvægis eru á hinn bóginn tillögur í frumvarpinu sem miða að því að ná fram einhverjum af þeim kostum sem hefðu getað fylgt sameiningu héraðsdómstólanna, hvort heldur í einn eða fleiri. Þannig er meðal annars lagt til að skipun héraðsdómara verði ekki bundin við ákveðinn dómstól heldur geti þeir flust á milli dómstóla, hvort sem er til fastra starfa um lengri eða skemmri tíma eða til að fara með eitt dómsmál, sbr. einkum 15. gr. frumvarpsins. Þá er ráðgert að dómstólaráð gegni ákveðnu hlutverki varðandi stjórnun og samræmingu sem tæki til allra héraðsdómstóla, sbr. einkum 14. gr., en um þetta vísast nánar til þess sem segir hér að framan í almennum athugasemdum, svo og til athugasemda við þá grein.
    Umdæmi héraðsdómstólanna eru afmörkuð í átta töluliðum 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Þar er miðað við að mörkin á milli umdæmanna verði óbreytt frá því sem nú gildir en umdæmin yrðu þar með þau sömu og kjördæmin við Alþingiskosningar, ef frá eru talin mörkin á milli héraðsdómstólanna í Reykjavík og á Reykjanesi. Nokkuð önnur leið er hins vegar farin í frumvarpinu við afmörkun á umdæmunum en í gildandi lögum, því hér er lagt til að umdæmi hvers dómstóls verði ákveðið með upptalningu þeirra sveitarfélaga, sem undir hann heyra, í stað þess að miða við landfræðileg mörk, sem að mestu taka mið af sýslum, svo sem nú er gert í 2. gr. laga nr. 92/1989. Tillagan um þetta á einkum rætur að rekja til þess að eftir breytingar á síðasta áratug á skipan sveitarstjórnarmála eru sýslur ekki lengur til sem lagalega skilgreind landsvæði. Verður því ekki útilokað að skírskotun til sýslumarka geti leitt til óvissu að ýmsu leyti. Upptalning sveitarfélaganna í 1. mgr. 2. gr. er óneitanlega nokkuð fyrirferðarmikil, auk þess að sá ókostur fylgir þessari tilhögun að breytingar yrði að gera á ákvæðinu vegna sameiningar sveitarfélaga eða breytinga á heitum þeirra. Við síðarnefnda atriðinu er þó að nokkru séð með ákvæðum 42. gr. frumvarpsins, þar sem mælt er fyrir um hvernig farið verði að undir þeim kringumstæðum, sem hér um ræðir.
    Í einstökum töluliðum við 1. mgr. 2. gr. kemur fram hvar héraðsdómstólarnir eiga hver um sig að hafa aðsetur. Í þeim efnum eru ekki lagðar til breytingar frá núgildandi reglum í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 92/1989.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um nýmæli varðandi skiptingu umdæma héraðsdómstólanna í þinghár. Í núgildandi reglu um þetta efni í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 92/1989 er dómsmálaráðherra heimilað að skipta dómumdæmum í tvær eða fleiri þinghár með fyrirmælum í reglugerð. Það hefur verið gert með reglugerð nr. 58/1992. Samkvæmt henni er dómumdæmum utan Reykjavíkur skipt í þinghár, sem í meginatriðum eru þau sömu og stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Í reglugerðinni er jafnframt mælt fyrir um regluleg dómþing í hverri þinghá. Þessi skipan hefur ekki þótt gefa góða raun því í sumum þinghám eru sárafá dómsmál ár hvert en umtalsverður kostnaður hefur fylgt ferðum héraðsdómara á milli þingháa til að halda regluleg dómþing, þar sem jafnvel engin mál koma upp. Er af þessum sökum lagt til í 2. mgr. 2. gr. að aðalreglan verði sú að hvert dómumdæmi verði ein þinghá, en dómsmálaráðherra megi víkja frá því með reglugerð að fengnum meðmælum viðkomandi dómstóls og dómstólaráðs. Að því leyti sem dómumdæmum yrði ekki skipt í fleiri en eina þinghá samkvæmt þessari heimild, yrðu regluleg dómþing ekki háð nema á aðseturstað hvers dómstóls, sbr. 22. gr. Þetta mundi þó ekki breyta því að dómþing mætti heyja annars staðar en á aðseturstað dómstóls, svo sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 21. gr.
    

    Um 3. gr.

    Í þessari grein er svo sem áður er getið lokið upptalningu í I. kafla frumvarpsins á dómstólum hér á landi með því að nefndir eru Félagsdómur og Landsdómur, sem nú eru einu sérdómstólarnir. Sérdómstólum hefur fækkað hér mjög frá því sem áður var en í því sambandi má benda á að á þessum áratug hafa horfið af sjónarsviðinu Siglingadómur, Kirkjudómur og Synódalréttur, auk þess að dómsvald stjórnar Lögmannafélags Íslands á afmörkuðu sviði hefur verið afnumið. Sé litið aftar í tímann hafa enn fleiri sérdómstólar verið lagðir niður, svo sem sjó- og verslunardómur á árinu 1981. Hefur þróunin í íslenskri dómstólaskipan að þessu leyti verið í samræmi við þróunina í flestum nágrannalöndum, sem hefur miðað að því að sem flest mál sæti meðferð fyrir almennum dómstólum.
    Í 3. gr. eru engar efnisreglur um þá tvo sérdómstóla sem þar er getið um enda er markmið ákvæðisins líkt og 9. gr. laga nr. 92/1989 að taka af skarið um hvaða stofnanir verði í lagalegu tilliti taldar til dómstóla. Í síðari málsl. 3. gr. segir að um dómstólana tvo gildi ákvæði í öðrum lögum, en um Félagsdóm eru fyrirmæli í lögum nr. 80/1938 og nr. 94/1986, en um Landsdóm í lögum nr. 3/1963.
    

    Um 4. gr.

    Þessi grein er upphafsákvæði II. kafla frumvarpsins, sem fjallar um Hæstarétt Íslands. Þessum kafla er ætlað að koma í stað þeirra fyrirmæla sem standa orðið eftir í lögum um Hæstarétt, nr. 75/1973, en öll ákvæði þeirra laga um meðferð mála fyrir þeim dómi, sem stóðu upphaflega í II. til VI. kafla þeirra, voru færð með lögum nr. 91/1991 og nr. 38/1994 inn í almenna löggjöf um meðferð einkamála. Ákvæði I. kafla laga nr. 75/1973 hafa í ýmsum atriðum sætt endurskoðun á liðnum árum, einkum með lögum nr. 91/1991 og nr. 39/1994, og þykir því ekki þörf neinna teljandi breytinga á þeim. Er því efni II. kafla frumvarpsins að miklu leyti á sama veg og I. kafla laga nr. 75/1973, en því er þó skipað hér með nokkuð öðrum hætti.
    Í 4. gr. frumvarpsins eru ákvæði um skipun hæstaréttardómara þar á meðal um skilyrði sem fullnægja þarf til að hljóta það embætti. Kemur þessi grein þannig í stað 1. mgr. 2. gr. og 5. gr. laga nr. 75/1973.
    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. eiga níu dómarar að eiga sæti í Hæstarétti, en þetta er sami fjöldi dómara og eftir núgildandi reglu í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1973, svo sem henni var síðast breytt með lögum nr. 39/1994. Þá er tekið fram í þessu ákvæði frumvarpsins að hæstaréttardómarar skuli skipaðir í embætti ótímabundið af forseta Íslands. Að þessu leyti er ákvæðið á sama veg og núverandi regla í síðari málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1973, eins og hennar var breytt með 17. gr. laga nr. 83/1997.
    Í 2. mgr. 4. gr. eru talin upp helstu almennu skilyrðin sem umsækjandi um embætti hæstaréttardómara yrði að fullnægja til að geta hlotið skipun í það, en núgildandi fyrirmæli um sama efni eru í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973. Með þessu ákvæði frumvarpsins er gert ráð fyrir þeirri breytingu að umrædd skilyrði verði þar talin í heild sinni, en í núgildandi reglu er á hinn bóginn áskilið annars vegar að umsækjandi verði að fullnægja almennu skilyrðunum til að geta orðið héraðsdómari, sem sett eru í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989, og hins vegar að umsækjandi fullnægi þremur tilgreindum skilyrðum til viðbótar. Efnislega felur 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins í sér tillögu um nokkrar breytingar frá umræddum núgildandi reglum. Af þeim skal í fyrsta lagi bent á að samkvæmt 1. tölul. ákvæðisins er gert ráð fyrir því að lágmarksaldur hæstaréttardómara verði 35 ár í stað 30 ára eftir núverandi reglu. Í öðru lagi yrði þess krafist samkvæmt 4. tölul. ákvæðisins að umsækjandi um embætti hæstaréttardómara mætti aldrei hafa misst forræði á búi sínu, eða með öðrum orðum að bú hans hafi aldrei verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989, sem gildir um hæstaréttardómara að þessu leyti, er þess hins vegar aðeins krafist að dómaraefni hafi forræði á búi sínu, eða með öðrum orðum að bú hans sé ekki undir gjaldþrotaskiptum á þeim tíma sem embætti er veitt. Þessi breyting þykir eðlileg í ljósi þeirra krafna sem gera verður til þeirra sem gegna þessu embætti. Í þriðja lagi er í 5. tölul. ákvæðisins gerð krafa um að umsækjandi megi ekki hafa gerst sekur um refsivert athæfi sem megi telja svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verði almennt að njóta. Þessum fyrirmælum er ætlað að koma í stað þess skilyrðis í 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989 að umsækjandi um dómaraembætti verði að hafa óflekkað mannorð. Með tillögunni, sem hér er gerð um breytingu, er litið til þess að áskilnaður um óflekkað mannorð hefur reynst mjög vandmeðfarið í framkvæmd, enda er inntak þess hugtaks nokkuð á reiki. Í því sambandi hefur þó einkum verið leitað skýringa með því að líta til skilgreiningar á hugtakinu í 3. gr. laga nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis. Kröfurnar, sem felast í þeirri skilgreiningu, eru of vægar til að geta orðið skilyrði fyrir veitingu dómara embættis. Má í því sambandi vísa til þess að samkvæmt 8. gr. laga nr. 92/1989 getur það eitt nægt til að dómara verði vikið úr embætti að hann hafi rýrt svo álit sitt siðferðislega að hann megi ekki lengur gegna því. Skýtur skökku við ef vægari kröfur væru gerðar við veitingu embættis en til að víkja mætti dómara úr því. Af þessum sökum er með umræddu ákvæði frum varpsins leitast við gera skilyrði af þessum meiði fyrir veitingu dómaraembættis markvissara, þótt inntak þess sé vissulega matskennt. Í fjórða lagi felst í 6. tölul. ákvæðisins tillaga um að afnema áskilnað, sem nú er í 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973, um að dómari við Hæstarétt verði að hafa lokið lögfræðiprófi með fyrstu einkunn. Að baki þessari tillögu býr meðal annars að erlent próf í lögfræði verður metið jafngilt íslensku prófi sem hæfisskilyrði til að hljóta dómaraembætti samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989, svo sem því ákvæði var breytt með lögum nr. 133/1993 í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Erlend lagapróf eru byggð upp með mjög mismunandi hætti. Af þeim sökum verður áskilnaður um tiltekinn námsárangur, sem tekur eingöngu mið af íslensku menntakerfi, ómarkviss. Í fimmta lagi er í 7. tölul. ákvæðisins gert ráð fyrir því að rýmka nokkuð reglur um hvers konar starfsreynslu dómaraefni við Hæstarétt þurfi að hafa öðlast til að fullnægja skilyrðum til að fá skipun í embætti. Í 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973, sem nú gildir um þetta efni, er áskilið að dómari þurfi að hafa um minnst þriggja ára skeið gegnt einhverjum af þeim störfum sem þar eru talin upp. Tæmandi upptalning af þessu tagi þykir óheppileg með tilliti til þess að hún kann að útiloka umsækjendur sem hafa haldgóða starfsreynslu, en þó ekki af einhverjum þeim sviðum sem þar eru greind. Er því lagt til í niðurlagi 7. tölul. að bætt verði við þá upptalningu sem nú er í lögum að skilyrðum um starfsreynslu verði fullnægt með öðru líku starfi, sem veiti hliðstæða lögfræðilega starfsreynslu við þau störf sem upp eru talin. Loks eru í sjötta lagi lögð til nýmæli í 8. tölul. ákvæðisins, þar sem gert er ráð fyrir því skilyrði fyrir skipun í dómaraembætti við Hæstarétt að viðkomandi teljist hæfur til að gegna því í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar. Skilyrði sem þetta kemur ekki fram í núgildandi lögum, þótt ganga verði út frá því að það hafi gilt eðli málsins samkvæmt. Lagt er til að þetta atriði verði tekið upp í talningu hæfisskilyrða, en það er gert með hliðsjón af þeim nýmælum í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins sem vikið er að hér á eftir.
    Í 3. mgr. 4. gr. er tekið upp ákvæði sama efnis og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973, þar sem girt er fyrir að hjón eða skyldir menn eða mægðir innan ákveðinna marka geti samtímis átt dómarasæti í Hæstarétti. Orðalagi er hér lítillega breytt frá eldri reglu, en þær breytingar gefa ekki tilefni til sérstakra skýringa.
    Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973 ber dómsmálaráðherra að leita umsagnar Hæstaréttar um umsækjendur um dómaraembætti áður en það verður veitt. Hvorki er þar tilgreint nánar að hverju umsögnin á að lúta né mælt sérstaklega fyrir um gildi hennar eða áhrif. Í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði um umsögn af þessum toga verði mun ítarlegra. Er þannig tekið fram að umsögn Hæstaréttar, sem aflað yrði um umsækjendur um dómaraembætti, eigi að fela í sér mat á hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna því. Enn fremur er lagt til að útilokað verði að skipa umsækjanda í dómaraembætti ef Hæstiréttur lætur það álit í ljós að hann fullnægi ekki hæfisskilyrðum samkvæmt 5. eða 8. tölul. 2. mgr. 4. gr., en þau skilyrði varða sem fyrr greinir mannorð umsækjandans og hæfni til að gegna starfinu. Með þessu síðastgreinda ákvæði yrði Hæstarétti falið vald til að útiloka að umsækjanda verði veitt þar dómaraembætti, en ástæða er til að árétta að þetta gæti því aðeins gerst að brestur væri á hæfi umsækjandans í þeim atriðum sem áður er getið. Verður að ætla að farið yrði með þetta vald af varfærni.
    

    Um 5. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um forseta og varaforseta Hæstaréttar, svo og staðgengil forseta ef hvorugs þeirra nýtur við, ásamt fyrirmælum um starfsvið forsetans. Þessi ákvæði eru samsvarandi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1973, en þó mun ítarlegri og taka að því leyti að mestu mið af núverandi framkvæmd.
    Í 1. mgr. 5. gr. eru reglur um kjör forseta og varaforseta Hæstaréttar. Þar er með sama hætti og í fyrrnefndu ákvæði í núgildandi lögum miðað við að dómarar Hæstaréttar kjósi þá úr sínum röðum og verði kjörtíminn tvö ár. Líkt og í gildandi lögum er tekið fram í 2. málslið þessarar málsgreinar að varaforseti gegni störfum forseta ef hann hefur forföll eða er fjarstaddur, en þar á meðal getur komið til þess að varaforseti gegni störfum forseta vegna vanhæfis þess síðarnefnda til að fást við tiltekið verk. Í 3. málsl. eru nýmæli um hvernig eigi að bregðast við ef forseti eða varaforseti lætur af því starfi eða dómaraembætti áður en kjörtíma er lokið. Lagt er til að annar dómari verði þá kjörinn forseti eða varaforseti til loka kjörtíma þess sem hverfur frá starfi. Í lokamálslið þessarar málsgreinar er síðan mælt fyrir um að tilkynna eigi kjör forseta og varaforseta með auglýsingu í Lögbirtingablaði, en engin ákvæði eru um þetta í gildandi lögum.
    Í núgildandi lögum eru ekki heildstæð fyrirmæli um störf forseta Hæstaréttar á öðrum sviðum en við meðferð dómsmála. Í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins eru lagðar til almennar reglur um slík störf. Kemur þar meðal annars fram að forseti fari með yfirstjórn Hæstaréttar og stýri starfsemi dómsins, sem varðar ekki meðferð einstaks dómsmáls, með þeim takmörkunum sem leiðir af öðrum ákvæðum laga. Slíkar takmarkanir felast meðal annars í 4. og 5. mgr. 7. gr. frumvarpsins, þar sem ráðgert er að ýmist taki allir hæstaréttardómarar eða þrír eða fimm úr hópi þeirra ákvarðanir um margvísleg málefni sem heyra undir dómstólinn lögum samkvæmt og snúa ekki að úrlausn dómsmáls. Að öðru leyti er í 2. mgr. 5. gr. mælt fyrir um að forseti skipti verkum á milli dómara og annarra starfsmanna, fari með agavald yfir þeim, beri ábyrgð á rekstri og fjárreiðum Hæstaréttar og komi fram af hálfu dómsins út á við. Þá er í niðurlagi málsgreinarinnar vísað til þess að forsetinn gegni að auki störfum sem honum eru falin með öðrum lögum. Sem dæmi af slíku má nefna hlut forseta Hæstaréttar í handhöfn forsetavalds í fjarveru eða forföllum forseta Íslands samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæði 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins fela ekki í sér neinar teljandi breytingar frá þeirri framkvæmd sem hefur mótast um störf forseta Hæstaréttar, en skýrara þykir að lögfesta bein fyrirmæli um þessi efni.
    Í 3. mgr. 5. gr. er mælt fyrir um hver fari með hlutverk forseta ef hvorki forseti Hæstaréttar né varaforseti eru við störf eða hvorugur þeirra tekur þátt í embættisverki. Fellur þá starf forseta í viðkomandi tilviki í hlut þess dómara sem hefur lengst verið skipaður í embætti hæstaréttardómara. Varðandi þetta ákvæði er ástæða til að benda í fyrsta lagi á að samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. ætti varaforseti alltaf að gegna störfum forseta vegna forfalla eða fjar vista þess síðarnefnda og mundi því ekki reyna á reglu 3. mgr. nema hvorugur þeirra væri til tækur, svo sem felst í upphafsorðum hennar. Í öðru lagi má vekja athygli á því að ákvæði 3. mgr. snýr einkum að annarri starfsemi Hæstaréttar en meðferð einstakra dómsmála, enda eru sérstakar reglur í 2. mgr. 10. gr., sem varða stjórnun þinghalda. Reglan í þessari málsgrein um staðgengil forseta mundi þannig einkum gilda um stjórnun við töku ákvarðana um annað en meðferð dómsmáls ef bæði forseti og varaforseti hefðu forföll eða væru vanhæfir til að eiga hlut að ákvörðun. Þá gæti reglan að auki gilt um yfirstjórn daglegrar starfsemi Hæstaréttar á tímabili þegar bæði forseti og varaforseti hefðu forföll eða væru fjarverandi. Í þriðja lagi skal nefnt að staðgengill forseta samkvæmt 3. mgr. væri sá hæstaréttardómari, sem lengst hefði verið skipaður í það embætti. Með orðalagi ákvæðisins um þetta er því tekið af skarið um að eingöngu verði miðað við skipunartíma í dómaraembætti við Hæstarétt, en hvorki verði þá litið til setningar í dómaraembætti né starfa á öðrum vettvangi á fyrri stigum. Varðandi þessa reglu má hafa í huga að ekki er útilokað að fleiri en einn dómari gætu verið skipaðir í embætti frá sama tíma að telja, en í henni er ekki tekið af skarið um hvor eða hver þeirra væri þá staðgengill forseta. Yrði þá væntanlega að gera upp á milli þeirra með þeim hætti sem nú er mælt fyrir um í niðurlagi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1973, en í ljósi líkinda fyrir því að á þetta geti reynt þykir ekki ástæða til að lengja ákvæðið með ítarlegri fyrirmælum um þetta efni.
    

    Um 6. gr.

    Í 1. mgr. 6. gr. eru fyrirmæli um skrifstofustjóra Hæstaréttar, en svo sem áður greinir er lagt til með frumvarpinu að staða hæstaréttarritara verði lögð niður og embætti skrifstofustjóra tekið upp í þess stað. Fyrir þessu eru einkum þær ástæður að starfsvið hæstaréttarritara hefur þróast þannig að hann stjórnar ekki síst daglegum rekstri dómstólsins, en löglærðir aðstoðarmenn og aðrir starfsmenn gegna orðið að þó nokkru leyti þeim störfum sem gert er ráð fyrir að hæstaréttarritari annist skv. 9. gr. laga nr. 75/1973. Er starfsheitið jafnframt orðið villandi í ljósi þess sem hæstaréttarritari fæst í reynd mest við. Um efni 1. mgr. 6. gr. skal að öðru leyti bent á að gert er ráð fyrir að forseti Hæstaréttar skipi skrifstofustjóra, en dómarar ákveði þó í sameiningu eða eftir atvikum meiri hluti þeirra hver verði skipaður í embættið. Ákvæðið er að þessu leyti samsvarandi því sem segir í upphafi 1. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1973. Þá er tekið fram um starfsvið skrifstofustjórans að hann eigi að stýra daglegum rekstri dómstólsins eftir nánari ákvörðun forseta Hæstaréttar og í umboði hans, en að auki gegni skrifstofustjórinn öðrum störfum sem forsetinn kann að mæla fyrir um. Er með þessu lögð áhersla á að stjórnun daglegrar starfsemi eigi að vera helsta viðfangsefni skrifstofustjórans og að hann lúti í þeim efnum boðvaldi forseta, sem beri ábyrgð á þessum störfum, sbr. 2. mgr. 5. gr. Æskilegt þykir að láta að öðru leyti ráðast af ákvörðun forseta hvaða störfum skrifstofustjórinn gegnir og hvaða verk verða falin öðrum starfsmönnum, sbr. 2. mgr. 6. gr., fremur en að leitast við að telja upp einstök viðfangsefni í lögum, svo sem nú er gert í fyrrnefndri 9. gr. laga nr. 75/1973. Í 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. er tekið fram að skrifstofustjóri Hæstaréttar sé embættismaður, en um stöðu hans fari að öðru leyti eftir almennum reglum um embættismenn. Er með síðastgreindu einkum vísað til ákvæða II. hluta laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá er í lokamálslið 1. mgr. 6. gr. lagt til það almenna skilyrði fyrir því að hljóta skipun í embætti skrifstofustjóra, til viðbótar við skilyrði samkvæmt 6. gr. laga nr. 70/1996, að viðkomandi þurfi að hafa lokið embættisprófi í lögum eða hliðstæðri prófgráðu í lögfræði eða annarri grein við háskóla. Samkvæmt þessu yrðu almennu skilyrðin til að gegna þessu embætti nokkuð önnur en gilda nú um hæstaréttarritara, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1973 verður hann að fullnægja almennum dómaraskilyrðum.
    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er ætlast til að forseti Hæstaréttar ráði þangað lögfræðimenntaða aðstoðarmenn og aðra starfsmenn og ákveði verksvið þeirra og stöðu, auk þess að fara með vald til að slíta ráðningu slíkra starfsmanna eftir almennum reglum um starfsmenn ríkisins. Þetta ákvæði, sem er að nokkru sama efnis og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1973, þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    

    Um 7. gr.

    Í 1. mgr. þessarar greinar eru fyrirmæli um hversu margir dómarar sitji í dómi í hverju máli fyrir Hæstarétti. Er þar gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að ýmist sitji þrír eða fimm dómarar í máli, en í sérlega mikilsverðum málum geti sjö dómarar átt sæti. Einnig geti einn dómari skipað dóm í skriflega fluttu kærumáli sem varðar ekki mikilverða hagsmuni, tekið ákvarðanir um rekstur máls og kveðið upp dóm. Í öllum tilvikum kæmi í hlut forseta að ákveða fjölda dómara hverju sinni. Ákvæðið er að miklu leyti sama efnis og núgildandi fyrirmæli í 1.–3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1973, en þó ber á milli í nokkrum atriðum. Í því sambandi skal þess getið að í núgildandi ákvæði er gengið út frá þeirri aðalreglu að fimm dómarar skipi dóm hverju sinni, en undir tilteknum kringumstæðum megi víkja frá því þannig að einn, þrír eða sjö dómarar eigi sæti í dómi. Sem fyrr segir er í þessu ákvæði frumvarpsins gert ráð fyrir því að aðalreglan verði sú að þrír eða fimm dómarar sitji í hverju máli og er ekki gerður greinarmunur á því hvenær hvor kosturinn geti fremur átt við. Breytingin, sem hér er lögð til, er í reynd ekki teljandi, enda leysa þrír dómarar úr miklum meiri hluta mála fyrir Hæstarétti í núverandi framkvæmd og er það gert í skjóli fremur rúmra heimilda í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1973 til að víkja í þá átt frá lögfestu meginreglunni um að fimm dómarar skipi dóm hverju sinni. Ganga má út frá því að ef frumvarpið verður að lögum mundi valið á milli þess hvort þrír eða fimm dómarar sætu í máli ráðast sem hingað til af mikilvægi þess og fordæmisgildi. Þá má í annan stað benda á að með frumvarpinu er lögð til breyting á núgildandi heimildum til að dómari geti sinnt verki einn síns liðs að því leyti að gert er ráð fyrir því að einn dómari geti tekið mál fyrir á dómþingi í öðru skyni en til munnlegs flutnings og þá annaðhvort í þinghaldi, sem efnt yrði til fyrir málflutning til að útkljá til dæmis formsatriði máls, eða til uppkvaðningar dóms, sem eftir atvikum einn, þrír, fimm eða sjö dómarar stæðu að. Nokkurt hagræði gæti orðið af þessari breytingu. Loks skal nefnt að í 1. mgr. 7. gr. er sem áður segir gengið út frá því að forseti taki ákvörðun hverju sinni um hversu margir dómarar fari með mál, en samkvæmt upphafsorðum 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1973, sem nú gildir um þetta efni, er það dómsins að ákveða fjölda dómara. Í framkvæmd eftir núgildandi lögum hefur forseti tekið ákvörðun um þetta efni og felur frumvarpið því í reynd ekki í sér tillögu um breytingu að þessu leyti.
    Í 2. mgr. 7. gr. eru ákvæði, sem eiga að vissu marki að ráða fram úr því hvaða dómarar taki þátt í meðferð hvers dómsmáls. Segir þar nánar tiltekið að þegar fimm eða sjö dómarar skipa dóm í máli eigi það að jafnaði að vera þeir dómarar sem lengst hafa verið skipaðir hæstaréttardómarar. Þá er það jafnframt tekið fram að varadómari verði ekki kvaddur til setu í dómi, sem er skipaður fimm eða sjö dómurum, nema þeirri tölu dómenda verði ekki náð úr röðum reglulegra hæstaréttardómara vegna forfalla þeirra eða vanhæfis. Þessi ákvæði verður að skoða að öðru leyti í ljósi almennrar reglu í 2. málsl. 2. mgr. 5. gr., þar sem fram kemur að forseti Hæstaréttar skipti verkum á milli dómara. Samkvæmt því kæmi í hans hlut að ákveða hvaða dómarar sætu í hverju máli þegar sleppir takmörkunum á ákvörðunarvaldi hans varðandi mál sem fimm eða sjö dómarar ættu sæti í. Fyrirmæli 2. mgr. 7. gr., sem hér um ræðir, eru efnislega eins og ákvæði síðari málsliðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1973 að öðru leyti en því að eftir núgildandi reglu um skipan dóms, þar sem fimm eða sjö dómarar eiga sæti, er fortakslaust að þar skuli sitja þeir dómarar sem eru elstir að starfsaldri við Hæstarétt, en samkvæmt frumvarpinu yrði hliðstæðri reglu beitt að jafnaði. Ætla verður að þessi breyting hefði ekki teljandi áhrif í framkvæmd, en með henni gæfist kostur á lítilsháttar svigrúmi til að liðka fyrir í starfsemi Hæstaréttar.
    Ákvæði 3. mgr. 7. gr. eru sama efnis og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1973 og verður ekki séð að þau þarfnist skýringa.
    Í 4. og 5. mgr. 7. gr. eru lagðar til reglur um hversu margir dómarar taki þátt í meðferð og úrlausn annarra erinda en dómsmála, en um þetta efni eru nánast engin ákvæði í núgildandi lögum. Þessum reglum er ætlað að ná til erinda af ýmsu tagi, til dæmis umsókna um áfrýjunarleyfi, endurupptöku máls og prófraun til að öðlast málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti og tilnefningar í ýmiss konar stöður eftir ákvæðum annarra laga, auk þeirra atriða sem önnur ákvæði frumvarpsins fjalla um, svo sem gerð umsagna um umsækjendur um embætti hæstaréttardómara, ákvörðun um hvern skipa eigi í embætti skrifstofustjóra dómsins og ákvörðun þóknunar handa varadómurum. Í 4. mgr. 7. gr. er gengið út frá þeirri meginreglu, sem nú er beitt í framkvæmd á þessu sviði, að allir hæstaréttardómarar verði að eiga hlut að ákvörðun um atriði af þessum meiði nema mælt sé sérstaklega fyrir um annað í lögum. Tekið er þó fram í ákvæðinu að ekki þurfi að kveðja til varadómara til að fylla tölu dómenda vegna forfalla eða vanhæfis einhvers eins eða fleiri dómara nema færri en fimm reglulegir dómarar geti sinnt viðkomandi málefni. Yrði því að kveðja til varadómara til að ná að minnsta kosti þessum fjölda dómenda, en með þessum fyrirmælum er ekki girt fyrir að Hæstiréttur gæti ákveðið í sérstökum tilvikum að kalla til varadómara þannig að sjö eða níu dómarar gætu tekið þátt í afgreiðslu erindis. Í 5. mgr. 7. gr. eru heimildir til að víkja frá framangreindum reglum, þannig að ákvarðanir um tiltekin atriði yrðu teknar af færri dómurum en áður er getið. Segir í fyrri málslið málsgreinarinnar að Hæstiréttur geti falið þremur eða fimm dómurum að taka afstöðu til einstakra flokka erinda, svo sem umsókna um áfrýjunarleyfi eða endurupptöku mála. Með þessu er ráðgert að taka mætti almenna ákvörðun innan Hæstaréttar um að hafa þennan hátt á afgreiðslu einstakra tegunda erinda, en samkvæmt 2. mgr. 5. gr. kæmi þá í hlut forseta að fela ákveðnum dómurum að sinna þeim verkum. Ákvörðun sem þessi kæmi ekki í veg fyrir að fleiri dómarar gætu átt hlut að ákvörðun um einstök mikilvæg erindi af þessum meiði. Loks er í síðari málslið 5. mgr. gengið út frá því að Hæstiréttur geti falið forseta að sinna einum síns liðs ýmsum minni háttar erindum, en sömu sjónarmið ættu við um þessa heimild og áður er getið varðandi fyrri málslið sömu málsgreinar.
    

    Um 8. gr.

    Í 8. gr. eru lagðar til reglur um svokallaða varadómara við Hæstarétt, en þetta heiti er notað í frumvarpinu um dómara sem er kvaddur til starfa við dóminn til að taka sæti í tilteknu máli eða eftir atvikum taka þátt í ákvörðun um tiltekið erindi. Í 9. gr. frumvarpsins eru aftur á móti ákvæði um setta dómara við Hæstarétt, en þá er átt við dómara sem er settur í embætti í tiltekinn tíma og tekur þá þátt í störfum dómsins eftir sömu reglum og gilda um dómara sem skipaðir hafa verið í embætti. Í 4. gr. laga nr. 75/1973 er fjallað meira eða minna í einu lagi um varadómara og setta dómara í fyrrnefndri merkingu og þá rætt um báðar tegundir dómara sem setta dómara. Í framkvæmd hefur hins vegar tíðkast að ræða um varadómara og setta dómara með þeim hætti sem byggt er á í frumvarpinu.
    Í upphafi 1. mgr. 8. gr. er gengið út frá því að varadómari verði kvaddur til ef reglulegur dómari er vanhæfur til að sitja í máli eða fær leyfi eða hefur forföll um skamman tíma. Varðandi þessa talningu á tilefnum fyrir kvaðningu varadómara, sem er samsvarandi fyrirmælum í upphafi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1973, er rétt að taka fram að í framkvæmd er varadómari yfirleitt ekki kvaddur til þótt einhver reglulegu dómaranna við Hæstarétt sé vanhæfur til að taka sæti í máli, því að öðru jöfnu er slíkt leyst með því að annar reglulegur dómari taki sæti hans. Varadómari er því yfirleitt ekki kvaddur til af þessu tilefni nema það takist ekki að fylla sæti dómara vegna forfalla eða vanhæfis fleiri en eins reglulegs dómara. Með frumvarpinu er ekki ráðgert að breyting verði á þeirri framkvæmd. Þá er jafnframt ástæða til að benda á að ef reglulegur dómari við Hæstarétt hefur forföll eða fær leyfi eru þeir tveir kostir til að afla staðgengils fyrir hann að kveðja annaðhvort til varadómara til að sitja í einstökum málum eftir því sem þörf krefur eða setja dómara til reglulegra starfa á meðan forföll eða leyfi stendur yfir. Líkt og í núverandi framkvæmd er ráðgert í 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. að velja yrði á milli þessara tveggja kosta um hvernig staðgengill yrði fenginn vegna fjarveru dómara. Í lok 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. er mælt þannig fyrir um hvernig staðið verði að skipun varadómara til að taka sæti í einstöku máli að dómsmálaráðherra skipi dómarann eftir tillögu forseta Hæstaréttar. Þessi regla er efnislega sú sama og nú er í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1973. Um hæfisskilyrði til að taka sæti í Hæstarétti sem varadómari segir í síðari málslið 1. mgr. 8. gr. að viðkomandi þurfi að koma úr röðum héraðsdómara, prófessora í lögum, hæstaréttarlögmanna eða fyrrverandi hæstaréttardómara og fullnægja skilyrðum til að vera skipaður í embætti dómara við Hæstarétt, sbr. 2. og 3. mgr. 4. gr. Þessar hæfiskröfur eru á sama veg og núgildandi fyrirmæli í 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1973, en rétt er að taka fram að með frumvarpinu er lagt til að afnumin verði skylda héraðsdómara, lagaprófessora og hæstaréttarlögmanna til að taka að sér störf sem varadómarar, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1973.
    Í 2. mgr. 8. gr. er gerð tillaga um sérstaka reglu um þá aðstöðu, sem hverfandi lítið hefur reynt á í framkvæmd, að kveðja þurfi til varadómara í máli, þar sem allir reglulegu dómararnir við Hæstarétt eru vanhæfir, en engin sérákvæði eru um þetta í núgildandi lögum. Kæmi upp sú staða að til dæmis átta af níu reglulegum dómurum við Hæstarétt væru vanhæfir til að fara með mál tæki níundi dómarinn sjálfkrafa við sæti forseta dómsins, sbr. 3. mgr. 5. gr., og gæti þá gert einn síns liðs tillögu til dómsmálaráðherra um hverja ætti að skipa í sæti varadómara til að dómur yrði fullskipaður í máli. Ef dómararnir væru aftur á móti allir vanhæfir yrði að skipa dóminn að öllu leyti varadómurum. Telja verður óæskilegt að leggja í vald forseta Hæstaréttar, sem væri þá meðal dómaranna sem væru vanhæfir til að leysa úr máli, að gera tillögu til ráðherra um alla þá sem taka ættu sæti sem varadómarar. Á hinn bóginn yrði sú niðurstaða tæplega heldur fær að leggja alveg í hendur ráðherra að velja varadómara, enda gæti ríkið hæglega átt aðild að máli. Í frumvarpinu er því lögð til sú leið að forseti Hæstaréttar tilnefni við þessar aðstæður einn varadómara sem yrði sjálfkrafa forseti dómsins en sá varadómari gerði síðan tillögu til ráðherra um val á öðrum varadómurum til að fullskipa dóminn. Þótt vissir annmarkar séu á þessari tillögu er vandséð hvernig lausn verði fundin á þessari aðstöðu með öðru móti.
    Með 3. mgr. 8. gr. eru lagðar til reglur um hvaða ástæður gætu valdið því að varadómari yrði leystur frá starfi, en miðað er við að það geti ekki orðið nema samkvæmt ósk hans sjálfs eða vegna þess að hann hafi misst skilyrði til að fá skipun í embætti hæstaréttardómara eftir að honum hafi verið falið starfið. Hliðstæðar reglur eru ekki til í núgildandi lögum, en væntanlega yrði gengið út frá því að þær giltu eftir eðli máls.
    Ákvæði 4. mgr. 8. gr. um þóknun fyrir starf varadómara er sama efnis og síðari málsliður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1973 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    

    Um 9. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru gerðar tillögur um talsvert ítarlegri reglur en nú gilda um veitingu leyfis handa hæstaréttardómara og hvernig sæti hans verði skipað meðan á leyfi stendur. Fyrirmæli um þessi efni eru nú að nokkru í 4. gr. laga nr. 75/1973, svo og 7. gr. laga nr. 92/1989, sem gildir um héraðsdómara en getur þó eftir eðli máls einnig átt að einhverju marki við um dómara við Hæstarétt.
    Í upphafi 1. mgr. 9. gr. er gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að hæstaréttardómara verði ekki veitt lengra samfellt leyfi frá störfum en í eitt ár nema forföll stafi af veikindum. Um slíkan hámarkstíma eru ekki bein ákvæði um hæstaréttardómara í lögum nr. 75/1973, en af 3. mgr. 7. gr. laga nr. 92/1989 má álykta að slík regla gildi um héraðsdómara. Þykir rétt að setja ákveðna reglu um hámarkslengd leyfis hæstaréttardómara því fjarvistir dómara geta leitt til ýmissa vandkvæða í starfsemi dómstólsins. Samkvæmt ákvæðinu kæmi eins og nú í hlut dómsmálaráðherra að taka afstöðu til beiðni dómara um leyfi frá störfum, sbr. 2. málsl. málsgreinarinnar. Í lokamálslið málsgreinarinnar er síðan mælt fyrir um hvernig sæti dómara verði skipað á leyfistíma, en gengið er út frá því að kostir um það verði tveir. Annars vegar gæti dómsmálaráðherra sett dómara í embætti á meðan skipaður dómari nyti leyfis, en Hæstarétti er þá ætlað að gera tillögu til ráðherra um hvern eigi að setja, svo sem nú gildir samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1973. Ástæða er til að benda á að eftir frumvarpinu yrði tillaga Hæstaréttar ekki bindandi fyrir ráðherra fremur en leiðir af núgildandi reglu um sama efni, en í framkvæmd virðist þó slíkum tillögum alltaf hafa verið fylgt. Hins vegar miðar ákvæðið að því að kostur verði á að kveðja til varadómara til að taka sæti í einstökum málum vegna leyfis dómara fremur en að setja dómara. Sú leið gæti verið hagfelldari ef til dæmis dómara væri veitt leyfi á tímabili þegar minni annir væru hjá dómstólnum en endranær eða leyfið ætti aðeins að standa um skamman tíma. Verður að ætla að Hæstiréttur tæki af skarið um hvor af þessum tveimur kostum yrði valinn hverju sinni.
    Í 2. mgr. 9. gr. er gerð tillaga um nýmæli sem fela í sér undantekningu frá fyrrnefndri aðalreglu 1. mgr. um hámarkslengd leyfis hæstaréttardómara. Er nánar tiltekið miðað við að leyfi geti staðið í allt að sex ár að hámarki ef tilefni þess er að dómarinn taki sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfi við alþjóðastofnun um tiltekinn tíma. Yrði þá leyfinu markaður sami tími og ráðningu dómarans á erlendum vettvangi. Þessi undantekning er einkum reist á því að æskilegt getur verið fyrir starfsemi íslenskra dómstóla að dómarar fari héðan til tímabundinna starfa hjá alþjóðlegum dómstólum eða stofnunum og færi hingað aftur að loknum ráðningartímanum mikilsverða reynslu, bæði af viðkomandi málaflokki og vinnubrögðum. Hámarkstími leyfis samkvæmt ákvæðinu miðast við þann kjörtíma eða ráðningartíma sem sýnist vera algengur við þá alþjóðlegu dómstóla og stofnanir sem Ísland á hlut að. Um ráðstöfun embættis dómara, sem fengi leyfi á þessum grundvelli, er mælt svo fyrir í lokamálslið þessarar málsgreinar að það skuli auglýst laust til setningar á leyfistímanum. Yrði dómari því ekki settur með þeim hætti sem um ræðir í 1. mgr. og áður er lýst, heldur yrði í alla staði farið að á sama hátt og við skipun dómara í laust embætti ef frá er talið að setningunni væri fyrir fram markaður tími. Þessi mismunur á aðferðum við setningu þykir eðlilegur í ljósi þess hversu lengi setning gæti staðið þegar ákvæði 2. mgr. ætti við.
    Samkvæmt upphafsorðum 3. mgr. 9. gr. yrði settur dómari að fullnægja öllum skilyrðum til að geta fengið skipun í embætti hæstaréttardómara og er þá átt við ákvæði 2. og 3. mgr. 4. gr., en sama regla gildir nú samkvæmt niðurlagi 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1973. Í síðari málslið 3. mgr. 9. gr. er tekið fram að settur dómari njóti sömu stöðu og skipaður dómari nema að því leyti sem leiðir af því að starfi hans er fyrir fram markaður ákveðinn tími. Með þessu ákvæði frumvarpsins yrðu settum dómara ekki aðeins tryggð sömu laun fyrir störf á setningartímanum og skipuðum dómurum, heldur einnig sama öryggi í starfi á meðan setningin gilti og yrði honum því ekki vikið frá á því tímaskeiði nema eftir fyrirmælum 29. og 30. gr. frumvarpsins. Reglan er að þessu leyti ítarlegri en fyrirmæli í núgildandi lögum, þar sem aðeins er mælt fyrir um laun handa þeim sem er settur í embætti hæstaréttardómara, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1973. Telja má þó líklegt að reglan, sem felst að þessu leyti í frumvarpinu, yrði allt að einu talin gilda nú eftir eðli máls ef á það reyndi.
    

    Um 10. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru fyrirmæli varðandi þinghöld Hæstaréttar, sem eiga að koma í stað ákvæða í 2. mgr. 1. gr., 2. mgr. 2. gr. og 11. gr. laga nr. 75/1973. Þessi fyrirmæli taka aðeins til afmarkaðra atriða, enda eru ítarlegar reglur um önnur atriði í sambandi við þinghöld í opinberum málum í XVIII. kafla laga nr. 19/1991 og í einkamálum í XXV. kafla laga nr. 91/1991.
    Í 1. mgr. 10. gr. segir að Hæstiréttur haldi dómþing í Reykjavík nema sérstök ástæða sé til annars. Þetta ákvæði er sama efnis og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1973 og þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. 10. gr. eru fyrirmæli um hver stýri dómi hverju sinni. Miðað er við að það sé forseti Hæstaréttar ef hann á sæti í dómi í viðkomandi máli, að honum frágengnum varaforseti, en skipi hvorugur þeirra dóm í málinu sé það sá dómaranna sem þar situr og hefur lengst verið skipaður í embætti hæstaréttardómara. Þessi fyrirmæli eru samsvarandi reglum, sem eru nú í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1973.
    Samkvæmt 11. gr. laga nr. 75/1973 á dómsmálaráðherra að setja reglur um þá daga og þann tíma dags sem dómþing Hæstaréttar verður háð, svo og um þingleyfi dómsins að fengnum tillögum hans. Í frumvarpinu er ekki ráðgert að atriði sem þessi geti framvegis átt undir ráðherra, en þess skal getið að dómþing hafa ekki ráðist af ákvörðun ráðherra um áratuga skeið. Þá er heldur ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að þingleyfi eða svokallað réttarhlé verði til í þeirri mynd, sem nú þekkist. Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að í framkvæmd taka aldrei færri en þrír dómarar þátt í meðferð hvers máls fyrir Hæstarétti. Er af þessum sökum í reynd ógerlegt að koma við orlofi dómaranna, svo og annarra starfsmanna, öðruvísi en með því að starfsemi dómsins verði að mestu felld niður nokkurn fjölda vikna að sumarlagi. Er því lagt til í 3. mgr. 10. gr. að Hæstiréttur taki ákvörðun um að draga úr eða fella niður tímabundið reglulega starfsemi dómsins til að komið verði við orlofi dómara og annarra starfsmanna.

    Um 11. gr.

    Í fyrri málsgrein þessarar greinar er gengið út frá því að Hæstiréttur setji sjálfur reglur um tilteknar bækur og skrár sem verði færðar í störfum dómsins. Þetta ákvæði er samsvarandi því sem mælt er fyrir um í 1.–4. tölul. 10. gr. laga nr. 75/1973, en annað það, sem kemur fram um þessi efni í þeirri grein gildandi laga verður að teljast úrelt og er því ekki miðað við að ný fyrirmæli komi í þess stað.
    Í 2. mgr. 11. gr. er lagt til að tekin verði upp fyrirmæli um dómasafn Hæstaréttar, en núgildandi reglur um það efni eru í 4. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991, sem ráðgert er að falli niður samkvæmt 5. tölul. 35. gr. frumvarpsins ef það verður að lögum. Í umræddri reglu, sem nú gildir, eru öllu ítarlegri fyrirmæli en í frumvarpsákvæðinu um hvað eigi að birtast í dómasafninu. Þykir óþarfi að hafa lögfestar svo rækilegar reglur um þetta efni sem raun ber vitni, enda takmarkar sú tilhögun svigrúm til að laga útgáfu dómasafns að þörfum og tækni á hverjum tíma. Er því miðað við það í 2. mgr. 11. gr. að aðeins þurfi að taka fram að skylt sé að gefa út dóma Hæstaréttar, en um tilhögun útgáfunnar fari síðan eftir ákvörðun dómsins sem dómsmálaráðherra samþykki.
    

    Um 12. gr.

    Þessi grein er upphafsákvæði III. kafla frumvarpsins, sem hefur að geyma reglur um héraðsdómstóla og dómara við þá. Núgildandi fyrirmæli um þetta efni eru í I. kafla laga nr. 92/1989, sem fellur niður ef frumvarpið verður að lögum, sbr. 2. tölul. 35. gr.
    Í 12. gr. er ákvæði um skipun héraðsdómara, en eins og greint hefur verið frá í almennum athugasemdum hér að framan er lagt til með frumvarpinu að þeir verði ekki lengur skipaðir til starfa við tiltekinn héraðsdómstól, heldur verði þeir skipaðir héraðsdómarar án þess að tilgreina sérstakan dómstól og þar með færir um að starfa við alla héraðsdómstóla landsins. Kæmi í hlut dómstólaráðs að ákveða hvar einstakir dómarar ættu að starfa, en að því atriði er vikið nánar í athugasemdum við 15. gr.
    Í 1. mgr. 12. gr. er ráðgert að héraðsdómarar verði alls 38 eða jafn margir og eftir núgildandi lögum. Eins og getið er hér áður í almennum athugasemdum fór ekki fram í tengslum við gerð frumvarpsins rækileg upplýsingasöfnun til að leggja rökstutt mat á það hvort efni væru til að breyta heildarfjölda héraðsdómara. Þótti réttara að fengin yrði reynsla af þeirri skipan sem miðað er að með frumvarpinu áður en ráðist yrði í gerð tillagna um nauðsynlegan fjölda héraðsdómara, en ætla má að reglur frumvarpsins geti ef eitthvað er leitt til þess að fækka megi dómurum þegar fram í sækir. Er nærtækt að ætla að gögn til að meta þetta gætu orðið aðgengileg með störfum dómstólaráðs að öflun upplýsinga um fjölda og afgreiðslu mála fyrir héraðsdómstólum, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Varðandi 1. mgr. 12. gr. skal að öðru leyti bent á að gengið er þar út frá því að héraðsdómarar verði skipaðir ótímabundið í embætti af dómsmálaráðherra. Þessi regla er sama efnis og sú sem nú gildir, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 83/1997.
    Í 2. mgr. 12. gr. eru talin upp í sjö töluliðum skilyrðin sem fullnægja verður til að fá skipun í embætti héraðsdómara. Samsvarandi talning skilyrða er nú í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989 og er hún sama efnis og umrætt ákvæði frumvarpsins nema að tvennu leyti. Annars vegar ber það á milli frumvarpsins og núgildandi reglna að í 4. tölul. 2. mgr. 12. gr. er lagt til það skilyrði að væntanlegur héraðsdómari megi aldrei hafa misst forræði á búi sínu, en í 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989 er aðeins áskilið að viðkomandi hafi forræði á búi sínu. Hins vegar er áskilið í 5. tölul. 2. mgr. 12. gr. að væntanlegur dómari megi hvorki hafa gerst sekur um refsivert athæfi, sem megi telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verði almennt að njóta. Í núgildandi ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989 er þess krafist að dómaraefni hafi óflekkað mannorð. Breytingarnar, sem hér eru lagðar til, eiga sér hliðstæður í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins og hafa þegar verið skýrðar í athugasemdum við það ákvæði. Má því láta við það sitja að vísa hér til þeirrar umfjöllunar.
    Í 3. og 4. mgr. 12. gr. eru fyrirmæli um dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara, sem eru efnislega eins og núgildandi reglur í 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989 að öðru leyti en um tvennt. Annars vegar er lagt til að skipunartími nefndarmanna verði þrjú ár í stað fjögurra ára eftir núgildandi reglu, svo og að skipunartíma eins nefndarmannanna þriggja ljúki ár hvert, en eftir núgildandi reglu rennur skipunartími allra nefndarmanna út á sama tíma. Með síðastnefndri tillögu um breytingu er litið til þess að það geti orðið til að raska starfsemi nefndarinnar ef teljandi endurnýjun verður samtímis á skipan hennar. Í tengslum við þetta skal að öðru leyti bent á það að í bráðabirgðaákvæði í 3. mgr. 38. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um hvernig skipað verði í nefndina í fyrsta sinn, þar á meðal um hvað ráði því hvaða nefndarmaður gangi fyrst úr nefndinni. Hins vegar er ráðgert í frumvarpinu að girt verði fyrir að sami maður verði skipaður í nefndina sem aðalmaður oftar en tvisvar samfleytt, eða með öðrum orðum lengur en til sex ára, en í núgildandi reglum eru engar takmarkanir af þessu tagi. Þykir eðlilegt að stuðla með þessum hætti að mannabreytingum innan nefndarinnar. Að frátöldum þessum atriðum í 3. og 4. mgr. 12. gr., sem fela í sér ráðagerðir um breytingar frá núgildandi reglum, verður ekki séð að ákvæðin þarfnist sérstakra skýringa.
    

    Um 13. gr.

    Í 13. og 14. gr. eru helstu ákvæði frumvarpsins um dómstólaráð, en fyrrnefnda ákvæðið fjallar um skipan ráðsins og það síðarnefnda um helstu viðfangsefni þess. Í almennum athugasemdum hér að framan hefur verið lýst í nokkru máli hvaða rök búi að baki tillögum um að koma dómstólaráði á fót og fela því viðfangsefni af því tagi, sem miðað er að með frumvarpinu, svo og hvers vegna ráðgert er að binda starfsvið þess eingöngu við héraðsdómstólana. Um þessi atriði skal nú vísað til þess, sem áður segir.
    Í 1. mgr. 13. gr. eru fyrirmæli um fjölda þeirra sem lagt er til að eigi sæti í dómstólaráði, hvernig þeir verði tilnefndir og skipaðir og hversu lengi þeir geti átt þar sæti. Um einstök atriði í þessu sambandi skal þess í fyrsta lagi getið að af þeim þremur mönnum, sem ráðgert er að dómsmálaráðherra skipi í dómstólaráð, er lagt til að tveir verði kosnir af héraðsdómurum úr þeirra eigin röðum. Er þannig stefnt að því að héraðsdómararnir, sem eiga að heyra undir dómstólaráð, velji meiri hluta þess. Þessa skipan verður að telja eðlilega þegar þess er gætt að mörg viðfangsefni dómstólaráðs varða innri málefni héraðsdómstólanna. Í öðru lagi er lagt til að dómsmálaráðherra skipi einn mann í dómstólaráð, en sá megi ekki vera úr röðum starfandi dómara. Í þessu sambandi er litið til þess að héraðsdómstólarnir heyra stjórnarfarslega undir dómsmálaráðherra og varðar starfsemi þeirra ábyrgð hans. Með því að áskilja að sá sem ráðherra er ætlað að skipa í dómsmálaráð án tilnefningar komi ekki úr röðum starfandi dómara er leitast við að tryggja að þeir sem þar eigi sæti komi ekki allir af sama vettvangi. Gæti til dæmis verið eðlilegt að velja mann úr röðum héraðsdómslögmanna eða hæstaréttarlögmanna eða úr hópi annarra menntastétta, svo sem rekstrarráðgjafa. Í þriðja lagi skal vakin athygli á því að í 1. mgr. 13. gr. er miðað við að skipunartími í dómstólaráð verði sex ár, en skipun allra þeirra sem þar eigi sæti, renni þó ekki út á sama tíma, heldur hjá einum þeirra annað hvert ár. Þetta er lagt til svo komist verði hjá því að mannabreytingar í dómstólaráði raski starfsemi þess. Í tengslum við þetta má vekja athygli á því að í 2. mgr. 38. gr. er bráðabirgðaákvæði um hvernig skipað verði í dómstólaráð í fyrsta sinn, þar á meðal um hvað ráða eigi í hvaða röð skipunartími einstakra nefndarmanna renni út. Loks má í fjórða lagi benda á að sú takmörkun er lögð til í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. að engan megi skipa aðalmann í dómstólaráð oftar en tvisvar samfleytt, eða samanlagt í tólf ár. Þetta þykir nauðsynlegt til að stuðla að endurnýjun innan ráðsins.
    Í 2. mgr. 13. gr. er ráðgert að sæti héraðsdómara, sem hefur verið kjörinn í dómstólaráð, geti losnað þar annaðhvort vegna þess að hann biðjist undan að gegna starfinu til loka skipunartíma síns eða með því að hann láti af dómaraembætti, en undir síðarnefndu kringumstæðunum mundi sætið í dómstólaráði losna sjálfkrafa frá sama tíma og dómarinn fengi lausn frá embætti. Þá er jafnframt ráðgert í ákvæðinu að sá sem ráðherra skipi í dómstólaráð án tilnefningar geti óskað eftir að verða leystur frá starfi sínu. Í öllum þessum tilvikum er lagt til að annar verði skipaður, eftir atvikum að undangengnu kjöri héraðsdómara, til að sitja í dómstólaráði til loka þess tíma, sem forveri hans átti að eiga þar sæti.
    Samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 13. gr. er ætlast til að dómstólaráð kjósi sér formann til eins árs í senn og hefjist kjörtímabil um áramót. Er með þessu tekið tillit til þess að eftir 1. mgr. 13. gr. gæti mannabreyting orðið í dómstólaráði annað hvert ár og væri óeðlilegt að binda hendur nýrra nefndarmanna með löngum kjörtíma formanns. Í síðari málslið 3. mgr. er mælt fyrir um að dómstólaráð eigi sjálft að ákveða hvar starfsemi þess fari fram. Í sambandi við þetta er rétt að taka fram að ekki er reiknað með að störf í dómstólaráði verði sérlega tímafrek nema eftir atvikum á því tímabili sem festa væri að komast á starfsemi þess á fyrstu stigum. Af þessum sökum verður ekki séð að tormerki séu á að starfsemi dómstólaráðs geti farið fram þar sem til dæmis formaður þess hefur vinnustað eða nefndarmenn koma sér annars saman um með tilliti til aðstæðna sinna.
    Í lokamálsgrein 13. gr. er lagt til að þóknun verði greidd fyrir setu í dómstólaráði og fari fjárhæð hennar eftir ákvörðun dómsmálaráðherra. Þetta ákvæði gefur ekki tilefni til sérstakra skýringa.
    

    Um 14. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru talin upp ýmis viðfangsefni sem dómstólaráði er ætlað að sinna. Talningin þar er ekki tæmandi, enda kemur fram í upphafi greinarinnar að dómstólaráð hafi jafnframt með höndum önnur verk sem getið sé um í öðrum ákvæðum frumvarpsins. Upptalningin í greininni á viðfangsefnum dómstólaráðs er í átta töluliðum. Verður nú vikið að einstökum liðum eftir því sem efni standa til.
    Fram kemur í 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. að dómstólaráði sé ætlað að fara með fjárreiður héraðsdómstólanna á sína ábyrgð, gera tillögur til dómsmálaráðherra um sameiginlega fjárveitingu til dómstólanna og skipta síðan á milli þeirra því fé sem veitt er í einu lagi með fjárlögum. Í þessu felst að Alþingi er ekki ætlað að veita fé með fjárlögum sérstaklega til hvers héraðsdómstóls um sig, heldur til þeirra allra með einni heildarfjárhæð, en dómstólaráð, sem hefði með höndum heildarfjárreiður dómstólanna, mundi síðan skipta fjárveitingunni á milli þeirra eftir þörfum. Rökin fyrir þessari tilhögun eru einkum þau að ef fjárveiting væri greind niður á einstaka dómstóla væri Alþingi í reynd að ákveða hversu mikil umsvif hvers þeirra yrðu. Er þá hætt við að erfitt yrði að koma við hagræðingu innan dómstólakerfisins með tilfærslu dómara og annars starfsliðs eftir því sem annir á hverjum tíma mundu krefjast. Með því að dómstólaráð fengi í hendur eina heildarfjárveitingu gæti það fyrst tekið frá laun og launatengdan kostnað vegna allra dómara án þess að sú ráðstöfun sé tengd rekstri eins dómstóls öðrum fremur. Einnig mætti taka af óskiptri fjárveitingu fé til að standa straum af ýmsum sameiginlegum kostnaði dómstólanna, svo sem til endurmenntunar dómara og annarra starfsmanna og kaupa á sameiginlegum búnaði. Afgangi fjárveitingar yrði unnt að úthluta einstökum dómstólum fé til kaupa á búnaði og rekstrar og er þá miðað við að leggja mætti það fé að einhverju eða öllu leyti í hendur hvers dómstóls um sig, en dómstjóri á hverjum stað bæri þá ábyrgð á meðferð þess fjár, sbr. 5. mgr. 16. gr. Væri þá í höndum dómstólaráðs að deila þessu fé út eftir fyrirsjáanlegum önnum og umsvifum við hvern dómstól.
    Í 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. er ráðgert að dómstólaráð ákveði hversu margir dómarar og aðrir starfsmenn verði við hvern dómstól og jafnframt hvaða almennar reglur gildi um flutning dómara á milli dómstólanna. Í sambandi við síðastnefnt atriði skal bent á að í 15. gr. er mælt fyrir um að dómstólaráð ákveði við hvaða dómstól hver af héraðsdómurunum 38 hafi fast sæti á hverjum tíma, þar á meðal um flutning dómara á milli einstakra dómstóla. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. er ætlast til að dómstólaráð setji almennar reglur um flutning dómara á milli dómstóla, þar sem byggt yrði á ákvæðum 15. gr., en á grundvelli almennu reglnanna yrðu síðan teknar einstakar ákvarðanir í þessum efnum. Varðandi töku ákvarðana um fjölda dómara og annarra starfsmanna við einstaka dómstóla má að öðru leyti vekja athygli á því að í 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. kemur fram að dómstólaráði sé ætlað að halda saman upplýsingum um fjölda mála við hvern dómstól og afgreiðslu þeirra, en á þeim grunni yrði meðal annars fært að meta þörfina á starfsliði. Ef óvæntar breytingar yrðu á málafjölda á einstökum stöðum mundi sá sveigjanleiki, sem fengist með hlutverki dómstólaráðs, geta nýst til að bregðast skjótt við með tímabundinni tilfærslu dómara á milli dómstóla og eftir atvikum heimilda til að ráða annað starfslið.
    Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 14. gr. kæmi í hlut dómstólaráðs að skipuleggja endurmenntun dómara og annarra lögfræðinga í þjónustu héraðsdómstólanna. Er með þessu reynt að stuðla að aukinni endurmenntun, en til þessa hefur engin heildarstefna verið mótuð í þeim efnum og hefur framkvæmd verið fremur laus í böndum. Með ákvæðinu er gengið út frá því að endurmenntun verði reglulegur og eðlilegur þáttur sem tengist starfi dómenda, sbr. einnig 3. mgr. 24. gr. frumvarpsins. Í tengslum við þetta skal bent á að í 1. mgr. 20. gr. er ráðgert að dómstólaráð setji almennar reglur um leyfi handa héraðsdómurum frá störfum og afgreiði umsóknir um leyfi sem ætti að standa í einn mánuð eða skemur, en geri tillögu til dómsmálaráðherra um afgreiðslu umsókna um lengra leyfi. Undir þessi ákvæði mundu meðal annars eiga umsóknir um leyfi til endurmenntunar.
    Í 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. er lagt til að dómstólaráð gegni meðal annars því hlutverki að setja starfsreglur um samræmda framkvæmd við héraðsdómstóla. Í þessu ákvæði er gengið út frá því að slíkar reglur gætu verið af tvennum meiði og varðað þá annars vegar atriði sem til úrlausnar koma í einstökum dómsmálum og dómarar í þeim bera ábyrgð á, svo sem ákvörðun á fjárhæð málskostnaðar í einkamálum og málsvarnarlauna í opinberum málum, en hins vegar atriði sem dómari bæri ekki einn ábyrgð á, til dæmis ýmislegt varðandi þinghöld, meðferð dómskjala og afgreiðslu dómsendurrita. Samkvæmt ákvæðinu gæti dómstólaráð ákveðið að reglur, sem varða síðarnefndu atriðin, yrðu bindandi, en að öðrum kosti væru starfsreglurnar, sem hér um ræðir, til leiðbeiningar.
    Í 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. er ráðgert að dómstólaráð safni upplýsingum um fjölda dómsmála við hvern dómstól og afgreiðslu málanna, auk þess að gera eftir þörfum ábendingar varðandi afgreiðslu mála og stuðla annars að því að gætt sé skilvirkni og hraða við rekstur þeirra. Í tengslum við þetta má vekja athygli á að upplýsingum er nú safnað um fjölda og afgreiðslu dómsmála af dómsmálaráðuneytinu og hagstofunni til notkunar í skýrslugerð, en upplýsinga hefur hins vegar almennt ekki verið aflað til að fylgjast með afköstum einstakra dómstóla, bera þau saman og veita ábendingar ef tilefni er til. Upplýsingasöfnun dómstólaráðs væri hins vegar meðal annars ætlað að gegna umræddu hlutverki, en jafnframt gæti það miðlað í einu lagi upplýsingum til ráðuneytis eða hagstofu til annars konar nota. Verður að ætla að þörf sé á athugunum á borð við þær sem hér er lagt til að dómstólaráð annist, svo og að þeim sé fylgt eftir ef þörf krefur, en benda má á að eins og málum er nú skipað eru vandkvæði á að koma við eftirliti og aðhaldi af þessum toga.
    Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 14. gr. kæmi í hlut dómstólaráðs setja eftir þörfum almennar reglur um viðveruskyldu héraðsdómara á vinnustað og tilhögun orlofs þeirra, þar á meðal hvort dregið verði úr starfsemi héraðsdómstólanna á orlofstímabilum starfsmanna. Með þessu ákvæði er meðal annars leitast við að koma á ákveðnum reglum um viðveru héraðsdómara á vinnustað, en til þessa hefur að einhverju marki verið talið óljóst hvort og eftir atvikum hvernig skylda standi til slíks. Um önnur atriði ákvæðisins skal bent á að með því er ráðgert að lagt verði af þingleyfi eða svokallað réttarhlé við héraðsdómstóla í núverandi mynd, en í staðinn komi í hlut dómstólaráðs að taka ákvörðun um hvort og þá hvernig yrði hliðrað til í starfsemi dómstólanna á þeim tímum árs sem orlof dómara og annarra starfsmanna þeirra gætir helst.
    Í 7. tölul. 1. mgr. 14. gr. er miðað við að dómstólaráð gegni því hlutverki að koma fram út á við sem eins konar sameiginlegur málsvari allra héraðsdómstóla, hvort heldur gagnvart stjórnvöldum eða öðrum. Eftir núgildandi reglum er enginn slíkur málsvari fyrir hendi, heldur verða forstöðumenn einstakra dómstóla að vera í fyrirsvari um málefni þeirra eftir því sem efni standa til. Með þessu ákvæði frumvarpsins yrði lagt í hendur dómstólaráðs að koma fram gagnvart ríkisstjórn, Alþingi og opinberum stofnunum um sameiginleg málefni héraðsdómstólanna, auk þess að það kæmi fram í þeim efnum gagnvart almenningi eftir því sem þörf mundi krefja.
    Í 8. tölul. 1. mgr. 14. gr. er að endingu ráðgert að dómstólaráð geti gert tillögur um hvað eina sem geti orðið til úrbóta í störfum héraðsdómstóla eða löggjöf varðandi þá. Með þessu er haft í huga að dómstólaráð gæti meðal annars beint tillögum af umræddum meiði til ráðherra, Alþingis eða nefnda sem fjalla um lagasetningu á ákveðnum sviðum, ef það teldi efni til að breyta löggjöf eða öðrum reglum sem snerta störf dómstóla. Væri dómstólum þannig fengið með þessum óbeina hætti aukið frumkvæði um mótun reglna sem um þá gilda.
    Í 2. mgr. 14. gr. er lagt til að dómstólaráði verði gert að gefa út ársskýrslu um starfsemi sína og héraðsdómstólanna. Upplýsingar af þessum toga hafa ekki verið teknar saman eða birtar fram til þessa. Telja verður að ástæða sé til að gefa almenningi kost á að fylgjast með starfsemi dómstóla með þessum hætti, auk þess að aðgengilegar upplýsingar í þessum búningi gætu komið stjórnvöldum og öðrum að notum.
    Eins og áður segir kemur fram í upphafi 14. gr. að dómstólaráði sé ætlað að gegna fleiri störfum en þeim sem talin eru upp í greininni, en um þau fari eftir öðrum fyrirmælum í frumvarpinu. Sérstök ákvæði um önnur störf dómstólaráðs eru í 15., 16., 18., 19., 20. og 22. gr., svo og að nokkru í 23., 24. og 28. gr., en að efni þeirra verður vikið í athugasemdum við viðeigandi greinar frumvarpsins.
    

    Um 15. gr.

    Í 15. gr. eru fyrirmæli um hvernig það eigi að ráðast við hvaða dómstól einstakir héraðsdómarar starfi. Eins og áður greinir byggjast ákvæði greinarinnar á því að héraðsdómarar verði ekki skipaðir við veitingu embættis síns til starfa við ákveðinn dómstól, heldur verði skipun þeirra opin, ef svo má að orði komast, þannig að þeir geti starfað við alla héraðsdómstólana. Kæmi þá í hlut dómstólaráðs að ákveða eftir nánari fyrirmælum þessarar greinar við hvaða dómstól héraðsdómari ætti að starfa hverju sinni. Í ákvæðinu er gerður greinarmunur á tvenns konar ákvörðunum dómstólaráðs um þessi efni, því annars vegar á það að taka ákvörðun um fast sæti eða fastan starfsvettvang dómara, sbr. 1.–5. mgr. greinarinnar, en hins vegar getur það ákveðið að fela dómara að starfa að tilteknu dómsmáli við annan dómstól en þar sem hann hefur fastan starfsvettvang, sbr. 6. mgr. Verður nú vikið nánar að þessu í einstökum atriðum.
    Í upphafi 1. mgr. kemur fram að dómstólaráð ákveði við hvaða héraðsdómstól hver og einn dómari eigi að hafa fast sæti. Er þannig miðað við þá aðalreglu að dómararnir hafi allir sinn fasta stað, þótt þeir kunni stundum að þurfa að starfa að einstökum málum við aðra dómstóla, sbr. 6. mgr. Í 1. mgr. er hins vegar gert ráð fyrir þeirri undantekningu frá umræddri aðalreglu að dómstólaráð geti ákveðið að allt að þrír héraðsdómarar eigi ekki fast sæti við ákveðinn dómstól, heldur taki þeir við málum frá öllum dómstólum samkvæmt nánari heimild sem dómstólaráð veiti. Með þessari reglu er gefinn kostur á að dómstólaráð hafi mannafla til að geta með auðveldum hætti jafnað álag við dómstóla, þar sem til dæmis viðfangsefnin stæðu ekki undir viðbótardómara í fullu starfi og tímabundinna sveiflna gætti í málafjölda, eða látið leysa af dómara í forföllum eða leyfi. Ef nýta ætti dómara í þessari stöðu til að jafna álag er miðað við að dómstólaráð gefi dómstjórum við einstaka héraðsdómstóla hverjum fyrir sig heimild til að úthluta honum ákveðnum fjölda mála án frekari milligöngu dómstólaráðs, en til þessa er vísað með ummælum í niðurlagi 2. málsl. þessarar málsgreinar. Í lok málsgreinarinnar er tekið fram að dómstólaráð ákveði hvar dómarar án fasts sætis hafi starfsstöð, en ætla verður að þeir hafi hver um sig bækistöð við ákveðinn dómstól, þar sem þeir hefðu skrifstofu, aðgang að dómsal og aðra nauðsynlega aðstöðu þótt þeir yrðu væntanlega að leysa af hendi störf sín við aðra dómstóla eftir þörfum.
    Í fyrri málslið 2. mgr. er ráðgert að ákvörðun dómstólaráðs um starfsvettvang héraðsdómara geti hvort heldur gilt um óákveðinn tíma eða tiltekið tímabil, en með starfsvettvangi er hér bæði átt við fast sæti sem dómari fengi við tiltekinn dómstól og störf við alla héraðsdómstólana samkvæmt 2. og 3. málsl. 1. mgr. 15. gr. Ætla verður að ákvörðun dómstólaráðs um starfsvettvang yrði að öðru jöfnu látin gilda um óákveðinn tíma, en tímabundnar ákvarðanir gætu einkum átt við ef dómara væri falið að starfa við alla héraðsdómstólana, hann væri fenginn til að leysa af annan dómara í leyfi eða honum yrði gert að færast á nýjan starfsvettvang gegn vilja sínum, svo sem mælt er fyrir um í 5. mgr. Í seinni málslið 2. mgr. er lögð til regla þess efnis að við auglýsingu lauss embættis héraðsdómara eigi að jafnaði að liggja fyrir hvar fyrsti starfsvettvangur væntanlegs dómara verði. Með þessu er haft í huga að það geti skipt máli fyrir þann sem íhugar að sækja um dómaraembætti hvar honum yrði falið að starfa ef embættið yrði veitt honum, því þar yrði hann að vera viðbúinn að sitja í þrjú ár eða lengur, sbr. 4. mgr. Reglan um þetta atriði er á hinn bóginn ekki svo fortakslaus að ráðagerð um fyrsta starfsvettvang væri bindandi, enda verður að gefa því gætur að við ákvörðun um þetta efni gætu hagir væntanlegs dómara skipt miklu, svo sem fjölskylduaðstæður, starfsreynsla og búseta við veitingu embættisins. Gæti því verið óheppilegt að binda algerlega ákvörðun um fyrsta starfsvettvanginn fyrir fram.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um þá aðalreglu varðandi ákvarðanir dómstólaráðs um starfsvettvang að taka eigi tillit til óska viðkomandi dómara eftir því sem frekast er unnt. Þótt vona megi að dómstólaráði tækist að skipa dómurum á starfsvettvang í sem ríkasta mæli eftir þessari aðalreglu gæti sitthvað valdið því að slíkt reyndist ekki unnt. Til dæmis gæti verið misjafnt hvort dómarar mundu sækjast eftir störfum við litla dómstóla, þar sem þeir yrðu að starfa einir eða í fámennum hópi. Eins gæti verið misjafnt hvort dómarar vildu forðast að þurfa að taka við starfi sem mundi kosta búferlaflutninga. Þá gæti þótt ástæða til að skipta um dómara við fámennan dómstól, til dæmis til að breyta þar vinnubrögðum, þótt sá eða þeir dómarar, sem þar störfuðu, kærðu sig ekki um að færast í stærri dómstól. Er af þessum sökum lagt til í 5. mgr. að dómstólaráð fái heimild til að færa dómara á annan starfsvettvang gegn vilja hans, en þeirri heimild eru þó settar verulegar skorður, svo sem nánar er getið hér á eftir. Þá er ástæða til að vekja athygli á því að í bráðabirgðaákvæði í 39. gr. frumvarpsins er lögð til sérregla um starfandi dómara við gildistöku laganna, ef frumvarpið nær fram að ganga, um að þeir njóti að verulegu leyti undanþágu frá flutningsskyldu samkvæmt ákvæðum 15. gr.
    Í 4. mgr. eru fyrirmæli um rétt dómara til að fá að skipta um starfsvettvang, en lagt er til að dómari geti krafist þess að vera færður til eftir að hafa starfað á sama vettvangi í þrjú ár samfleytt, hvort sem hann hafi haft fast sæti við tiltekinn dómstól eða starfað við alla héraðsdómstólana í senn. Undir þessum kringumstæðum gæti dómarinn ekki valið hvert hann yrði færður, en eftir fyrrnefndri reglu í 3. mgr. yrði vissulega að taka tillit til óska hans. Rétti dómara til flutnings eru settar þær skorður í ákvæðinu að reglur 5. mgr. 15. gr. og 39. gr. standi ekki þar í vegi. Með þessu er nánar tiltekið vísað til þess að kostur verði að vera á að manna stöðu dómarans sem leitar eftir tilflutningi, ef kleift á að vera að mæta óskum hans. Þyrfti því að minnsta kosti að vera unnt að skylda einhvern til að taka við sæti viðkomandi dómara, en með 5. mgr. 15. gr. og 39. gr. er sem áður segir gert ráð fyrir takmörkunum á heimildum til að knýja á um slíka skyldu. Gæti þessi fyrirvari í 4. mgr. því leitt til þess að dómari yrði að sæta því að halda um sinn kyrru fyrir á starfsvettvangi sínum, þótt öðrum skilyrðum ákvæðisins væri fullnægt, en af tilfærslu yrði þá að verða um leið og umræddar takmarkanir stæðu henni ekki lengur í vegi.
    Samkvæmt 5. mgr. yrði héraðsdómara að meginreglu ekki gert að færast á nýjan starfsvettvang gegn vilja sínum. Frá þessari meginreglu eru hins vegar ráðgerðar þrjár undantekningar í ákvæðinu. Þannig yrði dómari í fyrsta lagi að hlíta því að færast á annan starfsvettvang í allt að sex mánuði á hverju tíu ára tímabili þótt hann sé því andvígur. Í öðru lagi yrði dómara skylt að færast á annan starfsvettvang ef sú tilfærsla hefði ekki í för með sér að hann gæti ekki með góðu móti sótt vinnu á nýjum vettvangi án búferlaflutninga. Í þriðja lagi yrði dómari að sæta því að flytjast á nýjan starfsvettvang ef dómurum væri varanlega fækkað við þann dómstól þar sem hann starfar. Þessu til viðbótar skal svo aftur minnt á það að í 39. gr. eru sérstakar reglur um frekari takmarkanir á því að dómarar, sem skipaðir hafa verið í tíð eldri laga, verði færðir til í starfi. Af þessu er ljóst að heimildir dómstólaráðs til að skylda dómara til að taka við starfi á öðrum vettvangi mundu sæta verulegum takmörkunum, en þessara heimilda er þó þörf til að tryggja að unnt verði að manna alla dómstóla með viðunandi móti og hæfilegum fjölda dómara.
    Í 6. mgr. er ákvæði um hvernig dómari verði fenginn til að sinna afmörkuðu verki við annan dómstól en þann þar sem hann eigi fast sæti án þess að hann skipti að öðru leyti um starfsvettvang. Þörfin á þessu gæti einkum komið upp annaðhvort í sambandi við mál þar sem héraðsdómur ætti að vera fjölskipaður en kostur væri ekki á dómara til þeirra þarfa á viðkomandi dómstóli, eða ef allir dómarar þar væru vanhæfir til að fara með mál. Samkvæmt þessu ákvæði yrði þá dómstólaráð að ákveða hvaða dómara yrði falið slíkt verk, en því mundi ekki fylgja sérstök greiðsla fyrir viðkomandi dómara nema að því leyti sem um ræðir í 2. og 3. tölul. 1. mgr. 25. gr. Dómara væri skylt að hlíta boði dómstólaráðs um að taka slíkt verk að sér, svo sem tekið er fram í niðurlagi 6. mgr.
    

    Um 16. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru ákvæði um dómstjóra við héraðsdómstólana, sem er ætlað að koma í stað núgildandi reglna í 4. og 5. mgr. 4. gr. laga nr. 92/1989. Ákvæði 16. gr. eru öllu ítarlegri en tilvitnaðar reglur í núgildandi lögum.
    Í 1. mgr. eru gerðar tillögur um hvernig dómstjóri verði valinn og skipaður. Í 1. málsl. þessarar málsgreinar er ráðgert að dómsmálaráðherra skipi dómstjóra við hvern héraðs dómstól og gildi sú skipun í fimm ár. Með þessu er miðað að breytingu að því leyti að í núgildandi reglum verða dómstjórar aðeins skipaðir við héraðsdómstóla þar sem fleiri en einn héraðsdómari starfar, en við aðra dómstóla gegnir héraðsdómarinn stöðu forstöðumanns dómstólsins án sérstaks starfsheitis. Samkvæmt frumvarpinu yrði slíkur greinarmunur ekki gerður á dómstólum eftir fjölda dómara, en í því sambandi er meðal annars litið til þess að eftir ákvæðum frumvarpsins eiga einstakir dómstólar ekki að hafa varanlegan og fastan fjölda dómara, heldur á fjöldinn að ráðast af ákvörðun dómstólaráðs á hverjum tíma, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. Þá er jafnframt ráðgerð hér breyting frá gildandi reglu varðandi skipunartíma dómstjóra, en hann er nú sex ár. Er í þessu sambandi tekið tillit til almennra reglna um skipunartíma embættismanna samkvæmt fyrirmælum laga nr. 70/1996. Varðandi val á dómstjóra er lagt til með 2.–4. málsl. 1. mgr. að hann verði kosinn við dómstól þar sem þrír eða fleiri dómarar eiga fast sæti. Dómstjórinn verði valinn með samkomulagi dómara ef tveir eiga þar fast sæti, en takist samkomulag ekki velji dómstólaráð annan dómarann til að gegna starfinu. Loks verði dómari, sem starfi einn við dómstól sjálfkrafa dómstjóri. Í tilvikunum, þar sem tveir eða fleiri dómarar eiga í hlut er ráðgert að dómsmálaráðherra verði ekki bundinn af kjöri eða samkomulagi dómaranna, heldur geti hann valið annan dómara við dómstólinn til skipunar í starfið. Þetta er í samræmi við framkvæmd eftir núgildandi reglum. Loks er tekið fram í niðurlagi 1. mgr. að skipun dómstjóra raskist ekki þótt dómurum við dómstól fjölgi eða fækki á skipunartíma hans. Með þessu eru tekin af tvímæli um að skipun dómstjóra standi þótt dómurum við dómstól yrði til dæmis fjölgað úr einum í þrjá á skipunartímanum, en dómstjórinn sæti þá til enda skipunartíma síns og yrði fyrst að honum loknum efnt til kosningar dómaranna um nýjan dómstjóra.
    Með 2. mgr. er gerð tillaga um þau nýmæli að héraðsdómarar geti kosið varadómstjóra við dómstóla, þar sem dómarar eru þrír eða fleiri og yrði hann þá staðgengill dómstjórans. Eftir núgildandi reglu í 4. mgr. 4. gr. laga nr. 92/1989 er sá dómari, sem er elstur að embættisaldri við dómstól, sjálfkrafa í hlutverki staðgengilsins. Með þessu er stefnt að því að meiri festa geti orðið á starfi staðgengils dómstjóra við stærri dómstólana. Samkvæmt frumvarpinu mundi hins vegar sama regla og nú gildir eiga við um staðgengilinn við héraðsdómstóla, þar sem ekki yrði neytt heimildar til að kjósa varadómstjóra, en þar sem dómarar væru tveir við dómstól mundi leiða af sjálfu sér hver gegni þessu hlutverki.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um hvað gera eigi ef sæti dómstjóra verður laust, en samkvæmt ákvæðinu getur það gerst vegna einhverrar af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi tekur ákvæðið til þess tilviks að sá héraðsdómari, sem hefur verið skipaður dómstjóri, flytjist á annan starfsvettvang samkvæmt ákvörðun dómstólaráðs. Í öðru lagi á ákvæðið við ef héraðsdómari verður leystur frá starfi dómstjóra samkvæmt fyrirmælum 4. mgr. 16. gr., án þess að láta þó af embætti héraðsdómara. Loks á það hér í þriðja lagi undir ef héraðsdómari, sem hefur verið skipaður dómstjóri, lætur af dómaraembætti. Í öllum þessum tilvikum er ráðgert að nýr dómstjóri verði skipaður eftir þeim reglum, sem eru lagðar til í 1. mgr. og áður er lýst, en það yrði þá gert til fulls fimm ára skipunartímabils án tillits til skipunartíma þess sem hefði látið af starfinu.
    Í 4. mgr. eru fyrirmæli um agavald yfir dómstjóra sem kynni að gerast sekur um brot í starfi, svo og um heimildir til að leysa dómara frá þessu sérstaka starfi sínu áður en skipunartími hans sem dómstjóri væri á enda. Lagt er til að dómstólaráð fari með þetta agavald. Í upphafi þessarar málsgreinar er ráðgert að dómstólaráð eigi að bregðast þannig við ætluðu broti dómstjóra í starfi að gefa honum kost á að tjá sig um ávirðingar sem að honum beinast og veita honum áminningu ef ekki verði unað við skýringar hans. Sé brot stórfellt eða ítrekað er dómstólaráði ætlað að hafa vald til að gera rökstudda tillögu til dómsmálaráðherra um að dómstjóri verði leystur frá starfi. Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. kæmi í hlut ráðherra að taka ákvörðun í þessum efnum, en meðferð málsins færi annars eftir reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða er til að benda sérstaklega á að þessar reglur snúa eingöngu að því hvernig héraðsdómara verði veitt lausn frá starfi sínu sem dómstjóri, en varða á engan hátt lausn hans frá embætti héraðsdómara. Gæti því komið til þess að viðkomandi yrði leystur frá starfi dómstjóra eftir ákvæðum 4. mgr. 16. gr., en gegndi eftir sem áður embætti héraðsdómara.
    Í 5. mgr. eru fyrirmæli um helstu störf dómstjóra og eru þau öllu ítarlegri en núgildandi ákvæði um það efni í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 92/1989. Í upphafi málsgreinarinnar kemur fram að dómstjóra sé eins og öðrum héraðsdómurum ætlað að gegna dómstörfum, en þetta verður vitanlega að skoðast með tilliti til þeirra takmarkana, sem slíkum störfum yrðu settar vegna annarra skyldustarfa dómstjórans. Samkvæmt ákvæðinu væru þessi skyldustörf fólgin aðallega í því að dómstjórinn stjórni héraðsdómstólnum og beri ábyrgð á starfsemi hans, skipti verkum á milli dómara og annarra starfsmanna, skipti eftir atvikum dómurum í deildir, úthluti dómurum eða deildum þeirra málum, ráði aðra starfsmenn en héraðsdómara og slíti ráðningu þeirra, hafi eftirlit með störfum héraðsdómara og annarra starfsmanna, gæti aga gagnvart þeim að því leyti sem ekki komi til kasta annarra eftir ákvæðum 28.–30. gr. frumvarpsins, annist og beri ábyrgð á meðferð fjár sem dómstólaráð leggur dómstólnum til, annist samskipti við dómstólaráð, sinni verkefnum sem dómstólaráð kann að fela honum, komi fram út á við í þágu dómstólsins og verði í fyrirsvari um sérstök málefni hans. Vekja verður athygli á að finna má nánari fyrirmæli um sum þessara starfa í öðrum ákvæðum frumvarpsins, svo sem um ráðningu aðstoðarmanna í 17. gr. og úthlutun mála í 18. gr., auk þess að kveðið er á um enn frekari störf í til dæmis 19. gr. Eru því störf dómstjóra ekki tæmandi talin í 5. mgr. 16. gr.
    

    Um 17. gr.

    Í þessari grein eru fyrirmæli um lögfræðimenntaða aðstoðarmenn við héraðsdómstóla, en gert er ráð fyrir að störf af þessu tagi komi í stað núverandi starfa dómarafulltrúa. Í almennum athugasemdum hér að framan er lýst ástæðunum fyrir þeirri tillögu sem felst í 17. gr., að störf dómarafulltrúa verði lögð niður og í staðinn komi annars konar störf lögfræðinga sem hafi takmarkaðra starfsvið. Skal vísað til þess, sem þar kemur fram.
    Í 17. gr. er ekki vikið sérstaklega að verksviði aðstoðarmanna við héraðsdómstóla, en starfsheitið eitt út af fyrir sig gefur hins vegar í meginatriðum til kynna til hvers sé ætlast í þeim efnum. Á störfum aðstoðarmanna og dómarafulltrúa samkvæmt núgildandi reglum í 6. gr. laga nr. 92/1989 yrði sá meginmunur að aðstoðarmönnum væri ekki heimilt að gegna dómstörfum, svo sem fulltrúar geta nú í takmörkuðum mæli. Þess í stað er miðað við að aðstoðarmenn vinni margháttuð störf í þágu einstakra héraðsdómara í sambandi við til dæmis skipulagningu á vinnu þeirra, athugun á málum, heimildaröflun vegna mála, samskipti við málsaðila eða málflytjendur þeirra í tengslum við meðferð máls og samningu dómsúrlausna. Yrði að móta starfsvið aðstoðarmanna í framkvæmd, en vekja má athygli á að dómstólaráð gæti sett almennar reglur til leiðbeiningar í þeim efnum í skjóli 4. tölul. 1. mgr. 14. gr.
    Samkvæmt 17. gr. verða aðstoðarmenn að fullnægja sömu hæfisskilyrðum og áskilin eru til að fá skipun í embætti héraðsdómara samkvæmt 2. mgr. 12. gr., ef frá eru talin skilyrði um lágmarksaldur og starfsreynslu, sbr. 1. og 7. tölul. tilvitnaðrar málsgreinar. Lagt er til að dómstjórar annist hver um sig ráðningu aðstoðarmanna og hafi jafnframt með höndum vald til að slíta ráðningunni. Þetta verður að telja sjálfgefið í ljósi þess að ekki er ætlast til að aðstoðarmenn verði færðir á milli dómstóla með hliðstæðum hætti og héraðsdómarar og yrðu þeir því í föstu starfi við sama dómstól allan ráðningartíma sinn. Ráðning yrði tímabundin, að hámarki til fimm ára við sama dómstól, en í ljósi orðalags um þetta í niðurlagi 17. gr. væri ekki girt fyrir að aðstoðarmaður gæti ráðið sig til starfa við annan dómstól að loknum hámarksráðningartíma á einum stað.
    Vekja ber athygli á því að í bráðabirgðaákvæði í 41. gr. eru sérreglur um stöðu þeirra sem gegna störfum dómarafulltrúa eftir núgildandi lögum, ef frumvarpið nær fram að ganga.
    

    Um 18. gr.

    Í 18. gr. eru ákvæði um úthlutun mála við héraðsdómstóla eða með öðrum orðum hvernig staðið verði að því að fela tilteknum dómara að fara með mál og leysa úr því við dómstól þar sem fleiri en einn dómari eru við störf. Með sama hætti og í núgildandi lögum er mælt hér fyrir um að dómstjóri úthluti málum, en að þessu frágengnu felur 18. gr. í sér nýmæli, enda eru ekki efnislegar reglur um úthlutun í gildandi löggjöf.
    Í fyrri málslið 1. mgr. er almenn regla, þar sem getið er tveggja meginsjónarmiða sem dómstjóri eigi að gæta við úthlutun mála til einstakra dómara eða deilda þeirra. Segir þar annars vegar að dómstjóri verði að gæta að því að starfsálag dómara verði svo jafnt sem auðið er, en með þessu er leitast við að afstýra því að dómurum verði mismunað að því er starfsálag varðar. Hins vegar kemur fram að dómstjóri verði eftir föngum að leitast við að láta tilviljun ráða hvaða dómari fái mál til meðferðar. Með þessu er aðallega litið til hagsmuna málsaðila af því að dómari verði ekki valinn sérstaklega til að fara með mál þeirra, heldur að hending búi þar að baki. Vissulega getur reynst erfitt við úthlutun mála að gæta í senn beggja þessara sjónarmiða, en við því er unnt að sjá með því til dæmis að dómurum sé fyrir fram skipað í ákveðna röð til að fá úthlutað málum, en umfang og vægi málanna verði vegið. Þannig gæti sami dómari til dæmis fengið samtímis úthlutað tveimur málum sem væru í meðallagi að umfangi, sá næsti fengi fjögur lítil mál, en sá sem kæmi þar á eftir í röð dómaranna fengi eitt stórt mál. Um aðferðir í þessum efnum er væntanlega unnt að leita erlendra fyrirmynda að einhverju marki, en í síðari málslið 1. mgr. er ráðgert að dómstólaráð geti sett almennar leiðbeiningarreglur um úthlutun, sem mætti eftir atvikum styðja við slíkar fyrirmyndir.
    Í 2. mgr. er ráðgert að málum geti verið úthlutað til deilda dómara, en í tengslum við þetta má vísa á ný til þess að í 5. mgr. 16. gr. er meðal annars mælt fyrir um það að dómstjóri geti skipt dómurum við héraðsdómstól í deildir. Samsvarandi heimildir felast nú í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 92/1989, en þeim hefur fremur lítið verið beitt í framkvæmd. Ef þessarar heimildar yrði neytt og málum úthlutað til deildar er miðað við það í 2. mgr. að dómararnir, sem skipa deildina, taki ákvörðun um hver þeirra fari með hvert einstakt mál.
    Í upphafi 3. mgr. er með sama hætti og í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 92/1989 mælt fyrir um þá meginreglu að einn héraðsdómari skipi dóm í hverju máli, en gert er ráð fyrir því að tvenns konar undantekningar geti verið frá þeirri reglu. Annars vegar er þar vísað til þess að annað geti verið skylt að lögum. Fyrirmæli um skyldu til að fleiri héraðsdómarar en einn skipi dóm í máli eru líklega hvergi í gildandi lögum, en í frumvarpinu er á hinn bóginn gert ráð fyrir slíku í niðurlagi 1. mgr. 30. gr. Hins vegar er í 3. mgr. vísað til þeirrar undantekningar frá áðurgreindri meginreglu að heimildir geti staðið í öðrum lögum til að dómur verði fjölskipaður héraðsdómurum, en í þessu felst einkum skírskotun til ákvæða 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Í þessum efnum eru að öðru leyti lagðar til breytingar frá núgildandi reglum að því leyti að í 3. mgr. er ráðgert að dómstjóri taki ákvörðun um hvort dómur verði fjölskipaður héraðsdómurum og úthluti þá máli í sameiningu til þriggja dómara, en úr þeirra hópi velji hann einn til að sitja í forsæti dómsins. Eftir núgildandi reglum er það hins vegar á valdi héraðsdómara, sem hefur fengið máli úthlutað, að ákveða með samþykki dómstjóra að dómur verði fjölskipaður á þennan hátt og kemur í hlut dómarans að velja þá sem taka eiga sæti með honum í dóminum. Með þessari tillögu um breytingu er einkum horft til þess að núgildandi skipan tryggir ekki sem skyldi að gætt sé samræmis um beitingu heimilda til að dómur verði fjölskipaður héraðsdómurum, en þær heimildir hafa að nokkru verið notaðar um of. Að auki verður að telja óeðlilegt að dómari, sem hefur fengið máli úthlutað, velji sjálfur tvo aðra héraðsdómara til að taka sæti í því, enda veldur þátttaka meðdómendanna tveggja í máli auknu álagi á þá sem taka verður tillit til við úthlutun annarra mála til þeirra. Í niðurlagi 3. mgr. eru jafnframt nýmæli, þar sem kveðið er á um að dómstólaráð eigi að fela dómara að taka sæti í fjölskipuðum héraðsdómi ef leita þarf til dómara utan viðkomandi dómstóls til að sinna því verki. Með þessu er lögð til breyting frá núgildandi reglum því eftir þeim getur héraðsdómari, sem hefur fengið máli úthlutað, leitað sjálfur til dómara við annan dómstól um að taka sæti sem meðdómsmaður í því, en til þess er þó áskilið samþykki forstöðumanns dómstólsins, þar sem sá dómari starfar, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1991. Byggist þessi breytingartillaga á sömu sjónarmiðum og áður er getið. Að öðru leyti er ástæða til að geta þess í sambandi við ákvæði 3. mgr. að í frumvarpinu er miðað við að þátttaka héraðsdómara í fjölskipuðum dómi verði liður í skyldustörfum þeirra, sem ekki verður greitt sérstaklega fyrir nema að því leyti sem það geti stafað af ákvæðum 2. og 3. tölul. 1. mgr. 25. gr., en í núverandi framkvæmd hefur tíðkast að greiða sérstaka þóknun fyrir þessi störf. Þá er jafnframt ástæða til að vekja athygli á því að ákvæði 3. mgr. eiga aðeins að taka til þess þegar dómur er fjölskipaður héraðsdómurum, en um kvaðningu sérfróðra meðdómsmanna mundu hins vegar gilda sömu reglur og hingað til.
    Með 4. mgr. eru lögð til nýmæli um heimildir dómara til að biðjast undan úthlutun máls, en til þessa hafa engar settar reglur gilt í þeim efnum. Í ákvæðinu er ráðgert að dómara geti verið þetta heimilt í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi geti þetta komið til greina ef dómari færir haldbær rök fyrir því að hann sé tengdur sakarefni málsins, aðila þess eða lögmanni eða fyrirsvarsmanni málsaðila, þótt þau tengsl valdi ekki vanhæfi til að fara með málið eftir ákvæðum 5. gr. laga nr. 91/1991, en kostur verður þá að vera á öðrum dómara við sama dómstól til að fara með málið. Farið hefur verið að með líkum hætti um langt árabil í framkvæmd og miðar þannig ákvæði frumvarpsins um þetta að því að festa þá framkvæmd í sessi. Í öðru lagi er ráðgert að dómari geti beðist undan úthlutun máls vegna sérstakra anna í starfi, en þær gætu til dæmis stafað af því að mál, sem hann hefur fengið til meðferðar, hafi reynst umfangsmeiri en reiknað var með við úthlutun þeirra. Í þriðja lagi gæti dómari vikist undan úthlutun ef hann gæti fært rök fyrir því að með henni væri ekki gætt jafnaðar á milli hans og annarra dómara við sama dómstól. Í öllum þessum tilvikum kæmi í hlut dómstjóra að taka afstöðu til beiðni dómarans um að verða leystur undan úthlutun. Gerð er tillaga í ákvæðinu um sérstaka heimild handa dómara, sem vill ekki una við ákvörðun dómstjóra um beiðni sem þessa, til að skjóta henni til dómstólaráðs sem tæki þá fullnaðarákvörðun innan stjórnsýslunnar um málefnið. Telja verður eðlilegt að dómari hafi aðgang af þessu tagi til málskots, en slíkt getur meðal annars stuðlað að samræmi við beitingu heimilda dómstjóra í þessum efnum.
    Í 5. mgr. eru jafnframt lögð til nýmæli sem snúa að heimild dómstjóra til að draga aftur úthlutun máls til héraðsdómara án beiðni hans, en um þetta eru engar reglur í núgildandi lögum. Samkvæmt ákvæðinu getur þetta komið til ef héraðsdómari sinnir ekki tilmælum dómstjóra um að ljúka málinu innan tiltekins og hæfilegs tíma eða veikindi héraðsdómarans eða hliðstæð atvik torvelda að hann geti sinnt því. Þessum heimildum yrði að beita af varfærni, en tilgangur þeirra er öðru fremur að koma í veg fyrir að mál dragist óeðlilega á langinn vegna ástæðna sem varða dómarann sem hefur verið falið að fara með það. Í 2. og 3. málsl. 5. mgr. eru ákvæði um heimild viðkomandi dómara til að skjóta til dómstólaráðs ákvörðun dómstjóra um að draga aftur úthlutun máls, en þau eru sams konar og málskotsreglurnar í 4. mgr, sem áður er vikið að.
    Í 6. mgr. eru fyrirmæli um hvað gert verði ef héraðsdómari víkur sæti í máli vegna vanhæfis, sbr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Gert er ráð fyrir þeirri aðalreglu að dómstjóri verði þá að úthluta málinu á ný, en þeim kosti eru þó sett þau augljósu takmörk að annar dómari við sama dómstól verði þá að fullnægja hæfisskilyrðum til að fara með málið. Sé ekki slíkur kostur á öðrum dómara yrði dómstjóri að kveða upp úrskurð um að allir aðrir dómarar við dómstólinn víki sæti í málinu, sbr. 19. gr., og leita til dómstólaráðs um að það feli dómara við annan dómstól að taka við úthlutun á því. Ef ekki tækist með þessum hætti að fela málið dómara, sem fullnægði hæfiskröfum til að fara með það, yrði að leita skipunar setudómara samkvæmt 19. gr., sem nánar er lýst hér á eftir. Þessi ákvæði 6. mgr. 18. gr. eiga sér ekki hliðstæðu í núgildandi lögum.
    

    Um 19. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um setudómara sem yrðu skipaðir með líkum hætti og eftir núgildandi reglum í 7. gr. laga nr. 92/1989 til að fara með mál ef reglulegu héraðsdómararnir reyndust ekki fullnægja sérstökum hæfisskilyrðum samkvæmt 5. gr. laga nr. 91/1991 til að fara með það.
    Samkvæmt 1. mgr. ætti skipun setudómara þann aðdraganda að allir dómarar við héraðsdómstólinn, þar sem viðkomandi mál væri rekið, væru vanhæfir til að fara með það, auk þess að komið væri fram að það sama gilti um alla dómara við aðra héraðsdómstóla. Kæmi í hlut dómstjóra við héraðsdómstólinn, þar sem málið væri til meðferðar, að kveða á um vanhæfi allra dómara þar með einum úrskurði, en dómstólaráði er síðan ætlað að taka við málinu úr höndum dómstjóra og láta í té skriflegt og rökstutt álit um vanhæfi allra annarra héraðsdómara. Um samanburð á þessari skipan við núgildandi reglur ber í fyrsta lagi að vekja athygli á því að eftir frumvarpinu yrði setudómari aldrei skipaður nema áður væri fullreynt að enginn héraðsdómari á landinu öllu væri hæfur til að fara með mál. Eftir 1. mgr. 7. gr. laga nr. 92/1989 verður setudómari hins vegar skipaður þegar vegna þeirra atvika að allir dómarar við héraðsdómstólinn, þar sem mál er rekið, hafa vikið sæti í því. Í öðru lagi eru lögð til þau nýmæli í þessu ákvæði frumvarpsins að dómstjóri geti kveðið upp einn úrskurð um að allir dómarar við viðkomandi héraðsdómstól víki sæti, en í framkvæmd hefur 1. mgr. 7. gr. laga nr. 92/1989 verið skýrð svo að hver og einn héraðsdómari verði að víkja sæti fyrir sitt leyti með sérstökum úrskurði. Í þriðja lagi verður að benda á að samkvæmt frumvarpinu kæmi í hlut dómstólaráðs að kveða á um það að við aðra héraðsdómstóla væri hvergi að finna dómara sem fullnægði sérstökum hæfisskilyrðum til að fara með mál, en slík aðferð á sér enga hliðstæðu í gildandi lögum. Með tillögu um þetta er haft í huga að samkvæmt 6. mgr. 18. gr., sem áður er vikið að, kæmi í hlut dómstólaráðs að leita dómara til að fela mál ef allir dómararnir við dómstólinn, þar sem það er rekið, reyndust vera vanhæfir til að fara með það. Í viðleitni til að koma þessu við yrði þannig dómstólaráð að kanna eftir þörfum hæfi dómara vítt og breitt um landið til að taka málið að sér og þykir þá nærtækt og til verksparnaðar að látið verði við það sitja að dómstólaráð láti uppi rökstutt álit um að ekki takist að finna héraðsdómara, sem fullnægi hæfisskilyrðum til að leysa úr málinu. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. væri það fyrst að loknum þessum aðdraganda sem til þess kæmi að setudómari yrði skipaður, en með sama hætti og eftir 1. mgr. 7. gr. laga nr. 92/1989 kæmi í hlut dómsmálaráðherra að velja mann til verksins án þess að aðrir eigi þar hlut að máli.
    Í upphafsmálslið 2. mgr. kemur fram krafa um að setudómari verði að fullnægja öllum skilyrðum til að fá skipun í embætti héraðsdómara. Núgildandi meginregla um þetta efni í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 92/1989 er á sama veg, en frá henni er hins vegar heimiluð undantekning, þannig að setudómari þurfi ekki skilyrðislaust að hafa náð lágmarksaldri og öðlast þá starfsreynslu sem áskilin er til skipunar í dómaraembætti. Með umræddu ákvæði frumvarpsins yrði því þessi heimild afnumin, en telja verður hana orðið ástæðulausa, ekki síst ef litið er til þess að samkvæmt frumvarpinu yrði skipun setudómara miklum mun sjaldgæfari en eftir núgildandi reglum. Að öðru leyti eru ákvæði í 2. mgr., sem eiga sér ekki hliðstæðu í gildandi lögum, um hvernig staðið verði að verki ef ástæða þykir til eða skylt er að dómur í máli, sem setudómara hefur verið falið, verði fjölskipaður héraðsdómurum. Er þá ráðgert að setudómari, sem dómsmálaráðherra mundi skipa í byrjun, beini því til ráðherra að hann skipi tvo setudómara til viðbótar en sá, sem fyrst var skipaður yrði þá í forsæti fjölskipaða dómsins. Litlar líkur eru á að reglur um þetta hafi teljandi gildi í framkvæmd, en á liðnum árum hefur þetta þó gerst að minnsta kosti eitt skipti og skorti þá formlegar reglur um það úrræði sem hér er lagt til og beitt var í því tilviki.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að setudómara verði ekki vikið úr því starfi sínu nema eftir sömu reglum og gilda um skipaða dómara. Þessi regla er sama efnis og núgildandi ákvæði í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989, svo sem þeirri grein var breytt með lögum nr. 80/1995.
    Samkvæmt 4. mgr. kæmi í hlut dómstólaráðs að ákveða þóknun setudómara sem greidd verði úr ríkissjóði. Með þessum fyrirmælum er lögð til sú breyting frá núverandi skipan að dómstólaráð tæki ákvörðun um þetta efni í stað dómsmálaráðherra. Þessa breytingu má telja eðlilega þegar þess er gætt að dómstólaráð hefði með höndum fjárreiður héraðsdómstólanna og bæri ábyrgð á þeim, en þóknun fyrir störf setudómara yrði að greiðast af fjárveitingu til héraðsdómstólanna.
    

    Um 20. gr.

    Í 20. gr. eru lagðar til reglur um leyfi héraðsdómara frá störfum og setningu staðgengils fyrir hann. Þessum reglum er ætlað að koma í stað fyrirmæla um sama efni í 3. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 92/1989 og eru þær öllu ítarlegri en gildandi ákvæði.
    Í 1. mgr. eru lagðar til almennar reglur um leyfisveitingar handa héraðsdómurum. Í þessum efnum er miðað við þá aðalreglu að héraðsdómara verði ekki veitt leyfi frá störfum í lengri tíma samfleytt en eitt ár, en frá því eru ráðgerðar tvenns konar undantekningar. Annars vegar er þessum hámarkstíma ekki ætlað að gilda um veikindaforföll, en um þau færi eftir almennum reglum um starfsmenn ríkisins. Hins vegar er lagt til að dómstólaráði verði heimilað að veita héraðsdómara undanþágu frá hámarkstíma leyfis ef þess væri leitað til að sinna námi. Undir þeim kringumstæðum mætti veita framlengingu á leyfi í allt að tólf mánuði í senn og þá oftar en eitt skipti ef dómstólaráð teldi rök standa til þess. Þessi síðastgreinda heimild til leyfisveitingar er öllu rýmri en sú sem lögð er til í 9. gr. um hæstaréttardómara, en um ástæður þess hefur áður verið fjallað. Samkvæmt 3. málsl. þessarar málsgreinar er dómstólaráði ætlað að setja reglur til fyllingar framangreindum ákvæðum um heimildir til að veita héraðsdómurum leyfi frá störfum, en þær reglur gætu jöfnum höndum varðað almennar heimildir til leyfis innan ramma aðalreglunnar um eins árs hámark á leyfistíma og sérstöku heimildina til að framlengja slíkt leyfi. Í 1. mgr. er að öðru leyti mælt fyrir um það hvernig afstaða verði tekin til umsóknar héraðsdómara um leyfi. Í því sambandi er í fyrsta lagi tekið fram að dómstólaráð veiti leyfi vegna orlofs, en eftir atvikum gæti dómstólaráð falið dómstjórum að annast þetta í umboði þess, sbr. 5. mgr. 16. gr. Í öðru lagi mundi dómstólaráð vera fært um að veita hvers kyns leyfi sem stæði ekki lengur í heild en í einn mánuð. Í þriðja lagi kæmi í hlut dómsmálaráðherra að veita leyfi til lengri tíma, en beiðni um slíkt leyfi yrði í byrjun beint til dómstólaráðs, sem er ætlað að gera tillögu til ráðherra um afgreiðslu hennar. Rétt er að taka fram að með þessum ákvæðum er á engan hátt tekin afstaða til þess hvort héraðsdómari nyti launa á leyfistíma, en um það færi eftir öðrum reglum.
    Í 2. mgr. eru fyrirmæli um hvort staðgengill verði settur í embætti á meðan héraðsdómari nyti leyfis og hvernig verði þá staðið að því. Um fyrrnefnda atriðið er gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að setning staðgengils komi því aðeins til greina að sérstakar annir krefjist þess og dómstólaráð mæli með því. Í tengslum við þetta verður að benda á að þessi regla mundi gilda jöfnum höndum hvort sem héraðsdómari væri í leyfi vegna veikindaforfalla, orlofs eða annarra ástæðna, svo sem vegna náms. Miðað er við það að almennt ætti ekki að vera þörf á staðgengli þótt dómari fari í leyfi, enda virðist mega ætla að dómstólaráði geti verið kleift að flytja dómara til í starfi ef sá sem nyti leyfis starfaði við fámennan dómstól, en við stærri dómstóla ætti að öðru jöfnu að vera unnt að jafna álag vegna fjarvistar dómara með aukinni úthlutun mála til annarra. Er þá einnig til þess að líta að dómara, sem leitaði eftir leyfi, væri rétt áður en til leyfisins kæmi að ljúka eftir föngum málum sem hann hefði til meðferðar og þyldu ekki bið eftir endurkomu hans. Samkvæmt ákvæðinu kæmi í hlut dómstólaráðs að leggja mat á þörfina fyrir setningu staðgengils, en við það mat væri meðal annars sjálfsagt að leita viðhorfa dómstjóra viðkomandi dómstóls. Dómsmálaráðherra gæti ekki sett dómara í stað þess sem nyti leyfis nema dómstólaráð mælti með því, en á hinn bóginn væri ráðherra ekki skylt að fara eftir tillögu dómstólaráðs um að setja dómara. Með þessum fyrirmælum eru lagðar til breytingar frá núverandi skipan, enda tíðkast nú að setja alltaf dómara í embætti ef sæti verður laust af öðrum sökum en vegna orlofs, svo og í orlofi dómara sem starfar einn við dómstól. Varðandi val á staðgengli er mælt svo fyrir í 2. mgr. að dómsmálaráðherra hafi það með höndum að fenginni ábendingu dómstólaráðs um mann til starfans, en eftir orðalagi ákvæðisins væri slík ábending ekki bindandi fyrir ráðherra, þótt eflaust yrði að jafnaði farið eftir henni í framkvæmd. Frá þessu er lögð til sú undantekning að ráðherra geti, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu dómstólaráðs, auglýst embætti héraðsdómara laust til umsóknar á leyfistíma, en dómstólaráði væri þá ætlað að velja einhvern úr hópi umsækjenda til að benda á til starfans. Með þessari tillögu eru einkum höfð í huga tilvik þar sem dómari fengi leyfi til lengri tíma, svo sem vegna náms, þannig að fyrirsjáanlegt væri að setning gæti staðið allt að einu ári eða jafnvel lengur í fleiri áföngum en einum. Telja verður eðlilegt að gefa kost á þessari leið til að leita eftir staðgengli fyrir dómara á leyfistíma, enda væri engan veginn sjálfgefið að dómstólaráði væri fyrir fram kunnugt um þá sem kynnu að hafa áhuga á að sækjast eftir setningu í dómaraembætti. Ábending dómstólaráðs á einhvern umsækjandann undir þessum kringumstæðum yrði ekki frekar en í fyrrnefndu tilvikunum bindandi fyrir ráðherra, en hér mundi hún á vissan hátt koma í stað umsagnar dómnefndar, sem leitað yrði við skipun í embætti samkvæmt 3. og 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 3. mgr. er gert ráð fyrir því að sams konar undantekningarheimild standi til að veita héraðsdómara leyfi til allt að sex ára vegna starfa hans við alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun og mælt er fyrir um varðandi hæstaréttardómara í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Búa sömu sjónarmið að baki þessari heimild í 3. mgr. 20. gr. og áður hefur verið greint frá í athugasemdum við 9. gr. Ef þessarar heimildar yrði neytt væri skylt samkvæmt 3. mgr. að auglýsa embætti dómarans laust til setningar. Tekið er fram í ákvæðinu að við veitingu þess verði að gæta fyrirmæla 3. og 4. mgr. 12. gr., en samkvæmt því yrði dómnefndin, sem þar er fjallað um, að leggja mat á hæfni umsækjendanna áður en sett yrði í embættið. Kæmi þá í hlut ráðherra að velja umsækjanda til setningar að fengnu áliti dómnefndarinnar, en í þessum tilvikum kæmi ekki til kasta dómstólaráðs að fjalla um umsækjendur, svo sem rætt er um við setningu samkvæmt fyrirmælum 2. mgr.
    Í 4. mgr. er áskilið að sá sem setja á í embætti héraðsdómara verði að fullnægja skilyrðum til að fá skipun í embættið, en með þessu er vísað til almennu dómaraskilyrðanna í 2. mgr. 12. gr. Er hér lagt til að strangari kröfur verði gerðar til hæfis setts dómara en nú eru gerðar samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga nr. 92/1989, þar sem heimilað er í undantekningartilvikum að setja mann í embætti héraðsdómara þótt hann hafi ekki náð lágmarksaldri og starfsreynslu til að fá skipun í það. Þá er tekið fram í 4. mgr. að sá sem hefur verið settur í embætti héraðsdómara eigi að njóta sömu stöðu og skipaður dómari á meðan á setningu hans standi. Með þessu á meðal annars að tryggja að settum dómara verði ekki vikið frá nema eftir sömu reglum og gilda um skipaða dómara, en að þessu leyti eru ákvæði 4. mgr. sama efnis og fyrirmæli 4. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989, svo sem greininni var breytt með lögum nr. 80/1995.
    

    Um 21. gr.

    Í þessari grein eru fyrirmæli um fasta þingstaði, svo og hvar héraðsdómari geti að öðru leyti tekið mál fyrir á dómþingi. Þessar reglur eiga að koma í stað ákvæða í 2. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga nr. 92/1989 og fela ekki í sér ráðagerð um teljandi breytingar.
    Í upphafi 1. mgr. kemur fram að héraðsdómstólarnir eigi hver um sig að hafa fastan þingstað á aðsetri sínu, sem greint er frá í einstökum töluliðum 1. mgr. 2. gr. Að auki er ráðgert að dómstólarnir hafi fastan þingstað í hverri þinghá ef neytt yrði heimildar í 2. mgr. 2. gr. til að skipta umdæmum þeirra í tvær eða fleiri þinghár. Dómsmálaráðherra er ætlað að mæla fyrir um fasta þingstaði í reglugerð, en tekið er fram í niðurlagi 1. mgr. að áður skuli hann afla tillagna um þetta hjá hverjum héraðsdómstóli fyrir sig. Að frátöldum fyrirmælum um skyldu ráðherra til að leita tillagna dómstólanna um þingstaði eru öll þau atriði í 1. mgr., sem hér hefur verið getið, samsvarandi núgildandi reglum í 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 92/1989, en á grundvelli þeirra ákvæða í gildandi lögum hefur ráðherra mælt fyrir um þingstaði héraðsdómstólanna í reglugerð nr. 58/1992, með áorðnum breytingum.
    Í 2. mgr. eru lagðar til reglur um tvenns konar heimildir héraðsdómara til að taka mál fyrir á dómþingi sem verði háð utan fasts þingstaðar. Annars vegar væri héraðsdómara heimilt að heyja þing hvarvetna innan umdæmis dómstólsins, sem málið er rekið fyrir, ef það þætti heppilegt vegna rekstrar þess, en þetta mundi gilda jöfnum höndum hvort sem þingfesta ætti þar málið eða taka það fyrir í öðru skyni. Hins vegar gæti héraðsdómari með sama skilyrði háð þing utan umdæmis dómstólsins til að taka fyrir mál, sem hefði þegar verið þingfest, en í þessu felst sú takmörkun að mál yrði aldrei þingfest utan umdæmis viðkomandi dómstóls. Þessar heimildir eru lítillega rýmri en núgildandi reglur um sama efni í 2. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 92/1989. Verður að telja eðlilegt að heimildir verði hafðar með þeim hætti sem hér er lagt til í ljósi þess að í frumvarpinu er sem fyrr segir ráðgert að héraðsdómarar kunni að fara með mál sem eru rekin fyrir öðrum dómstóli en þar sem þeir eiga fast sæti, svo og að dómarar geti sinnt störfum við marga dómstóla í senn án þess að eiga fast sæti við nokkurn þeirra.
    

    Um 22. gr.

    Í 22. gr. eru fyrirmæli um regluleg dómþing héraðsdómstólanna á föstum þingstöðum þeirra. Lagt er til að dómstólaráð taki ákvörðun í þessum efnum að fengnum tillögum hlutaðeigandi dómstjóra, en þar verði kveðið á um tíðni regulegra dómþinga, svo og þann stað og þá stund sem þau verði háð. Með ákvæðinu er dómstólaráði falið að birta ákvörðun um þetta með auglýsingu í Lögbirtingablaði. Þessi fyrirmæli er nokkuð frábrugðin reglum um sama efni í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 92/1989, þar sem dómsmálaráðherra er falið að mæla fyrir um regluleg dómþing í reglugerð. Um þetta gilda nú ákvæði í reglugerð nr. 58/1992, með áorðnum breytingum, þar sem mælt er fyrir um tíðni reglulegra dómþinga, en að öðru leyti er lagt í hendur héraðsdómstólanna sjálfra að ákveða þingdaga á hverjum þingstað, sem birta á auglýsingu um í Lögbirtingablaði. Breytingarnar, sem eru lagðar til í 22. gr., miða þannig að því að færa ákvörðunarvald um þessi efni frá ráðherra til dómstólaráðs, svo og að leggja í hendur dómstólaráðs að ákveða þingdaga og birta auglýsingu um þá í stað þess að hver dómstóll geri það fyrir sig innan ramma fyrirmæla í áðurnefndri reglugerð. Með því síðarnefnda er stefnt að því að samræmi verði á milli ákvarðana um þingdaga hjá einstökum dómstólum, auk þess að gleggra yrði að leita upplýsinga um þá í einu lagi í stað þess að athuga auglýsingar frá einstökum dómstólum.
    

    Um 23. gr.

    Þessi grein frumvarpsins er upphafsákvæði IV. kafla þess þar sem lagðar eru til reglur um réttindi og skyldur dómara. Í núgildandi lögum eru ákvæði um þessi efni dreifð og skortir þannig á að yfirsýn verði fengin af heildarmynd þeirra með góðu móti. Fyrirmælin í þessum kafla eiga því ekki að koma í stað samfelldra reglna í gildandi lögum. Að auki gætir nokkuð nýmæla í þessum kafla, auk þess að lagt er hér til að lögfestar verði ýmsar reglur sem gengið hefur verið út frá að gildi í núverandi framkvæmd.
    Í 1. mgr. 23. gr. er tekið fram að ákvæði IV. kafla gildi jöfnum höndum um hæstaréttardómara og héraðsdómara nema að því leyti sem annað sé sérstaklega tekið fram. Greinarmunur af þessu tagi á dómurum við Hæstarétt og héraðsdómstólana er ekki gerður víða í ákvæðum kaflans, en vekja má þó athygli á að slíkt er gert um afmörkuð atriði í 2. mgr. 24. gr., 1. mgr. 25. gr., 5. mgr. 28. gr., 2. mgr. 29. gr. og 1. og 4. mgr. 31. gr. Er annars leitast við að samræmdar reglur gildi um réttindi og skyldur dómara á báðum dómstigum, enda ekki teljandi ástæða til að gera yfirleitt mun á þeim í þessum atriðum.
    Í almennum athugasemdum hér að framan er greint frá þeim nýmælum í frumvarpinu að lagt er til að komið verði á fót sérstakri stjórnsýslunefnd, nefnd um dómarastörf, sem er ætlað að gegna aðallega tvíþættu hlutverki. Annars vegar er ráðgert að hún hafi með höndum agamál dómara, þar á meðal að taka við og leysa úr kvörtunum vegna starfa þeirra og veita áminningar. Hins vegar er nefndinni ætlað að fjalla um heimildir dómara til að gegna aukastörfum og eiga hlut í félögum og fyrirtækjum. Hér á fyrri stigum hefur verið fjallað almennt um röksemdir fyrir þessari skipan og þær breytingar sem hún hefði í för með sér frá núverandi reglum. Má því vísa til fyrri umfjöllunar um þau atriði. Í 2.–4. mgr. 23. gr. eru fyrirmæli um skipan umræddrar nefndar og fleiri almenn atriði varðandi hana, sem nú verður hugað nánar að í einstökum atriðum.
    Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. á að koma í hlut dómsmálaráðherra að skipa menn til setu í nefnd um dómarastörf, en aðalmenn í nefndinni eiga að vera þrír og jafnmargir varamenn. Lagt er til að einn nefndarmaður verður skipaður eftir tilnefningu Dómarafélags Íslands, en ráðherra skipi hina tvo án tilnefninga, þar af annan sem formann nefndarinnar sem verði að fullnægja skilyrðum til að fá skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 4. gr. Sömu reglur mundu gilda um varamenn. Benda má á að ekki er ætlast til að ráðherra verði bundinn af því að skipa dómara til setu í nefndinni nema eftir tilnefningu dómarafélagsins og hefði hann því frjálsar hendur um það úr hvaða starfstéttum tveir nefndarmanna kæmu með þeim takmörkunum sem leiða af fyrrnefndri reglu um hæfisskilyrði varðandi formann nefndarinnar. Ráðgert er að skipunartími nefndarmanna verði sex ár og að óheimilt verði að skipa þann sama oftar en tvisvar í sæti aðalmanns í nefndinni. Þá er miðað við að skipun renni ekki út hjá öllum nefndarmönnum í senn, heldur ljúki skipunartíma eins þeirra annað hvert ár, en um skipun nefndarinnar í fyrsta skipti eru fyrirmæli í bráðabirgðaákvæði í 4. mgr. 38. gr. Þessi tilhögun er sú sama og lögð er til um dómstólaráð og dómnefnd um umsækjendur um embætti héraðsdómara, en um hana hefur áður verið fjallað í athugasemdum við 12. og 13. gr., sem hér má vísa til.
    Í 3. mgr. kemur fram að úrlausnum nefndar um dómarastörf verði ekki skotið til annars stjórnvalds. Með þessu er ætlunin að taka af tvímæli um að stjórnsýslukæru verði ekki beitt til að leita endurskoðunar á úrlausnum nefndarinnar, en úr lögmæti þeirra mætti fá leyst með málshöfðun eftir almennum reglum.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir því að nefndin hafi samvinnu við dómstólaráð um starfsemi sína. Þótt verksvið þessara tveggja nefnda skarist ekki má telja eðlilegt að þær hafi samvinnu um atriði sem lúta að umsýslu í tengslum við starfsemi þeirra, enda hafa þær vissa sérstöðu meðal stjórnsýslunefnda að því leyti að þeim er ætlað að fjalla um málefni dómstóla og þurfa að vera sjálfstæðar og óháðar framkvæmdarvaldinu í störfum sínum. Í niðurlagi 4. mgr. er síðan mælt fyrir um þóknun til nefndarmanna vegna starfa þeirra, en hún yrði ákveðin af dómsmálaráðherra.
    

    Um 24. gr.

    Með þessari grein er lagt til að lögfestar verði nokkrar almennar reglur um störf dómenda og sjálfstæði þeirra við rækslu starfa sinna, svo og um skyldu þeirra til að halda við þekkingu sinni í lögum og um kost á endurmenntun. Fyrirmælin í greininni um störf og sjálfstæði dómenda eiga sér ekki að öllu leyti hliðstæðu í núgildandi lögum, en þau taka meðal annars mið af grundvallarreglum, sem eru í gildi hér á landi.
    Í upphafi 1. mgr. er mælt fyrir um að dómarar séu sjálfstæðir í dómstörfum og leysi þau af hendi á eigin ábyrgð. Sambærileg regla er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 92/1989, en eftir hljóðan hennar tekur hún aðeins til héraðsdómara. Einhverju mikilvægasta inntaki þessa sjálfstæðis er lýst nánar í 2. málsl. 1. mgr., sem byggist á þeirri grundvallarreglu að dómari taki aldrei við fyrirmælum, hvorki frá yfirmanni sínum innan dómstóls, handhafa framkvæmdarvalds eða löggjafarvalds né öðrum, um hvernig farið verði með dómsmál og leyst úr því, heldur ráðist meðferð máls og úrlausn eingöngu af lögum, sbr. einnig upphafsorð 61. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er í 3. málsl. 1. mgr. áréttaður annar þáttur í sjálfstæði dómenda, sem felst í því að dómsathafnir þeirra verði ekki endurskoðaðar af öðrum nema með málskoti til æðra dóms. Þessi fyrirmæli eru reist á meginreglunni um að handhafar annarra þátta ríkisvaldsins geti ekki endurskoðað gerðir dómstóla, heldur sé það aðeins á færi æðri dómstóls, svo og dómarans sjálfs að því leyti sem slíkt er sérstaklega heimilað í réttarfarslögum. Þessu sjálfstæði dómenda fylgir hins vegar ábyrgð þeirra sjálfra á gerðum sínum, svo sem tekið er fram í niðurlagi 1. málsl. 1. mgr. Með sama hætti og í núgildandi lögum er miðað við það í frumvarpinu að dómari geti bæði sætt refsiábyrgð og bótaábyrgð vegna dómstarfa sinna, sbr. 32. gr. Að auki er sjálfgefið að á dómara hvíli siðferðisleg ábyrgð á gerðum sínum í starfi, sem hvorki er mælt fyrir um í gildandi lögum né frumvarpinu, en hún skiptir þó ekki síður máli en þeir þættir ábyrgðar hans sem áður er getið.
    Mikilvægt er að hafa í huga að sjálfstæði dómenda snýr að meðferð og úrlausn máls, en það undanþiggur þá á hinn bóginn að engu leyti frá skyldu til að sinna störfum sínum og fara eftir fyrirmælum yfirboðara sinna um önnur atriði í starfi en áður getur. Til áréttingar á þessu er mælt sérstaklega fyrir um það í 2. mgr. að dómara beri að ljúka á eðlilegum tíma þeim málum, sem honum eru fengin til meðferðar, og rækja störf sín af alúð og samviskusemi. Jafnframt er kveðið á um skyldu dómara til að fara eftir boði forstöðumanns dómstóls um önnur atriði starfa sinna en meðferð og úrlausn máls, en þegar rætt er hér um boðvald forstöðumanns dómstóls er átt við boðvald forseta Hæstaréttar yfir hæstaréttardómurum og dómstjóra yfir héraðsdómurum. Þá er að auki tekið fram í niðurlagi 2. mgr. að héraðsdómurum sé skylt að hlíta lögmætum ákvörðunum dómstólaráðs. Með þessum fyrirmælum er einkum verið að leggja áherslu á að dómari verði að hlíta boðum yfirmanns dómstólsins sem hann starfar við, og eftir atvikum dómstólaráðs, en um skyldurnar, sem slík boð geta snúið að, er aðallega rætt í öðrum ákvæðum frumvarpsins, auk þess að þær geta leitt af almennum reglum um starfsmenn ríkisins og eðli máls. Vanræksla dómara um að verða við slíkum boðum gæti leitt til viðbragða eftir 28. og 29. gr. frumvarpsins.
    Í fyrri málslið 3. mgr. er kveðið á um skyldu dómara til að leitast við að halda við þekkingu sinni í lögum. Þetta er að sjálfsögðu brýnt viðfangsefni fyrir dómara, enda gætir þess í sívaxandi mæli að örar og miklar breytingar verði á ýmsum sviðum löggjafar. Á hinn bóginn er af augljósum ástæðum ekki reynt að mæla hér fyrir um hvernig sinna eigi þessari skyldu í einstökum atriðum eða hverju vanræksla í þeim efnum gæti varðað, en afleiðingar hennar gætu komið fram með ýmsu móti. Til að stuðla frekar að því að dómarar geti haldið þekkingu sinni við er tekið fram í síðari málslið 3. mgr. að þeim skuli eftir föngum gefinn kostur á leyfi og stuðningi til endurmenntunar. Ætlunin með þessum fyrirmælum er ekki síst að minna forstöðumenn dómstóla, dómstólaráð og þá sem hafa að öðru leyti með höndum ráðstöfun fjár til dómstóla, á að þetta sé sjálfgefinn þáttur í starfsemi dómstóla ef tryggja á að dómarar hafi nauðsynlega þekkingu til að leysa af hendi störf sín sem skyldi. Í ákvæðinu felst einnig hvatning til dómara til að afla og auka þekkingu sína með þeim úrræðum sem standa til boða.
    

    Um 25. gr.

    Í 25. gr. eru reglur varðandi launakjör og önnur skyld réttindi dómara. Um þessi atriði eru ekki sérstakar reglur í núgildandi lögum.
    Í 1. mgr. eru fyrirmæli um laun dómara fyrir embættisstörf þeirra. Er þar miðað við að launin verði ákveðin af Kjaradómi, svo sem nú leiðir af ákvæðum I. kafla laga nr. 120/1992. Ætlunin með ákvæðum 1. mgr. er fyrst og fremst að taka af tvímæli um hvað dómarar geti átt rétt til greiðslu fyrir í sambandi við rækslu embættisstarfa sinna. Eru þessi fyrirmæli þannig til fyllingar því, sem segir í síðari málslið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 120/1992 og er gengið út frá því að hér séu tæmandi taldir þeir liðir, sem sérstök greiðsla geti komið fyrir utan við föst laun og laun fyrir yfirvinnu. Ástæða er hins vegar til að benda sérstaklega á að með 1. mgr. 25. gr. er á engan hátt ætlast til að raskað verði rétti dómara til greiðslna fyrir aukastörf sem eru ekki þáttur í embættisstörfum þeirra. Í 1. mgr. 25. gr. eru talin upp í fjórum töluliðum þau atriði varðandi embættisstörf dómara sem þeim bæri sérstök greiðsla fyrir og áður er vikið að. Er þar í fyrsta lagi um að ræða útkallsvaktir og útköll utan reglulegs vinnutíma, en þessir þættir í störfum héraðsdómara tengjast að mestu veitingu heimilda handa lögreglunni til að beita úrræðum við rannsókn opinberra mála og úrlausn um kröfur um gæsluvarðhald. Er hér miðað við að Kjaradómur taki almenna ákvörðun um hvað greiða eigi fyrir vaktir og útköll af þessu tagi. Í öðru lagi er ráðgert að dómarar fái greiðslu vegna kostnaðar af nauðsynlegum ferðum í tengslum við störf sín, en slíkar ferðir geta meðal annars komið til vegna afleysinga fyrir dómara í leyfi, úthlutunar máls til héraðsdómara, sem ætti ekki fast sæti við dómstól þar sem það er rekið, og vettvangsgöngu til athugunar á staðháttum varðandi mál. Ætlast er til að greiðslur vegna ferðakostnaðar og eftir atvikum dagpeninga fari eftir almennum reglum um starfsmenn ríkisins. Í þriðja lagi er lagt til að héraðsdómarar fái greidda staðaruppbót vegna tímabundinna starfa við annan dómstól en þann, þar sem þeir eiga fast sæti, ef þeir geta ekki sótt þangað vinnu með góðu móti með daglegum ferðum frá heimilum sínum. Með þessu er ráðgert að dómarar fái ekki aðeins greiddan kostnað af ferðum og dvöl utan heimilis síns, heldur einnig að þeim verði ákveðið sérstakt álag vegna óþæginda og röskunar, sem mundu fylgja þessari starfsskyldu. Kæmi í hlut Kjaradóms að setja almennar reglur um fjárhæð greiðslna af þessu tagi. Loks er í fjórða lagi gerð tillaga um að héraðsdómarar fái sérstaklega greiddan kostnað af búferlaflutningum í tengslum við tilfærslu á milli starfa samkvæmt ákvörðun dómstólaráðs, en réttur til slíkrar greiðslu væri þó háður því að ekki væri unnt með góðu móti að sækja vinnu á nýjum stað án slíkra flutninga. Greiðsla í þessum tilvikum kæmi fyrir beinan útlagðan kostnað og yrðu því ekki settar frekari reglur um umfang hennar. Að öðru leyti er rétt að benda á að umrædd ákvæði í 1.–4. tölul. 1. mgr. 25. gr. eru bundin við héraðsdómara að frátöldum 2. tölul., sem varðar kostnað af ferðum í tengslum við embættisstörf dómara. Þetta stafar af þeirri augljósu ástæðu að hæstaréttardómarar standa hvorki útkallsvaktir né verða þeir fluttir til í störfum á milli dómstóla, svo sem sérstakar greiðslur eru ráðgerðar fyrir með 1., 3. og 4. tölul. ákvæðisins.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að dómstólaráð taki ákvarðanir um greiðslur til héraðsdómara samkvæmt einstökum töluliðum 1. mgr., en forseti Hæstaréttar taki hins vegar ákvarðanir um greiðslur til hæstaréttardómara samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. Lagt er til að nefnd um dómarastörf fái það hlutverk að leysa úr ágreiningi, sem kynni að rísa á milli dómara annars vegar og dómstólaráðs eða forseta Hæstaréttar hins vegar um rétt dómarans til aukagreiðslu samkvæmt þessum fyrirmælum. Er þá haft í huga að vafaatriði gætu til dæmis komið upp um hvort skilyrðum væri fullnægt fyrir aukagreiðslu í einstökum tilvikum eða hvert umfang hennar ætti að verða. Með því að nefndinni yrði falið þetta verkefni kæmi ekki í hlut Kjaradóms að taka afstöðu til atriða af þessum meiði, svo sem annars kynni að hafa komið til greina vegna ákvæða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 120/1992.
    Samkvæmt 3. mgr. er ætlast til að almennar reglur um starfsmenn ríkisins gildi eftir því sem á við um rétt dómara til orlofs, réttindi þeirra vegna veikindaforfalla, lífeyrisréttindi og önnur áþekk atriði, ef ákvæði frumvarpsins leiða ekki til annarrar niðurstöðu. Með þessum fyrirmælum er eingöngu leitast við að taka af tvímæli um hvaða reglur ráði umræddum réttindum dómara, en ekki verður séð að þetta ákvæði þarfnist frekari skýringa.

    Um 26. gr.

    Í þessari grein eru gerðar tillögur um nýmæli varðandi heimildir dómara til að taka að sér aukastörf og eiga hlut í félögum eða atvinnufyrirtækjum, þar á meðal um hvernig leyst verði úr um þær heimildir, svo og að þetta megi banna dómara með bindandi hætti. Með ákvæðum frumvarpsins er stefnt að því að bæta úr þörf á reglum um þessi efni, enda er ekkert mælt fyrir um þau í núgildandi lögum.
    Í 1. mgr. kemur fram að dómara sé óheimilt að taka að sér aukastörf eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki ef slíkt fær ekki samrýmst stöðu hans eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstörfum sínum sem skyldi. Þetta er í raun aðeins almenn leiðbeiningarregla um meginatriðin sem dómari verður annars vegar sjálfur að gæta að í þessum efnum og nefnd um dómarastörf verður hins vegar að taka mið af við gerð nánari reglna um þessi efni og úrlausn um heimildir dómara í einstökum tilvikum, svo sem nánar ræðir um í 2.–4. mgr.
    Í upphafi 2. mgr. er lagt til að nefnd um dómarastörf setji almennar reglur um hvers konar aukastörf geti samrýmst embættisstörfum dómara. Er þar miðað við að nefndin geri eins konar skrá um störf sem nefndin telur ekki tormerki á að dómari sinni meðfram aðalstarfi og eftir atvikum störf sem hún telur ósamrýmanleg dómaraembætti. Slíkar almennar reglur yrðu til þess að dómurum gæfist kostur á að gera sér strax ljóst hvort aukastarf, sem leitað væri til þeirra um, gæti komið til álita vegna aðalstarfa þeirra. Reglunum er að auki ætlað að leiða til hagræðingar í störfum nefndarinnar, því samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. þyrfti dómari ekki að leita sérstakrar heimildar hennar hverju sinni til að mega taka við aukastarfi, sem heimild stæði til í reglunum, heldur mundi nægja að hann tilkynnti nefndinni um starfið áður en hann tæki við því. Með þessu fengi nefndin vitneskju um væntanlegt aukastarf og gæti þá eftir atvikum gripið strax í taumana ef hún teldi dómara hafa mistúlkað reglur hennar. Í lokamálslið 2. mgr. er á hinn bóginn ráðgert að dómari leiti alltaf fyrir fram eftir sérstakri heimild nefndarinnar til að taka við aukastarfi, sem afstaða væri ekki tekin til í almennum reglum hennar. Væri dómaranum þá óheimilt að taka við starfinu fyrr en hann fengi leyfi nefndarinnar til þess.
    Í 3. mgr. er lagt til að nefnd um dómarastörf setji almennar reglur um heimildir dómara til að eiga hlut í félögum og atvinnufyrirtækjum. Miðað er við að dómari þurfi ekki að leita sérstaks leyfis nefndarinnar til að eignast slíkan hlut ef heimild stendur til þess í almennum reglum hennar, heldur nægi að hann tilkynni henni um það. Skorti hins vegar slíka heimild í reglunum yrði dómari fyrir fram að leita leyfis nefndarinnar til að eignast hlutinn. Þessar reglur eru í öllum atriðum sams konar og fyrirmæli 2. mgr., sem lýst er nánar hér að framan, og á því sú lýsing hér einnig við.
    Samkvæmt upphafsmálslið 4. mgr. gæti nefnd um dómarastörf með rökstuddri ákvörðun meinað dómara að gegna aukastarfi eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Er hér miðað við að nefndin geti tekið slíka ákvörðun hvort sem er til að svara sérstakri umsókn dómara um leyfi í þessum efnum, sbr. 3. málsl. 2. mgr. og 3. málsl. 3. mgr., eða í kjölfar tilkynningar dómara samkvæmt 2. málsl. beggja málsgreina. Tekið er fram í 4. mgr. að dómara beri að hlíta banni nefndarinnar í þessum efnum, en honum sé þó heimilt að leita úrlausnar dómstóla um lögmæti þess. Dómara væri því skylt að laga sig að ákvörðun nefndarinnar að því viðlögðu að gripið yrði til agaráðstafana í hans garð, sbr. síðari málslið 2. mgr. 28. gr. Mundi engu breyta í því sambandi hvort dómarinn hygðist höfða mál til að fá banni nefndarinnar hnekkt eða léti verða af því, svo lengi sem dómsniðurstaða væri ekki gengin honum í hag, en slík málshöfðun færi eftir almennum reglum.
    Vekja verður athygli á því að sérstakar reglur eru lagðar til í bráðabirgðaákvæði í 40. gr. um hvernig fari um aukastörf, sem dómarar hafa þegar með höndum, ef frumvarpið verður að lögum, svo og um eignarhluta að félögum og atvinnufyrirtækjum sem þeir kynnu að eiga við gildistöku laganna. Er þar miðað við að dómarar verði að leita heimildar nefndar um dómarastörf til að halda áfram aukastörfum eða eiga áfram hlut í félögum eða fyrirtækjum og eru þeim veittir þar sérstakir frestir til að laga sig að niðurstöðum nefndarinnar ef synjað yrði um heimild.
    

    Um 27. gr.

    Í 27. gr. eru nýmæli um heimild þess, sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í starfi til að koma fram kvörtun af því tilefni, en nefnd um dómarastörf er ætlað að taka við slíkum kvörtunum og leysa úr þeim. Reglur í líkingu við þessar eru ekki nú til í lögum, en í almennum athugasemdum hér að framan er gerð grein fyrir þeim úrræðum sem kostur er á eftir gildandi lögum af tilefni sem þessu, svo og þeim röksemdunum sem búa að baki þessu ákvæði frumvarpsins. Um þau atriði skal því vísað til þess sem þar kemur fram.
    Í upphafi 1. mgr. er mælt fyrir um rétt til að koma fram kvörtun. Þessi réttur er þar veittur hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í starfi. Kvörtunarheimildin væri samkvæmt þessu einkum í höndum aðila að dómsmáli sem viðkomandi dómari færi með, en einnig gæti fyrirsvarsmaður málsaðila eða lögmaður hans notið þessarar heimildar, svo og vitni eða matsmaður sem kæmi við sögu máls, eða annar sem ákvörðun dómara við rekstur máls gæti varðað. Ekki verður útilokað að enn aðrir gætu sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kvörtun á hendur dómara vegna framferðis hans í tengslum við dómsmál. Samkvæmt ákvæðinu yrði réttur til kvörtunar háður því að störf dómara hafi með einhverjum hætti bitnað á þeim sem bæri hana fram, enda er áskilið að dómari hafi gert á hlut viðkomanda með störfum sínum. Að fullnægðum þessum skilyrðum mætti viðkomandi beina kvörtun til nefndar um dómarastörf, en samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. yrði hann að greina þar frá atvikum og röksemdum fyrir því að brotið hafi verið á rétt hans. Vegna þessa áskilnaðar um efni kvörtunarinnar er ljóst að hún yrði að vera skrifleg og leiðir af sjálfu sér að nauðsynleg gögn verði að fylgja henni. Að öðru leyti varða ákvæði 1. mgr. meðferð nefndarinnar á kvörtun á fyrstu stigum. Þar er ráðgert að nefndin geti þegar í stað vísað kvörtun frá sér ef hún telur sýnt að kvörtunin gefi ekki tilefni til frekari aðgerða, en annars bæri nefndinni að gefa hlutaðeigandi dómara og forstöðumanni dómstóls kost á að skila skriflegum athugasemdun innan tiltekins frests. Sérstaklega er tekið fram að nefndin megi taka í einu lagi til meðferðar tvær eða fleiri kvartanir sem beinast að sama dómara. Er þar ekki áskilið að kvartanirnar séu bornar fram af þeim sama, í tengslum við sama dómsmál eða vegna sambærilegrar háttsemi dómarans. Hefði því nefndin frjálsar hendur til ákvörðunar um að sameina meðferð tveggja eða fleiri kvartana í garð sama dómara. Um meðferð kvörtunar fyrir nefndinni mundu að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Í 2. mgr. eru fyrirmæli um afgreiðslu kvörtunar sem metin hefur verið tæk til meðferðar, en með því er átt við kvörtun sem nefnd um dómarastörf hefur ekki vísað frá sér þegar á fyrstu stigum samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. Samkvæmt fyrri málsl. 2. mgr. verður að leysa úr öllum tækum kvörtunum með skriflegu og rökstuddu áliti, en í því sambandi gildir þá einu hvort kvörtun verði hafnað eða hún þyki gefa tilefni til aðgerða. Í síðari málsl. 2. mgr. er ráðgert að nefndin geti brugðist þannig við kvörtun sem þykir gefa tilefni til aðgerða að hún annaðhvort finni að störfum dómarans sem á í hlut eða veiti honum áminningu eftir því sem nánar er lýst í 28. gr. Aðfinnslur af því tagi, sem hér um ræðir, hefðu almennt ekki sérstakar afleiðingar í för með sér fyrir dómara nema hvað varðar starfsheiður hans, en við ítrekun á sams konar háttsemi gætu undanfarandi aðfinnslur þó leitt til þess að áminningu yrði beitt. Að öðru leyti er ástæða til að benda á að í 27. gr. er ekki mælt sérstaklega fyrir um heimild til að bera undir dómstóla niðurstöðu nefndarinnar um kvörtun sem leiðir ekki til áminningar, en ætla verður að hvort heldur sá sem bar kvörtun fram eða dómarinn, sem hún beindist að, gæti reynt á lögmæti úrlausnar nefndarinnar með málshöfðun eftir almennum reglum.

    Um 28. gr.

    Í þessari grein eru fyrirmæli um áminngu til dómara vegna háttsemi hans eða vanrækslu í starfi eða aðfinnsluvert framferði hans utan starfs, svo og um tilmæli forstöðumanns dómstóls til dómara af sömu ástæðum ef ekki þykja nægileg efni til áminningar. Ákvæði um áminningar til dómara eru nú í 1. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989, sem gilda þó eftir orðanna hljóðan eingöngu um héraðsdómara. Með 28. gr. frumvarpsins eru lagðar til reglur sem eiga að taka til allra dómara og eru að auki talsvert ítarlegri en þær sem nú gilda.
    Í 28. gr. er gerður greinarmunur á því hvort ávirðingar í garð dómara séu þess eðlis að hæfilegt sé að forstöðumaður dómstóls beini tilmælum til hans um að bæta ráð sitt, sbr. 1. mgr., eða hvort þær séu þeim mun alvarlegri og ástæða geti verið til áminningar, sem fjallað er um í 2.–6. mgr. Munurinn á tilefnum fyrir þessum tvenns konar viðbrögðum við ávirðingum er ekki afmarkaður nákvæmlega, heldur er gengið út frá því í 1. og 2. mgr. að forstöðumaður dómstóls verði að meta hverju sinni hvort hann láti við tilmæli sitja eða beini málefninu til nefndar um dómarastörf með það fyrir augum að tekin verði afstaða til þess hvort áminningu skuli beitt, en valdið til að beita áminningu er lagt í hendur nefndarinnar með ákvæðum 28. gr. Forstöðumaðurinn hefði þó alls ekki endanlegt vald til að leggja mat á þetta, því ráðgert er í 3. mgr. að dómsmálaráðherra geti beint máli til nefndar um dómarastörf vegna ávirðingar dómara og eins að nefndin sjálf geti tekið mál upp að eigin frumkvæði. Í þeim tilvikum mætti einu gilda hvort forstöðumaður dómstólsins hafi talið tilmæli nægjanleg vegna ávirðinga dómara og hafi þannig ekki hlutast til um að málið kæmi til kasta nefndarinnar. Þá gæti meðferð kvörtunar í garð dómara samkvæmt 27. gr. leitt til þess að honum yrði gerð áminning, svo sem ráðgert er í niðurlagi 2. mgr. þeirrar greinar, en ákvæði 28. gr. mundu gilda um veitingu áminningar í slíku tilviki. Er þannig miðað við að ávirðingar í garð dómara geti komið til kasta nefndar um dómarastörf á fjóra vegu, með því að forstöðumaður dómstóls beini þangað slíku máli eða dómsmálaráðherra, kvörtun berist nefndinni eftir fyrirmælum 27. gr. eða nefndin taki ávirðingarnar til umfjöllunar af sjálfsdáðum.
    Með frumvarpinu er lagt til að forstöðumaður dómstóls hafi sem áður segir með höndum vald til að bregðast við ávirðingum dómara með því að beina tilmælum til hans um að bæta ráð sitt, en nefnd um dómarastörf fjalli um alvarlegri ávirðingar og taki þá afstöðu til þess hvort bregðast eigi við þeim með áminningu. Í núgildandi lögum eru ekki fyrirmæli um tilmæli af því tagi sem hér um ræðir, en telja má að forstöðumaður dómstóls hafi allt að einu almenna heimild til að beita slíku úrræði í skjóli stöðu sinnar. Eftir gildandi lögum er valdið til að áminna dómara í höndum dómstjóra ef héraðsdómari á í hlut, en í höndum forseta Hæstaréttar ef beina á áminningu að dómstjóra, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989. Lítið hefur reynt á þessar reglur í framkvæmd, en að því leyti sem til þess hefur komið virðast þær ekki hafa reynst sem skyldi. Kemur þar meðal annars til að forstöðumanni dómstóls er vandi á höndum að beita sjálfur svo alvarlegu úrræði sem áminningu við samstarfsmann sinn, sem eftir atvikum hefur meðal annarra dómara við viðkomandi dómstól átt þátt í kjöri forstöðumannsins í þá stöðu. Þá er í reynd nánast útilokað að sjá hvernig það gæti komið til að forseti Hæstaréttar færi að beina áminningu til forstöðumanns héraðsdómstóls, enda gegnir sá fyrrnefndi engu eftirlitshlutverki með störfum dómenda við aðra dómstóla. Meðal annars í þessu ljósi þykir nauðsynlegt að breyta þessari skipan verulega, svo sem lagt er til í frumvarpinu.
    Í 1. mgr. 28. gr. er sem áður segir lýst þeim ávirðingum dómara sem ráðgert er að geti orðið tilefni til þess að forstöðumaður beini tilmælum til hans. Er miðað við að til þessa geti komið ef háttsemi eða vanræksla dómara í starfi eða framferði hans utan starfsins sé aðfinnsluvert, án þess þó að nægilegt tilefni þyki til áminningar. Hér er því ráðgert með sama hætti og í núgildandi ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989 að það sé ekki aðeins framkoma, athafnir eða vanræksla dómara í starfi sem geti orðið tilefni til agavirðurlaga, heldur einnig framferði hans utan starfsins sem verði talið ósamrýmanlegt dómaraembætti. Benda má á að síðastgreint atriði skarast að nokkru leyti við almenna skilyrðið fyrir veitingu dómaraembættis í 5. tölul. 2. mgr. 4. gr. og 5. tölul. 2. mgr. 12. gr., þar sem áskilið er að dómaraefni megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verði almennt að njóta. Starfandi dómari, sem sýndi af sér slíka háttsemi, mundi missa almenn dómaraskilyrði og væri unnt að víkja honum úr embætti eftir ákvæðum 29. gr. Af þessu má draga þá ályktun að það framferði dómara utan starfs síns, sem átt er við í 1. mgr. 28. gr., sé ekki á svo alvarlegu stigi að umrædd viðbrögð eftir 29. gr. séu við hæfi. Eins og greinir hér áður er miðað við það í 1. mgr. 28. gr. að forstöðumaður dómstóls beini tilmælum til dómara ef háttsemi hans, vanræksla eða framferði þykir ekki gefa næga ástæðu til áminningar. Er því augljóst að tilmælin yrðu vægasta agaúrræðið sem beitt yrði við umræddar aðstæður, og yrði forstöðumaðurinn að meta hvort þetta úrræði hæfði tilefninu. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. gætu tilmælin verið hvort sem er munnleg eða skrifleg, en í ljósi þess að ef árangur yrði ekki af tilmælunum kæmi samkvæmt 2. mgr. til áminningar gagnvart dómara má ætla að betur væri við hæfi að öðru jöfnu að tilmælin yrðu skrifleg, svo tilvist þeirra og efni væri sannanlegt. Í lokaorðum 1. mgr. kemur fram að tilmælin eigi að vera um úrbætur á þeim atriðum sem hafa leitt til ávirðinga. Með þessu er ekki ætlast til að forstöðumaður dómstóls þurfi að tiltaka hvers konar úrbóta sé þörf, heldur aðeins að fram komi hvað hafi gefið tilefni til ávirðinga og að úr því verði að bæta.
    Í 2. mgr. 28. gr. er gert ráð fyrir því að forstöðumanni dómstóls sé skylt í ferns konar tilvikum að beina máli vegna ávirðinga á hendur dómara við dómstólinn til nefndar um dómarastörf. Í fyrsta lagi kæmi til þess ef tilmæli samkvæmt 1. mgr. bæru ekki árangur, en í þeim efnum færi hverju sinni eftir atvikum hvernig komist yrði að niðurstöðu um að tilmælin kæmu ekki að haldi. Í öðru lagi yrði forstöðumaðurinn að fara þessa leið ef hann teldi ávirðingar dómarans alvarlegri en svo að það ætti við að beita tilmælum samkvæmt 1. mgr. Áður hefur verið vikið hér að því að forstöðumaðurinn yrði að meta í hverju tilviki hvort hann ætti að beita tilmælum eða beina málinu til nefndar um dómarastörf, en að auki gæti verið álitamál hvort ávirðingarnar væru enn alvarlegri og gæfu tilefni til að telja viðkomandi dómara hafa misst almenn dómaraskilyrði. Ef svo væri gæti verið tilefni til að víkja dómara úr embætti eftir reglum 29. gr., en af þeim sökum væri forstöðumanni dómstóls rétt að greina dómsmálaráðherra frá ávirðingum sem gæfu tilefni til vafa í þessum efnum, enda væri í höndum ráðherra að kanna frekar skilyrði fyrir frávikningu samkvæmt síðastnefndri grein. Í þriðja lagi er ráðgert að forstöðumaður beini máli til nefndar um dómarastörf ef honum yrði kunnugt um að dómari hlíti ekki ákvörðun dómstólaráðs. Í þessu sambandi skal bent á að dómstólaráði er ekki ætlað að geta beint máli af þessu tilefni til nefndar um dómarastörf, en það breytir ekki því að dómstólaráð gæti veitt nefndinni upplýsingar um atvik sem þessi með það fyrir augum að hún tæki málið upp að eigin frumkvæði. Í fjórða lagi yrði forstöðumaður dómstóls að beina máli til nefndarinnar ef hann yrði þess var að dómari sinni aukastarfi eða eigi hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki í trássi við bann nefndarinnar samkvæmt 4. mgr. 26. gr., en að þessu mundi nefndin væntanlega einnig gæta og taka upp málið af sjálfsdáðum ef tilefni sem þetta gæfist til. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. yrði ætlast til þess að forstöðumaður dómstóls beindi máli til nefndar um dómarastörf með skriflegu og rökstuddu erindi. Á hinn bóginn er ekki ráðgert að forstöðumaðurinn hafi uppi kröfu um málalok fyrir nefndinni eða láti á annan hátt í ljós hvernig hann telji hæfa að brugðist verði við ávirðingum hlutaðeigandi dómara.
    Í 3. mgr. er lagt til að dómsmálaráðherra geti beint máli til nefndar um dómarastörf með sama hætti og forstöðumaður dómstóls mundi gera samkvæmt 2. mgr. Með þessu er átt við það að ráðherra gæti beint máli til nefndarinnar af sömu ástæðum og rætt er um í 2. mgr., en þetta gæti komið til ef til dæmis ráðherra teldi forstöðumanninn láta ranglega hjá líða að eiga frumkvæði að málinu eða forstöðumaðurinn leitaði gagngert til ráðherra um að gera þetta. Þá er jafnframt ráðgert í 3. mgr. að nefndin geti tekið upp mál af þessu tilefni að eigin frumkvæði, en um það hefur þegar verið fjallað hér að framan.
    Í 4. mgr. eru reglur um meðferð máls af þessu tilefni fyrir nefnd um dómarastörf. Samkvæmt ákvæðinu bæri nefndinni að gefa hlutaðeigandi dómara kost á að taka til andsvara í skriflegri greinargerð, en að auki er nefndinni ætlað að afla allra nauðsynlegra gagna af sjálfsdáðum. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að málsmeðferðin sjálf færi eftir almennum reglum í stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
    Samkvæmt 5. mgr. er ætlast til að nefnd um dómarastörf ljúki máli sem þessu með skriflegri og rökstuddri ákvörðun, hvort sem komist væri að þeirri niðurstöðu að veita eigi áminningu eða ekki. Áminningin sem slík fælist í ákvörðun nefndarinnar ef niðurstaðan yrði á þann veg að efni væru til að veita hana. Í ákvæðinu er mælt fyrir um skyldu nefndarinnar til að birta dómaranum ákvörðunina ef áminning er þar veitt, en þetta gæti nefndin gert sjálf með því að kveðja dómarann á sinn fund eða látið birta hana fyrir dómaranum með sannanlegum hætti eftir almennum reglum. Þá er nefndinni jafnframt ætlað að senda ákvörðunina til forstöðumanns viðkomandi dómstóls og dómsmálaráðherra, svo og dómstólaráðs ef um héraðsdómara er að ræða, sé þar komist að þeirri niðurstöðu að áminning skuli veitt.
    Í 6. mgr. er lagt til að dómari, sem fengið hefur áminningu og vill ekki una við hana, eigi kost á að reyna að fá henni hnekkt með því að höfða mál í því skyni eftir almennum reglum gegn dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisins. Þessi heimild verður að teljast eðlileg þegar litið er til þess að áminning getur haft alvarlegar afleiðingar sem undanfari að brottvikningu dómara samkvæmt fyrirmælum 29. gr., auk þess að áminning er fallin til að varpa rýrð á mannorð hans. Samkvæmt niðurlagi 6. mgr. hefði dómari þó skamman frest til að höfða mál af þessu tilefni, því það yrði að gerast innan mánaðar frá því að áminning væri birt honum. Þessi skammi frestur þykir nauðsynlegur með hliðsjón af því að óvissa um gildi áminningar til frambúðar gæti orðið til vandkvæða í sambandi við áframhaldandi beitingu agaviðurlaga gagnvart dómaranum, ef tilefni gæfist til þeirra.
    

    Um 29. gr.

    Í 29. gr. eru ákvæði um hvenær og hvernig dómara verði veitt lausn frá embætti um stundarsakir vegna ávirðinga á hendur honum, hversu lengi slík lausn geti staðið og hvernig fari um rétt dómarans til launa á meðan lausnin stendur, en í 30. gr. er síðan fyrirmæli um hvernig slíkri lausn verði fylgt eftir með málshöfðun ríkisins á hendur dómaranum til að víkja honum til fullnaðar úr embætti. Ákvæði þessara tveggja greina eru í mörgum atriðum samsvarandi reglum í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989, svo langt sem þær ná, en eru mun ítarlegri að ýmsu leyti.
    Í 1. mgr. 29. gr. er mælt fyrir um ástæður þess að veita megi dómara lausn um stundarsakir. Þetta gæti í fyrsta lagi gerst ef dómari hefur sætt áminningu samkvæmt 28. gr., en ekki lagað sig að henni innan hæfilegs tíma. Þegar rætt er hér um að dómari lagi sig að áminningu er að sjálfsögðu átt við það að hann ráði bót á þeirri vanrækslu í starfi eða því framferði í starfi eða utan þess sem gaf tilefni til áminningarinnar. Væri háð atvikum hverju sinni hvort þessi aðlögun ætti sér stað með beinum aðgerðum, svo sem ef ráðin væri bót á vanrækslu í starfi með því að sinna því af festu, eða með athafnaleysi, til dæmis ef dómari léti af háttsemi utan starfs síns, sem hefur þótt ósýmanleg embætti hans. Einmitt af þessum ástæðum verður að telja óhjákvæmilegt að reglan verði á þann veg að dómari hafi hæfilegan tíma til að laga sig að áminningu, enda gæti verið mjög ólíkt hversu langan tíma þyrfti til í þessu skyni eftir því hvert tilefni áminningarinnar hefur verið. Í öðru lagi er ráðgert að dómara verði veitt lausn um stundarsakir ef hann hefur þegar sætt áminningu og gerist aftur innan þriggja ára sekur um ávirðingar, sem gefa tilefni til nýrrar áminningar. Í sambandi við þetta ber að vekja athygli á því að ekki er hér áskilið að nýjar ávirðingar dómarans séu sama eðlis og þær sem leiddu áður til áminningar. Þá er heldur ekki áskilið að dómaranum sé veitt áminning öðru sinni, heldur mundi hér nægja að tilefni samkvæmt 28. gr. væri komið upp til nýrrar áminningar, sem þyrfti þá ekki að afla sérstaklega. Jafnframt er ástæða til að benda hér á að þriggja ára fresturinn, sem miðað er við í þessu sambandi, mundi teljast frá þeim tíma sem fyrri áminning var veitt, en atvikin, sem gætu leitt til nýrrar áminningar, yrðu að koma fram innan frestsins og þeim yrði að fylgja eftir án ástæðulausrar tafar með veitingu lausnar um stundarsakir. Í þriðja lagi er miðað við að dómara verði veitt slík lausn ef hann missir almenn skilyrði samkvæmt 2. mgr. 4. gr. eða 2. mgr. 12. gr. til að gegna dómaraembætti, en lausn yrði þá veitt án undangenginnar áminningar. Tilefnin, sem gætu gefist samkvæmt þessu til lausnar, eru augljós ef almennu dómaraskilyrðin í tilvitnuðum ákvæðum eru skoðuð með tilliti til þessa, svo sem að dómari missi nauðsynlegt andlegt eða líkamlegt heilbrigði, bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta eða hann er sviptur lögræði. Sérstök ástæða er til að benda á að tilefni gæfist einnig til lausnar um stundarsakir á þessum grundvelli ef dómari sýndi af sér háttsemi sem gæti rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 4. gr. og 5. tölul. 2. mgr. 12. gr., en af þessum sökum er óþarft að hafa í frumvarpinu sérákvæði, eins og nú er í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989, um að dómara verði veitt lausn um stundarsakir ef hann rýrir svo álit sitt siðferðislega að hann megi ekki lengur gegna embætti sínu. Loks er í fjórða lagi ráðgert að dómara verði veitt lausn um stundarsakir ef opinber rannsókn beinist að honum eða opinbert mál er höfðað gegn honum og áfellisdómur um sakirnar, sem hann er borinn, yrði til þess að hann missti almenn dómaraskilyrði. Hæfisskilyrðin, sem þar eru höfð í huga, eru í 5. tölul. 2. mgr. 4. gr. og 5. tölul. 2. mgr. 12. gr., þar sem áskilið er að umsækjandi um dómaraembætti megi hvorki hafa gerst sekur um refsivert athæfi sem megi telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verði almennt að njóta. Þessi fyrirmæli í 1. mgr. 29. gr. eru byggð á því sjónarmiði að óviðunandi sé að dómari sitji í embætti á meðan opinber rannsókn beinist að honum vegna gruns um brot, sem einhverju varðar, eða opinbert mál er rekið gegn honum til að koma fram refsingu vegna slíks brots.
    Í fyrri málslið 2. mgr. er þess getið hver veiti dómara lausn um stundarsakir að fullnægðum skilyrðum 1. mgr., en annars vegar væri það forseti Íslands ef hæstaréttardómari ætti í hlut og hins vegar dómsmálaráðherra ef um héraðsdómara væri að ræða. Um þetta eru ekki bein fyrirmæli varðandi dómara í núgildandi lögum, en niðurstaðan yrði þó allt að einu sú sama og hér um ræðir á grundvelli almennra reglna. Í síðari málslið 2. mgr. er tekið fram að dómsmálaráðherra sé skylt að afla skriflegrar umsagnar frá nefnd um dómarastörf áður en lausn verður veitt um stundarsakir. Slíka umsögn, sem mundi að sjálfsögðu snúast um það hvort tilefni væri til að veita dómara lausn um stundarsakir, yrði nefndin að gera á skömmum tíma og er því ekki ráðgert að hún leiti sérstaklega eftir afstöðu dómarans sem ætti í hlut, eða afli sjálf gagna, heldur yrði hún að öðru jöfnu að miða umsögn sína við það, sem lagt væri fyrir hana þegar leitað væri umsagnarinnar. Umsögn nefndarinnar yrði ekki bindandi fyrir ráðherra, enda bæri hann vitanlega sjálfur ábyrgð á gerðum sínum í þessum efnum. Þessi ákvæði 2. málsl. 2. mgr. eiga sér enga hliðstæðu í núgildandi lögum.
    Í 3. mgr. eru fyrirmæli um hvernig dómsmálaráðherra verði að fylgja því eftir að dómara hafi verið veitt lausn um stundarsakir, en greinarmunur er hér gerður á tilvikum eftir því hvert tilefni lausnarinnar hafi verið. Ef dómara hefur verið veitt lausn um stundarsakir að undangenginni áminningu eða vegna þess að hann hefur misst almenn dómaraskilyrði, sbr. 1. og 2. málsl. 1. mgr., ber ráðherra að höfða mál á hendur honum til embættismissis innan tveggja mánaða frá því lausn var veitt, en að öðrum kosti fellur lausnin sjálfkrafa niður og getur þá dómarinn tekið aftur við embætti sínu. Sérstakt ákvæði er í 2. málsl. 3. mgr. um hvað gerist ef mál af þessu tagi hefur verið höfðað, en því er síðan vísað frá dómi eða það er fellt niður. Yrði þá að höfða nýtt mál á hendur hlutaðeigandi dómara til embættismissis innan tveggja vikna frá lokum fyrra málsins, að því viðlögðu að lausnin um stundarsakir félli niður að þeim tíma liðnum, en til þessa úrræðis vegna ónýtingar fyrra máls yrði ekki gripið oftar en einu sinni. Hafi mál verið höfðað innan umrædds frests og því væri réttilega fram haldið mundi lausnin um stundarsakir standa sjálfkrafa á meðan á rekstri þess stæði, sbr. nánar í 2. mgr. 30. gr. Ef dómara hefur verið veitt lausn um stundarsakir vegna opinberrar rannsóknar eða opinbers máls, sem beinist gegn honum, sbr. 3. málsl. 1. mgr., er ráðgert í 3. málsl. 3. mgr. að lausnin standi um tiltekinn tíma og málshöfðun komi ekki til beinlínis í tilefni af henni. Í þessu sambandi verður þó að gera greinarmun á tveimur flokkum tilvika. Annars vegar er miðað við að lausn um stundarsakir falli sjálfkrafa niður og dómarinn geti tekið þegar í stað við embætti sínu á ný ef ákveðið er við lok opinberrar rannsóknar að hann verði ekki sóttur til sakar, lausn hefur staðið í sex mánuði án þess að ákæra hafi verið gefin út á hendur honum eða endanlegur dómur gengur í opinberu máli um sýknu hans. Í sambandi við þessi tilvik verður að benda á að þótt dómari gæti samkvæmt þessu tekið við embætti sínu á ný er ekki sjálfgefið að hann gæti gegnt því til frambúðar því hann kynni allt að einu að vera talinn hafa sýnt af sér háttsemi sem rýri það traust sem dómarar verði almennt að njóta þannig að hann hafi misst almenn dómaraskilyrði. Þetta gæti hugsanlega átt við ef til dæmis opinber rannsókn hefur beinst að dómara vegna alvarlegs brots, sem hann hefur gengist við, en fallið hefur verið frá ákæru á hendur honum vegna fyrningar sakar. Undir kringumstæðum sem þessum gæti komið til álita að víkja dómaranum frá embætti um stundarsakir öðru sinni og þá á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 29. gr., en þeirri lausn yrði að fylgja eftir með málshöfðun eins og að framan greinir. Hins vegar er miðað við það í niðurlagi 3. mgr. að lausn um stundarsakir falli niður þegar tvær vikur eru liðnar frá því að endanlegur dómur hefur gengið um sakfellingu dómara í opinberu máli. Um framhald máls undir þessum kringumstæðum er ekki mælt frekar í ákvæðinu, en gert er ráð fyrir því að á þeim tveimur vikum, sem líða frá sakfellingu dómara, verði dómsmálaráðherra að taka afstöðu til þess hvort dómarinn hafi misst almenn dómaraskilyrði vegna þessara atvika. Ef ráðherra teldi svo vera yrði hann að hlutast til um að dómaranum yrði áfram veitt lausn um stundarsakir og þá á grundvelli 2. málsl. 1. mgr., en í kjölfarið yrði að höfða mál á hendur honum til embættismissis með þeim hætti, sem áður greinir. Ef á hinn bóginn ekkert yrði að gert innan umrædds tveggja vikna frests tæki dómarinn á ný við embætti sínu, þrátt fyrir sakfellingu í opinberu máli. Af þessu má sjá að ætlast er til að lausn um stundarsakir vegna þeirra atvika, sem greinir í 3. málsl. 1. mgr., verði aðeins eins konar bráðabirgðaráðstöfun, en ekki beinn aðdragandi að málshöfðun á hendur dómara til embættismissis. Að endingu má vekja hér athygli á því að í niðurlagi 3. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989 er mælt fyrir um að dómsmálaráðherra geti veitt dómara lausn um stundarsakir vegna tiltekinna ávirðinga og verði síðan að höfða mál á hendur dómaranum til embættismissis svo fljótt sem verða má. Ákvæði 3. mgr. 29. gr. frumvarpsins eru þannig reist á sama grunni og núgildandi reglur, en svo sem sjá má eru þau talsvert ítarlegri.
    Í 4. mgr. 29. gr. er tekið fram að dómari haldi fullum embættislaunum meðan á lausn um stundarsakir stendur. Í núverandi framkvæmd hefur því verið slegið föstu að sama regla gildi þótt sérregla hafi ekki verið lögfest um þetta atriði varðandi dómara.
    

    Um 30. gr.

    Í 30. gr. eru fyrirmæli um málshöfðun á hendur dómara til embættismissis í kjölfar lausnar um stundarsakir, en með sama hætti og í núgildandi reglu 3. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989 er að sjálfsögðu miðað hér við að dómara verði ekki vikið úr embætti nema með dómi, svo sem mælt er fyrir um í 61. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í upphafi 1. mgr. segir að þegar dómara hefur verið veitt lausn um stundarsakir höfði dómsmálaráðherra mál á hendur honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með kröfu um að honum verði vikið úr embætti með dómi. Varðandi þessi fyrirmæli skal bent á að gengið er út frá því að lausn um stundarsakir þurfi alltaf að vera undanfari málshöfðunar til embættismissis, enda má telja óviðeigandi að dómari, sem slíku máli væri beint að, sæti að störfum meðan á rekstri þess stæði. Þá má einnig vekja athygli á því að í þessu ákvæði eru nýmæli í samanburði við núgildandi reglur í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989 að því leyti að lagt er til að mál sem þetta verði alltaf rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Varðandi rekstur málsins að öðru leyti er tekið fram í 2. málsl. 1. mgr. að almennar reglur um meðferð einkamála gildi í þeim efnum, að tveimur atriðum undanskildum. Annars vegar er lagt til að mál sem þetta verði alltaf að sæta flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 og hins vegar að það verði alltaf rekið fyrir þremur dómurum í héraði. Samsvarandi sérreglur eru ekki í núgildandi lögum, en rökin að baki þeim má telja augljós.
    Í 2. mgr. er tekið fram að lausn dómara frá embætti um stundarsakir skuli standa áfram, þótt dómur hafi gengið í héraði í máli á hendur honum til embættismissis, svo lengi sem kostur er á að áfrýja dóminum til Hæstaréttar innan almenns frests, svo og áfram eftir það á meðan mál er rekið fyrir Hæstarétti ef áfrýjað er. Lagt er til að þessar reglur verði teknar hér upp til að taka af öll tvímæli um þetta, en í núgildandi lögum eru ekki fyrirmæli þessa efnis. Varðandi einstök atriði í þessari málsgrein skal vakin athygli á því að umræddum reglum er ætlað að gilda á hvorn veginn sem héraðsdómur gengi. Áfrýjunarfresturinn, sem vísað er til í ákvæðinu, er þrjár vikur frá uppkvaðningu héraðsdóms, sbr. 5. mgr. 124. gr. laga nr. 91/1991, en rætt er hér um almennan áfrýjunarfrest til að taka af vafa um að ekki eigi að taka tillit til þess að leita mætti áfrýjunarleyfis í þrjá mánuði eftir lok hans, sbr. 2. mgr. 153. gr. sömu laga. Ef krafa um frávikningu dómara væri tekin til greina í héraði stæði lausn um stundarsakir þar til áfrýjunarfrestur væri á enda án þess að málinu hafi verið skotið til Hæstaréttar, en þá væri héraðsdómur orðinn endanlegur og lausn dómarans það einnig, sbr. 3. mgr. Ef kröfu um frávikningu væri hafnað í héraðsdómi stæði lausn um stundarsakir allt að einu áfram þar til áfrýjunarfrestur liði án málskots, en að þeim fresti liðnum tæki dómarinn á ný við embætti sínu, sbr. 4. mgr. Að auki gæti héraðsdómur orðið endanlegur í þessum skilningi áður en áfrýjunarfrestur væri liðinn ef aðilar málsins afsöluðu sér rétti til áfrýjunar eða misstu hann á annan hátt. Ef til áfrýjunar kæmi stæði síðan lausn um stundarsakir áfram þar til málinu lyki fyrir Hæstarétti, en einu mundi þá gilda hvernig málið hefði farið fyrir héraðsdómi.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um það að endanlegur dómur um að dómara sé vikið úr embætti leiði sjálfkrafa til lausnar hans úr því. Héraðsdómur þessa efnis gæti orðið endanlegur með þeim hætti sem rætt er um í athugasemdum við 2. mgr. hér að framan, en dómur Hæstaréttar er endanlegur í þessum skilningi frá því að hann er kveðinn upp. Í þessu ákvæði felst að öðru leyti að dómur um frávikningu leiði einn og sér til þess að dómari hafi fengið lausn frá embætti sínu og þyrfti því dómsmálaráðherra eða eftir atvikum forseti Íslands ekki að veita dómaranum lausn með sérstakri aðgerð í kjölfar dómsins. Samsvarandi regla og þessi er ekki í núgildandi lögum.
    Í 4. mgr. kemur fram að dómari taki sjálfkrafa við embætti sínu á ný frá þeim tíma, sem dómur um sýknu hans af kröfu um frávikningu yrði endanlegur. Um tímamörk þess að dómur verði endanlegur gildir það sama og segir hér að framan í sambandi við ákvæði 3. mgr. Með þessu ákvæði er annars tekið af skarið um hvernig það komi til að dómari taki á ný við embætti í kjölfarið á því að endanlega sé hafnað kröfu um frávikningu hans, en miðað er við að engra frekari aðgerða sé þörf til að fella niður lausn um stundarsakir eða til að gefa dómara kost á að taka aftur við starfi sínu. Í núgildandi lögum er ekki mælt fyrir um þetta.
    

    Um 31. gr.

    Í þessari grein eru fyrirmæli um lausn dómara frá embætti af öðrum ástæðum en þeim sem um ræðir í 30. gr. Þessi fyrirmæli eiga sér ekki beina hliðstæðu í núgildandi sérlögum varðandi dómara, ef frá eru talin ákvæði 4. mgr., sem svara efnislega til 6. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989, sbr. einnig 61. gr. stjórnarskrárinnar. Önnur ákvæði greinarinnar eru hins vegar í samræmi við það sem hefur verið talið gilda um dómara í framkvæmd.
    Í 1. mgr. er tekið fram hverjir veiti dómurum lausn frá embætti, en í 2.–5. mgr. er mælt fyrir um tilefni sem geti orðið til þess. Samkvæmt 1. mgr. væri það forseta Íslands að veita hæstaréttardómurum lausn frá embætti, en dómsmálaráðherra að veita héraðsdómurum lausn. Hér má minna á að í 1. mgr. 4. gr. er ráðgert að forseti skipi hæstaréttardómara, en héraðsdómarar yrðu skipaðir af dómsmálaráðherra, sbr. 1. mgr. 12. gr. Þessi fyrirmæli í 1. mgr. 31. gr. eru þannig í samræmi við þá almennu reglu að sama stjórnvald veiti bæði embætti og lausn frá því, sbr. 1. mgr. 31. gr. 70/1996.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að veita beri dómara lausn frá embætti að ósk hans, en áskilið er að hann leiti lausnar með þeim fyrirvara sem gildir almennt um starfsmenn ríkisins. Er því ætlast til að ákvæði 37. gr. laga nr. 70/1996 gildi um dómara hvað varðar síðastgreinda atriðið.
    Samkvæmt 3. mgr. teldist dómari sjálfkrafa fá lausn frá embætti ef hann tæki við skipun í annað embætti. Er í þessu sambandi miðað við að þetta gerist ef dómari hefur sjálfur leitað eftir öðru embætti, en hafa verður í huga að vegna ákvæða 61. gr. stjórnarskrárinnar verður dómari ekki fluttur á milli embætta eftir almennri reglu 36. gr. laga nr. 70/1996 og felur 3. mgr. 31. gr. því ekki í sér ráðagerð um slíka tilfærslu.
    Í upphafi 4. mgr. er kveðið á um heimild til að veita dómara, sem er orðinn 65 ára að aldri, lausn frá embætti án óskar hans, en um þessa sérstöku heimild varðandi dómara er mælt í 3. málsl. 61. gr. stjórnarskrárinnar. Um stöðu dómara, sem væri veitt lausn eftir þessari heimild, segir í 4. mgr. að hann skuli upp frá því taka eftirlaun eins og hann hefði gegnt embættinu til 70 ára aldurs nema hann njóti ríkari réttar samkvæmt stjórnskipunarlögum. Varðandi þessi fyrirmæli má annars vegar vekja athygli á því að þar er miðað við þá aðalreglu að dómari taki eftirlaun upp frá þeim tíma sem lausn hans tekur gildi og verði þau hin sömu og ef hann hefði setið í embætti til 70 ára aldurshámarks skv. 5. mgr. Af þessu leiðir að dómarinn héldi ekki launum frá því hann fengi lausn og fram til 70 ára aldurs. Orðalag 4. mgr. um þetta er ekki eins og í núgildandi reglu 6. mgr. 8. gr. laga nr. 92/1989, en sú regla virðist hafa verið skilin á sama veg og hér er lagt til grundvallar. Hins vegar verður að benda á að í 4. mgr. er gert ráð fyrir undantekningu frá fyrrgreindri aðalreglu um þá dómara, sem kunna að njóta ríkari réttar samkvæmt stjórnskipunarlögum. Með þessu er skírskotað til þess að í fyrrnefndum málsl. 61. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem honum var breytt með stjórnarskipunarlögum nr. 56/1991, segir að veita megi dómara, sem er orðinn 65 ára gamall, lausn frá embætti, en hæstaréttardómarar skuli ekki missa neins í af launum sínum. Langvarandi venja er fyrir því að skýra þessi fyrirmæli og eldra ákvæði sama efnis í stjórnarskránni þannig að hæstaréttardómari, sem er veitt lausn eftir að hafa náð 65 ára aldri, haldi óskertum launum til ævilengdar. Þessu stjórnarskrárákvæði og venjuhelgaðri skýringu hennar verður ekki raskað með almennum lögum og er því óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir þessari stöðu með fyrirmælunum í 4. mgr. 31. gr. um undantekningu frá fyrrnefndri aðalreglu ákvæðisins.
    Samkvæmt 5. mgr. verður dómara veitt lausn frá embætti ekki síðar en frá þeim degi, sem hann nær 70 ára aldri. Bein fyrirmæli hafa ekki verið í lögum gagngert um þetta aldurshámark dómara, en gengið hefur verið út frá því í framkvæmd að þessi regla gildi um þá með svipuðum hætti og um aðra opinbera starfsmenn. Miðað hefur þó verið við, líkt og felst í orðalagi 5. mgr., að dómari geti ekki setið í embætti eftir 70 ára afmælisdag sinn og hefur því verið lítilsháttar munur á stöðu dómara og annarra opinberra starfsmanna að þessu leyti. Ekki þykir þó ástæða til að gera breytingu á þessu með því að samræma ákvæði 5. mgr. við 1. mgr. 33. gr. laga nr. 70/1996, sem gildir almennt um opinbera starfsmenn.
    

    Um 32. gr.

    Í 1. mgr. þessar greinar eru ákvæði um refsiábyrgð dómara vegna háttsemi þeirra í embætti. Segir að um þá ábyrgð fari eftir almennum hegningarlögum og sérákvæðum annarra laga, en refsimál á hendur dómara af slíku tilefni verði rekið eftir almennum reglum. Í síðari málslið 1. mgr. 8. gr. a. laga nr. 92/1989 segir að um refsiábyrgð dómara fari samkvæmt almennum hegningarlögum og sérákvæðum einstakra laga. Er því þetta ákvæði frumvarpsins sama efnis að þessu leyti. Í núgildandi lögum er hins vegar ekki mælt sérstaklega fyrir um rekstur máls til að koma fram refsingu á hendur dómara vegna háttsemi hans í embætti, en um það mundi fara eftir almennum reglum fyrst annars er ekki getið í lögum. Eru því fyrirmæli 1. mgr. um þetta á sama veg og gildandi reglur, en hins vegar þykir rétt að taka þetta beinlínis fram, enda gætir þess víða í nágrannalöndum að sérreglur gildi um hvernig mál af þessu tagi verði sótt á hendur dómara.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um bótaskyldu vegna athafna dómara í starfi eða athafnaleysi, sem verður öðrum til tjóns og í 3. mgr. er gert ráð fyrir vissum sérreglum um hvernig mál verði sótt af því tilefni. Ákvæði þessara málsgreina eru í ýmsum atriðum frábrugðin gildandi reglum um sama efni í 8. gr. a. laga nr. 92/1989 og skal nú gerð nánari grein fyrir helstu atriðunum í því sambandi. Í fyrsta lagi má benda á að í frumvarpinu er ráðgert að bótaábyrgð fari í þessum tilvikum eftir almennum reglum, en með því orðalagi er vísað til almennu skaðabótareglunnar svokölluðu, sem mundi þannig eiga hér við. Í 1. mgr. 8. gr. a. laga nr. 92/1989 segir að bæta skuli tjón af dómaraverkum sem dómari veldur af ásetningi eða gáleysi. Þau fyrirmæli fela í raun í sér skírskotun til sömu skaðabótareglu og áður greinir, en orðalagið er ekki svo markvisst sem skyldi. Í öðru lagi verður að vekja athygli á því að í tilvitnuðu ákvæði núgildandi laga er kveðið á um að dómari skuli bæta það tjón sem áður greinir og miðar því reglan aðallega að persónulegri bótaskyldu hans, þótt sækja megi jafnframt eða eingöngu bætur úr ríkissjóði af þessu tilefni eftir almennum reglum um húsbóndaábyrgð. Að því leyti sem núgildandi ákvæði leggur bótaskyldu persónulega á dómara, stangast það á við ýmsar alþjóðasamþykktir um viðmiðanir varðandi réttarstöðu dómara þar sem ástæða hefur þótt til að leggja áherslu á að óviðunandi sé að dómari geti þurft að eiga yfir höfði sér að aðili dómsmáls, sem hann hefur leyst úr, beini af mismunandi tilefnum bótakröfum að honum. Þá verður að benda á að bætur verða almennt ekki sóttar á þennan hátt úr hendi annarra starfsmanna ríkisins vegna tjóns, sem leiðir af störfum þeirra. Þessu til samræmis er lögð til sú breyting með 2. mgr. 32. gr. að bótakröfum verði beint að ríkinu, en það geti að gengnum áfellisdómi í skaðabótamáli sótt framkröfu á hendur dómaranum ef tjónið hefur orðið af ásetningsverki hans. Með þessu væri fyllilega tryggður réttur þess, sem hefði orðið fyrir tjóni, án þess að dómarinn þyrfti persónulega að eiga þar hlut að máli, en stöðu ríkisins í þessum efnum væri jafnframt nægilega borgið með umræddum rétti til framkröfu. Í þriðja lagi felst breyting í 3. mgr. 32. gr. frá núgildandi reglum í 2. og 3. mgr. 8. gr. a. laga nr. 92/1989 að því leyti að í frumvarpinu er ráðgert að bótamál vegna tjóns af störfum dómara verði sótt í máli, sem er rekið eftir almennum reglum, en af því leiðir meðal annars að málið yrði höfðað fyrir héraðsdómi og gæti síðan eftir atvikum sætt áfrýjun til Hæstaréttar. Eftir núgildandi reglum verður bótakrafa af þessu tilefni að öðru jöfnu eingöngu sótt með sérstakri málshöfðun fyrir Hæstarétti eða með því að beina henni að héraðsdómara við málskot á úrlausn hans til Hæstaréttar, en samkvæmt því er aðalreglan sú að mál sem þessi fái aðeins meðferð á einu dómstigi, sem er einsdæmi innan almenna dómstólakerfisins. Viðunandi rök þykja ekki standa til að sú sérregla verði áfram í lögum. Í fjórða lagi er ráðagerð í 3. mgr. 32. gr. um breytingu á reglum um frest til að höfða mál um bótakröfu vegna embættisstarfa dómara. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. a. laga nr. 92/1989 gildir sú regla nú um þetta efni að höfða verði mál til heimtu bóta fyrir Hæstarétti innan frestsins til að áfrýja þeirri dómsathöfn sem leiddi til tjóns. Ef tjón hefur orðið vegna aðgerða dómara í einkamáli getur málshöfðunarfrestur samkvæmt þessu lengst orðið sex mánuðir frá uppkvaðningu héraðsdóms, sbr. 1. og 2. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991, en í opinberu máli fjórar vikur eftir birtingu dóms fyrir ákærða eða eftir atvikum átta vikur frá uppkvaðningu dóms ef sá frestur rynni síðar út, sbr. 2. mgr. 151. gr. og 152. gr. laga nr. 19/1991. Nú er það oft svo að tjón af til dæmis mistökum héraðsdómara kemur ekki í ljós fyrr en að gengnum dómi Hæstaréttar í máli, en samkvæmt þeim reglum, sem áður er lýst, væri þá yfirleitt þegar liðinn fresturinn til að hafa uppi bótakröfu. Þykir því full ástæða til að breyta reglum um þetta efni. Í 3. mgr. 32. gr. er lagt til að frestur til málshöfðunar í þessum tilvikum verði sex mánuðir frá þeim tíma sem tilefni til bótaskyldu mátti vera orðið ljóst, en að auki er heimilað að láta þann frest verða lengri ef afsakanlegt þykir að mál hafi ekki verið höfðað innan umrædds tíma. Má ætla að með þessu fáist viðunandi svirúm til að koma fram bótakröfu þannig að réttur til bóta verði ekki í reynd óvirkur, svo sem hætta er á eftir núgildandi reglum um málshöfðunarfrest.
    

    Um 33. gr.

    Í þessari grein eru almenn fyrirmæli til fyllingar öllum áðurnefndum sérákvæðum frumvarpsins um dómara, en í henni er vísað til þess að eftir því sem átt geti við eigi almennar reglur um starfsmenn ríkisins að gilda um dómara um önnur atriði en þau sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Með þessu er vitnað til ýmissa almennra reglna, sem er ástæðulaust að leitast við að telja hér sérstaklega upp, en sá eðlilegi fyrirvari er þó gerður að þær gildi aðeins að því leyti sem þær geti átt við um dómara. Við mat á því hvort þessi fyrirvari komi til álita í einstökum tilvikum verður meðal annars að gæta að grundvallarreglum um sérstöðu dómara í samanburði við aðra starfsmenn ríkisins.
    

    Um 34. gr.

    Í 34. gr. er mælt fyrir um gildistöku laganna ef frumvarpið nær fram að ganga. Miðað er við að lögin taki gildi 1. júlí 1998, en ekki er ástæða til teljandi fyrirvara á gildistöku vegna aðlögunar eða undirbúnings. Vekja verður athygli á því að undantekning er gerð varðandi gildistöku á bráðabirgðaákvæði 38. gr. frumvarpsins, sem ætlast er til að taki gildi þegar við birtingu laganna, en það stafar af því að þar eru fyrirmæli um skipun nefnda sem eiga að starfa samkvæmt frumvarpinu og er nauðsynlegt að þær geti fengið ráðrúm til að undirbúa störf sín með einhverjum fyrirvara áður en lögin kæmu til framkvæmda.
    

    Um 35. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um brottfall laga og einstakra lagaákvæði, sem þarfnast ekki teljandi skýringa. Í 1. og 2. tölul. greinarinnar er mælt fyrir um brottfall laga um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973, og I. kafla laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989. Miðað er við að fyrrnefndu lögin falli nú endanlega niður, enda eru ekki önnur ákvæði í þeim orðið en um þau atriði, sem mælt er fyrir um í II. kafla frumvarpsins. Þá eru í I. kafla síðarnefndu laganna eingöngu fyrirmæli, sem svara til einstakra ákvæða í III. og IV. kafla frumvarpsins, en vekja má athygli á að í 2. tölul. 36. gr. frumvarpsins eru tillögur um breytingar á II. kafla laganna. Í 3. tölul. 35. gr. er lagt til að ákvæði í 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um aðför, nr. 90/1989 falli niður, en þar er mælt fyrir um nauðsyn þess að beiðni um aðfarargerð, sem styðst við svokallaðan lögtaksrétt, komi á fyrstu stigum til meðferðar fyrir héraðsdómi áður en leita megi til sýslumanns um að framkvæma aðför samkvæmt henni. Á þeim árum, sem nú eru liðin frá gildistöku umræddra laga, hefur komið fram að ekki sé raunhæf þörf á þessari málsmeðferð, sem leiðir þannig í reynd aðeins til kostnaðar af aðfarargerðum og umtalsverðrar vinnu við héraðsdómstóla. Brottfall þessa ákvæðis tengist ekki neinum ákveðnum fyrirmælum í frumvarpinu, en rétt þykir að leggja það hér allt að einu til í ljósi þess að hagræði og sparnaður getur orðið af því við rekstur dómstóla. Í 4. tölul. 35. gr. er lagt til brottfall 160. gr. laga nr. 19/1991, þar sem mælt er fyrir um heimild Hæstaréttar til að gera héraðsdómara refsingu vegna meðferðar opinbers máls, en gengið er út frá því að ákvæði IV. kafla frumvarpsins um agaviðurlög á hendur héraðsdómara komi nægilega að haldi hér í staðinn. Í 5. tölul. 35. gr. er síðan mælt fyrir um brottfall nokkurra ákvæða í lögum nr. 91/1991, en þau varða heimildir til að fjölskipa dóm með héraðsdómurum, sérstakt hæfi dómarafulltrúa, heimild Hæstaréttar til að áminna eða sekta héraðsdómara vegna meðferðar einkamáls og útgáfu dómasafns Hæstaréttar.
    

    Um 36. gr.

    Í 36. gr. eru fyrirmæli um breytingar á öðrum lögum. Fyrirmæli eru í 1., 3., 4. og 5. tölul. um breytingar á lögum nr. 3/1963, 19/1991, 91/1991 og 70/1996, sem tengjast ýmist því að ráðgert er í frumvarpinu að starf hæstaréttarritara verði lagt niður og í staðinn tekið upp starf skrifstofustjóra Hæstaréttar, svo sem áður er skýrt í athugasemdum við 6. gr., eða að breytingar leiði af ákvæðum frumvarpsins varðandi tilvik, þar sem dómur er fjölskipaður héraðsdómurum. Í 2. tölul. er lagt til að lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, fái nýtt heiti með hliðsjón af því að eftir brottfall I. kafla þeirra, sbr. 2. tölul. 35. gr. frumvarpsins, varða þau ákvæði laganna sem eftir standa störf sýslumanna og hliðsettra embættismanna við meðferð framkvæmdarvalds ríkisins í héraði. Þá er og lagt til að kaflafyrirsagnir hverfi úr lögunum og greinarnúmer breytist, þannig að heildstæð mynd verði á lögunum eftir þær breytingar sem verða við brotthvarf I. kafla þeirra. Að öðru leyti eru lagðar til óhjákvæmilegar breytingar á ákvæðum núverandi II. kafla laganna um almenn hæfisskilyrði sýslumanna og löglærðra starfsmanna þeirra og um tilvísun á milli greina, auk þess að lagt er til að niður falli bráðabirgðaákvæði við lögin sem hafa þjónað sínu hlutverki og hafa ekki lengur raunhæft gildi.
    

    Um 37.–42. gr.

    Þessar greinar frumvarpsins hafa að geyma ákvæði til bráðabirgða sem ekki þykir ástæða til að fjalla neitt teljandi um.
    Í 37. gr. eru fyrirmæli um hvernig fari með stöðu þeirra sem eru skipaðir eða settir í dómaraembætti og stöðu dómstjóra við gildistöku laganna ef frumvarpið nær fram að ganga. Gert er ráð fyrir því að gildistaka laganna raski ekki slíkri skipun eða setningu að öðru leyti en því að héraðsdómarar, sem eru skipaðir eða settir í dómaraembætti við tiltekna dómstóla eftir núgildandi lögum, hafi eftirleiðis sama starfsheiti án þess að tilgreindur verði ákveðinn dómstóll sem þeir starfi við.
    Í 38. gr. eru ákvæði um upphaf starfa dómstólaráðs, dómnefndar um héraðsdómaraembætti og nefndar um dómarastörf, en svo sem vikið er að í athugasemdum við 34. gr. er ráðgert að þessi grein öðlist gildi fyrr en aðrar greinar frumvarpsins. Eins og áður hefur verið rakið er lagt til í 12., 13. og 23. gr. að skipun manna í þessar þrjár nefndir verði tímabundin og standi að auki þannig af sér að aðeins eitt sæti losni þar í senn, ýmist árlega eða á öðru hverju ári. Meginefni 38. gr. snýr að því að í upphafi verði skipunartími einstakra nefndarmanna þessu til samræmis mislangur, svo og hvað ráði lengd þess tíma hjá hverjum þeirra. Þá eru að auki fyrirmæli um að nefndirnar þrjár eigi að taka til starfa þegar í stað.
    Í 39. gr. eru sérstök fyrirmæli um stöðu þeirra sem skipaðir eru í embætti héraðsdómara við gildistöku laganna gagnvart ákvæðum um skyldu til að sæta tilfærslu í starfi. Er þar miðað við að þessir dómarar verði ekki skyldugir til að skipta um fastan starfsvettvang gegn vilja sínum samkvæmt 5. mgr. 15. gr. nema því verði komið við án þess að þörf verði á búferlaflutningum eða ef flutningur starfar af varanlegri fækkun dómara við þann dómstól þar sem viðkomandi hefur starfað. Vekja má athygli á því að í 2. mgr. 39. gr. er sérstaklega tekið fram að ákvæði 6. mgr. 15. gr. gildi einnig um þá dómara, sem hér um ræðir, en samkvæmt því yrðu þeir að hlíta ákvörðunum dómstólaráðs um að taka að sér einstök dómsmál utan dómstólsins,þar sem þeir hefðu föst sæti.
    Í 40. gr. er lagt til að starfandi dómarar verði innan mánaðar frá gildistöku laganna að gera nefnd um dómarastörf grein fyrir aukastörfum,sem þeir hafa með höndum, og eignarhaldi sínu að félögum og atvinnufyrirtækjum. Er miðað við að nefndin geti bannað dómara að halda aukastarfi áfram eða að eiga áfram hlut í félagi eða fyrirtæki, en mælt er fyrir um fresti handa dómara til að laga sig að slíku banni, sex mánuði að því er aukastörf varðar, en eitt ár varðandi eignarhluta í félögum og fyrirtækjum. Reikna verður með að því nefndin þurfi að sýna nokkurn sveigjanleika í þeim tilvikum,sem eiga undir 40. gr.,enda lýtur ákvæðið að störfum og eignum,sem dómarar hafa gegnt og átt í núverandi starfi án þess að lögákveðnar takmarkanir stæðu því í vegi.
    Í 41. gr. eru fyrirmæli um réttarstöðu þeirra,sem gegna starfi dómarafulltrúa við gildistöku laganna. Ráðgert er að þeir eigi kost á starfi aðstoðarmanna við héraðsdómstóla samkvæmt 17. gr. og geti gegnt því án tillits til þargreindra fyrirmæla um hámarkstíma ráðningar. Þeir, sem vilja ekki taka við slíku starfi, eiga að njóta réttar til að hætta störfum fyrir lok ársins 1998 með rétti til biðlauna. Er þá haft í huga að með frumvarpinu er stefnt að því að leggja niður störf dómarafulltrúa, en störf aðstoðarmanns samkvæmt 17. gr. verða ekki sambærileg eldri störfunum. Gengið er út frá því að þeir sem standa í þessari stöðu, geti beðið með að segja til um vilja sinn til að láta af störfum og taka biðlaun í allt að sex mánuði eftir gildistöku laganna, en að öðru leyti en því mundu almennar reglur í 34. gr. laga nr. 70/1996 gilda um biðlaunaréttinn.
    Í 42. gr. eru reglur um afleiðingarnar af því að sveitarfélög, sem eru talin upp í 2. gr. við afmörkun á umdæmi einstakra héraðsdómstóla, sameinist eða skipti um heiti. Með þessu ákvæði frumvarpsins er þess vænst að komist verði hjá því að þurfa að gera breytingar á 2. gr. jafnharðan og breytingar af þessu tagi verða á skipan sveitarfélaga, heldur mætti breyta umræddri grein með einhverju millibili eftir því sem tilefni kynnu að verða til.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um dómstóla.

    Frumvarpinu er ætlað að koma í stað núgildandi reglna um dómstóla og dómendur sem eru annars vegar í lögum um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973, og hins vegar í I. kafla laga um að skilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989.
    Umsögn þessi er unnin í samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneyti en að mati fjármála ráðuneytis munu eftirtaldir þættir helst hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
1.    Dómstólaráð er nýtt og er ætlað töluvert umfangsmikið hlutverk (13.–15. gr.). Ráðsmenn verða þrír og er gert ráð fyrir að þeir fái fasta, mánaðarlega þóknun. Ætla má að árlegur kostnaður geti orðið 1,5–2 m.kr. með launatengdum gjöldum. Í 1. tölul. 14. gr. er kveðið á um að fjárveiting til allra héraðsdómstóla skuli sett fram í einu lagi með fjárlögum. Þetta þýðir að fjárveiting til einstakra dómstóla verður ekki sýnd í fjárlögum né annar sameigin legur kostnaður.
2.    Héraðsdómarar verða 38 eins og nú er en sá meginmunur verður að þeir verða ekki skipaðir við ákveðinn dómstól og því getur dómstólaráð fært þá á milli eftir því sem nauðsyn krefur. Einnig er dómstólaráði ætlað að setja samræmdar reglur um viðveruskyldu héraðsdómara, tilhögun orlofs og fleiri rekstrartengda þætti. Ætti þetta að leiða til verulegs hagræðis og þótt erfitt sé að áætla fjárhagslegan ávinning er gert ráð fyrir að sá sparnaður vegi upp kostnað af dómstólaráði, kostnað sem mun falla til vegna staðaruppbóta og greiðslur vegna búferlaflutninga (3. og 4. tölul. 25. gr.).
3.    Dómarafulltrúar eru nú 12 talsins en þær stöður verða lagðar niður. Í 41. gr. er gert ráð fyrir að þeir eigi kost á stöðu löglærðs aðstoðarmanns skv. 17. gr. frumvarpsins. Ekki er talið að biðlaunagreiðslur verði miklar vegna niðurlagningar starfa dómarafulltrúa en fyrir hvern dómarafulltrúa sem ekki þiggur stöðu löglærðs fulltrúa verður biðlaunakostnaður 0,6–1,3 m.kr.
4.    Sú breyting er gerð að ekki verða skipaðir setudómarar til að fara með mál nema allir héraðsdómarar séu vanhæfir. Ekki er heldur gert ráð fyrir að dómari verði settur vegna for falla eða leyfis reglulegs dómara nema dómstólaráð mæli með því en talið er að þessari heimild verði lítið beitt. Að lokum falla niður sérstakar greiðslur til héraðsdómara fyrir setu í fjölskipuðum dómum. Sé tekið mið af útgjöldum ársins 1996 munu þessir þrír þættir leiða til 6–7m.kr. sparnaðar en þessi kostnaður hefur verið nokkuð breytilegur milli ára.
5.    Nefnd um dómarastörf er ný nefnd (23. gr.) en ekki er talið að störf hennar verði umfangsmikil og er kostnaður áætlaður á bilinu 0,2–0,4 m.kr.
    Á heildina litið er það mat fjármálaráðuneytis að heildarútgjöld vegna dómstóla kunni að lækka frá því sem nú er um allt að 6 m.kr. Talið er að hagræði við rekstur héraðsdómstóla muni vega upp kostnað af dómstólaráði, nefnda um dómarastörf og tilflutningi dómara í starfi. Áætlað er að kostnaður vegna forfalla og ýmissa greiðslna til dómara lækki um rúmlega 6 m.kr. Á þessu stigi er ekki ljóst hvort um biðlaunagreiðslur verður að ræða en það talið er að flestir ef ekki allir dómarafulltrúar muni þiggja störf löglærðra aðstoðarmanna. Eins og að framan greinir er talið að biðlaunakostnaður fyrir hvern dómarafulltrúa sem ekki þiggur starf aðstoðarmanns verði á bilinu 0,6–1,3 m.kr.