Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 180 – 180. mál.



Skýrsla



umhverfisráðherra um loftslagsbreytingar.

(Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


INNGANGUR

    Þessi skýrsla er tekin saman fyrir Alþingi í því skyni að gera grein fyrir ýmsum atriðum er varða Rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, gang samningaviðræðna um að styrkja hann og hvernig staða okkar Íslendinga er í ljósi þeirra viðræðna. Nú í desember 1997 á að ganga frá bókun við Rammasamninginn á fundi í Kyoto í Japan, þar sem fyrirhugað er að herða ákvæði hans verulega. Á þessari stundu er óvíst hvort að samkomulag helstu ríkja náist á Kyoto-fundinum, eða hvað muni felast í nýjum skuldbindingum. Hitt er ljóst að æ fleiri sérfræðingar telja að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu eitt alvarlegasta umhverfis vandamál sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir og að krafan um raunhæfar aðgerðir til að draga úr þessum breytingum mun fara vaxandi, hver sem niðurstaðan á Kyoto-fundinum verður.
    Meginhluti þessarar skýrslu er efnislega samhljóða Annarri skýrslu Íslands til skrifstofu loftslagssamningsins („Second Status Report for Iceland pursuant to the United Nations Framework Convention on Climate Change“), sem aðildarríkjum samningsins ber að skila. Í þeirri skýrslu, sem rituð er á ensku, er að finna upplýsingar um útstreymi gróðurhúsa lofttegunda á Íslandi, sem reiknað er út samkvæmt reglum sem skrifstofa loftslagssamningsins setur, auk spár sem unnin er af Hollustuvernd ríkisins um líklega þróun útstreymis fram til ársins 2025. Þessar upplýsingar er einnig að finna í þessari skýrslu til Alþingis, en að auki er hér að finna almennar upplýsingar um gróðurhúsaáhrif og aðgerðir á alþjóðavettvangi til þess að draga úr þeim, auk yfirlits yfir gang samningaviðræðna til undirbúnings fyrir Kyoto-fundinn.

SAMANTEKT

*         Árið 1995 var útstreymi koltvíoxíðs á Íslandi 2.281 þúsund tonn. Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heild var 2.640 þúsund tonn, mælt í ígildum koltvíoxíðs. Þetta var um 0,01% heildarútstreymis á jörðinni.
*         Útstreymi koltvíoxíðs á hvern íbúa á Íslandi var um 8,5 tonn árið 1995, en var um 12 tonn á íbúa að meðaltali í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
*         Hlutur einstakra lofttegunda í útstreymi var árið 1995:
        Koltvíoxíð - 86%
        Metan - 6%
        Tvíköfnunarefnisoxíð - 5%
        Aðrar lofttegundir - 3%
*         Útstreymi koltvíoxíðs árið 1995 skiptist þannig eftir uppsprettum:
        Fiskiskip - 33%
        Innanlandssamgöngur - 32%
        Iðnaðarferli - 18%
        Jarðhitavirkjanir - 3%
        Annað - 14%
        Það sem er einkennandi fyrir útstreymi koltvíoxíðs á Íslandi miðað við önnur ríki er hið háa hlutfall útstreymis frá farartækjum og hið lága hlutfall útstreymis frá staðbundinni orkuframleiðslu. Um 2/3 hlutar af heildarorkuframleiðslu Íslendinga og um 95% af staðbundinni orkuframleiðslu kemur frá hreinum og endurnýjanlegum orkulindum.
*         Heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda dróst saman um 3,5% á tímabilinu 1990-1995. Helsta ástæða þessa var minnkun á losun flúorkolefna frá álverinu í Straumsvík. Útstreymi koltvíoxíðs jókst hins vegar um ríflega 6% á þessu tímabili.
*         Útstreymi gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa á Íslandi minnkaði um 7,5% á tímabilinu 1990–1995. Útstreymi koltvíoxíðs á íbúa jókst um 1,4% á þessu tímabili.
*         Samkvæmt spám er búist við auknu útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi á næstu árum. Heildarútstreymi mun samkvæmt spám aukast um 16% til ársins 2000, um 26% til ársins 2010 og um 35% til ársins 2020, miðað við árið 1990, ef ekki verður gripið til aðgerða.
*         Erfitt er að spá um hvaða áhrif loftslagsbreytingar af mannavöldum munu hafa á Íslandi. Flest tölvulíkön spá lítilsháttar hlýnun á Íslandi og svæðinu í kring, en að sú hlýnun verði minni en að meðaltali á sömu breiddargráðum. Kólnun loftslags er ekki útilokuð. Helsta áhyggjuefni Íslendinga eru hugsanleg áhrif veðurfarsbreytinga af mannavöldum á stefnu og styrk hafstrauma, þar á meðal Golfstraumsins, sem aftur gætu haft ófyrirséð og alvar leg áhrif á loftslag og fiskgengd við Ísland.
*         Stefna íslenskra stjórnvalda er að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda árið 2000, þannig að það verði ekki meira þá en árið 1990. Til þess að framfylgja þessari stefnu samþykkti ríkisstjórnin framkvæmdaáætlun um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum í októ ber 1995. Sérstök nefnd skipuð sjö aðstoðarmönnum ráðherra sér um að fylgja fram kvæmdaáætlunni eftir. Nefndin hefur skilað tillögum til umhverfisráðherra, en áfram er unnið að frekari útfærslu þeirra tillagna í vinnuhópum í einstökum ráðuneytum, sem leita leiða til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í iðnaði, samgöngum, sjávarútvegi o.s.frv.
*         Meðal aðgerða sem eru í skoðun til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda eru: upptaka koltvíoxíðsskatts, markviss efling orkusparnaðar við fiskveiðar, efling almenningssamgangna, orkusparnaðarátak í iðnaði, minnkun sorpmagns til urðunar (sem dregur úr útstreymi metans) og aukin binding koltvíoxíðs í lífmassa með skógrækt og landgræðslu.
*         Meðal aðgerða sem þegar hafa skilað árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda má nefna afslátt á verði ótryggðs rafmagns til gufuframleiðslu í rafskautakötlum í fiskimjölsverksmiðjum og öðrum iðnfyrirtækjum, sem hefur leitt til minnkunar á olíu brennslu um 11–12 þúsund tonn, sem aftur þýðir um 35.000 tonna minnkun á útstreymi koltvíoxíðs. Í framhaldi af lækkun gjaldskrár til að gera landrafmagn samkeppnisfært við rafmagn framleitt í ljósavélum skipa hefur CO2-losun minnkað um 5.000 tonn. Vinnsla Sorpu bs. á metani á urðunarstað í Álfsnesi er hafin og mun draga úr losun sem svarar ígildum rúmlega 16.000 tonna af CO2.
*         Ríkisstjórnin leggur áherslu á að markmiðum Íslendinga um takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda verði náð á sem hagkvæmastan hátt. Átak til að auka hlutdeild jarðvarmaorku gerði það að verkum að hitaveitu var komið í yfirgnæfandi meirihluta íslenskra húsa fyrir viðmiðunarárið 1990. Hlutur staðbundinnar orkuvinnslu er óveru legur og skiptir litlu í heildarmyndinni. Erfitt kann að reynast að koma við verulegri minnkun á útblæstri frá fiskiskipum og samgöngum, nema til komi ný tækni sem eykur sparneytni verulega eða opnar fyrir víðtæka notkun á öðrum orkugjöfum en olíu og öðru jarðefnaeldsneyti.
*         Ísland getur lagt sitt af mörkum við að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum með því að auka bindingu koltvíoxíðs í gróðri. Þannig má sameina aðgerðir gegn gróðurhúsa áhrifum og aðgerðir gegn uppblæstri og gróðureyðingu. Ríkisstjórnin hefur hrint af stað átaki sem miðar að því að auka bindingu koltvíoxíðs um 100.000 tonn á ári á næstu árum miðað við árið 1990, eða sem svarar um 4–5% af losun Íslendinga af koltvíoxíði.
*         Á alþjóðavettvangi hefur Ísland lagt sitt af mörkum við að draga úr losun koltvíoxíðs með því að veita aðstoð við nýtingu jarðhita, sem kemur í stað mengandi orkugjafa. Stefnt er að áframhaldandi aðstoð á því sviði.
*         Óvíst er hvaða áhrif alþjóðlegar skuldbindingar munu hafa á uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi. Útstreymi frá iðnaðarferlum mun auka útstreymi frá Íslandi verulega. Á hinn bóginn má segja að orkufrekur iðnaður sem er staðsettur á Íslandi og nýtir endur nýjanlegar orkulindir losi mun minna af koltvíoxíði (í mörgum tilvikum um 90% minna) á heimsvísu en verksmiðjur sem nota jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa. Þannig tryggir stóriðja staðsett á Íslandi lágmarksútstreymi gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórn Íslands hefur af þessum sökum undanskilið nýja stóriðju sem nýtir endurnýjanlegar orkulindir frá markmiðum sínum um takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda, enda fullnægi hún skilyrðum um lágmarksútstreymi gróðurhúsalofttegunda frá iðnaðarferlum. Frekari skuldbindingar, samþykktar í Kyoto, mega ekki koma í veg fyrir að framleiðsla fari fram þar sem heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda er minnst. Náttúruverndarsjónarmið ráða hins vegar miklu um nýtingu endurnýjanlegra orkulinda hér á landi.

1. Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar.

1.1. ANDRÚMSLOFTID OG NÁTTÚRULEG GRÓDURHÚSAÁHRIF
    Andrúmsloftið er að mestu samansett af köfnunarefni (N2), eða um 78%, og súrefni (O2), um 21%. Að auki er þar að finna í mun minna mæli lofttegundir á borð við vatnsgufu (H2O) og koltvíoxíð (CO2), sem hafa umtalsverð áhrif á hitabúskap lofthjúpsins.
    Lofthjúpi jarðar má líkja við gler í gróðurhúsi, að því leyti að hann gleypir í sig hluta þess varma, sem ella myndi geisla út frá yfirborði jarðar. Lofthjúpurinn hleypir í gegn um sig sólar geislun til yfirborðs jarðar, sem hitnar fyrir vikið. Jörðin sendir síðan þessa orku til baka út í geiminn í formi innrauðrar geislunar, en lofttegundir á borð við koltvíoxíð gleypa í sig innrauða geisla og halda þannig eftir hluta hitaorkunnar, sem streymir frá yfirborðinu. Þessi eiginleiki lofthjúpsins hefur verið nefndur gróðurhúsaáhrif og reiknað hefur verið út að náttúruleg gróðurhúsaáhrif valdi því að hitastig á jörðinni sé um 30° C hærra en ella væri, sem er mikilvæg, ef ekki nauðsynleg, forsenda þess að líf þrífist á jörðinni.

1.2. GRÓDURHÚSAÁHRIF AF MANNAVÖLDUM
    Helstu lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum eru koltvíoxíð (CO2), vatnsgufa (H2O), óson (O3), metan (CH4), tvíköfnunarefnisoxíð (N2O) og ýmis flúorkolefnissambönd (CFC, HFC og PFC). Að flúorkolefnum undanskildum voru þessar lofttegundir allar til staðar í loft hjúpnum fyrir tilkomu mannsins, en samtals er magn þeirra í andrúmsloftinu minna en 1% af heildinni.
    Maðurinn hefur með athöfnum sínum, einkum eftir iðnbyltinguna, aukið hlutfall þessara lofttegunda í lofthjúpnum og þar með haft áhrif á gróðurhúsaáhrifin. Koltvíoxíð myndast þegar olía, kol og annað kolefniseldneyti er brennt til orkuvinnslu, við ýmis iðnaðarferli og þegar skógar eru felldir eða brenndir. Metan og tvíköfnunarefnisoxíð myndast m.a. vegna rotnunar á lífrænu efni og ýmissar landbúnaðarstarfsemi. CFC og önnur manngerð efni eru m.a. notuð í iðnaði og sleppa út í andrúmsloftið.
    Koltvíoxíð veldur um 60% gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum. Árlegt útstreymi af manna völdum nemur um 7 milljörðum tonna af hreinu kolefni, eða sem nemur um 1% af heildarmagni CO2 í andrúmsloftinu. Metan er talið valda um 15–20% af gróðurhúsaáhrifum af manna völdum og aðrar lofttegundir um 20–25% samanlagt.
    Samkvæmt spám vísindamanna er líklegt að hitastig á jörðinni hækki um 1–3,5° C fram til ársins 2100 vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum. Þessi breyting yrði meiri en nokkur breyting á hitastigi og loftslagi sem orðið hefur á jörðinni sl. 10.000 ár. Þessi spá er byggð á núverandi þróun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið og miðað við að ekki verði gripið til ráðstafana til þess að draga úr útstreymi. Spár um loftslagsbreytingar af mannavöldum eru bundnar mikilli óvissu og enn erfiðara er að spá fyrir um hver áhrif þeirra verða á einstökum svæðum. Það eykur óvissuna í slíkum spám að náttúrulegar sveiflur í veður fari kunna að draga úr eða magna sveiflur vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum. Víst er þó að fyrstu einkenni gróðurhúsaáhrifa verður vaxandi tíðni afbrigðilegrar veðráttu, aukin ofsaveður, vindur og úrkoma. Spálíkön gera ráð fyrir því að áhrif losunar gróðurhúsaloftteg unda komi ekki strax fram við yfirborð jarðar, þannig að hækkun hitastigs og breytingar á loftslagi myndu halda áfram í nokkra áratugi jafnvel þó að styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hætti að aukast nú þegar.
    Haldi núverandi þróun í útstreymi gróðurhúsalofttegunda áfram er líklegt að það jafngildi árið 2030 tvöföldun á magni þess koltvíoxíðs sem var í andrúmsloftinu fyrir daga iðnbylt ingarinnar og þreföldun árið 2100. Ef útstreymi koltvíoxíðs af mannavöldum eykst ekki frá því sem nú er munu gróðurhúsaáhrifin verða hægari, eða sem nemur tvöföldun CO2 árið 2100. Talið er að draga þurfi úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 30% frá því sem nú er, ef við settum okkur það markmið að styrkur þeirra í andrúmslofti nái jafnvægi við þau mörk sem nemur tvöföldun á CO2 fyrir iðnbyltingu.
    Sumar athafnir mannkyns kunna að hafa áhrif til kólnunar frekar en hlýnunar lofthjúpsins. Loftagnir sem innihalda brennisteinssambönd og myndast við bruna olíu og kola endurkasta sólargeislun út í geiminn áður en hún nær yfirborði jarðar og draga með því úr gróðurhúsa áhrifum. Þetta kann að valda staðbundinni kólnun (eða minni hlýnun) á svæðum þar sem brennisteinsmengun er mikil, en þessar brennisteinsagnir eru mun skammlífari í andrúms loftinu en gróðurhúsalofttegundir og munu því breyta litlu um meginframvindu loftslags breytinga. Þá ber þess að gæta að brennisteinssambönd í andrúmslofti valda ýmsum um hverfisvandamálum, svo sem súru regni og teljast því óæskileg.
    Talið er að magn koltvíoxíðs í andrúmslofti hafi aukist um 30% síðan um 1800 til okkar dags og vísindamenn telja líklegt að gróðurhúsaáhrif af mannavöldum hafi nú þegar haft merkjanleg áhrif á loftslag á jörðinni. Mælingar benda til þess að hitastig hafi að meðaltali hækkað um 0,3–0,6° C síðan árið 1860 og að sjávarborð kunni að hafa hækkað um 10–25 sentimetra. Mælingar á jöklum á háfjöllum víða um heim sýna að þeir hafa nær undantekn ingalaust hopað síðastliðna öld, en það er þó ekki talið að ástæða þessa sé eingöngu aukning á útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

1.3. ÁHRIF LOFTSLAGSBREYTINGA Á UMHVERFI OG SAMFÉLAG
    Spár um afleiðingar aukinna gróðurhúsaáhrifa og loftslagsbreytinga eru ekki síður undirorpnar mikilli óvissu en spár um hve mikið hitastig muni hækka á næstu áratugum. Það er þó mat vísindamanna að loftslagsbreytingar muni hafa umtalsverð áhrif á allt umhverfi og lífsskilyrði mannsins og annarra lífvera og að þau áhrif verði því meiri sem loftslagsbreyt ingarnar taki skemmri tíma. Eftirfarandi niðurstöður eru settar fram í skýrslu Alþjóða vísindanefndarinnar um loftslagsbreytingar (IPCC).
    Talið er að yfirborð sjávar muni hækka um 15–95 sentimetra fram til ársins 2100 vegna bráðnunar jökla og rúmmálsaukningar hafanna vegna hlýnunar. Þessi hækkun sjávarborðs mun aftur valda sjávarflóðum á strandsvæðum og láglendi og öðru tjóni. Nú er talið að um 46 milljónir manna búi á svæðum þar sem hætta er á sjávarflóðum, en 50 sm hækkun sjávarborðs myndi þýða að um tvöfalt fleiri manns myndu búa við slíka hættu. Hækkun um 1 metra myndi sökkva um 6% Hollands og yfir 17% af Bangladesh, ef ekkert yrði gert til varnar og myndi gera margar láglendar kóraleyjar í Indlands- og Kyrrahafi óbyggilegar.
    Loftslagsbelti kunna að færast til frá miðbaug og sú tilfærsla kann að nema 150–550 km á breiddargráðum miðja vegu milli miðbaugs og pólanna. Þetta mun hafa í för með sér samsvarandi tilfærslu á gróðurbeltum, vistkerfum og landbúnaðarframleiðslu. Vegna þess hve skamman tíma þessar breytingar munu taka verði ekkert að gert er líklegt að fjöldi tegunda dýra og plantna nái ekki að færa sig til eða aðlagast nýjum aðstæðum og muni þ.a.l. deyja út.
    Ekki er talið líklegt að loftslagsbreytingar muni hafa stórkostleg áhrif til hins verra á matvælaframleiðslu í heiminum, ef litið er á jörðina í heild, en á sumum svæðum kann að verða uppskerubrestur, sem gæti leitt til hungursneyðar. Aukið magn koltvíoxíðs í lofthjúpnum kann að auka ljóstillífun plantna og þ.a.l. uppskeru þegar til langs tíma er litið, en röskun á gróðurbeltum myndi vega upp á móti slíku á næstu öld. Ekki er talið að loftslagsbreytingar muni hafa umtalsverð áhrif á fiskafla í heiminum, en þó kunna að verða verulegar staðbundnar breytingar á stærð og hegðun fiskistofna, sem gætu haft veruleg áhrif á samfélög sem byggja afkomu sína á fiskveiðum. Meðalúrkoma er talin munu aukast, en stór svæði gætu þó þornað upp á meðan annars staðar yrði vætusamara og/eða snjóþyngra. Ferskvatnsöflun mun breytast í kjölfar breytinga á úrkomu og uppgufun. Tíðni tjóna á húsum og öðrum mannvirkjum er talin munu fara vaxandi, vegna sjávarflóða og aukinnar tíðni fellibylja og ofsaveðra sem talin er fylgja í kjölfar hlýnunar lofthjúpsins.
    Erfitt er að segja til um áhrif loftslagsbreytinga á heilsufar manna, en þó bendir flest til þess að afleiðingarnar verði einkum neikvæðar. Með aukningu á meðalhitastigi munu ýmis sníkjudýr og sjúkdómsberar breiðast út til nýrra staða. Nú er talið að um 45% mannkyns búi á svæðum þar sem moskító-flugur sem bera malaríu þrífast; á síðari helming næstu aldar er líklegt að það hlutfall hækki í 60%, sem gæti þýtt að 50–80 milljónir manna til viðbótar sýktust árlega. Loftslagsbreytingar munu hafa fjölmargar aðrar afleiðingar, beinar og óbeinar, á efnahagsstarfsemi, byggð og heilsufar fólks. Þeir jarðarbúar sem búa við mestan skort og fátækt munu væntanlega verða mest fyrir barðinu á afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum.
    Reynt hefur verið að spá fyrir um áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum fyrir einstök svæði á jörðinni, með aðstoð tölvulíkana, en slíkar spár eru eðli málsins samkvæmt háðar enn meiri óvissu en spár um meðaltalsáhrif loftslagsbreytinga á jörðinni. Flest líkön benda til þess að hlýnun verði mest á köldum meginlandssvæðum á norðurhveli jarðar að vetri til. Þannig gerir eitt spálíkan ráð fyrir að meðalhitastig í hluta Kanada og Síberíu muni hækka um 10° C að vetri til, en um 2° C á sumrin. Almennt er gert ráð fyrir að hlýnun verði hraðari á meginlöndum og fjarri sjó en yfir höfum og við strendur. Ekki er talið útilokað að aukin gróðurhúsa áhrif geti valdið snöggum og ófyrirséðum loftslagsbreytingum, svo sem með breytingum á hafstraumum.
    Ljóst er að mannkynið mun þurfa að grípa til aðgerða til að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga á komandi öld, óháð því hvort það tekst að stöðva aukningu á útstreymi gróðurhúsalofttegunda eða minnka það.

1.4. LOFTSLAGSSAMNINGUR SAMEINUDU ÞJÓDANNA
    Árið 1979 var haldið fyrsta Heimsþing um loftslag (First World Climate Conference), sem skoraði á ríki heims að „reyna að spá fyrir um og draga úr loftslagsbreytingum af manna völdum, sem gætu haft neikvæð áhrif á velferð mannkyns“. Árið 1988 settu Umhverfisstofnun S.þ. (UNEP) og Alþjóða veðurfræðistofnunin (WMO) á laggirnar Alþjóða vísindanefndina um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change — IPCC) til að gefa álit um loftslagsbreytingar og hugsanlegar aðgerðir til að bregðast við þeim. Álit nefndarinnar um að vísindarannsóknir styddu þá tilgátu að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru þegar hafnar og myndu líklega aukast á komandi áratugum varð til þess að annað Heimsþing um loftslag skoraði árið 1990 á þjóðir heims að gera alþjóðasamning um viðbrögð við loftslags breytingum. Undirbúningur að gerð slíks alþjóðasamnings hófst í desember það ár.
    Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (United Nations Frame work Convention on Climate Change — UNFCCC) var lagður fram til undirritunar á Heims ráðstefnu S.þ. um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 1992. Fulltrúar 156 ríkja, auk Evrópusambandsins rituðu undir samninginn í Ríó, en nú eru aðildarríki hans um 165 talsins. Samningurinn gekk í gildi 21. mars 1994, eftir að 50 ríki höfðu staðfest hann.
    Samkvæmt ákvæðum samningsins skuldbinda iðnvædd ríki sig sem heild til þess að grípa til aðgerða sem miða að því að reyna að auka ekki útblástur gróðurhúsalofttegunda, þannig að hann verði ekki meiri árið 2000 en árið 1990 (iðnvædd ríki eru tilgreind í Viðauka I við samninginn, en þau eru ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), auk ríkja Austur-Evrópu og fyrrum Sovétríkjanna). Þessi skuldbinding felur þó ekki í sér ákveðin losunarmörk fyrir einstök ríki. Iðnvæddu ríkin hafa skuldbundið sig til þess að veita þróunarríkjum fjár hagslega og tæknilega aðstoð til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þróunarríkin eru ekki skuldbundin til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda samkvæmt ákvæðum loftslagssamningsins, enda bera iðnríkin langmesta ábyrgð á núverandi útstreymi og hafa meira bolmagn og svigrúm til þess að draga úr útstreymi. Iðnríkin hafa skuldbundið sig til þess að taka reglulega saman upplýsingar um útstreymi gróðurhúsalofttegunda og þær aðgerðir sem viðkomandi ríki hyggst grípa til í samræmi við ákvæði loftslagssamningsins.
Í loftslagssamningnum er að finna leiðbeinandi ákvæði um hvaða grundvallarsjónarmið þurfi að hafa í huga við aðgerðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, þar á meðal eftirfarandi:
        gæta ber jafnræðis aðildarríkja,
        gæta verður hagsmuna komandi kynslóða jafnt sem núlifandi,
        huga þarf sérstaklega að þörfum og sérstöðu þróunarríkja
        aðgerðir skulu vera í samræmi við hagkvæmnisjónarmið, sjálfbæra þróun og opið alþjóðlegt efnahagskerfi.
    Markmið loftslagssamningsins er að draga úr uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúms loftinu þannig að magn þeirra stöðvist við mörk sem myndu koma í veg fyrir hættulegar breytingar á loftslagi af mannavöldum. Engin nákvæm skilgreining er þó til á því hver þau mörk skuli vera eða hve miklar breytingar þurfi að verða til þess að þær teljist „hættulegar“. Aðilar eru þó sammála um að með loftslagssamningnum sé ekki miðað að því að reyna að ná styrk gróðurhúsalofttegunda niður á sama stig og var fyrir iðnbyltingu — slíkt yrði enda tæknilega og efnahagslega óraunhæft — heldur að draga úr hraða breytinganna þannig að auðveldara verði fyrir vistkerfi og þjóðir heims að aðlagast breyttu loftslagi. Þannig er talið að hitabreyting um 3,5° C eða meira á næstu 100 árum muni verða of hröð til þess að margar tegundir trjáa geti aðlagað sig breyttum aðstæðum eða numið land á nýju kjörlendi, en hægari aukning á hitastigi auðveldar vistkerfum að aðlagast og/eða flytja sig um set í kjölfar breyttra umhverfisaðstæðna.
    Fyrsti sameiginlegi fundur aðildarríkja Rammasamningsins (COP-1) var haldinn í Berlín í mars/apríl 1995, en samkvæmt samningnum á að taka allar ákvarðanir um frekari útfærslu samningsins á slíkum fundum, sem haldnir skulu árlega. Í Berlín var ákveðið að stefna skyldi að því að setja ákveðin töluleg markmið um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í iðnríkjunum fyrir árin 2005, 2010 og 2020, en að engin mörk skyldi setja að svo stöddu fyrir þróunarríkin. Annar fundur aðildarríkjanna (COP-2) var haldinn í Genf í júlí 1996, en þar var m.a. ákveðið að þróunarríki skyldu halda bókhald um útstreymi gróðurhúsalofttegunda, á sama hátt og iðnríkin og skila því til skrifstofu UNFCCC í Bonn. Á þriðja fundi ríkjanna, sem halda á í Kyoto í Japan í desember nk. á m.a. að reyna að ákveða bindandi mörk um útstreymi einstakra aðildarríkja í byrjun næstu aldar í samræmi við ákvörðun COP-1 og má segja að þar sé stefnt að metnaðarfyllstu og erfiðustu ákvörðun um framfylgd Rammasamningsins hingað til.

2. Útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
    Í þessum kafla er fjallað um útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi á árunum 1990–1995. Stuðst er við útreikninga Hollustuverndar ríkisins, sem reiknar út útstreymi gróðurhúslofttegunda á Íslandi í samræmi við reglur sem Alþjóða vísindanefndin um loftslags breytingar (IPCC) hefur sett.
    Einkum er fjallað hér um útstreymi eftirtaldra lofttegunda, sem valda beinum gróður húsaáhrifum: Koltvíoxíðs (CO2), metans (CH4), tvíköfnunarefnisoxíðs (N2O), vetnisflúor kolefna (HFC) og flúorkolefna (PFC). Einnig er stuttlega fjallað um útstreymi sk. óbeinna gróðurhúsalofttegunda, þ.e. köfnunarefnisoxíða (NOx), koloxíðs (CO) og rokgjarnra lífrænna efna. Þessar lofttegundir eru taldar geta haft óbein áhrif á hitabúskap lofthjúpsins, en ekki í jafn miklum mæli og hinar fyrrnefndu, þannig að ekki er gert ráð fyrir takmörkunum á útstreymi þeirra í loftslagssamningi S.þ. Einnig er fjallað um útstreymi brennisteinsoxíða (SOx) og sexflúorbrennisteins (SF6).
    Útstreymi gróðurhúsalofttegunda er flokkað eftir uppsprettum í eftirfarandi sex flokka, í samræmi við vinnureglur IPCC: orkuvinnslu, iðnaðarferli, útgufun leysiefna, landbúnað, skógarhögg og landnotkun, úrgang og fráveituvatn. Þessum aðalflokkum er síðan skipt í smærri flokka. Einum flokki hefur verið bætt við uppsprettuflokkun IPCC — útstreymi frá jarðhitavirkjunum — þar sem virkjun jarðhita eykur útstreymi jarðgufu og þeirra lofttegunda sem eru til staðar í henni.
    Í samræmi við þær reglur sem IPCC hefur sett, er útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna alþjóðasamgangna, þ. á m. útstreymi vegna eldsneytisbrennslu skipa og flugvéla í millilanda samgöngum ekki tekið með í útreikningum á heildarútstreymi frá Íslandi en er gefið upp sérstaklega í skýrslu Íslands til skrifstofu loftslagssamningsins.

2.1. ÚTSTREYMI EINSTAKRA GRÓDURHÚSALOFTTEGUNDA
2.1.1. Útstreymi koltvíoxíðs.

    Útstreymi koltvíoxíðs af mannavöldum á Íslandi var 2.147 þúsund tonn árið 1990. Í þeirri tölu er ekki tekið með útstreymi vegna alþjóðasamgangna. Helsta uppspretta koltvíoxíðs var eldsneytisbrennsla, með um 78% af heildarútstreymi, en 18% útstreymis var vegna iðnaðar ferla. Útstreymi koltvíoxíðs vegna virkjunar jarðvarma var áætlað um 4% af heildarútstreymi af mannavöldum. Ef nánar er farið ofan í saumana á útstreymi eftir starfsemi, þá kemur í ljós að stærsti hluti útstreymis CO2 var frá fiskiskipum, rúmlega 30% af heildarútstreyminu. Útstreymi vegna vegasamgangna var nálægt því jafn mikið, eða um 29%. Eldsneytisbrennsla vegna iðnaðar veldur um 11% útstreymis, en þar munar mestu um fiskimjölsverksmiðjur og Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Það er áberandi að farartæki (skip, bifreiðar og flugvélar í innanlandsflugi) leggja til nærri tvo-þriðju hluta af heildarútstreymi (eða 64%), á meðan önnur eldsneytisbrennsla og iðnaðarferli leggja til 36%. Hlutur samgangna í losun gróður húsalofttegunda er óvenju mikill á Íslandi, samanborið við önnur lönd og kemur þar einkum til hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á öðrum sviðum, svo sem húshitun og rafmagns framleiðslu.
    Árið 1995 hafði útstreymi koltvíoxíðs á Íslandi aukist um 6% miðað við útstreymið árið 1990 og var 2.282 þúsund tonn. Útstreymi CO2 frá fiskiskipaflotanum jókst um 18% á tíma bilinu frá 1990 til 1995, aukning vegna samgangna á landi var 8% og aukning vegna iðnaðar ferla var 9%.
    Ef útstreymi CO2 á Íslandi er borið saman við útstreymi ríkja í Efnahags- og framfara stofnuninni (OECD) sést að það er um 30% minna hér á landi, eða um 8,5 tonn á íbúa borið saman við 12 tonn. Á hinn bóginn er útstreymið nálægt því hið sama og er að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins. Hér að neðan sést samanburður á útstreymi CO2 (mælt í tonnum á íbúa) á Íslandi og í nokkrum helstu iðnríkjum heims árið 1990:

    Lúxemborg          28,9
    Bandaríkin          19,8
    Kanada          16,7
    Ástralía          16,2
    Þýskaland          12,8
    Belgía          11,4
    Holland          11,2
    Finnland          10,8
    Bretland          10,1
    Danmörk          10,1
    Japan          9,1
    Írland          8,8
    Ísland          8,6
    Noregur          8,5
    Grikkland          8,0
    Austurríki          7,7
    Ítalía          7,5
    Nýja Sjáland          7,4
    Frakkland          6,7
    Sviss          6,6
    Svíþjóð          6,4
    Spánn          5,8
    Portúgal          4,3

    Útstreymi koltvíoxíðs jókst í flestum vestrænum ríkjum á tímabilinu 1990–1994, samkvæmt tölum frá skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Hér að neðan sést breyting á útstreymi CO2 í nokkrum iðnvæddum ríkjum á þessu tímabili. Í þeim tilvikum þar sem ríki eru merkt með stjörnu (*) eru tölurnar fengnar frá Evrópusambandinu, en ekki skrifstofu loftslagssamningsins.

    Danmörk          21%
    *Portúgal          14%
    *Spánn          10%
    Finnland          8%
    Nýja Sjáland          8%
    *Grikkland          7%
    Japan          7%
    Noregur          6%
    Holland          5%
    Ísland          5%
    Kanada          5%
    Bandaríkin          3%
    *Írland          3%
    *Austurríki          -2%
    *Ítalía          -2%
    Bretland          -4%
    Sviss          -4%
    *Frakkland          -5%
    Svíþjóð          -5%
    *Þýskaland          -10%
    Eistland          -43%

2.1.2. Útstreymi metans.
    Heildarútstreymi metans (CH4) á Íslandi var áætlað um 14 þúsund tonn árið 1990. Helsta uppspretta metanútstreymis var vegna landbúnaðar, eða um 85%. Þar munaði langmest um metan frá meltingarstarfsemi búfjár, en einnig er nokkurt útstreymi frá búfjárúrgangi. Aðrar uppsprettur metans voru vegna urðunar úrgangs, eða um 13% heildarútstreymis og frá eldsneytisbrennslu, um 2% af heildinni.
    Árið 1995 var útstreymi metans tæplega 14 þúsund tonn, örlítið minna en 1990. Helsta ástæðan fyrir þessari minnkun var fækkun búfjár, sérstaklega sauðfjár.

2.1.3. Útstreymi tvíköfnunarefnisoxíðs.
    Útstreymi tvíköfnunarefnis (N2O) árið 1990 var 410 tonn. Talið er að notkun tilbúins áburðar og búfjáráburðar leggi til rétt rúman helming af heildarútstreymi, en óvissan í útreikn ingum á útstreymi af þessum völdum er stór. Áburðarframleiðsla er talin valda 38% útstreymis, fiskiskipaflotinn um 4% og farartæki 4%.
    Árið 1995 var útstreymi tvíköfnunarefnisoxíðs um 390 tonn, sem er lítilsháttar minnkun frá 1990. Nokkur breyting varð á hlutfalli einstakra uppsprettna í heildarútstreymi; þannig jókst hlutur farartækja upp í 10% af heildarútstreymi vegna aukinnar notkunar hvarfakúta.

2.1.4. Útstreymi vetnisflúorkolefna.
    Útreikningar á útstreymi vetnisflúorkolefna (HFC) eru byggðir á tölum um innflutning slíkra efna. Fyrir árið 1992 var enginn innflutningur á slíkum efnum, en frá þeim tíma hefur innflutningur þeirra aukist hröðum skrefum, þar sem þau koma í stað efna (einkum CFC), sem talin eru valda eyðingu ósonlagsins. Árið 1995 voru flutt inn 10,5 tonn af HFC.

2.1.5. Útstreymi flúorkolefna.
    Álbræðsla er eina uppspretta útstreymis flúorkolefna (PFC) á Íslandi. Árið 1990 var áætlað að um 45 tonn af PFC hafi verið losuð, en nokkur óvissa er um þá tölu. Mikil áhersla hefur verið lögð á að draga úr þeim ferlum, sem valda myndun PFC í álframleiðslunni. Árið 1995 er talið að útstreymi PFC hafi dregist saman um meira en 80% hér á landi frá því sem var árið 1990 vegna slíkra aðgerða.

2.1.6. Sexflúorbrennisteinn.
    Sexflúorbrennisteinn (SF6) finnst í ýmsum raftækjum. Talið er að heildarmagn efnisins á Íslandi sé um 11 tonn og að um 200–250 kg leki út á ári.

2.2. ÚTSTREYMI ÓBEINNA GRÓDURHÚSALOFTTEGUNDA
2.2.1. Útstreymi köfnunarefnisoxíða.

    Árið 1990 var útstreymi köfnunarefnisoxíða (NOx) áætlað yfir 26 þúsund tonn. Þar af var 61% rakið til fiskiskipaflotans, 28% til farartækja og véla og tæplega 6% til vöruflutninga með skipum innanlands. Um 2% útstreymis var rakið til iðnaðarferla og um 1,5% vegna brennslu lífræns efnis (aðallega vegna starfsemi Kísilgúrverksmiðjunnar).
    Árið 1995 hafði útstreymi NOx aukist í rúmlega 28 þúsund tonn, sem er 8% aukning frá 1990. Þessi aukning stafar af aukinni eldsneytisbrennslu fiskiskipaflotans, en útstreymi NOx frá honum jókst um 18% á tímabilinu 1990–1995. Útstreymi frá farartækjum dróst á hinn bóginn lítillega saman vegna aukinnar notkunar hvarfakúta.

2.2.2. Útstreymi koloxíðs.
    Árið 1990 var heildarútstreymi koloxíðs (CO) áætlað um 58 þúsund tonn. Langstærsta uppspretta koloxíðs var eldsneytisbrennsla farartækja og véla, eða um 95% heildarútstreymis. Fiskiskipaflotinn lagði til tæp 3% af útstreymi CO og brennsla úrgangs um 2%.
    Árið 1995 var útstreymi koloxíðs verulega minna en árið 1990, eða um 49 þúsund tonn. Ástæðan er fyrst og fremst aukin notkun hvarfakúta í bifreiðum, en einnig hefur dregið úr brennslu úrgangs með opinni sorpbrennslu.

2.2.3. Útstreymi rokgjarnra lífrænna efna.
    Útstreymi rokgjarnra lífrænna efna annarra en metans var áætlað nærri 13 þúsund tonn árið 1990. Útstreymi frá farartækjum var um 76% af heildarútstreymi, frá notkun lífrænna leysi efna um 20% og frá fiskiskipum tæp 4%.
    Árið 1995 nam útstreymið um 12 þúsund tonnum. Minnkunin skýrist fyrst og fremst af aukinni notkun hvarfakúta í bifreiðum.

2.2.4. Útstreymi brennisteinsoxíða.
    Heildarútstreymi brennisteinsoxíða (einkum brennisteinstvíoxíðs, SO2) var um 24 þúsund tonn árið 1990. Það er talið að tvo þriðju hluta útstreymisins megi rekja til útblásturs brenni steinsvetnis (H2S) í gufu frá jarðhitavirkjunum. Í þessu sambandi ber að taka það fram að mikil óvissa er í áætlunum um útstreymi gufu frá jarðhitavirkjunum og í hvaða mæli brenni steinsvetni ummyndast í brennisteinsoxíð. Aðrar uppsprettur SO2 eru iðnaðarferli (um 13% af heildarútstreymi), eldsneytisbrennsla vegna iðnaðar (11%) og fiskiskipaflotinn (um 7%).
    Árið 1995 var útstreymi brennisteinsoxíða áætlað álíka mikið og árið 1990. Útstreymi frá fiskiskipaflotanum jókst um 50% frá árinu 1990.

2.3. HEILDARÚTSTREYMI GRÓDURHÚSALOFTTEGUNDA
    Árið 1990 var heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi jafngildi 2.730 þúsund tonna af koltvíoxíði. Þessi tala er reiknuð þannig út að gróðurhúsaáhrif fimm lofttegunda (CH4, N2O, HFC, PFC og SF6) eru reiknuð út sem ígildi koltvíoxíðs og þeim ígildum síðan bætt við útstreymi koltvíoxíðs. Árið 1990 var ekkert útstreymi HFC, þar sem þau efni voru ekki flutt inn til landsins fyrr en 1992.
    Árið 1995 jafngilti áætlað heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda 2.640 þúsund tonnum af koltvíoxíði, sem var um 3% minnkun frá 1990.

2.4. UPPTAKA KOLEFNIS
    Landgræðsla og skógrækt eru kappsmál Íslendinga vegna aldalangrar jarðvegs- og gróðureyðingar í landinu, ennfremur eru miklir möguleikar á að auka um leið kolefnisupptöku í gróðri í viðbót við það sem þegar er gert á því sviði. Ríkisstjórnin hefur með samþykkt fram kvæmdaáætlunar sinnar um aðgerðir til þess að draga úr loftslagsbreytingum hrundið af stað áætlun sem miðar að því að auka bindingu koltvíoxíðs um 100.000 tonn á ári fram til ársins 2000 frá því sem var árið 1990. Áætlunin miðar meðal annars að því að sá lúpínu og grasi og dreifa áburði, auk aukinnar skógræktar.
    Áætlað hefur verið hvað algengustu landgræðslu- og skógræktaraðgerðir leiða almennt af sér mikla bindingu koltvíoxíðs. Þar var einnig tekið tillit til bindingar kolefnis í jarðvegi vegna uppsöfnunar lífræns forða. Við þessa útreikninga var stuðst við leiðbeiningar IPCC.

Árleg binding
tonn CO2/ha
Lúpína á snauðu landi
3.0
Almenn landgræðsla
2.5
Almenn skógrækt
    2.0
Nytjaskógur
    
5.0


    Lagt hefur verið mat á umfang nýrra uppgræðslu- og skógræktaraðgerða síðan 1991 og reiknað hvað þær leiða til mikillar bindingar koltvíoxíðs. Þar eru ekki teknar með aðgerðir sem tengjast stöðvun hraðfara jarðvegseyðingar.


ha
Árleg binding
tonn CO2
    Lúpína á snauðu landi
3000 9000
    Almenn landgræðsla
7200 18000
    Almenn skógrækt
3600 7200
    Nytjaskógur     
2500 12500
    Alls
16300 46700

    Miðað við óbreyttan framkvæmdahraða til aldamóta má gera ráð fyrir að árleg binding vegna nýrrar ræktunar 1991–2000 verði 77.800 tonn koltvíoxíðs. Það þarf því að bæta við núverandi ræktun nýrri ræktun sem bindur 22.200 tonn svo markmið framkvæmdaáætlunar innar náist. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita 450 millj. kr. til viðbótar því sem verið hefur svo þau markmið náist. Því má ætla að árið 2000 verði árleg binding koltvíoxíðs um 100 þús. tonnum meiri en hún var árið 1990.

3. Losunarspár og aðgerðir Íslands gegn loftslagsbreytingum.
    Í þessum kafla er fjallað stuttlega um spár um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi í nánustu framtíð og til hvaða aðgerða hægt er að grípa til þess að draga úr losun þeirra. Hér verður aðeins stiklað á stóru í þessu sambandi, en nánari útfærsla á spám um losun gróðurhúsalofttegunda er að m.a. að finna í töflum í skýrslu Íslands til UNFCCC (Second Status Report for Iceland pursuant to the United Nations Framework Convention on Climate Change).

3.1. KOLTVÍOXÍD
    Árið 1990 nam útstreymi koltvíoxíðs á Íslandi 2.147 þúsund tonnum. Í útstreymisspá, sem unnin er af Hollustuvernd ríkisins samkvæmt leiðbeiningum frá UNFCCC, er gert ráð fyrir að útstreymi CO2 árið 2000 nemi um 2.697 þúsund tonnum (aukning um 26% frá 1990). Út streymi CO2 verður samkvæmt spánni um 2.893 þúsund tonn árið 2010 (35% aukning frá 1990) og 2.944 þúsund tonn árið 2020 (37% aukning).
    Ef aðeins er litið á útstreymi koltvíoxíðs vegna orkuvinnslu, þ.e. útstreymi vegna iðnaðar ferla undanskilið, þá var það 1.753 þúsund tonn árið 1990. Í útstreymisspá er gert ráð fyrir að útstreymi CO2 vegna orkuvinnslu verði 1.957 þúsund árið 2000 (aukning um 12% frá 1990), 2.153 þúsund tonn árið 2010 (23% aukning frá 1990) og 2.203 þúsund tonn árið 2020 (26% aukning).
    Í spánni er gert ráð fyrir verulegri aukningu á útstreymi vegna iðnaðarferla vegna aukinnar stóriðju: nýs álvers Norðuráls á Grundartanga og stækkunar álversins í Straumsvík og járn blendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Einnig er gert ráð fyrir aukningu á útstreymi CO2 vegna samgangna og fiskveiða. Gert er ráð fyrir að útstreymi CO2 vegna orkuframleiðslu til annarra en farartækja muni minnka, en þetta mun hafa lítil áhrif vegna þess að slík orkufram leiðsla var óveruleg árið 1990.
    Á árunum 1990–2000 er gert ráð fyrir 89% aukningu á CO2-útstreymi vegna iðnaðarferla. Spáð er 12% aukningu á útstreymi CO2 vegna bruna eldsneytis. Þar af mun útstreymi frá fiski skipaflotanum aukast um 22% og um 17% vegna samgangna á landi. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að samdráttur verði á losun CO2 vegna innanlandsflugs, rafmagnsframleiðslu og orkuvinnslu til iðnaðar.
    Meðal aðgerða til að draga úr losun og auka upptöku CO2 má nefna:
*    Kolefnisupptaka. Ríkisstjórnin ákvað árið 1996 að veita 450 milljónum króna til landgræðslu og skógræktar í því skyni að auka upptöku koltvíoxíðs úr andrúmslofti, þannig að hún verði 100.000 tonnum meiri árið 2000 en árið 1990.
*    Breytingar á skattlagningu eldsneytis og bifreiða. Á komandi ári verður tekin upp breytt skattlagning á eldsneyti og þungaskattur lagður af. Þessi breyting er talin nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að leggja á skatt á koltvíoxíðútstreymi, en engin ákvörðun um slíka skattlagningu liggur þó ennþá fyrir. Hugmyndir um skattlagningu á eldsneytisnotkun bifreiða í stað virðisaukaskatts og innflutningsgjalda hafa verið til skoðunar, sömuleiðis hugmyndir um undanþágu gjalda fyrir rafmagnsbíla og rafgeyma í þá.
*    Rafmagn til skipa í höfnum. Sala á rafmagni til skipa í höfnum hefur aukist úr 8 GWh árið 1992 í 14 GWh árið 1995, sem svarar til um 1.500 tonna sparnaðar á gasolíu. Óvíst er hvort hægt sé að ná umtalsvert betri árangri á þessu sviði, en starfshópur á vegum sjávarútvegs ráðherra vinnur nú að því að meta heildareftirspurn eftir rafmagni í höfnum og hvort unnt sé að mæta henni.
*    Aðgerðir til að draga úr útstreymi frá fiskiskipaflotanum. Vinnuhópur í sjávarútvegsráðuneyti skoðar nú hugmyndir um að auka hagkvæmni veiða og draga úr eldsneytiseyðslu fiskiskipa á heimamiðum jafnt sem á fjarlægum miðum. Vonast er til að aukinn afli vegna betra ástands helstu nytjastofna leiði ekki til aukinnar eldsneytisnotkunar, heldur dragi úr eldsneytisnotkun á sóknareiningu.
*    Aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Stjórnvöld hafa lagt á það áherslu á undanförnum árum og áratugum að auka hlut jarðvarma og rafmagns frá endurnýjanlegum orkulindum á kostnað jarðefnaeldsneytis, með þeim árangri að nú eru einungis tæp 2% húsa hituð með olíu. Afsláttur á verði ótryggðs rafmagns til rafskautakatla í fiskimjölsverksmiðjum, sem fyrst var veittur árið 1993, hefur leitt til þess að nú eru um 111 GWh seldar til verksmiðja sem hafa breytt úr olíu í rafmagn, sem samsvarar 11–12 þúsund tonnum minni notkunar svartolíu. Möguleikar eru á að auka hlut rafmagns á þessu sviði enn frekar.
*    Orkusparnaður í samgöngum og iðnaði. Starfshópar í samgöngu- og iðnaðarráðuneytum vinna nú að tillögum um orkusparnað á sínum sviðum.
*    Útstreymi frá iðnaðarferlum. Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga hefur verið að draga úr notkun kola, en brenna í þeirra stað úrgangstimbri, sem telst endurnýjanlegur orkugjafi (lífmassi) og er ekki tekið með í útreikningum á heildarútstreymi Íslands.

3.2. METAN
    Útstreymi metans var um 14 þúsund tonn árið 1990. Útstreymisspá gerir ráð fyrir lítilsháttar minnkun á losun metans í náinni framtíð, þar sem búist er við minnkun sorpmagns sem fer til urðunar vegna aukinnar endurvinnslu og endurnýtingar og ekki er búist við miklum breytingum á fjölda búfjár.
    Aðgerðir sem miða að því að draga úr losun metans eru eftirfarandi:
*    Söfnun metans hófst hjá Sorpu bs. á urðunarstað á Álfsnesi í lok árs 1996. Búist er við að innan nokkurra ára muni um 1.500 tonn af metani verða safnað á Álfsnesi, eða um 10% losunar á Íslandi. Þetta myndi þýða minnkun útstreymis sem svarar um 16,5 þúsund tonnum af koltvíoxíði.
*    Aukin endurvinnsla mun væntanlega minnka sorpmagn til urðunar og þar með útstreymi metans frá urðunarstöðum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur hlutfall úrgangs sem er endur unninn aukist úr 8% árið 1990 í yfir 37% árið 1996. Stjórnvöld stefna að því að helmingur úrgangs verði endurunninn árið 2000. Í því skyni verður m.a. reynt að auka endurvinnslu á pappír og lífrænum úrgangi.

3.3. TVÍKÖFNUNAREFNISOXÍD
    Útstreymi tvíköfnunarefnisoxíðs var um 400 tonn árið 1990. Ekki er búist við miklum breytingum á losun N2O á næstu árum, en talið er að notkun köfnunarefnisáburðar, sem leggur til obbann af útstreyminu, muni standa í stað eða aukast eitthvað. Útstreymi á N2O mun aukast eitthvað með aukinni notkun hvarfakúta, en þetta mun þó ekki hafa mikil áhrif. Engar sér stakar aðgerðir eru ráðgerðar til þess að takmarka útstreymi þessarrar lofttegundar.

3.4. FLÚORKOLEFNI
    Útstreymi flúorkolefna á Íslandi nam um 45 tonnum árið 1990, en var aðeins um 11 tonn árið 1995, vegna uppsetningar nýs tæknibúnaðar og bættrar stýringar í álveri ÍSAL í Straumsvík. Stækkun álversins og starfsemi álvers Norðuráls mun valda aukningu á útstreymi flúorkolefna, en það mun þó verða minna en árið 1990.

3.5. VETNISFLÚORKOLEFNI
    Notkun og útstreymi vetnisflúorkolefna (HFC) var að því að best er vitað engin árið 1990. Því er hins vegar spáð að notkun þessarra efna fari vaxandi, þannig að þau verði verulegur þáttur í gróðurhúsaáhrifum af mannavöldum í byrjun næstu aldar. Ástæðan fyrir því er sú að samkvæmt alþjóðasamningum um takmörkun á losun ósoneyðandi efna ber að hætta notkun efna á borð við klórflúorkolefni (CFC) og vetnisklórflúorkolefni (HCFC). Á næstu árum mun íslenski fiskiskipaflotinn því taka upp notkun á vetnisflúorkolefnum (HFC), sem ekki eru skaðleg ósonlaginu, en valda á hinn bóginn gróðurhúsaáhrifum. Mikilvægt er að reyna að finna efni, sem hvorki valda gróðurhúsaáhrifum eða skaða ósonlagið og mun starfshópur í sjávarútvegsráðuneytinu m.a. kanna möguleika á því að draga úr fyrirsjáanlega vaxandi notkun á HFC. Reglugerð um notkun og losun þessarra efna verður væntanlega sett innan skamms, en markmið hennar er að draga úr útstreymi þeirra.

3.6. ÓBEINAR GRÓDURHÚSALOFTTEGUNDIR
    Búist er við að útstreymi koloxíðs og rokgjarnra lífrænna efna minnki á komandi árum vegna aukinnar notkunar á hvarfakútum. Vegagerð ríkisins hyggst reyna að draga úr notkun og þar með losun rokgjarnra lífrænna efna við vegagerð og lofa niðurstöður tilrauna í þá veru góðu.

3.7. HEILDARÚTSTREYMI GRÓDURHÚSALOFTTEGUNDA
    Heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi var árið 1990 um 2.730 þúsund tonn, mælt í ígildum koltvíoxíðs. Árið 1995 var heildarútstreymið um 2.640 þúsund tonn, sem er um 3,3% samdráttur síðan 1990. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 1996 var útstreymi þá 2.694 þúsund tonn, sem þýðir um 1,3% samdrátt frá 1990.
    Heildarútstreymi árið 2000 er áætlað 3.161 þúsund tonn árið 2000 (16% aukning frá 1990), 3.445 þúsund tonn árið 2010 (26% aukning), 3.675 þúsund tonn árið 2020 (35% aukning) og 3.821 þúsund tonn árið 2025 (um 40% aukning). Þessi útstreymisspá er byggð á orkuspá og upplýsingum um aukið útstreymi vegna þegar samþykktrar stóriðju, en í henni er ekki gert ráð fyrir nýjum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka upptöku koltvíoxíðs, sem kunna að koma til framkvæmda á næstu árum.

3.8. ÞRÓUNARADSTOD OG ALÞJÓDLEG SAMVINNA
    Framlög Íslendinga til þróunarhjálpar hafa numið um 0,1% af þjóðarframleiðslu undan farin ár, en yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar er að auka framlög þannig að þau nemi 0,3–0,4% af þjóðarframleiðslu árið 2000. Samkvæmt framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verður áhersla lögð á aðstoð á sviði jarðhitanýtingar og endurheimt gróðurlendis.
    Íslendingar geta líklega lagt einna mest af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsaloft tegunda á alþjóðavettvangi með því að aðstoða þróunarríki og önnur ríki við að nýta jarðhita til orkuvinnslu. Jarðhitaskóli S.þ. hefur starfað á Íslandi síðan 1979 og leggja íslensk stjórn völd til um 80% fjármagns. Auk þessa hafa íslenskir aðilar aðstoðað við uppsetningu jarð varmaveitna í Kína, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og fleiri ríkjum.

    Líklegt er að í nýjum viðauka við samninginn verði að finna ákvæði um sameiginlega framkvæmd, þar sem iðnríkin geta í stað þess að minnka losun í eigin landi tekið þátt í verkefnum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, sem leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda og fengið það viðurkennt til frádráttar á losun í eigin landi.
    Íslendingar búa yfir umtalsverðri þekkingu á jarðvegseyðingu og aðferðum við að stemma stigu við henni. Samkvæmt framkvæmdaáætluninni um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum mun Þróunarsamvinnustofnun Íslands leitast við að bjóða fram aðstoð íslenskra sérfræðinga á sviði gróðureyðingar og landgræðslu í verkefnum á þessu sviði í þróunarríkjum. Nú í september var haldin hér á landi alþjóðleg ráðstefna um eyðimerkurmyndun og jarðvegs eyðingu, þar sem þátttakendum gafst tækifæri á að bera saman orsakir og afleiðingar gróður eyðingar við ólíkar aðstæður og kynnast þeim aðferðum sem hér hafa verið notaðar við að hefta gróðureyðingu og endurheimta landgæði.

4. Áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi

    Mikil óvissa ríkir um hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum á Íslandi. Niðurstaða nýlegra útreikninga benda til þess að líkur séu til þess að hlýnun á norðanverðu Atlantshafi, þ.m.t. Íslandi, verði heldur minni en annars staðar á svipuðum breiddargráðum.
    Ísland liggur á hafsvæði þar sem mætast kaldir og hlýir haf- og loftstraumar. Hugsanlegar breytingar á hafstraumum og veðrakerfum, þar á meðal lægðabrautum, gætu því haft umtals verðar afleiðingar fyrir Íslendinga. Spálíkön um veðurfarsbreytingar eru að svo stöddu ekki nægjanlega fullkomin til þess að hægt sé að gefa út nákvæmar spár fyrir einstök haf- og land svæði og óvissumörk eru fremur há hvað varðar Ísland og hafið í kring. Samkvæmt niður stöðum norræns rannsóknarverkefnis um veðurfarsbreytingar og orkuvinnslu, þá er talið hugsanlegt að meðalhiti á sumrum á Íslandi aukist á næstu áratugum sem svarar um 0,25° C á áratug og að meðalhiti á veturna aukist um 0,35° á áratug. Þessum spám ber að taka með varúð, þar sem óvissumörk eru mjög há. Talið er líklegast að einhver hlýnun eigi sér stað næstu áratugi á Íslandi, en það er þó ekki talið útilokað að veðurfarsbreytingar hafi í för með sér kólnun hér á landi. Eitt helsta áhyggjuefni Íslendinga varðandi loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hugsanlegar afleiðingar þeirra á hafstraumakerfi jarðar og Golf-strauminn, sem veldur því að meðalhiti á Íslandi er mun meiri en búast mætti við miðað við hnattstöðu landsins.
    Vegna hinnar miklu óvissu um hvaða áhrif veðurfarsbreytingar af mannavöldum kynnu að hafa á Íslandi, hefur ekki verið ráðist í gerð áætlana um hvernig bregðast skuli við þeim. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að auka rannsóknir og vöktun, til þess að byggja hugsanlegar aðlögunaraðgerðir á. Sérstök áhersla verður lögð á rannsóknir á því hver áhrif veðurfars breytinga á hafsvæðið í kringum Ísland og þar með á fiskigengd kunni að verða.

4.1. FISKVEIDAR
    Að svo stöddu er talið ákaflega erfitt að spá um hugsanlegar afleiðingar veðurfarsbreytinga af mannavöldum á fiskistofna og fiskveiðar í kringum Ísland og á nálægum hafsvæðum. Hitt er ljóst að allar breytingar á hafstraumum og hitastigi sjávar myndu hafa miklar afleiðingar á alla grunnþætti sem hafa áhrif á fiskveiðar, svo sem frumframleiðslu (ljóstillífun þörunga) í hafinu, útbreiðslu einstakra fiskistofna, fiskigöngur og staðsetningu hrygningarstöðva. Þetta sést glöggt á þeirri staðreynd að breytingar á ytra umhverfi hafa haft veruleg áhrif á viðkomu og hegðun fiskistofna á Íslandsmiðum á þessari öld.
    Vegna mikilvægi fiskveiða fyrir afkomu Íslendinga hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka rannsóknir á beinum og óbeinum áhrifum hugsanlegra loftslagsbreytinga á fiskimiðin, í því skyni að auðvelda aðlögun að þeim.

4.2. HÆKKUN SJÁVARBORDS
    Hugsanleg hækkun á sjávarborði vegna hlýnunar lofthjúpsins er nokkurt áhyggjuefni fyrir Íslendinga, enda býr mikill meirihluti landsmanna við ströndina eða skammt frá henni. Hækkun sjávarborðs gæti valdið töluverðum skaða vegna aukinnar tíðni sjávarflóða og skemmda sem þau gætu valdið á höfnum, vegum og öðrum mannvirkjum.
    Sjávarflóð hafa valdið umtalsverðu tjóni í bæjum við suðurströndina og á fleiri stöðum undanfarna áratugi. Í sumum bæjum þyrfti líklega að grípa til sérstakra aðgerða til þess að vernda þá gegn sjávarflóðum, jafnvel þó að hækkun sjávarborðs yrði ekki mikil. Auk hættu á tíðari og skaðlegri sjávarflóðum gæti hækkun á yfirborði sjávar valdið því að rof af völdum sjávar ykist, einkum við suðurströndina.

4.3. LANDBÚNADUR OG SKÓGRÆKT
    Sveiflur í veðurfari hafa umtalsverð áhrif á landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Hugsanlegar afleiðingar veðurfarsbreytinga af mannavöldum á íslenskan landbúnað voru kannaðar af íslenskum vísindamönnum í tengslum við verkefni, sem unnið var fyrir Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Athugun þeirra leiddi í ljós að hlýnun sem svaraði um 1,3 °C gæti leitt til 16–19% aukningu á heyframleiðslu á Íslandi. Ekki var reiknað með öðrum hugsanlegum áhrifum loftslagsbreytinga á einstaka þætti veðurfars, svo sem úrkomu, vinda og skýjafars.
    Búast mætti við því að aukning meðalhita á Íslandi myndi verða til þess að ýmsar plágur (skordýr og plöntusjúkdómar) myndu færast í vöxt í landbúnaði.

4.4. VATNSORKA OG RAFORKUFRAMLEIDSLA
    Í tengslum við norrænt rannsóknarverkefni um loftslagsbreytingar og orkuvinnslu var reynt að meta hvaða áhrif hugsanleg hlýnun kynni að hafa á vatnsbúskap og raforkuvinnslu á Íslandi. Talið var að áhrifin yrðu einkum þau að möguleikar til raforkuframleiðslu myndu aukast, vegna bráðnunar jökla og aukins rennslis í jökulám.

5. Samningaviðræður um að styrkja ákvæði loftslagssamningsins.
5.1. ADDRAGANDI
    Á fyrsta þingi aðildarríkja Rammasamnings S.þ. um loftslagsbreytingar sem haldið var í Berlín 28. mars til 7. apríl 1995, var niðurstaðan að núverandi ákvæði samningsins væru ekki fullnægjandi ef ná ætti markmiðum hans og var því samþykkt að hefja samningaviðræður um ráðstafanir til að styrkja ákvæði samningsins og efla framkvæmd hans eftir árið 2000. Í ákvörðun þingsins segir að stefnt sé að því að samningaviðræðurnar leiði til niðurstöðu þar sem skuldbindingar til handa aðildarríkjum sem skráð eru í Viðauka I við samninginn (þ.e. OECD-ríkin og ríki Austur-Evrópu) verði auknar með ákvæðum um:
—stefnumörkun og aðgerðir,
    mælanlegar takmarkanir eða samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og bindingu gróðurhúsalofttegunda, miðað við tilgreind ártöl, svo sem árin 2005, 2010 og 2020.
Í ákvörðuninni segir að m.a. skuli taka mið af mismunandi upphafsstöðu aðila, tækni sem tiltæk er og öðrum kringumstæðum sem og þörfinni á sanngjörnu og viðeigandi framlagi frá hverju og einu aðildarríkjanna.
    Í ákvörðuninni segir ennfremur að samningaviðræðurnar skuli ekki fela í sér auknar skuldbindingar þróunarríkja, en að leitað skuli leiða til að efla framkvæmd þeirra aðgerða sem tilgreindar eru í grein 4.1 í Rammasamningnum (í grein 4.1 eru ýmis ákvæði sem varða öll aðildarríki samningsins).
    Með ákvörðuninni var stofnuð sérstök samninganefnd (Ad-hoc Group on the Berlin Mandate – AGBM) sem kom saman í fyrsta sinn í ágúst 1995. Áttundi og síðasti fundur nefndarinnar er fyrirhugaður í október 1997. Niðurstöður samningaviðræðna verða lagðar fyrir þing aðildarríkjanna sem haldið verður í Kyoto í desember nk.

5.2. ÁHERSLUATRIDI ÍSLENSKRA STJÓRNVALDA
    Íslensk stjórnvöld skrifuðu undir Rammasamninginn þegar hann var lagður fram til undirritunar í Ríó de Janeiro í júní 1992. Tillaga um fullgildingu samningsins var lögð fyrir 116. löggjafarþing og var hún samþykkt og Ísland varð 26. aðildarríki samningsins á árinu 1994.
    Þátttaka Íslands í samningaviðræðunum eftir fyrsta fund aðildarríkjanna kom til sérstakrar umfjöllunar í ríkisstjórninni um mitt ár 1995 og var þá ákveðið að taka virkan þátt í viðræðunum með áherslu á eftirfarandi atriði:
—að nýjar skuldbindingar taki til allra gróðurhúsategunda og aðgerðir til að binda kolefni í jörðu og gróðri verði metnar jafngildar aðgerðum til að draga úr losun,
—að tekið verði tillit til sérstakra aðstæðna einstakra ríkja, sérstaklega ríkja sem mæta orkuþörf sinni að verulegu leyti með endurnýjanlegum orkugjöfum,
—að nýjar skuldbindingar takmarki ekki möguleika aðildarríkja til að auka notkun endur nýjanlegra orkugjafa vegna iðnframleiðslu jafnvel þó framleiðsluferlin auki losun staðbundið.
    Við upphaf samningaviðræðnanna ákvað ríkisstjórnin að skipa sérstakan samráðshóp undir stjórn umhverfisráðuneytis til að fylgjast með og undirbúa þátttöku Íslands í samninga viðræðunum. Frá upphafi áttu landbúnaðar-, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskipta-, samgöngu- og utanríkisráðuneyti aðild að þessu samráði. Á þessu ári hafa embættismenn úr forsætis- og fjármálaráðuneyti einnig tekið þátt í undirbúningi samningaviðræðnanna.

5.3. HELSTU TILLÖGUR SEM FRAM HAFA KOMID
    Frestur til að leggja fram tillögur í samningaviðræðunum rann út í byrjun júní 1997. Fjölmargar tillögur liggja nú fyrir og á samningafundi í júlí náðist mikilvægur árangur í því að slá saman áþekkum tillögum og að jafna ýmis minniháttar ágreiningsatriði. Öll mikil vægustu atriði samningsins eru þó enn óútkljáð, eins og kemur fram í eftirfarandi yfirliti, þar sem stuttlega er fjallað um erfiðustu ágreiningsefnin:

5.3.1. Losunar- og tímamörk.
    Nokkuð víðtæk samstaða er um að samningurinn skuli fela í sér lagalega bindandi losunar mörk miðað við ákveðna tímasetningu. Aftur á móti eru mjög skiptar skoðanir um hver þau mörk eiga að vera.
    Fyrir Berlínarfundinum 1995 lá tillaga að bókun frá Samtökum smáeyjaríkja þess efnis að losun koltvíoxíðs af mannavöldum í ríkjum sem tiltekin eru í Viðauka I í samningnum, skuli vera 20% minni árið 2010 en árið 1990. ESB hefur lagt fram tillögu um að losun tiltekinna gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum í löndum í Viðauka I, skuli vera 7,5% minni árið 2005 og 15% minni árið 2010 miðað við árið 1990. Þá hafa verið lagðar fram tillögur um 5% minnkun árið 2005 og 10% árið 2010. Þá er rétt að geta þess að Ástralía hefur lagt til að miðað verði við að losunarkvótar einstakra ríkja í Viðauka I verði frá -30% til +40% miðað við viðmiðunarár, allt eftir getu einstakra ríkja til að draga úr losun. Í sumum tillögum er við miðunarár ekki tiltekið, en almennt er talið að ekki sé mögulegt að ná samkomulagi um annað viðmiðunarár en 1990.
    Íslensk stjórnvöld hafa hvorki sett fram tillögu um losunarmörk né tekið afstöðu til fyrir liggjandi tillagna, en hafa lagt áherslu á sveigjanleika, þar sem tekið sé tillit til sérstakra aðstæðna einstakra ríkja.
    Bandaríkjamenn vilja að losunarmörk verði lagalega bindandi, en hafa enn ekki gefið upp hvaða tölur þeir vilji að miðað verði við.
    Í þessu sambandi er rétt að geta þess að í þeim losunarspám sem gerðar hafa verið gera all flest ríki ráð fyrir að losun gróðurhúsaloftegunda af mannavöldum muni vaxa meira en 20% á tímabilinu 1990 til 2010.

5.3.2. Sérstakar aðstæður einstakra ríkja.

    Í samningsumboðinu sem samþykkt var á Berlínarfundinum árið 1995 segir að taka beri tillit til mismunandi upphafsstöðu og hvernig aðilar hafi nú þegar brugðist við vandanum, upp byggingar hagkerfisins og auðlindagrunns, þörfinni fyrir að viðhalda sjálfbærum hagvexti, þeirri tækni sem tiltæk er og öðrum kringumstæðum hvers og eins ríkis. Þá hefur Alþjóða vísindanefndin um loftslagsbreytingar (IPCC) viðurkennt að flatur niðurskurður leiði til mun hærri heildarkostnaðar við að ná sama árangri en ef losunarmörkum er skipt á aðildarríkin í samræmi við aðstæður hvers og eins.
    Þrátt fyrir þessi ákvæði og niðurstöðu IPCC er eitt helst ágreiningsefni samningaviðræðn anna hvort og hvernig eigi að taka tillit til sérstakra aðstæðna í einstökum ríkjum þegar losunarmörk eru sett.
    ESB, Bandaríkjamenn og ýmis þróunarríki hafa mælt gegn því að samið verði um mismunandi losunarmörk fyrir einstök ríki sem tiltekin eru í Viðauka I við samninginn. Þess í stað vilja þessi ríki flatan niðurskurð, þ.e. sömu hlutfallstölu (%) fyrir hvert og eitt Viðauka I ríki.
    Fjölmörg ríki, þar með talið Ísland í samstarfi við norsk stjórnvöld, hafa lagt fram tillögur um að losunarmörk verði mismunandi eftir aðstæðum hvers og eins. Í þeim hópi eru m.a. Japan, Sviss og Ástralía sem hafa lagt tillögur um mismunandi leiðir til að taka tillit til aðstæðna þannig að þau ríki sem geti sýnt fram á að þau eigi erfiðara með að draga úr losun fái meira svigrúm en hin sem talin eru eiga tiltölulega auðvelt með að draga úr losun.
    Bandaríkjamenn og ESB viðurkenna að aðstæður til að draga úr losun séu mismunandi og af þeim sökum yrði kostnaði vegna aðgerða misskipt. En þessir aðilar og ýmis þróunarlönd telja að ekki sé ráðrúm til að þróa framkvæmanlega leið til að taka á þessu atriði á þeim stutta tíma sem til stefnu er. Talsmenn þessara viðhorfa hafa þó gefið í skyn að það megi hugsanlega taka þetta til frekari skoðunar síðar.
    Í þessu sambandi er rétt að geta þess að ESB-ríkin hafa gert samkomulag sín á milli um hvernig þau hyggjast dreifa byrðunum ef samningar takast um að draga úr heildarlosun um 15%. Samkvæmt því koma nokkur ríki til með að geta aukið losun, t.d. Portúgalir um 43%, Grikkir um 31% og Svíar um 5%, á meðan önnur þurfa að draga úr losun um meira en 15%, t.d. Lúxemborg um 30% og Danir og Þjóðverjar um 25%. Þá geta Frakkar og Finnar verið með óbreytta losun miðað við 1990.

5.3.4. Sveigjanleiki.
    Mörg ríki leggja áherslu á að samningurinn verði að tryggja sveigjanleika sem geri mögulegt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á sem hagkvæmastan hátt. Í þessu sam bandi hafa komi fram tillögur um að hægt verði að eiga viðskipti með losunarkvóta á milli ríkja og að fleiri en eitt ríki geti haft samvinnu um framkvæmdir sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
    Nokkur ríki, þ.m.t. Samtök smáeyjaríkja, hafa andmælt slíku fyrirkomulagi og leggja áherslu á að hvert ríki um sig eigi að takast á við sínar skuldbindingar og að ákvæði um sveigjanleika muni virka letjandi á aðgerðir til að draga úr losun.
    Bandaríkin, Ástralía, Nýja Sjáland, Noregur og fleiri ríki vilja tryggja sem mestan sveigjanleika þannig að litlar sem engar takmarkanir verði settar á viðskipti á milli þeirra ríkja sem tiltekin eru í Viðauka I. Þá vilja þessi ríki einnig opna fyrir þann möguleika að þau ríki sem tiltekin eru í Viðauka I geti átt samstarf innbyrðis og við þróunarríki um framkvæmdir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og jafnframt bókfært hluta af þeirri minnkun sem kann að skapast af þeim framkvæmdum á þann aðila sem fjármagnar verkið (sameiginleg framkvæmd eða „joint implemention“).
    ESB styður ákvæði um sveigjanleika en með þeim fyrirvara að fyrst verði að tryggja að samningurinn í heild dragi verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá hefur ESB haft efasemdir um sameiginlegar framkvæmdir með þróunarríkjum þar sem erfitt geti reynst að meta raunveruleg áhrif þeirra.
    Íslensk stjórnvöld hafa verið jákvæð gagnvart hugmyndum sem skapa sveigjanleika við framkvæmd samningsins.

5.3.5. Lofttegundir og binding.
    Skiptar skoðanir eru um hvaða lofttegundir eigi að falla undir samninginn þrátt fyrir að Berlínarumboðið sé miðað við allar gróðurhúsalofttegundir. Samtök smáeyjaríkja leggja til að eingöngu verði miðað við koltvíoxíð. Japan hefur einnig verið á sömu skoðun þar sem enn sé talsverð óvissa bundin við þær aðferðir sem notaðar eru til að mæla losun og meta áhrif annarra efna.
    Bandaríkjamenn hafa lagt til að samningurinn nái til 6 helstu gróðurhúsalofttegundanna (CO2, CH4, N2O, HFC, PFC og SF6), en ESB hefur þrjár lofttegundir í sínum tillögum og leggur til að öðrum þremur verði bætt við eftir árið 2000.
    Sömuleiðis eru skiptar skoðanir um hvort taka eigi tillit til aðgerða einstakra ríkja til að auka bindingu koltvíoxíðs, eins og þó er gert ráð fyrir í Berlínarumboðinu. Bandaríkin, Nýja-Sjáland og ýmis önnur ríki hafa lagt til að tekið verði tillit til sérstakra aðgerða til að auka bindingu koltvíoxíðs í losunarbókhaldi einstakra ríkja. Japan hefur aftur á móti mælt gegn því og bendir á að slíku bókhaldi fylgi talsverð óvissa sem kunni að veikja samkomulagið. ESB hefur enn ekki fullmótaða afstöðu til þessa máls.
    Íslensk stjórnvöld hafa stutt hugmyndir um að samningurinn nái til allra gróðurhúsaloft tegunda sem skipta máli, þ.e. fyrrgreindra sex lofttegunda, og að tekið verði tillit til aðgerða einstaka ríkja við að auka bindingu.

5.3.6. Stefnumörkun og aðgerðir.
    ESB hefur lagt fram tillögu um ýmsar aðgerðir sem aðildarríki samningsins sem skráð eru í Viðauka I yrðu skuldbundin til að framkvæma. Í tillögum ESB eru m.a. tillögur um að Viðauka I ríkin yrðu skuldbundin til að afnema styrki sem hvetja til notkunar á kolefnaríkum orkugjöfum og að komið verði á koltvíoxíðsskatti. Þá er einnig að finna í tillögum ESB ákvæði um að afnema alþjóðlegt samkomulag sem segir að eldsneyti sem selt er flugvélum í alþjóð legu flugi og skipum í alþjóðlegum siglingum skuli vera skattfrjálst.
    Bandaríkin, Ástralía, Japan og fleiri ríki leggja áherslu á sjálfstæði einstakra ríkja til að velja þær leiðir sem þau telja heppilegastar. Þessi ríki telja óheppilegt að samningurinn hafi nákvæm fyrirmæli um tilteknar aðgerðir þar sem aðstæður í einstökum ríkjum séu mismunandi.
    Íslensk stjórnvöld hafa tekið undir hugmyndir um sameiginlega stefnumörkun og aðgerðir, en hafa gert efnislegar athugasemdir við einstaka liði í tillögum ESB.

5.4. HORFUR Í SAMNINGAVIDRÆDUNUM
    Aðgerðir til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda munu hafa veruleg áhrif á efnahags starfsemi og lífsafkomu einstakra ríkja. Því er eðlilegt að samningagerð sé erfið.
Framangreind upptalning sýnir að ýmis vandasöm atriði hafa enn ekki verið til lykta leidd á þeim 7 samningafundum sem fram hafa farið hingað til. Einn samningafundur er eftir fyrir aðildarríkjaþingið í desember og því er eðlilegt að ýmsir sjái á því tormerki að samningar takist á þeim stutta tíma sem til stefnu er.
    Í þessu sambandi ber að hafa í huga að fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa ítrekað undirstrikað mikilvægi þess að ná einhverju samkomulagi í Kyoto. Það er því mikill þrýstingur um einhvern sýnilegan árangur af þeirri miklu vinnu sem fram hefur farið frá því að Berlínarumboðið var samþykkt árið 1995.
    Þá er einnig mikilvægt að gera sér ljóst að almennt er álitið að væntanlegt samkomulag í Kyoto verði aðeins fyrsti áfangi af mörgum til að styrkja samninginn svo takast megi að stöðva vaxandi uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
    Það er ólíklegt að það takist að leysa úr öllum þeim ágreiningsmálum sem lýst hefur verið hér að framan, en almennt virðist vera mikill vilji til þess og að á Kyotofundinum verði jafnframt ákveðið að halda áfram tilraunum til að finna ásættanlegar leiðir til að taka á þeim sem ekki tekst að leiða þar til lykta. Enn fremur er lögð áhersla á að mörkuð verði einhver stefna um frekari skuldbindingar þróunarríkja þar sem verulegur vöxtur í losun er fyrirsjáanlegur í þróunarríkjunum á næstu árum og áratugum ef ekkert verður að gert. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að huga að þeim ríkjum sem langt eru komin í iðnvæðingu og hafa hug á aðild að OECD.