Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 204 – 65. mál.Svariðnaðarráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um álbræðslu Norsk Hydro (Hydro Alum inium) á Íslandi.

     1.      Hver er staða viðræðna íslenskra stjórnvalda við Norsk Hydro og/eða Hydro Aluminium um byggingu álbræðslu hérlendis og hvert er ráðgert framhald þeirra?
    Í skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðherra um framgang verkefna á sviði stóriðju, sem lögð var fyrir Alþingi á þingskjali 68, er að finna upplýsingar um sameiginlega athugun íslenskra stjórn valda, Landsvirkjunar og MIL annars vegar og Hydro Aluminium Metals Product hins vegar á byggingu álvers á Íslandi með norskri rafgreiningartækni. Þar er gerð grein fyrir stöðu málsins.

     2.      Hver er áætluð hámarksstærð og áfangaskipting álbræðslunnar og ráðgerður byggingartími?
    Hydro Aluminium hefur lýst áhuga á byggingu álbræðslu með 240.000 tonna framleiðslugetu á ári sem stækka mætti í allt að 720.000 tonn. Athugunin miðast í upphafi við tvo áfanga með allt að 240.000 tonna framleiðslugetu á ári í hvorum og er gert ráð fyrir að fyrsti áfanginn tæki til starfa árin 2004 eða 2005 og síðari áfanginn fimm árum síðar.

     3.      Hvar er fyrirhugað að staðsetja álbræðsluna?
    Ákvörðun um staðsetningu liggur ekki fyrir.

     4.      Hversu mikillar raforku yrði þörf fyrir álbræðsluna og hvaða virkjanir og stofnlínur þyrfti að byggja hennar vegna? Hver er áætlaður fjárfestingarkostnaður vegna byggingar raf orkuvirkja og álbræðslunnar, í heild og sundurliðað eftir byggingaráföngum?
    Gert er ráð fyrir að raforkuþörf fyrsta áfanga yrði um 3600 gW-stundir á ári og orkuþörf seinni áfanga svipuð. Verið er að athuga hvaða virkjanir og stofnlínur þyrfti að reisa hennar vegna, en reiknað er með að virkjanir á Norðaustur- og Austurlandi mundu anna meginhluta raforkuþarfar innar. Þá er einnig verið að athuga hvaða stofnlínukerfi mundi fylgja slíkum virkjunum og er ekki fullkannað hvernig því yrði háttað. Nánari áætlanir um fjárfestingarkostnað en fram koma í áðurnefndri skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þingskjali 68 liggja ekki fyrir þar sem athuganir eru á byrjunarstigi.

     5.      Hefur verið rætt um raforkuverð til álbræðslunnar og ef svo er, hvaða meginviðhorf eru þar lögð til grundvallar?
    Eins og fram kom í svari við 1. lið er hér um sameiginlega athugun að ræða og eru umræður um orkuverð ekki hafnar, enda liggja nauðsynlegar upplýsingar og forsendur ekki fyrir.

     6.      Er fyrirhuguð eignaraðild Íslendinga í álbræðslunni og ef svo er, hversu mikil?
    Já, eins og fram kemur í framangreindri skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem lögð hefur verið fyrir Alþingi. Ekki liggur fyrir á þessu stigi hversu mikil eignaraðildin verður.      7.      Er ráðgert að útlendingar, og þá hverjir, eigi hlut í virkjunum vegna álbræðslunnar og ef svo er, hversu mikinn og með hvaða skilmálum?
    Það er ekki útilokað. Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins skal aðilum í einu ríki innan EES vera heimilt án takmarkana að fjárfesta í atvinnurekstri í öðru ríki á svæðinu. Til að laga íslenska löggjöf að ákvæðum samningsins var lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnu rekstri, breytt með lögum nr. 46/1996. Með breytingunni var einstaklingum sem búsettir eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilum sem heimilisfastir eru í öðru EES-ríki veitt ur sami réttur til að eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita og íslenskum ríkisborgurum og öðrum íslenskum aðilum. Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvort, hverjir, hversu stór hlutur eða hvaða skilmálar muni gilda.

     8.      Hefur umhverfisráðuneytið komið að viðræðum um þetta mál og hefur verið mótuð stefna um mengunarvarnir verksmiðjunnar?
    Umhverfisráðuneytið hefur ekki komið að viðræðunum. Gert er ráð fyrir að notuð verði besta fáanleg tækni (BAT) í mengunarvörnum.

     9.      Hvernig samræmist bygging álbræðslu fyrirhuguðum alþjóðasamningi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda?
    Í 2. gr. rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar segir: „Lokamarkmið þessa samnings og hvers konar löggerninga honum tengdum sem þing aðila kann að samþykkja er, í samræmi við viðeigandi ákvæði samningsins, að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í and rúmsloftinu innan þeirra marka að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af manna völdum. Þeim mörkum ætti að ná innan tímamarka sem nægðu til að vistkerfi geti sjálf aðlagað sig að loftslagsbreytingum til þess að tryggja að matvælaframleiðsla sé ekki í hættu og til að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta.“
    Það er í fullu samræmi við ákvæði loftslagssamningsins og Dagskrár 21 sem samþykkt var í Rio de Janeiro að stuðla að því að framleiðsla fari fram þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er minnst. Hér á landi, þar sem vatnsafl er nýtt til raforkuvinnslu, er losun gróðurhúsalofttegunda við álframleiðslu í lágmarki. Þannig er losun koldíoxíðs um tíundi hluti þess sem er losað þegar kol eru nýtt til raforkuvinnslunnar. Í því sambandi má geta þess að talið er að árið 1990 hafi rúmlega þriðjungur af álframleiðslu í heiminum nýtt rafmagn sem unnið var úr jarðefnaeldsneyti, einkum kolum. Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna rammasamningsins sem samþykkt var í október 1995 kemur skýrt fram það álit ríkisstjórnarinnar að skuldbindingar um takmörkun útstreymis gróðurhúsalofttegunda eigi ekki að koma í veg fyrir að reist verði ný stóriðjufyrirtæki í landinu, ef þau vilja nýta sér hinar hreinu orkulindir landsins, jafnvel þótt fyrirtækin noti kol eða koks sem hráefni og auki útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna þess. Í skýrslum Íslands sem lagðar hafa verið fram fyrir þing aðildarríkja samningsins er gerð grein fyrir þessu og í skýrslu sem sendinefnd á vegum skrifstofusamningsins hefur tekið saman um skýrslu Íslands er þetta álit tíundað án þess að gerðar séu nokkrar athugasemdir við það.
    Leggja verður áherslu á að ávallt verði nýtt besta fáanlega tækni (BAT) í nýjum stóriðjuverum, sem kunna að verða reist á Íslandi á næstu árum.

     10.      Hafa fleiri ráðuneyti en framangreind komið að þessu máli og hefur ríkisstjórnin gert samþykktir varðandi það?
    Önnur ráðuneyti hafa ekki komið að málinu. Það hefur verið kynnt í ríkisstjórn en ekki gerðar samþykktir um það.