Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 206 – 198. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á jarðalögum, nr. 65 31. maí 1976, með síðari breytingum.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Gísli S. Einarsson,


Jón Baldvin Hannibalsson, Svanfríður Jónasdóttir.



1. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Í hverri sýslu skal starfa jarðanefnd skipuð þremur aðalmönnum og jafnmörgum til vara. Viðkomandi héraðsnefnd tilnefnir tvo aðalmenn og jafnmarga varamenn og búnaðarsamband viðkomandi sýslu tilnefnir þriðja aðalmanninn og varamann hans. Ráðherra skipar formann nefndarinnar úr hópi aðalmanna.
    Jarðanefnd skal skipuð til fjögurra ára í senn.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Orðin „gjöf“ og „fyrirframgreiðslu arfs“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      2. og 3. mgr. orðast svo:
             Nú eru sveitarstjórn og jarðanefnd sammála um að ráðstöfun fasteignar sé andstæð hagsmunum sveitarfélagsins og er þá heimilt að synja um áformaða ráðstöfun eignarinn ar, enda séu lagðar fram skriflega rökstuddar ástæður, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
             Rísi ágreiningur milli viðkomandi sveitarstjórnar og jarðanefndar getur hvor um sig vísað ágreiningnum til ráðherra á grundvelli rökstuddrar greinargerðar. Ráðherra fellir úrskurð að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Úrskurður skal felldur innan eins mánaðar frá því erindið barst ráðherra. Um slíka úrskurði skulu eiga við ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
     c.      6. tölul. 4. mgr. orðast svo: Þegar fyrir liggur yfirlýsing um að jörðin verði tekin til skógræktar og/eða landgræðslu og yfirlýsingin hefur verið staðfest af Skógrækt ríkisins og/eða Landgræðslu Íslands.
     d.      6. mgr. fellur brott.
     e.      Í stað orðanna „eða afsala fasteigninni til aðila, sem uppfyllir skilyrðin“ í 1. málsl. 7. mgr. kemur: og skal þá taka fram í tilkynningunni um frestinn nákvæmlega hvaða skilyrði það eru sem á skortir að uppfyllt séu.

3. gr.

    Síðari málsliður 7. gr. laganna orðast svo: Hafi svar þá ekki borist er hin áformaða ráð stöfun heimil.

4. gr.

    Á eftir orðunum „áformaða sölu fasteignar“ í l. málsl. 8. gr. laganna kemur: á grundvelli rökstudds álits.

5. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Eiganda eða forráðamanni jarðar, sbr. 3. gr., er heimilt að uppfylltum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, að reisa á landi sínu gistiaðstöðu fyrir ferðamenn, svo sem veiðihús eða sumarbústaði, án þess að afla þurfi leyfis jarðanefndar.

6. gr.

    11. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             Óski félagasamtök, svo sem stéttarfélög, eftir landi til reksturs orlofshúsa fyrir félags menn er jarðanefnd rétt að heimila það, enda liggi fyrir samþykki jarðeiganda. Sama gild ir ef félagasamtök eða einstaklingar óska eftir landi til skógræktar eða landgræðslu.

8. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    Kostnaðurinn við störf jarðanefnda greiðast af viðkomandi sveitarsjóðum samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

9. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 37. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Við lögin bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:
    Fyrir 1. október 1998 skal ráðherra hafa lokið við að láta endurskoða ákvæði jarðalaga, einkum og sér í lagi ákvæði IV. kafla laganna, um forkaupsrétt. Frumvarp þess efnis skal lagt fyrir Alþingi það haust.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi l. júlí 1998.

Greinargerð.


    Markmiðið með frumvarpi þessu er tvíþætt. Annars vegar er það að auðvelda kaup og sölu jarða þannig að sannvirði geti fengist fyrir bújarðir bænda en eins og jarðalög, nr. 65/1976, eru nú úr garði gerð, ekki síst eftir breytingar sem gerðar voru vorið 1994, eru miklar hindranir lagðar í veg fyrir viðskipti með bújarðir þannig að möguleikar bænda til jarðasölu eru stórlega skertir og verðmæti eigna þeirra rýrð að sama skapi. Hitt meginmarkmiðið með breytingum þeim sem frumvarpið gerir ráð fyrir er að auðvelda bændum sem stunda landbúnað að nýta jarðir sínar jafnframt til tekjusköpunar vegna annarrar starfsemi, svo sem til byggingar og útleigu á sumarbústöðum og til útleigu eða eigin framkvæmda vegna landgræðslu og skóg ræktar. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir ýmsum öðrum breytingum á gildandi lögum, svo sem að breyta nokkuð skipan jarðanefnda, draga úr völdum þeirra, sem verið hafa óhemju mikil og oft hindrað eðlileg viðskipti með jarðnæði, og leggja þeim þá skyldu á herðar að rökstyðja skriflega ákvarðanir sínar ef þær leggjast gegn eigendaskiptum en það hafa þær ekki þurft að gera og skapar það hættu á geðþóttaákvörðunum. Þá hefur komið fram að álitamál kunni að vera hvort ákvarðanir jarðanefnda og/eða sveitarstjórna samkvæmt jarðalögum falli undir ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Flutningsmenn telja að allan vafa eigi að taka af um hvort stjórnsýslulögin eigi hér við og í frumvarpinu er lagt til að svo sé gert.
    Þegar jarðalögin voru sett á sínum tíma var rekstrarumhverfi landbúnaðarins allt annað en það er nú orðið. Þá var uppgangur í landbúnaði og mikil ásókn í jarðir, ekki síst hlunninda jarðir. Þótti því nauðsyn bera til að takmarka rétt jarðeigenda til þess að ráðstafa jörðum sín um, en slík takmörkun á eignarrétti hefur ávallt í för með sér að lægra verð fæst fyrir eignirnar. Jarðalögin eru því lög um takmarkanir á ráðstöfunarrétti eigna og valda verðlækkun við komandi eigna og geta jafnvel gert þær hartnær óseljanlegar. Með breytingum, sem gerðar hafa verið á lögunum, t.d. með ákvæðum 6. mgr. 6. gr., þar sem heimilt er að binda samþykki fyrir jarðakaupum því skilyrði að væntanlegur kaupandi hafi allt að tvö ár haft fasta búsetu á eigninni eða í næsta nágrenni hennar og skuldbindi sig jafnframt til þess að eignin verði nýtt til landbúnaðar, hafa slíkar hindranir verið lagðar í veg fyrir eðlileg viðskipti með jarðir að segja má að bújarðir bænda hafi verið gerðar verðlausar. Þetta ákvæði var sett í lög vegna ótta manna um að aðild Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu kynni að valda því að útlend ingar keyptu upp bújarðir á Íslandi í stórum stíl í því skyni að taka þær úr ábúð. Reynslan hefur sýnt að fáar eða engar fyrirspurnir hafa borist frá útlöndum um kaup á íslenskum bújörðum og því hafa umrædd ákvæði eingöngu torveldað viðskipti milli landsmanna sjálfra. Þá er það einnig andi jarðalaganna, eins og þau eru nú úr garði gerð, að tryggja, m.a. með viðskiptahindrunum, að allar jarðir á Íslandi, sem nýttar voru til hefðbundins landbúnaðar árið 1976, verði nýttar þannig um ókominn tíma. Slíkt markmið stangast að sjálfsögðu algerlega á við umhverfið þar sem miklum fjármunum hefur verið varið úr ríkissjóði til þess að draga úr landbúnaðarframleiðslu, einkum sauðfjárrækt, með uppkaupum og öðrum aðgerðum sem beinast að því að draga úr eða hætta hefðbundnum landbúnaði á bújörðum.
    Jafnhliða því sem slíkt er gert má auðvitað ekki leggja björg í götu bænda sem vilja selja bújarðir sínar og fá sem hæst verð fyrir eða nýta þær til annarrar tekjuöflunar samfara því sem dregið verður úr hefðbundinni landbúnaðarnýtingu þeirra. Jarðalögin í núverandi mynd eru slíkt bjarg í vegi bænda og valda mikilli og óeðlilegri verðrýrnun á eignum þeirra sem er í hæsta máta óeðlilegt eins og nú er komið fyrir íslenskri bændastétt. Breytingar þær, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, yrðu því til stóraukins hagræðis fyrir bændur landsins og mundu auðvelda þeim að takast á við þá erfiðleika sem þeir standa nú frammi fyrir.
    Frumvarp þetta var upphaflega flutt á 120. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu land búnaðarnefndar. Frumvarpið er nú endurflutt óbreytt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    4. gr. gildandi laga kveður á um skipan jarðanefnda. Þar er gert ráð fyrir því að Búnaðar samband viðkomandi sýslu skipi meiri hluta nefndarinnar, þ.e. tvo nefndarmenn og varamenn þeirra, en í upphaflegum lögum var gert ráð fyrir að sýslunefnd skipaði einn nefndarmann. Þegar sýslunefndir voru lagðar niður með lögum, en héraðsnefndir komu í þeirra stað, var lög unum breytt þannig að héraðsnefnd skipaði einn fulltrúa í stað sýslunefndar.
    Sýslunefndirnar voru skipaðar fulltrúum dreifbýlissveitarfélaga í viðkomandi sýslu (engir fulltrúar kaupstaða) en að héraðsnefndunum eiga öll sveitarfélög sýslunnar aðild. Koma þann ig fram í héraðsnefndunum viðhorf allra sveitarfélaga sýslunnar, þar á meðal þéttbýlissveitar félaga. M.a. af þeim ástæðum þykir flutningsmönnum eðlilegt að héraðsnefndirnar með aðild allra sveitarfélaga viðkomandi sýslu skipi meiri hluta jarðanefnda, tvo fulltrúa af þremur, en viðkomandi búnaðarsamband einn fulltrúa. Til samræmis við það er svo ráð fyrir því gert í 8. gr. frumvarpsins að sveitarfélögin greiði allan kostnað við störf jarðanefndanna.
    Þá er einnig gerð tillaga um það í 1. gr. frumvarpsins að fellt verði brott ákvæði 4. gr. gildandi laga um að áskilja að þeir sem sæti taka í jarðanefnd skuli kunna góð skil á byggð og búháttum í sýslunni og vera þar búsettir. Óþarfi er að taka slíkt sérstaklega fram í lögum þar sem gert er ráð fyrir að jarðanefndarmenn séu skipaðir af fulltrúum heimamanna sjálfra, búnaðarsambandi og héraðsnefnd.

Um 2. gr.

    6. gr. gildandi laga er meginefnisgrein þeirra þar sem miklar kvaðir eru reistar gegn ráð stöfun eigenda bújarðar á eign sinni og mjög mikil völd lögð í hendur jarðanefnda í því skyni. Með þeim breytingum, sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarpsins, eru völd nefndanna takmörkuð og að sama skapi ráðstöfunarréttur jarðeiganda á eign sinni aukinn.
    Í 1. mgr. 6. gr. eru taldar upp þær ráðstafanir eigenda jarðnæðis á fasteign sinni sem honum eru óheimil nema með samþykki jarðanefndar. Þar með talið er að eigandi má ekki gefa eign sína t.d. til góðgerðastarfsemi nema samþykki jarðanefndar fáist. Eigi má heldur jarðeigandi ráðstafa fasteign sinni til barna sinna sem fyrirframgreiðslu arfs nema samþykki nefndarinnar komi til. Þetta er að áliti flutningsmanna allsendis óhæfilegar kvaðir á ráðstöfunarrétti jarð eigenda á eign sinni og er því lagt til í a-lið 2. gr. frumvarpsins að ekki þurfi að afla samþykkis jarðanefndar til slíkra ráðstafana.
    Í 2. mgr. 6. gr. gildandi laga eru ákvæði sem heimila sveitarstjórn og jarðanefnd að synja um áformaða ráðstöfun fasteignar telji þessir aðilar hana andstæða hagsmunum sveitar félagsins og í 3. mgr. 6. gr. eru ákvæði um að greini þessa aðila á felli ráðherra úrskurð. At hyglisvert er að engin ákvæði eru um það í lögunum að færa þurfi fram rök fyrir synjuninni. Dæmi eru um að jarðanefnd hafi hafnað kaupum á þeim forsendum að nefndarmönnum hafi ekki litist á væntanlegan kaupanda. Þeir starfshættir að ekki þurfi að leggja fram rökstuddar ástæður fyrir synjun valda því einnig að grunsemdir geta vaknað um að jarðanefndarmenn eða viðkomandi sveitarstjórnir vilji með afstöðu sinni ráða því að einhver tiltekinn einstaklingur fái jarðnæðið fremur en einhver annar hvað sem líður vilja eiganda. Mörg mál hafa risið vegna deilna af þessu tagi og er umhugsunarvert hversu mikið skortir á að greinargóð rök séu færð fyrir synjunum jarðanefnda og sveitarstjórna. Nægir í því sambandi að vitna til dóms héraðs dóms Rangárvallasýslu frá 20. júní 1989 í aukadómþingsmálinu nr. 1/1989, en þar eru raktir málavextir þar sem, að áliti flutningsmanna, ekki hefur verið tekið nægilegt tillit til eðlilegra og nútímalegra sjónarmiða í stjórnsýslu og samskiptum opinberra valdsaðila við borgara. Synji jarðanefnd, sveitarstjórn og/eða ráðherra eigenda jarðnæðis um þá ráðstöfun eigna sinna sem hann sjálfur kýs verða synjunaraðilar að rökstyðja synjun sína skriflega og á greinar góðan hátt þannig að aðilar málsins geti gengið úr skugga um ástæður og gætt réttar síns í framhaldi af úrskurðinum. Breytingar þær, sem b-liður 2. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir, eru einmitt þess eðlis að gera skuli kröfu um rökstuðning fyrir synjunum jarðanefnda og/eða sveit arstjórna á ráðstöfun eigenda jarðnæðis og rísi ágreiningur skuli ráðherra skera úr á grundvelli slíkra gagna og skuli úrskurður falla ekki síðar en 30 dögum eftir að ágreiningsmálið barst ráðuneytinu. Þá er einnig lögð til sú breyting að ráðherra leiti umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en hann kveður upp úrskurð sinn sem ekki er áskilið í gildandi lögum, svo og að annar umsagnaraðili skuli vera Bændasamtök Íslands en ekki Búnaðarfélag Íslands sem sameinað hefur verið Stéttarsambandi bænda í hinum nýju samtökum, Bændasamtökum Ís lands. Víðar í gildandi lögum er vísað í Búnaðarfélag Íslands þar sem nú ætti að vísa til Bændasamtaka Íslands og gera flutningsmenn ráð fyrir því að sú leiðrétting verði gerð í nefnd inni sem fær frumvarpið til meðferðar. Þá er loks rétt að geta þess að með vísan til stjórnsýslu laga, nr. 37/1993, eru tekin af öll tvímæli um réttarstöðu þeirra aðila sem þurfa að sækja mál sín til jarðanefnda og sveitarstjórna samkvæmt jarðalögum, svo sem áfrýjunarrétt vegna úrskurða og rétt til upplýsinga. Með tilvísuninni er tekinn af allur vafi um að ákvarðanir jarðanefnda, sveitarstjórna og ráðherra samkvæmt jarðalögum falla undir ákvæði stjórnsýslu laganna.
    Í c-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 6. tölul. 4. mgr. 6. gr. laganna falli brott, enda er í þeim tölulið vísað til 1. mgr. 12. gr. laganna sem lagt er til í 7. gr. frumvarpsins að felld verði brott. Þess í stað er lagt til að 6. tölul. orðist eins og segir í c-lið, þ.e. að samþykkis jarða nefndar þurfi ekki að afla ef jörð er tekin til landgræðslu eða skógræktar og það hefur verið staðfest af Landgræðslu ríkisins eða Skógrækt ríkisins.
    Í d-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 6. mgr. 6. gr. laganna falli brott. Í þessari málsgrein, sem kom inn í lögin 1995, eru ákvæði um heimild til þess að binda samþykki jarðanefnda og sveitarstjórna fyrir eigendaskiptum á bújörðum því að væntanlegur kaupandi hafi haft búsetu á eigninni allt að tvö ár eða „innan eðlilegrar fjarlægðar frá henni“. Á sama hátt sé heimilt að binda í skilyrði að eignin verði nýtt til landbúnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi í samræmi við tiltekin áform og verði slíkum skilyrðum þinglýst sem kvöð á eigninni. Umrædd ákvæði gera bújarðir því sem næst óseljanlegar og stríða auk þess gegn þeirri stefnu stjórnvalda að draga úr hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu á bújörðum og stuðla að því að bændur geti snúið sér að annarri atvinnustarfsemi. Því er lagt til að umrædd ákvæði verði afnumin.
    Í e-lið 2. gr. frumvarpsins er felld niður sú heimild sveitarstjórna að skylda jarðeiganda til þess að afsala jörð sinni til aðila sem að mati sveitarstjórnar uppfyllir skilyrði hennar til þess að eignast jarðnæðið, hafi hún ekki fallist á þá ráðstöfun sem jarðeigandinn sjálfur kaus. Þess í stað er lagt til að ef sveitarstjórn með samþykki ráðherra veitir væntanlegum kaupanda jarðnæðis frest til þess að uppfylla þau skilyrði sem hún telur á skorta til þess að vilja sam þykkja kaupin skuli hún greina nákvæmlega frá því hvaða skilyrði hún telur vera óuppfyllt. Geti væntanlegur kaupandi ekki uppfyllt þau skilyrði, enda séu þau í samræmi við ákvæði laganna, sé það seljanda að finna nýjan en sveitarstjórn hafi ekki heimild til þess að fyrirskipa honum að selja aðila sem sveitarstjórnin telur henta sem ábúanda.

Um 3. gr.

    Í ákvæðum 7. gr. gildandi laga er svo kveðið á að hafi sveitarstjórn eða jarðanefnd ekki afgreitt erindi um jarðakaup innan 30 daga sé hin áformaða ráðstöfun heimiluð næstu sex mánuði. Með öðrum orðum geta kaup hafa farið fram og eigendaskipti hafa orðið og bæði kaupandi og seljandi verið í góðri trú en allt að sex mánuðum síðar getur þriðji aðili komið og rift kaupunum. Þetta er að áliti flutningsmanna óviðunandi bæði fyrir kaupendur og seljendur og er því lagt til að sú breyting verði gerð að hafi jarðanefnd og sveitarstjórn ekki hafnað eig endaskiptum innan þess 30 daga frests sem lögin setja skuli hin áformaða ráðstöfun teljast vera heimil.

Um 4. gr.

    Hér er gerð tillaga um að kveðið verði á um að neitun sveitarstjórnar og/eða jarðanefndar við áformaðri sölu fasteignar þurfi að byggjast á rökstuddu áliti og er það til samræmis við tillögur frumvarpsins hér að framan.

Um 5. gr.

    Í 10. gr. laganna eru ákvæði sem banna eiganda bújarðar þar sem stundaður er hefðbundinn búskapur að reisa sumarbústaði á landi sínu nema samþykki jarðanefndar komi til. Í 5. gr. er lagt til að sú breyting verði gerð að samþykki jarðanefndar þurfi ekki til að koma vilji bóndi, sem stundar hefðbundinn búskap á jörð sinni, byggja þar sumarbústaði eða veiðihús til sölu eða leigu og er þetta m.a. til þess að auðvelda bændum, sem stunda hefðbundinn búskap, að auka tekjur sínar með annarri starfsemi án kvaða, annarra en þeirra sem kveðið er á um í skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.

Um 6. gr.

    Í 11. gr. laganna eru ákvæði um að samþykki skuli ekki veitt fyrir sölu fasteignar til land búnaðar nema væntanlegur kaupandi hafi starfað við landbúnað í tvö ár hér á landi, en ráð herra geti veitt undanþágu frá þessu ákvæði að fenginni umsögn sveitarstjórnar og jarða nefndar. Að áliti flutningsmanna er hér enn um að ræða hömlur á sölu jarðnæðis sem leiða til verðrýrnunar á eignum bænda. Flutningsmenn telja þessar hindranir óþarfar og óæskilegar og leggja til að greinin falli brott.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. 12. gr. gildandi laga eru ákvæði um að óheimilt sé að taka það land, sem nýtt var til landbúnaðar við gildistöku laganna (árið 1976), til annarra nota nema með lagaheimild eða með samþykki ráðherra að tilskildu samþykki viðkomandi jarðanefndar og sveitarstjórnar og að fenginni umsögn Skipulags ríkisins og Búnaðarfélags Íslands. Sé slíkt samþykki veitt beri að þinglýsa því. Að áliti flutningsmanna eru þessar hindranir á því að taka jarðnæði til annarra nota en til hefðbundins landbúnaðar í hrópandi ósamræmi við það sem nú er að gerast í ís lenskum landbúnaði þar sem stjórnvöld stuðla af fremsta megni að því að hefðbundinn land búnaður, fyrst og fremst sauðfjárrækt, dragist saman. Tími er því kominn til þess að auðvelda bændum að taka land til annarra nota en hefðbundins landbúnaðar og er það best gert með því að fella umrædda 1. mgr. 12. gr. brott.
    Þá er í b-lið lagt til að 2. mgr. 12. gr. verði umorðuð, m.a. þannig að til greina geti komið að heimila fleiri félagasamtökum en stéttarfélögum að eignast land til reksturs orlofshúsa, svo og að samþykki landeiganda sé áskilið eins og eðlilegt er.

Um 8. gr.

    Í 20. gr. gildandi laga er kveðið á um að kostnaður við störf jarðanefnda greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr viðkomandi sveitarsjóði. Þar sem héraðsnefndir hafa komið í stað sýslunefnda eins og var í upphaflegri gerð laganna og í héraðsnefndum sitja, öfugt við það sem átti við um sýslunefndirnar, fulltrúar þéttbýlissveitarfélaga viðkomandi sýslu ásamt fulltrúum dreifbýlissveitarfélaganna er óeðlilegt að ríkissjóður þurfi að bera helming kostnaðar við störf jarðanefnda enda er meginhlutverk þeirra að gæta hagsmuna sveitarfélaganna og íbúa þeirra. Hér er því lögð til sú breyting að viðkomandi sveitarfélög greiði að fullu kostnað við störf jarðanefnda samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

Um 9. gr.

    Í 37. gr. gildandi laga eru m.a. ákvæði um að heimilt sé að leigja ríkisjarðir, sem ekki byggjast samkvæmt ábúðarlögum og ekki eru teknar til nota af hálfu hins opinbera, til allt að tíu ára í senn. Síðan segir í 2. málsl. 2. mgr. að sé sótt um jörð til fastrar ábúðar sem leigð hafi verið með slíkri leigu sé hægt að segja slíkum leigusamningi upp fyrir áramót miðað við næstu fardaga þar á eftir.
    Nú liggur fyrir að aðili, einstaklingur eða samtök, sem leigt hefur ríkisjörð t.d. til skóg ræktar eða til annarra nytja og fengið samning til allt að tíu ára, kann að hafa gert ýmsar fjárhagslega skuldbindandi ráðstafanir og lagt í verulegan kostnað vegna nytjanna. Óeðlilegt er að ríkið geti einhliða rift samningnum með þeim hætti sem 2. málsl. 2. mgr. gerir ráð fyrir. Flutningsmenn leggja því til að ákvæði 2. málsl. 2. mgr. um einhliða riftun á leigusamningi verði afnumin.

Um 10. gr.

    Rík ástæða er til þess að endurskoða ýmsa aðra þætti jarðalaganna í frjálsræðisátt en þá sem í frumvarpi þessu hefur verið gerð tillaga um breytingar á. Það á ekki síst við um IV. kafla laganna sem fjallar um forkaupsrétt. Þar er hins vegar um að ræða ýmis stór lögfræðileg álita mál sem vandlega þarf að huga að í samráði við ýmsa aðila, svo sem Samband íslenskra sveit arfélaga og aðra. Því er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða verði landbúnaðarráðherra falið að láta fram fara slíka endurskoðun og leggja fram frumvarp að endurskoðuðum lögum á næsta hausti.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.