Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 211 – 202. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að brott falli 4. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Greinin kveður annars vegar á um rétt alþingismanns til leyfis frá opin beru starfi, sem hann gegnir, í allt að fimm ár frá þeim tíma er hann hlýtur kosningu og enn fremur um forgangsrétt að öðru jöfnu að sambærilegri stöðu hjá hinu opinbera þaðan í frá í önnur fimm ár. Hins vegar er ákvæði þess efnis að alþingismaður sem starfar hjá ríki eða ríkisstofnun með þingmennsku skuli njóta launa fyrir það starf samkvæmt mati viðkomandi ráðuneytis, þó aldrei hærri en 50%.
    Fyrra ákvæðið er nýmæli, kom fyrst í lög fyrir rúmum tveimur árum. Um það segir svo í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins, sem síðar varð að núgildandi lögum: „Eðlilegt þykir að alþingismaður geti fengið leyfi frá störfum fram á annað kjörtímabil sitt, þ.e. að hann verði að sleppa starfinu ef hann er kosinn á Alþingi í annað sinn í röð. Sanngjarnt þykir líka að þingmaður, sem þannig verður að velja milli opinbers starfs og þingmennsku, hafi tryggingu fyrir hliðstæðu starfi hjá hinu opinbera í nokkurn tíma, fimm ár, ef hann afsalar sér því starfi sem hann er skipaður eða ráðinn í. Áherslu ber að leggja á í þessu sambandi að um lágmarksrétt alþingismanns er að ræða samkvæmt greininni og ekkert því til fyrirstöðu að hann njóti rýmri réttar ef stofnun ákveður svo, en dæmi eru um það, m.a. í Háskóla Íslands. Loks ber að nefna að í 48. gr. stjórnarskrárinnar voru ákvæði hliðstæð þessu, þ.e. að embættismenn, sem kosnir eru til Alþingis, þurfi ekki „leyfi stjórnarinnar til þess að þiggja kosninguna“. Málsgreinin, 2. mgr. 48. gr., var hins vegar felld brott með stjórnarskipunarlögum 1991.
    Um þetta ákvæði fórust framsögumanni, Geir H. Haarde, svo orð í ræðu sinni 15. júní 1995: „Ákvæðið um rétt alþingismanna til að fá leyfi frá opinberu starfi í allt að fimm ár til þess að gegna þingmennsku er nýtt. Það er hins vegar eðlilegt að dómi okkar flutningsmanna að afsali hann sér starfinu eftir fimm ára leyfi eigi hann að öðru jöfnu forgang í allt að fimm ár frá þeim tíma að sambærilegri stöðu hjá hinu opinbera. Hér er verið að tryggja opinberum starfsmönnum sem hljóta kosningu til Alþingis ákveðin lágmarksréttindi og er að okkar dómi eðlilegt að kveða á með skýrum hætti um slíkt í lögum, en á það hefur nokkuð skort að um þetta atriði væru skýr ákvæði.“
    Í framangreindum rökstuðningi fyrir lagaákvæðinu er ekki að finna nein rök sem réttlæta að veita alþingismönnum sem áður störfuðu hjá hinu opinbera starfsöryggi í allt að tíu ár. Ekki hefur verið sýnt fram á að þeim alþingismönnum sé hættara við að missa þingsæti sitt en hinum sem áður störfuðu á almennum vinnumarkaði. Verður því ekki séð að ástæða sé til þess að grípa til mismununar af þessu tagi og því lagt til að ákvæðið sé fellt brott.
    Þá er jafnræðis milli þegnanna ekki gætt í lagasetningunni og vafasamt verður að teljast að lagaákvæðið sé í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Því er umrætt laga ákvæði hvorki eðlilegt né sanngjarnt.
    Eftir stendur þá að það verður samningsatriði milli viðkomandi stofnunar og alþingis mannsins hvort hann heldur stöðu sinni, þó innan ramma gildandi lagaákvæða sem varða stofnunina. Eðlilegra verður að telja að í löggjöf um þingfararkaup séu almenn ákvæði um starfsmöguleika þingmanna að lokinni þingmennsku, fremur en sérstök ákvæði í þágu fárra eins og nú er.
    Síðara ákvæði lagagreinarinnar sem lagt er til að falli brott setur mörk á launagreiðslur til alþingismanns ef hann starfar hjá hinu opinbera jafnhliða þingmennskunni og er miðað við að laun hans verði að hámarki 50% af launum fyrir fullt starf. Ekki þykir eðlilegt að festa í lög ákvæði sem geta falið í sér að starfsmanni hins opinbera sé gert að vinna að einhverju leyti án þess að fá laun fyrir. Vinni starfsmaðurinn meira en hálft starf á hann að sjálfsögðu að fá laun í samræmi við starfshlutfall sitt. Lagaákvæðið gerir í raun upptæk laun fyrir vinnu umfram 50% af starfi. Slík lagasetning getur ekki talist samboðin lýðræðisríki og er því lagt til að ákvæðið sé fellt brott.
    Það er hins vegar annað mál hvort eðlilegt er að alþingismenn hafi aðra launaða vinnu samhliða þingmennskunni og kemur til greina að reisa skorður við því. En á meðan ekki hafa verið settar almennar reglur þar um verða allir alþingismenn að sitja við sama borð í þessum efnum og eiga það við sig og kjósendur sína hvort þeir hafi annað starf samhliða þing mennskunni.