Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 215 – 206. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um staðsetningu nýrra ríkisfyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Tómas Ingi Olrich.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa stefnumörkun um hvernig tryggja megi aukna hlutdeild landsbyggðarinnar í opinberri þjónustu með því að staðsetja nýjar stofnanir og fyrirtæki ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins þar sem það er mögulegt.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 121. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu og er nú lögð fram að nýju.
    Miklar umræður hafa farið fram á undanförnum árum um flutning ríkisstofnana frá höfuð borgarsvæðinu og út á landsbyggðina. Um það efni hafa verið lagðar fram skýrslur og tillögur en tiltölulega lítið orðið úr framkvæmdum. Skemmst er þó að minnast velheppnaðs flutnings höfuðstöðva Skógræktar ríkisins til Egilsstaða og embættis veiðistjóra til Akureyrar. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að flytja Landmælingar Íslands til Akraness á miðju ári 1999.
    Þótt vitaskuld séu full rök fyrir þessum ákvörðunum hafa þær ævinlega haft í för með sér togstreitu og deilur. Það má hins vegar ekki verða til þess að horfið verði frá því að staðsetja einstakar stofnanir og fyrirtæki ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins.
    Hið opinbera er stærsti vinnuveitandi á Íslandi. Enginn vafi er þess vegna á því að staðsetn ing ríkisfyrirtækja og opinberrar stjórnsýslu getur verið ráðandi um það hvar menn kjósa sér búsetu. Framboð atvinnu ræður því oft hvar fólk sest að. Þegar stærsti vinnuveitandinn kýs að koma starfsemi sinni fyrir að mestu á einum stað er augljóst að það hefur mikil áhrif á bú setuþróun í landinu.
    Þjóðfélagið tekur miklum og örum breytingum sem flestar eru óumflýjanlegar. Það kallar á stöðuga endurskoðun á mjög mörgum sviðum. Ríkið er þar engin undantekning. Skipulag op inberrar þjónustu verður að breytast með breyttum tímum. Ríkisstofnanir eru lagðar niður og aðrar koma í staðinn, jafnvel á nýju sviði þar sem þörf krefur. Í sjálfu sér skiptir ekki máli hvort menn ætla ríkisvaldinu stórt hlutverk eða lítið í samfélaginu, ævinlega hlýtur að þurfa að gera ráð fyrir miklum breytingum og nýjum og breyttum ríkisfyrirtækjum og stofnunum.
    Undir þetta sjónarmið var m.a. tekið í ályktun á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í október á sl. ári, en þar segir: „Hið opinbera þarf að tryggja eðlilega hlutdeild landsbyggðarinnar í op inberri þjónustu. Ný fjarskiptatækni gerir það mögulegt að fyrirtæki séu staðsett í auknum mæli á landsbyggðinni. Því þarf að marka ákveðna stefnu um flutning ríkisfyrirtækja út á land og staðsetja nýjar stofnanir og fyrirtæki ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins.“
    Orsakir búferlaflutninga af landsbyggðinni eru margslungnar. Þar ræður talsverðu sú fá breytni atvinnulífsins sem er víða ríkjandi. Enginn vafi er á að ríkisvaldið ber þar nokkra ábyrgð. Alls voru unnin 34.614 ársverk á vegum hins opinbera árið 1994 samkvæmt upplýs ingum Byggðastofnunar. Þar af voru 22.982 á höfuðborgarsvæðinu. Það svarar til þess að tvö af hverjum þremur ársverkum hjá hinu opinbera séu unnin á höfuðborgarsvæðinu. Á árunum 1984–95 fjölgaði ársverkum á vegum hins opinbera um 5.648 á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni fjölgaði þeim hins vegar um 2.114. Mismunurinn er 3.534 ársverk.
    Þessi þróun veldur ekki litlu um hvar fólk kýs sér búsetu, ekki eingöngu vegna þess að um langan veg sé að fara eftir opinberri þjónustu af landsbyggðinni heldur ekki síður vegna þess að framboð atvinnutækifæra hjá hinu opinbera beinist á svo afmarkaðan stað á landinu og stuðlar því að þeirri byggðaþróun sem hefur orðið hér á landi undanfarin ár og áratugi. Til þess að tryggja heilbrigða og hagkvæma byggðaþróun er því fullkomlega eðlilegt að mótuð sé stefna um staðsetningu ríkisfyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni eins og mælt er fyrir um í tillögunni.



Fylgiskjal.



Hlutfall höfuðborgarsvæðisins (HBS) af ársverkum


opinberra aðila og af íbúafjölda.




(Línurit — myndað.)