Ferill 34. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 244 – 34. mál.



Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um framkvæmd 12. gr. jafnréttis laga.

1.      Hve oft hefur verið minnt á 12. gr. jafnréttislaganna frá því að hún var lögtekin árið 1991
       a.      í bréfum einstakra ráðherra þar sem óskað er tilnefningar í stjórnir, ráð og nefndir,
       b.      í sambærilegum bréfum stjórnenda ríkisstofnana,
       c.      í bréfum stjórnenda sveitarfélaga?

    Forsætisráðuneytið fól félagsmálaráðuneytinu að afla þeirra upplýsinga sem óskað er eftir í fyrirspurninni. Í svörum ráðuneyta kemur fram að yfirleitt hefur ekki verið minnt á 12. gr. jafnréttislaga í þeim bréfum ráðuneyta þar sem óskað er eftir tilnefningum í ráð, stjórnir og nefndir. Á þessu eru hins vegar undantekningar. Félagsmálaráðuneyti hefur á því tímabili sem um er spurt 173 sinnum minnt á umrædda grein og umhverfisráðuneyti hefur 12 sinnum á sama tímabili minnt á lagagreinina. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti minnti á hana í 21 skipti á árinu 1995. Í svörum ráðuneyta kemur fram að þau hafi með ýmsum hætti leitast við að jafna hlutföll kynja í ráðum, stjórnum og nefndum og að það hafi borið nokkurn árangur þótt ekki hafi verið minnt sérstaklega á 12. gr. jafnréttislaga. Þau hyggist stuðla að því á virkari hátt en gert hefur verið, m.a. með því að vitna til lagagreinarinnar.
    Afar fátítt er að stofnanir leiti eftir formlegum tilnefningum í stjórnir, nefndir og ráð. Það hefur hins vegar verið gert í nokkrum tilvikum, t.d. hefur Vinnumálastofnun minnt á laga greinina í tveimur tilvikum og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins einu sinni.
    Í svari Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að á vegum þess, samstarfsstofnana, Lána sjóðs sveitarfélaga og Bjargráðasjóðs sé almennt ekki óskað eftir tilnefningum í ráð, stjórnir og nefndir. Ógerningur er að afla upplýsinga frá sveitarfélögum landsins innan þess tíma ramma, sem gefinn er til að svara fyrirspurn þessari, og raunar orkar mjög tvímælis að krefja forsætisráðuneytið svara um stjórnsýslumál sveitarfélaganna í landinu.

2.      Er meira um að bæði kynin séu tilnefnd ef minnt er á 12. gr. jafnréttislaganna í bréfum fyrrgreindra aðila en ef það er ekki gert?
    Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma hér að framan er ekki mögulegt að gera marktækan samanburð á því hvort tilnefningar á konum séu algengari í þeim tilvikum sem minnt er á 12. gr. jafnréttislaga. Í svari umhverfisráðuneytis er tekið fram að í þeim tilvikum sem það hafi verið gert sé ekki merkjanlegt að konur séu fremur tilnefndar en karlar. Á hinn bóginn má benda á að hlutfall kvenna hefur verið hæst í stjórnum, ráðum og nefndum á veg um félagsmálaráðuneytis, en óljóst er hvort það megi rekja til þess að það ráðuneyti hefur að jafnaði minnt á umrædda lagagrein.