Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 269 – 236. mál.Frumvarp til lagaum afnám laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir, Svavar Gestsson.1. gr.

    Lög um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum, falla úr gildi 1. september 2002.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði ákvörðun um að ljúka úthlutun veiðiheimilda og stjórn fiskveiða samkvæmt núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir að samstaða sé um að stjórna verði fiskveiðum áfram og að sett verði ný lög sem taki við af eldri lögum. Þýðing þessa frumvarps er fyrst og fremst sú að öll réttindi til veiða samkvæmt gildandi lögum munu falla niður og endurúthlutun fara fram á grundvelli nýrra laga. Með samþykkt frumvarpsins tekur Alþingi af öll tvímæli um forræði sitt til lagasetningar um nýtingu fiskstofna og óum deilt verður gildi núgildandi lagaákvæða um þjóðareign á fiskstofnunum. Flutningur frum varpsins byggist á þeirri skoðun flutningsmanna að gildandi lög hafi ekki leitt til einkaeign arréttar á fiskstofnum eða nýtingu þeirra og að hægt sé að fella þau réttindi niður bótalaust . Á hinn bóginn hefur raskast mjög sá grundvöllur sem upphafleg úthlutun veiðiheimilda hvíldi á, svo og dreifing þeirra eftir byggðarlögum og útgerðarflokkum, og af þeim sökum er óhjá kvæmilegt að taka málið til endurskoðunar í heild.
    Til greina kemur að kveða á um skipan nefndar sem skipuð yrði fulltrúum stjórnmála flokkanna og gera henni að skila frumvarpi að nýjum lögum eigi síðar en t.d. tveimur árum áður en núgildandi lög féllu úr gildi. Slík skipan mála mundi lögfesta ákveðinn feril málsins og væri líkleg til þess að tryggja vandaðan undirbúning að löggjöfinni.
    Á hinn bóginn er ólíklegt að slík nefndarskipan leiði til sameiginlegrar niðurstöðu og ber að hafa í huga að Alþingiskosningar eru innan tveggja ára. Fyrir þær kosningar munu stjórn málaflokkarnir vafalaust leggja fyrir kjósendur áherslur sínar í þessu mikilsverða máli og meginstefnu í því, sem þeir þá ætla að hrinda í framkvæmd með nýjum lögum á næsta kjör tímabili og það gæti orðið eigi síðar en 1. september 2002 samkvæmt ákvæðum frumvarps ins. Ekki er ólíklegt að ríkisstjórnarsamstarf eftir Alþingiskosningar árið 1999 verði einmitt grundvallað á stefnunni í sjávarútvegsmálum. Þessi líklega atburðarás mælir fremur gegn nefndarskipan og er því ekki gerð tillaga um hana í frumvarpinu.
    Það er sjónarmið flutningsmanna að stjórna beri fiskveiðum á annan hátt en verið hefur. Stjórn fiskveiða þarf að gera nýjum mönnum kleift að hefja útgerð og nýta legu sjávarbyggða við nálæg fiskimið með öflugum strandveiðum. Þá þarf hún að nýta kosti stórútgerðar og loks að endurspegla áherslu á að mengun hvers konar verði sem minnst við sjósóknina. Um gengni um lífríki hafsins miðist við að spilla því ekki og að veiðar úr fiskstofnum takmarkist við að ganga ekki á stofnstærð umfram endurnýjunargetu og raska ekki jafnvæginu í líf ríkinu.
    Til þess að ná þessum markmiðum þarf ný löggjöf að skilja á milli strandveiða og stór útgerða. Í strandveiðum verði opið kerfi sem byggist að mestu leyti á sóknarstýringu og geri ráð fyrir áætluðu heildaraflamagni, en togarar og önnur stórvirk skip verði áfram í afla markskerfi með framseljanlegum aflaheimildum að einhverju leyti. Hlutur strandveiða gæti verið um 40% og hlutur aflamarkskerfisins um 60% af botnfiskveiðunum. Þá yrði veiðum stjórnað þannig að strandveiðar væru á miðum innan 20–30 mílna frá landi og aðrar veiðar að mestu þar fyrir utan. Veiðiréttindin afmarkist við hvorn útgerðarflokkinn um sig og geti ekki flust á milli þeirra. Til strandveiða mundu teljast allar veiðar með önglum. Veiðar með netum, nót eða trolli yrðu mjög takmarkaðar. Settar yrðu reglur um hámarksútivist hvers skips og um stærð báta sem mættu stunda strandveiðar. Um veiðar uppsjávarfiska giltu að nokkru leyti aðrar reglur og lytu einkum aflamarksstjórnun.
    Flutningsmenn gera ráð fyrir að atvinnugreinin greiði kostnað við eftirlit og hagræðingu og hluta af kostnaði við rannsóknir en að öðru leyti gildi almenn skattalög.