Ferill 248. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 293 – 248. mál.



Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


1. gr.

    Við 1. mgr. 21. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Skipunartími formanns skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipaði hann.

2. gr.

    Við 3. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Skipunartími formanns skal takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipaði hann.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu er lagt til að skipunartími formanna stjórna sjúkrahúsa og heilsugæslu stöðva verði hinn sami og embættistími þess ráðherra sem skipar þá. Formaður stjórnar er eini fulltrúinn í stjórninni sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar og verður því að telja eðlilegt að hver ráðherra geti sjálfur valið þennan fulltrúa sinn í stjórninni.
    Í 1. gr. er lögð til sú breyting að formenn stjórna heilsugæslustöðva verði skipaðir af þeim ráðherra sem þeir eru trúnaðarmenn fyrir og skipunartíma þeirra ljúki þegar embættistíma ráðherra lýkur.
    Í 2. gr. er lögð til sú breyting að skipunartíma formanna stjórna sjúkrahúsa ljúki þegar embættistíma þess ráðherra sem skipaði þá lýkur.
    Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi að loknum næstu sveitarstjórnarkosningum þannig að þau komi til framkvæmda þegar kjörtímabili núverandi stjórna sjúkrahúsa og heilsugæslu stöðva lýkur.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/1990,
um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að skipunartími stjórnarformanns heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss verði sá sami og embættistími þess heilbrigðisráðherra er skipaði hann. Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.