Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 295 – 250. mál.Tillaga til þingsályktunarum rannsókn á atvinnuleysi kvenna og aðgerðir til að draga úr því.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Halldórsdóttir.    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd er hafi það verkefni að rann saka orsakir atvinnuleysis meðal kvenna hér á landi og koma með tillögur um aðgerðir til að draga úr því. Jafnframt skoði nefndin líklega þróun íslensks vinnumarkaðar á næstu árum með sérstöku tilliti til kvenna, þ.e. hvar störfum muni fækka eða fjölga og hvaða aðgerðir verði nauðsynlegar af hálfu stjórnvalda og vinnumarkaðar vegna þeirra breytinga.

Greinargerð.


    Um áratuga skeið var atvinnuleysi nánast óþekkt hér á landi og fremur skortur á vinnuafli en hitt. Árið 1991 hófst atvinnuleysistímabil og árið 1995 náði fjöldi atvinnulausra hámarki en síðan hefur dregið smátt og smátt úr atvinnuleysinu í heild. Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1998 er spáð að atvinnuleysi verði 3,6% á landsvísu. Þegar atvinnuleysistölur eru skoðaðar vekur athygli hve mikið dregið hefur úr atvinnuleysi karla, en lítið úr atvinnuleysi kvenna. Í þjóðhagsáætlun fyrir 1998 segir : „Atvinnuleysi karla á fyrstu sjö mánuðunum er 0,6% minna en í fyrra, eða 2,9% samanborið við 3,5% í fyrra. Á fyrstu átta mánuðum er atvinnu leysi kvenna hins vegar svipað og í fyrra eða 5,9% í ár, en 6% í fyrra. Ástæða þess að ekki hefur dregið úr atvinnuleysi kvenna er m.a. sú að átaksverkefnum hefur fækkað og fram kvæmdir við stóriðju tengjast fremur greinum þar sem karlar eru í meiri hluta.“ (Bls. 23–24.) Í ljósi þessara orða er eðlilegt að spyrja hvers vegna dregið hafi verulega úr aðgerðum til að minnka atvinnuleysi og hvort ráðamenn geri sér ekki ljóst að það vantar vinnu fyrir konur? Í september voru rúmlega þrjú þúsund konur á atvinnuleysisskrá.
    Í yfirliti Vinnumálastofnunar fyrir septembermánuð kemur fram að atvinnuleysi kvenna er einna mest á Norðurlandi vestra eða 6,2%, síðan kemur höfuðborgarsvæðið með 5,3% atvinnuleysi, þá Suðurnes með 5,0% og Suðurland með 4,6% atvinnuleysi. Þessar tölur sýna að atvinnuleysið herjar víða um land, en löngum hefur það verið verst á höfuðborgarsvæð inu. Þetta eru allt of háar tölur og þættu himinhrópandi ef karlar ættu í hlut, sbr. þá umræðu sem átti sér stað þegar atvinnuleysið náði allt að 6% á landsvísu.
    Að mati tillöguhöfunda er brýn ástæða til að kanna hvað býr að baki þessu atvinnuleysi meðal kvenna. Hvaða hlut eiga tæknibreytingar að máli, samdráttur í einstökum landshlutum, hlutavinna, menntunarskortur, fordómar gagnvart konum með lítil börn eða eldri konum eða aðrir þættir? Hvaða aðgerðir geta komið að bestu gagni í anda þeirrar hugmyndar að gera eigi fólki kleift að stunda vinnu og að það eigi að virkja hina atvinnulausu? Spyrja verður hvort beita þurfi öðrum aðferðum fyrir konur en karla. Hvað má læra af öðrum þjóðum í þessum efnum?
    Á undanförnum árum hefur ýmislegt verið reynt, t.d. vinnuklúbburinn í Reykjavík sem skilað hefur góðum árangri. Átaksverkefni sköpuðu tímabundna vinnu. Með nýlegum breyt ingum á lögum um atvinnuleysistryggingasjóð og nýjum lögum um vinnumarkaðsaðgerðir er hugsanlegt að einhver árangur náist í að aðstoða þá sem átt hafa við langtímaatvinnuleysi að stríða og að öðrum verði hjálpað við að leita sér að vinnu. Betur má þó ef duga skal. Því miður bendir allt til þess að varanlegt atvinnuleysi sé orðið eitt af einkennum íslenska vinnu markaðarins, en af reynslu annarra þjóða má læra hve mikilvægt er að halda því sem allra mest niðri, ekki síst til að koma í veg fyrir alvarleg félagsleg vandamál.
    Nú er spáð að atvinnuleysi verði stöðugt og jafnvel vaxandi í flestum ríkjum Evrópu á næstu árum og áratugum, verði ekki gripið til róttækra aðgerða. Sérfræðingar segja að á næstu árum muni þörf fyrir sérmenntað vinnuafl aukast en störfum fækka jafnt og þétt í hefð bundnum atvinnugreinum. Þessi þróun krefst stóraukinnar starfsmenntunar og menn verða að átta sig á hvers konar menntunar verður þörf. Því er mikilvægt að reynt verði að sjá fyrir líklega þróun hér á landi með tilliti til fækkunar eða fjölgunar starfa eftir atvinnugreinum og að sérstaklega verði athuguð þau áhrif sem breytingarnar muni hafa á atvinnumál kvenna.
    Starfsval kvenna hér á landi er enn mjög hefðbundið, en í ýmsum öðrum löndum hafa kon ur haslað sér völl í starfsgreinum sem áður voru einokaðar af körlum. Má nefna sem dæmi hvers konar verksmiðjuvinnu, svo sem í bíla- og áliðnaði í Bandaríkjunum, sem verður æ sér hæfðari og tæknivæddari. Þá fjölgar konum mjög í fyrirtækjarekstri og stjórnunarstörfum en þar erum við Íslendingar einnig eftirbátar annarra þjóða. Því er mikil þörf á átaki í menntun en einnig þarf að breyta viðhorfum, þannig að konur leiti í auknum mæli í greinar sem skila góðum tekjum og þar sem vöxtur og nýsköpun eru fram undan.
    Flytjendur tillögunnar leggja því til að orsakir atvinnuleysis kvenna hér á landi verði kannaðar sérstaklega. Þá ber nefndinni sem skipuð verður að benda á leiðir til úrbóta og jafnframt að kanna líklega þróun vinnumarkaðarins, þannig að þeir sem eru á leið í gegnum menntakerfið og út á vinnumarkaðinn geti betur áttað sig á hvað framtíðin ber í skauti sér og komist þannig hjá því að verða ömurlegu og mannskemmandi atvinnuleysinu að bráð. Þeir sem þegar eru komnir út á vinnumarkaðinn þurfa að eiga kost á símenntun sem geri þá hæfari til að mæta breyttum tímum.