Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 296 – 251. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um setningu reglna um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Svavar Gestsson, Kristín Ástgeirsdóttir,


Sigríður A. Þórðardóttir, Valgerður Sverrisdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja reglur um leyfi starfsmanna frá störfum í ríkisþjónustu þegar þeir taka tímabundið við öðrum störfum, svo sem hjá alþjóðastofn unum sem Ísland er aðili að eða kjörnum trúnaðarstörfum. Í reglunum verði m.a. tekið fram hvenær starfsmenn eigi rétt til þess að fá ólaunað leyfi frá störfum, hvernig reikna skuli leyf istímann til starfsaldurs, annarra réttinda og mats á starfshæfni og hver sé réttur starfsmanns til fyrra starfs eftir að leyfi lýkur.

Greinargerð.


    Á hverju ári fær nokkur fjöldi ríkisstarfsmanna leyfi frá störfum, ýmist án launa eða að einhverju leyti á launum. Í fyrra tilvikinu er oft um að ræða starfsmenn sem ráða sig tíma bundið til starfa, t.d. á vegum alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að, en í síðara tilvikinu t.d. fólk sem fær leyfi frá störfum til þess að afla sér framhaldsmenntunar er síðan nýtist því í áframhaldandi störfum fyrir ríkið.
    Í tillögunni er lagt til að reglur verði settar sem kveða á um réttarstöðu starfsmanna og er eðlilegt að um þær reglur verði haft samráð við samtök ríkisstarfsmanna.
    Í ljósi tilvika sem upp hafa komið er nauðsynlegt að setja skýrar reglur um hvaða réttindi starfsmenn ávinna sér eða tapa með því að fá launalaust leyfi og hver sé réttur þeirra til þess að taka á ný við fyrra starfi þegar leyfi frá störfum lýkur. Nauðsynlegt er að eyða óvissu sem upp er komin um þetta efni og valdið getur því að hæfir einstaklingar fáist ekki til þess að taka að sér tímabundin störf erlendis. Störf íslenskra starfsmanna á erlendum vettvangi geta verið íslenskum hagsmunum til framdráttar um leið og þeir afla sér verðmætrar þekkingar til áframhaldandi starfa í opinberri þágu.
    Mikilvægt er að um þessi leyfi séu skýrar reglur þannig að starfsmanni sé kunnugt um rétt sinn áður en hann sækir um slíkt leyfi. Benda má á að í lögum um þingfararkaup alþingis manna og þingfararkostnað frá árinu 1995 er í 4. gr. kveðið á um rétt alþingismanns til leyfis frá opinberu starfi sem hann gegnir þegar hann er kjörinn til Alþingis.