Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 302 – 61. mál.



Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um vegtengingu Vopnafjarðar við hringveg.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er samgönguráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að samhliða lagningu nýs kafla á hringvegi frá Langadal að Ármótaseli (Háreksstaðaleið) verði lagður nýr vegur frá Brunahvammshálsi stystu leið suður á hringveg sem liður í stórverkefninu yfir Fjöllin?

    Kafli á hringvegi frá Langadal að Ármótaseli (Háreksstaðaleið) var boðinn út í haust. Í útboðinu var innifalin tenging við Vopnafjarðarveg (85 Norðausturveg) í mynni Langadals (um 1 1/ 2 km að lengd). Leiðin milli Vopnafjarðar og Egilsstaða styttist um 28 km ef farin er Háreksstaðaleið og notuð sú tenging sem er innifalin í útboðinu.
    Sveitarstjórn Vopnafjarðar hefur farið þess á leit að tengingin verði flutt mun utar og liggi af Vopnafjarðarvegi við suðurenda Brunahvammsháls og á hringveg skammt vestan Koll seyru. Þessi tenging yrði 7–8 km að lengd og mundi stytta leiðina milli Vopnafjarðar og Egilsstaða enn um 12 km. Það er þessi tenging sem fyrirspurnin fjallar um.
    Á undanförnum árum hefur talsvert verið athugað hvernig tengja megi Vopnafjörð við hringveg til frambúðar. Miðað við að hringvegur fari Háreksstaðaleið er í aðalatriðum um þrjár leiðir að velja:
     1.      Af hringvegi vestan Kollseyru á Vopnafjarðarveg austan undir suðurenda Brunahvammsháls og þaðan áfram út Fossheiði og Burstarfell eða niður í Vesturárdal.
     2.      Af hringvegi vestan Kollseyru niður Hofsárdal og á Vopnafjarðarveg í dalnum.
     3.      Af hringvegi austan Kollseyru niður Steinvarartungu og á Vopnafjarðarveg á svipuðum slóðum og leið 2.
    Á þessu stigi þykir leið 2 fremur álitleg en þó þarf að kanna margt áður en ákvörðun um legu vegarins verður tekin.
    Sú tenging sem fyrirspurnin fjallar um er í raun leið 1 hér að ofan. Meiri hluti tengingar innar á einnig að geta nýst þó að leið 2 verði valin.
    Áður var getið um lengd tenginga. Þar kom fram að tengingin sem spurt er um er nálægt 6 km lengri en sú sem var í útboðinu og fara þarf yfir Hölkná á nýjum stað. Gera verður ráð fyrir að kostnaðarmunur á tengingunum geti verið um eða yfir 100 millj. kr. Engin hönnun liggur fyrir á lengri tengingunni og fara þarf fram mat á umhverfisáhrifum vegarins ef til framkvæmda kemur. Alllangan tíma tekur að skoða og undirbúa málið. Í raun er nægur tími til þess þar eð verkið yrði boðið út í sjálfstæðu útboði ef af yrði.
    Hér að framan hefur verið gerð stuttlega grein fyrir helstu atriðum sem snerta umrædda tengingu. Með tilliti til þess hvað hún styttir leiðina mikið er eðlilegt að þetta mál verði athugað vandlega og hefur Vegagerðin þegar verið beðin að gera það. Að þeirri athugun lokinni verður að taka afstöðu til þess hvort hefja eigi framkvæmdir við tenginguna og þá einnig hvort hún geti tengst stórverkefninu yfir Fjöllin.