Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 313 – 256. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um Goethe-stofnunina í Reykjavík.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Valgerður Sverrisdóttir,
Jón Baldvin Hannibalsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Pétur H. Blöndal, Hjálmar Árnason, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Svavar Gestsson.


    Alþingi telur mikilvægt fyrir áframhaldandi góð samskipti Íslands og Þýskalands að útibú Goethe-stofnunarinnar í Reykjavík verði starfrækt áfram og ályktar að fela ríkisstjórninni að leita eftir því við þýsk stjórnvöld að svo geti orðið. Jafnframt hvetur Alþingi ríkisstjórn ina til að stuðla að því að af Íslands hálfu verði aukin kynning á íslenskri menningu í Þýska landi.

Greinargerð.


    Frá árinu 1976 hefur útibú Goethe-stofnunar verið starfrækt í Reykjavík. Stofnunin hefur þannig í tvo áratugi verið miðstöð fyrir þýsk-íslensk menningartengsl. Á vegum hennar er starfrækt mikið bókasafn með yfir 6.000 titlum og rekin upplýsingastarfsemi um Þýskaland fyrir almenning. Stofnunin hefur stutt við kennslu þýskrar tungu með tengslum, ráðgjöf og miðlun á efni til þýskukennara og nemenda í framhaldsskólum um land allt, sem og í Háskóla Íslands. Jafnframt hefur stofnunin stutt við kynningu á þýskri menningu hérlendis með heim sóknum rithöfunda og listamanna, fyrirlestrahaldi, ráðstefnum og kvikmyndasýningum. Starfsemin hefur einnig leitt til gagnkvæmra menningarsamskipta landanna. Þrátt fyrir tak mörkuð fjárráð og fáa starfsmenn hefur útibú stofnunarinnar hérlendis haft geysimikla þýð ingu fyrir menningarsamskipti Íslands og Þýskalands og óbein áhrif á almenn viðskipti milli landanna.
    Það var því verulegt áfall þegar kunngerð var í september 1997 ákvörðun þýskra stjórn valda að loka útibúi Goethe-stofnunarinnar í Reykjavík ásamt átta öðrum hliðstæðum stofn unum. Yfirleitt er þar um ræða Goethe-stofnanir þar sem fleiri en ein eru í sama landi. Komi þessi ákvörðun til framkvæmda yrði Ísland hins vegar eina Evrópulandið þar sem engin slík miðstöð yrði til staðar. Það er mat þeirra sem til þekkja og átt hafa samskipti við Goethe-stofnunina í Reykjavík að lokun hennar yrði til óbætanlegs tjóns fyrir menningartengsl Ís lands og Þýskalands.
    Fréttin um yfirvofandi lokun Goethe-stofnunarinnar hér varð strax tilefni margháttaðra viðvarana og andmæla af hálfu íslenskra stjórnvalda og almennings. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra tók málið upp við þýskan starfsbróður sinn, Klaus Kinkel, þegar þeir voru staddir á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Lýsti Halldór og íslenska utan ríkisráðuneytið yfir áhyggjum sínum vegna þessarar ákvörðunar. Af tilefni fyrirspurnar á Al þingi 3. nóvember 1997 greindi utanríkisráðherra frá því að sér hefði nýlega borist bréf frá Klaus Kinkel, utanríkisráðherra Þýskalands, sem hefði tjáð sér að ekki væri unnt að breyta þessari ákvörðun. Hins vegar ráðgeri þýsk stjórnvöld að leita annarra leiða til að menningar samskipti landanna falli ekki niður, m.a. með aðstoð Goethe-stofnunarinnar í Kaupmanna höfn, svo og með auknu samstarfi við þýsk-íslensk áhugasamtök hérlendis. Halldór Ásgrímsson sagði við þetta tækifæri að íslenska utanríkisráðuneytið mundi áfram beita sér í málinu. Hefur það m.a. verið gert fyrir milligöngu sendiráðs Íslands í Bonn.
    Margvísleg mótmæli hafa komið fram hérlendis vegna þessarar fyrirhuguðu lokunar úti bús Goethe-stofnunarinnar í Reykjavík. 32 þekktir einstaklingar úr menningar- og viðskipta lífi hafa sent frá sér mótmæli. Nær allir þýskukennarar landsins mótmæltu og allir stúdentar í þýskunámi við Háskóla Íslands. Þá hafa legið frammi á nokkrum stöðum til undirskriftar mótmælalistar fyrir almenning og 10. nóvember 1997 höfðu um 2.300 manns ritað á þá nöfn sín.
    Í Þýskalandi hefur einnig verið hreyft andmælum. Sendinefnd þýskra þingmanna frá Bundestag sem var í heimsókn á Íslandi um miðjan október sl. kynnti sér málið og sendi 16. október frá sér fréttatilkynningu þar sem lýst er þungum áhyggjum sendinefndarinnar vegna áformaðrar lokunar Goethe-stofnunar á Íslandi og að nefndin muni beita sér fyrir þinglegum aðgerðum til að reyna að fá ákvörðuninni hnekkt. Málið hefur vakið talsverða athygli í Þýskalandi, m.a. vegna greina sem birst hafa í víðlesnum blöðum þarlendis.
    Með tillögu þessari, sem flutt er af fulltrúum allra þingflokka, er lýst eindregnum vilja þingsins til að menningarsamskipti Íslands og Þýskalands verði styrkt í stað þess að dregið verði úr þeim. Í því sambandi telja flutningsmenn afar mikilvægt að Goethe-stofnunin í Reykjavík verði starfrækt áfram en beina jafnfram þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að þau stuðli að því að aukin verði kynning á Íslandi og íslenskri menningu í Þýskalandi. Það er mat þeirra sem til þekkja að miklir möguleikar séu fyrir hendi þar til að glæða enn frekar áhuga á Íslandi og íslenskri menningu og auka þannig góð samskipti þjóðanna.
    Rík ástæða er til að benda á að mál þetta varðar ekki aðeins samskipti landanna á menn ingarsviði heldur grípur jafnframt inn á almenn tengsl og viðskipti þeirra í milli. Það væri því mikið óheillaspor ef lokað yrði Goethe-stofnuninni sem tekist hefur af litlum efnum að auka veg þýskrar tungu og menningar og greiða götu fjölþættra samskipta milli Íslands og Þýskalands.