Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 332 – 264. mál.



Tillaga til þingsályktunar


um setningu reglna um hvalaskoðun.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Árni M. Mathiesen, Guðrún Helgadóttir,


Ingunn St. Svavarsdóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að sjá til þess að settar verði reglur um hvala skoðun hér við land. Markmiðið á að vera að tryggja að umgengni við hvalina valdi hvala stofnunum ekki skaða, að öryggi ferðamanna á sjó sé viðunandi, að þjónustugreinin sé byggð upp á faglegan hátt og gæði hennar tryggð eins og kostur er.

Greinargerð.

    Hvalaskoðun hefur á undanförnum árum verið að ryðja sér til rúms sem einn helsti vaxtar broddurinn í ferðaþjónustu um allan heim. Vöxturinn í þessari grein ferðaþjónustunnar hefur verið ótrúlega mikill eða um 10% á ári að jafnaði síðastliðin ár. Þróunin hér á landi hefur þó verið langt umfram þetta og bendir allt til mikillar aukningar á næstu árum. Árið 1992 hófust hvalaskoðunarferðir frá Höfn í Hornafirði, en nú bjóða 13 fyrirtæki slíkar ferðir frá 11 stöðum á landinu. Slíkur er vöxturinn í þessari grein að árið 1995 var fjöldi farþega í hvalaskoðunarferðum 2.200, árið 1996 var hann 9.700, en fjöldinn á þessu ári verður vel yfir 20 þúsund. Aukningin er þannig um 116% frá síðasta ári.
    Hvalaskoðun felur í sér mikla möguleika, ekki bara á sjó heldur einnig á landi. Víða er unnið að markaðssetningu hennar, en mest eru umsvifin á Húsavík. Þaðan fóru nær 14 þúsund ferðamenn í skipulagðar hvalaskoðunarferðir á liðnu sumri og er búist við um 18 þúsund manns í slíkar ferðir sumarið 1998. Á Húsavík er nú í undirbúningi opnun Hvalamið stöðvar, upplýsinga- og fræðslumiðstöðvar þar sem frætt verður um lifnaðarhætti hvala og sögð saga hvalveiða og nýtingar hvalaafurða á liðnum árum og öldum. Ætlunin er að opna Hvalamiðstöðina á hafnarsvæðinu vorið 1998.
     Hvalaskoðun er leið til umhverfisvænnar nýtingar hvala hér við land. Sérfræðingar telja raunhæft að reikna með að tala hvalaskoðenda muni tvöfaldast á næstu árum og verði komin upp í 40 þúsund um aldamótin. Áætlað er að heildartekjur þjóðarbúsins af hvalaskoðun hafi numið allt að 860 millj. kr. á þessu ári og geti orðið á annan milljarð eftir 2–4 ár, ef þróunin verður á þann veg sem ætlað er. Mikið er því í húfi að uppbygging greinarinnar sé á fagleg um forsendum og fyllsta öryggis gætt.
    Umferð báta í námunda við hvali er nú þegar nokkur og fer vaxandi. Sjálfsagt er að gæta varfærni í umgengni við þá, tryggja að dýrin verði ekki fyrir skaða og að mönnum og bátum stafi ekki hætta af hvölunum. Alþjóðahvalveiðiráðið hefur nýverið sett reglur um hvalaskoð un og þau lönd sem boðið hafa upp á hvalaskoðun um árabil hafa einnig sett sér reglur um þessa atvinnugrein, sem hafa mætti til hliðsjónar við samningu reglugerðar fyrir hvalaskoðun hér við land.
    Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík og leiðsögumað ur í hvalaskoðunarferðum hér við land síðustu fimm ár, hefur mótað eftirfarandi tillögur að lágmarksreglum, sem hafa beri í heiðri við hvalaskoðun. Þessar tillögur taka mið af reglum sem tíðkast í löndum sem boðið hafa upp á hvalaskoðunarferðir um árabil.
     Ávallt skal farið eftir almennum reglum sjófarenda og öryggisákvæðum Siglingastofnunar ríkisins.
     Í upphafi ferðar skal kynna öryggisútbúnað bátsins, staðsetningu björgunarbáta og björgunarvesta. Fara skal yfir öryggisreglur um borð, kynna áhöfn og hlutverk áhafnar fyrir þátttakendum í ferðinni.
     Þegar bátur nálgast hval skal slegið af vél, hún sett í lausagang.
     Ef hvalaskoðunarbátur er þegar til staðar við hvalinn/hvalina skal aðkomandi bátur ekki koma nær en 200–300 metra, þar til báturinn sem fyrir er hverfur frá eða gefur til kynna að óhætt sé að koma nær.
     Þegar bátur nálgast hval skal ekki farið nær honum en 50 metra.
     Ekki skal nálgast hval beint framan frá né beint aftan frá. Best er að nálgast hann rólega frá hlið aftan frá.
     Valda skal eins litlum hávaða og ónæði fyrir dýrin og frekast er mögulegt.
     Gott er að láta bátinn reka í lausagangi, þegar komið er að hvalnum, og jafnvel drepa á vélinni, vilji hvalurinn nálgast bátinn.
     Ekki skal keyra vél og skrúfu á fullri ferð í námunda við hvali né breyta snögglega um stefnu.
     Forðast skal eltingaleik við hvali. Ef hvalur fælist bátinn skal hverfa frá og leita annars staðar.
     Ekki skal henda rusli til hvalanna eða í sjóinn. Hafa skal sorpílát á áberandi stöðum um borð í bátnum.
    Sem fyrr segir eru þetta tillögur að lágmarksreglum, en margt fleira þarf að hafa í huga við uppbyggingu þjónustu á þessu sviði. Vorið 1995 var haldið námskeið í hvalaskoðun hér á landi og augljós þörf fyrir fleiri slík til að tryggja fagleg vinnubrögð þeirra sem starfa í greininni. Námskeiðið var haldið að frumkvæði Marks Carwardine, bresks blaðamanns og sérfræðings í hvalaskoðun, sem hefur ferðast mikið og skrifað fjölda greina um Ísland á undanförnum árum. Hann lýsir þeirri skoðun sinni í nýlegri blaðagrein að Ísland hafi algjöra sérstöðu á þessu sviði, það sé orðið Mekka hvalaskoðenda hvaðanæva að. Þann orðstír er brýnt að varðveita.


Fylgiskjal.


Úr skýrslu Ásbjarnar Björgvinssonar um hvalaskoðun á Íslandi árið 1997.


Hvalaskoðun á Íslandi 1997.
    Fyrirtæki sem boðið hafa upp á hvalaskoðunarferðir 1997:
    Norðursigling, Húsavík
    Sjóferðir Arnars, Húsavík
    Sjóferðir, Dalvík
    Níels Jónsson, Hauganesi
    Húnaströnd, Skagaströnd
    Konráð og synir, Ísafirði
    Snæfell, Arnarstapa
    Eyjaferðir, Stykkishólmi
    Orca, Ólafsvík
    Viktoríubátar, Reykjavík
    Árnes, Reykjavík
    Höfrungur, Keflavík
    Jöklaferðir, Höfn

    Líklegt er að einhver önnur fyritæki hafi einnig boðið upp á hvalaskoðun í tengslum við sjóstangaveiðiferðir.

Fjöldi farþega 1997.
    Samkvæmt upplýsingum frá framantöldum fyrirtækjum er heildarfjöldi ferðamanna sem farið hafa í hvalaskoðunarferðir í sumar orðinn 20.540.
    Þessi samantekt var gerð um miðjan september. Frá Húsavík, Dalvík og Keflavík er farið með ferðamenn í hvalaskoðunarferðir fram yfir mánaðamótin september/október.

Fjöldi farþega hjá einstökum fyrirtækjum:
Fyrirtæki 1995 1996 1997
Norðursigling, Húsavík
1.400 5.600 9.850
Sjóferðir Arnars, Húsavík
100 1.500 4.200
Níels Jónsson, Hauganesi
100 465 1.180
Sjóferðir, Dalvík
150 1.020 1.500
Höfrungur, Reykjanesbæ
300 700 2.000
Konráð og synir, Ísafirði
0 0 50
Húnaströnd, Skagaströnd
0 0 100
Eyjaferðir, Stykkishólmi
0 0 500
Jöklaferðir, Höfn
110 110 60
Höfði, Ólafsvík
20 60 200
Sjóferðir, Arnarstapa
20 45 350
Viktoríubátar, Reykjavík
0 200 400
Árnes, Reykjavík
0 0 150
Heildarfjöldi farþega
2.200 9.700 20.540

Skipting ferðamanna er áætluð eftirfarandi:
    Íslendingar alls um 2.000–2.500 manns.
    Erlendir ferðamenn um 18.000–18.500 manns. Þar af gagngert vegna hvalaskoðunarferða 2.000 manns. Þá má einnig gera ráð fyrir að um 2.000 manns hafi komið til landsins í og með vegna þess að boðið var upp á hvalaskoðunarferð í þeim ferðapakka sem keyptur var.