Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 362 – 290. mál.Frumvarp til lagaum húsaleigubætur.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)1. gr.
Markmið laganna.

    Markmið laganna er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.

2. gr.
Húsaleigubætur.

    Aðstoð samkvæmt lögum þessum er í formi greiðslna til leigjenda sem nefnast húsa leigubætur.
    Sveitarfélög skulu greiða húsaleigubætur og annast félagsmálanefndir sveitarfélaga að jafnaði afgreiðslu umsókna.
    

3. gr.
Almennt um rétt til húsaleigubóta.

    Þeir leigjendur eiga rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili.
    Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur getur viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili í leiguíbúð. Umsókn um bætur skal send því sveitarfélagi þar sem námsmaður á lögheimili óháð aðsetri.
    Það er skilyrði húsaleigubóta að húsaleigusamningur um viðkomandi húsnæði sé til sex mánaða eða lengri tíma og að honum hafi verið þinglýst.
    Um frekari skilyrði fyrir bótarétti og greiðslu bótanna fer samkvæmt nánari fyrirmælum þessara laga.

4. gr.
Meginreglur um rétt til húsaleigubóta.

    Húsaleigubætur skulu ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við ákveðinn grunn sem miðast við ákveðna fjárhæð fyrir hverja íbúð og hvert barn á framfæri umsækjanda að teknu tilliti til leigufjárhæðar, eigna og tekna.
    Bætur vegna barna greiðast frá næsta mánuði eftir fæðingu barns eða lögheimilisskráningu og þar til ungmenni nær 18 ára aldri eða flytur.
    Félagsmálaráðherra setur, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, ákvæði í reglugerð um útreikning og fjárhæð bóta, þar á meðal um grunnfjárhæðir bóta.
    Sveitarstjórn skal taka ákvörðun fyrir 1. nóvember ár hvert um fjárhæðir húsaleigubóta á næsta ári sem geta verið hærri en grunnfjárhæðir, sbr. 3. mgr. Sveitarstjórn skal fyrir 1. nóvember ár hvert auglýsa með tryggilegum hætti ákvörðun sína um fjárhæðir húsaleigubóta og tilkynna þá ákvörðun til félagsmálaráðuneytisins.
    

5. gr.
Atriði sem girða fyrir rétt til húsaleigubóta.

    Réttur til húsaleigubóta er ekki fyrir hendi:
     1.      ef umsækjandi eða einhver sem býr í húsnæðinu með honum er skyldmenni leigusala í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri,
     2.      ef umsækjandi eða einhver sem býr í húsnæðinu með honum nýtur réttar til vaxtabóta.
     3.      ef leigusamningur er til skemmri tíma en sex mánaða.

6. gr.
Íbúðarhúsnæði.

    Húsaleigubætur koma aðeins til álita vegna leigu á íbúðarhúsnæði.
    Með íbúðarhúsnæði í lögum þessum er átt við venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu og eru lágmarksskilyrði a.m.k. eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða eldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu.
    Húsaleigubætur greiðast ekki vegna leigu á einstaklingsherbergjum eða ef eldhús eða snyrting er sameiginleg fleirum.
    Þá greiðast bætur ekki þegar húsnæði til annarra nota en íbúðar er leigt til íbúðar að öllu leyti eða hluta.

7. gr.
Leigufjárhæð.

    Leigufjárhæð samkvæmt lögum þessum er hin beina greiðsla fyrir leiguafnot af húsnæði. Aðrar greiðslur og aðrir kostnaðarliðir, sem leigjanda ber að greiða samkvæmt samningi eða lögum, svo sem fyrir hita, vatn, rafmagn, rekstur, hússjóðsgjöld o.fl., teljast samkvæmt því ekki til leigufjárhæðar í skilningi laga þessara.
    Ef leigjandi gefur upp leigufjárhæð, sem er verulega hærri en markaðsleiga fyrir sambærilegt leiguhúsnæði í viðkomandi sveitarfélagi eða þykir óeðlileg að öðru leyti eða ef um er að ræða íburðarmikið og óhóflegt húsnæði, er sveitarfélagi heimilt að færa niður viðmiðunarleigu sem því nemur eða til þess sem eðlilegt þykir.
    Leigufjárhæð íbúða félagasamtaka, sem lögð er til grundvallar útreikningi bóta, skal aldrei vera hærri en viðmið Húsnæðisstofnunar ríkisins um leigu félagslegra íbúða.

8. gr.
Tekjur og eignir.

    Með tekjum í lögum þessum er átt við allar tekjur skv. II. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum. Reikna skal samanlagðar tekjur allra þeirra sem lögheimili eiga eða hafa skráð eða fast aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði og eru þá tekjur barna umsækjenda sem eru 20 ára og eldri meðtaldar. Þó eru hér undanskildar tekjur barna umsækjenda sem stunda skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu.
    Bætur almannatrygginga og húsaleigubætur fyrra árs teljast ekki til tekna samkvæmt 1. mgr.
    Ef samanlagðar eignir þeirra er 1. mgr. tilgreinir að frádregnum skuldum með vísan til 73. og 76. gr. laga nr. 75/1981 fara yfir þrjár milljónir króna, miðað við vísitölu neysluverðs, skulu 25% þeirrar fjárhæðar sem umfram er bætast við þær tekjur sem liggja til grundvallar ákvörðun um fjárhæðir húsaleigubóta. Hámarksfjárhæð samkvæmt þessari málsgrein breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu. Félagsmálaráðherra skal láta reikna út og birta nýjar fjárhæðir samkvæmt ákvæði þessu.

9. gr.
Umsókn um húsaleigubætur.

    Umsóknum um húsaleigubætur skal skilað til viðkomandi sveitarfélags sem annast afgreiðslu og útborgun bóta.
    Sækja skal um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildir umsóknin til ársloka.
    Umsókn um húsaleigubætur skal hafa borist eigi síðar en 15 dögum fyrir fyrsta dag greiðslumánaðar.
    Félagsmálanefnd sveitarfélagsins ákvarðar að jafnaði um bótarétt. Umsókn um húsaleigu bætur skal vera skrifleg og á sérstöku þar til gerðu eyðublaði og skal beina henni til þess sveit arfélags þar sem viðkomandi leiguhúsnæði er.
    Umsækjandi skal gefa allar þær upplýsingar sem krafist er á umsóknareyðublaði og nauð synlegar eru að öðru leyti til að staðreyna megi bótarétt hans.
    Sveitarfélög skulu veita allar upplýsingar um skilyrði húsaleigubóta og útreikning þeirra og önnur atriði sem máli kunna að skipta og veita umsækjendum nauðsynlegar leiðbeiningar og aðstoð við gerð og frágang umsókna.
    Um málsmeðferð einstakra mála er vísað til XVI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

10. gr.
Fylgigögn með umsókn.

    Umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:
     1.      leigusamningur, gerður á staðfest samningseyðublað, undirritaður af báðum aðilum og þinglýstur
     2.      ljósrit af skattframtölum þeirra sem lögheimili eiga í íbúðinni fyrir síðasta ár, staðfest af skattstjóra
     3.      launaseðlar þeirra sömu og getið er í 2. tölul. og barna, sbr. 1. mgr. 8. gr., fyrir þrjá síðustu mánuði
     4.      önnur þau gögn sem tiltekin eru í reglugerð eða eðli máls, aðstæður og atvik kunna að kalla á.

11. gr.
Ófullnægjandi umsókn og upplýsingar.

    Sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgja ekki nauðsynleg gögn, sbr. 9. og 10. gr., eða umsækjandi gefur að öðru leyti ekki nauðsynlegar upplýsingar og skýringar, skal umsækjanda gerð grein fyrir því sem ábótavant er og honum gefinn kostur á að bæta úr því innan tveggja mánaða. Sinni hann þeim tilmælum ekki kemur umsókn hans ekki til álita eða frekari meðferðar.

12. gr.
Greiðsla húsaleigubóta.

    Húsaleigubætur koma til greiðslu frá og með næsta mánuði eftir að réttur til bóta hefur verið staðreyndur.
    Bæturnar greiðast til leigjanda (umsækjanda) en þó er heimilt að greiða þær til leigusala samkvæmt sérstakri skriflegri beiðni leigjanda.
    Bæturnar greiðast mánaðarlega fyrir síðastliðinn mánuð með einni greiðslu, eigi síðar en fimmta dag hvers mánaðar. Samningar aðila um fyrirframgreiðslu á leigu breyta engu hér um.
    Húsaleigubætur greiðast aðeins á grundvelli eins húsaleigusamnings um sömu íbúð fyrir sama tímabil.
    Húsaleigubætur greiðast ekki mánaðarlega sé útreiknuð fjárhæð þeirra undir ákveðnu marki sem ráðherra ákveður með reglugerð. Uppgjör greiðist í þeim tilvikum einu sinni á ári.

13. gr.
Upplýsingaskylda leigjanda.

    Bótaþegi skal tilkynna viðkomandi sveitarfélagi þegar í stað um hverjar þær breytingar á högum sínum og heimilisaðstæðum og öðrum þeim atriðum sem áhrif geta haft á rétt hans til húsaleigubóta og á bótafjárhæð.

14. gr.
Brottfall réttar til húsaleigubóta.

    Réttur til húsaleigubóta fellur niður ef skilyrðum laga þessara er ekki lengur fullnægt.
    Við flutning leigjanda úr leiguhúsnæði fellur niður réttur hans til húsaleigubóta. Brottfall réttinda miðast við flutningsdag.
    Við andlát leigjanda fellur réttur til húsaleigubóta niður. Brottfall réttinda miðast við lok andlátsmánaðar.
    Við framsal leiguréttar, framleigu eða hvers kyns framlán fellur réttur til bóta niður að hluta eða öllu leyti.
    Félagsmálanefnd sveitarfélags er heimilt að fella niður greiðslur bóta eða stöðva bótagreiðslur ef nefndin fær vitneskju um veruleg leiguvanskil leigjanda.
    Sama á við ef leigjandi vanrækir upplýsinga- og tilkynningarskyldu sína skv. 13. gr. eða hefur að öðru leyti gefið rangar eða villandi upplýsingar sem máli skipta og þýðingu hafa um bótarétt hans.

15. gr.
Málskot.

    Telji leigjandi (umsækjandi) á rétt sinn hallað af hálfu félagsmálanefndar við framkvæmd laga þessara, svo sem við ákvörðun um bótarétt, fjárhæð bóta, niðurfellingu þeirra eða önnur atriði sem þýðingu hafa fyrir hann, getur hann skotið viðkomandi ákvörðun eða afgreiðslu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Um málsmeðferð fer þá samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.

16. gr.
Viðurlög og endurgreiðsla.

    Brot á lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Hafi bótaþegi ranglega fengið bætur eða þær verið of háar eða fyrir of langt tímabil eða á einhvern hátt fengið hærri greiðslur en honum bar skal hann endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með 15% álagi.
    Endurgreiða skal ofgreiddar bætur hvort sem um mistök var að ræða hjá sveitarfélagi eða ofgreitt var á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga bótaþega, hvort sem hann var í góðri trú eða ekki.
    Sveitarfélag skal þó fella álag niður ef ofgreitt var vegna mistaka hjá sveitarfélagi og telja má víst að bótaþegi hafi verið í góðri trú.
    Úrskurðir úrskurðarnefndar félagsþjónustu um kröfu sveitarfélags á hendur bótaþega skv. 2. mgr. eru aðfararhæfir.

17. gr.
Skuldajöfnuður.

    Komi í ljós að bótaþegi hafi fengið of háar bætur er sveitarfélagi heimilt að beina yfirlýsingu til þess aðila sem sér um innheimtu fyrir ríkissjóð um skuldajöfnun við inneign bótaþega hjá ríkinu vegna endurgreiðslna barnabóta, barnabótaauka og vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 75/1981 að því leyti sem greiðslur þesar koma til útborgunar, þó þannig að áður hafi verið dregin frá öll þinggjöld og sveitarsjóðsgjöld í samræmi við áðurgreind lög. Hið sama á við um inneign bótaþega vegna endurgreiðslna skatta við álagningu eftir að samanburður á álagningarskrá og staðgreiðsluskrá hefur farið fram samkvæmt lögum nr. 45/1987, með áorðnum breytingum.
    Komi sveitarfélag fram með yfirlýsingu um skuldajöfnuð skv. 1. mgr. er innheimtumanni ríkissjóðs skylt að verða við þeirri kröfu.
    Áður en skuldajafnaðaryfirlýsingu er beitt skal sveitarstjórn tilkynna bótaþega um hana og gefa honum tækifæri á að koma að andmælum sínum. Tilkynning skal fylgja skuldajafnað aryfirlýsingu til innheimtumanns ríkissjóðs.

18. gr.
Húsnæðismál sveitarfélaga.

    Lög þessi breyta á engan hátt þeirri ábyrgð er á sveitarfélögum hvílir varðandi húsnæðis mál samkvæmt ákvæðum annarra laga, sbr. einkum XII. kafla laga nr. 40/1991, um félags þjónustu sveitarfélaga.

19. gr.
Kynning laganna.

    Félagsmálaráðuneytið annast kynningu á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Kostnaður vegna þessa greiðist úr ríkissjóði. Ráðherra getur falið öðrum aðilum þessa kynningu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

20. gr.
Reglugerðarheimild.

    Félagsmálaráðherra setur með reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um umsókn um húsa leigubætur og um framkvæmd, útreikning og greiðslu húsaleigubóta.

21. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 100/1994, um húsa leigubætur.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Sveitarfélögum er heimilt að fresta því að taka upp greiðslur húsaleigubóta að því er snertir leiguíbúðir í eigu ríkissjóðs, sveitarfélags eða fyrirtækis sveitarfélags, að undanskildum almennum kaupleiguíbúðum sveitarfélaga sem leigðar eru út, enda sé það nauðsynlegt vegna gildandi samninga um slíkar íbúðir. Upptaka húsaleigubóta vegna þessara íbúða miðast þá við að núgildandi húsaleigusamningi hafi verið sagt upp eða hann runnið út og nýr samningur tekið við. Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2000.

II.

    Á árinu 1998 skulu sveitarfélög greiða grunnfjárhæðir bóta, sbr. 3. mgr. 4. gr., og gildir ákvæði 4. mgr. 4. gr. um ákvörðun sveitarfélags um bætur því fyrst um ákvörðun fjárhæða húsaleigubóta fyrir árið 1999.

III.

    Ákvæði 3. mgr. 12. gr., um að sveitarfélög skuli greiða húsaleigubætur mánaðarlega fyrir síðastliðinn mánuð öðlast fyrst gildi 1. janúar 1999 fyrir sveitarfélög sem hafa greitt húsa leigubætur fyrir fram fyrir næstkomandi mánuð.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.
Aðdragandi frumvarpsins.

    Frumvarp þetta er samið á vegum starfshóps sem félagsmálaráðherra skipaði 17. maí 1996 til að gera tillögur um framtíð húsaleigubóta. Í starfshópnum áttu sæti fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri Reykjavíkur, og Karl Björnsson, bæjarstjóri á Selfossi, fyrir hönd fjármálaráðuneytis Arnar Jónsson, stjórnsýslufræðingur og fyrir hönd félagsmálaráðuneytis Áslaug Friðriksdóttir deildarsérfræðingur, Elín Blöndal deildarstjóri og Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri, sem jafnframt var skipaður formaður starfshópsins.
    Í ágúst 1996 samþykkti ríkisstjórnin að leita eftir því að sveitarfélögin sæju alfarið um greiðslur húsaleigubóta. Eftir viðræður félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og formanns og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar var gert samkomulag um að stefna sameiginlega að því að sveitarfélögin tækju alfarið við afgreiðslu húsaleigubóta um áramótin 1997–98. Starfshópurinn tók mið af þessu samkomulagi í störfum sínum. Jafnframt var ákveðið að húsaleigubótakerfið yrði óbreytt út árið 1997 á meðan unnið yrði að endurskoðun laganna.
    Eftir viðræður formanns og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga við félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra var eftirfarandi samþykkt gerð á fundi stjórnar sam bandsins 30. október 1996:
    „Fyrir liggur að húsaleigubótakerfið verður óbreytt á næsta ári og endurskoðunarnefnd laga um húsaleigubætur hefur verið falið að móta tillögur að nýju kerfi fyrir árslok 1997.
    Stjórnin leggur þunga áherslu á að endurskoðunarnefndin hraði störfum og telur að til greina komi að sveitarfélögin taki að fullu að sér greiðslu húsaleigubóta að því gefnu að tillaga um nýtt fyrirkomulag verði ásættanleg frá sjónarhóli sveitarfélaganna og að fullt samkomulag náist um fjárhagshlið málsins milli ríkis og sveitarfélaga.“
    Í minnisblaði félagsmálaráðherra til formanns starfshópsins frá 1. nóvember 1996, kemur m.a. eftirfarandi fram:
    „Samkomulag félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og formanns og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar felur í sér að þessir aðilar stefna sameiginlega að því að sveitarfélögin yfirtaki alfarið greiðslu húsaleigubótanna um áramótin 1997/1998. Að sjálfsögðu þarf nefndin að taka mið af þessu í störfum sínum.
    Þar sem ætlunin er að sveitarfélögin taki alfarið að sér þetta verkefni er eðlilegt að sjónarmið fulltrúa sveitarfélaganna í nefndinni hafi mikið vægi.“
    Verkefni starfshópsins breyttist því frá upphaflegu skipunarbréfi hans á þann veg að stjórnvöld gengu nú út frá því að ríkið hætti greiðsluþátttöku í húsaleigubótum sem gert er ráð fyrir að flytjist alfarið til sveitarfélaganna frá og með 1. janúar 1998.
    Starfshópurinn aflaði víða upplýsinga og gagna er lúta að greiðslu húsaleigubóta, kostnaði, leigumarkaði, leigjendum og aðild hins opinbera að húsnæðismálum. Starfshópurinn naut aðstoðar Þjóðhagsstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðisstofnunar ríkisins að því er snertir útreikninga og gögn.
    Í áfangaskýrslu sem starfshópurinn skilaði til félagsmálaráðherra í apríl 1997 eru teknar saman þær upplýsingar sem hann aflaði, þ.e. almennar upplýsingar um þróun húsaleigu bótanna og bótaþega, yfirlit yfir stuðning hins opinbera vegna öflunar íbúðarhúsnæðis ásamt mati á áhrifum hugsanlegra breytinga á húsaleigubótakerfið. Á þessum upplýsingum eru byggðar áætlanir um kostnað miðað við að húsaleigubótakerfið nái til allra sveitarfélaga og leiguíbúða. Í áfangaskýrslunni kemur fram tillaga fulltrúa fjármálaráðuneytisins. Þá er þar einnig birt yfirlit fulltrúa sveitarfélaganna í starfshópnum um fimm mögulega valkosti um framtíð húsaleigubóta ásamt mati á kostum og göllum þeirra. Fulltrúar sveitarfélaganna lögðu jafnframt til að ákveðin leið yrði valin og settu fram tillögu um framkvæmd hennar.
    Markmið framangreindrar áfangaskýrslu er að vera grundvöllur viðræðna ríkisins og sveitarfélaganna um framtíð húsaleigubótakerfisins. Formleg niðurstaða þeirra viðræðna ligg ur ekki fyrir en vilji hefur komið fram hjá báðum aðilum til að fylgja í meginatriðum þeirri leið sem fulltrúar sveitarfélaganna í starfshópnum hafa gert tillögu um.
    Frumvarpið fjallar ekki með beinum hætti um skattskyldu húsaleigubóta en ef niðurstaðan verður sú að skattlagningu húsaleigubóta verður haldið áfram er ljóst að stuðningur fulltrúa sveitarfélaganna við þetta frumvarp er skilyrtur því að væntanlegir samningar milli ríkis og sveitarfélaga vegna kostnaðaráhrifa frumvarpsins miðast við að sveitarfélög og ríki verði jafnsett hvað kostnaðarskiptingu varðar fyrir og eftir breytingu á lögunum.
    Þeir kaflar sem hér fara á eftir byggjast einkum á upplýsingum sem starfshópurinn aflaði og fylgja jafnframt með í viðaukum við áfangaskýrsluna. Um er að ræða upplýsingar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, skýrslu Reykjavíkurborgar um rekstrarfyrirkomulag íbúðarhús næðis í eigu borgarinnar, upplýsingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þjóðhagsstofnun, Húsnæðisstofnun og jafnframt upplýsingar sem fyrri nefndir um húsaleigubætur höfðu safnað.
    

II.
Núverandi fyrirkomulag húsaleigubóta,
greiðslur og stuðningur hins opinbera.

1. Lög nr. 100/1994, um húsaleigubætur.
    Samkvæmt lögum nr. 100/1994, um húsaleigubætur, er gildandi fyrirkomulag húsaleigu bóta með þeim hætti að þeir eiga rétt á húsaleigubótum sem leigja húsnæði á almennum leigumarkaði, í sveitarfélögum sem ákveðið hafa að greiða húsaleigubætur og eru undir ákveðnum tekjumörkum. Ríki og sveitarfélög skipta kostnaðinum við bæturnar með sér þannig að ríkið greiðir 60% og sveitarfélögin 40%. Sveitarfélögin hafa farið með framkvæmd húsa leigubótakerfisins og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur annast milligöngu vegna greiðslu þátttöku ríkisins. Bæturnar teljast til skattskyldra tekna.
    Eins og nánar er gerð grein fyrir í kafla III 2 greiddu 39 sveitarfélög húsaleigubætur á árinu 1997 og er áætlað að húsaleigubætur taki nú til a.m.k. 80% af almennum húsaleigumarkaði.
    Á grundvelli gildandi laga um húsaleigubætur hafa verið settar reglugerðir um sama efni. Nú er í gildi reglugerð nr. 556/1994, um húsaleigubætur, sem tók við reglugerð nr. 514/1994, um fjárhæð og útreikning húsaleigubóta. Í reglugerð nr. 556/1994 koma fram nánari ákvæði en í lögunum um fjárhæð og útreikning húsaleigubóta, umsóknir um húsaleigubætur og um fyrirkomulag endurgreiðslu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

2. Húsaleigubætur 1995 og 1996.
    Á fyrsta ári húsaleigubóta jukust útborganir verulega frá upphafi til loka ársins eðli málsins samkvæmt. Fyrsta árið virðist því vera aðlögunartímabil þar sem þeir sem áttu rétt til bóta fóru að nýta sér hann (sjá mynd A). Á árinu 1996 var útborgun bótanna nokkuð jöfn, en jókst lítillega í árslok.

Mynd A.

Útborgun húsaleigubóta eftir ársfjórðungum 1995 og 1996


(mynduð)
    Útborgun húsaleigubóta var lægri árin 1995 og 1996 en áætlanir Þjóðhagsstofnunar og sveitarfélaganna sjálfra höfðu gert ráð fyrir. Þjóðhagsstofnun hafði áætlað kostnaðinn 650 m.kr. en greiðslur fyrsta árið námu 215 m.kr. Erfitt er að áætla nákvæmlega útborgun húsaleigubóta þar sem mikilvægar forsendur, eins og afkoma heimilanna, atvinnuþátttaka og atvinnuleysi, geta verið breytilegar frá einum tíma til annars. Þekkt er sú staðreynd að af ýmsum ástæðum nýta ekki allir sér rétt til bóta; um getur verið að ræða vanþekkingu, ákveðið val eða viðkomandi hafi ekki til þess möguleika þegar leigusali hafnar þinglýsingu leigusamninga. Einnig eru upplýsingar um leigumarkaðinn takmarkaðar.
    Í skýrslu nefndar um húsaleigubætur, frá nóvember 1995, koma fram upplýsingar um húsaleigubætur á tímabilinu janúar til ágúst það ár. Sambærilegum upplýsingum var safnað fyrir tímabilið janúar til júlí 1996 og þær bornar saman við árið á undan.
    Bótaþegum fjölgaði um 525 frá ágúst 1995 þar til í júlí 1996, eða um 22%. Til þess að sjá hvort fjöldaaukning sé í samræmi við auknar greiðslur á þessu tímabili var reiknuð út hlutfallsleg hækkun greiðslna frá þriðja ársfjórðungi til annars ársfjórðungs 1996. Í ljós kom að greiðslur jukust um u.þ.b. 23 %, sem er í samræmi við fjölda bótaþega. Auknar greiðslur skýrast því af fleiri bótaþegum.

3. Stuðningur hins opinbera við öflun íbúðarhúsnæðis.
    Stuðningur hins opinbera vegna íbúðarhúsnæðis skiptist milli þeirra sem eiga eða leigja húsnæði á hinum almenna markaði og þeirra sem eiga eða leigja félagslegar íbúðir.
    Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar, sem byggjast á upplýsingum frá Reykjavíkur borg, eru nettógreiðslur hins opinbera um 73% af kostnaði við húsaleigubætur þegar tekið hefur verið tillit til skattgreiðslna, útsvars og lækkunar barnabóta. Heildargreiðslur vegna húsaleigubóta 1996 voru 311 m.kr. og 73% af því eru 227 m.kr. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var fjöldi bótaþega 3.336 á árinu 1996 en þar voru greiddar húsaleigubætur að fjárhæð 258 m.kr. Í ágúst 1996 var meðalfjárhæð greiddra bóta 10.200 kr. á mánuði (af þeirri upphæð reiknast skattur).
    Ríkissjóður greiðir vaxtabætur til þeirra sem bera vaxtagjöld af lánum sem tekin eru vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisbókhaldi voru greiddar út 3.300 m.kr. í vaxtabætur á árinu 1996 til 47.133 aðila. Meðalvaxtabætur voru því 70.015 kr. á ári, eða 5.835 kr. mánaðarlega.
    Samkvæmt 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breyting um, skulu sveitarstjórnir: „eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhús næði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.“
    Áætlað er að fjöldi félagslegra leiguíbúða í eigu sveitarfélaga sé um 2.343 íbúðir. Kostnaður sveitarfélaga af þessum íbúðum er oftast mun hærri en leigutekjur, og samkvæmt úttekt Sambands íslenskra sveitarfélaga er líklegt að óbein niðurgreiðsla sveitarfélaga vegna leiguíbúða sé um 395–446 m.kr. á ári 1 . Hluti leiguíbúða sveitarfélaga er fjármagnaður með lánum úr Byggingarsjóði verkamanna með 1% vöxtum. Húsnæðisstofnun áætlar að árlegur kostnaður sjóðsins vegna vaxtamunar á lánum til félagslegra íbúða árið 1995 hafi verið um 400 m.kr., þar af 283 m.kr. vegna leigubúða í eigu sveitarfélaga.

Tafla B.

Stuðningur hins opinbera vegna íbúðarhúsnæðis 1996.Stuðningur
Upphæðir í millj. kr. Hlutfall af heildargreiðslum
Húsaleigubætur
227 2 4%
Vaxtabætur
3.300 63%
Kostnaður vegna leiguíbúða í eigu hins
opinbera (óbein niðurgreiðsla)

500 3

10%
Niðurgreiðsla lána Byggingarsjóðs
verkamanna vegna félagslegra íbúða

1.200 4

23%
Samtals
5.227 100%


    Ríkið stendur einnig straum af kostnaði vegna íbúða í eigu þess, þar sem íbúðir eru leigðar út undir markaðsverði, t.d. sem liður í starfskjörum, vegna embætta presta o.fl. Ekki eru tiltækar upplýsingar um hversu hár kostnaður ríkisins er vegna þessara íbúða. Í töflu B er notuð grófleg áætlun og gert ráð fyrir að kostnaður ríkis og sveitarfélaga sé samtals um 500 m.kr. Hér skal það þó tekið fram að allar líkur eru á að í framhaldi af lögum nr. 134/1996, um breyting á lögum nr. 27/1968, um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, muni kostnaðurinn stórminnka, þar sem heimilt er nú að selja þær fasteignir auk þess sem leiga muni hækka.
    Byggingarsjóður verkamanna veitir lán til félagslegra eignar- og leiguíbúða. Í ársskýrslu Húsnæðisstofnunar ríkisins fyrir árið 1995 kemur fram að mismunur milli vaxtatekna og vaxtagjalda Byggingarsjóðs verkamanna árið 1995 var 1.200 m.kr., en í raun má segja að þarna sé um óbeinar niðurgreiðslur að ræða.
    Í töflu B má sjá hve miklu fé hið opinbera ver í stuðning við öflun íbúðarhúsnæðis og í hvaða hlutföllum. Þar sést að um 30% af heildarstuðningi er til húsnæðisöflunar, þ.e. kostnaður vegna félagslegra leiguíbúða og íbúða í eigu ríkisins og niðurgreiðsla lána til félagslegra íbúða eru óbeinar niðurgreiðslur til þeirra sem þar búa.

III.

Breytt fyrirkomulag húsaleigubóta.

    Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi meginbreytingar frá núverandi fyrirkomulagi á greiðslu húsaleigubóta:
    —     Greiðslur bótanna fari fram hjá sveitarfélögunum án þátttöku ríkisins.
    —     Húsaleigubótakerfið nái til allra sveitarfélaga.
    —     Bæturnar nái til alls íbúðarhúsnæðis í leigu, án tillits til eignarforms þess.
    Þannig er gert ráð fyrir að horfið verði frá fyrirkomulagi gildandi laga um sameiginlega kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga að því er snertir greiðslu húsaleigubóta. Þá verði jafnframt afnumið það skilyrði að til þess að íbúar sveitarfélaga geti átt rétt til húsaleigubóta þurfi að liggja fyrir ákvörðun viðkomandi sveitarfélaga um greiðslu þeirra. Loks verði ekki lengur undanskilinn réttur til húsaleigubóta ef leiguíbúð er í eigu ríkissjóðs, sveitarfélags eða fyrirtækis sveitarfélags (þessi undanþága á þó nú ekki við um almennar kaupleiguíbúðir sveitarfélaga sem leigðar eru út).
    Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin muni annast framkvæmd húsaleigubótakerfisins með hefðbundnum aðferðum að því viðbættu að allar leiguíbúðir á þeirra vegum verði leigðar á kostnaðarleigu og húsaleigubætur greiddar vegna þeirra.

1. Húsaleigubætur færist alfarið til sveitarfélaganna.
    Að sveitarfélögin taki við húsaleigubótakerfinu í heild sinni byggist eins og að framan greinir á þeirri forsendu fulltrúa þeirra að ef skattlagningu húsaleigubóta verður haldið áfram verði niðurstaða samninga á milli ríkis og sveitarfélaga sú að þau verði jafnsett hvað kostnaðarskiptingu varðar fyrir og eftir breytingar þær sem frumvarpið felur í sér.
    Núverandi fyrirkomulag húsaleigubóta hefur reynst vel sem mikilvægt úrræði fyrir tekjulága leigjendur til að standa undir kostnaði við leiguhúsnæði og hefur framkvæmd gildandi laga um húsaleigubætur tekist vel af hálfu sveitarfélaganna. Bent hefur verið á að nálægð þeirra við skjólstæðinga kerfisins auki skilvirkni þess og stuðli að réttri framkvæmd. Þessi rök liggja m.a. að baki tillögum fulltrúa sveitarfélaga í nefndinni sem frumvarpið byggist á og miða að því að greiðslu húsaleigubóta verði haldið áfram á vegum sveitarfélaga á grundvelli endurbætts kerfis.
    Kostir þessara breytinga eru einkum að um verður að ræða aukna skilvirkni og skýrari verkaskiptingu á mili ríkis og sveitarfélaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarfélögin hverfi frá beinni niðurgreiðslu félagslegs húsnæðis og greiði húsaleigubætur í staðinn. Í bráðabirgðaákvæði við frumvarpið er gert ráð fyrir að sveitarfélögin hafi tíma fram til 1. janúar 2000 til aðlögunar að nýju kerfi að þessu leyti.

2. Húsaleigubótakerfið nái til allra sveitarfélaga.
    Samkvæmt núgildandi lögum um húsaleigubætur taka sveitarfélög árlega ákvörðun um hvort þau greiða húsaleigubætur á næstkomandi ári eða ekki. Sveitarfélögum sem greiða húsaleigubætur hefur fjölgað árlega. Fyrsta árið voru sveitarfélögin 28 sem greiddu bætur en 35 á árinu 1996. Miðað við íbúafjölda náðu lög um húsaleigubætur því til 62% allra landsmanna árið 1996.
    Í töflu C má sjá greiðslur vegna húsaleigubóta á árunum 1995 og 1996, ásamt áætlun fyrir árið 1997. Áætlunin byggist á að kostnaður við bæturnar muni aukast í réttu hlutfalli við samanlagðan íbúafjölda þeirra sveitarfélaga sem ákveðið hafa að greiða út bætur 1997.

Tafla C.

Heildargreiðslur húsaleigubóta 1995 og 1996. Áætlun er miðuð við
íbúafjölda árið 1997 og að öll sveitarfélög greiði bætur.Fjöldi
sveitarfélaga

Íbúafjöldi
sveitarfélaga
Hlutfall af
heildarfjölda
landsmanna
Greiðslur
húsaleigubóta
í m. kr.
Árið 1995 28 158.009 59% 215
Árið 1996 35 167.556 62% 311
Árið 1997* 39 173.553 65% 320

* Kostnaður er fundinn með því að auka kostnað vegna bótanna í árslok 1996 í réttu hlutfalli við íbúafjölda þeirra sveitarfélaga sem ákveðið hafa að greiða húsaleigubætur árið 1997.

    Starfshópurinn áætlaði heildarkostnað miðað við að öll sveitarfélög taki upp núgildandi húsaleigubótakerfi. Gerð er grein fyrir fjórum áætlunum starfshópsins sem byggjast á mismunandi forsendum. Hér á eftir er hver áætlun útskýrð lítillega og í töflu D hefur aðferðunum verið stillt upp ásamt áætluðum kostnaði.
    Ef miðað er við að kostnaður við húsaleigubætur aukist í réttu hlutfalli við íbúafjölda má ætla að greiðslur á árinu 1997 aukist um 38% greiði öll sveitarfélög bætur. Aukningin yrði 114 m.kr. og heildarfjárhæð húsaleigubótanna næmi því um 424 m.kr. á ári.
    Einnig er lögð til grundvallar forsenda Þjóðhagsstofnunar frá 1994. Mat stofnunarinnar á kostnaði við húsaleigubætur fyrir árið 1995 var að þau 28 sveitarfélög sem greiddu húsaleigubætur tækju til 70–80% af almennum húsaleigumarkaði. Ætla má að þetta hlutfall hafi aukist nokkuð þar sem 39 sveitarfélög greiddu húsaleigubætur á árinu 1997 og meðal þeirra öll þau fjölmennustu sem greiddu út bætur árið 1995. Ekki var heldur gert ráð fyrir því að leigjendur íbúða með búseturétt (búsetar) hefðu bótarétt þegar hlutfall þetta var fundið og því eðlilegt að gefa sér að húsaleigubætur taki nú til a.m.k. 80% af almennum húsa leigumarkaði. Þegar hlutfall þetta er notað til að áætla kostnað vegna bóta ef öll sveitarfélög tæku upp greiðslu verður upphæðin um 390 m.kr. á ári.
    Eins og að framan er rakið fæst mismunandi kostnaður vegna húsaleigubóta eftir því út frá hvaða forsendum er gengið þegar áætlun er gerð. Í töflu D hefur áðurnefndum kostnaðar áætlunum verið stillt upp. Hafa verður í huga að fjöldi mögulegra bótaþega ræðst af þáttum sem erfitt er að sjá fyrir, svo sem tekjum einstaklinganna, fjölda barna og upphæð húsaleigu.

Tafla D.

Kostnaður ef öll sveitarfélög greiða húsaleigubætur miðað
við mismunandi áætlanir.Áætlanir
Kostnaður
í m.kr.
Miðað við 100% húsaleigumarkað
390
Miðað við 100% íbúafjölda
424
Miðað við 100% íbúafjölda og fjölgun bótaþega
450
Spá Þjóðhagsstofnunar fyrir 1995
650

    Áætlaður kostnaður við húsaleigubætur ef öll sveitarfélög greiða bætur er á bilinu 390–650 m.kr. Í tillögum sínum styðjast fulltrúar sveitarfélaganna við áætlun byggða á íbúafjölda með tilliti til fjölgunar bótaþega, eða 450 m.kr., en fulltrúi fjármálaráðuneytis styðst við áætlun gerða út frá húsaleigumarkaði, eða 390 m.kr.

3. Húsaleigubætur fyrir allar leiguíbúðir.
    Í 7. gr. gildandi laga um húsaleigubætur er kveðið á um atriði sem girða fyrir rétt til húsaleigubóta. Þar segir m.a. að réttur til bóta sé ekki fyrir hendi ef leiguíbúð er í eigu ríkissjóðs, sveitarfélags eða fyrirtækis sveitarfélags. Í frumvarpi til laganna kemur fram að ástæðan sé sú að í þeim tilfellum sé húsaleiga verulega niðurgreidd af sveitarfélögum og Byggingarsjóði verkamanna.
    Samband íslenskra sveitarfélaga áætlar að félagslegar leiguíbúðir sveitarfélaga sem ekki falla undir lög um húsaleigubætur séu 2.343 talsins. Mat sambandsins er að óbeinar niðurgreiðslur sveitarfélaga vegna þessara íbúða séu um 420 milljónir króna.
    Samkvæmt úttekt Reykjavíkurborgar á félagslegum leiguíbúðum er fyrirhugað að koma á nýju rekstrarfyrirkomulagi fyrir félagslegar leiguíbúðir með það að markmiði að gera rekstur þeirra hagkvæmari og miða leigu við raunkostnað. Teknar verði upp húsaleigubætur í stað þess að niðurgreiða leigu. Með því verður stuðningurinn vegna húsaleigu sýnilegri og skilvirkari. Raunkostnaður Reykjavíkurborgar við íbúðirnar nú er mun meiri en leigutekjur af þeim. Talið er að kostnaðarauki borgarinnar vegna húsaleigubóta verði á endanum enginn þar sem borgin greiði nú að fullu þann mun sem er á húsaleigu og raunkostnaði við rekstur leiguíbúðanna.
    Byggingarsjóður verkamanna veitir lán til félagslegra leiguíbúða með 1% vöxtum. Samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar eru meðalvextir af teknum lánum Byggingar sjóðsins um 6,5%. Mat Húsnæðisstofnunar er að niðurgreiðsla vaxta vegna félagslegra leigu íbúða á árinu 1995 hafi verið 400 m.kr.
    Þjóðhagsstofnun áætlar á grundvelli skattframtala 1995 að ef allir leigjendur undir tekjumörkum ættu rétt á húsaleigubótum yrði heildarkostnaður um 513 m.kr. á ári. Í út reikningum Þjóðhagsstofnunar segir að margir óvissuþættir tengist því að áætla kostnaðar auka af því ef allir sem búa í leiguhúsnæði ættu rétt á húsaleigubótum. Þjóðhagsstofnun leggur ríka áherslu á útreikningarnir séu teknir með þeim fyrirvara að margir óvissuþættir tengist þeim, þar sem óvíst sé hversu vel húsaleiga er talin fram og ekki víst að allir mundu sækja um húsaleigubætur.
    Í greinargerð með frumvarpi til gildandi laga um húsaleigubætur kemur fram að húsaleiga þeirra sem leigja af ríkissjóði eða sveitarfélögum sé verulega niðurgreidd. Niðurgreiðslan sé í formi niðurgreiddra vaxta, vaxtabóta og félagsþjónustu sveitarfélaganna. Af því sem að framan er rakið er ljóst að um verulegar fjárhæðir er að ræða og eigi húsaleigubótakerfið að ná til félagslegra íbúða skapar það grundvöll fyrir endurskoðun annarra niðurgreiðslna hins opinbera vegna leiguhúsnæðis og breytinga á rekstrarfyrirkomulagi.
    Kostnaður við íbúðir í eigu ríkis og sveitarfélaga er um 500 m.kr. á ári. Hægt er að áætla hver kostnaðurinn yrði ef húsaleigubætur yrðu greiddar fyrir félagslegar íbúðir í eigu sveitarfélaga og íbúðir í eigu ríkisins með því að gefa sér þær forsendur að húsaleigubætur þyrftu að nema þeirri upphæð sem niðurgreiðsla til þessa hóps er í dag. Kostnaður við íbúðir í eigu ríkisins fer hverfandi með tilkomu nýrrar lagasetningar og líklegt er að íbúar þessara íbúða, í mörgum tilfellum kennarar, prestar o.s.frv., séu með of háar tekjur til að fá greiddar húsaleigubætur og því þótti rétt að gera ekki ráð fyrir að húsaleigubætur kæmu í stað niðurgreiðslu vegna þessara íbúða. Ef gengið er út frá því að fjórðungur þeirra sem nú búa í félagslegum leiguíbúðum séu með of háar tekjur til að þeir eigi rétt á húsaleigubótum er eðlilegt að miða við að viðbótarkostnaður við að fella allar félagslegar leiguíbúðir undir lög um húsaleigubætur verði um 300 m.kr. á ári en þá er miðað við að bæturnar séu undanþegnar skatti.
    Frumvarp þetta er að meginstofni til byggt á gildandi lögum um húsaleigubætur enda hafa þau lög reynst vel í framkvæmd. Með hliðsjón af því að í nokkrum grundvallaratriðum er horfið frá núverandi fyrirkomulagi húsaleigubóta þykir hins vegar rétt að leggja fram frumvarp til nýrra heildarlaga um húsaleigubætur. Meginbreytingar frumvarpsins frá gildandi lögum felast í þeim atriðum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan, en nokkrar breytingar hafa þó verið gerðar með hliðsjón af álitaefnum sem komið hafa upp við framkvæmd laganna, m.a. hjá úrskurðarnefnd um félagsþjónustu og hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Er þar helst að geta þeirrar breytingar að lagt er til að húsaleigubætur verði greiddar eftir á fyrir liðinn mánuð en ekki fyrir fram svo sem verið hefur í framkvæmd. Í bráðabirgðaákvæði við frumvarpið er gert ráð fyrir aðlögunartíma vegna þessara breytinga, einkum með tilliti til þeirra sem þegar njóta fyrirframgreiddra bóta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram markmið frumvarpsins sem með sama hætti og í núgildandi lögum er tvíþætt, annars vegar að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og hins vegar að draga úr þeim aðstöðumun sem mundi ríkja á húsnæðismarkaðnum á milli leigjenda annars vegar og eigenda íbúðarhúsnæðis hins vegar væru húsaleigubætur ekki fyrir hendi. Sem fyrr verður markmið húsaleigubóta að ná til tekjulægsta fólksins á íbúðamarkaðnum.
    Gert er ráð fyrir þeirri breytingu frá 1. mgr. 1. gr. gildandi laga að síðari málsliður greinar innar, um sameiginlega kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga við greiðslu húsaleigubóta, verði felldur brott. Er vísað til almennra athugasemda um þetta atriði. Af því leiðir að ákvæði 3. og 4. gr. gildandi laga eru ekki tekin upp í þetta frumvarp, en þar er nú fjallað nánar um greiðslufyrirkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga.
    

Um 2. gr.

    Breyting frá gildandi lögum felst í því að lagt er til að réttur leigjenda til húsaleigubóta verði ekki lengur bundinn ákvörðun viðkomandi sveitarfélags um greiðslu bóta. Gert er ráð fyrir að öll sveitarfélög greiði húsaleigubætur og reglur um stuðning við leigjendur samræmdar hjá þeim. Þessi breyting á sér m.a. stuðning í almennum sjónarmiðum um jafnræði, þar sem hún tryggir að leigjendum íbúðarhúsnæðis hér á landi verði ekki mismunað eftir búsetu. Vegna þessa er lögð til breyting frá 3. mgr. 2. gr. gildandi laga um ákvörðun sveitarfélags um greiðslu húsaleigubóta, og kemur sú málsgrein nú breytt fram í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins.
    Þá er lagt til að í stað þess að kveðið sé afdráttarlaust á um að félagsmálanefndir sveitarfélaga annist afgreiðslu umsókna um húsaleigubætur verði sveitarfélögum heimilt að ákveða annað fyrirkomulag, t.d. ef rétt þykir að húsnæðisnefnd fari með þessi mál. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir þeirri meginreglu að félagsmálanefndir sjái um afgreiðslu umsókna um húsaleigubætur.

Um 3. gr.

    Greinin er sama efnis og 5. gr. gildandi laga að því undanskildu að í samræmi við 2. gr. frumvarpsins er fellt brott skilyrði í 1. og 2. mgr. um að til þess að leigjendur íbúðarhúsnæðis geti átt rétt til húsaleigubóta skuli sveitarfélag hafa tekið ákvörðun um greiðslu þeirra.

Um 4. gr.

    Ákvæði 1. og 2. mgr. er samhljóða 2. og 3. mgr. 6. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er með sama hætti og í 1. mgr. 6. gr. gildandi laga kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð um fjárhæð bóta en bætt við því skilyrði að í þeirri reglugerð komi fram ákvæði um grunnfjárhæð bóta. Er þannig gert ráð fyrir að öll sveitarfélög greiði ákveðnar grunnfjárhæðir bóta, en jafnframt verði mögulegt að sveitarfélögin sjálf greiði hærri bætur samkvæmt ákvörðun þar um. Þar sem gildistökuákvæði þessa frumvarps miðast við 1. janúar 1998 er í ákvæði II til bráðabirgða kveðið á um að öll sveitarfélög greiði grunnfjárhæð bóta á árinu 1998 en ákvörðun um hvort sveitarfélag greiðir hærri bætur á næstkomandi ári verði fyrst tekin fyrir 1. nóvember 1998 og þá vegna bóta fyrir árið 1999. Með hliðsjón af því að ákvarðanir um bætur snerta verulega hagsmuni sveitarfélaganna er kveðið á um í 3. mgr. að ráðherra skuli hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð reglugerðar samkvæmt ákvæðinu.
    Ákvæði 4. mgr. tengist efnislega 3. mgr. 2. gr. gildandi laga, en þar kemur nú fram að sveitarstjórn skuli ákveða fyrir 1. október ár hvert hvort sveitarfélagið greiði húsaleigubætur næstkomandi ár. Þess í stað er nú lagt til að sveitarstjórn ákveði fyrir 1. nóvember hvort hún hyggst greiða grunnfjárhæðir bóta, sbr. ákvæði um þær fjáhæðir sem sett verður í reglugerð, eða hærri bætur á næstkomandi ári. Í báðum tilvikum verður sveitarstjórn skylt að auglýsa þá ákvörðun og tilkynna hana til félagsmálaráðuneytisins fyrir 1. nóvember ár hvert.

Um 5. gr.

    Samkvæmt 3. tölul. 7. gr. gildandi laga girðir það fyrir rétt til húsaleigubóta ef leiguíbúð er í eigu ríkissjóðs, sveitarfélags eða fyrirtækis sveitarfélags. Þessi undanþága á þó ekki við um almennar kaupleiguíbúðir sveitarfélaga sem leigðar eru út. Gert er ráð fyrir að þessi undanþága falli brott þannig að réttur til húsaleigubóta nái til alls íbúðarhúsnæðis á leigumarkaðnum. Um frekari skýringar á þessari breytingu er vísað til kafla III.3 í almennum athugasemdum. Í ákvæði I til bráðabirgða er gert ráð fyrir aðlögunartíma sveitarfélaga vegna þessa ákvæðis fram til ársins 2000.
    Einnig er lögð til breyting á 1. tölul. þannig að ekki verði eins og í gildandi lögum gerður greinarmunur á því hvort leigusali býr í sama húsi og umsækjandi um húsaleigubætur, eða annars staðar. Í frumvarpi til gildandi laga um húsaleigubætur kemur fram að ákvæði 3. tölul. 7. gr. byggist á þeim sjónarmiðum að vegna skyldleika greiði margir leigjendur mjög lága eða jafnvel enga húsaleigu. Var talið að þeir aðilar sem njóta þess að leigja af skyldmennum hafi ekki eins mikla þörf fyrir aðstoð og þeir sem leigi af óskyldum aðilum. Þá var einnig talið að ef þessum aðilum yrði veittur réttur til bóta gæti það leitt til mikils fjölda málamyndagerninga. Með hliðsjón af því að þessi sjónarmið þykja eiga jafnt við hvort sem hlutaðeigandi aðilar eiga heima í sama húsi eða ekki þykir rétt að fella það viðmið brott.
    Greinin er að öðru leyti samhljóða 7. gr. gildandi laga.

Um 6. gr.

    Breyting frá 8. gr. gildandi laga felst í því að skilyrði um að sérbaðaðstaða skuli vera fyrir hendi í íbúð til þess að leigjandi geti átt rétt til húsaleigubóta er fellt brott. Þessi breyting er gerð með hliðsjón af því að í framkvæmd hefur komið í ljós að nokkuð er um eldra íbúðarhúsnæði þar sem íbúðaraðstaða er góð en baðaðstaða ef til vill sameiginleg annarri íbúð í húsinu.

Um 7. gr.

    Greinin er samhljóða ákvæði 9. gr. gildandi laga.

Um 8. gr.

    Greinin samsvarar ákvæði 10. gr. gildandi laga.
    Breyting frá 1. mgr. 10. gr. gildandi laga felst í því að lagt er til að skýrt verði að viðmið um tekjur taki ekki aðeins til þeirra sem hafi lögheimili á staðnum heldur einnig annarra sem hafa þar skráð eða fast aðsetur og skila inn gögnum varðandi umsókn um húsaleigubætur, en hafa af einhverjum ástæðum, einkum vegna undanþáguheimilda laga um lögheimili að því er snertir námsmenn, ekki skráð lögheimili þar.
    Í gildandi lögum segir aðeins að „tryggingabætur“ teljist ekki til tekna og hefur það valdið óvissu í framkvæmd. Í 2. mgr. er lagt til að skýrt verði að með því er í átt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. nú lög nr. 117/1993.
    Í 4. mgr. er lagt til að að í stað fastrar fjárhæðar, 3 millj. kr., að því er snertir viðmiðunar mörk um eignir sem liggja til grundvallar við ákvörðun um fjárhæðir húsaleigubóta, verði framvegis miðað við þá tölu út frá vísitölu neysluverðs.

Um 9. gr.

    Greinin er í meginatriðum sama efnis og 11. gr. gildandi laga.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. 8. gr. kemur fram að með tekjum í lögum þessum sé átt við samanlagðar heildartekjur allra þeirra sem lögheimili eiga eða hafa skráð eða fast aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði og eru þá tekjur barna umsækjenda sem eru 20 ára og eldri meðtaldar. Með hliðsjón af þessu er lagt til að samkvæmt 3. tölul. ákvæðisins skuli launaseðlar þessara einstaklinga fylgja umsókn um bætur.
    Að öðru leyti samsvarar ákvæðið 12. gr. gildandi laga.

Um 11. gr.

    Breyting frá 13. gr. gildandi laga felst í því að lagður er til ákveðinn tímafrestur sem umsækjandi hafi til þess að bæta úr hafi umsókn hans verið ófullnægjandi eða henni ekki fylgt nægileg gögn. Á grundvelli 3. gr. reglugerðar nr. 556/1994, um húsaleigubætur, þar sem nánar er kveðið á um umsóknir um bætur, hefur framkvæmdin verið sú að réttur til bóta miðast við umsóknartíma berist fullnægjandi gögn síðar frá umsækjanda. Skilyrði um að fullnægjandi gögn hafi borist innan tveggja mánaða frá því að umsögn er lögð inn hjá sveitarstjórn mun að meginreglu til afmarka það hve langt aftur í tímann verður hægt að ákvarða bætur.

Um 12. gr.

    Í 3. mgr. er lögð er til sú breyting frá núverandi framkvæmd að bætur verði framvegis greiddar eftir á fyrir þann mánuð sem á undan er genginn. Byggist það á því að reynslan af framkvæmd laganna hefur sýnt að það er bæði óhagræði fyrir umsækjendur og þá sem afgreiða bæturnar að þær skuli vera greiddar fyrir fram í upphafi mánaðar en ekki einn mánuði eftir á, í upphafi næsta mánaðar. Hingað til hafa gildandi lög um húsaleigubætur, sbr. 14. gr., verið túlkuð svo að bæturnar beri að greiða fyrir fram, enda þótt lögin séu ekki skýrt orðuð að þessu leyti. Á almennum leigumarkaði fær fólk oft íbúðir til leigu með skömmum fyrirvara. Leigusamningar eru almennt ekki gerðir með fyrirvara og svo virðist sem aðeins í undantekningartilvikum sé sá sem byrjar að leigja um mánaðarmót kominn með samning 15 dögum áður. Af þessu leiðir að umsækjendur missa af bótum fyrsta mánuðinn. Hefur athugun sem gerð var á umsóknum um húsaleigubætur hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar sýnt að 93% umsækjenda fær ekki húsaleigubætur fyrir fyrsta leigumánuðinn vegna fyrirkomulagsins með fyrirframgreiðslu. Fyrirframgreiðsla húsaleigubóta býður jafnframt upp á ofgreiðslur á húsaleigubótum þar sem bótaréttur fellur niður frá og með þeim degi sem flutt er úr íbúðinni. Í framkvæmd hefur komið í ljós að mikill misbrestur er á að fólk láti vita fyrr en of seint að það er flutt úr íbúðinni og hefur þar af leiðandi fengið greiðslu sem því ber að endurgreiða með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 16. gr. frumvarpsins. Hægt er að koma í veg fyrir slíkar ofgreiðslur með því að greiða húsaleigubætur einum mánuði eftir á þar sem að þá verður hægt að sannreyna samkvæmt þjóðskrá búsetu umsækjanda (þ.e. lögheimilisskráningu) í viðkomandi leiguíbúð á tímabilinu.
    Breytingar sem lagðar eru til frá 4. mgr. 14. gr. gildandi laga felast í því að lagt er til að ráðherra ákveði með reglugerð viðmiðunarmörk um þá lágmarksfjárhæð sem húsaleigubætur þurfa að nema til þess að þær verði greiddar mánaðarlega. Samkvæmt gildandi lögum er miðað við 500 kr. og er gert ráð fyrir að sú fjárhæð verði lögð til grundvallar við setningu nýrrar reglugerðar.
    Að öðru leyti svarar greinin efnislega til 14. gr. gildandi laga.

Um 13.–15. gr.

    Greinarnar eru efnislega samhljóða 15.–17. gr. gildandi laga.

Um 16. gr.

    Breyting frá 18. gr. gildandi laga felst í að lagt er til að sveitarfélag verði samkvæmt 4. mgr. í öllum tilvikum skylt að fella álag niður ef húsaleigubætur hafa verið ofgreiddar vegna mistaka hjá sveitarfélagi og telja má víst að bótaþegi hafi verið í góðri trú, en í gildandi lögum er aðeins um að ræða heimild sveitarfélaga til niðurfellingar álags.
    Þá er í 5. mgr. lagt til að úrskurðir úrskurðarnefndar félagsþjónustu um kröfu sveitarfélags á hendur bótaþega skv. 2. mgr. ákvæðisins verði aðfararhæfir.

Um 17.–19. gr.

    Greinarnar eru sama efnis og 19.–21. gr. gildandi laga.

Um 20. gr.

    Greinin er sama efnis og 22. gr. gildandi laga, þó með þeirri breytingu að fellt er brott að í reglugerð um framkvæmd laganna skuli koma fram ákvæði um upplýsingagjöf sveitarfélaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og um úthlutun úr sjóðnum. Þessi breyting er til samræmis við það breytta skipulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir, frá kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga til þess að sveitarfélögin sjái alfarið um greiðslu húsaleigubóta. Milliganga Jöfnunarsjóðs mun því ekki koma til samkvæmt nýju skipulagi. Með hliðsjón af því að gert er ráð fyrir að greiðsla húsaleigubóta verði með öllu í höndum sveitarfélaganna er einnig lagt til að Samband íslenskra sveitarfélaga komi jafnan að setningu reglugerða á grundvelli frumvarpsins, ef að lögum verður.

Um 21. gr.

    Gildistökuákvæði frumvarpsins þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði I til bráðabirgða.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir þeirri meginbreytingu frá gildandi fyrirkomulagi að húsaleigubætur komi í stað niðurgreiðslna félagslegra íbúða. Rétt þykir að veita sveitar félögunum aðlögunartíma, bæði til þess að aðlagast nýju fyrirkomulagi og til þess að segja upp og ganga frá nýjum húsaleigusamningum við þá sem nú leigja félagslegar íbúðir. Er miðað við að hið nýja fyrirkomulag hafi náð fram að ganga 1. janúar 2000 og fellur ákvæði þetta úr gildi frá og með þeim tíma.

Um ákvæði II til bráðabirgða.

    Gert er ráð fyrir að frumvarp þetta taki gildi sem lög 1. janúar 1998 en frestur til þess að taka ákvörðun um fjárhæð bóta miðast í 4. mgr. 4. gr. við 1. nóvember ár hvert. Rétt þykir að á árinu 1998 verði því greiddar lágmarksbætur sem kveðið verði á um í reglugerð, sem verði sömu fjárhæðir og nú er kveðið á um í 1. gr. reglugerðar nr. 556/1994. Samkvæmt því ákvæði skal ákvarða húsaleigubætur þannig að grunnstofn til útreiknings húsaleigubóta á mánuði er 7.000 kr. fyrir hverja íbúð. Að auki bætast við 4.500 kr. fyrir fyrsta barn, 3.500 kr. fyrir annað og 3.000 kr. fyrir þriðja. Til viðbótar koma 12% þess hluta leigufjárhæðar er liggur á milli 20.000 og 45.000 kr. Bætur skerðast óháð fjölskyldustærð í hverjum mánuði um 2% af árstekjum umfram 1,5 millj. kr. Húsaleigubætur geta skv. 3. mgr. 1. gr. aldrei orðið hærri en sem nemur 50% af leigufjárhæð, að hámarki 21.000 kr. á mánuði.
    Með þessum hætti er gert ráð fyrir að ákvæði 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins um ákvörðun sveitarfélags um bætur gildi fyrst um ákvörðun fjárhæða húsaleigubóta fyrir árið 1999.

Um ákvæði III til bráðabirgða.

    Í 3. mgr. 12. gr. er gert ráð fyrir að um eftirfarandi greiðslu húsaleigubóta verði að ræða fyrir mánuðinn á undan en framkvæmd hefur verið með þeim hætti að bætur hafa verið greiddar fyrir fram fyrir næstkomandi mánuð. Hefur þetta fyrirkomulag skapað ýmis vandkvæði í framkvæmd, svo sem nánar er gert grein fyrir í greinargerð við 12. gr.
    Ákvæði þessu er ætlað að draga úr þeim áhrifum sem breytt fyrirkomulag kann að hafa fyrir þá sem fengið hafa bætur fyrirfram og jafnframt að veita sveitarfélögunum aðlögunarfrest, þannig að á árinu 1998 verður aðeins um að ræða greiðslur eftir á hjá þeim sveitarfélögum sem ekki hafa greitt húsaleigubætur fram til þessa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um húsaleigubætur.

    Í frumvarpinu eru lagðar til þrjár grundvallarbreytingar á gildandi fyrirkomulagi húsaleigubóta. Í fyrsta lagi að sveitarfélög annist og fjármagni alfarið húsaleigubótakerfið. Í öðru lagi verði gert skylt að greiða húsaleigubætur í öllum sveitarfélögum. Í þriðja lagi er lagt til að bæturnar nái til alls íbúðaleiguhúsnæðis hvort sem eigandi þess er einkaaðili, sveitarfélag eða ríki. Tilgangur þessara breytinga er annars vegar að stuðla að því að allir leigjendur sitji við sama borð og hins vegar að gera skýrari verkaskipti milli ríkis og sveitarfélaga sem til þessa hafa í sameiningu fjármagnað húsaleigubætur.
    Samkvæmt gildandi lögum endurgreiðir ríkissjóður sveitarfélögum 60% útlagðs kostnaðar. Bótafjárhæð hverju sinni tekur mið af áætluðum fjölda bótaþega og þeirri fjárhæð sem fjárlög heimila til endurgreiðslu. Endurgreiðsla ríkisins hefur verið bundin við 200 m.kr. á ári. Fjölgun þeirra sem rétt hafa á húsaleigubótum hefur því ekki haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Sú breyting að sveitarfélögum verði gert skylt að greiða húsaleigubætur mun því að öðru óbreyttu ekki hafa áhrif til aukinna útgjalda ríkissjóðs.
    Talið er að fjöldi íbúða sem sveitarfélög leigja skjólstæðingum sínum á niðursettu verði séu um 2.400 talsins. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að breyta því fyrirkomulagi á þann veg að leigjendurnir greiði eðlilega leigu en njóti þess í stað húsaleigubóta. Með þessu fyrirkomulagi aukast skatttekjur ríkis og sveitarfélaga. Ætla má að húsaleigubætur til þeirra sem búa í leiguhúsnæði sveitarfélaga geti numið um 250–300 m.kr. á ári. Af þeirri fjárhæð greiðast 25–30 m.kr. til sveitarfélaga í formi útsvars og allt að 40 m.kr. til ríkisins, miðað við að helmingur leigjenda hafi skattskyldar tekjur fyrir ofan skattleysismörk.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einstaklingar, sem búa í húsnæði í eigu ríkisins, geti notið húsaleigubóta. Í flestum tilvikum er um að ræða opinbera embættismenn sem hafa laun yfir því lágmarki sem húsaleigubótakerfið setur.
    Til þess að bæta sveitarfélögum upp áformaða yfirtöku þeirra á kostnaði við húsaleigu bætur eru fyrirhugaðir samningar um verkaskipti sveitarfélaga og ríkis. Eins og áður var nefnt mun endurgreiðsla ríkisins vegna húsaleigubóta í ár nema allt að 200 m.kr. Þá hefur verið fallist á að ríkið bæti sveitarfélögum upp jafngildi þess tekjuauka sem ríkið hefur af bótum þeirra sem leigja í húsnæði sveitarfélaga. Enn hefur ekki verið gengið frá verkaskiptum við samtök sveitarfélaga, en gangi þau áform eftir sem hér er lýst má gera ráð fyrir að frumvarpið, verði það að lögum, hafi ekki áhrif til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Þrjár aðferðir voru notaðar til að nálgast kostnað vegna íbúðanna. Kostnaður umfram tekjur var áætlaður um 373 m.kr., útreikningur þar sem hlutfall af stofnverði er notað sem útgangspunktur sýnir áætlun upp á 446 m.kr. og samkvæmt áætlun byggðri á niðurstöðum úttektar Sambands íslenskra sveitarfélaga er kostnaður vegna þeirra um 395 m.kr. Ekki töldu fulltrúar sambandsins að ein aðferð væri réttari en önnur en bentu á að kostnaður umfram tekjur (373 m.kr.) gefi ekki nægilega rétta mynd þar sem erfiðlega hafi gengið hjá mörgum sveitar félögum að gefa upplýsingar um raunverulegan kostnað vegna umræddra íbúða. Því er líklegt að samtals óbein niðurgreiðsla sveitarfélaga vegna leiguíbúða sé um 395–446 m.kr. á ári, og verður stuðst við meðaltal af því hér (420 m.kr.).
Neðanmálsgrein: 2
    2 Heildargreiðslur vegna húsaleigubóta voru 311 m.kr. á árinu 1996 og 73% af því eru 227 m.kr.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Samkvæmt útreikningum Sambands íslenskra sveitarfélaga nema óbeinar niðurgreiðslur vegna félagslegra leiguíbúða í eigu sveitarfélaga 395–446 m.kr. á ári, 420 er meðaltal þess. Ekki var hægt að nálgast upplýsingar um kosnað ríkisins umfram leigutekjur af íbúðum í eigu þess, en hér er talan 420 hækkuð upp í 500 vegna þessa kostnaðar.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Vaxtamunur hjá Byggingarsjóði verkamanna af lánum til leigu- og eignaríbúða nam 1.200 m.kr. samkvæmt ársskýrslu Húsnæðisstofnunar fyrir árið 1995.