Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 382 – 307. mál.



Frumvarp til laga



um lágmarkslaun.

Flm.: Gísli S. Einarsson, Jóhanna Sigurðardóttir,


Guðmundur Árni Stefánsson.

1. gr.

    Heildarlaun á mánuði fyrir 16 ára og eldri skulu ekki vera undir 85.000 kr. fyrir fulla dag­vinnu.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 1998.

Greinargerð.


    Meginvandinn í íslensku þjóðfélagi er fátækt sem stafar af lágum launum. Þau hafa leitt til fólksflótta frá landinu. Einkenni íslensks hagkerfis eru hin lágu taxtalaun. Um nokkra hríð hefur ekki verið hægt að framfleyta fjölskyldu með lægstu taxtalaunum.
    Launakerfið á Íslandi einkennist af umfangsmiklum feluleik með raunveruleg launakjör. Þannig hafa ýmiss konar aukagreiðslur komið til viðbótar taxtalaunum. Annað einkenni á íslensku atvinnulífi er hve langan vinnutíma íslenskir launamenn vinna. Í samanburði sem var gerður milli Íslands og Danmerkur kom í ljós að launamaður hérlendis vinnur um 50 klst. á viku að meðaltali en danskur launamaður 39 klst. Þetta sýnir að íslenskur launamaður vinnur að jafnaði tíu vikum lengur en danskur launamaður á ári hverju. Lífskjörum hér á landi, sem eru betri en launin gefa til kynna, er þannig augljóslega fyrst og fremst haldið uppi með löngum vinnudegi.
    Hjálparstarf hefur sífellt aukist innan lands vegna bágs ástands. Samkvæmt upplýsingum hjálparstofnana og ýmissa líknaraðila hafa þúsundir einstaklinga notið matargjafa sökum fátæktar. Félagsleg aðstoð sveitarfélaga hefur aukist svo síðustu ár að þeim er mörgum um megn að sinna þeim skyldum sínum.

Lág framleiðni og fólksflótti.
    Alþjóðlegur samanburður sýnir að laun á Íslandi eru áberandi lægri en í helstu við­miðunarlöndum okkar. Ein aðalástæða þessa er að framleiðni íslenskra fyrirtækja er mun lægri en þekkist annars staðar. Þannig er samkeppnisstaða Íslands mjög léleg í alþjóðlegum samanburði. Framleiðni á hverja vinnustund á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Í samanburði á landsframleiðslu á vinnustund í 24 OECD-ríkjum er Ísland í 20. sæti.
    Þetta hefur leitt til fólksflótta frá landinu. Íslendingum fjölgaði 50% meira í Danmörku en á Íslandi árið 1995. Alls fluttu 1.060 héðan til Danmerkur árið 1994. Íslendingum fjölg­aði um 30% í Noregi og um 60% á Grænlandi árið 1995. Alls voru 20.800 Íslendingar bú­settir erlendis og fjölgaði þeim um 10% milli áranna 1994 og 1995. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands voru 22.425 Íslendingar búsettir erlendis 1. des 1996 en það þýðir að Íslendingum erlendis fjölgaði um tæplega 9,5% á árinu 1996.
    Þegar borin eru saman laun og lífskjör verður vitaskuld að taka tillit til margra þátta, svo sem bótakerfis, skattkerfis, húsnæðiskerfis, vaxta, matvöruverðs, heilbrigðiskerfis og gjalda fyrir opinbera þjónustu.
    Í íslensku þjóðfélagi hefur lengi tíðkast að vinna langan vinnudag. Sú hefð markast af ein­hæfu atvinnulífi um aldir þar sem unnið var í skorpum bæði til sjávar og sveita. Þessi vinnu­máti hefur breyst síðustu áratugi eftir því sem íslenskt hagkerfi hefur færst nær því sem gerist í nágrannalöndunum og ýmiss konar þjónustustörf skipta sífellt meira máli. Nýjar vinnutíma­reglur á Evrópska efnahagssvæðinu leyfa ekki lengur svo langan vinnutíma.
    Lág taxtalaun hér á landi eru efnahagslegt vandamál. Þau leiða til þess að ýmsir sem eru á þessum launum eiga vart fyrir mat, hvað þá að þeir geti nýtt sér þá þjónustu sem eðlilegt er að veitt sé í nútímaþjóðfélagi. Jafnframt verður þetta til þess að ýmsar starfsstéttir fá við­bætur við laun sem ekki er samið um í kjarasamningum. Þetta skapar verulegt óöryggi fyrir launafólk í landinu og hefur, með öðru, stuðlað að því að launajafnrétti er ekki eins og skyldi. Það að lægstu taxtar skuli vera svipaðir og lágmarksframfærsla er ósvinna. Hér bera margir ábyrgð.
    Tímakaup í dönskum iðnaði er 97% hærra en í íslenskum. Tekjur hjóna í Danmörku árið 1993 voru um 39% hærri en á Íslandi. Danskur byggingaverkamaður hefur um 28% hærri ráðstöfunartekjur en sá íslenski. Þessar tölur, sem komu fram í skýrslu forsætisráðherra um laun og lífskjör á Íslandi, í Danmörku og víðar, segja alla söguna.

Skattar og lág laun.
    Í þessum samanburði við Danmörku ber að hafa í huga að byrði beinna skatta er minni hér en í Danmörku. Meðalheimili í Danmörku greiðir 38% tekna sinna í tekju- og eignarskatt en meðalheimili á Íslandi 21%. Jaðarskattar eru hærri í Danmörku en á Íslandi en þykir þó mörgum nóg um þá hérlendis.
    Hins vegar er athyglisvert að skattleysismörk hér á landi eru 57.000 kr. á mánuði en í Danmörku eru engin skattleysismörk. Það er umhugsunarvert hvort skattleysismörk hér á landi, sem vissulega eru ekki há, hafi komið í veg fyrir hækkun taxtalauna undanfarin ár. Ef greiddur væri skattur af öllum tekjum, ef til vill 10–15% skattur af lægstu tekjum, er ekki ósennilegt að það hefði leitt til hærri taxtalauna í kjarasamningum síðustu ár. Umræðu vantar um þennan þátt mála hérlendis.
    Í alþjóðlegum samanburði kemur skýrt fram að óbeinir skattar hérlendis eru mun hærri en erlendis. Þá er verð á matvælum mun hærra hér en í nágrannalöndunum og leiðir það hug­ann að því að löngu er tímabært að stokka upp landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Endurbætur á því sviði væru ein mesta kjarabót fyrir láglaunafólk sem um getur.
    Við gerð kjarasamninga undanfarin ár hefur verkalýðshreyfingin oft talað um að nú væri kominn tími til að hækka lægstu launin. Það hefur ekki tekist. Á verðbólgutímanum var einna algengast að samið væri um kauphækkun sem átti að leiðrétta lægstu launin. Þá var reiknuð út prósentuhækkun þeirrar launahækkunar og hún gekk í gegnum allt kerfið. Láglaunafólk stóð þannig eftir í sömu sporum og áður og verðbólgan eyddi áhrifum hagstæðra kjarasamninga á örskömmum tíma.
    Við gerð kjarasamninga síðari ár hefur reynst einna best að semja um eingreiðslur til að hækka lægstu laun. Sú aðferð virðist hafa haldið nokkuð vel í undanförnum kjarasamningum. Þrátt fyrir það eru lægstu taxtalaunin svo lág að það er gjörsamlega óverjandi fyrir þjóð­félagið. Ekki má gleyma því að fjölmargir fá greitt samkvæmt þessum töxtum og má þar nefna ófaglært starfsfólk, ekki hvað síst á vegum hins opinbera. Þetta launafólk hefur ekki tækifæri til að bæta sér upp lág laun með mikilli vinnu eða kaupaukakerfi. Það lifir í sárri fátækt og á fárra kosta völ.


Gildistaka frumvarpsins.
    Flutningsmenn telja að allt sem viðkemur kjarasamningum eigi að vera á forræði samningsaðila. Þar sem ekki hefur tekist með samningum að knýja fram hækkun lægstu launa undanfarin ár ber Alþingi Íslendinga skylda til að grípa inn í þessi mál með lagasetningu.
    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heildarlaun á mánuði fyrir 16 ára og eldri skuli ekki vera undir 85.000 kr. en 2. gr. kveður á um að þetta ákvæði taki ekki gildi fyrr en 1. mars 1998. Ástæða þessa er að þannig skapast svigrúm fyrir aðila vinnumarkaðarins til að semja sjálfir um þá niðurstöðu sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Í kjölfar mjög mikilla launa­breytinga, sem orðið hafa hjá einstökum starfsstéttum nú á haustmánuðum og eru langt um­fram almenna kjarasamninga, er ástæða til að flytja frumvarp til laga um lágmarkslaun.
Nú er ljóst að 85.000 kr. mánaðarlaun fyrir fulla dagvinnu eru ekki há og flestir launþegar hafa hærri heildarlaun, að vísu með nokkurri eftirvinnu. Frumvarpinu er þannig fyrst og fremst ætlað að skapa vörn fyrir þá sem minnst mega sín.
    Rökin fyrir þessu eru augljós. Hækkun lægstu launa í 85.000 kr. á mánuði mun auka vel­ferð í íslensku þjóðfélagi, einkum hjá þeim fátækustu, jafna laun og bæta afkomu margra ein­staklinga. Það er engin ástæða til að ætla að lagasetning af þessum toga muni kalla á óða­verðbólgu, allra síst ef aðilar vinnumarkaðarins setjast nú niður í alvöru til að semja um hækkun lægstu taxtalauna, eins og þeir hafa margoft talað um undanfarin ár.
    Að mati flutningsmanna mundi lagasetning af þessum toga knýja samningsaðila til að
finna leiðir til að unnt sé að lifa mannsæmandi lífi af dagvinnulaunum.

Lögbinding lágmarkslauna.
    Launaumræða verður að vera í alþjóðlegu samhengi. Íslenskar vörur eru vitaskuld í sam­keppni við erlendar, hvort sem um er að ræða útflutningsvörur okkar eða vörur sem keppa við innflutning. Við verðum að standast þessa alþjóðlegu samkeppni og okkur hefur fyrst og fremst tekist það með löngum vinnudegi. Löggjöf um lágmarkslaun er til erlendis, t.d. í Ameríku og Frakklandi. Þess má geta að nokkur umræða um lágmarkslaun var í Bandaríkj­unum í aðdraganda að forsetakosningunum þar á liðnu ári. Eitt af höfuðstefnuatriðum ríkis­stjórnar Tony Blair er að setja lög um lágmarkslaun og að skilgreina þarfir einstaklinga og fjölskyldna til framfærslu sinnar.
    Hægt er að sýna fram á að séu lágmarkslaun ákveðin of há geti það leitt til þess að það dragi úr vinnu í viðkomandi hagkerfi. Þetta eru helstu rök gegn lögbindingu lágmarkslauna. Þau eiga ekki við núverandi aðstæður hérlendis að mati flutningsmanna. Þau lágmarkslaun sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi eru ekki há og atvinnulífið á auðveldlega að geta ráðið við þau með aukinni framleiðni. Atvinnuástand hér á landi er einnig að mörgu leyti mun betra en í nágrannalöndunum. Að skapa umhverfi fyrir sérhæfð störf, hálaunastörf, er vitaskuld háð mörgum þáttum, m.a. menntakerfi og því sem varið er í rannsóknir og þróunarstarf innan og utan fyrirtækja. Á þessu sviði er stefna ríkisstjórnarinnar mjög á reiki. Ekki hefur verið unnið nóg hérlendis í menntamálum og rannsóknum undanfarna áratugi.
    Íslendingar verða að gera upp við sig hvort hér eigi að verða láglaunasvæði eins og allt stefnir í og landsmenn verði að vinna langan vinnudag til að halda uppi sambærilegum lífs­kjörum og í nágrannalöndunum eða hvort þróa eigi hagkerfið í átt til sérhæfðra starfa sem eru betur launuð. Flutningsmenn efast ekki um að síðari leiðin er gæfuríkari fyrir land og þjóð.

Lokaorð.
    Það er liðin tíð að hægt sé að ætlast til þess af Íslendingum að þeir vinni allt að 30% lengri vinnudag en kollegar þeirra erlendis til þess eins að ná sambærilegum launum. Það mun ekki auka framleiðni íslenskra fyrirtækja ef þau eiga í auknum mæli að byggja á ódýru vinnuafli. Við verðum að snúa af þessari braut því að annars verður landflótti viðvarandi og Ísland verður áfram láglaunaland.
    Frumvarp þetta er liður í þeirri stefnumörkun jafnaðarmanna að skapa hér mannsæmandi umhverfi fyrir launafólk og stuðla jafnframt að heilbrigðu og þróttmiklu efnahagslífi. Ef þessi leið er ekki farin og taxtalaunin látin eiga sig eina ferðina enn í næstu kjarasamningum mun sífellt stærri hópur launamanna sitja eftir með lágmarkstaxta og eiga sér ekki viðreisnar von. Við megum ekki láta mál þróast á þann veg.



Fylgiskjal I.


Verslunarmannafélag Reykjavíkur,
Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur:


Laun verslunar- og skrifstofufólks


á Íslandi og í Danmörku.


(Febrúar 1996.)




(18 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið)






Fylgiskjal II.


Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur:

Samanburður á tekjum verkafólks á Íslandi og í Danmörku.


Unnið fyrir 18. þing Verkamannasambands Íslands.


(Október 1995.)




(12 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið)