Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 385 – 261. mál.



Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um rafmagnseftirlit og raffangaeftirlit.

     1.      Hefur öryggi neytenda verið tryggt með virku eftirliti í kjölfar breytinga á rafmagnseftirliti?
    Í því skyni að tryggja öryggi neytenda sem best var gerð sú krafa í lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, að löggiltir rafverktakar kæmu sér upp innra öryggisstjórnunarkerfi með eigin starfsemi. Það þýðir að rafverktakar vinni eftir gæðakerfi sem tryggi að öll verk sem unnin eru í þeirra nafni séu yfirfarin af þeim í verklok og þannig sé tryggt að verkin séu samkvæmt settum öryggisreglum.
    Á sama hátt er öryggi neytenda gagnvart starfsemi rafveitna tryggt með því að gerðar eru sömu kröfur til rafveitna og rafverktaka. Rafveitum ber að koma sér upp skilgreindu innra öryggisstjórnunarkerfi. Það er gert til þess að tryggja öryggi raforkuvirkja og rekstur þeirra eins og frekast er unnt. Með innra öryggisstjórnunarkerfi er átt við að á kerfisbundinn hátt verði með fyrirbyggjandi ráðstöfunum unnt að tryggja að kröfum um gæði vinnu og öryggi búnaðar sé ávallt fullnægt.
    Skýlaus krafa er gerð til rafveitna og rafverktaka um að beita gæðastjórnun í starfsemi sinni og er hún í grundvallaratriðum sú sama og almennt er beitt í atvinnulífinu við fram leiðslu og þjónustustarfsemi. Innra gæðaeftirlit fyrirtækja er talið árangursríkasta leiðin til að tryggja öryggi og bæta starfsemina í heild. Þetta næst m.a. með því að eigendur og umráðamenn raforkuvirkja og neysluveitna og allir starfsmenn í tengslum við þær verði meðvitaðri um öryggismál og virkari þátttakendur í fyrirbyggjandi aðgerðum.
    Löggildingarstofa hefur yfireftirlit með því að öryggisstjórnun rafveitna og rafverktaka sé samkvæmt reglum og beitir þá aðila viðurlögum sem ekki uppfylla settar reglur.

     2.      Hvernig fer eftirlit rafskoðunarstofa fram?
    Yfirvöld hafa mótað þá stefnu að óháðar faggiltar skoðunarstofur sinni framkvæmd raf magnseftirlits og með því sé skilið á milli stjórnsýsluþáttar eftirlitsins sem Löggildingarstofa hefur með höndum og framkvæmdar þess eftirlits sem skoðunarstofur sinna í umboði Löggildingarstofu. Skilyrðið fyrir því að hægt sé að fela einkaaðilum framkvæmd eftirlits sem hið opinbera hefur haft með höndum er að þeir séu óháðir öllum þeim sem eftirlitið beinist að og öðrum sem gætu haft hagsmuni af niðurstöðum þeirra.
    Til að tryggja að þessi sjónarmið nái fram að ganga hefur verið valin sú leið að gera kröfu um faggildingu á þeim skoðunarstofum sem annast eftirlit á rafmagnssviði. Faggilding grundvallast á evrópskum stöðlum og faggildingarsvið Löggildingarstofu sér til þess að þeir sem fengið hafa faggildingu starfi eftir og uppfylli að öllu leyti þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.
    Faggilding er almennt notuð innan ESB til að tryggja hæfni óháðra prófunar- og vottunarstofa sem gefa út vottorð vegna frjálsra vöruskipta og ákvæða um gagnkvæma viðurkenningu á vottunum og prófunum. Faggilding hefur átt auknu fylgi að fagna jafnt á evrópskum vettvangi sem alþjóðlegum, enda byggist hún á ýmsum grundvallarmarkmiðum neytendaverndar.
    Faggiltar skoðunarstofur á rafmagnssviði starfa eftir gæðakerfi og skriflegum verklags- og skoðunarreglum sem Löggildingarstofa hefur gefið út. Þannig verða skoðanir einsleitar og skiptir þá ekki máli hvaða skoðunarstofa framkvæmir skoðunina, niðurstaðan er sú sama. Með þessu er tryggt að allir þeir sem eftirlitið beinist að njóti jafnræðis.
    Gerðar eru strangar kröfur til óháðra skoðunarstofa. Þær starfa í samræmi við lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, og reglugerð nr. 346/1993, um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa. Skoðunarstofunum ber að fullnægja öllum ákvæðum í staðlinum ÍST EN 45004 um starfsemi skoðunarstofa og faggildingarsvið Löggildingarstofu gengur úr skugga um að svo sé . Mjög ítarleg úttekt með aðstoð sérfræðings frá rafmagnsöryggisdeild er gerð á starfsemi skoðunarstofa áður en þeim er veitt starfsleyfi. Úttektin miðar annars vegar að því að stofurnar sýni fram á hvernig þær fullnægja skilyrðum, m.a. um skipulag og stjórnun, gæðakerfi, hæfni starfsfólks, aðstöðu og tækjabúnað, og hvernig þær beita skoðunar- og verklagsreglum.
    Hins vegar er fylgst með skoðunum á vettvangi og fagleg hæfni skoðunarmanna metin. Fylgst er með hvernig mat á frávikum samræmist skoðunarreglum og hvernig skýrslugerð og frágangi er sinnt. Árlega er svo haft formlegt eftirlit með starfseminni og beinist sú skoðun að völdum þáttum hennar. Auk þess fara fram skyndiathuganir starfsmanna rafmagnsöryggisdeildar ef þurfa þykir. Til frekara eftirlits eru skoðunarskýrslur stofanna yfirfarnar af sérfræðingum rafmagnsöryggisdeildar.

     3.      Er þjónusta við neytendur jafngóð og skilvirk og hún var fyrir 1994?
    Árið 1993 hóf iðnaðarráðuneytið breytingar á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála hér á landi og lauk þeim um síðustu áramót þegar ný lög voru sett um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996.
    Um langt árabil höfðu hagsmunaaðilar á rafmagnssviði gert athugasemdir við fyrirkomulag rafmagnsöryggismála. Meginatriði í gagnrýni Sambands íslenskra rafveitna (SÍR) voru eftirfarandi:
          Rafveitueftirlitsgjald, er svo var kallað, var látið standa undir kostnaði við raffangaprófun Rafmagnseftirlits ríkisins. Starfsemi raffangaprófunar var einnig talin óþörf vegna saminga Íslands um gagnkvæma viðurkenningu á vottunum og prófunum.
          Rafveitur voru látnar bera ábyrgð á eftirliti með neysluveitum og skyldaðar til að skoða allar nýjar neysluveitur í stað þess að fá að beita úrtaksskoðunum. Það var skoðun SÍR að eftirlit með neysluveitum ætti ekki að vera í þeirra höndum þar sem hlutverk rafveitna væri fyrst og fremst að framleiða, dreifa og selja raforku. Það væri hlutverk stjórnvaldsins að bera ábyrgð á eftirliti með starfsemi löggiltra rafverktaka og þar með eftirliti með neysluveitum.
          Hið samfléttaða eftirlits- og stjórnsýsluhlutverk yfirstjórnar rafmagnsöryggismála hafði og sætt gagnrýni og á það verið bent að það væri andstætt nútímasjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti sem kalla á meira hlutleysi, aukið jafnræði og réttaröryggi.
          Samband íslenskra rafveitna taldi yfirstjórn rafmagnsöryggismála óskilvirka.
    Helstu breytingar á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála, sem gerðar hafa verið frá 1993, eru í stuttu máli eftirfarandi:
          Rafmagnseftirlit ríkisins var lagt niður í þáverandi mynd en ný stofnun, Löggildingarstofa, tók við hlutverki þess með lögum nr. 155/1996 og heyrir hún undir viðskiptaráð herra.
          Prófunum á rafföngum var hætt hér á landi en þess í stað er beitt skilvirku markaðseftirliti.
          Framkvæmd rafmagnseftirlits var falin faggiltum skoðunarstofum á rafmagnssviði.
          Úrtaksskoðanir eru framkvæmdar í umboði Löggildingarstofu á háspenntum raforkuvirkjum og neysluveitum í stað alskoðana (100% skoðana).
          Skoðanir eru framkvæmdar samkvæmt skilgreindum verklagsreglum og í því formi sem Löggildingarstofa ákveður.
          Krafa er um að rafveitur og löggiltir rafverktakar komi sér upp innri öryggisstjórnun. Með innra öryggisstjórnunarkerfi er átt við að á kerfisbundinn hátt verði með fyrir byggjandi ráðstöfunum unnt að tryggja að kröfum um gæði vinnu og öryggi búnaðar sé á öllum tímum fullnægt.
    Með þessum aðgerðum færðist allt eftirlit með háspenntum raforkuvirkjum til rafveitna og eftirlit með nýjum neysluveitum til rafverktaka. Það sem felst í þessum breytingum er m.a. að ábyrgð eigenda, umráðamanna eða sérstakra ábyrgðarmanna raforkuvirkja og neysluveitna á lögmætu ástandi þeirra er gerð ótvíræð. Virk öryggisstjórnun rafveitna og rafverktaka, sem Löggildingarstofa hefur yfireftirlit með, tryggir því öryggi neytenda betur en áður.
    Nú eru starfsmenn Löggildingarstofu að leggja lokahönd á tillögur að endurskoðun 1. kafla reglugerðar um raforkuvirki þar sem almennt er fjallað um fyrirkomulag rafmagns öryggismála. Þessi endurskoðun var unnin í samráði við Samorku og Samband íslenskra rafverktaka. Á sama tíma verða tilbúnar verklagsreglur Löggildingarstofu þar sem kröfum stofunnar er lýst enn frekar. Skoðunarreglur hafa verið í endurskoðun og verða tilbúnar á sama tíma og áðurnefndar reglur.
    Á næstu mánuðum mun Löggildingarstofa kynna nýtt fyrirkomulag rafmagnsöryggismála fyrir starfsmönnum rafveitna og rafverktökum um allt land og tryggja í sessi innri öryggisstjórnun rafveitna og rafverktaka. Þá er ráðgert að upplýsinga- og fræðslustarfsemi á rafmagnsöryggissviði gagnvart almenningi verði meiri en áður.
    Hafin er endurskoðun á lágspennu- og háspennureglum sem teknar verða í notkun á næstu árum.
    Allar þessar aðgerðir lúta að því að tryggja að fyrirkomulag rafmagnsöryggismála verði betra og skilvirkara en áður og þjónusta við neytendur bætt að sama skapi.
    Forsenda þess að hægt sé að draga úr opinberu eftirliti, en jafnframt tryggja öryggi neyt enda, er að rafveitur og löggiltir rafverktakar komi sér upp innri öryggisstjórnun.

     4.      Hefur verið sýnt fram á að þjónusta og eftirlit með rafveitum sé betra nú en það var árið 1993?
    Rafmagnseftirlit ríkisins bar ábyrgð á framkvæmd eftirlits með háspenntum raforku virkjum rafveitna til ársloka 1993. Framkvæmd eftirlitsins sætti gagnrýni, m.a. var það ekki talið nógu samræmt og kerfisbundið.
    Eins og getið er um í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar eru rafveitur landsins að koma sér upp innri öryggisstjórnun með eigin virkjum. Árið 1996 var stofnaður vinnuhópur á vegum Samorku til þess að útbúa leiðbeiningar um framkvæmd innri öryggisstjórnunar rafveitna í samráði við Rafmagnseftirlit ríkisins. Þeirri vinnu er nú lokið og hafa rafveitur sent Löggildingarstofu upplýsingar um hvernig þær muni standa að uppbyggingu og framkvæmd öryggisstjórnunarkerfa sinna. Í öryggisstjórnunarkerfi rafveitna er tekið á eftirfarandi þáttum:
     a.      skipulagi og skilgreiningu á því hver beri ábyrgð á eftirliti og að nauðsynlegum öryggis- og fyrirbyggjandi aðgerðum sé sinnt, ásamt því hvernig ábyrgð sé dreift á aðra starfsmenn;
     b.      skráningu á megineiningum raforkukerfisins og breytingum sem gerðar eru;
     c.      hvernig staðið sé að eftirliti með virkjum í rekstri, úttektum og skoðunum á nýjum virkjum og endurbótum eldri virkja;
     d.      tíðni og umfangi eftirlits;
     e.      greiningu, skráningu og flokkun athugasemda og hvernig bregðast skuli við þeim.
    Innan skamms munu skoðunarstofur í umboði Löggildingarstofu hefja fyrstu skoðanir á öryggisstjórnun rafveitna. Því er ljóst að eftirlit með raforkuvirkjum rafveitna verður betra og skilvirkara en áður.

     5.      Hefur verið tryggt að ekki komi til gjaldskrárhækkana fyrir rafmagnseftirlit, eins og fyrirheit voru gefin um árið 1993 og aftur í ræðu ráðherra á Alþingi 20. desember sl.?
    Í 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, kemur fram að rafveitum ber að greiða til Löggildingarstofu gjald sem nemur 0,8% af heildartekjum þeirra af raforkusölu. Þessum tekjum skal varið til að greiða kostnað af yfireftirliti við úrtaksskoðanir sem stofnunin lætur skoðunarstofur framkvæma á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri.
    Ráðuneytið hefur engin áform um að gera tillögu um breytingu á þessu gjaldi.

     6.      Er unnt með skýrum dæmum að sýna fram á að kostnaður við rafmagnseftirlit hafi ekki hækkað, hvorki hjá einstaklingum né fyrirtækjum, síðan breyting varð á fyrirkomulagi þess árið 1994?
    Erfitt er að bera kostnað af fyrirkomulagi rafmagnseftirlits eins og það var áður saman við núverandi fyrirkomulag. Þess skal þó getið að samkvæmt útreikningum sem Samband íslenskra rafveitna lét gera árið 1992 nam kostnaður við allt rafmagnseftirlit í landinu hátt í 240 millj. kr. á þeim tíma sem Rafmagnseftirlit ríkisins og rafveitur sinntu því. Sjálfsagt er erfitt að finna nákvæma tölu þar sem störf við rafmagnseftirlit voru hér áður fyrr ekki eins afmörkuð og nú. Eftirlitsmenn rafveitna gegndu flestir öðrum störfum hjá rafveitum og voru skilin því oft óljós milli rafmagnseftirlitsstarfsins og annarra starfa.
    Áætlaður kostnaður af eftirliti samkvæmt nýju fyrirkomulagi mun á næsta ári nema um 115 millj. kr. og felst hann í kostnaði við rekstur rafmagnsöryggideildar Löggildingarstofu, eftirlit með rafföngum á markaði, eftirlit með nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri og við öryggisstjórnun rafveitna og rafverktaka.
    Löggildingarstofa greiðir kostnað af eftirliti með nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri og því bera neytendur ekki beinan kostnað af neysluveitueftirliti. Faggiltar skoð unarstofur framkvæma skoðanir á framangreindum neysluveitum í umboði Löggildingarstofu.
    Fyrst eftir að faggiltar skoðunarstofur fóru að sinna rafmagnseftirliti hafa atriði eins og tími við öflun gagna, ferðatími, skoðunartími, tími í skýrslugerð o.fl. fyrst verið skilgreind. Þegar Löggildingarstofa óskar eftir því að skoðunarstofur annist eftirlit er þess ævinlega gætt að skoðunarverkefni séu nægilega mörg til að minnka aukakostnað sem mest, svo sem kostnað við ferðir og uppihald.
    Því fleiri verkefni sem skoðunarstofur munu sinna á næstu árum þeim mun minni verður áðurnefndur kostnaður á hvert verkefni. Hins vegar er ljóst að neytendur greiða nú töluvert lægri fjárhæðir til rafmagnsöryggismála en þeir gerðu áður.

     7.      Hefur forstjóri Löggildingarstofu lokið háskólaprófi á sviði er tengist starfsemi stofnunarinnar, sbr. 4. gr. laga um Löggildingarstofu, nr. 155/1996?
    Samkvæmt fyrrnefndum lögum ber forstjóra Löggildingarstofu að hafa lokið háskólaprófi á sviði sem tengist starfsemi stofnunarinnar. Forstjóri hefur lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands og uppfyllir því áðurnefnd skilyrði.

     8.      Hefur deildarstjóri rafmagnsöryggisdeildar Löggildingarstofu háskólapróf í rafmagnsverkfræði eða skyldum greinum?
     Þær kröfur, sem gerðar eru til deildarstjóra rafmagnsöryggisdeildar Löggildingarstofu, eru þær að hann hafi lokið prófi frá rafmagnsdeild viðurkennds verkfræðiháskóla (sterk straumssviði) eða rafmagnsdeild viðurkennds tæknifræðiháskóla (sterkstraumssviði) og hafi að auki a.m.k. tveggja ára reynslu á sviði rafmagnsöryggismála. Einnig skal hann hafa þekkingu og reynslu í opinberri stjórnsýslu, rekstri og stjórnun. Deildarstjóri rafmagns öryggisdeildar uppfyllir áðurnefnd skilyrði.