Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 392 – 312. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu og lögum um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



I. KAFLI
Breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91 29. desember 1987.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 2. gr. laganna:
 a.     1. tölul. orðast svo: Á árinu 1997 skal gjaldið vera 400,24 kr. á einstakling á mánuði.
 b.     2. tölul. fellur brott.
 c.     Í stað ártalsins 1990 í 3. tölul. kemur: 1998.

II. KAFLI
Breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36 4. maí 1993.
2. gr.

    2. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
    Kirkjugarðsstjórnir skulu senda Ríkisendurskoðun ársreikninga kirkjugarða fyrir næstliðið ár fyrir 1. júní ár hvert. Um heimildir Ríkisendurskoðunar til að kalla eftir upplýsingum og til að kanna gögn fer eftir lögum um Ríkisendurskoðun.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 39. gr. laganna:
 a.     1. tölul. orðast svo: Á árinu 1997 skal gjaldið vera 164,13 kr. á einstakling á mánuði.
 b.     Í stað ártalsins 1995 í 2. tölul. kemur: 1998.

4. gr.

    Við 1. mgr. 40 gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma eru undanþegnir greiðslu framlags til Kirkjugarðasjóðs árin 1998 og 1999.

III. KAFLI
Breyting á lögum um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir,
héraðsfundi o.fl., nr. 25 3. júní 1985.

5. gr.

    Við 23. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Sóknarnefndir skulu senda Ríkisendurskoðun ársreikninga sóknarnefnda fyrir næstliðið ár fyrir 1. júní ár hvert. Um heimildir Ríkisendurskoðunar til að kalla eftir upplýsingum og til að kanna gögn fer eftir lögum um Ríkisendurskoðun.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu er lagt til að tekjur kirkjugarða verða auknar með því að hækka kirkjugarðsgjöld meira en nemur árlegri hækkun samkvæmt gildandi lögum. Einnig er lagt til að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma verði undanþegnar því í tvö ár að greiða framlag til Kirkjugarðasjóðs. Enn fremur er lagt til að Ríkisendurskoðun fái heimild til að kanna ársreikninga og gögn varðandi sóknargjöld, en sú heimild gildir nú fyrir kirkjugarða.
    Fjárhagsleg afkoma stærstu kirkjugarða landsins hefur versnað stórlega undanfarin missiri og hafa tekjur kirkjugarðanna skerst um meira en 40% frá 1990 með lækkun á kirkjugarðsgjöldum, afnámi aðstöðugjalds og kirkjugarðslögum frá 1993, en þau skylda kirkjugarða til að greiða kostnað af prestþjónustu við útfarir. Nefnd, sem fjallað hefur sérstaklega um þennan vanda, telur nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að auka tekjur kirkjugarðanna.
    Þegar sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld eru ákveðin árlega skal leggja til grundvallar þá hækkun sem orðið hefur á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga tvö næstliðin tekjuár á undan. Samanburður frá Þjóðhagsstofnun leiðir í ljós að hækkun hafi numið 6,3% milli tekjuáranna 1995 og 1996. Ef hins vegar er tekið tillit til þess að iðgjöld til lífeyrissjóða verða í auknum mæli dregin frá tekjum til skatts virðist sem hækkun tekjuskattsstofns sé ekki sem bestur mælikvarði á tekjubreytingar milli ára, og þegar tillit er tekið til frádráttarins mælist hækkun tekjuskattsstofns á mann 7,6%.
    Í frumvarpinu er lagt til að sóknargjöld hækki um 6,3% frá fyrra ári en að kirkjugarðsgjöld hækki um 7,6% auk þess sem þau hækki sem nemur 1,3% hækkun sóknargjalda svo að tryggja megi kirkjugörðum aukið fjármagn til að geta sinnt lögboðnum verkefnum sínum. Þessi breyting mun auka tekjur kirkjugarða um 15,3 millj. kr. Sérstakri eftirlitsnefnd er ætlað að fylgjast með afkomu kirkjugarðanna á allra næstu árum, og mun hún gera tillögu til ráðuneytisins um hvort rétt sé að hækkunin verði varanleg eða hvort rétt sé að færa kirkjugarðsgjald til fyrra horfs.
    Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma standa frammi fyrir því að þurfa að fjölga kirkjugörðum, en því fylgir mikill stofnkostnaður. Því er lagt til að Kirkjugarðar Reykjavíkur prófastsdæma verði tímabundið undanþegnir því að greiða 8% lögboðið framlag í Kirkjugarðasjóð árin 1998 og 1999 til að draga úr fjárhagsvanda þeirra. Við þetta mun ráðstöfunarfé Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma aukast um 15 millj. kr. hvort árið. Þessi ráðstöfun samrýmist því meginmarkmiði Kirkjugarðasjóðs að jafna aðstöðu kirkjugarða og veita aðstoð þar sem tekjur þeirra hrökkva ekki fyrir útgjöldum.
    Nauðsynlegt þykir að sóknarnefndir skili ársreikningum til Ríkisendurskoðunar. Er því lagt til að viðeigandi lagaákvæði um sóknarnefndir verði breytt til samræmis við lög um kirkjugarða og að orðalagsbreyting verði einnig gerð á 2. mgr. 37. gr. kirkjugarðslaganna þannig að ákvæðin verði samhljóða. Þá er enn fremur kveðið á um að Ríkisendurskoðun skuli heimilt að kalla eftir frekari gögnum eða upplýsingum, ef ástæða þykir til að kanna tiltekinn atriði sérstaklega, sbr. 7. gr. laga um Ríkisendurskoðun, nr. 86 27. maí 1997.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987,
lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, og lögum um
kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl., nr. 25/1985.

    Í frumvarpinu er lagt til að breytt verði grunngjaldi sóknar- og kirkjugarðsgjalda og fé þannig millifært frá sóknum til kirkjugarða í ljósi þess að tekjur kirkjugarða hafa lækkað veru lega á síðustu árum. Kveðið er á um gjald fyrir árið 1997 og gert ráð fyrir að það taki hækkun eins og segir í núgildandi lögum, þ.e. að hækkun samsvari þeirri hækkun er kann að verða á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga.
    Á árinu 1997 hefur verið gert ráð fyrir að hækkun á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga milli áranna 1995 og 1996 hafi verið 7%. Í ljós hefur komið að hækkunin er um 7,6% og í frumvarpinu er lagt til að gjöldin verði hækkuð alls um 7,6% en innbyrðis skiptingu þeirra breytt þannig að sóknargjöld hækki um 6,3% og kirkjugarðsgjöld um 11,9%. Við það breytist einnig framlag til kirkjumálasjóðs, jöfnunarsjóðs sókna og kirkjugarðasjóðs þar sem framlag til þessara sjóða tekur mið af heildarfjárhæð sóknar- og kirkjugarðsgjalda. Samtals hefur þessi breyting í för með sér að framlag til sókna, kirkjugarða og framangreindra sjóða verður tæplega 9 m.kr. hærra á þessu ári en ráðgert hafði verið.
    Að lokum er gert ráð fyrir að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma verði undanþegnir greiðslu framlags til kirkjugarðasjóðs árin 1998 og 1999. Við það aukast ráðstöfunartekjur kirkjugarðanna um sem nemur um 15 m.kr. á ári en tekjur kirkjugarðasjóðs skerðast að sama skapi. Breytingin hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.