Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 413 – 327. mál.Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 50/1984, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)1. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Sjóðfélagar skulu vera allir bændur og makar þeirra, enda séu bæði aðilar að búrekstri. Bóndi í þessu sambandi, þar með talinn aðili að félagsbúi, einkahlutafélagi eða öðru lögformlegu búrekstrarformi, telst sá er stundar búskap á lögbýli þar sem hann á lögheimili, og búrekstur fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02, enda hafi hann náð 16 ára aldri á næsta almanaksári á undan. Búi bóndi í óvígðri sambúð skulu bæði vera sjóðfélagar ef þau eiga sameiginlegt lögheimili og sambúðin hefur skriflega verið tilkynnt Hagstofu Íslands eða sjóðstjórn, enda séu bæði aðilar að búrekstri.

2. gr.

    Á 5. gr. laganna verða eftirtaldar breytingar:
a.    2. mgr. orðast svo:
          Heimilt er sjóðstjórn að veita lán til sjóðfélaga gegn veði í fasteign.
b.    4. mgr. fellur brott.

3. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Iðgjaldsstofn vegna bænda og maka þeirra, sem starfa að búrekstri, skal vera reiknuð laun þeirra í landbúnaði samkvæmt ákvæðum laga um tekju- og eignaskatt. Með búrekstri í þessu sambandi er átt við búrekstur samkvæmt atvinnugreinanúmerum 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02. Iðgjald þeirra bænda og maka þeirra, sem reikna sér ekki laun heldur þiggja laun frá einkahlutafélagi eða öðrum lögaðila, sem rekur bú, sbr. 1. mgr. 2. gr., skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa.
    Iðgjald sjóðfélaga skv. 1. mgr. 2. gr. skal vera 4% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. þessarar greinar. Iðgjald skv. 1. málsl. skal þó ekki vera hærra en sem nemur verðmæti 1,512 réttindastiga fyrir einstakling og 3,024 réttindastiga fyrir hjón og sambýlisfólk ár hvert. Á móti iðgjaldi sjóðfélaga skal greitt mótframlag sem skal vera 50% hærra en iðgjald skv. 1. málsl. Mótframlag skal greitt af sjóðfélaga sé ekki samið um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.
    Á greiðsludögum beingreiðslna samkvæmt búvörulögum skal halda eftir af þeim hjá sjóðfélögum, sem beingreiðslna njóta, iðgjaldi þessara sjóðfélaga fyrir það tímabil og skila því til sjóðsins. Nú nýtur bóndi ekki beingreiðslna og skal þá iðgjald innheimt samtímis og með búnaðargjaldi. Stofn til greiðslu upp í iðgjald skal vera reiknuð laun eða heildarlaun á næstliðnu tekjuári, enda liggi ekki fyrir upplýsingar um reiknuð laun eða laun yfirstandandi árs. Iðgjöldum, sem innheimt eru skv. 1. og 2. málsl., skal skilað til sjóðsins eigi síðar en 30 dögum eftir að þau eru greidd og skulu þau sundurliðuð eftir sjóðfélögum.
    Greiðsla upp í iðgjald skv. 2. málsl. 3. mgr. skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum, mánuðina ágúst til desember á tekjuárinu. Gjalddagar iðgjaldagreiðslu skulu vera fyrsti dagur mánaðanna ágúst til og með desember.
    Heimilt er sjóðfélaga að sækja um breytingu á iðgjaldagreiðslu vegna breytinga á reiknuðum launum eða greiddum launum sem eiga sér stað á árinu. Slíka umsókn skal senda sjóðnum sem úrskurðar um breytingu greiðsluskyldunnar. Skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn nema fyrirsjáanlegt sé að iðgjald breytist sem nemur 25%, þó að lágmarki 10.000 kr., á milli ára.
    Frá greiðsluskyldu iðgjaldi skv. 2. mgr. skal draga þá fjárhæð sem greidd hefur verið upp í iðgjald skv. 3. sbr. 4. mgr. Ef iðgjald er hærra en greiðsla upp í iðgjald skal því sem á vantar haldið eftir af beingreiðslu eða innheimt samhliða búnaðargjaldi, eftir því sem við á, á næsta gjalddaga eftir álagningu. Sé iðgjaldið lægra en greitt hefur verið upp í iðgjald skulu vextir reiknaðir á endurgreiðslu samkvæmt vaxtalögum.
    Nú hefur sjóðfélagi sem greiðir iðgjald skv. 1. mgr. atvinnutekjur af öðru en búrekstri og þessi störf veita ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóði og skal þá greiða iðgjöld af slíkum tekjum til þessa sjóðs. Iðgjöld skulu vera 10% af tryggðum tekjum og teljast 4% vera iðgjöld sjóðfélaga en 6% framlag vinnuveitanda.
    Iðgjöld launþega sem eru sjóðfélagar skv. 2. mgr. 2. gr. skulu vera 10% af launum. Teljast 4% vera iðgjald sjóðfélaga en 6% framlag vinnuveitanda. Reki lögaðili búskap, skal þó iðgjald skv. 2. mgr., meðan til hrekkur, teljast mótframlag vegna forstöðumanns búsins og maka hans, sambúðarkonu eða sambúðarmanns.
    Gjalddagi iðgjalda og framlaga hvers mánaðar skv. 7. og 8. mgr. er tíundi dagur næsta mánaðar. Sé um að ræða sumarfólk, sem einungis starfar á tímabilinu maí–september, er þó heimilt að gera skil í einu lagi fyrir sumarið, með gjalddaga 10. október.
    Greiði sjóðfélagi ekki greiðslu upp í iðgjald innan 30 daga frá gjalddaga skv. 4. mgr. eða sé hún vangreidd skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga, sbr. 4. mgr. Verði vanskil á greiðslu iðgjalda og framlaga skv. 7. og 8. mgr. lengur en 30 daga fram yfir gjalddaga skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga, sbr. 9. mgr.
    Enginn greiðir iðgjöld til sjóðsins lengur en til loka þess almanaksárs er hann nær 69 ára aldri eða eftir að taka ellilífeyris hefst, sbr. 6. mgr. 8. gr.
    Sjóðfélagar bera eigi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um iðgjaldagreiðslur, innheimtu, innheimtuþóknun, dráttarvexti og annað er varðar framkvæmd þessarar greinar.

4. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lagafrumvarp þetta er samið að tilhlutan stjórnar Lífeyrissjóðs bænda í þeim tilgangi að breyta iðgjaldastofni sjóðsins og innheimtuformi. Enn fremur er tekið á örfáum atriðum í núgildandi lögum sjóðsins sem nauðsynlegt þykir að breyta.
    Á seinni árum hefur orðið ljóst að iðgjaldastofn sjóðsins, þ.e. verð til framleiðenda búvöru, hefur smátt og smátt orðið óraunhæfur þar sem launaliðir framleiðslugreinanna eru misjafnir. Réttara þykir að miða við reiknuð laun í landbúnaði.
    Þann 26. maí 1997 voru sett lög um búnaðargjald, nr. 84/1997, sem taka eiga gildi 1. janúar 1998. Í samræmi við þau lög flyst innheimta allra gjalda sem Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur innheimt af bændum til innheimtumanna. Framleiðsluráð hefur séð um innheimtu iðgjalda fyrir Lífeyrissjóð bænda samhliða eigin innheimtu, en hefur nú sagt upp innheimtusamningi við sjóðinn og er það bein afleiðing af setningu laganna um búnaðargjald.
    Í kjölfar uppsagnarinnar varð ljóst að huga þyrfti að öðrum innheimtuleiðum þar sem áframhaldandi innheimta samkvæmt gildandi lögum yrði illframkvæmanleg fyrir Lífeyrissjóð bænda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Sú breyting er lögð til á skilgreiningu sjóðfélaga að það skilyrði er sett fyrir aðild maka bónda að bæði séu aðilar að búrekstri. Þá eru ákvæði um sambúð rýmkuð þannig að tilkynning um sambúð til Hagstofu Íslands veldur sjálfkrafa aðild sambúðaraðila að sjóðnum með sömu skilyrðum og ef um hjón væri að ræða.
    Þá er rýmkað hverjir teljast bændur í skilningi laganna og lagt að skilgreiningin taki til þeirra bænda sem reka bú sem einkahlutafélög eða í öðru lögformlegu búrekstrarformi en það er í samræmi við breytingar á búrekstrarformi á seinni árum.
    Loks er lögð til ný skilgreining á því við hvaða búrekstur sjóðsaðild að Lífeyrissjóði bænda skuli miðuð. Er hér notuð atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, ÍSAT 95, en samkvæmt henni flokkast atvinnugreinanúmer 01 og 02 undir landbúnað. Undanskildar eru þjónustugreinar í landbúnaði, skrúðgarðyrkja og dýraveiðar samkvæmt undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02. Er þetta sama skilgreining og í lögum um búnaðargjald.

Um 2. gr.

    Lagt er til að fella brott l. málsl. 2. mgr. 5. gr. gildandi laga um rétt Stofnlánadeildar landbúnaðarins til lána frá sjóðnum er nemi 25% af árlegum iðgjöldum og framlögum í sjóðinn til ársloka 1985 þar sem hann á ekki lengur við.
    Vegna breytinga á fjármögnun íbúðabygginga frá því að gildandi lög sjóðsins voru sett þykir ekki lengur rétt að binda heimild sjóðstjórnar til veitingar sjóðfélagalána við íbúðabyggingar og er því lagt til að heimild til lánveitinga verði rýmkuð.
    Rétt þykir að fella niður ákvæði um að lausafé sjóðsins skuli ávaxtað í Búnaðarbanka Íslands þar sem það samrýmist ekki nútímaviðskiptaháttum.

Um 3. gr.

    7. gr. gildandi laga fjallar um iðgjaldastofn, mótframlag og innheimtuaðferðir. Lagt er til að breyta ákvæðum er fjalla um iðgjöld og framlög vegna búvöruframleiðslu og innheimtu þeirra, en jafnframt er röð málsgreina breytt í því skyni að gera greinina skýrari.
    Lagt er til að iðgjaldastofninn miðist við reiknuð laun í landbúnaði, greidd laun í þeim tilvikum, þar sem búrekstrarformi er þannig háttað, sbr. umfjöllun um 1. gr. hér að framan. Í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, ÍSAT 95, er miðað við eftirtalda flokka:
         01.111     Kornrækt, grasrækt
         01.112     Kartöflurækt
         01.121     Ræktun grænmetis og garðplöntuframleiðsla
         01.122     Blómarækt
         01.130     Ræktun ávaxta, hnetna o.fl.
         01.210     Nautgriparækt
         01.221     Sauðfjárrækt
         01.222     Hrossarækt
         01.230     Svínarækt
         01.240     Alifuglarækt
         01.251     Blönduð búfjárrækt
         01.252     Loðdýrabú
         01.259     Önnur búfjárrækt
         01.300     Blandaður búskapur jarðyrkju og búfjárræktar
         02.010     Skógrækt og skógarhögg
    Flokkar sem eru undanskildir:
         01.411     Þjónusta við jarðyrkju
         01.412     Skrúðgarðyrkja
         01.420     Þjónusta við búfjárrækt (ekki dýralækningar)
         01.500     Dýraveiðar og tengd þjónusta
         02.020     Þjónusta við skógrækt og skógarhögg
    Lagt er til að iðgjald verði ákveðið 4% af iðgjaldastofninum. Ákvæði um hámarksiðgjald er óbreytt frá gildandi lögum, en með allt öðru og einfaldara orðalagi. Fellt er niður ákvæði um að hámark iðgjalds skuli miðað við hjúskaparstétt í árslok, enda þykir ekki rétt að aðili sem hætt hefur búskap, t.d. fyrir árslok, hljóti engin réttindi, eða að bókuð séu réttindi fyrir heilt ár á aðila sem kemur inn í búskap seinni hluta árs. Kveðið er á um að mótframlag greiðist af sjóðfélaga en jafnframt opnað á þann möguleika að ríkissjóður greiði það. Á undanförnum árum hefur ríkissjóður greitt mótframlag til sjóðsins.
    Meginbreyting innheimtufyrirkomulags sjóðsins er fólgið í því að hætt verður að innheimta iðgjöld af afurðastöðvum, enda er sú innheimtuaðferð orðin úrelt. Lagt er til að iðgjöldin verði innheimt af beingreiðslum bænda sem hafa með höndum sauðfjár- og mjólkurframleiðslu og fari innheimta fram hjá Ríkisbókhaldi. Meginhluti iðgjaldanna mun innheimtast með þessum hætti. Lagt er til að innheimta af öðrum bændum fari fram hjá innheimtumönnum samhliða innheimtu búnaðargjalds en það mun hins vegar ekki breyta því að lífeyrissjóðurinn er eigandi kröfunnar og felur ákvæðið því ekki í sér ákvæði um skattlagningu í þágu Lífeyrissjóðs bænda.
    Miðað er við að iðgjöld hvers árs verði áætluð út frá reiknuðum launum eða launum yfirstandandi árs samkvæmt upplýsingum frá RSK, liggi þau fyrir, annars næstliðins árs. Gjalddagar eru sniðnir eftir gjalddögum beingreiðslna annars vegar og búnaðargjalds hins vegar. Þá er lagt til, í 5. mgr., að sjóðfélagi geti óskað eftir breytingu á greiðslu ef hann telur breytingu milli ára nema a.m.k. 25%, þó að lágmarki 10.000 kr.
    Í 6. mgr. er kveðið á um uppgjör iðgjalds, þegar reiknuð laun eða heildarlaun ársins liggja fyrir, hvernig skuli greiða viðbót og hvernig sjóðurinn skuli endurgreiða ofgreidd iðgjöld, svo og ákvæði um vanskil.
    Ákvæði í 7., 8., 11. og 12. mgr. eru óbreytt frá gildandi lögum.
    Kveðið er á um gjalddaga launþegaiðgjalda í 9. mgr. en í 10. mgr. er fjallað um vanskil, bæði vegna bændaiðgjalda og launþegaiðgjalda, en þessi ákvæði eru nú í gildandi reglugerð sjóðsins.
    Í síðustu málsgrein er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd þessarar lagagreinar, en í henni verður m.a. fjallað um greiðslu Lífeyrissjóðs bænda á þeim kostnaði sem af innheimtu þessari hlýst hjá ríkisskattstjóra og innheimtumönnum.
    

Um 4. gr.

    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði sem tengist skilum iðgjalda samkvæmt gildandi lögum enda mun það ekki eiga lengur við.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1984,
um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta miðar einkum að breytingum á stofni og innheimtu iðgjalda til Lífeyrissjóðs bænda. Gert er ráð fyrir að viðmiðun iðgjaldastofns verði greidd eða reiknuð laun í landbúnaði í stað verðs til framleiðanda áður, sem þykir vera orðinn óraunhæfur mælikvarði vegna breyttra aðstæðna. Þá er gert ráð fyrir að meginhluti iðgjaldanna verði innheimtur hjá Ríkisbókhaldi með afdrætti af beingreiðslum til mjólkur- og sauðfjárframleiðenda en innheimta iðgjalds af öðrum bændum fari fram hjá innheimtumönnum ríkissjóðs ásamt búnaðargjaldi. Kostnaður þessara ríkisaðila af innheimtunni liggur ekki fyrir á þessu stigi en talið er að hann verði ekki verulegur. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að fjár málaráðherra setji reglugerð þar sem meðal annars verði kveðið á um þóknanir fyrir innheimtuna. Verði frumvarpið að lögum verður framlag úr ríkissjóði til Lífeyrissjóðs bænda eftir sem áður ákvarðað með fjárlögum. Ákvæði frumvarpsins mundu því ekki leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.