Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 415 – 329. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 4. gr. laganna:
a.     Við 3. tölul. bætast tveir nýir stafliðir, f- og g-liður, sem orðast svo:
    f.    Dráttarbifreiðar, þ.e. bifreiðar sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd.
    g.    Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl. sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd yfir 5 tonn.
b.     Við a-lið 4. tölul. bætist: að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
c.     Við d-lið 4. tölul. bætist: að heildarþyngd 5 tonn eða minna.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:     
a.              Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þá eru ökutæki sem eru eingöngu knúin mengunarlausum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, undanþegin gjaldskyldu.
b.     5. tölul. 2. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Greiða skal skráðum eigendum dráttarbifreiða og vélknúinna ökutækja til sérstakra nota, sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd, sbr. 1. gr. laga þessara, og tollafgreidd voru eða gjald skyld aðvinnsla var framkvæmd á, á tímabilinu frá 22. maí 1997 og fram til gildistöku laga þessara, helming af því vörugjaldi sem greitt var af ökutækinu, enda hafi verið greitt 30% vörugjald af því. Ef skráður eigandi er eignarleigufyrirtæki skal greiðsla þó bundin því skil yrði að henni verði ráðstafað til leigutaka bifreiðar. Ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um skilyrði og fyrirkomulag endurgreiðslu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti ofl. Annars vegar er lagt til að vörugjald af dráttarbifreiðum og vélknúnum ökutækum til sérstakra nota, að heildarþyngd yfir 5 tonn, lækki úr 30% í 15% og hins vegar að ökutæki sem knúin eru mengunarlausum orkugjafa verði undanþegin gjald skyldu.
    Síðastliðið vor voru samþykkt á Alþingi lög er kváðu á um lækkun vörugjalds af ökutækjum sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga og eru yfir 5 tonn að heildarþyngd úr 30% í 15%. Er sú breyting kom til framkvæmda kom í ljós að í sumum tilvikum er illmögulegt að greina á milli slíkra ökutækja og dráttarbifreiða, svo og ýmissa ökutækja sem ætluð eru til sérstakra nota. Þannig er í sumum tilvikum unnt að breyta dráttarbifreiðum í vöruflutningabifreiðar með minni háttar breytingum á útbúnaði þeirra. Jafnframt hefur mismunandi gjaldtaka af vöruflutningabifreiðum annars vegar og dráttarbifreiðum og bifreiðum til sérstakra nota hins vegar þótt óheppileg með tilliti til samkeppnissjónarmiða. Af þessum ástæðum er lagt til að vörugjald af síðarnefndum ökutækjum, sem eru að heildarþyngd yfir 5 tonn verði lækkað úr 30% í 15%.
    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að skráðum eigendum dráttarbifreiða og ökutækja sem ætluð eru til sérstakra nota, að heildarþyngd yfir 5 tonn, sem hafa annaðhvort verið toll afgreidd eða gjaldskyld aðvinnsla hefur verið framkvæmd á, á tímabilinu frá 22. maí 1997 og fram til gildistöku frumvarpsins, verði greiddur helmingur af því vörugjaldi sem greitt var af ökutækinu, enda hafi verið greitt 30% vörugjald af því. Þessu ákvæði er ætlað að leiðrétta það misræmi sem fram kom í gjaldtöku af slíkum ökutækjum miðað við vöruflutningabifreiðar, er vörugjald af vöruflutningabifreiðum að heildarþyngd yfir 5 tonn var lækkað úr 30% í 15% síðastliðið vor.
    Í 5. tölul. 5. gr. laganna er kveðið á um heimild ráðherra til að fella niður vörugjald af ökutækjum sem knúin eru rafhreyfli og flutt eru til landsins eða framleidd hér á landi í tilrauna skyni. Lagt er til að í stað þessarar heimildar ráðherra verði kveðið skýrt á um niðurfellingu í lögunum. Þá er lagt til að niðurfellingin nái til allra ökutækja sem flutt eru inn eða framleidd hér á landi og eru eingöngu knúin mengunarlausum orkugjafa. Rafmagn og vetni eru sérstak lega tilgreind sem dæmi um slíka orkugjafa. Breyting þessi er lögð til í þeim tilgangi að hvetja til aukinnar notkunar ökutækja sem ekki gefa frá sér koltvísýring. Niðurfellingin nær sam kvæmt orðalagi ákvæðisins ekki til ökutækja sem eru knúin eru bæði mengunarlausum og mengandi orkugjafa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta snýr að breytingum á tekjum ríkissjóðs af vörugjöldum á ökutæki og er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.