Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 417 – 331. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 56/1996, um spilliefnagjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.


    Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Jafnframt er heimilt að greiða fyrir förgun annars úrgangs sem krefst sérstakrar meðhöndlunar og tengist spilli efnum sem verið er að meðhöndla, enda þjóni það markmiði laganna og dragi úr kostnaði við meðhöndlun og förgun spilliefna sem greitt hefur verið af skv. 6. gr. Þá er spilliefnanefnd heimilt að greiða fyrir förgun úrgangsefna sem blandast hafa vörum sem greitt hefur verið af skv. 6. gr., enda sé blöndunin hluti af eðlilegri notkun vörunnar.

2. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Spilliefnagjald skal lagt á neðangreinda vöruflokka:
     1.      Olíuvörur:
       a.      svartolía, allt að 0,1 kr. á hvert kg,
       b.      önnur olía en brennsluolía, allt að 20,0 kr. á hvert kg.
     2.      Lífræn leysiefni, klórbundin efnasambönd o.fl.:
       a.      lífræn leysiefni, allt að 3,0 kr. á hvert kg,
       b.      halógeneruð efnasambönd, allt að 900 kr. á hvert kg,
       c.      ósoneyðandi efni, allt að 900 kr. á hvert kg,
       d.      ísósyanöt, allt að 10,0 kr. á hvert kg.
     3.      Málning og litarefni, allt að 16,0 kr. á hvert kg.
     4.      Rafhlöður og rafgeymar:
       a.      rafhlöður, allt að 200 kr. á hvert kg, eða hámarksstykkjagjald á rafhlöður, allt að 200 kr. á hvert stykki,
       b.      rafgeymar, allt að 60 kr. á hvert kg.
     5.      Ljósmyndavörur: framköllunarvökvar og fixerar, allt að 300 kr. á hvert kg.
     6.      Plöntu- og dýrafeiti og matarolía, allt að 30 kr. á hvert kg.
     7.      Vörur sem innihalda kvikasilfur, allt að 900 kr. á hvert kg.
     8.      Ýmsar aðrar efnavörur (kemískar vörur), allt að 5,0 kr. á hvert kg.

3. gr.

    Í stað orðanna „einn mánuður“ í 2. tölul. 7. gr. laganna kemur: þrír mánuðir.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög um spilliefnagjald tóku gildi árið 1996. Spilliefnanefnd, samkvæmt ákvæðum 3. gr. laganna, hóf störf 19. september 1996 og hóf þegar undirbúning að framkvæmd laganna. Sam kvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögunum skal stefnt að því að álagningu gjalda verði komið á í áföngum og að fullu í síðasta lagi árið 2000. Spilliefnanefnd gerði tillögu að áætlun um framkvæmd álagningar á einstaka vöruflokka til umhverfisráðherra og hefur verið unnið eftir því. Búið er að leggja spilliefnagjald á lífræn leysiefni, varnarefni, ísósyanöt, olíumálningu og litarefni, rafhlöður, rafgeyma og efnavörur í ljósmynda- og prentiðnaði, sbr. reglugerð nr. 158/1997 um álagningu spilliefnagjalds með breytingum nr. 203/1997, 316/ 1997, 442/1997 og 579/1997. Unnið er að því að koma á frjálsu samkomulagi vegna kælimiðla og olíuvara, sbr. ákvæði 4. gr., á vegum hlutaðeigandi atvinnugreina.
    Spilliefni eru skilgreind í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, sbr. lista sem birtur er í viðauka með reglugerðinni. Sá listi er í samræmi við evrópskan úr gangslista. Spilliefni eru hvers kyns úrgangur sem inniheldur efni sem talin eru upp í fylgi skjali með mengunarvarnareglugerð eða er mengaður af þeim í slíku magni eða af slíkum styrkleika að það stofni heilsu manna eða umhverfi í hættu. Spilliefni eru alvarlegasti meng unarvaldurinn í landinu nú um stundir. Þessum efnum er því miður oft fargað á óviðunandi hátt og er þeim t.d. hent með almennu sorpi eða hellt niður um niðurföll.
    Markmið laga um spilliefnagjald er að koma í veg fyrir mengun af völdum spilliefna með því að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, meðhöndlun og viðunandi endurnýtingu eða eyð ingu þeirra. Með setningu laganna 23. maí 1996 var lagður grunnur að skipulegri söfnun spilliefna um land allt og bættum skilum þeirra til móttökustöðva. Frá því að lögin öðluðust gildi eru merkjanleg aukin skil spilliefna. Til þess að standa straum af kostnaði við söfnun, móttöku, meðhöndlun, endurnýtingu eða eyðingu spilliefna er í lögunum kveðið á um að heim ilt sé að leggja sérstakt gjald, spilliefnagjald, á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Um er að ræða þjónustugjald til að standa undir þeim kostnaði sem leiðir af meðhöndlun spilliefna. Álagning spilliefnagjalds byggir á mengunarbótareglunni. Sá sem notar vörur sem verða að spilliefnum greiðir fyrir förgun og eyðingu spilliefna. Fyrir gildistöku laga um spilliefnagjald, nr. 56/1996, var mengunarbótareglan sums staðar í gildi. Þeim sem höfðu spilliefni undir höndum bar að skila þeim og sveitarfélögum og fyrirtækjum bar að greiða beint fyrir förgun. Þetta kerfi virkaði letjandi. Með tilkomu spilliefnagjalds er tryggt fjármagn til söfnunar, flutnings og förgunar eða endurnýtingar þessa úrgangs. Spilliefnagjald er lagt á vörur sem geta orðið að spilliefnum við innflutning eða við framleiðslu ef um innlenda framleiðslu er að ræða. Þegar spilliefnum er skilað til móttökustöðvar þarf sá sem skilar efnunum ekki að greiða fyrir þau, enda hafi spilliefnagjald verið lagt á viðkomandi vöru á fyrri stigum.
    Við framkvæmd laganna hefur komið fram að hámark gjaldsins sem kveðið er á um í lög unum er ekki í öllum tilvikum nægjanlegt og því er í frumvarpi þessu lagt til að breytt verði ákvæðum um hámark gjaldsins og það hækkað fyrir tiltekna vöruflokka. Hér má nefna að spilliefnagjald hefur verið lagt á málningu og leysiefni. Hámarkið í lögunum er of lágt og því nægir álagt gjald einungis til þess að greiða hluta af kostnaði sem til fellur, þannig að þeir sem skila þessum efnum bera enn beinan kostnað af því að skila þeim til móttökustöðvar. Jafnframt eru í frumvarpi þessu lagt til að spilliefnanefnd sé heimilt að greiða fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs sem krefst sérstakrar meðhöndlunar og tengist viðkomandi spilliefnum enda dregur það úr kostnaði við meðhöndlun og förgun spilliefna. Hér má nefna sem dæmi vatnsmálningu og brúnsteinsrafhlöður. Eftir að spilliefnagjald er komið að fullu til framkvæmda á olíumálningu þarf ekkert að greiða við skil á henni til móttökustöðvar. Hins vegar þarf að greiða, miðað við óbreytt lög, gjald við skil á vatnsmálningu. Þetta getur leitt til þess að freistandi sé að blanda vatnsmálningu saman við olíumálningu til þess að komast hjá greiðslu. Slíkt yrði kostnaðarsamari framkvæmd í heild. Því er lagt til að gjald á olíumálningu beri einnig uppi förgunarkostnað við vatnsmálningu. Rafhlöður berast óflokkaðar til móttökustöðvar. Brúnsteinsrafhlöður geta hins vegar farið í ódýrari förgun en aðrar rafhlöður sem eru mun meira mengandi. Þetta þýðir að flokkun verður að fara fram áður en gjaldtaka fyrir brúnsteinsrafhlöður fer fram og reikningur er sendur eftir á. Þetta er ómark vissara og dýrara í framkvæmd. Því er framangreind breyting lögð til. Sama á við um ýmis úrgangsefni sem blandast spilliefnum. Þannig er lagt til að spilliefnanefnd sé heimilt að greiða fyrir meðhöndlun, urðun og eyðingu efna sem ekki teljast til spilliefna en blandast við þau. Hér má nefna ýmis ísogsefni, svo sem tvist, textíl og sag, enda séu þessi efni hluti af eðlilegri notkun vörunnar. Loks eru lagðar til breytingar á uppgjörstímabili vegna innlendrar framleiðslu úr einum mánuði í þrjá mánuði þar sem einn mánuður er óeðlilega stutt tímabil.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilt verði að greiða förgun annars úrgangs sem krefst sérstakrar meðhöndlunar og tengist spilliefnum sem verið er að meðhöndla, enda þjóni það markmiði laganna og dragi úr kostnaði við meðhöndlun og förgun spilliefna sem greitt hefur verið af. Jafnframt er lagt til að spilliefnanefnd sé heimilt að greiða fyrir förgun úrgangsefna sem blandast spilliefnum við notkun. Þetta er lagt til þannig að skýrt sé að heimilt er að greiða fyrir meðhöndlun ýmissa úrgangsefna sem blandast hafa spilliefnum við notkun, svo sem olíuborinn tvistur. Sérstaklega er bent á að hér er einungis átt við úrgang sem blandast hefur spilliefnum við eðlilega notkun eða starfsemi. Ekki er gert ráð fyrir að lögin nái yfir meðhöndlun og förgun á olíumenguðum jarðvegi, né heldur að tekið sé á atvikum sem orsakast af slysum eða vangá.

Um 2. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á 2. mgr. 6. gr. laganna. Lagt er til að hámark spilliefnagjalds sem heimilt er að leggja á olíuvörur, þ.e. aðra olíu en brennsluolíu, verði allt að 20,0 kr. á hvert kg. Lagt er til að á lífræn leysiefni verði heimilt að leggja allt að 3,0 kr. á hvert kg og á ísósyanöt allt að 10,0 kr. á hvert kg. Þá er gerð tillaga um að hámark vegna málningar og litarefna verði hækkað í allt að 16,0 kr. á hvert kg. Varðandi rafhlöður er bætt inn heimild til að leggja stykkjagjald á rafhlöður, en hér er t.d. um að ræða hnapparafhlöður. Lagt er til að stykkjagjald á rafhlöður geti numið allt að 200 kr. á hvert stykki. Þá er lagt til að bætt verði inn nýjum vöruflokkum sem leggja skal spilliefnagjald á, plöntu- og dýrafeiti og matarolíu og vörur sem innihalda kvikasilfur. Á plöntu- og dýrafeiti og matarolíu er lagt til að heimilt verði að leggja allt að 30 kr. á hvert kg. Á vörur sem innihalda kvikasilfur er lagt til að heimilt verði að leggja allt að 900 kr. á hvert kg. Hér er t.d. átt við flúrljósarör, vörur notaðar á rannsóknastofum og ýmis mælitæki.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að uppgjörstímabil vegna innlendrar framleiðslu verði þrír mánuður í stað eins. Spilliefnagjald af innlendum framleiðsluvörum reiknast við sölu gjaldskyldrar vöru frá framleiðanda og skiptir þá ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram. Spilliefnagjaldi af innlendri framleiðslu ásamt framleiðsluskýrslu í því formi sem spilliefnanefnd ákveður skal skila eigi síðar en á gjalddaga sem er fimmtándi dagur næsta
mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna sölu á því tímabili. Skila þarf skýrslu, sbr. framan greint, og telur spilliefnanefnd ekki nauðsynlegt að hafa uppgjörstímabilið jafnstutt og gildandi lög gera ráð fyrir, enda er verulegt óhagræði samfara því. Benda má á það til saman burðar að uppgjörstímabil fyrir virðisaukaskatt er tveir mánuðir en skv. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjármálaráðherra heimilt að kveða á um lengra uppgjörs tímabil ef virðisaukaskattsskyld velta skráningarskyldra aðila er undir tiltekinni fjárhæð.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu
á lögum nr. 56/1996, um spilliefnagjald.

    Í frumvarpinu er lögð til hækkun á hámarki spilliefnagjalds í nokkrum vöruflokkum. Að mati spilliefnanefndar getur þessi breyting leitt til allt að 85 m.kr. hækkunar tekna og að þær verði alls um 160 m.kr. Breytingin hefur samsvarandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs þar sem grunn forsenda laganna er að spilliefnagjald standi undir kostnaði af framkvæmd laganna. Af framangreindri tekjuhækkun eru þegar áætlaðar um 21 m.kr. í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1998 og samsvarandi útgjöld.