Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 418 – 332. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.


    Í stað orðsins „umhverfisvernd“ í 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: hverfisvernd.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
a.      Í stað orðsins „sveitarstjórnar“ í 1. mgr. kemur: sveitarstjórna.
b.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
              Ráðherra getur, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, frestað staðfestingu á svæðis skipulagi fyrir ákveðið landsvæði ef nauðsyn þykir til að samræma skipulagsáætlanir að liggjandi sveitarfélaga. Slík svæði skal auðkenna á uppdrætti.

3. gr.

    5. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Að afloknum sveitarstjórnarkosningum metur sveitarstjórn hvort ástæða sé til að endur skoða aðalskipulagið. Um málsmeðferð á endurskoðaðri áætlun fer sem um gerð nýs aðal skipulags væri að ræða.

4. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna orðast svo: Undanþegin byggingarleyfi eru götur, holræsi, vegir og brýr, aðrar en göngubrýr í þéttbýli, jarðgöng, flugbrautir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, svo og hafnir og virkjanir, enda eru þær fram kvæmdar á vegum opinberra aðila eða unnar samkvæmt sérlögum.

5. gr.

    5. mgr. 39. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
a.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Byggingarfulltrúa er heimilt á kostnað byggjanda að krefjast sérstakra eftirlitsmanna þegar um byggingu meiri háttar mannvirkja er að ræða.
b.      1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Byggingarfulltrúa er heimilt á kostnað byggjanda að krefjast álagsprófunar á mannvirki til staðfestingar burðarþoli og virknisprófun lagnakerfa eftir að það hefur verið reist.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
a.      1. mgr. orðast svo:
              Rétt til að leggja fram uppdrætti vegna byggingarleyfis hafa þeir sem til þess hafa hlotið löggildingu ráðherra.
b.      Lokamálsliður 5. mgr. orðast svo: Ráðherra leitar umsagnar viðkomandi fagfélags og prófnefndar áður en löggilding er veitt.

8. gr.

    53. gr. laganna orðast svo:

Framkvæmda- og byggingarleyfisgjöld.


    Sveitarstjórnum er heimilt að innheimta gjöld fyrir leyfi til framkvæmda, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, sbr. 27. gr., og fyrir leyfi til að reisa, stækka eða breyta bygg ingarmannvirkjum, sbr. 43. gr. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjöld fyrir útmælingu, eftirlit, úttektir og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té. Gjöld þessi mega ekki nema hærri upphæð en sem nemur kostnaði við útgáfu leyfa, útmælingu, eftirlit og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té.

9. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 55. gr. laganna orðast svo: Sveitarstjórnir ákveða gjalddaga framkvæmda leyfis-, byggingarleyfis- og bílastæðagjalda og hvernig þau skuli innheimt.

10. gr.

    1. mgr. 56. gr. laganna orðast svo:
    Ef framkvæmd, sem fellur undir 27. gr. eða undir IV. kafla laga þessara, er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, hún byggð á annan hátt en leyfi stendur til eða ef bygging er tekin til annarra nota en sveitarstjórn hefur heimilað getur skipulagsfulltrúi/byggingarfulltrúi stöðv að slíkar framkvæmdir tafarlaust. Sé um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd að ræða leitar skipulagsfulltrúi staðfestingar sveitarstjórnar. Sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða leitar byggingarfulltrúi staðfestingar byggingarnefndar svo fljótt sem við verður komið.

11. gr.

    Síðari málsliður 2. mgr. 59. gr. laganna orðast svo: Áður en ráðherra tekur ákvörðun um sviptingu viðurkenningar skal hann leita umsagnar byggingarnefndar viðkomandi sveitar félags og Samtaka iðnaðarins og gefa iðnmeistara kost á að tjá sig.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
a.      1. tölul. orðast svo: Skipulagsreglugerð skv. 10. gr. og byggingarreglugerð skv. 37. gr. skulu settar eins fljótt og við verður komið. Þangað til halda núverandi skipulagsreglugerð og byggingarreglugerð gildi sínu að svo miklu leyti sem þær stangast ekki á við lögin.
b.      Við bætist nýr töluliður er orðast svo: Samvinnunefndir um svæðisskipulag sem eru að störfum við gildistöku laganna skulu starfa áfram en um málsmeðferð fer samkvæmt þess um lögum.

13. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, sem Alþingi samþykkti sl. vor og forseti Íslands staðfesti með samþykki sínu 28. maí 1997 öðlast gildi 1. janúar 1998. Hér er um að ræða stór an málaflokk þar sem tekið er á veigamiklum þáttum er snerta umhverfismál og stjórnun á því sviði. Lögin koma í stað tvennra laga, annars vegar skipulagslaga, nr. 19/1964, með síðari breytingum, og hins vegar byggingarlaga, nr. 54/1978, með síðari breytingum. Lögin voru lengi í smíðum og frumvarp til sameiginlegra skipulags- og byggingarlaga var lagt fram nokkr um sinnum á Alþingi á árunum 1988–96. Í lögunum er gert ráð fyrir sjö mánaða gildis tökufresti til undirbúnings enda hafa lögin að geyma mörg nýmæli. Á vegum umhverfisráðu neytisins, skipulagsstjóra ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið unnið að því að undanförnu að undirbúa framkvæmd laganna, m.a. með gerð nýrrar skipulagsreglugerð ar og byggingarreglugerðar og annarra reglugerða sem nauðsynlegt er að setja vegna breyt inga sem lögin kveða á um. Hafa verið haldnir kynningarfundir með sveitarstjórnum, bygg ingarfulltrúum og öðrum tæknimönnum sveitarfélaganna í samráði við hlutaðeigandi lands hlutasamtök. Komið hefur í ljós við vinnu á vegum ráðuneytisins, skipulagsstjóra ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og á fundum með fulltrúum sveitarfélaganna að lagfæra þarf nokkur atriði laganna áður en þau öðlast gildi 1. janúar nk. Snerta lagfæringar fyrst og fremst stjórnun innan málaflokksins, svo sem um valdsvið byggingarnefnda gagnvart sveit arfélögunum og jafnframt um heimildir sveitarfélaganna til gjaldtöku fyrir veitta þjónustu. Þar að auki hafa slæðst inn í lögin villur sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Er gerð nánari grein fyrir einstökum þáttum í athugasemdum við einstaka greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 3. mgr. 10. gr. laganna, þar sem fjallað er um þau atriði sem fram skulu koma í skipulags reglugerð, kemur fyrir orðið „umhverfisvernd“. Hér er um misritun að ræða og á að vera „hverfisvernd“.

Um 2. gr.


     Um a-lið:
    Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að svæðisskipulag skuli gert að frumkvæði viðkom andi sveitarstjórnar. Svæðisskipulag getur aldrei verið verkefni einnar sveitarstjórnar heldur tveggja eða fleiri enda um að ræða skipulag tveggja sveitarfélaga eða fleiri.
     Um b-lið:
    Ekki er gert ráð þeim möguleika í lögunum að hægt sé að fresta staðfestingu á svæðisskipu lagi eins og þegar um aðalskipulag er að ræða, sbr. 2. mgr. 20. gr. Því er lagt til að sama regla gildi um frestun svæðisskipulags.

Um 3. gr.


    Í 5. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að aðalskipulag skuli endurskoða á fjögurra ára fresti, að afloknum sveitarstjórnarkosningum, og fari um málsmeðferð eins og um nýtt aðalskipulag sé að ræða. Ekki er ástæða til þess að fyrirskipa málsmeðferð, þ.e. kynningu nýs aðal skipulags, ef ekki er talin ástæða til að breyta aðalskipulagi. Nýtt orðalag á þessari málsgrein, um að meta skuli hvort ástæða sé til endurskoðunar, er skýrara í þessum efnum.

Um 4. gr.


    Skv. 2. mgr. 36. gr. laganna eru brýr undanþegnar byggingarleyfi. Eðlilegt þykir að göngu brýr í þéttbýli verði byggingarleyfisskyldar og lúti sömu reglum og mannvirki almennt, enda er hér ekki um akbrautir í skilningi vegalaga að ræða eins og gildir um aðrar brýr sem þess vegna eru undanþegnar byggingarleyfi. Þá er einnig talið eðlilegt að holræsi séu undanþegin byggingarleyfum.

Um 5. gr.


    Í 5. mgr. 39. gr. laganna er gert ráð fyrir því að hægt sé að vísa ágreiningi milli byggingar nefndar og sveitarstjórnar um afgreiðslu máls til umhverfisráðherra til úrskurðar. Samkvæmt lögunum er byggingarnefndum ekki fengið sjálfstætt vald gagnvart sveitarstjórnum, en skv. 2. mgr. 3. gr. annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og þær fjalla um leyfisumsóknir, veita byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi og annast byggingareftirlit með atbeina kjörinna nefnda og sérhæfðra starfsmanna.
    Byggingarnefndir heyra því eftir sem áður undir sveitarstjórnir.

Um 6. gr.


    Gjaldtökuheimildir vantar í 4. og 5. mgr. 42. gr. laganna í tengslum við kostnað við sérstak ar úttektir og eftirlit. Ljóst er að engar slíkar úttektir verða gerðar eða eftirlit framkvæmt nema eigandi mannvirkis beri kostnað af því. Því er lagt til að inn í 4. og 5. mgr. 42. gr. verði skotið ákvæðum um að sérstakar úttektir og eftirlit skuli gera á kostnað byggjanda.

Um 7. gr.


     Um a-lið:
    Í 1. mgr. 48. gr. laganna kemur fram að rétt til að leggja fram uppdrætti vegna byggingar- eða framkvæmdaleyfis hafi þeir sem til þess hafa hlotið löggildingu ráðherra. Er eingöngu ástæða til að fjalla um uppdrætti vegna byggingarleyfis en ekki framkvæmdaleyfis enda um gjörólíka þætti að ræða, sbr. annars vegar 27. gr. um framkvæmdaleyfi og hins vegar 23. gr. um byggingarleyfi og 44. gr. um útgáfu byggingarleyfis. Er því lagt til að orðið „framkvæmda leyfi“ verði fellt brott.
     Um b-lið:
    Rétt er að ráðherra leiti einnig umsagnar prófanefndar áður en löggilding er veitt.

Um 8. og 9. gr.


    Gjaldheimtuheimild vegna framkvæmdaleyfa skortir í 53. gr. laganna. Nauðsynlegt er að sveitarfélögin geti innheimt framkvæmdaleyfisgjöld með sama hætti og byggingarleyfis gjöld og er því lagt til að í 53. gr. og 55. gr. verði bætt ákvæðum er heimili slíkt.

Um 10. gr.


    Í 56. gr. laganna, þar sem fjallað er um framkvæmdir sem brjóta í bága við skipulag eða eru án leyfis, eru engin ákvæði um þvingunarúrræði liggi ekki fyrir framkvæmdaleyfi þar sem það á við, sbr. 27. gr. Því er nauðsynlegt að skjóta inn í 1. mgr. 56. gr. ákvæði er tekur á því ef ekki liggur fyrir framkvæmdaleyfi með sama hætti og ef um byggingarframkvæmd, sem fellur undir IV. kafla laganna, er að ræða.

Um 11. gr.


    Í 2. mgr. 52. gr. laganna segir m.a. að Samtök iðnaðarins skuli fjalla um leyfisveitingar til iðnmeistara. Sambærilegt ákvæði er ekki um sviptingu leyfa til iðnmeistara og er lagt til að ráðherra leiti umsagnar samtakanna í slíkum tilvikum.

Um 12. gr.


     Um a-lið:
    Í 1. tölul. ákvæðis til bráðabrigða í lögunum er gert ráð fyrir því að skipulagsreglugerð skv. 10. gr. og byggingarreglugerð skv. 37. gr. öðlist gildi um leið og lögin eða 1. janúar 1998. Komið hefur í ljós að ógjörningur er að ganga frá reglugerðunum á jafnstuttum tíma og raun ber vitni enda um að ræða stórar og viðamiklar reglugerðir. Því er lagt til að núverandi reglugerðir haldi gildi sínu að svo miklu leyti sem þær fara ekki í bága við lögin þar til nýjar reglugerðir hafa verið settar. Lögð verður áhersla á að reglugerðirnar komi út eftir rækilegan undirbúning og kynningu á miðju næsta ári.
     Um b-lið:
    Starfandi eru nokkrar samvinnunefndir um svæðisskipulag, svo sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins og samvinnunefnd um svæðisskipulag Skagafjarðar. Til þess að taka af allan vafa er lagt til að þessar nefndir starfi áfram eins og verið hefur en að um máls meðferð bæði innan nefndanna og þegar kemur að umfjöllun um tillögur þeirra fari samkvæmt lögunum.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.


    Frumvarpið felur í sér lagfæringar og smærri breytingar á lögunum og lúta þær m.a. að stjórn innan málaflokksins, gjaldtökuheimildum í tengslum við ýmsan kostnað, t.d. við sér stakar úttektir og eftirlit. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er það mat fjármálaráðuneytis að það muni ekki leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.