Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 428 – 339. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 79 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

    (Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Á 5. gr. laganna verða eftirgreindar breytingar:
1.      Fjórði töluliður 1. mgr. orðast svo: Siglunes (grp. 3) 66°11'9 N–18°49'9 V“.
2.      Í stað orðanna: „austur frá Hvítingum (vms. 19)“ í síðari málsgrein liðar C.5 kemur: suður frá Stokksnesi (vms. 20).
3.      Á eftir orðinu: „Geirfugladrangi“ í lið D.2 kemur: (63°40'7 N–23°17'1 V).
4.      Í stað orðanna: „réttvísandi suður frá Reykjanesaukavita (vms. 34)“ í lið D.5 kemur: réttvísandi suðvestur frá Reykjanesaukavita (vms. 34).
5.      Síðari málsgrein liðar D.6 fellur brott.
6.      Liður E.1 orðast svo: Allt árið úr punkti í 5 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Geirfugladrangi og utan línu í 5 sjómílna fjarlægð frá Geirfugladrangi í punkt 64°43'70 N–24°12'00 V.
7.      Í stað orðanna: „réttvísandi frá Malarrifi“ í lið F.3 kemur: réttvísandi vestur frá Malarrifi.
8.      Á undan orðunum: „Allt árið“ í lið G. Vestfirðir kemur: G.1.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í maí 1997 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sem koma til framkvæmda 1. janúar 1998. Þau lög koma í stað laga nr. 81/1976. Í 5. gr. laganna eru tilgreind þau veiðisvæði þar sem togveiðar eru heimilar en við frágang á þeirri grein urðu nokkrar misfellur sem nauðsynlegt er að bæta úr. Hér er fremur um að ræða lagfæringar en efnislegar breytingar og þarfnast þær ekki sérstakra skýringa. Þó má segja að í 2. og 5. tölul. felist efnislegar breytingar á lögunum sem rétt er að gera nánari grein fyrir:
    Í síðari málsgrein liðar C.5 í 5. gr. urðu þau mistök að í stað Stokksness var miðað við Hvítinga. Með þessu stækkaði friðaða svæðið, þar sem togveiðar eru bannaðar hluta úr ári, verulega til austurs. Ekki stóð til að gera slíka breytingu með lögum nr. 79/1997 og var hér einfaldlega um mistök í prentun að ræða. Er því lagt til að friðunarsvæðinu verði komið í það horf sem að var stefnt og það hefur verið í um langt skeið.
    Í 5. tölul. 1. gr. er lagt til að fellt verði úr gildi lögbundið bann við öllum veiðum milli meginlandsins og Vestmannaeyja og við sæsímastrenginn sem liggur frá Vestmannaeyjum til útlanda. Ástæða þess að þetta er lagt til er sú að við umfjöllun um frumvarp til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands á síðasta vori kom fram tillaga um að slík veiðibönn til varnar strengjum væru ekki lögbundin heldur yrðu þau ákveðin með reglugerðum hverju sinni. Því var sú breyting gerð á frumvarpinu að ráðherra var heimilað að banna notkun allra eða tiltekinna gerða veiðarfæra á svæðum þar sem hætta var á að þau yllu skemmdum á neðansjávarstrengjum eða vatnslögnum. Hins vegar láðist að fella úr frumvarpinu ákvæði um lögbundið bann við veiðum á tilteknum svæðum milli meginlandsins og Vestmannaeyja. Ástæða þess að æskilegt þótti að gera slíka breytingu var fyrst og fremst sú að slíkir strengir eru færðir úr stað jafnframt því sem nýir eru lagðir. Þykir því eðlilegra að gefnar verði út reglugerðir til varnar slíkum strengjum á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laganna. Auk þess má benda á að með því móti sættu brot ekki viðurlögum sem fiskveiðilagabrot heldur viðurlögum skv. 17. gr. laganna. Er því lagt til að lögbundið bann við veiðum milli lands og Eyja verði fellt úr gildi en hins vegar gert ráð fyrir að kveðið verði á um slíkt bann í reglugerð.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/1997,
um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nokkrar lagfæringar á skilgreiningu landhelginnar. Kostnaðarauki ríkissjóðs verður enginn af þeim sökum.