Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 441 – 55. mál.

         

Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1997.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs komust fulltrúar minni hlutans að þeirri niðurstöðu að tekjur ríkissjóðs væru vanáætlaðar um 1–2 milljarða kr. miðað við þær þjóðhagsforsendur sem fjárlagafrumvarpið byggðist á. Þá dró minni hlutinn í efa réttmæti þeirra forsendna og taldi þær ekki í neinu samræmi við þau umsvif og væntingar sem greina mátti í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Niðurstaðan samkvæmt þessu frumvarpi til fjáraukalaga er að tekj urnar voru vanáætlaðar um 4,7 milljarða kr.
    Minni hlutinn gagnrýndi harðlega ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og meiri hluta Alþingis á gjaldahlið fjárlaga 1997 og þá sérstaklega handahófskennd vinnubrögð við fjár veitingar og niðurskurð í heilbrigðismálum. Það var deginum ljósara að afgreiðsla fjárlaga frumvarpsins jók aðeins vandann í heilbrigðiskerfinu og öll varnaðarorð minni hlutans í þeim efnum hafa reynst rétt. Sparnaðarhugmyndir voru fullkomlega óraunhæfar og að mestu óút færðar eins og niðurstöður þessa frumvarps sýna þar sem tillögur þess og breytingartillögur meiri hlutans nema nær 2 milljörðum kr. sem veita á til hinna ýmsu liða innan heilbrigðis kerfisins. Og enn er stór hluti vandans óleystur.
    Þetta frumvarp sýnir því og sannar að ekkert var ofsagt í nefndaráliti og ræðum fulltrúa minni hluta fjárlaganefndar við afgreiðslu fjárlaga. Niðurstöður minni hlutans reyndust nær sanni en niðurstöður meiri hlutans og er það ekki í fyrsta sinn.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs nemi 4,7 milljörðum kr. umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir og verði þannig 130,9 milljarðar kr. Niðurstaðan er að allir tekjustofnar aðrir en vaxtatekjur skila tekjum umfram áætlun, en sérstaka athygli vekur góð afkoma fyrirtækja sem skilar sér í auknum tekjusköttum þeirra.
    Samkvæmt frumvarpinu aukast þó gjöldin enn meira en tekjurnar, og breytingartillögur meiri hlutans við gjaldahlið þess nema 949,2 millj. kr. Að þeim samþykktum verður því niðurstaða fjárlagadæmisins halli upp á tæpa 2 milljarða kr. í stað 124,3 millj. kr. tekju afgangs sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Eins og fram kemur í greinargerð skipta þar mestu áhrif vegna sérstakrar innköllunar spariskírteina sem ákveðin var á árinu. Sú ráðstöfun mun hafa í för með sér lægri vaxtagjöld í framtíðinni og verður hún því að teljast skynsamleg til lengri tíma litið. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að markmiðið um hallalaus fjárlög næst ekki á þessu ári sem margir vilja kenna við góðæri.
    Minni hlutinn hefur ýmislegt við þessi útgjöld að athuga og ekki síst hvernig þau eru ákveðin. Í flestum tilvikum eru þær ákvarðanir teknar við ríkisstjórnarborðið og ekki beðið eftir samþykki Alþingis án þess að séð verði að það hefði ekki verið gerlegt. Fjárveitinga valdið er hjá Alþingi, en framkvæmdarvaldið hefur heimild til að ráðstafa fé ef sérstaklega stendur á. Þar getur verið um óviðráðanlegar orsakir að ræða, svo sem náttúruhamfarir eða önnur ófyrirsjáanleg tilvik. Ráðherrum ber tvímælalaust að fara sparlega með heimildir til aukafjárveitinga. Reyndin er talsvert önnur eins og margsinnis hefur verið gagnrýnt og um það má nefna mörg dæmi í frumvarpinu.
    Fjárlaganefnd hefur rætt við ráðuneyti og stofnanir og leitað upplýsinga um stöðu stofn ana og verkefna. Á sumu er tekið í breytingartillögum meiri hlutans en öðru ekki. Minni hlut inn gagnrýnir m.a. að of lítið er tekið á vanda framhaldsskólanna sem í nokkrum tilvikum er verulegur. Framhaldsskólarnir hafa undanfarin ár mátt sæta miklum flötum niðurskurði, sem þeir hafa átt misjafnlega erfitt með að ráða við, og nú blasir við sú staðreynd að uppsafnaður halli framhaldsskólanna er orðinn vel á annað hundrað milljónir króna. Slíkur aðbúnaður er ekki í samræmi við hástemmdar yfirlýsingar um nauðsyn þess að búa vel að menntun til framtíðar.
    Enn sem fyrr er þó stærstur vandinn í heilbrigðiskerfinu. Eftir margra ára sífelldar kröfur yfirvalda um hagræðingu og sparnað er vandinn orðinn slíkur í flestum greinum heilbrigðis þjónustunnar að ekkert minna en stórátak dugir til úrlausnar. Svo hart hefur verið gengið fram að varla fyrirfinnst lengur nokkur heilbrigðisstofnun sem nær því að vera innan ramma fjárlaga og segir sig sjálft að við svo búið má ekki standa. Fyrir liggur að uppsafnaður halli þriggja stærstu sjúkrahúsanna í landinu er samtals um 800 millj. kr. í lok þessa árs. Að auki eru flest hin sjúkrahúsanna með einhvern halla, allt frá 4 upp í 18 millj. kr. sem er að sjálfsögðu mjög erfið staða hjá minni stofnunum. Þá er ekki minna áhyggjuefni að viðhald húsa og endurnýjun tækja hefur lengi setið á hakanum. Ástandið í þeim efnum fer sífellt versnandi, og verður afar kostnaðarsamt að taka á þeim vanda. Sem dæmi má nefna Sjúkra hús Reykjavíkur sem er að verða háskalega illa farið þar sem viðhald hefur skort. Áætlaður kostnaður vegna viðgerða utan húss er nær 400 millj. kr., en viðhald innan húss mun nema enn hærri upphæðum. Þannig mætti rekja fleiri dæmi því að víðast hvar blasir þörfin við og sums staðar er húsakosturinn í raun ekki boðlegur, hvorki sjúklingum né starfsfólki. Langvarandi sparnaður í viðhaldi er óskynsamlegur og kemur fram í auknum kostnaði þegar til lengdar lætur. Minni hlutinn telur að gera þurfi áætlun til nokkurra ára um viðhald heilbrigðisstofnana og endurnýjun tækjakosts svo að þessar stofnanir grotni ekki niður í hirðuleysi.
    Meiri hlutinn hefur ekki fallist á frekari fjárveitingar til stærstu sjúkrahúsanna en fram koma í frumvarpinu þrátt fyrir augljósa þörf og mikinn rekstrarvanda. Hins vegar er ætlunin að verja 200 millj. kr. til þess að taka á vanda sjúkrahúsanna á landsbyggðinni, en þeirra á meðal er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem er komið með 84 millj. kr. halla í lok þessa árs. Er þar um nýjan vanda að ræða þar sem FSA hefur allt þar til á síðasta ári tekist að halda sig innan ramma fjárlaga. Tæmandi upplýsingar liggja ekki fyrir um stöðu sjúkra húsanna utan Reykjavíkur, en reynt verður að afla þeirra fyrir 3. umræðu og meta hvort áætlað framlag dugi til að mæta vanda þeirra. Rekstrarhalli Ríkisspítalanna er kominn upp í 385 millj. kr. í lok þessa árs og halli Sjúkrahúss Reykjavíkur nemur 322 millj. kr. í árslok. Þessar hallatölur eru raunverulegar og ekki tilkomnar vegna óráðsíu. Það er almennt viður kennt að starfsfólk sjúkrahúsanna hefur lagt hart að sér og náð miklum árangri við erfiðar aðstæður á undanförnum 5–10 árum. Göngudeildarþjónusta hefur verið efld, aðgerðum hefur fjölgað, legutími styst, hjúkrunarþyngd aukist, sjúklingum fjölgað á hvern starfsmann og lyfjakostnaður sjúkrahúsa lækkað. Þennan árangur ber að viðurkenna og horfast í augu við að lengra verður ekki gengið án þess að illa bitni á þeim er síst skyldi, þ.e. sjúklingunum sjálfum. Minni hlutinn telur óhjákvæmilegt að fjárþörf vegna hallareksturs þriggja stærstu sjúkrastofnananna í landinu verði mætt að fullu svo að þær geti byrjað nýtt ár með hreint borð.
    Minni hlutinn leggur því fram nú við 2. umræðu breytingartillögur um framlög til Fjórð ungssjúkrahússins á Akureyri, Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna. Minni hlutinn áskilur sér einnig rétt til að styðja einstakar tillögur meiri hlutans til breytinga en situr að öðru leyti hjá við afgreiðslu frumvarpsins.

Alþingi, 9. des. 1997.



Kristín Halldórsdóttir,


frsm.


Gísli S. Einarsson.



Kristinn H. Gunnarsson.




Sigríður Jóhannesdóttir.