Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 469 – 1. mál.



Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Í fjárlögum hvers árs birtist stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og vegna stærðar og umfangs fjárlaganna hafa þau víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Með fjárlögum leggur ríkisstjórnin meginlínur í efnahagsstjórn sem ráða miklu um fjárfestingu, verðbólgu, vaxtastig, viðskiptajöfnuð og gengi. Allt eru þetta þættir sem miklu máli skipta um afkomu almennings, svo að ekki sé talað um skattlagningu og mikilvæga þjónustu sem ríkið hefur með höndum. Ríkisstjórn sem tekur hlutverk sitt alvarlega gætir þess í góðæri að safna fé til mögru áranna og það hefur ætíð þótt óskynsamlegt að ráðstafa öllu aflafé jafnóðum og það fellur til. Alvarlegasta meinsemd frumvarpsins er skortur á samfelldri og ábyrgri fjármála stjórn, enda hrannast upp óveðursblikur og óróleikamerki í íslensku efnahagslífi.

Þjóðhagshorfur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.
    Efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins byggjast á þjóðhagsáætlun fyrir árið 1998. Þann ig er áætlað að hagvöxtur verði um 3,5% á árinu 1998 eða um einu prósentustigi minni en spár fyrir þetta ár gera ráð fyrir. Til samanburðar er spáð 2,9% hagvexti í iðnríkjunum á næsta ári.
    Ýmis teikn eru á lofti um að þensla sé að myndast í efnahagslífinu. Í inngangi að þjóð hagsáætlun fyrir árið 1998 stendur orðrétt:
    „Þegar horft er fram á við eru brýnustu verkefnin í efnahagsmálum tvíþætt. Annars vegar þarf að gæta þess að þensla myndist ekki því ef svo færi yrði stöðugleikanum stofnað í hættu. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að margt bendir til að vöxtur efnahagsstarfseminnar um þessar mundir sé nálægt þeim mörkum sem samrýmast viðunandi verðlagsþróun. Hins vegar þarf að efla þjóðhagslegan sparnað með það að markmiði að nokkur afgangur verði á viðskiptajöfnuði þegar yfirstandandi fjárfestingum í stóriðju lýkur.“
    Samsvarandi viðvörunarorð er að finna í nýlegri haustskýrslu Seðlabankans. Þar segir:
    „Við þær aðstæður sem nú ríkja í íslenskum þjóðarbúskap er ofþensluhættan meiri en samdráttarhættan.“
    Þenslumerki má sjá víða, m.a. í peningastærðum, þróun viðskiptajöfnuðar og vaxandi spennu á vinnumarkaði. Alvarlegast er þó að verðbólgan virðist vera að taka sig upp á nýjan leik hér á landi. Þannig bendir nú allt til þess að hækkun vísitölu neysluverðs verði um eða yfir 3% milli áranna 1998 og 1997 samanborið við 2% milli 1997 og 1996.
    Við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðarbúskapnum gegna aðgerðir stjórnvalda lykilhlut verki í að halda aftur af þeirri miklu aukningu sem orðið hefur í eftirspurn og almennum um svifum efnahagslífsins. Aðhald í útgjöldum ríkissjóðs er grundvallarforsenda þess að árangur náist í því að minnka viðskiptahallann og þar með skuldasöfnun þjóðarbúsins. Ríkisfjármála stefnan þarf einnig að vera í takt við peningamálastefnuna til að árangur náist. Ef þess er ekki gætt er hætt við að víkja þurfi til hliðar markmiðinu um litla verðbólgu og gengisstöð ugleika til að bæta viðskiptahalla og styrkja stöðu atvinnuveganna.
    Fjárlagafrumvarp það sem hér liggur fyrir og aðgerðir undanfarinna mánaða sýna glöggt það stefnuleysi sem ríkir í málefnum ríkissjóðs. Þannig hefur ekki tekist að skila ríkissjóði með viðunandi afgangi eins og nauðsynlegt er við núverandi aðstæður, m.a. til að vega upp á móti þensluáhrifum vegna kjarasamninga og skattalækkana. Ljóst er að tekjur ríkissjóðs hafa aukist gríðarlega á síðustu tveimur árum. Á sama tíma hafa hreinar skuldir ríkissjóðs aukist um ríflega 11 milljarða kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Tekjuaukanum hefur þannig augljóslega verið ráðstafað að verulegu leyti til aukinna útgjalda í stað þess að greiða niður skuldir. Síðustu tvö ár hafa einkennst af lausatökum í hagstjórn og eru því miður alltof mörg dæmi um slíkt í íslenskri hagsögu þegar vel árar.
    Minni hlutinn telur orka tvímælis að ríkisstjórnin verji efnahagsbatanum til útgjalda í stað þess að greiða niður skuldir eins og eðlilegt má telja þegar góðæri ríkir. Við núverandi að stæður, þar sem miklar framkvæmdir eru fjármagnaðar með erlendum lánum og mikilli einka neyslu, er stöðugleikanum í efnahagsmálum ógnað og veruleg hætta á að verðbólgan fari af stað. Benda má á í þessu sambandi að á næsta ári er gert ráð fyrir að ráðstöfunartekjur heim ilanna aukist um 8%. Það gefur til kynna að spár um 5% aukningu einkaneyslu séu verulega vanmetnar. Saman fer að ríkissjóður og almenningur ráðstafa efnahagsbata sínum til nýrra útgjalda sem mun skapa mikinn þrýsting á stöðugleikann. Ekkert svigrúm er í ríkisfjármálum til að mæta áhrifum af minnkandi efnahagsumsvifum sem fer að bera á strax á næsta ári og mun koma fram með meiri þunga á árinu 1999. Á skömmum tíma gæti myndast umtalsverður halli á ríkissjóði og verðbólga vaxið verulega, ef ekkert verður aðhafst, og gætu afleiðing arnar orðið svipaðar og árið 1988.

Fjárhagsstaða heimilanna.
    Skuldasöfnun heimilanna er að verða eitt stærsta efnahagsvandamál sem Íslendingar hafa átt við að glíma undanfarin ár. Sú eyðslustefna sem stjórnvöld hafa leitt undanfarin 2–3 ár hefur stuðlað að svo litlum þjóðhagslegum sparnaði að Íslendingar eru í hópi verst settu þjóða í þessu sambandi.
    Það eru sláandi tölur sem koma í ljós þegar litið er á skuldaþróunina. Þannig hafa skuldir heimilanna í hlutfalli við ráðstöfunartekjur aukist úr 117,3% á árinu 1993 í 132,8% á þessu ári samkvæmt áætlun Seðlabankans. Þá benda spár til þess að skuldir heimilanna muni nema um 374 milljörðum kr. í lok ársins 1997 og hafa þær aukist um rúma 26 milljarða kr. á árinu. Þegar skuldaaukning er orðin svo mikil að ráðstöfunartekjur heimilanna á heilu ári duga ekki til greiðslu þeirra er ljóst að alvarlegur vandi blasir við.
    Algert stefnu- og úrræðaleysi ríkir af hálfu stjórnvalda varðandi fjárhagsmálefni heimil anna. Ríkisstjórnin heldur áfram að ýta undir óraunhæfar væntingar um framtíðartekjur sem leitt hefur til verulegs óróa á vinnumarkaði. Á meðan heldur skuldsetning heimilanna áfram. Minni hlutinn telur tímabært að stjórnvöld horfist í augu við þá staðreynd að róttækra að gerða er þörf til að efla frjálsan og kerfisbundinn sparnað í landinu. Eftir þeim aðgerðum er kallað hér.

Erlend skuldasöfnun.
    Ljóst er að sá hagvöxtur sem átt hefur sér stað hér á landi undanfarin ár hefur aðallega verið borinn uppi af þjóðarútgjöldum fremur en innlendri verðmætasköpun. Aðhaldsleysi í fjármálastjórn hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, hefur ýtt undir gegndarlausan inn flutning og eyðslu. Það er til marks um þá þróun sem átt hefur sér stað að á næsta ári er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn við útlönd verði tæpir 19 milljarðar kr. samkvæmt þjóðhagsspá frumvarpsins. Á árinu 1995 var hins vegar afgangur af viðskiptunum við útlönd sem nam tæpum 4 milljörðum kr.
    Það kemur ekki á óvart miðað við framangreindar tölur að erlendar skuldir fara vaxandi enda er bein samsvörun á milli viðskiptahalla og skuldasöfnunar. Þannig áætlar Þjóðhags stofnun að erlendar skuldir muni aukast um 3,5% að raungildi á þessu ári. Það er þó öllu al varlegra að á næsta ári er búist við enn meiri aukningu eða 4,5%.
    Í fjárlagafrumvarpinu eru engar þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að draga úr við skiptahallanum og skuldasöfnun erlendis sem er orðin eitt brýnasta hagstjórnarmál hér á landi.

Lífeyrisskuldbindingar.
    Lauslega má áætla að hækkun á skuldbindingum vegna lífeyrisgreiðslna opinberra starfs manna nemi rúmlega 10 milljörðum kr. á árinu 1998. Af þeirri fjárhæð eru 7,5 milljarðar kr. vegna áunninna réttinda og launahækkana sem ætti að færast á rekstrarreikning ríkissjóðs. Í fjárlagafrumvarpinu eru hins vegar einungis færðir um 3,8 milljarðar kr. Eftir standa því um 3,7 milljarðar kr. sem er hækkun skuldbindinga vegna launahækkana á árinu. Minni hlut inn telur að færa beri þessa fjárhæð til gjalda og vísar í því sambandi til skýrslu Ríkisendur skoðunar fyrir árið 1996.

Gjaldahliðin.
    Verður nú vikið að nokkrum þeim þáttum á gjaldahlið frumvarpsins sem miklu ráða um aðstæður og lífsskilyrði almennings í landinu.

Heilbrigðismál.
    Góð heilbrigðisþjónusta er aðalsmerki þjóðar sem vill kenna sig við velferð og skiptir hvern einasta landsmann miklu. Brestir í þessum þætti velferðarkerfisins koma þungt niður á heimilum landsmanna. Niðurskurður síðustu ára til heilbrigðismála hefur því valdið áhyggjum og ómældum erfiðleikum hjá stórum hópi fólks. Útgjöld í þessum málaflokki hafa ekki þróast í samræmi við kröfur um bætta heilbrigðisþjónustu, breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar, nýja þekkingu og tækni eða aukinn hagvöxt allra síðustu ára. Því til staðfestingar skal bent á að framlög til heilbrigðismála hafa aukist um tæp 1,4% að jafnaði á ári síðustu fjögur árin, en á sama tíma hefur hagvöxtur aukist um 3,6% að jafnaði á ári.
    Útgjöld til ráðuneytis heilbrigðis- og tryggingamála nema nær 59 milljörðum kr. á næsta ári samkvæmt frumvarpinu sem er u.þ.b. 38,6% allra útgjalda ríkisins á greiðslugrunni, en 36,2% á rekstrargrunni. Því er í sjálfu sér skiljanlegt að reynt sé að halda þétt utan um þenn an mikilvæga en fjárfreka málaflokk. Ráðdeild og sparnaður er sígilt viðfangsefni á þessu sviði sem öðrum. Á hinn bóginn þarf að gæta lögbundins réttar landsmanna til bestu fáan legrar heilbrigðisþjónustu. Aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum hafa verið ótrúlega handahófskenndar og bitnað bæði á notendum og starfsfólki á þessu sviði, sérstaklega í sjúkrahúsþjónustunni.
    Afgreiðsla fjárlaga þessa árs jók aðeins vandann í heilbrigðiskerfinu, og öll varnaðarorð minni hlutans í þeim efnum hafa verið á rökum reist. Sparnaðarhugmyndir voru enn einu sinni fullkomlega óraunhæfar og að mestu óútfærðar, eins og niðurstöður frumvarps til fjár aukalaga sýna glöggt, þar sem auka þarf framlögin á þessu ári um nær 2 milljarða kr. til ým issa liða innan heilbrigðiskerfisins og enn er stór hluti vandans óleystur.
     Svo hart hefur verið gengið fram í óraunhæfum sparnaði að varla fyrirfinnst lengur nokk ur einasta heilbrigðisstofnun sem nær því að vera innan ramma fjárlaga, og segir sig sjálft, að við svo búið má ekki standa. Fyrir liggur að uppsafnaður rekstrarhalli allra sjúkrahúsanna í landinu er nú orðinn samtals u.þ.b. 1 milljarður kr. Þar af er halli stærstu sjúkrahúsanna, þ.e. Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur, enn nær 400 millj. kr. í lok þessa árs þrátt fyrir 320 millj. kr. framlag á fjáraukalögum. Flest hin sjúkrahúsanna eru með einhvern halla í árs lok, allt frá 4 til 84 millj. kr. Við 2. umræðu fjáraukalaga var samþykkt sérstakt framlag að upphæð 200 millj. kr., sem ætlað er til að taka á rekstrarvanda sjúkrahúsanna utan Reykja víkur, og ber að fagna því. Vonandi dugir það til, en á það ber að líta að stærsta sjúkrahúsið í þeim hópi, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, er komið með 84 millj. kr. rekstrarhalla nú í árslok.
    Þá er ekki minna áhyggjuefni að viðhald húsa og endurnýjun tækja hefur lengi setið á hak anum. Ástandið í þeim efnum fer sífellt versnandi og verður afar kostnaðarsamt að taka á þeim vanda. Sem dæmi má nefna Sjúkrahús Reykjavíkur sem er að verða háskalega illa farið af viðhaldsskorti. Áætlaður kostnaður vegna viðgerða utan húss er nær 400 millj. kr., en við hald innan húss mun kosta enn hærri upphæðir. Þannig mætti rekja fleiri dæmi því að víðast hvar blasir þörfin við og sums staðar er húsakosturinn í raun ekki boðlegur, hvorki sjúkling um né starfsfólki. Langvarandi sparnaður í viðhaldi er óskynsamlegur og kemur fram í aukn um kostnaði þegar til lengdar lætur. Minni hlutinn telur að gera þurfi áætlun til nokkurra ára um viðhald heilbrigðisstofnana og endurnýjun tækjakosts svo að þessar stofnanir grotni ekki niður í hirðuleysi.
    Allur þessi vandi liggur fyrir, studdur gögnum og skýrslum frá stofnunum sjálfum og öðr um matsaðilum. Þessar hallatölur eru raunverulegar og ekki tilkomnar vegna óráðsíu. Það er almennt viðurkennt að starfsfólk sjúkrahúsanna hefur lagt hart að sér og náð miklum ár angri við erfiðar aðstæður á undanförnum 5–10 árum. Göngudeildarþjónusta hefur verið efld, aðgerðum hefur fjölgað, legutími styst, hjúkrunarþyngd aukist, sjúklingum fjölgað á hvern starfsmann og lyfjakostnaður sjúkrahúsa lækkað. Þennan árangur ber að viðurkenna og horfast í augu við að lengra verður ekki gengið án þess að illa bitni á þeim er síst skyldi, þ.e. sjúklingunum sjálfum.
    Heilbrigðisráðuneytið og meiri hluti fjárlaganefndar hafa vissulega tekið á þessum vanda að hluta til með aukaframlögum á fjáraukalögum og sérstakri fjárveitingu að upphæð 300 millj. kr. á næsta ári sem skipta á milli sjúkrahúsanna samkvæmt samningum við stofnanirn ar. Allt er betra en ekkert, en eins og fyrr segir er vandinn miklu stærri en svo að þetta dugi til. Það er mat forsvarsmanna þriggja stærstu sjúkrahúsanna að það vanti samtals rúmlega 1 milljarð kr. upp á þær tölur sem fram koma í frumvarpinu til rekstrar þessara sjúkrahúsa til þess eins að halda starfseminni í sama horfi og nú. Það blasir því ekkert annað við en minnkandi þjónusta ef ekki verður brugðist við af ábyrgð og sanngirni. Minni hlutinn telur óhjákvæmilegt að taka almennilega til hendinni til þess að tryggja réttmæta heilbrigðisþjón ustu og létta áhyggjum og erfiði af sjúkum og öldruðum og aðstandendum þeirra.

Menntamál.
    Það hefur lengi verið áhyggjuefni þeirra sem bera menntun þjóðarinnar fyrir brjósti að fjárveitingar til menntamála eru mjög naumar hér á landi miðað við það sem tíðkast í ná grannalöndunum. Minni hluti menntamálanefndar ítrekar það enn fremur í umsögn sinni til fjárlaganefndar og lýsir því þar að hér sé verið að reyna að halda úti skólakerfi fyrir allt of lítið fé miðað við það sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Staðan í skólum, hvort sem litið er til þjónustu við nemendur, atvinnulífsins eða launakjara kennara, stenst engan veginn samanburð við þau lönd sem við lítum til samkvæmt t.d. síðustu mats skýrslu OECD. Ef íslensk stjórnvöld bregðast ekki við með því að stórauka fjármagn til menntamála er alvarleg ástæða til að óttast um samkeppnishæfni Íslands á komandi árum. Fjárveitingar til háskólastigsins koma verst út í samanburði við önnur lönd í skýrslu OECD. Bent skal á að ef frumvarp til laga um háskóla verður samþykkt má búast við verulega aukn um kröfum um fjárveitingar til allra skóla á háskólastigi.
    Háskóli Íslands hefur mikla sérstöðu meðal íslenskra skóla. Forsvarsmenn skólans hafa lagt fyrir fjárlaganefnd mjög vel rökstuddar óskir um 230 millj. kr. hækkun framlaga frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þar af töldu þeir nauðsynlegt að hækka launaliðinn um 100 millj. kr. vegna vanreiknaðra áhrifa kjarasamninga. Þeirri beiðni hefur verið hafnað af ráðu neytinu sem telur að áhrif kjarasamninga við háskólamenn séu þegar reiknuð inn í frumvarp ið. Auk þess var beðið um aukið fjármagn til rannsóknarstarfsemi, til kennslu- og vísinda deildar, alþjóðasamskipta, rannsóknarnáms og ritakaupasjóðs. Minni hlutinn telur nauðsyn legt að styðja betur við starfsemi háskólanna í landinu þar sem hugvit og þekking er sú auð lind sem rækta ber og virkja miklu betur en hingað til hefur verið gert. Á því grundvallast framtíð komandi kynslóða.
    Undanfarið hefur verið unnið að samningum við framhaldsskólana um nýtt kerfi til að deila fjárveitingum á skólana. Þeim samningum er ekki að fullu lokið, en ástæða er til að minna á að ef fjárveitingum er haldið niðri til framhaldsskólanna á þann hátt sem fram kemur í þessu frumvarpi vænkast hagur skólanna ekki við það eitt að taka upp nýjar úthlutunarregl ur. Sá vandi verður heldur ekki leystur með því að taka upp fallskatt eða önnur skólagjöld. Ástæða er til að skoða fjárveitingu til framhaldsskólanna með tilliti til þess að verið er að framkvæma ný lög.
    Varðandi grunnskólastigið má minna á að fjölmörg sveitarfélög telja sig hafa borið skarð an hlut frá borði þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna og er það álit minni hlutans að fara eigi yfir það dæmi upp á nýtt með tilliti til þess sem hefur komið fram um auknar kröfur til skólanna. Mesti vandinn sem blasir við er þó hin alvarlega staða náms gagnagerðar, en það verkefni er í umsjá ríkisins. Lengi hefur framlag ríkisins til námsgagna gerðar miðað við hvern einstakan nemenda á grunnskólastigi verið margfalt lægra en í ná grannalöndunum, en nú hefur það einnig farið hraðminnkandi. Árið 1991 var framlag til námsgagnagerðar 6.480 kr. á nemenda en er nú komið niður í 5.060 kr. á nemenda. Á sama tíma eru gerðar kröfur um meira framboð og aukin gæði námsgagna og námsefnisformið tek ur hröðum breytingum. Námsgagnastofnun, sem er ætlað lykilhlutverk á þessu sviði sam kvæmt lögum, fór fram á 40 millj. kr. viðbótarframlag til að geta betur sinnt endurnýjun námsefnis í náttúrufræðigreinum, undirbúningi endurnýjunar námsefnis vegna nýrrar nám skrár og til kynningar. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að taka tillit til óska stofnunarinnar.

Framkvæmdasjóður fatlaðra.
    Fyrirhugað er að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna eftir rúmt ár, og er allt gott um það að segja ef flutningurinn er vandlega undirbúinn í góðri sátt við sveitarfélögin. Þau mega ekki erfa óbættan allan þann vanda sem nú er til staðar. Enn er t.d. mikill vandi óleyst ur í húsnæðismálum fatlaðra og horfir ekki vel með lausnir þegar ríkisstjórnin gengur ár eftir ár stórlega á lögbundinn tekjustofn Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Á næsta ári er ætlunin að taka 235 millj. kr. af þeim tekjustofni í ríkissjóð, sbr. 3. tölul. 6. gr. frumvarpsins. Er þó ljóst að full þörf er fyrir allt það fé til þess að stytta langa biðlista, einkum í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi, eftir sambýlum fyrir fatlaða. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega þessa ráðstöfun ríkisstjórnarinnar og leggur til að 3. tölul. 6. gr. verði felldur brott.

Landbúnaðarmál.
    Minni hlutinn telur miður að ríkisstjórnin sjái sér ekki fært nú í góðærinu að veita meira fjármagn til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins en raun ber vitni vegna þess að starfsemi stofnunarinnar hefur á mörgum sviðum verið lykillinn að auknum framförum í landbúnaði á Íslandi á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna framfarir í kornrækt til fóðurgjafar. Þær gefa íslenskum bændum nú þegar nokkur sóknarfæri sem byggjast á niðurstöðum ræktunar tilrauna á Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
    Það mun vera samkvæmt samkomulagi við bændasamtökin að lagt er til í frumvarpinu að framlag til þeirra hækki um 25 millj. kr. milli ára. Hækkunin skýrist af því að lagt er til að þær 89 millj. kr. sem verja skal til uppkaupa á fullvirðisrétti eða markaðsaðgerða samkvæmt núgildandi búvörusamningi verði veittar til jarðræktarframlaga og fleiri verkefna. Landbún aðarnefnd Alþingis bendir á að þarna er einhliða verið að taka upp samning við sauðfjár bændur og nota fjármuni sem þeim eru ætlaðir samkvæmt samningnum til að leysa önnur uppsöfnuð vandamál. Þessi vandamál hefur í sjálfu sér dregist allt of lengi að leysa en erfitt er að sjá réttlætið í að þau séu leyst á kostnað sauðfjárbænda á sama tíma og ekki hefði verið vanþörf á sérstökum aðgerðum til styrktar þeim sem verst standa í þeirra hópi.
    Þá skal minnt á að í 2. tölul. 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að framlög til sérstaks átaksverkefnis til markaðssetningar og framleiðslu vistvænna og lífrænna afurða verði skert um helming frá því sem lög gera ráð fyrir. Þessi tillaga ber vott um vanþekkingu og skiln ingsleysi á mikilvægi slíks átaks til að lyfta undir nýjungar er til framfara horfa í landbúnaði. Minni hlutinn leggur til að 2. tölul. 6. gr. falli brott.

Umhverfismál.
    Umhverfismál vega æ þyngra í nútímasamfélagi, eins og landsmenn hafa rækilega verið minntir á undanfarna daga. Það er því áhyggjuefni hversu illa er búið að stofnunum á vegum umhverfisráðuneytisins sem af allt of veikum mætti þarf að fást við sívaxandi verkefni.
    Langverst er staða Hollustuverndar ríkisins sem glímir við mikinn vanda í mannahaldi og rekstri vegna aukinna verkefna, einkum vegna ákvæða EES-samningsins og fleiri bindandi alþjóðasamninga. Nægir að vísa til faglegrar úttektar Skipulags og stjórnunar ehf. frá ágúst 1996 um mannaflaþörf stofnunarinnar, en niðurstaða hennar var að „alger lágmarksþörf“ á aukningu væri 20,5 stöðugildi til að stofnunin gæti staðið undir þeirri starfsemi sem lög, reglur og samningar við erlend ríki gera ráð fyrir. Stofnunin fór fram á verulega hækkun framlags til þess að geta fjölgað í starfsliði. Þeirri beiðni til stuðnings má vísa til upplýsinga um kröfur af hálfu ESA vegna vanefnda á framkvæmd EES-samningsins sem íslensk stjórn völd verða að bregðast við. Meiri hlutinn kom aðeins að litlu leyti til móts við óskir um efl ingu stofnunarinnar, og er ljóst að Hollustuvernd ríkisins er um megn að standa undir þeim kröfum sem til hennar eru gerðar eins og nú er að henni búið.
    Um aðrar stofnanir og verkefni á sviði umhverfismála er það að segja að þau verða að fá aukinn stuðning á næstu árum ef þessi málaflokkur á að fá það vægi sem hann þarf. Skilning ur stjórnvalda í þeim efnum birtist ekki í þessu frumvarpi til fjárlaga næsta árs. Þar verður t.d. ekki séð hvernig ráðuneytið ætlar að vinna að nauðsynlegum aðgerðum til að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Þar duga engin vettlingatök ef þjóðin ætlar sér sómasamlegan sess í samfélagi þjóðanna.

Samgöngumál.
    Samkvæmt 5. tölul. skerðingarákvæða í 6. gr. frumvarpsins skulu 1.064 millj. kr. af inn heimtum mörkuðum tekjum til vegagerðar renna í ríkissjóð á næsta ári. Ljóst er að þessi skerðing mun hafa í för með sér um 6% lækkun framlaga til nýframkvæmda frá þeirri veg áætlun sem samþykkt var sl. vor. Á það var bent í áliti samgöngunefndar við afgreiðslu fjár laga síðasta árs að lækkun fjárveitinga til nýframkvæmda næmi 18–19%. Því blasir við að enn frekari skerðing mun hafa veruleg áhrif á framkvæmdir í vegamálum og hlýtur að leiða til frestunar á ýmsum brýnum verkefnum um allt land. Minni hlutinn telur að þessum sífellda niðurskurði fjárveitinga til vegamála þurfi að linna og leggur til að 5. tölul. 6. gr. verði felld ur brott.

Lokaorð.
    Fjárlaganefnd hefur nánast eingöngu fjallað um útgjaldahlið frumvarpsins til þessa, og tekjuhlið þess bíður því 3. umræðu. Einnig er eftir að fjalla nánar um lánsfjárgrein frum varpsins og heimildargrein þess svo og nokkur önnur atriði.
    Breytingartillögur meiri hlutans nema rúmlega hálfum öðrum milljarði kr., og styður minni hlutinn margar þeirra. Minni hlutinn flytur nokkrar breytingartillögur við 2. umræðu sem sýna þær áherslur sem fulltrúar hans vilja ná fram í ráðstöfun ríkisteknanna. Minni hlut inn telur að tekjuhliðin sé vanáætluð um 1–1,5 milljarð kr., en hann mun að auki flytja tillög ur til breytinga á tekjuhliðinni við 3. umræðu, m.a. um hækkun tryggingagjalds, ef tillögur minni hlutans um breytingar á gjaldahlið frumvarpsins verða samþykktar.

Alþingi, 11. des. 1997.



Kristinn H. Gunnarsson,


frsm.


Gísli S. Einarsson.



Kristín Halldórsdóttir.




Sigríður Jóhannesdóttir.


Fylgiskjal.



(1 tafla mynduð)