Ferill 353. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 507 – 353. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 82/1989, um málefni aldraðra.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Svavar Gestsson, Kristín Halldórsdóttir.



1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Samráð skal haft við heildarsamtök aldraðra og aðildarfélög þeirra um opinbera stefnu mörkun og ákvarðanir er varða hag og kjör aldraðra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Heilbrigðisráðherra fer með yfirstjórn öldrunarmála og skal ráðuneyti hans m.a. hafa frumkvæði að stefnumótun um málefni aldraðra og annast áætlanagerð um málefni þeirra fyrir landið í heild. Er kveðið á um þetta í lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, og þar eru jafnframt ákvæði um störf samstarfsnefndar um málefni aldraðra. Í nefndinni eiga sæti þrír menn, einn tilnefndur af Öldrunarráði Íslands, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn án tilnefningar. Verkefni samstarfsnefndarinnar eru að vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra, að vera heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra, að stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra og gera tillögur til heilbrigðisráðherra um úthlutun úr sjóðnum og að skera úr um ágreiningsmál sem upp kunna að koma um málefni aldraðra samkvæmt lögunum, enda beri mál ekki að réttu undir dómstóla.
    Í lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, eru ákvæði svipaðs efnis og í lögum um málefni aldraðra, enda var á 105. löggjafarþingi í fyrsta sinn sett heildstæð löggjöf bæði um málefni fatlaðra og aldraðra og því eðlilegt að svipuð sjónarmið væru lögð til grundvallar. Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn málefna fatlaðra en sérstök nefnd, stjórnarnefnd um málefni fatlaðra, er félagsmálaráðuneytinu til ráðgjafar. Í lögum um málefni fatlaðra er kveðið á um önnur verkefni nefndarinnar, m.a. fer hún með stjórn Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Í 2. mgr. 1. gr. laganna er kveðið á um að við framkvæmd á markmiðum laganna skuli tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra. Í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 59/1992 segir að greinin feli ekki í sér efnislegar breytingar frá 1. gr. þágildandi laga heldur einungis einstaka orðalagsbreytingar. Þetta ákvæði kom í stað ákvæðis í 1. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, en samkvæmt henni var markmið laganna að tryggja heildarsamtökum fatlaðra og félögum þeirra áhrif á ákvarðanatöku um málefni sín, svo sem með því að leita umsagnar heildarsamtaka fatlaðra eða sérstakra félaga þeirra eða styrktarfélaga fatlaðra sem hlut ættu að máli hverju sinni við gerð og framkvæmd áætlana, laga og reglugerða er þau vörðuðu. Í athugasemdum við 1. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 41/1983 segir að lagt sé til að þau lýðræðislegu vinnubrögð verði höfð við framkvæmd laganna og þeirra reglugerða, sem settar verði í samræmi við þau, að samtök fatlaðra fái umsagnarrétt við gerð og framkvæmd áætlana, laga og reglugerða er þá varða. Segir að markmið greinarinnar sé þannig að tryggja áhrif heildarsamtaka fatlaðra á ákvörðunartöku um málefni sín.
    Að mati flutningsmanna þessa frumvarps þarf að tryggja betur lýðræðislegan rétt aldraðra til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku um málefni sín en gert er með ákvæðum um samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Á hann að vera sambærilegur við rétt fatlaðra að þessu leyti. Hér er því lagt til að heildarsamtökum aldraðra og aðildarfélögum þeirra verði tryggð áhrif á opinbera stefnu og ákvarðanir er varða hag þeirra og kjör. Til þess að svo megi verða er sú skylda lögð á heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að það hafi samráð við samtök aldraðra eða hlutaðeigandi félag þeirra um vinnu að stefnumótun um málefni aldraðra, undirbúning frumvarpa til laga eða setningu reglugerða sem snerta hag og kjör aldraðra og hlutist til um að önnur ráðuneyti geri hið sama. Mikilvægt er að samtök aldraðra geti á undirbúningsstigi komið sjónarmiðum sínum að og því eðlilegt að tryggð sé aðild þeirra að nefndarstarfi á vegum ráðuneyta þar sem fjallað er um málefni þeirra, ekki síst þau sem bein áhrif hafa á afkomu og aðbúnað aldraðra. Það er einnig gagnlegt fyrir stjórnvöld að hafa samráð við samtök aldraðra eins og hér er lagt til og nýta sér þá miklu þekkingu og reynslu sem þar er að finna. Hérlendis eru um 27 þúsund manns 67 ára og eldri. Talið er að nær helmingur þeirra taki virkan þátt í skipulögðu starfi félaga aldraðra vítt og breitt um landið. Þessi félög láta sig ekki eingöngu varða tómstundastarf aldraðra, heldur hafa þau á undanförnum missirum og árum í æ meira mæli látið til sín taka málefni er varða afkomu og aðbúnað aldraðra og beitt sér gagnvart stjórnvöldum til að tryggja betur hag þeirra. Það er því ákaflega mikilvægt og til þess fallið að stuðla að lýðræðislegum ákvörðunum að lögbinda slíkt samráð og samvinnu við samtök aldraðra eins og hér er lagt til, enda hafa aldraðir engan samningsrétt um kjör sín og afkomu.
    Þetta fyrirkomulag er þekkt víða erlendis og má nefna Noreg í því sambandi. Þar hafa verið settar reglur varðandi samningaviðræður milli ríkisstjórnar og samtaka eftirlaunafólks og komið hefur verið á fót viðræðunefnd með aðild samtaka eftirlaunafólks og stjórnvalda. Verkefni hennar er að ræða mál varðandi tryggingafyrirkomulag og aðrar stuðningsaðgerðir o.fl. sem skiptir máli fyrir aldraða. Samvinnunefndin fer árlega yfir frumvarp til fjárlaga og tryggingaþætti þess sem snerta hag og kjör aldraðra áður en málið er lagt fyrir Stórþingið. Samstarfsnefndin getur einnig að eigin frumkvæði eða vegna óska samtaka aldraðra tekið fyrir mál er snerta samskipti ríkis, almannatrygginga og aldraðra. Í sveitarfélögum og fylkjum í Noregi hefur með lögum frá 1992 einnig verið sett á fót öldrunarráð sem er ráðgefandi aðili fyrir sveitarfélögin um málefni aldraðra, en skylt er að leggja fyrir ráðið mál sem snerta hag og kjör aldraðra áður en sveitastjórnir fjalla um þau. Öldrunarráðið getur líka sjálft haft frumkvæði að því að taka upp mál sem snerta aldraða í sveitarfélaginu. Á vegum stjórnvalda í Noregi hefur frá 1970 verið starfandi öldrunarráð ríkisins sem er ráðgefandi aðili fyrir ríkisstjórnina og opinberar stofnanir og samræmir sjónarmið ríkisvaldsins og hagsmunasamtaka aldraðra í málefnum sem þá varða.