Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 528 – 165. mál.


Nefndarálit



um frv. til l. um háskóla.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Tvö efnisatriði frumvarps til laga um háskóla eru þess eðlis að minni hluti menntamála nefndar lýsir við þau fullri andstöðu. Þau eru í fyrsta lagi ofstjórnarárátta gagnvart háskóla stiginu sem fram kemur í ýmsum greinum frumvarpsins og í öðru lagi sú grundvallarbreyting að verði 19. gr. og 26. gr. frumvarpsins samþykktar óbreyttar verða engar lagalegar hindranir í vegi fyrir því að lögð verði á skólagjöld í opinberum skólum.
    Auk þessara megingagnrýnisatriða eru fjölmörg smærri atriði sem eru álitaefni og munu þau verða tíunduð við 2. umræðu um frumvarpið þótt þeirra sé ekki getið sérstaklega í nefndaráliti eða gerðar við þau sérstakar breytingartillögur.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að helsta markmið löggjafar um háskóla eigi að vera að festa það skólastig í sessi sem tekur við af framhaldsskólastigi. Víðtæk samstaða hefur verið um að nauðsynlegt sé að draga saman þau meginskilyrði sem stofnun þarf að upp fylla til að geta talist háskóli og veitt háskólagráðu við námslok.
    Á 121. löggjafarþingi þegar frumvarpið kom fyrst fram voru gerðar við það alvarlegar athugasemdir af hálfu Háskóla Íslands. Á það var bent að með IV. kafla frumvarpsins væru skólanum settar ónauðsynlegar skorður og að samræming um skipulag háskólaráðs og ráðn ingu rektors hefði ekkert sjálfstætt gildi nema sem samræmingin ein. Afgreiðslu frumvarpsins var frestað sl. vor að beiðni Háskóla Íslands. Það var svo endurflutt á þessu þingi, lítið breytt.
    Minni hlutinn gerir athugasemd við það hve ýmis ákvæði frumvarpsins eru enn ítarleg, jafnvel smásmuguleg, og að ekki skyldi við samningu og yfirferð frumvarpsins tekið tillit til sérstöðu Háskóla Íslands, að hann er bæði fyrsti og langelsti háskólinn, auk þess að vera langstærsti og fjölmennasti háskóli þjóðarinnar. Bæði hefur verið litið fram hjá sérstöðu skólans og þeim hefðum og venjum sem Háskóli Íslands hefur haft í heiðri frá upphafi. Háskólinn hefur nú knúið fram lágmarksbreytingar, sbr. breytingartillögur meiri hlutans, en það er óskiljanlegt af hverju ekki var einfaldlega orðið við óskum skólans um að þau ákvæði sem ágreiningur hefur verið um yrðu í sérlögum um skólann. Er þar komið að fyrra stóra gagn rýnisefni minni hlutans sem beinist að þeirri ofstjórnaráráttu sem fram kemur í frumvarpinu og hefur verið skýrð þannig að héðan í frá verði miðstýring reglan en sjálfstæði skólans og lýðræðið undantekning.
    Frá upphafi hefur það verið svo að rektor Háskóla Íslands hefur verið valinn af háskólasamfélaginu og val hans tilkynnt Stjórnarráðinu eða menntamálaráðuneytinu. Sami háttur hefur verið hafður á í Kennaraháskóla Íslands. Þetta fyrirkomulag styðst við hefðir við erlenda háskóla og þykja nauðsynlegar til að tryggja frelsi og sjálfstæði háskóla gagnvart stjórnmálalegu valdi. Þessu á nú að breyta hér og gera rektora háskólanna að embættis mönnum sem menntamálaráðherra hefur boðvald yfir. Menntamálaráðherra hefur, miðað við breytingartillögur meiri hlutans, aðeins hopað í þessu máli en heldur þó fast við það að rektorar háskólanna allra skuli stjórnskipulega vera embættismenn og þar með undirmenn hans.
    Einnig er fyrirhugað samkvæmt frumvarpinu að gjörbreyta háskólaráði Háskóla Íslands og fækka þar fólki til samræmingar. Af tíu fulltrúum eða færri skal menntamálaráðherra síðan skipa tvo. Hér er um algera stefnubreytingu að ræða þar sem ráðherra getur með svo beinum hætti hlutast til um innri mál háskólanna. Í skýrslu þróunarnefndar, sem vitnað er til í frumvarpinu, er lagt til að tveir fulltrúar háskólaráðs komi utan úr þjóðfélaginu. Rektor velji þessa tvo fulltrúa úr hópi sex fulltrúa þar sem menntamálaráðherra geri tillögu um þrjá og samtök atvinnulífsins aðra þrjá. Í frumvarpinu eru þessar hugmyndir notaðar sem skálkaskjól til að setja inn ákvæði um að ráðherra skipi sjálfur beint tvo af fulltrúunum í háskólaráði. Eigi að gera ráð fyrir fulltrúum að utan, svokölluðum þjóðlífsfulltrúum, væri mun betra að fara hreinlega eftir þeirri hugmynd sem fram kemur í skýrslu þróunarnefndar og að í sérlögum hvers skóla kæmi fram hverjir hefðu tilnefningarrétt á móti menntamálaráðherra eða ef menn vilja halda sig við það að menntamálaráðherra skipi fulltrúana, þá verði ákveðinn til nefningarferill sem tryggi faglega meðferð ákvarðaður í sérlögum hvers skóla. Þá er ætlunin að ákvarða það í rammalöggjöf hverjir af kennurum háskólanna megi sitja í háskólaráði.
    Þessi ákvæði, um skipun rektors, kennarafulltrúanna og fulltrúa menntamálaráðherra í háskólaráði, sem miða að því að veikja sjálfstæði háskóla og gera þá háðari pólitísku valdi, gagnrýnir minni hlutinn harðlega.
    Hitt efnisatriðið sem minni hlutinn lýsir algerri andstöðu við er að með þessu frumvarpi er opnað á skólagjöld í opinberum skólum, jafnvel til að standa undir almennum rekstri og kennslukostnaði í skólunum. Þess sér annars vegar stað í 26. gr. frumvarpsins en með samþykkt hennar falla úr gildi lög um skólakerfi frá 1974. Í 6. gr. þeirra laga segir: „Kennsla er veitt ókeypis í opinberum skólum.“ Sú viðspyrna gegn hugmyndum um skólagjöld í opin berum skólum sem falist hefur í lögum um skólakerfi er þar með farin. Hins vegar segir í 19. gr. frumvarpsins: „Í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla skal setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla.“ Hér er verið að tala um gjaldtöku vegna náms, óskilgreint.
    Með samþykkt þessara ákvæða er verið að gera grundvallarbreytingu á íslensku skólakerfi þar sem hingað til hefur verið bannað að taka gjald fyrir kennslu í opinberum skólum, sbr. lögin um skólakerfi. Minni hlutinn varar við afleiðingum þess að slík samþykkt verði keyrð í gegn. Með slíkri lagabreytingu, sem sýnir tiltekinn pólitískan vilja, er verið að stíga fyrsta og stærsta skrefið í þá átt að afnema jafnrétti til náms.
    Þá er ástæða til að hafa áhyggjur af því að skv. 6. gr. frumvarpsins munu allir háskólar geta ákveðið sérstök viðbótarinntökuskilyrði. Háskóli Íslands hefur beitt fjöldatakmörkunum í afmörkuðum greinum. Annars hefur skólinn verið sannkallaður þjóðskóli þar sem þeir sem hafa stúdentspróf eða búa yfir jafngildum þroska og þekkingu hafa fengið að spreyta sig á því námi sem hugur þeirra hefur staðið til.
    Þær breytingar á íslenskri menntastefnu sem boðaðar eru og hér hafa verið tíundaðar eru því ekki áherslubreytingar heldur grundvallarbreytingar á því menntakerfi sem við höfum byggt upp og hefur gefið öllum tækifæri til að sýna getu sína.
    Breytingartillögur minni hlutans, sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali, lúta að þessum tveimur atriðum, ofstjórn sem rýrir sjálfstæði háskóla og opnun á skólagjöld í opinberum skólum. Þær eru eftirfarandi:
1.      Á eftir 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. er gerð tillaga um nýjan málslið sem kveður á um að í stað þess að ráðherra skipi að eigin geðþótta tvo fulltrúa í háskólaráð komi ákvæði um það í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla að þeir fulltrúar sem ráðherra skipar skuli vera tilnefndir af aðilum sem þekkja til mála varðandi hvert það svið sem háskólarnir eru að fást við eða þær áherslur sem þeir vilja leggja. Þannig verði tryggt að faglegt mat ráði því hverjir veljast til setu í háskólaráði en ekki pólitískur geðþótti ráðherra.
2.      Í þeirri breytingu sem lögð er til á 1. málsl. 1. mgr.14. gr. tekur minni hlutinn undir sjónarmið Háskóla Íslands en af hálfu talsmanna hans hefur verið lögð áhersla á að skipan rektors geti verið með mismunandi hætti milli háskóla og samræming þessa ákvæðis hafi ekkert sjálfstætt gildi umfram samræminguna eina. Slík samræming getur tæpast verið pólitískt markmið í sjálfu sér. Svo er ekki heldur varðandi önnur mikilvæg atriði í frumvarpinu, svo sem skilgreiningu á háskóla og hvort iðkun rannsókna teljist nauðsyn legur þáttur í slíkri skilgreiningu. Í því efni þykir ekki ástæða til samræmingar af hálfu meiri hlutans. Minni hlutinn leggur því til að í sérlögum hvers háskóla verði tekið á því hvernig kveðið skuli á um stöðu rektors.
3.      Lagt er til að í 19. gr. verði með breyttu orðalagi fyrri málsliðar 3. mgr. tryggt að gjaldtaka vegna náms eigi einungis við um einkaskóla en ekki opinbera skóla. Bæði verði orðið „sérlög“, sem einkum er notað um ríkisskólana, fellt út úr textanum og skýrt sérstaklega að ákvæði málsliðarins eigi eingöngu við um aðra skóla en ríkisháskóla. Þannig verði sagt með berum orðum að gjaldtaka vegna náms sé einungis heimil í öðrum háskólum en ríkisháskólum.
    Þá er jafnframt lagt til að skrásetningargjald geti aldrei orðið hærra en sem nemur tilteknum nánar skilgreindum kostnaði og að slíku gjaldi verði aldrei varið til að standa undir almennum rekstrarkostnaði skólans né kennslu.
4.      Lögin um skólakerfi frá 1974 banna gjaldtöku vegna kennslu í opinberum skólum. Með 26. gr. frumvarps til laga um háskóla stendur til að fella þessi lög úr gildi. Með því er verið að opna á skólagjöld í opinberum skólum sem er nýmæli og grundvallarbreyting frá því sem verið hefur. Með slíkri lagabreytingu, sem sýnir tiltekinn pólitískan vilja, er verið að stíga fyrsta og stærsta skrefið í þá átt að afnema jafnrétti til náms. Minni hlutinn leggur því til að 26. gr. verði felld brott úr frumvarpinu.

Alþingi, 13. des. 1997.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Guðný Guðbjörnsdóttir.



Svavar Gestsson.