Ferill 291. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 531 – 291. mál.


Frumvarp til laga



um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988 (heilbrigðisþjónusta, vistun gæsluvarðhaldsfanga og samfélagsþjónusta).

(Eftir 2. umr., 13. des.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      5. tölul. orðast svo: Að sjá um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Í fangelsum skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, auk þeirrar sérstöku heilbrigðisþjónustu sem lög og reglur um fanga segja til um. Að höfðu samráði við fangelsismálastofnun sér heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um og ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum.

2. gr.

    4. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Í afplánunarfangelsum má starfrækja gæsluvarðhaldsdeildir. Gæsluvarðhaldsfanga má vista meðal afplánunarfanga ef einangrun telst ekki nauðsynleg.


3. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði í þessum kafla eiga við um afplánunarfanga.

4. gr.

    Á eftir 21. gr. laganna kemur nýr kafli, IV. kafli, Samfélagsþjónusta, með fimm nýjum greinum, 22.–26. gr., og breytist kafla- og greinatala samkvæmt því. Greinarnar orðast svo:

    a. (22. gr.)
    Hafi maður verið dæmdur í allt að sex mánaða óskilorðsbundna refsivist er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta refsinguna með ólaunaðri samfélags þjónustu, minnst 40 klukkustundir og mest 240 klukkustundir.
    Þegar um refsivist er að ræða samkvæmt fleiri en einum dómi má samanlögð refsing eigi vera lengri en sex mánuðir.
    Þegar hluti refsivistar er skilorðsbundinn má heildarrefsivist samkvæmt dóminum eigi vera lengri en sex mánuðir.

    b. (23. gr.)
    Skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita eru:
     1.      Að dómþoli hafi óskað eftir því skriflega við fangelsismálastofnun eigi síðar en hálfum mánuði áður en hann átti upphaflega að hefja afplánun refsivistar.
     2.      Að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum, þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað.
     3.      Að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu.
    Áður en metið er hvort dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu og þar með talið hvort líklegt er að hann geti innt hana af hendi skal fara fram athugun á persónulegum högum hans.
    Þegar refsivist er fullnustuð með samfélagsþjónustu jafngildir 40 klukkustunda samfélags þjónusta eins mánaðar refsivist. Hafi gæsluvarðhald komið til frádráttar refsivist skal taka tillit til þess við útreikning á fjölda klukkustunda.

    c. (24. gr.)
    Fangelsismálastofnun ákveður hvort refsivistardómur verði fullnustaður með samfélags þjónustu og hvaða samfélagsþjónustu dómþoli sinni í hverju tilviki. Sama gildir um á hve löngum tíma samfélagsþjónusta skuli innt af hendi, en sá tími skal þó aldrei vera skemmri en tveir mánuðir.
    Þegar skal hafna umsókn um samfélagsþjónustu ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 23. gr. Ef sérstakar ástæður mæla með er þó heimilt að víkja frá tíma fresti í 1. tölul. 1. mgr. 23. gr.
    Þegar umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar skal fresta fullnustu refsivistar þar til ákvörðun um afgreiðslu hennar liggur fyrir, enda fremji dómþoli ekki refsiverðan verknað á þeim tíma.

    d. (25. gr.)
    Samfélagsþjónusta skal bundin eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Að dómþoli gerist ekki sekur um refsiverðan verknað á þeim tíma sem samfélagsþjónusta er innt af hendi.
     2.      Að dómþoli sæti á þeim tíma, sem samfélagsþjónusta er innt af hendi, umsjón og eftirliti einstakra manna, félags eða stofnunar.
    Enn fremur má binda samfélagsþjónustu þeim skilyrðum, nokkrum eða öllum, sem greinir í 2.–6. tölul. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga.
    Áður en fullnusta á refsivist með samfélagsþjónustu hefst skal kynna dómþola ítarlega þær reglur sem gilda um samfélagsþjónustu og staðfesting hans fengin á því að hann vilji hlíta þeim. Sama gildir um viðbrögð við brotum á þessum reglum.

    e. (26. gr.)
    Nú rýfur dómþoli skilyrði samfélagsþjónustu eða sinnir henni ekki með fullnægjandi hætti og ákveður þá fangelsismálastofnun hvort skilyrðum hennar skuli breytt, tími sem samfélags þjónusta er innt af hendi skuli lengdur eða hvort refsivist skuli afplánuð.
    Nú er dómþoli kærður fyrir að hafa framið refsiverðan verknað eftir að ákveðið er að fullnusta refsivist með samfélagsþjónustu og getur fangelsismálastofnun þá ákveðið að ákvörðun um fullnustu refsivistar með samfélagsþjónustu verði afturkölluð og að dómþoli afpláni refsivistina.
    Þegar rof á skilyrðum samfélagsþjónustu eða meint afbrot er ekki alvarlegt eða ítrekað skal veita áminningu áður en ákveðið er að refsivist skuli afplánuð.
    Þegar ákveðið er, skv. 1. eða 2. mgr., að refsivist skuli afplánuð skal reikna tímalengd eftirstöðva út með hliðsjón af þeirri samfélagsþjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi.
    Þegar eftirstöðvar refsivistar, sem að hluta hefur verið fullnustuð með samfélagsþjónustu, eru afplánaðar er heimilt að veita reynslulausn af eftirstöðvunum þannig að tími í samfélags þjónustu teljist ekki með við útreikning á hlutfalli afplánunar.

5. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna (sem verður 31. gr.) kemur nýr kafli, VI. kafli, Náðunarnefnd, með einni grein, 32. gr., og breytist kafla- og greinatala samkvæmt því. Greinin orðast svo:
    Dómsmálaráðherra skipar þriggja manna nefnd, náðunarnefnd, svo og þrjá varamenn, til tveggja ára í senn. Formaður nefndarinnar og varaformaður skulu uppfylla skilyrði laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
    Nefndin skal láta ráðherra í té rökstudda tillögu um afgreiðslu á erindum sem til hans er skotið vegna ákvörðunar fangelsismálastofnunar um samfélagsþjónustu og reynslulausn, svo og um afgreiðslu náðunarbeiðna.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998. Þá falla úr gildi lög um samfélagsþjónustu, nr. 55. 29. apríl 1994.
    Jafnframt bætist nýr málsliður við 1. mgr. 51. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/ 1993, svohljóðandi: Fangar skulu njóta sjúkratrygginga, annarra en sjúkradagpeninga, sam kvæmt almennum reglum sem um þær gilda.

Ákvæði til bráðbirgða.

    Til að heimilt verði að fullnusta dóma með samfélagsþjónustu þar sem dæmd refsivist er meira en þrír mánuðir eða hluti refsivistar skilorðsbundinn þarf dómurinn að vera kveðinn upp eftir gildistöku laga þessara.