Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 538 – 354. mál.



Frumvarp til laga


um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Ágúst Einarsson, Svanfríður Jónasdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 2. tölul. 31. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því: Tvöfalda fjárhæð einstakra gjafa og framlaga til menningarmála, kvikmyndagerðar og vísindalegra rannsóknarstarfa. Gjafir og framlög skv. 2. og 3. tölulið mega þó ekki vera yfir 0,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári sem gjöf er afhent. Fjár málaráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar falla undir þennan tölulið.
    Úr 2. tölul. sömu greinar falla orðin „menningarmála“ og „og vísindalegra rannsóknar starfa“.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Sambærilegt frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en var ekki útrætt. Það er lagt fram að nýju lítillega breytt. Tilgangur frumvarpsins er að efla menningu, kvikmyndagerð og vís indi með tilteknum skattalegum aðgerðum. Nú er í lögum að fyrirtæki og aðrir lögaðilar mega draga ýmis framlög frá tekjum, m.a. framlög til menningarmála og vísindalegra rann sóknarstarfa. Ekki liggur fyrir af hálfu skattyfirvalda í hve miklum mæli þessi framlög hafa verið.
    Í 2. tölul. 31. gr. núgildandi laga er kveðið á um heimild fyrirtækja til að draga framlög m.a. til menningarmála og vísindalegra rannsóknarstarfa allt að 0,5% frá tekjum. Í 1. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um lögfestingu þess að lögaðilar megi draga tvöfalda þá fjárhæð frá tekjum sem þeir verja til menningarmála, kvikmyndagerðar og vísindastarfsemi. Þetta hvetur fyrirtæki til að auka framlög sín, enda lækka skattskyldar tekjur þeirra þar með.
    Ef fyrirtæki gefur 100 þús. kr. til menningar- og vísindastarfsemi má það samkvæmt frumvarpinu draga 200 þús. kr. frá útgjöldum en einungis 100 þús. kr. samkvæmt núgildandi lögum. Þetta hvetur fyrirtæki til að styðja við menningu og vísindi.
    Í lögum er kveðið á um að slíkar gjafir og framlög megi ekki nema meira en 0,5% frá tekjum og er í þessu frumvarpi ekki lögð til breyting á því. Í fyrra frumvarpi var lögð til hækkun á þessu hámarki. Frá því er fallið í þessu frumvarpi vegna þess að flutningsmenn telja brýnt að sú aðferðafræði að heimila aukinn frádrátt verði reynd hérlendis. Frumvarpið felur þannig ekki í sér neina hættu á tekjutapi fyrir ríkissjóð umfram það sem er í gildandi lögum.



Prentað upp.

    Í reglugerð settri samkvæmt núgildandi lögum segir m.a. að undir menningarstarfsemi falli hvers konar menningarstarfsemi fyrir almenning, svo sem fræðiritaútgáfa, fræðslu myndagerð, bóka-, skjala-, lista- og minjasöfn, bókmennta- og listastarfsemi, verndun fornra mannvirkja og sérstæðra náttúrufyrirbrigða o.fl. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd þessa frumvarps en mikilvægt er að um hana gildi skýrar reglur.
    Framangreind reglugerð kveður á um að undir vísindalega rannsóknarstarfsemi falli hvort tveggja, hugvísindi og raunvísindi. Hér er um að ræða víðtæka skilgreiningu í samræmi við sjónarmið flutningsmanna en undir vísindastarfsemi fellur einnig félagsvísindi og heilbrigðisvísindi enda er vísindastarfsemi í háskólum gjarnan skipt í þessi fjögur meginfræðasvið. Með vísindastarfsemi er þannig m.a. átt við starfsemi innan æðri menntastofnana. Framlög fyrirtækja til eflingar rannsókna og kennslu innan háskóla falla þannig undir þetta frumvarp.
    Flutningsmenn telja að um framlög til kvikmyndagerðar eigi að gilda sömu ákvæði og til annarrar menningarmálastarfsemi, en fræðslumyndagerð er beinlínis talin upp í reglugerð með núgildandi lögum. Almenn kvikmyndagerð, þ.e. gerð lengri leikinna kvikmynda og heimildamynda en ekki t.d. gerð auglýsingakvikmynda, á því að falla undir lögin. Í kvikmyndaiðnaði felast mikilvæg sóknarfæri og það er réttur kvikmyndagerðarmanna að nýta þessa frádráttarmöguleika.
    Þess má geta að fjármögnun kvikmynda er oft með þeim hætti að nái innlend fjármögnun tiltekinni upphæð kemur mun hærra mótframlag frá erlendum aðilum. Þannig geta fjárhæðir margfaldast. Þetta er afar mikilvægt, en oft hefur ónóg tekjuöflun innan lands staðið í vegi fyrir því að fá fé erlendis frá. Samþykkt þessa frumvarps ætti að bæta úr því.
    Ríkisvaldið fær einnig til baka vegna aukinna umsvifa allt það fjármagn sem það veitir í gegnum Kvikmyndasjóð. Þá er ótalinn sá ávinningur sem kvikmyndagerð hefur í ferða þjónustu. Tekjur ríkissjóðs vegna ferðamanna sem ákváðu Íslandsferð eftir að hafa séð íslenska kvikmynd eða þátt í sjónvarpi eru taldar vera um 400 milljónir á ári.
    Kvikmyndagerð hérlendis getur orðið umfangsmikill og arðbær atvinnuvegur. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa oft sýnt að starf þeirra jafnast á við það besta sem gert er í heiminum. Því er skynsamlegt þegar horft er til framtíðar að stuðla að eflingu þessarar atvinnu- og listgreinar, eins og samþykkt frumvarpsins mundi leiða til.
    Sérstök athygli er vakin á því að samþykkt frumvarpsins mun efla bókmenntir og ýmiss konar annað liststarf, svo sem leiklist, tónlist og myndlist, svo og starfsemi safna. Allir þessir málaflokkar falla undir hin ívilnandi ákvæði frumvarpsins.
    Frumvarpinu er ætlað að leiða til aukinna framlaga til menningarmála, kvikmyndagerðar og vísindalegra rannsókna og auðvelda aðilum sem að þeim starfa að afla fjár, einfaldlega vegna þess að það er hagkvæmt fyrir viðkomandi fyrirtæki.
    Svipuð ákvæði þekkjast víða erlendis og þá einnig í tengslum við rannsóknar- og þró unarstarfsemi. Stuðningur fyrirtækja við menningu og vísindi hefur aukist undanfarin ár hérlendis eins og annars staðar. Sjálfsagt er að hlúa m.a. að frjálsum félagasamtökum á þessu sviði með þeirri útfærslu sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Á síðasta þingi var frumvarpið sent til umsagnaraðila og fékk þá mjög jákvæðar umsagnir frá aðilum sem þekkja vel til mála. Meðal aðila sem studdu frumvarpið voru Bandalag íslenskra leikara, Bandalag íslenskra listamanna, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag íslenskra leikara, Háskóli Íslands, Listasafn Íslands, Rannsóknarráð Íslands, Rithöfundasamband Íslands, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Vísindafélag Íslands.
    Aukin framlög til þessara málaflokka, þ.e. til menningar, kvikmynda og vísinda, leiða til aukinna umsvifa sem síðar skila tekjum í ríkissjóð, m.a. í formi virðisaukaskatts eða tekjuskatts einstaklinga. Þannig er líklegt að ívilnun á þessu sviði, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, leiði til aukningar á tekjum ríkisins, auk þess að auðga menningarlíf og vísindastarf.