Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 587 – 366. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um jafnréttisfræðslu fyrir æðstu ráðamenn.

Flm.: Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Margrét Frímannsdóttir,
Rannveig Guðmundsdóttir, Sighvatur Björgvinsson,
Svanfríður Jónasdóttir, Svavar Gestsson.


    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að móta stefnu um aðgerðir sem tryggi að æðstu ráðamenn þjóðarinnar hafi þekkingu á ólíkri stöðu kynjanna í þjóðfélaginu almennt og á sínu sviði sérstaklega. Í því skyni verði tekið saman vandað námsefni og haldin nám skeið sem ráðamönnum verði gert að sækja. Tryggt verði að þekkingunni verði haldið við með eftirliti og aðhaldi og með því að halda námskeið með reglulegu millibili.

Greinargerð.


    Markmiðið með framangreindum jafnréttisaðgerðum er að skapa samfélag þar sem bæði kynin búa við sömu möguleika, réttindi og skyldur á öllum sviðum samfélagsins. Til þess að þetta markmið náist, þarf að beita kynjaðri hugsun við alla stefnumörkun og aðgerðir fram kvæmdarvaldsins, Alþingis, fyrirtækja og stofnana.
    Íslenska ríkisstjórnin hefur á alþjóðavettvangi skuldbundið sig til að samþætta sjónarhorn kynjajafnréttis hefðbundnum stjórnmálum og stjórnun. Má þar nefna að samþætting gengur eins og rauður þráður í gegnum framkvæmdaáætlunina frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóð anna í Peking 1995. Norræna ráðherranefndin hefur sett sér það markmið að samþætting skuli einkenna allt starf á vegum nefndarinnar. Innan Evrópuráðsins og í framkvæmdaáætlun Evrópusambandsins í jafnréttismálum sem Íslendingar eiga aðild að í gegnum EES-samning inn er samþætting lykilhugtak og miklar vonir eru bundnar við þessa aðferðafræði.
    Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir næstu ár mun byggjast á samþættingarhugmyndum, samkvæmt bæklingi um samþættingu frá Skrifstofu janfréttismála. Pólitískur vilji hlýtur því að vera fyrir hendi til þess að leiðrétta þann ójöfnuð milli kynjanna sem allt samfélagið líður fyrir. Þennan vilja þarf að sýna í verki.
    Samþætting byggir á þeirri staðreynd að staða kynjanna sé á flestum sviðum ólík og taka þurfi tillit til þess við alla ákvarðanatöku. Grunnforsenda þess að samþætting takist er pólit ískur vilji, kyngreindar upplýsingar, fræðsla og eftirfylgni. Fræðin um hin félagslegu kyn, eða kynjafræði eins og það er nefnt í bæklingi Skrifstofu janfréttismála um samþættingu, er þekkingarsvið. Það er ekki hægt að krefjast ábyrgðar á samþættingu jafnréttissjónarmiða af fólki sem ekki hefur til þess kunnáttu. Til þess að um raunverulega samþættingu verði að ræða þarf jafnréttisfræðsla því að verða forgangsverkefni.
    Jafnréttisvinnan hefur hingað til verið unnin af sérfræðingum án pólitískra valda eða nauðsynlegs fjármagns, en samþætting gerir ráð fyrir að jafnréttisvinna verði eðlilegur hluti allra starfa í stjórnmálum og stjórnsýslu. Áhrifamestu gerendurnir eru að sjálfsögðu þeir sem hafa mestu völdin og fjármagnið, eða æðstu ráðamenn þjóðarinnar. Með æðstu ráðamönnum er hér átt við ráðherra ríkisstjórnarinnar, forstjóra ríkisstofnana, biskup, ríkissaksóknara, dómara og rektora háskóla. Þessum aðilum verður að vera ljóst hver ábyrgð þeirra og áhrifamáttur er á stöðu kynjanna. Þeirri ábyrgð má líkja við ábyrgð á fjármálum eða öryggismálum sem engir stjórnendur geta skorast undan, hver svo sem starfsvettvangur þeirra er eða hvort þeir hafa sérstakan áhuga á þessum sviðum.
    Svíar hafa gert myndarlegt átak til þess að tryggja lágmarksþekkingu æðstu stjórnenda sinna á ólíkri stöðu kynjanna á mismunandi sviðum samfélagsins. Það var Mona Sahlin sem hóf þessi námskeið í jafnréttisráðherratíð sinni. Fyrstur til þess að setjast á skólabekk var Ingvar Carlsson þáverandi forsætisráðherra og sýndi þannig aðdáunarvert fordæmi fyrir aðra ráðamenn. Síðan hafa allir sænskir ráðherrar farið á slík námskeið, ásamt aðstoðarmönnum sínum, ráðuneytisstjórum, biskupum, forstjórum ríkisstofnana, blaðafulltrúum o.fl. Nám skeiðin hafa verið tvíþætt. Annars vegar hefur sænsku þjóðinni verið lýst út frá stöðu kynj anna á mismunandi aldri og sviðum og kyngreind tölfræði óspart notuð í þessum tilgangi. Hins vegar hafa námskeiðin verið aðlöguð mismunandi þekkingarsviðum ráðamanna. Þessi fræðsla og vitundarvakning er ein ástæða þess að staða kvenna í Svíþjóð er umtalsvert betri en staða íslenskra kvenna.
    Á Íslandi hefur safnast mikil þekking á ólíkri stöðu kynjanna og kynjafræðum, þótt enn sé mikið verk óunnið. Mikilvæg sérfræðiþekking hefur myndast við Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands og tekin hefur verið upp kennsla á þessu sviði við Há skólann. Skrifstofa jafnréttismála, Kvennaathvarfið, Kvennalistinn, Stígamót, kvennablaðið Vera, karlanefnd Jafnréttisráðs og fleiri aðilar hafa einnig dregið fram í dagsljósið mikilvæg ar upplýsingar um stöðu kynjanna sem nauðsynlegt er að taka mið af. Kyngreind tölfræði er að verða mun aðgengilegri, sbr. t.d. bækling Hagstofunnar „Konur og karlar“ (1993, 1997). Það ætti því að vera vel framkvæmanlegt að taka saman gagnlegt fræðsluefni og fá hæfa sér fræðinga til kennslustarfa. Símenntun þarf að tryggja með því að halda námskeið með reglu legu millibili og með eftirliti og aðhaldi. Aðhald mætti veita með ýmsum hætti. Í Svíþjóð hef ur það verið gert með því að aðstoðarmenn ráðherra hittast mánaðarlega og eiga að fylgja því eftir, hver á sínu sviði, að öll starfsemi sé í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um samþættingu. Þeir bera einnig ábyrgð á að nauðsynleg þekking sé aðgengileg.
    Ef vilji er fyrir hendi til að sýna samþættingu í verki er jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráða menn einföld, ódýr og áhrifarík aðgerð til vitundarvakningar og hefur mikilvægt fordæmis gildi fyrir aðra þjóðfélagsþegna.