Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 588 – 290. mál.


Nefndarálitum frv. til l. um húsaleigubætur.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.    Almennar húsaleigubætur hvetja fólk til þess að leigja sér húsnæði, sérstaklega námsfólk sem getur valið um að búa hjá foreldrum sínum eða leigja sér íbúð. Eftirspurn eftir leigu húsnæði eykst, markaðsleiga hækkar og skortur gerir vart við sig. Þannig geta húsaleigubætur komið fram að hluta sem bætur til húseigenda. Kvöð um að húsaleigubætur eigi eingöngu við um íbúðir en ekki herbergi eykur eftirspurn eftir íbúðum en verðfellir herbergi, sem ekki falla undir skilyrði fyrir bótum.
    Til þess að rökstyðja áhrif húsaleigubóta á upphæð leigu skal tekið dæmi um einstætt foreldri með tvö börn sem stendur til boða að leigja tvær algerlega sambærilegar íbúðir í Fossvogi. Önnur er Kópavogs megin og kostar 35.000 kr. á mánuði. Hin er Reykjavíkur megin og kostar 45.000 kr. Kópavogur greiðir ekki húsaleigubætur en Reykjavíkurborg greiðir þessari fjölskyldu 21.000 kr. á mánuði (tæp 13.000 kr. eftir skatt). Fjölskyldan er 3.000 kr. betur sett með því að leigja íbúðina Reykjavíkurmegin þó að hún sé um 30% dýrari. Þannig ætti húsaleiga að vera hærri í Reykjavík vegna húsleigubótanna ef leigu markaðurinn er sæmilega upplýstur.
    Fram kom á fundi nefndarinnar að mikil spenna er á leigumarkaði í Reykjavík og skortur á góðu leiguhúsnæði en ekki er ljóst hvort það stafar af upptöku húsleigubóta eða af betra efnahagsástandi.
    Setja má spurningarmerki við þá stefnu að skylda sveitarfélög almennt til þess að greiða húsaleigubætur. Hins vegar er ljóst að þar sem ríkið greiðir 60% af húsaleigubótum en að eins sumir skattgreiðendur njóta þeirra vakna spurningar um hvort jafnræðisreglan sé í heiðri höfð. Þeir skattgreiðendur sem búa í sveitarfélagi sem ekki hefur tekið upp greiðslu húsaleigubóta eiga ekki kost á þeim bótum þó að þeir fullnægi skilyrðum að öðru leyti en þeir greiða bætur hinna með sköttum sínum.
    Reglur um greiðslu húsaleigubóta koma hvergi fram í frumvarpinu en þeim er lýst í at hugasemdum við ákvæði II til bráðabirgða. Reglur um bætur virðast vera nokkuð eðlilegar að því er börn varðar. En hjón, jafnvel með aldraða foreldra í heimili, fá hins vegar samtals sömu bætur og einstaklingur þó að telja verði að þau muni þurfa nokkru stærra húsnæði. Bæturnar eru takmarkaðar við 50% af leigufjárhæð, þó aldrei hærri en 21.000 kr. á mánuði. 50% mörkin hafa sennilega ekki mikið gildi nema úti á landi og þau hvetja til hærri leigu í einstaka tilfelli. Hins vegar gera 21.000 kr. mörkin það að verkum að barnafjölskyldur fá ekki bætur fyrir fleiri börn en tvö til þrjú. Áður var nefnt að hagur annarra fjölskyldugerða, t.d. óhefðbundin fjölskylda með þrjú uppkomin systkini, er mjög illa tryggður.
Prentað upp.

    Skerðingarákvæði reglnanna eru með ólíkindum. Bæturnar eru skertar um 24% af sam anlögðum tekjum fjölskyldunnar umfram 125.000 kr. á mánuði, óháð fjölskyldustærð. Húsnæð isbætur einstaklings byrja að skerðast við sömu tekjumörk og húsnæðisbætur sex manna fjöl skyldu eða þegar heildartekjur hvors um sig ná 125.000 kr. á mánuði. Þetta er alveg ótækt kerfi og mjög andfélagslegt. Vegna skerðinganna falla bæturnar niður ef heildartekjur fjöl skyldunnar eru meiri en 155.000 kr. á mánuði hjá barnlausu fólki en 212.000 kr. hjá fólki með þrjú börn. Nú ætti öllum að vera ljóst að stór barnmörg fjölskylda þarf hærri tekjur til að lifa en einstaklingur. Þess vegna geta barnafjölskyldur í raun ekki fengið húsaleigubætur en verkfræðingur með nokkuð góðar tekjur (150.000 kr. á mánuði) fær húsaleigubætur. Mjög brýnt er að endurskoða þessar reglur um tekjumörk og skerðingu þannig að þær verði félags lega réttlátari. T.d. mætti hækka bæturnar umtalsvert og hver fjölskyldumeðlimur fengi bætur en ekki einungis börn. Jafnframt mætti skerða bæturnar um hverja krónu sem fjölskylda hefur í tekjur. Skerðingin gæti verið miklu lægri en þau 24% sem nú eru í gildi. Þannig er mætt þörfum stórra fjölskyldna, óhefðbundinna fjölskyldna og fjölskyldna með mjög lágar tekjur.
    Framangreindar reglur skýra af hverju kerfið er aðallega notað af barnlausum einstakling um ( 2/ 3) en ekki af barnafjölskyldum. Sex manna fjölskylda þarf meira en 220.000 kr. á mánuði til að lifa og fær því ekki húsnæðisbætur! Frítekjumörkin gera það auk þess að verkum að fjölskylda með alls engar tekjur fær sömu húsnæðisbætur og sambærileg fjölskylda með 125.000 kr. mánaðartekjur þrátt fyrir miklu meiri þörf. Hámark bótanna við 21.000 kr. á mánuði og 50% af leigu koma mjög illa við stórar fjölskyldur og fjölskyldur með mjög lágar tekjur. Hvernig eiga þær að greiða hinn helminginn af leigunni? Þessar reglur leiða svo til mjög brattrar skerðingar eða 24% af tekjum. Að teknu tilliti til tekjuskatts og skerðingar barnabóta vegna tekna myndast mjög afdrifarík fátæktargildra.
     Hin mikla tenging eigna við leigubætur þýðir 6% jaðarskatt á eignir umfram 3 millj. kr. Þessi hluti eigna er því tekinn af fólki á 17 árum. Æskilegra er að þessi tenging sé mildari en að hún taki til allra eigna.
    Erfitt er að átta sig á samspili Lánasjóðs íslenskra námsmanna og húsaleigubótanna. Fram kom á fundum nefndarinnar að þriðjungur bótaþega er námsfólk. Þeir fá lánað fyrir fram færslukostnaði hjá LÍN, þar með húsnæðiskostnaði. Þeim er tryggð 56.000 kr. framfærsla á mánuði á námstímanum og þeir geta haft 180.000 kr. tekjur á ári. Námslánið skerðist um 50% af tekjum umfram þessi mörk en til tekna teljast húsaleigubætur fyrra árs. Námsfólk sem ekki þarf að vinna fær fullar bætur en námsfólk sem vinnur fær hálfar húsaleigubætur til viðbótar láninu sem ætlað er að hluta til húsnæðis. Hér er því verið að tvíbæta sama hlut inn. Telja ætti námslánið til tekna eða draga húsaleigubæturnar að fullu frá námsláninu jafn óðum sem er sennilega betri lausn. Ætti LÍN að taka upp samstarf við sveitarfélögin til þess að hindra slíka tvítryggingu.
    Í frumvarpinu koma fram nokkur furðuleg ákvæði um hvað telst til tekna. Þannig eru tekj ur skólafólks og „barna“ undir 20 ára ekki taldar með til frádráttar húsaleigubótunum en tekjur fullorðinni, t.d. fyrir að skúra gólf teljast að fullu. Sama á við um tekjur fjölskyldunnar frá almannatryggingum. Þær eru helgari en skúringatekjurnar. Fjölskylda, sem nýtur bóta frá almannatryggingum, getur því fengið húsnæðisbætur á meðan önnur fjölskylda með nákvæm lega sömu heildartekjur fær ekki bætur. Þetta getur verið dálítið erfitt að skilja.
    Samkvæmt frumvarpinu eru gerðar nokkrar kröfur til þess húsnæðis sem fólk má búa í til þess að hljóta bætur. Það má ekki vera einstaklingsherbergi eða íbúð þar sem eldhús eða snyrting er sameiginlegt með fleirum. Við þetta er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi má spyrja hvað ríkisvaldinu komi það við hvernig borgarinn kýs að búa, þ.e. hvort hann vill spara við sig í húsnæði og eyða t.d. í menningu. Í öðru lagi eru margir sem hafa stopular tekjur og geta því ekki leyft sér að leigja dýra íbúð. Þeir fá ekki bætur. Mörg einstaklingsherbergi, t.d. á stúdentagörðum, eru með ágætis aðgangi að eldhúsi og snyrtingu. Auk þess eru til önnur lög og reglur sem gæta þess að húsnæði sé sómasamlegt. Engin trygging er fyrir því að íbúðin sé góð þótt henni fylgi snyrting og eldhúshola.
    Í frumvarpinu er gerð krafa um að leigusamningi sé þinglýst. Ekki kom fram á fundum nefndarinnar til hvers þetta ómak og kostnaður leigutaka væri en helst var svo að skilja að það væri til að koma í veg fyrir svik leigutaka og málamyndagerð. Auðvelt á að vera að kanna réttmæti skriflegra leigusamninga og fráleitt að láta heiðarlegt fólk standa í útrétting um og kostnaði vegna örfárra óprúttinna aðila.
    Kerfi húsaleigubóta, sem í gildi hefur verið, er mjög gallað. Það oftryggir vissa hópa, þ.e. einstaklinga með góðar tekjur, en stórir hópar eru illa tryggðir eins og rakið er hér að fram an.
    Minni hlutinn leggur því til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að ekki sé gerð krafa um þinglýsingu húsaleigusamnings.
     2.      Lagt er til að húsaleigubætur taki mið af öllum fjölskyldumeðlimum þannig að t.d. aldraðir foreldrar skipti ekki síður máli en börn.
     3.      Ekki er gerð krafa um að bæturnar nái eingöngu til íbúða með snyrtingu og eldhúsi, sbr. rökstuðning hér að framan.
     4.      Ekki verður séð hvers vegna hvetja á fólk til þess að leigja dýrt húsnæði með því að setja 50% þak á bæturnar miðað við leiguna. Hver fjölskylda á rétt á ákveðnum bótum og ef hún vill búa spart verður það að teljast hennar mál. Hún á ekki að eiga rétt á minni bótum þó að hún sýni ráðdeildarsemi í húsnæðiskostnaði. Þess vegna er lagt til að felld ar verði brott 2. og 3. mgr. 7. gr. frumvarpsins sem fjalla um markaðsleigu, sem erfitt getur verið að sannreyna, „íburðarmikið og óhóflegt“ húsnæði og takmörkun á leigufjár hæð félagasamtaka.
     5.      Tekjur þeirra sem eru 20 ára og yngri eru ekki taldar með tekjum fjölskyldunnar. Þessar tekjur geta verið umtalsverðar, t.d. tekjur 19 ára sjómanna. Ekki verður séð hvers vegna meðhöndla ætti þessar tekjur, sem og tekjur skólafólks, öðruvísi en aðrar tekjur fjöl skyldunnar, t.d. tekjur fyrir skúringar á kvöldin. Auk þess er hér möguleiki á misnotkun með því að launþegi skrái sig í skóla. Því er lagt til að niður falli ákvæði um að undan skilja þessar tekjur.
                  Tekjur fólks frá almannatryggingum eru hvorki betri né verri en aðrar tekjur. Ef bæt ur almannatrygginga eru undanskildar er það fólk betur sett fjárhagslega en það fólk sem vinnur fyrir tekjum sínum. Því er lagt til að fellt verði brott ákvæði um að undan skilja þessar tekjur. Þá er gert ráð fyrir að minnka verulega eignatenginguna en láta hana taka til allra eigna.
     6.      Gerð er tillaga um að fellt verði brott ákvæði 10. gr. um að leigusamningi sé þinglýst sbr. hér að framan.
     7.      Ekki er eðlilegt að umsækjandi verði að líða fyrir það ef afgreiðsla umsóknar dregst og því er lagt til að bæturnar greiðist frá þeim tíma sem umsókn barst og skilyrði eru upp fyllt í stað þess að miða við þegar rétturinn hefur verið staðreyndur.
     8.      Ekki þarf að taka fram í lögum að skuldbindingar fólks og réttindi falla niður við andlát og því er lagt til að 3. mgr. 14. gr. falli brott.

Alþingi, 17. des. 1997.Pétur H. Blöndal.