Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 641 – 338. mál.


Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða Þorláksson og Ragnheiði Snorradóttur frá fjármálaráðuneyti, Þorgeir Örlygsson prófessor, Helga V. Jónsson hrl., Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Þorvarð Gunnarsson, Árna Tómasson og Ólaf Nilsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda. Þá barst nefndinni umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði um skatt lagningu hagnaðar af sölu á ófyrnanlegum réttindum, svo sem aflahlutdeild og öðrum hlið stæðum réttindum í sjávarútvegi, verði fært undir 14. gr. skattalaga þar sem er að finna almenn ákvæði um skattlagningu söluhagnaðar. Í öðru lagi er lagt til að við lögin bætist ný grein með yfirskriftinni ófyrnanleg réttindi. Ákvæði greinarinnar eru almenn í þeim skilningi að þau taka til allra keyptra réttinda sem ekki rýrna við notkun, en í greininni er tekið fram að þau taki til keyptra réttinda til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem aflaheimildum og sambærilegum réttindum. Í þriðja lagi er að finna nánari útfærslu á því hvernig meta skuli eignir sem taldar eru falla undir 73. gr. skattalaga og í fjórða lagi er m.a. gert ráð fyrir að á næstu þremur árum eftir gildistöku frumvarpsins verði heimildir til fyrningar á stofnkostnaði vegna aflahlutdeildar sem keypt var fyrir gildistöku laganna lækkaðar í áföngum og rekstraraðilum heimiluð allt að 45% fyrning á árunum 1998–2000 til viðbótar við allt að 20% fyrningu vegna rekstrar á árinu 1997.
    Í nefndinni var sérstaklega rætt orðalag lokamálsliðar 3. mgr. 50. gr. A, þ.e. 2. gr. frum varpsins, en í greininni segir að um hagnað vegna sölu á ófyrnanlegum réttindum skv. 1. mgr. 50. gr. A fari skv. 5. og 6. mgr. 14. gr. skattalaga, en í 1. gr. frumvarpsins er síðastnefnd ákvæði að finna. Þá segir í ákvæðinu að verðmæti keyptra réttinda sem ekki er heimilt að fyrna sé eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Þó sé heimilt að telja til rekstrar kostnaðar skv. 31. gr. skattalaga verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður. Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að réttindin geti fallið niður, t.d. með því að nú verandi fiskveiðistjórnunarkerfi verði lagt af. Til nánari skýringar á því hvað megi telja til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. telur meiri hluti nefndarinnar rétt að árétta að verðmæti rétt indanna teljast að fullu til rekstrarkostnaðar ef þau falla alveg niður. Séu verðmætin hins vegar skert verulega með lögum án þess að þau falli alveg niður telst verðmætaskerðingin hlutfallslega til rekstrarkostnaðar.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGU:


    Við 2. gr. Við lokamálslið a-liðar 3. mgr. bætist: eða hlutfallslega ef þau eru skert verulega lögum samkvæmt.

Alþingi, 18. desember 1997.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Sólveig Pétursdóttir.



Valgerður Sverrisdóttir.




Pétur H. Blöndal.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.