Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 647 – 1. mál.



Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



Tekjugreinin og efnahagsforsendur.

    Endurskoðuð tekjuáætlun ríkissjóðs gerir ráð fyrir að tekjurnar verði 2,3 milljörðum kr. hærri en í fjárlagafrumvarpinu. Um 900 millj. kr. má rekja til breytinga á tekjugrunni og rúmar 500 millj. kr. til aukinnar skattheimtu. Þar af eru um 400 millj. kr. vegna fjármagns tekjuskatts sem ríkið greiðir af eigin vaxtatekjum og færist því einnig til gjalda og hefur ekki áhrif á nettó afkomu ríkissjóðs. Þá eru tekjur af eignasölu áætlaðar 800 millj. kr. hærri en í frumvarpinu vegna endurskoðaðrar áætlunar um hagnað af sölu eignanna. Er það skýrt með því að sölu á hluta ríkissjóðs í Íslenska járnblendifélaginu sem átti að fara fram á þessu ári var frestað til næsta árs, svo og með hækkun á söluverðmæti hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Er sú hækkun rakin til góðrar afkomu bankakerfisins á þessu ári.
    Fram kom að Þjóðhagsstofnun telur ekki ástæðu til þess að endurskoða efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins sem gerir m.a. ráð fyrir 3,5% hagvexti á næsta ári og 5,2% aukningu á kaupmætti ráðstöfunartekna. Áfram er spáð verulegum viðskiptahalla eða um 3,4% af landsframleiðslu og að innflutningur aukist meira en útflutningur. Kemur það fram í því að erlendar skuldir þjóðarbúsins fara vaxandi. Áætlað er að þær aukist um 3,5% að raungildi á þessu ári og um 4,5% á því næsta. Að mati Þjóðhagsstofnunar er nokkuð liðið á hagsveifl una og því megi búast við því að afkoman verði nokkuð lakari á næstunni. Gerir stofnunin ráð fyrir tiltölulega háum vöxtum á næstu árum og bendir á að um þessar mundir sé nokkur þrýstingur á verðlag vegna mikilla umsvifa í þjóðfélaginu.

Þróunin 1997.

    Minni hlutinn bendir á að efnahagsforsendur fjárlaga 1997 hafa reynst fjarri lagi. Einka neysla er áætluð verða 5,0% í stað 3,5%, samneysla 2,2% í stað 1,5% og fjárfesting 18,6% en var spáð að yrði 5,5%. Innflutningur vex um 9,6% í stað 5,7% og þjóðartekjur munu auk ast um 5,0% í stað 2,5% eins og spáð var. Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 6,7% samanborið við 3,5% í forsendum fjárlaga. Tekjur ríkissjóðs á árinu reyndust verulega van áætlaðar og er nú gert ráð fyrir að þær verði um 5,7 milljörðum kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Er það mjög svipað og minni hlutinn spáði í fyrra við afgreiðslu fjárlaga. Er það verulegt áhyggjuefni hversu ónákvæmar spár um helstu þjóðhagsstærðir hafa reynst síðustu ár og er ástæða til þess að athuga sérstaklega hvernig á því stendur og hvað er til úrbóta.


Hallarekstur blasir við.

    Minni hlutinn telur að þessu sinni að nokkuð sé vanmetinn hagvöxturinn á næsta ári eink um vegna líklegrar meiri einkaneyslu en Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir. Gera má því ráð fyrir heldur meiri tekjum ríkissjóðs sem því nemur eða 1–1,5 milljörðum kr. Fyrirsjáanlegt er að draga muni úr fjárfestingum þegar líður á árið, en enn meira árið l999. Að öðru leyti verður að telja efnahagsforsendur fjárlaganna líklegar. Undanfarin ár hafa tekjur ríkissjóðs verið verulega vanmetnar, eins og áður segir, en margt bendir til þess að svo sé ekki nú um fram það sem áður er hér bent á og kemur þar til að hagsveiflan virðist hafa náð hámarki. Þvert á móti ber nú á að tekjuforsendur fjárlaganna virðast ekki allar vera traustar. Þar má nefna tekjur af sölu eigna sem hafa reynst ofmetnar á þessu ári og svo gæti einnig hæglega orðið á næsta ári. Þá telur minni hlutinn að verulegir veikleikar séu á gjaldahlið frumvarps ins. Háar fjárhæðir vantar til reksturs sjúkrahúsa landsins og undanfarin ár hefur verið kerf isbundið vanmat á útgjöldum almannatrygginga. Varlega áætlað gæti verið um liðlega 2 milljarða kr. vanmat á þessum útgjöldum að ræða. Að öllu samanlögðu verður að telja að yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög hvíli á afar veikum grunni og að um talsverður halli verði á ríkissjóði þegar upp er staðið.

Tekjugrundvöllinn þarf að styrkja.

    Ríkisstjórnin treystir sér augljóslega ekki í niðurskurð á útgjöldum og því blasir við að auka verður tekjur ríkissjóðs. Minni hlutinn hefur bent á að auka megi tekjur ríkissjóðs um milljarða kr. með auknu skatteftirliti og sérstökum aðgerðum gegn skattsvikum, svo og betri innheimtu útistandandi krafna ríkissjóðs. Þá bendir minni hlutinn á að í góðæri er eðlilegt að sækja aukið fé til sameiginlegra þarfa til atvinnurekstrar með auknum sköttum og breytt um lagaákvæðum um frádrátt einstakra útgjalda frá tekjum. Þegar verr áraði fyrir nokkrum árum var sköttum létt af fyrirtækjum og skattbyrðin flutt yfir á almenning. Var þar um að ræða um 4 milljarða kr. Nú árar betur og hefur gert um skeið og er þá sjálfsagt að flytja hluta af skattbyrðinni til baka. Ákveðið hefur verið að lækka skatta á almenning og telja verður eðlilegt að atvinnulífið beri þá skattalækkun að nokkru leyti. Hefur minni hlutinn bent á að hækka megi tryggingagjald um 0,5% og afla þannig um 1,2 milljarða kr. Einnig má telja eðli legt að skatthlutfall hagnaðar af rekstri fyrirtækja verði það sama og á launatekjur eða 39% í stað 33% eins og nú er. Slík hækkun mundi skila um einum milljarði kr. í ríkissjóð. Þá vill minni hlutinn benda á að reglur um ónotað rekstrartap til frádráttar hagnaði eru nokkuð rúm ar. Talið er að ónotuð rekstrartöp séu um 78 milljarðar kr. eða liðlega fjórum sinnum hærri fjárhæð en samanlagður tekjuskattstofn allra fyrirtækja. Í einum landsfjórðungnum eru ónot uð rekstrartöp 25 sinnum hærri en tekjuskattsstofninn en það þýðir engar skattgreiðslur í 25 ár. Í öðru skattumdæmi duga ónotuð rekstrartöp fyrirtækja í 42 ár og þar sem ónotuð rekstr artöp eru lægst sem hlutfall af tekjuskattsstofni eru þau þó þrisvar sinnum hærri en tekju skattsstofninn. Eðlilegt er að huga að því að setja þrengri tímamörk en nú gilda um nýtingu rekstrartaps. Enn má benda á möguleika á að skattleggja sérstaklega söluhagnað aflaheim ilda í sjávarútvegi við þær aðstæður að fjármagn væri fært út úr atvinnugreininni.
    Það er flestu öðru mikilvægara fyrir heimilin og atvinnulífið að ríkisfjármálin séu tekin föstum tökum og ekki teflt á tvær hættur í einu mesta efnahagslegu góðæri undanfarinna ára tuga. Vitað er að góðærið rennur sitt skeið og því munu tekjur ríkissjóðs dragast nokkuð saman að óbreyttum tekjustofnum. Litlu sem engu af ábata undanfarinna ára hefur verið var ið til þess að greiða niður skuldir eða byggja upp tekjuskapandi starfsemi sem styrkir íslenskt efnahagslíf. Útgjöld íslenska ríkisins hafa vaxið nokkuð í takt við auknar tekjur og það mun reynast þrautin þyngri að draga úr þeim þegar tekjurnar minnka. Því er óhjákvæmilegt að styrkja tekjugrundvöll hins opinbera.

Lánsfjárheimildir 7. gr.

    Það er ekki til marks um styrka og ábyrga fjármálastjórn þegar framkvæmdir hins opin bera fyrir milljarða kr. eru fjármagnaðar að mestu leyti og í sumum tilfellum eingöngu með lánsfé. Þar skulu fyrst nefndar virkjanaframkvæmdir upp á tugi milljarða kr., þar af á þessu ári liðlega 10 milljarða kr. Auk þess er í breytingartillögum meiri hlutans við 5.gr. frumvarpsins lagt til að hleypa af stokkunum dýrum framkvæmdum fyrir lánsfé. Áformað er að verja allt að 475 millj. kr. til að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga stækkunar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er áætlað að kosti 1.100 millj. kr. Annar og þriðji áfangi munu kosta um 1.700 millj. kr. hvor. Samtals eru þetta framkvæmdir fyrir hálfan fimmta milljarð kr. Önnur framkvæmd er við hús Ríkisútvarpsins að Efstaleiti 1 sem mun kosta um 960 millj. kr. Ráðgert er að fjármagna þá framkvæmd að fullu með lánsfé, þar af allt að 300 millj. kr. á næsta ári. Þriðja stórframkvæmdin, sem reyndar er þegar hafin, er bygging Náttúrufræði húss sem áætlað er að kosti liðlega 1 milljarð kr. Lagt er til að afla lánsfjár til þess á næsta ári um 180 millj. kr. og 70 millj. kr. á árinu 1999. Samtals kosta þessi mannvirki um 6½ milljarð kr. Þar af er ráðgert að fjárfesta fyrir um 1 milljarð kr. á næsta ári sem að mestu leyti er staðið undir með lánsfé. Það skýtur skökku við í góðærinu við nokkur þenslumerki að auka stórframkvæmdir ekki hvað síst þegar öðrum framkvæmdum hefur verið slegið á frest að undanförnu af þeim sökum. Má minna á tveggja milljarða kr. niðurskurð á fé til vegaframkvæmda á þessu ári og því næsta og spyrja hvort þensluáhrif verði ekki af fram kvæmdum fjármögnuðum með lánsfé.

Heimildir 7. gr.     

    Við 7. gr. frumvarpsins er gerð athugasemd við lið 8.7. Telur minni hlutinn eðlilegt að fjármagna markaðsátak erlendis o.fl. til þess að lengja ferðamannatímabilið á Íslandi með beinum fjárveitingum í stað þess að draga fjármagnið frá einstökum stofnunum samgöngu ráðuneytisins, einkum Vegagerð ríkisins. Þá telur minni hlutinn rétt að setja samræmdar regl ur um það hvenær fella skuli niður stimpilgjöld og vísar þar til reglubundinna ákvæða um heimild til þess að fella niður þau gjöld af flugvélum.

B- og C-hluta stofnanir.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.
    Minni hlutinn telur rétt að vekja athygli á rekstrarkostnaði nýstofnaðs Nýsköpunarsjóðs, en þar er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður nemi um 8 millj. kr. á hvert stöðugildi að við bættum stofnkostnaði. Það er meira en tvöfalt hærra en sambærilegur kostnaður á stöðugildi við sjúkrastofnanir landsins.

Byggingarsjóður verkamanna.
    Meiri hlutinn gerir ekki tillögu um breytingu á fjárhag Byggingarsjóðs verkamanna. Í fjár lagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að tap af rekstri sjóðsins á næsta ári nemi 800 millj. kr. Stafar það fyrst og fremst af því að framlag ríkissjóðs nemur aðeins 275 millj. kr. í stað 1.308 millj. kr. ef staðið væri við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá l992. Þá voru vextir af út lánum sjóðsins hækkaðir og ákveðið að miða við 500 ný framkvæmdalán á ári og til þess að ekki yrði gengið á eigið fé sjóðsins yrði ríkisframlagið sem næmi 1.308 millj. kr. á ári. Skemmst er frá því að segja að framlag ríkissjóðs hefur síðan verið skert ár hvert. Það hefur leitt af sér fækkun framkvæmdalána og stöðugan hallarekstur sjóðsins. Er nú svo komið að einungis 170 framkvæmdalán verða veitt á næsta ári eða aðeins 1/ 3af því sem upphaflega var áætlað. Á þessu tímabili, l993–98, verður skerðingin á framlagi ríkisins samtals 3.977 millj. kr. eða 50,7% af því sem það hefði átt að vera. Framlögin hafa verið 3.871 millj. kr. í stað 7.848 millj. kr. Langstærstur hluti skerðingarinnar, eða 2.909 millj. kr., hefur verið ákveðinn við fjárlagagerð þriggja síðustu ára. Er svo komið að Byggingarsjóðurinn stefnir hraðbyri í gjaldþrot og ef hann hefði verið gerður upp um síðustu áramót hefði vantað 6 milljarða kr. til þess að endar næðu saman. Félagsleg útlánastefna á sér greinilega fáa málsvara í röðum stjórnarliða.

Enn um sjúkrahúsin.

    Minni hlutinn hefur við þessa fjárlagagerð lagt höfuðáherslu á raunhæfar aðgerðir til lausnar á vanda sjúkrahúsanna. Niðurskurður síðustu ára og síendurteknar kröfur um aðhald og sparnað, langt umfram eðlilega sanngirni, hafa hneppt sjúkrahúsin í fjötra hallareksturs, sem er gjörsamlega að sliga þau og farin að bitna illa á sjúklingum og starfsfólki. Tillögur meiri hlutans duga hvergi nærri til varanlegrar lausnar á vanda sjúkrahúsanna.
     Uppsafnaður rekstrarhalli allra sjúkrahúsanna er nú í árslok u.þ.b. 1 milljarður kr. eftir hallarekstur síðustu ára, en því til viðbótar nemur augljós fjárvöntun til rekstrar sjúkra húsanna á næsta ári nær hálfum öðrum milljarði, þannig að samtals er rekstrarvandi sjúkrahúsanna í landinu nær 2,5 milljarðar kr.
    Á fjáraukalögum þessa árs er 200 millj. kr. óskipt fjárhæð, sem ætluð er til að mæta halla sjúkrahúsanna utan Reykjavíkur, en stóru sjúkrahúsin í Reykjavík eru skilin eftir með sam tals um 700 millj. kr. halla. Þar af er talið að þau gætu búið við um 300 millj. kr. halla, Rík isspítalarnir 200 millj. kr. og Sjúkrahús Reykjavíkur 100 millj. kr. Þannig er brýn fjárvöntun vegna uppsafnaðs halla þessara tveggja sjúkrahúsa er samtals 400 millj. kr.
    Að viðbættum þessum uppsafnaða rekstrarhalla er fjárvöntun Ríkisspítalanna til sambæri legs rekstrar á næsta ári áætluð 487 millj. kr. og Sjúkrahúss Reykjavíkur 465 millj. kr., eða samtals 952 millj. kr. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri telur sig vanta 150 millj. kr. til við bótar við frumvarpstölur, og flest hin sjúkrahúsin þurfa aukið fjármagn til þess að halda uppi svipaðri þjónustu og hingað til. Fjárvöntun allra sjúkrahúsanna á næsta ári nemur þannig nær hálfum öðrum milljarði og er deginum ljósara að 300 millj. kr. óskiptur liður á fjárlögum dugir hvergi nærri til að taka á þessum gríðarlega vanda.
    Sjúkrahúsin geta ekki búið við þessar aðstæður öllu lengur og í raun blasir því ekkert ann að við en stórlega skert þjónusta þessara mikilvægu stofnana samfélagsins. Minni hlutinn hefur ítrekað flutt tillögur um aukin framlög til sjúkrahúsanna og kynnt hugmyndir um tekju öflun á móti, en meiri hlutinn hefur ekki fallist á þær. Hann hlýtur þá að axla ábyrgðina af þessu ófremdarástandi, sem og af frumvarpinu í heild.

Alþingi, 19. des. 1997.



Kristinn H. Gunnarsson,


frsm.


Gísli S. Einarsson.



Kristín Halldórsdóttir.




Sigríður Jóhannesdóttir.