Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 698, 122. löggjafarþing 329. mál: vörugjald af ökutækjum (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki).
Lög nr. 140 23. desember 1997.

Lög um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 4. gr. laganna:
  1. 1. tölul. orðast svo: Hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 farþega eða fleiri að meðtöldum ökumanni, skulu undanþegnar vörugjaldi.
  2. Við 3. tölul. bætast tveir nýir stafliðir, f- og g-liður, sem orðast svo:
    1. Dráttarbifreiðar, þ.e. bifreiðar sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd.
    2. Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd yfir 5 tonn.
  3. Við a-lið 4. tölul. bætist: að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
  4. Við d-lið 4. tölul. bætist: að heildarþyngd 5 tonn eða minna.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þá eru ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, undanþegin gjaldskyldu.
  2. 5. tölul. 2. mgr. fellur brott.


3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Greiða skal skráðum eigendum dráttarbifreiða og vélknúinna ökutækja til sérstakra nota, sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd, sbr. 1. gr. laga þessara, og tollafgreidd voru eða gjaldskyld aðvinnsla var framkvæmd á, á tímabilinu frá 22. maí 1997 og fram til gildistöku laga þessara, helming af því vörugjaldi sem greitt var af ökutækinu, enda hafi verið greitt 30% vörugjald af því. Ef skráður eigandi er eignarleigufyrirtæki skal greiðsla þó bundin því skilyrði að henni verði ráðstafað til leigutaka bifreiðar. Ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um skilyrði og fyrirkomulag endurgreiðslu.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 1997.