Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 715 – 394. mál.



Frumvarp til laga



um breytingar á fyrirkomulagi áfengisverslunar.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson.



Breytingar á áfengislögum, nr. 82/1969, með síðari breytingum.


1. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er að fengnu samþykki fjármálaráðherra heimilt að setja á stofn útsölustaði áfengis. Staðarval skal miðast við að vörudreifing sé sem sambæri legust um land allt að teknu tilliti til hagkvæmni í rekstri og aðstæðna á hverjum stað, m.a. fjarlægðar frá öðrum útsölustöðum.

2. gr.

    13. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak,


nr. 63/1969, með síðari breytingum.


4. gr.

    Í stað 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Stjórn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skal skipuð fimm mönnum, kosnum hlutfalls kosningu á Alþingi að afloknum alþingiskosningum til fjögurra ára í senn. Stjórnin gefur um sögn til ráðherra um ráðningu forstjóra, sbr. 1. mgr. Stjórnin skal einnig vera ráðherra, for stjóra og starfsfólki til ráðuneytis um rekstur fyrirtækisins og fylgjast með því að hann sé í samræmi við lög og reglur. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um verksvið og skipulag stjórnarinnar.

5. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal starfa þjónustufulltrúi. Hann skal tryggja að þjónusta við viðskiptavini sé vönduð og jafnframt annast kynningu á starfsemi fyrirtækisins eftir því sem samrýmist lögum þessum, áfengislögum og öðrum lagafyrirmælum og reglum á hverjum tíma.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Kjósa skal nýja stjórn ÁTVR, sbr. 4. gr., svo fljótt sem við verður komið og skal hún starfa þar til önnur hefur verið kosin að afloknum næstu alþingiskosningum.

Greinargerð.


    Tilgangur þessa frumvarps er að gera nokkrar breytingar á lagaákvæðum sem varða Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og snerta möguleika fyrirtækisins til að veita viðskipta vinum sínum nútímalega þjónustu og á jafnræðisgrundvelli um allt land, eftir því sem kostur er.
    Flutningsmenn eru eindregnir stuðningsmenn þess að ríkið haldi áfram einkarétti til að versla með áfengi í smásölu í sínum höndum og til að flytja inn og selja tóbak í heildsölu.
    Reynsla Íslands, flestra hinna ríkja Norðurlandanna og fleiri þjóða er ótvírætt sú að slíkt fyrirkomulag sé áhrifaríkt tæki í höndum stjórnvalda til að fylgja fram aðhaldssamri stefnu í áfengismálum. Slík aðhaldssöm áfengisstefna er aftur mikilvægur hluti af heilbrigðis-, fé lagsmála- og velferðarmarkmiðum ríkjanna.
    Til þess að góð sátt megi áfram haldast um þá tilhögun að ríkið hafi smásöludreifingu áfengis með höndum er nauðsynlegt að þjónusta við viðskiptavini geti þróast í takt við breytta tíma.
    Því eru í frumvarpi þessu lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum áfengislaga og laga um verslun með áfengi og tóbak. Þær eru:
     1.      Ákvæði um lágmarksíbúafjölda í byggðarlagi þar sem opna má útsölu falli brott. ÁTVR fái tiltölulega frjálsar hendur í þeim efnum, þar með talið að opna verslun með áfengi í fámennari byggðarlögum fjarri núverandi verslunum.
     2.      Felld verði niður ákvæði í lögum sem krefjast staðgreiðslu og hafa verið túlkuð þannig að ÁTVR gæti ekki tekið við greiðslu með krítarkortum.
     3.      Rýmkaðir verði möguleikar til að láta afgreiðslutíma áfengisverslana fylgja afgreiðslutíma verslana almennt.
     4.      Breytt verði ákvæðum um stjórn ÁTVR sem fjármálaráðherra hefur einn skipað fyrirtækinu síðan 1995.
     5.      Stofnað verði embætti þjónustufulltrúa við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
    Að öðru leyti vísast í skýringar við einstakar greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Breytingin felur í sér að fellt er brott það ákvæði núgildandi 1. mgr. 10. gr. áfengislaga að heimild (ríkisstjórnarinnar) til að setja á stofn útsölustaði áfengis sé bundin við það að meiri hluti íbúanna búi í þéttbýli og íbúafjöldi hafi náð a.m.k. 1000 í þrjú ár samfellt. Áfram mundu gilda þau ákvæði 10. gr. að meiri hluti samþykki útsölu í almennri kosningu í viðkom andi sveitarfélagi.
    Í stað núgildandi ákvæðis um 1000 íbúa lágmark komi ákvæði um að stefnt skuli að því að vörudreifing verði sem sambærilegust um land allt að teknu tilliti til aðstæðna, m.a. fjar lægðar frá öðrum útsölustöðum en einnig hagkvæmni. Orðalag þetta dregur dám af ákvæðum 23.–26. gr. reglugerðar nr. 607/1995, um ÁTVR. Eðlilegt er að frumkvæði hvað þennan þátt þjónustu fyrirtækisins við landsmenn snertir sé í höndum þess, en afla skuli samþykkis ráð herra.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að 13. gr. áfengislaga falli brott. Þar segir að Áfengis- og tóbaks verslun ríkisins, útsölur hennar og veitingastaðir, sem leyfi hafa til veitingar áfengra drykkja, megi aðeins afhenda áfengi gegn staðgreiðslu. Þetta hefur verið túlkað þannig að ÁTVR hef ur í útsölum sínum ekki treyst sér til að taka við greiðslum með krítarkortum þar sem slíkt sé lánssala. Veitingastaðir og fríhafnir stunda hins vegar slík viðskipti og möguleikar heild sala til lánsviðskipta eru ekki takmarkaðir að lögum. Eðlilegt er að ÁTVR geti stundað við skipti á sambærilegum grunni og aðrir að þessu leyti og því er lagt til að 13. gr. falli brott.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að 1. mgr. 14. gr. áfengislaga falli brott. Þar er kveðið á um að áfengissölubúðir skuli vera lokaðar á ýmsum hátíðis- og helgidögum og í tengslum við kosn ingar, en einnig eftir hádegi á laugardögum.
    Þessi ákvæði gera það að verkum að afgreiðslutími í verslunum ÁTVR getur í vissum til vikum ekki verið í takt við það sem almennt tíðkast í verslunum, t.d. þar sem áfengisverslun er í verslunarmiðstöð.
    Í 15. gr. áfengislaga er heimild til dómsmálaráðherra til að setja reglur um sölu og veit ingar áfengis. Afgreiðslutími verslana ÁTVR ætti að takmarkast af slíkum reglum eftir því sem ástæða væri talin til í tengslum við opinbera stefnu í áfengismálum, líkt og starfsemi vín veitingahúsa.

Um 4. gr.

    Ákvæði um stjórn ÁTVR er frá 1995 og felur í sér að fjármálaráðherra skipar einn stjórn fyrirtækisins og ákveður verksvið hennar. Deildar meiningar hafa verið um framgöngu stjórnarinnar frá því hún tók til starfa, einkum að því leyti sem hún hefur beitt sér sem stefnumótandi aðili í áfengismálum, fremur en rekstrarleg eða fagleg stjórn fyrirtækisins eða stofnunarinnar ÁTVR.
    Með hliðsjón af mikilli sérstöðu ÁTVR þykir rétt að stjórn fyrirtækisins, sé hún til staðar á annað borð, sé kosin af Alþingi. Hafi stjórnin það hlutverk m.a. að tryggja að rekstur og öll starfsemi fyrirtækisins sé á hverjum tíma í samræmi við lög og reglur og opinbera stefnu í áfengis- og tóbaksvörnum.

Um 5. gr.


    Lagt er til að stofnað verði við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins embætti þjónustufull trúa. Ljóst er að ÁTVR þarf í starfi sínu og tilvist að glíma við vissar mótsetningar. Þær fel ast í því að vera annars vegar þjónustufyrirtæki við almenning og hins vegar mikilvægt tæki í höndum hins opinbera til að tryggja framgang aðhaldssamrar opinberrar stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum og tóbaksvörnum.
    Dæmi um verkefni sem gæti fallið undir verksvið slíks þjónustufulltrúa er að koma upp lýsingum til viðskiptavina um vöruúrval og nýjar tegundir án þess að brjóta gegn skýlausu banni um auglýsingar.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.