Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 724 – 403. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um fjarstörf og fjarvinnslu í ríkisrekstri.

Flm.: Gunnlaugur M. Sigmundsson, Siv Friðleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að auka fjölbreytni atvinnu lífs í dreifbýli með því að innleiða með markvissum hætti „fjarstörf“ og „fjarvinnslu“ í ríkis rekstri.

Greinargerð.


    Fábreytni atvinnulífs í dreifbýli er talin ein af ástæðum þess hve hallað hefur á lands byggðina á undanförnum árum. Framboð á störfum hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum er mest á höfuðborgarsvæðinu þótt viðkomandi stofnunum sé ætlað að þjóna landinu öllu. Gerðar hafa verið nokkrar tilraunir til að flytja ríkisstofnanir út á land með misjöfnum árangri. Margir benda á að það þjóni illa íbúum landsbyggðarinnar að geta ekki sameinað þau erindi sem þeir kunna að eiga við hinar ýmsu stofnanir í einni ferð til höfuðborgarinnar. Störf í ríkisstofnunum krefjast í vaxandi mæli langskólamenntunar og aukinnar sérþekkingar meðan framboð á slíkum störfum er af skornum skammti í dreifbýli. Á sama tíma færist í vöxt að makar langskólagengins fólks séu einnig langskólagengnir. Þegar kemur að því að velja stað til búsetu að loknu námi er eðlilega horft til þess hvort líkur séu á að hjónin geti bæði fengið vinnu á sínu sviði. Skortur á fjölbreytni í störfum er talin ein af helstu ástæðum þess að menntað fólk sem ættað er af landsbyggðinni er ekki tilbúið að flytja aftur í fyrri heimabyggð að afloknu háskólanámi. Ef mjög fáir þeirra sem fara í langskólanám af lands byggðinni flytjast heim aftur að námi loknu er ljóst að afleiðingin verður mikill atgervisflótti sem ekkert byggðarlag fær staðist til lengdar.
    Tæknin hefur nú gert mönnum fært að búa og starfa fjarri vinnuveitanda. Með tilkomu tölvu, internets og tölvumyndavéla hefur gefist stórkostlegt tækifæri til að dreifa þeim störf um út um land sem ríkisvaldið þarf að láta vinna og skapa þannig raunverulegan möguleika fyrir fólk í dreifbýli til að búa við svipaða fjölbreytni í starfsvali og fólk í þéttbýli býr við. Sú tegund starfa sem tillaga þessi gerir ráð fyrir að komið sé á er hér nefnd „fjarstörf“ en enska hugtakið sem oft er notað yfir þessa tegund starfa er „telecommuting“. Nú þegar er mikið um fjarstörf í Bandaríkjunum og er reynslan af þeim svo góð að fyrirtæki á þéttbýlli svæðum eins og New York og Los Angeles eru jafnvel farin að hvetja starfsmenn sína til að vinna heima hluta úr vinnuvikunni. Vilja fyrirtækin með þessu minnka þann tíma sem fer í ferðir milli vinnustaðar og heimilis og fá þannig ánægðari starfskraft auk þess sem slíkt fyrirkomulag er liður í því að draga úr þeirri loftmengun sem fylgir aukinni umferð. Þá er og vitað að á Íslandi búa nokkrir einstaklingar sem inna störf af hendi fyrir fyrirtæki sem stað sett eru á vesturströnd Bandaríkjanna. Ef slíkt er gerlegt milli heimshluta ætti ekki að vera vandamál fólgið í því að færa störf í ríkisstofnunum út um land með sama hætti. Eins og svo oft áður er vilji allt sem þarf.
    Hugmynd flutningsmanna gengur út á að ákveðið hlutfall opinberra starfa verði á hverjum tíma veitt fólki sem býr á landsbyggðinni og sinnir starfinu þar með aðstoð tölvu og nútímafjarskiptatækni. Með tilkomu samskiptabúnaðar á borð við Lotus Notes, ljósleiðara, tölvu-skönnun skjala og annarri hraðvirki samskiptatækni er lítill munur á hvort starfsmenn sem vinna að sama verkefni sitja hver í sínu herbergi eða hver í sínum landshluta. Til að innleiða þann starfsmáta sem fylgir fjarstörfum mætti hugsa sér sem raunhæft markmið að þegar í stað verði tvö opinber störf færð yfir í hvert landsbyggðarkjördæmi og þau auglýst til um-sóknar sem fjarstörf. Á næsta einu og hálfu ári verði svo metið hvernig til tekst og ríkisrekst urinn aðlagaður frekari breytingum í þessa veru. Á grundvelli fenginnar reynslu verði stefnt að því að ekki færri en 2% allra opinberra starfa standi til boða sem fjarstörf árið 2003 og að í lok ársins 2007 verði ekki færri en 5% allra opinberra starfa fjarstörf. Einnig kæmi vel til greina að mati flutningsmanna að örva einkafyrirtæki til að bjóða upp á fjarstörf með því að veita tímabundna skattalega umbun fyrir hvert starf sem þannig væri búið til.
    Geri Íslendingar nú átak í að koma á fjarstörfum er þó langt í frá að við verðum fyrstir þjóða til að beita tölvutækninni með þessum hætti. Rakið hefur verið hversu vinsæl fjarstörf eru að verða í Bandaríkjunum. Í Vinnunni, blaði ASÍ, var fyrir skömmu sagt frá því að danska blaðið Aktuelt hefði greint frá nýlegri Gallup-könnun í Danmörku sem sýnir að u.þ.b. sjötti hver Dani vinnur heima með aðstoð tölvutækni. Skoðanakönnunin sýndi að Danir vilja mjög gjarnan vinna heima í einn til tvo daga í hverri viku. Flestir, eða 48%, sögðu ástæðuna vera frelsið til að ráða vinnutíma sínum, 6% nefndu barnagæslu og 23% sparnað í ferða-kostnaði. Blaðið Vinnan greinir einnig frá því að hinn mikli áhugi starfsfólks og atvinnurek enda á fjarvinnslu hafi ýtt við dönsku verkalýðshreyfingunni. Sagt er frá því að fyrir tíu árum hafi verkalýðshreyfingin litið á fjarstörf sem ógnun þar sem af þessari tegund starfa gæti leitt til „frumskógarvinnumarkaðar lausráðins fólks“ en nú sjái danska verkalýðshreyfingin fjarstörf sem leið til aukins áhrifamátts starfsfólks á skipulagningu og uppbyggingu eigin vinnu. Á árinu 1997 fékk yfir ein milljón danskra launþega ákvæði um fjarstörf í kjarasamn inga og hið sama má segja um 620.000 starfsmenn sveitarfélaga og 60.000 starfsmenn í banka- og fjármálastörfum.
    Ríkisstjórn Íslands er með þingsályktunartillögu þessari hvött til að hafa frumkvæði í sköpun fjarstarfa hér á landi og stuðla þannig á raunhæfan og markvissan hátt að jöfnun á framboði og fjölbreytni starfa milli landsbyggðar og þéttbýlis.