Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 725 – 404. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um heimild til hægri beygju á móti rauðu ljósi.

Flm.: Gunnlaugur M. Sigmundsson, Hjálmar Árnason.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum þess efnis að heimila megi hægri beygju á móti rauðu ljósi á gatnamótum.

Greinargerð.


    Í áraraðir hefur það fyrirkomulag gilt í Bandaríkjunum og Kanada að ökumönnum er heim ilt að beygja til hægri á gatnamótum þótt ekið sé móti rauðu ljósi, nema sérstaklega sé tekið fram að hægri beygja á móti rauðu ljósi sé óheimil. Ökumanni sem hyggst beygja til hægri á móti rauðu ljósi er engu síður skylt að stöðva eins og á gatnamótum þar sem stöðvunarskylda er en ekki umferðarljós. Slík regla hefur gefist vel í þessum löndum og margir Íslendingar sem flytjast heim eftir búsetu í Bandaríkjunum eða Kanada sakna þess hagræðis sem af þessu leiðir.
    Mikil fjölgun bifreiða kallar á stórfelldar og dýrar framkvæmdir við samgöngumannvirki til að umferð gangi öruggt og hindrunarlítið fyrir sig. Leyfi löggjöfin hægri beygju á móti rauðu ljósi mun slíkt verða til að auðvelda mjög umferð um gatnamót og spara sveitarfélögum stórfé sem þau ella þurfa að setja í ný samgöngumannvirki og vegi til að ná sama árangri. Á stöðum þar sem ekki er talið æskilegt að leyfa hægri beygju á móti rauðu ljósi væri slíks getið á viðkomandi gatnamótum. Bann við því að beygt sé til hægri mót rauðu ljósi er í umræddum löndum gefið til kynna með skilti sem á stendur „No turn on red“ ella gilda sömu reglur þegar beygt er til hægri og gilda þar sem stövunarskylda er á gatnamótum. Engin ástæða er til að ætla að regla sem þessi skili ekki sama jákvæða árangri í umferðinni hér á landi og hún gerir í Bandaríkjunum.
    Þingsályktunartillaga samhljóða þessari var flutt á síðasta þingi en var ekki afgreidd úr nefnd. Hún er nú endurflutt í þeirri von að hlutaðeigandi nefnd gefist ráðrúm til að afgreiða málið. Af þeim svörum sem flutningsmenn hafa undir höndum frá þeim aðilum sem sendu þingnefnd umsagnir um málið er ljóst að flestir telja þá breytingu sem hér er lögð til vera til hagsbóta. Sú skoðun fellur og að þeirri reynslu sem flutningsmenn hafa af akstri í þeim löndum sem leyfa hægri beygju á móti rauðu ljósi.