Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 726 – 405. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um hámarkstíma Stjórnarráðs Íslands og ríkisstofnana til að svara erindum.

Flm.: Gunnlaugur M. Sigmundsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja starfsreglur um hámarkslengd þess tíma sem Stjórnarráð Íslands og aðrar ríkisstofnanir mega hafa til að svara erindum er berast og að gera auk þess átak til að auka þjónustuvitund starfsmanna ríkisstofnana við almenning og fyrirtæki er þangað leita.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga samhljóða þessari var lögð fram á 121. löggjafarþingi. Málið var ekki afgreitt úr nefnd fyrir þinglok þannig að ekki var unnt að taka þinglega afstöðu til þess. Af gögnum hlutaðeigandi nefndar kemur fram að tillagan fékk almennt jákvæðar undirtektir hjá þeim sem sendu inn umsagnir um hana. Nýlega þurfti umboðsmaður Alþingis að gera athugasemdir við seinagang í afgreiðslu mála hjá fjármálaráðuneyti eftir að í ljós kom að dregist hafði að svara tilteknu máli svo mánuðum skipti. Slík uppákoma sýnir glögglega þörfina fyrir að settar séu fastmótaðar reglur um svartíma þeirra erinda sem berast til Stjórnarráðsins og annarra ríkisstofnana. Tillagan er endurflutt í þeirri von að hlutaðeigandi þingnefnd takist að afgreiða málið fyrir lok þinghalds vorið 1998.
    Meðal almennings og fyrirtækja er oft kvartað undan því að þjónustuvitund sé lítil hjá opinberum stofnunum og algengt er að erfiðlega gangi að fá svör opinberra aðila við einföldum erindum. Á ráðstefnu sem Félag löggiltra endurskoðenda og Lögfræðingafélag Íslands héldu í Reykjavík 16. janúar 1998 kom fram hörð gagnrýni á tafir í skattkerfinu og hjá öðrum stofnunum þegar kæmi að því að afgreiða mál frá þeim. Morgunblaðið hefur t.d. eftirfarandi eftir einum frummælendanna sem er einn af þekktustu löggiltu endurskoðendum landsins: „Úrskurðir skattstjóra hafa oftlega dregist í marga mánuði fram yfir þann frest, sem þeim er settur í lögum.“ Í umfjöllun Morgunblaðsins er enn fremur að finna eftirfarandi tilvitnun í mál annars frummælanda, sem fjallaði um tafir í afgreiðslu mála frá ríkisskatt stjóra: „Ég get nefnt sem dæmi um framkvæmdina að kvartað var yfir seinagangi ríkisskatt stjóra þegar 11 mánuðir voru liðnir frá því að hann átti að hafa skilað inn gögnum til nefndarinnar. Nefndin hafnaði hins vegar kærunni. Sú hugsun vaknar stundum hjá manni hvort sterkasti leikur ríkisskattstjóra sé að skila alls ekki rökstuðningi. Yfirskattanefnd virðist lítið mark taka á kvörtunum um seinagang og eftir nokkur ár er skattgreiðandinn örmagna ef ekki látinn og þá er málið látið niður falla.“
    Ummæli þeirra tveggja löggiltu endurskoðenda sem Morgunblaðið vitnar til eru ófögur lýsing á ástandinu. Alþingi og ríkisstjórn ber að mati flutningsmanns skylda til að taka á vandamálinu og tryggja þegnum landsins að ríkisstofnanir komist ekki upp með að virða að vettugi erindi sem þeim berast mánuðum og jafnvel árum saman. Í greinargerð með samhljóða þingsályktunartillögu sem flutt var á árinu 1997 voru rakin fjögur dæmi um seina gang ráðuneyta við að svara erindum. Dæmi þessi verða ekki rakin að nýju en vísað til greinargerðar með fyrri tillögu í því sambandi. Rétt er þó að taka fram vegna dæmis um að sveitarfélag hafi ekki fengið svar við erindi um kaup á landi í þrjú ár að jákvætt svar barst um síðir og var þá strax gengið frá málinu.
    Eftir að tillagan var fyrst flutt komu ótrúlega margar ábendingar til flutningsmanns um mál þar sem ríkisstofnanir, aðallega ráðuneyti, hafa dregið mánuðum og árum saman að svara einföldustu erindum. Slíkt er algjörlega óásættanlegt í nútímalýðræðisríki og á þeim slóðaskap verður að ráða bót hið fyrsta.
    Þingsályktunartillagan miðar að því að hafist verði handa um að bæta þjónustu hins opin bera við fyrirtæki og einstaklinga er þangað leita. Enn er langt í land að nauðsynleg hugar farsbreyting eigi sér stað hjá hinu opinbera, en sem lið í að bæta þjónustu við almenning felur tillagan í sér að settar séu reglur um þann hámarkstíma sem Stjórnarráð Íslands og aðrar opinberar stofnanir mega taka sér til að svara þeim erindum sem þangað berast.
    Á árunum 1971–81 þegar flutningsmaður var starfsmaður í Stjórnarráðinu voru starfs menn þar sem trúðu því að farsælast væri að svara erindum ekki of fljótt. Fljót afgreiðsla var að þeirra mati talin grafa undan tiltrú almennings á að afgreiðsla máls byggðist á vandaðri málsmeðferð. Erindi voru því lögð til hliðar í nokkurn tíma áður en þau komu til skoðunar. Í fjármálaráðuneytinu var slíkum hugmyndum hins vegar algjörlega hafnað á þessum tíma. Ráðuneytisstjóri gerði öllum starfsmönnum þess að vinna eftir þeirri reglu að öllum erindum er ráðuneytinu bærust skyldi svarað innan sjö virkra daga. Væri ekki unnt að kveða upp efnislegan úrskurð innan þeirra tímamarka skyldi fyrirspyrjanda engu síður skrifað og hann upplýstur um hvenær vænta mætti endanlegs svars. Ekki er vitað til að vandvirkni í máls meðferð hafi liðið fyrir þessa vinnureglu.
    Regla sem þessi er einföld og ætti ekki að vera neinum ofviða að skilja eða vinna eftir. Með tilkomu tölvutækni og stórfelldri fjölgun opinberra starfsmanna frá þeim tíma er hér hefur verið vitnað til má vænta þess að unnt sé að svara flestum erindum innan fimm virkra daga. Gefa mætti þeim erindum númer sem ekki er hægt að svara innan tiltekins frests af eðlilegum ástæðum og birta síðan á heimasíðu viðkomandi stofnunar hvað líði afgreiðslu um rædds máls. Slík tilhögun mundi veita þeim starfsmönnum hins opinbera er í hlut eiga mikið aðhald og stórbæta þjónustu við almenning og fyrirtæki. Aðalatriðið er þó að ríkisstjórnin setji skýrar reglur um hvers skattgreiðendur mega vænta í viðskiptum sínum við Stjórnar ráðið og aðrar opinberar stofnanir.