Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 762 – 436. mál.Frumvarp til lagaum dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Lög þessi taka til hvers þess dýralæknis sem er skipaður, settur eða ráðinn til starfa í þágu ríkisins og þeirra dýralækna sem starfa samkvæmt leyfi þar að lútandi sem veitt er eftir lögum þessum.

2. gr.

    Dýralæknar skulu standa vörð um heilsu dýra í landinu, stuðla að bættu heilsufari þeirra, aukinni arðsemi búfjár og góðum aðbúnaði og meðferð dýra. Þeir skulu vera á verði gagnvart því að einstaklingar eða samfélagið í heild bíði tjón af völdum dýrasjúkdóma. Með starfi sínu skulu þeir leitast við að girða fyrir hættur sem stafað geta af sjúkum dýrum og neyslu spilltra búfjárafurða, af innflutningi lifandi dýra og búfjárafurða, efna, áhalda eða hluta sem borið geta með sér smitefni.

II. KAFLI
Yfirstjórn.
3. gr.

    Landbúnaðarráðherra fer með mál sem þessi lög varða.

4. gr.

    Landbúnaðarráðherra skipar dýralæknaráð sem skipað er fjórum dýralæknum til fimm ára í senn og er yfirdýralækni til ráðuneytis. Skal einn tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, ann ar af stjórn Dýralæknafélags Íslands, þriðji af stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meina fræði að Keldum og fjórði án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður ráðsins.
    Ráðið skal ávallt fjalla um innflutning búfjár sé hans óskað. Einnig skal ráðið fjalla um inn flutning annarra dýra, búfjárafurða og aðra þætti er snerta heilbrigðismál dýra og dýraafurða þegar þess er óskað af ráðherra eða yfirdýralækni. Ráðinu er heimilt, ef aðstæður krefja, að kalla sérfræðinga til ráðuneytis.
    Sömu aðilar og taldir eru í 2. mgr. geta vísað ágreiningsmálum varðandi dýralæknisþjón ustu til ráðsins. Við úrlausn þeirra ágreiningsmála skal ráðherra kalla til starfa með ráðinu lögfræðing sem fullnægir skilyrðum um skipan til starfa héraðsdómara.
    Ráðið skal halda gerðabók um störf sín.

5. gr.

    Yfirdýralæknir er ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar heilbrigðismál dýra og hollustuhætti við framleiðslu og meðferð búfjárafurða. Aðstoðaryfirdýralæknir, sem valinn er úr hópi sérgreinadýralækna, skal vera yfirdýralækni til aðstoðar og staðgengill hans.
    Yfirdýralæknir hefur með höndum:
     a.      yfirstjórn og eftirlit með störfum héraðsdýralækna, sérgreinadýralækna og annarra dýralækna sem leyfi hafa til að stunda dýralækningar,
     b.      yfirumsjón með öllu er varðar heilbrigðismál dýra; hann skal einnig afla upplýsinga um heilbrigðisástand dýra og hollustu dýraafurða í öðrum löndum eftir því sem nauðsyn kref ur,
     c.      yfirumsjón með sjúkdómavörnum dýra, forvörnum, fræðslustarfi varðandi búfjársjúkdóma, innflutningi og útflutningi lifandi dýra, erfðaefnis og búfjárafurða og fylgist með hollustu dýrafóðurs í samvinnu við Aðfangaeftirlit ríkisins,
     d.      yfirumsjón með heilbrigði sláturdýra, heilbrigðiseftirliti í sláturhúsum og vinnslu sláturafurða, yfirumsjón með framleiðslu mjólkur og aðstöðu á vinnslustað hennar, auk yfirum sjónar með heilbrigði annars búfjár og afurða þess,
     e.      skipulagningu, gagnaöflun og skýrslugerð varðandi dýrasjúkdóma, heilbrigðisskoðun sláturafurða og heilbrigðiseftirlit með framleiðslu og vinnslu mjólkur; hann sér um árlega útgáfu heilbrigðisskýrslna.

III. KAFLI

Réttindi og skyldur.

6. gr.

    Þeir einir eru samkvæmt lögum þessum taldir dýralæknar er lokið hafa prófi frá dýralækna háskóla sem er viðurkenndur af íslenskum stjórnvöldum.
    Þeir einir mega stunda dýralækningar hér á landi sem hlotið hafa leyfi landbúnaðarráðherra samkvæmt ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð að fenginni umsögn yfirdýralæknis.
    Landbúnaðarráðherra gefur út leyfisbréf handa dýralækni til að stunda dýralækningar og dýralæknir undirritar eiðstaf þar að lútandi. Yfirdýralæknir heldur skrá yfir dýralækna sem hafa leyfi til að stunda dýralækningar.
    Dýralækni er skylt að tilkynna yfirdýralækni:
     1.      þegar hann hyggst hefja dýralæknisstörf og aðsetur starfsemi sinnar,
     2.      flutning aðseturs,
     3.      starfslok sem dýralæknir.
    Dýralæknum, sem hefja störf á Íslandi, ber að kynna sér íslensk lög og reglur um dýralækn ingar og þeir sem starfa í opinberri þjónustu skulu hafa vald á íslenskri tungu.
    Heimilt er að fela dýralæknanemum á síðari hluta námsferils að gegna tímabundið ákveðn um dýralæknisstörfum undir stjórn dýralæknis ef yfirdýralæknir mælir með því.

7. gr.

    Eingöngu þeir dýralæknar sem hafa leyfi til að stunda dýralækningar mega framkvæma læknisaðgerðir á dýrum. Undanþegnar eru þó minni háttar aðgerðir og lyfjameðferð í samráði við dýralækni.

8. gr


    Dýralækni er einungis heimilt að afhenda eða ávísa lyfseðilsskyldum lyfjum handa dýri þegar hann hefur greint sjúkdóminn.

9. gr.

    Dýralækni ber að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og halda við þekkingu sinni. Dýralæknir ber ábyrgð á greiningu sjúkdóms og meðferð sjúklinga sinna.
    Dýralækni ber sem kostur er að upplýsa eiganda eða umráðamann dýrs sem hann fær til meðferðar um ástand, meðferð, horfur og væntanlegan kostnað af meðhöndlun og lyfjameð ferð. Einnig skal hann upplýsa eiganda eða umráðamann um þær hættur sem geta fylgt við komandi aðgerð, algengar aukaverkanir lyfja sem notuð eru og lyfjamengun afurða.
    Dýralækni ber, sé til hans leitað eða hann nærstaddur og náist ekki í vakthafandi dýralækni, að veita fyrstu nauðsynlega læknishjálp í skyndilegum sjúkdóms- eða slysatilfellum, nema þeim mun alvarlegri forföll hamli.
    Dýralæknar, sem stunda almennar dýralækningar, eiga rétt á og þeim ber skylda til að taka þátt í vaktafyrirkomulagi sem skipulagt er á viðkomandi vaktsvæði, sbr. 12. gr., nema þeir séu sjálfir sjúkir eða hindraðir af öðrum meira aðkallandi embættisstörfum. Dýralækni er heimilt að semja við annan dýralækni um að taka við vaktskyldunni.
    Verði dýralæknir var við eða hafi hann grun um að upp sé kominn alvarlegur smitsjúkdóm ur í dýrum á starfssvæði hans skal hann gera nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir til að stað festa gruninn, hefta útbreiðslu sjúkdómsins og koma í veg fyrir tjón sem af honum getur leitt. Hann skal tafarlaust tilkynna yfirdýralækni um sjúkdóminn og gera þeir í samráði þær ráðstaf anir sem þurfa þykir.
    Dýralækni ber að gera árlega skýrslu um læknisstörf sín og senda yfirdýralækni. Yfirdýra læknir setur reglur um hvaða upplýsingar skýrslurnar skuli geyma.
    Dýralækni ber að sýna nákvæmni í útgáfu vottorða og læknisyfirlýsinga. Hann er bundinn þagnarskyldu um þá vitneskju sem hann öðlast í starfi sínu og honum er trúað fyrir og varðar ekki almannaheill.
    Dýralækni er einungis heimilt að auglýsa læknisstarfsemi sína með efnislegum og látlaus um auglýsingum.

10. gr.

    Dýralæknir hefur leyfi til að kalla sig sérfræðing og starfa sem slíkur hér á landi hafi hann fengið til þess leyfi landbúnaðarráðherra eða fengið viðurkenningu á að starfa sem sérfræð ingur í landi sem er aðili að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
    Umsóknir um sérfræðileyfi skulu lagðar fyrir dýralæknaráð til umsagnar þegar menntunar er aflað utan Evrópska efnahagssvæðisins. Við afgreiðslu einstakra umsókna er heimilt að kveðja til sérfróðan dýralækni úr þeirri sérgrein sem sótt er um viðurkenningu á.

IV. KAFLI

Skipan héraðsdýralæknisumdæma.

11. gr.

    Umdæmi héraðsdýralækna er sem hér greinir:
     1.      Gullbringu- og Kjósarumdæmi: Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Gullbringu- og Kjósarsýsla.
     2.      Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi: Borgarfjarðarsýsla, Mýrasýsla, Akranes, Borgarbyggð.
     3.      Snæfellsnesumdæmi: Stykkishólmur, Snæfellsbær, Eyrarsveit, Helgafellssveit, Hnappadalssýsla, Flatey og býli í gamla Flateyjarhreppi, Skógarstrandarhreppur.
     4.      Dalaumdæmi: Dalabyggð, Saurbæjarhreppur, Austur-Barðastrandarsýsla, að undanskilinni Flatey og býlum í Flateyjarhreppi hinum gamla.
     5.      Vestfjarðaumdæmi: Vestur-Barðastrandarsýsla, Ísafjörður, Bolungarvík, Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýsla, Strandasýsla að Bæjarhreppi.
     6.      Vestur-Húnaþingsumdæmi: Vestur-Húnavatnssýsla, Bæjarhreppur í Strandasýslu.
     7.      Austur-Húnaþingsumdæmi: Blönduós, Austur-Húnavatnssýsla.
     8.      Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi: Akureyri, Ólafsfjörður, Dalvík, Siglufjörður, Sauðárkrókur, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslur, Svalbarðsstrandar-, Grýtubakka- og Hálshreppar í Suður-Þingeyjarsýslu.
     9.      Þingeyjarumdæmi: Húsavík, Suður-Þingeyjarsýsla, að undanskildum Svalbarðsstrandar-, Grýtubakka- og Hálshreppum, Norður-Þingeyjarsýsla, Skeggjastaða- og Vopna fjarðarhreppar í Norður-Múlasýslu.
     10.      Austfjarðaumdæmi: Egilsstaðir, Eskifjörður, Neskaupstaður, Seyðisfjörður, Norður- og Suður-Múlasýslur, að undanskildum Skeggjastaða- og Vopnafjarðarhreppum.
     11.      Austur-Skaftafellsumdæmi: Hornafjarðarbær, Austur-Skaftafellssýsla.
     12.      Vestur-Skaftafellsumdæmi: Vestur-Skaftafellssýsla, að undanskildum Mýrdalshreppi.
     13.      Suðurlandsumdæmi: Árnes- og Rangárvallasýslur, Mýrdalshreppur.
    Skipa skal einn héraðsdýralækni í hvert umdæmi, að undanskildu Vestfjarðaumdæmi, Þing eyjarumdæmi og Austurlandsumdæmi, en í hvert þeirra skal skipa tvo héraðsdýralækna.
    Héraðsdýralæknar skulu hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með sláturdýrum, sláturafurðum og afurðastöðvum, eftirlit með heilbrigði, hirðingu, aðbúnaði og aðstöðu nautgripa á búum þar sem framleidd er mjólk til sölu og hafa með höndum framkvæmd sóttvarnaaðgerða. Einnig ber þeim að hafa eftirlit með búfé og öðrum dýrum eftir því sem lög ákveða.
    Héraðsdýralæknar í Gullbringu- og Kjósar-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðar- og Suðurlands umdæmum sinna eingöngu eftirlitsstörfum, en héraðsdýralæknar í öðrum dýralæknisumdæm um annast jafnframt eftirlitsstörfum almenna dýralæknisþjónustu í umdæminu, þar með er talin vaktþjónusta.
    Heimilt er að ráða dýralækna til aðstoðar ef þess er þörf vegna eftirlits og sjúkdómavarna í einstökum umdæmum.
    Yfirdýralæknir setur héraðsdýralæknum erindisbréf, sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Þar skal kveðið á um embættisfærslu, skyldur, eftirlitsstörf og heimild til annarra dýralæknis starfa.
    Gjald, sem nemur kostnaði, skal innheimta fyrir eftirlit og skoðanir samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengum tillögum yfirdýralækis.

12. gr.

    Vaktsvæði dýralækna eru sem hér greinir:
     1.      Gullbringu- og Kjósarumdæmi.
     2.      Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi.
     3.      Snæfellsnesumdæmi.
     4.      Dalaumdæmi.
     5.      Vestfjarðaumdæmi.
     6.      Austur- og Vestur-Húnaþingsumdæmi.
     7.      Skagafjörður og Siglufjörður.
     8.      Eyjafjörður, Dalvík og Ólafsfjörður.
     9.      Þingeyjarumdæmi.
     10.      Austfjarðaumdæmi.
     11.      Austur-Skaftafellsumdæmi.
     12.      Vestur-Skaftafellsumdæmi.
     13.      Rangárvallasýsla og Mýrdalshreppur.
     14.      Árnessýsla.
    Héraðsdýralæknar skulu skipuleggja vaktir í samráði við starfandi dýralækna innan sinna vaktsvæða þannig að dýralæknir sé þar jafnan á vakt og auðvelt sé að afla vitneskju um hvaða dýralæknir er á vakt hverju sinni.
    Við skipulagningu vakta er ætlast til að tekið sé mið af vegalengdum og umfangi þjónustu innan viðkomandi vaktsvæða.
    Komi upp ágreiningur um skiptingu vakta innan vaktsvæða skal leita úrskurðar yfirdýra læknis.
    Fyrir vaktþjónustu greiðist samkvæmt samningi Dýralæknafélags Íslands við landbúnaðar- og fjármálaráðuneyti.

13. gr.

    Landbúnaðarráðherra er heimilt við sérstakar aðstæður að semja við dýralækni um greiðslu hluta ferðakostnaðar í því skyni að tryggja byggðum fjarri aðsetri dýralæknis reglubundna þjónustu og bráðaþjónustu samkvæmt reglum gerðum í samráði við yfirdýralækni, Dýra læknafélag Íslands og Bændasamtök Íslands.

V. KAFLI

Sérgreinadýralæknar.

14. gr.

    Ráða skal sérmenntaða dýralækna, einn á hverju eftirtalinna sérsviða: Sviði alifugla sjúkdóma, fisksjúkdóma, hrossasjúkdóma, nautgripa- og sauðfjársjúkdóma, júgursjúkdóma, loðdýrasjúkdóma og svínasjúkdóma. Auk þess skal ráða dýralækni með sérþekkingu í heil brigðiseftirliti sláturdýra og sláturafurða og dýralækni sem hafi eftirlit með inn- og útflutningi búfjárafurða. Sérgreinadýralæknar starfa undir stjórn yfirdýralæknis sem setur þeim erindis bréf.
    Sérgreinadýralæknar skulu vinna að bættu heilbrigði búfjár og sjúkdómavörnum, hver á sínu sviði, í samráði við héraðsdýralækna, með sértækum aðgerðum, almennri fræðslu, leið beiningar- og forvarnastarfi. Sérgreinadýralæknum má fela önnur verkefni, enda komi slíkt fram í erindisbréfi.
    Sérgreinadýralæknar skulu hafa frumkvæði að framkvæmd nauðsynlegra rannsókna og sýnatöku í samvinnu við héraðsdýralækna, rannsóknastofnanir og afurðastöðvar og hafa eftirlit með framkvæmd sóttvarnaaðgerða.

15. gr.

    Yfirdýralæknir skal hafa til ráðstöfunar viðunandi aðstöðu, búnað og sérþekkingu til frum greiningar dýrasjúkdóma vegna sjúkdómavarna og forvarnastarfa.

16. gr.

    Ráðherra skipar yfirdýralækni, aðstoðaryfirdýralækni og héraðsdýralækna til fimm ára í senn og setur þeim erindisbréf. Laun og önnur starfskjör þeirra ákveðast af kjaranefnd. Sér greinadýralæknar skulu ráðnir samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

VI. KAFLI

Viðurlög gildistaka o.fl.

17. gr.

    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

18. gr.

    Verði yfirdýralæknir þess var að dýralæknir, sem hefur læknisleyfi, vanræki skyldur sínar og störf, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti alvarlega í bága við fyrirmæli sem dýralæknum er skylt að starfa eftir ber yfirdýralækni að áminna hann um að bæta ráð sitt.
    Nú kemur ítrekuð áminning ekki að haldi eða sé um óhæfu í læknisstörfum að ræða og ber þá yfirdýralækni að kæra málið til ráðherra. Getur þá ráðherra úrskurðað að viðkomandi skuli sviptur lækningaleyfi að fullu eða um tiltekinn tíma.
    Uppfylli dýralæknir, sem hefur læknisleyfi, ekki lengur þær kröfur sem gerðar voru er læknisleyfi var veitt, svo sem vegna bilunar á andlegri eða líkamlegri heilsu eða misnotkunar vímuefna, ber yfirdýralækni að greina ráðherra frá málavöxtum. Ráðherra skal leita álits dýralæknaráðs um slík mál. Svipta má viðkomandi dýralækni lækningaleyfi ef dýralæknaráð leggur það til.

19. gr.

    Brot gegn lögum þessum, reglugerðum og fyrirmælum gefnum samkvæmt þeim varða sekt um, varðhaldi eða fangelsi ef sakir eru miklar. Með mál vegna brota skal farið að hætti opin berra mála.

20. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 77 1. október 1981, um dýralækna, ásamt síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.

    Meðan ekki hafa tekist samningar milli Dýralæknafélags Íslands og fjármálaráðuneytisins um endurmenntun gildir eftirfarandi ákvæði: „Fyrir hver 10 ár, sem héraðsdýralæknir hefur gegnt þjónustu, á hann rétt á að hljóta 6 mánaða frí frá störfum með fullum launum, til fram haldsnáms í samráði við yfirdýralækni. Greiðir ríkissjóður fargjaldskostnað til þess lands, þar sem hann hyggst dveljast og heim til Íslands að dvöl lokinni.“

II.

    Sé starf lagt niður á dýralæknir sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara rétt til biðlauna í samræmi við ákvæði í 34. gr. laga nr. 70/1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpið byggist á tillögum nefndar sem skipuð var 1. febrúar 1996 til að endurskoða lög um dýralækna, nr. 77/1981, með síðari breytingum, og gera tillögu að frumvarpi til nýrra laga um dýralækna. Í nefndina voru skipaðir Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir, formaður, Rögnvaldur Ingólfsson dýralæknir, tilnefndur af Dýralæknafélagi Íslands, Sigurður Ingi Jó hannsson dýralæknir, tilnefndur af yfirdýralækni, og Rögnvaldur Ólafsson bóndi, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands. Sveinbjörn Dagfinnsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, starfaði með nefndinni. Frumvarp þetta var lagt fyrir Alþingi á liðnu vori, en hlaut ekki afgreiðslu. Landbúnaðarráðherra ákvað á liðnu sumri að skipa sérstakan starfshóp til að undirbúa endurframlagningu frumvarpsins á næsta löggjafarþingi. Í honum áttu sæti alþingismennirnir Árni M. Mathiesen, Magnús Stefánsson, Stefán Guðmundsson og Sturla Böðvarsson, Halldór Runólfsson yfirdýralæknir og Brynjólfur Sandholt, fyrrverandi yfirdýralæknir, sem var formaður. Starfshópurinn lagði til breytingar á skipan umdæma héraðsdýralækna og vaktumdæma, þar sem fjölgað er um einn héraðsdýralækni og eitt vaktumdæmi frá því sem áður var lagt til.
    Samkvæmt ákvörðun ráðherra skyldi markmið með endurskoðun laga um dýralækna vera að leggja fram tillögur sem:
          leiða til betri nýtingar fjárframlaga hins opinbera til dýralæknisþjónustu,
          gera skipulag dýralæknisþjónustu sveigjanlegra,
          tryggja dýralæknisþjónustu um allt land,
          auka heilbrigðiseftirlit með innflutningi búvara,
          tryggja eðlilegt samstarf eftirlitsaðila í landbúnaði og koma í veg fyrir skörun á þeim vettvangi.
    Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands, haldinn á Egilsstöðum 26. ágúst 1995, samþykkti samhljóða áskorun til landbúnaðarráðuneytisins og Alþingis um að taka til endurskoðunar lög um dýralækna, nr. 77/1981, og breyta þeim í samræmi við breytt starfsumhverfi dýralækna og þjóðfélagið í heild:
    „Stjórn Dýralæknafélags Íslands er sammála því að í ljósi breyttra þjóðfélagsaðstæðna sé full ástæða til að endurskoða lög um dýralækna. Þó má það ekki verða til þess að sú þjónusta sem landsmönnum er tryggð í dag breytist til hins verra,“ eins og segir í bréfi félagsstjórnar, dags. 4. október 1996. Stjórn Dýralæknafélags Íslands telur lög um dýralækna og heilbrigðis þjónustu verða að taka mið af eftirfarandi:
          gætt sé byggðasjónarmiða og jafnræðis þegnanna,
          tryggð sé ímynd íslenskrar landbúnaðarframleiðslu undir merkjum gæðastýrðrar framleiðslu með áherslu á hreinleika afurða,
          fullt tillit sé tekið til vaxandi krafna um eftirlit með aðbúnaði dýra og almennra dýraverndunarsjónarmiða,
          tryggt sé að vakandi auga sé haft með smitsjúkdómum og vörnum gegn þeim um allt land,
          dýralæknum sé tryggt viðunandi vinnuumhverfi þannig að þeir geti sinnt starfi sínu út frá ströngustu faglegum kröfum.
    Fyrstu lærðu dýralæknarnir komu til starfa á miðri 19. öld, en starf þeirra var stopult og þurftu þeir að sinna öðrum störfum jafnframt til að afla lífsafkomu. Árið 1891 voru samþykkt lög um skipan tveggja dýralækna, annar skyldi vera í Suður- og Vesturamti, hinn í Norður- og Austuramti. Hvor dýralæknir skyldi fá 1.200 kr. í árslaun.
    Með lögum nr. 61 3. nóvember 1915 var dýralæknum fjölgað í fjóra, einn fyrir hvern lands fjórðung, og skyldu árslaun hvers þeirra, 1.500 kr., greiðast úr landssjóði.
    Á undanförnum 30 árum hafa verið gerðar fjölmargar breytingar á dýralæknalögum. Flest ar þeirra hafa hnigið að því að fjölga dýralæknisumdæmum að tilmælum bændasamtakanna sem hafa talið bændur fá ófullnægjandi dýralæknisþjónustu eða afskipta hvað þjónustu varðar vegna búsetu. Af þessari ástæðu hefur dýralæknisumdæmum stöðugt fjölgað. Þau voru 12 árið 1950, 20 árið 1970 og 31 árið 1990.
    Samkvæmt núgildandi lögum um dýralækna, nr. 77/1981, er landinu skipt í 31 dýralæknis umdæmi og starfa nú héraðsdýralæknar í 27 umdæmum. Héraðsdýralæknar hafa hins vegar aldrei verið skipaðir í þrjú umdæmi, Hafnarfjarðarumdæmi, Akranesumdæmi og Norðfjarðar umdæmi, vegna skorts á fjárveitingu. Eitt hérað er nú ósetið, Norðausturlandsumdæmi, og tveimur umdæmum, Barðastrandar- og Strandaumdæmum, er þjónað frá Ísafirði.
    Auk fastlaunaðra héraðsdýralækna starfa dýralæknar á sérsviðum varðandi sóttvarnir, fisksjúkdóma, fugla-, svína-, hrossa- , loðdýra- (hlutastarf), sauðfjár-, nautgripa- og júgur sjúkdóma. Einn dýralæknir starfar við eftirlit með sláturafurðum og er hann jafnframt stað gengill yfirdýralæknis.
    Auk framantalinna dýralækna hefur sjálfstætt starfandi dýralæknum fjölgað á síðustu árum og fyrirsjáanlegt er að þeim fjölgi enn eftir því sem verkefni gefa tækifæri til. Nú munu 15 dýralæknar starfa sjálfstætt. Þeir eru nær eingöngu á þeim svæðum landsins þar sem dýrafjöldi er mestur, greiðastar samgöngur og þar sem flest er gæludýra og dýra til afþreyingar. Á þess um svæðum sinna sjálfstætt starfandi dýralæknar einnig hluta af þjónustu við bændur vegna búfjárhalds þeirra.

Fjöldi búfjár á Íslandi 1950–96.


Nautgripir
Þar af
mjólkurkýr

Sauðfé

Hross

Svín

Varpfuglar
1950 44.535 31.766 415.544 42.280 719 97.589
1970 53.294 34.275 735.543 33.473 667 135.219
1980 59.933 33.577 827.927 52.346 1552 310.724
1994 71.923 30.518 499.110 78.517 3752 165.007
1996 74.815 29.854 463.935 80.518 3543 166.044

    Aðstæður til dýralæknisþjónustu hafa breyst mikið á Íslandi síðustu ártugi og í tillögum um nýja skipan dýralæknisþjónustu er tillit tekið til þeirra breytinga. Samgöngur hafa batnað til mikilla muna víðast um landið og einangrun landsvæða er hvergi svo sem hún var til skamms tíma.

Um störf dýralækna á Norðurlöndum.
    Í Noregi er héraðsdýralæknakerfið ríkjandi, þó á þann hátt að á þéttbýlum svæðum gegna héraðsdýralæknar eingöngu eftirlitshlutverki en í dreifbýli gegna þeir bæði eftirlitsstörfum og almennum dýralækningum. Stöðug fjölgun sjálfstætt starfandi dýralækna sem sinna dýra lækningum á þéttbýlum svæðum hefur átt sér stað og fyrirsjáanlegt er að sú þróun muni halda áfram.
    Í Svíþjóð hefur nýlega verið innleitt nýtt kerfi fyrir dýralækningar og er það algjörlega á vegum ríkisins. Ríkið greiðir héraðsdýralæknum laun en innheimtir allan kostnað af bændum fyrir aðgerðir, lyf og ferðir. Ríkið lætur þessum dýralæknum t.d. þjónustubifreiðar í té. Gjöld fyrir þjónustuna eru samkvæmt gjaldskrá sem ríkið setur. Auk héraðsdýralækna starfa sjálf stæðir dýralæknar með frjálsa gjaldskrá.
    Í Danmörku er almennum dýralækningum eingöngu sinnt af sjálfstætt starfandi dýralæknum en umdæmisdýralæknar hafa eftirlit með höndum eða skipuleggja það og njóta þá starfs krafta sjálfstætt starfandi dýralækna ef með þarf.
    Í Finnlandi starfa flestir dýralæknar á eigin vegum með styrk frá sveitarfélögum. Auk þess eru fastráðnir dýralæknar í eftirlitsstörfum.
    Núgildandi löggjöf um dýralækna hér á landi er nær eingöngu miðuð við störf héraðsdýra lækna sem bæði annast eftirlit og almenna dýralæknisþjónustu. Við breyttar aðstæður þykir rétt að leggja til aðra skipan þannig að störf sjálfstætt starfandi dýralækna nýtist betur en ver ið hefur og jafnframt að leggja meiri áherslu á hlutverk dýralækna við hvers konar eftirlit með heilbrigði búfjár og með allri framleiðslu úr búfjárafurðum, þó þannig að komist verði hjá skörun við eftirlit, svo sem eftirlit á vegum sveitarfélaga og Hollustuverndar ríkisins.
    Tekið er tillit til aðstæðna þar sem samgöngur, t.d. að vetri, eru oft erfiðar og búfjárstofn lítill, einkum á strjálbýlli svæðum. Á slíkum svæðum er þess vart að vænta að sjálfstætt starf andi dýralæknar sjái rök til þess að setjast að með dýralækningaþjónustu og þar því þörf á að stoð opinberra aðila við almenna dýralæknisþjónustu.
    Störf dýralækna hafa breyst verulega á síðasta áratug með breyttum búskaparháttum. Bú hafa stækkað og fólki sem vinnur að framleiðslustörfum búfjárafurða fækkað. Gripir eru fóðraðir til fyllstu afurða frekar en áður var og eru þá kvillasamari. Á sama tíma hafa dýra lækningar vegna ræktunar og notkunar reiðhesta stóraukist. Sama er um dýralæknisþjónustu vegna gæludýrahalds. Vinna við margvíslegt eftirlit hefur aukist og mun vaxa, m.a. vegna aðildar að fjölþjóðasamningum og rýmkunar á innflutningi búfjárafurða. Auk þess verður að reikna með auknu eftirliti með innflutningi búfjárafurða og kostnaðarauka sem af því leiðir. Styðst þetta við reynslu nágrannalanda okkar.
    Störf héraðsdýralækna hafa til þessa, eins og þegar hefur komið fram, skipst í tvö megin viðfangsefni, annars vegar almenna þjónustu við sjúkdómavarnir og lækningar, hins vegar margvíslega umsýslan og eftirlit með auknum kröfum um hreinleika afurða, svo sem fjósa skoðun, vöktun og eftirlit í sláturhúsum, sýnatökur, skýrslugerðir o.fl., einnig eftirlit og fram kvæmd bólusetninga gegn garnaveiki og eftirlit með niðurskurði gegn riðu og öðrum smitsjúk dómum. Með framkvæmd nýrra laga um dýravernd hefur aukinn tími héraðsdýralækna farið í að sinna þeim málum.
    Telja verður að samkvæmt stjórnsýslu- og samkeppnislögum sé brýnt að skilja að, eins og aðstæður leyfa, eftirlits- og dýralæknisþjónustu sama aðila. Það samrýmist illa góðri stjórn sýslu að aðili gefi út starfsleyfi og hafi jafnframt tekjur af þjónustu við þá starfsemi sem fær leyfið.
    Á þessum sjónarmiðum byggist sú tillaga að skipta verkefnum dýralækna í eftirlitsstörf og almennar dýralækningar. Við þá skiptingu er horft til búsetu, fjölda og dreifingar dýra og sam gangna. Þannig eru talin upp í 11. gr. þau svæði landsins þar sem gert er ráð fyrir að aðeins starfi héraðsdýralæknar sem eingöngu fáist við eftirlitsstörf og þiggi laun sín úr ríkissjóði en öll almenn dýralækningaþjónusta verði á vegum sjálfstætt starfandi dýralækna. Ljóst er að þessu fyrirkomulagi verður ekki alls staðar við komið og því er gert ráð fyrir að í önnur umdæmi, sbr. 11. gr. laganna, verði skipaðir dýralæknar sem áfram gegna hinu tvíþætta hlut verki eftirlits og almennrar dýralæknisþjónustu, en þeir þiggi aðeins laun úr ríkissjóði fyrir eftirlitsstarfið.
    Vitað er að vinnuálag á sumum dýralæknum er langt umfram það sem hæfir. Með þeim breytingum sem í frumvarpi þessu felast verður unnt að dreifa álagi milli dýralækna meira en verið hefur, m.a. með því að greiða öðrum dýralæknum en héraðsdýralæknum fyrir vaktir. Ávinningur verður m.a. sá að dýralæknar eiga fleiri frjálsar stundir og rýmri möguleika til við haldsmenntunar og aukinnar sérhæfingar miðað við þarfir einstakra svæða.
    Fyrirkomulag samkvæmt frumvarpinu eykur líkur á því að upp verði komið dýralækna stöðvum þar sem sérhæfni yrði meiri og gæti það orðið til þess að lengra verði fyrir suma að sækja dýralækni en við núverandi skipan og þar með dýrara. Möguleiki er á að draga úr slíku, t.d. með því að dýralæknar annist í auknum mæli sæðingar búfjár því að þá mundi heimsókn um dýralækna fjölga og þær gætu nýst við tilfallandi dýralæknis- og forvarnastörf.
    Augljós ávinningur af hinu nýja skipulagi felst einnig í því að sveigjanleiki er meiri og því unnt að hliðra til störfum eftir áherslum innan kerfisins og því hvar álagið er mest hverju sinni.
    Á eftirfarandi yfirliti er sýnt hver áhrif frumvarpið getur haft á fjölda dýralækna í einstök um umdæmum:
Núna Eftir breytingar
Umdæmi Héraðs-
dýralæknar
Alm. starf.
dýralæknar
Héraðs-
dýralæknar
Alm. starf.
dýralæknar
Reykjavík      1 6 1 6
Borgarfjörður      2 1 1 2
Snæfellsnes      1 1
Dalir      1 1
Vestfirðir      2 2
Vestur-Húnaþing      1 1 1
Austur-Húnaþing      1 1 1
Skagafjörður – Eyjafjörður      5 3 1 8
Þingeyjarsýslur      3 2 1
Austfirðir      2 1 2 1
Austur-Skaftafellsýsla      1 1
Vestur-Skaftafellssýsla      1 1
Suðurland      6 4 1 10
Samtals      27 15 16 30

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin fjallar um gildissvið laganna.

Um 2. gr.


    Greinin fjallar um markmið laganna og er ætlað að skýra verksvið þeirra sem starfa sam kvæmt lögunum og að hverju sé stefnt með starfi dýralækna.

Um 3. gr.


    Greinin er til staðfestingar því sem nú er, að landbúnaðarráðherra fari með öll mál sem varða lög um dýralækningar.

Um 4. gr.


    Greinin er nýmæli. Ísland hefur margvíslegra sérstöðu varðandi dýrasjúkdóma. Við höfum sloppið við fjölda hættulegra sjúkdóma sem hafa valdið miklum usla þar sem þeir hafa komið upp í öðrum löndum. Jafnframt hafa sjúkdómar, sem lítið ber á í heimalandi, valdið ómældu tjóni á íslensku búfé þegar þeir hafa borist til landsins.
    Stöðug varnarbarátta gegn því að smit berist til landsins hefur oft sætt harðri gagnrýni af hendi þeirra sem ekki þekkja hversu ómetanlega hagsmuni er verið að verja, þ.e. gott heilbrigðisástand og lítil útgjöld við dýralækningar ásamt lágum lyfja- og bóluefniskostnaði. Með skipan dýralæknaráðs er skotið styrkari stoðum undir margar þær mikilvægu ákvarðanir sem tengjast hagsmunum þjóðarinnar í þessum efnum. Næsta víst er að með aukinni sam keppni og fjölgun dýralækna koma upp fleiri ágreiningsefni sem ávinningur felst í að geta leit að lausnar á án þess að fara með mál til dómstóla. Niðurstaða lögskipaðs hóps sérfróðra manna mun að öðru jöfnu verða til styrktar í varnarbaráttunni og við úrlausn ágreiningsefna og styrkja yfirstjórn dýralæknamála.

Um 5. gr.


    Greinin svarar til 3. gr. núgildandi laga um verkefni yfirdýralæknis en er um margt ítar legri. Ákvæðið um að aðstoðaryfirdýralæknir skuli vera yfirdýralækni til aðstoðar og stað gengill hans er nýmæli. Þá eru einnig nýmæli í greininni um verksvið yfirdýralæknis sem leiðir af breytingum sem í frumvarpinu eru ef það verður að lögum.
    Verkefnum embættis yfirdýralæknis hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Kemur þar margt til, svo sem auknar heilbrigðiskröfur, aukin samskipti og viðskipti milli landa, stóraukin verk efni vegna fjölþjóðasamninga á sviði dýrasjúkdóma, heilbrigðiseftirlits og samræmingar starfshátta landa sem aðild eiga að slíkum samningum.
    Ísland er aðili að mörgum alþjóðastofnunum sem fjalla um heilbrigði dýra og búfjárafurða. Embætti yfirdýralæknis fær sendar skýrslur og tilkynningar sem varða þessi mál og er jafn framt skuldbundið til að gera grein fyrir slíkum málum hér á landi, m.a. vegna inn- og útflutn ings dýra og búfjárafurða. Þessi samskipti eru mjög mikilvæg þar sem kröfur um opnun mark aða milli landa hafa aukist á síðustu árum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að allt eftirlit með framleiðslu sláturafurða og mjólkur verði undir yfirstjórn yfirdýralæknis til að samræming náist og til að koma í veg fyrir skörun við aðra aðila sem hafa eftirlit með afurðunum þegar þær eru komnar í dreifingu.
    Aðstoðaryfirdýralæknir mun sinna ýmsum verkum á móti yfirdýralækni og verða tengiliður í samskiptum embættis yfirdýralæknis við dýralækna sem starfa samkvæmt lögum þessum.

Um 6. gr.


    Greinin fjallar um sama efni og 1. gr. núgildandi laga.
    Nýmæli er tilkynningarskylda dýralækna til yfirdýralæknis þegar þeir hefja störf, um hvar starfsaðsetur þeirra er og um starfslok. Það er til þess sett að hafa megi fulla yfirsýn yfir störf og starfssvið dýralækna þegar sjálfstætt starfandi dýralæknum fjölgar. 5. mgr. er nýmæli og byggist á því að með aðild okkar að fjölþjóðlegum samningum opnast möguleikar fyrir erlenda dýralækna til að starfa á Íslandi.

Um 7. gr.


    Greinin er nýmæli, þ.e. að eingöngu dýralæknar sem hafa leyfi til að stunda dýralækningar megi framkvæma læknisaðgerðir á dýrum.
    Samkvæmt 16. gr. núgildandi laga er unnt að veita mönnum sem ekki hafa dýralæknis menntun leyfi til að starfa að dýralækningum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að slík heimild falli niður. Bæði er það að dýralæknum hefur fjölgað og margir eru við nám í dýralæknisfræðum, auk þess sem skilningur og kröfur um dýravernd og góða meðferð dýra hafa aukist.

Um 8. gr.


    Greinin er nýmæli í dýralæknalögum en er í samræmi við ákvæði lyfjalaga. Henni er ætlað að skapa meira aðhald og árvekni um meðferð lyfja. Í flestum tilvikum verður að reikna með að sjúkdómsgreining byggist á skoðun, en greining á rannsóknarstofu eftir heimsókn dýra læknis eða eftir símaviðtal þar sem dýralæknir hefur farið yfir einkenni og gang sjúkdómsins með eiganda eða umráðamanni dýrsins telst einnig fullnægjandi sé ekki um nokkurn vafa að ræða af hálfu dýralæknis.

Um 9. gr.


    Greinin geymir ýmis ákvæði sem eiga sér hliðstæðu í núgildandi lögum en einnig nýmæli sem skerpa línur varðandi störf og skyldur dýralækna. Í 4. gr. núgildandi laga eru ákvæði hlið stæð 1. mgr. 9. gr. frumvarps þessa.
    2. mgr. er nýmæli. Henni er ætlað að tryggja að forráðamaður dýrs, sem kaupir þjónustu dýralæknis, viti sem nánast hvers hann má vænta varðandi kostnað, lyfjanotkun og árangur við upphaf meðferðar. Í þessu felst m.a. að framleiðanda afurða á að vera betur ljóst en nú er hvaða hætta kann að stafa af lyfjum.
    3. mgr. er tilvísun í læknaeið og codex Dýralæknafélags Íslands. Hér er eingöngu átt við fyrstu hjálp, en vakthafandi dýralæknar sinna bráðaþjónustu.
    4. mgr. er nýmæli sem byggist á þeim skipulagsbreytingum sem felast í frumvarpi þessu. Það er að dýralæknar, sem stunda almennar dýralækningar, eru skyldugir til að taka þátt í op inberri vaktþjónustu á því svæði þar sem þeirra aðalstarfsstöð er. Vaktþjónustan verði greidd af ríkissjóði. Þessi vaktþjónusta bannar ekki öðrum starfandi dýralæknum á svæðinu að vera á vakt, en hins vegar geta dýralæknar vísað á vakthafandi dýralækni utan almenns þjónustu tíma. Vaktþjónustan verði skipulögð af héraðsdýralækni í viðkomandi umdæmi samkvæmt nánari reglum sem fram koma í samningum við Dýralæknafélag Íslands. Ef starfandi dýra læknar á svæði geta ekki eða óska ekki eftir að vera á vakt geta þeir komist að samkomulagi við annan dýralækni um að sá dýralæknir taki þær vaktir ef yfirdýralæknir er samþykkur. Yfirdýralæknir skal vera úrskurðaraðili um ágreiningsatriði er upp kunna að koma um skipan vakta innan vaktsvæða.

Um 10. gr.


    Greinin er nýmæli. Þörf á sérfræðiþekkingu hefur aukist til mikilla muna, einkum vegna sífellt harðari krafna um framleiðsluafköst og umfangsmeiri þekkingar í dýralæknisfræðum. Ekki er hægt að ætla að almennir dýralæknar búi yfir margvíslegri sérþekkingu sem þörf kann að verða á. Dýralæknar hafa margir í samræmi við þetta í auknum mæli sérhæft sig á ýmsum sviðum. Rétt þykir að ákveða með lögum hvað til þarf til þess að mega kalla sig sérfræðing á sviði dýralækninga.

Um 11. gr.

    
    Í greininni felst mikil skipulagsbreyting. Hún felst í því að dýralæknisumdæmum fækkar úr 31 í 13 umdæmi. Einn dýralæknir er skipaður í tíu umdæmanna en tveir í þau þrjú sem eru landfræðilega stærst.
    Í frumvarpinu er lögð áhersla á að héraðsdýralæknar sinni eftirlitsstörfum en sjálfstætt starfandi dýralæknar sinni almennum dýralækningum og er það meginreglan. Í sumum um dæmum verður aftur á móti að ætla héraðsdýralæknum það hlutverk að sinna bæði eftirlits þættinum og almennum dýralækningum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að héraðsdýralæknirinn sinni eingöngu eftirlitsstörfum í þremur umdæmum en eins og þegar hefur komið fram í þessari greinargerð er ljóst að breyttar aðstæður í einstökum byggðarlögum koma til með að gefa tilefni til endurmats á þessu fyrir komulagi.
    Eins og í núgildandi lögum skal yfirdýralæknir setja héraðsdýralæknum erindisbréf.
Fyrir eftirlitsstörf er héraðsdýralæknum ætlað að fá föst laun úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir að viðfangsefni héraðsdýralækna við eftirlitsstörf á álagstímum geti verið það mikil að vöxt um að nauðsyn beri til að ráða fleiri dýralækna til starfa. Síðasta málsgreinin mælir fyrir um að gjalds skuli krafist fyrir eftirlitsstörf héraðsdýralækna. Gjaldið greiðist í ríkissjóð.

Um 12. gr.


    Greinin mælir fyrir um skiptingu landsins í vaktsvæði og að jafnan sé dýralæknir á vakt á hverju svæði. Ekki þykir rétt að lögbinda fleira varðandi vaktaskipan, heldur hafa hana sveigjanlega. Greiðslur fyrir vaktþjónustu ráðast af samningum milli Dýralæknafélags Íslands og landbúnaðar- og fjármálaráðuneyta.

Um 13. gr.


    Í greininni felst nýmæli sem á sér hliðstæður annars staðar, t.d. í Noregi, þ.e. að greiða skuli hluta ferðakostnaðar þegar um langan veg er að fara til nauðsynlegra dýralæknisstarfa bæði til að veita reglubundna þjónustu og bráðaþjónustu. Slíkt auðveldar þeim sem búa af skekkt að nýta þjónustu dýralækna.

Um 14. gr.


    Í greininni felast nokkur nýmæli.
    Á undanförnum áratug hafa búskaparhættir breyst mikið, bæði í því að vaxandi áhersla er lögð á meiri afrakstur á hverju búi og að nýjar búgreinar hafa komið til. Þetta hefur krafist meiri sérþekkingar á sviði dýralækninga en áður fyrr, bæði í meðhöndlun sjúkdóma sem og auknu forvarnastarfi. Með framangreind atriði í huga hefur á undanförnum árum verið lögð stóraukin áhersla á að fá til starfa dýralækna með sérþekkingu á einstökum sviðum innan land búnaðarins. Þeim hefur síðan í samvinnu við búgreinafélögin tekist að bæta heilbrigði og auka arðsemi búanna ásamt því að tryggja hollari afurðir. Ekki er æskilegt að þeir dýralæknar, sem vinna á sérsviðum, vinni jafnframt að almennum dýralækningum.
    Til þess að nánari tengsl skapist milli sérgreinadýralækna og bænda er einn dýralæknir með sérþekkingu á júgurbólgu staðsettur við Bændaskólann á Hvanneyri og annar með sérþekk ingu á hrossasjúkdómum við Bændaskólann á Hólum.
    Áríðandi er að þessi þjónusta sé fyrir hendi, en betra heilsufar búfjár, bættur aðbúnaður og minnkandi notkun lyfja er í samræmi við þau markmið að framleiða vistvænar og lífrænar afurðir.

Um 15. gr.


    Sauðfjárveikivarnir höfðu um áratugaskeið aðstöðu til að kryfja og gera frumathugun á sjúkum dýrum sem komið hafa til rannsókna frá dýralæknum. Um áramótin 1993-94 þegar sauðfjárveikivarnir voru settar undir embætti yfirdýralæknis með lögum nr. 25/1993 hélt þessi starfsemi áfram. Mjög mikilvægur þáttur í starfi sérgreinadýralækna er að fylgjast með og kryfja þau sýni sem þeir óska eftir eða eru send inn til rannsókna. Þetta skapar nánari tengsl milli leiðbeiningarþjónustunnar og búanna og gerir öll samskipti fljótari og öruggari. Sýni, sem þurfa frekari rannsókna við, eru send Tilraunastöðinni að Keldum eða til annarra rann sóknastofnana eftir því sem við á. Þetta fyrirkomulag hefur á undanförnum áratugum tryggt náið og frjótt samstarf milli rannsóknafólks annars vegar og eftirlits- og leiðbeiningaraðila hins vegar sem hefur leitt til aukinnar framleiðni og öruggari matvæla. Hér er ekki um nýmæli að ræða en fest er í sessi starfsemi sem er nauðsynleg til þess að yfirdýralæknir hafi ávallt slíka aðstöðu og þjónustu til reiðu en þurfi ekki að sækja hana til annarra aðila.

Um. 16. gr.


    Greinin er í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna rík isins, með síðari breytingum. Í e-lið 9. gr. laga nr. 150/1996, um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eru m.a. gerðar þær breyt ingar á 22. gr. laga nr. 70/1996 að yfirdýralækni, héraðsdýralæknum og dýralækni fisksjúk dóma er bætt við þá sem teljast embættismenn samkvæmt lögunum.
    Eins og fram kemur í athugasemdum þessum eru störf aðstoðaryfirdýralæknis og sérgreina dýralækna, annarra en dýralæknis fisksjúkdóma, nýmæli. Rétt þykir, með vísan til framangreindra laga, að yfirdýralæknir og héraðsdýralæknar teljist til embættismanna og hljóti starf samkvæmt ráðherraskipun, en að sérgreinadýralæknar starfi samkvæmt ráðningarsamningi.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Greinin er í samræmi við 11. gr. núgildandi laga um dýralækna.

Um 19.–20.gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.

    Frumvarpið felur í sér umfangsmiklar skipulagsbreytingar á sviði dýralæknisþjónustu og breytingar á eftirliti með heilbrigðismálum dýra og dýraafurða. Eftirfarandi þættir frum varpsins munu hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs ýmist til hækkunar eða lækkunar:
    Meginbreytingin er í 11. gr. frumvarpsins. Samkvæmt núgildandi lögum er landinu skipt upp í 31 dýralæknisumdæmi og hafa 27 þeirra verið setin. Í greininni er lögð til fækkun héraðsdýralæknisembætta í 16. Lagt er til að héraðsdýralæknar í Gullbringu- og Kjósar-, Skagafjarðar-, og Eyjafjarðar- og Suðurlandsumdæmum sinni eingöngu eftirlitsstörfum.
    
Í 12. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um skiptingu landsins í vaktsvæði en héraðsdýralæknar skulu skipuleggja vaktir í samráði við starfandi dýralækna innan sinna vaktsvæða þannig að dýralæknir sé þar jafnan á vakt. Fyrir vaktþjónustuna skal greiða úr ríkissjóði samkvæmt samningum Dýralæknafélags Íslands við landbúnaðarráðuneytið og fjármála ráðuneytið. Um þennan þátt er ósamið en hér er gert ráð fyrir að um sambærilegan kostnað verði að ræða við hverja vakt og nú. Vaktsvæðum fækkar úr 27 í 14 en þau stækka að sama skapi. Skv. 9. gr. eiga dýralæknar sem stunda almennar dýralækningar rétt á og ber skylda til að taka þátt í vaktafyrirkomulagi sem skipulagt er á viðkomandi vaktsvæði.
    Samkvæmt 14. gr. skulu starfa sérgreinadýralæknar á tíu tilgreindum sviðum og fjölgar þeim um einn frá því sem nú er. Starfið kemur til vegna ráðningar dýralæknis sem hafa mun eftirlit með inn- og útflutningi búfjárafurða.
    Á síðasta ári námu launagreiðslur ríkissjóðs fyrir alla dýralæknisþjónustu og tengd störf um 111 m.kr. Miðað við fyrirhugaðar breytingar er áætlað að um 68 m.kr. verði greiddar í föst laun en um 31 m.kr. verði varið til greiðslna fyrir vaktir. Ástæða þess að ekki dregur meir úr launakostnaði þrátt fyrir fækkun starfa úr 42 í 31 er sú að héraðsdýralæknum verður að einhverju leyti bættur upp tekjumissir vegna breytinga á vaktafyrirkomulagi. Þessu mati fylgir nokkur óvissa þar sem enn er ósamið um kjör dýralækna við breytt fyrirkomulag vakta.
    Ekki verður hægt að bjóða öllum núverandi héraðsdýralæknum sambærileg störf hjá ríkinu. Ætla má að allt að níu einstaklingar fari á biðlaun. Kostnaður við biðlaun þeirra er um 16 m.kr. sé gert ráð að jafnaði níu mánaða rétti.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins verður komið á dýralæknaráði sem skal skipað fjórum mönnum til fimm ára í senn og vera yfirdýralækni til ráðuneytis. Við úrlausn ágreiningsmála verður ráðinu heimilt að kalla til lögfræðing og skal hann fullnægja skilyrðum um skipan til starfa héraðsdómara. Einnig verður ráðinu heimilt að kalla sérfræðinga sér til ráðuneytis. Ætla má að kostnaður við nefndina verði á bilinu 0,8–1,0 m.kr. á ári.
    Í 13. gr. er heimild til landbúnaðarráðherra til að semja, við sérstakar aðstæður, við dýralækni um greiðslu hluta ferðakostnaðar. Mun þetta gert í því skyni að tryggja byggðum sem eru fjarri aðsetri dýralæknis reglubundna þjónustu og bráðaþjónustu. Ætlunin er að setja reglur um þetta efni í samráði við yfirdýralækni, Dýralæknafélag Íslands og Bændasamtök Íslands. Áætlað er að þessi kostnaður verði ekki undir 2 m.kr. árlega.
    Samtals má ætla að launakostnaður á fyrsta heila árinu yrði 118 m.kr. og um 102 m.kr. á ári eftir það. Kostnaðaraukinn á fyrsta gildisári laganna yrði því um 7 m.kr. en að lokinni greiðslu biðlauna ætti að geta náðst allt að 9 m.kr. árlegur sparnaður.