Ferill 441. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 768 – 441. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Á eftir 115. gr. laganna kemur ný grein, 115. gr. a, sem orðast svo:
    1. Nú eru skilyrði til að ljúka máli samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 115. gr. og lögreglustjóri telur að hæfileg viðurlög við brotinu séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr 50.000 kr. Getur þá lögreglustjóri gefið sakborningi kost á að ljúka málinu með greiðslu tiltekinnar sektar, en í sektarboði skal koma fram stutt lýsing á broti, hvar og hvenær það var framið og þau refsiákvæði sem það varðar við. Einnig skal koma fram í sektarboði hverjar geta orðið afleiðingar þess að því er ekki sinnt.
    2. Hafni sakborningur sektarboði skv. 1. mgr. skal tekin ákvörðun um saksókn eftir al mennum reglum.
    3. Sinni sakborningur ekki sektarboði skv. 1. mgr. innan 30 daga frá því að það sannanlega barst honum eða einhverjum þeim sem birta mætti stefnu fyrir á hendur honum í einkamáli getur lögreglustjóri sent málið héraðsdómara til ákvörðunar sektar og vararefsingar. Dómari tekur ákvörðun um viðurlög með áritun á sektarboð lögreglustjóra. Slík áritun hefur sama gildi og dómur. Ekki er þörf á að kveðja sakborning fyrir dóm áður en máli verður lokið á þennan hátt.
    4. Telji dómari hæfileg viðurlög við broti fara fram úr því sem greinir í 1. mgr. eða fyrirliggjandi gögn ekki nægileg til að sýnt sé fram á sök sakbornings hafnar hann málalokum skv. 3. mgr. með áritun sektarboðs. Slíkri ákvörðun verður ekki skotið til æðra dóms, en dómari er ekki bundinn af henni ef til saksóknar kemur vegna brotsins.
    5. Nú hefur máli verið lokið með ákvörðun viðurlaga skv. 3. mgr., og getur sakborningur þá krafist þess að málið verði tekið upp á ný, enda færi hann þá fram varnir sem gætu hafa haft áhrif á úrslit þess. Kröfu um endurupptöku skal beint til þess dómstóls, þar sem máli var lokið, innan fjögurra vikna frá því að sakborningi varð kunnugt um sektarákvörðun. Dómari ákveður með úrskurði hvort krafa verður tekin til greina. Fallist dómari á kröfuna fellur ákvörðun um viðurlög skv. 3. mgr. úr gildi og sætir málið upp frá því meðferð samkvæmt almennum reglum, þó án þess að ákæra hafi verið gefin út.
    6. Nú telur ríkissaksóknari að sakborningur hafi verið látinn sæta fjarstæðum málalokum, og getur ríkissaksóknari þá krafist endurupptöku málsins fyrir hlutaðeigandi dómstóli. Um meðferð þeirrar kröfu og málsins upp frá því fer eftir 5. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu í samráði við réttarfarsnefnd. Tilgangur frumvarpsins er að gera meðferð minni háttar sakamála markvissari og ná bættum árangri í sektarinnheimtu.
    Um nokkra hríð hefur ekki náðst að sinna sektarmálum á viðhlítandi hátt í nokkrum af stærri umdæmum landsins og bíður nú mikill fjöldi slíkra mála afgreiðslu. Er einkum um að ræða sektarmál vegna minni háttar brota á umferðarlögum. Verði ekki gripið til aðgerða af þessu tilefni má reikna með að fjöldi þessara mála falli niður vegna sakarfyrningar. Til að refsingar hafi tilætluð varnaðaráhrif er nauðsynlegt að sakamál hljóti viðeigandi afgreiðslu lögum samkvæmt. Einnig er andstætt jafnræðissjónarmiðum að mál þessi hljóti ekki sömu meðferð í einstökum umdæmum landsins. Þá verður ekki við það unað að þeir sem greiða sektir af skilvísi þurfi að þola að aðrir komist hjá viðurlögum í fyllingu tímans með því einu að hirða ekki um að sinna sektarboði lögreglustjóra.
    Ástæða þess að ekki hefur verið unnt að sinna smærri sektarmálum með viðunandi hætti verður að verulegu leyti rakin til þess að meðferð þeirra samkvæmt 115. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, hefur ekki alls staðar reynst nægjanlega skilvirk. Reynslan af þeirri málsmeðferð í nokkrum af stærri umdæmum landsins hefur orðið sú að sektarboði lögreglustjóra hefur í ríkum mæli ekki verið sinnt af sakborningi. Saksókn eftir almennum reglum með útgáfu ákæru í þessum málum leiðir hins vegar af sér verulegt annríki fyrir lögreglu og dómstóla. Með frumvarpi þessu er lagt til að minni háttar sakamálum verði lokið á mun einfaldari hátt með ákvörðun dómara um sekt og vararefsingu og taki dómari þá ákvörðun með áritun á sektarboð lögreglustjóra. Til að máli verði lokið á þann veg verður sakborningi eða þeim sem birta má stefnu fyrir á hendur honum í einkamáli að hafa sannanlega borist sektarboð lögreglustjóra en hann ekki sinnt því innan tilskilins frests. Slík áritun hefði sama gildi og dómur og væri því unnt að leita fullnustu sektar með aðför eða beita vararefsingu.
    Ef sakborningur sinnir ekki sektarboði lögreglustjóra og hefur þar með ekki uppi andmæli ef einhver eru felur það athafnaleysi almennt í sér líkur fyrir sekt sakbornings ef gögn málsins hníga einnig að þeirri niðurstöðu. Verður því ekki talið varhugavert að þessi mál hljóti afgreiðslu með einfaldari hætti en almennt er gert ráð fyrir við meðferð opinberra mála. Verður einnig að hafa hliðsjón af því að þessi málsmeðferð kemur einvörðungu til álita við afgreiðslu smæstu mála sem jafnframt eru þorri þeirra sakamála sem lögregla hefur til meðferðar.
    Með þeirri málsmeðferð, sem lögð er til með frumvarpinu, má vænta þess að meðferð sektarmála verði til muna skilvirkari. Einnig má reikna með betri árangri við innheimtu sekta þegar almennt verður ljóst að málum þessum verður sinnt með þeim ýtrustu úrræðum sem lög gera ráð fyrir. Er þess þá jafnframt að vænta að sakborningur muni nýta sér boð um að ljúka máli vegna brota á umferðarlögum með greiðslu sektar innan 30 daga frá dagsetningu sektarboðs með 25% afslætti, sbr. 6. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, svo sem því ákvæði var breytt með lögum nr. 57/1997.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram hvaða mál geti sætt þeirri meðferð sem lögð er til með frumvarpinu. Í fyrsta lagi verða að vera fyrir hendi skilyrði til að ljúka máli, samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 115. gr. laganna, svo sem því ákvæði var breytt með lögum nr. 57/1997. Af þessu leiðir þann augljósa áskilnað að viðkomandi lögreglustjóri verður að hafa ákæruvald í máli skv. 28. gr. laga um meðferð opinberra mála svo því verði lokið á þann veg sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Í öðru lagi er það skilyrði til að máli verði lokið á þennan máta að hæfileg viðurlög við broti séu sekt sem ekki fari fram úr 50.000 kr. Að þessu leyti eru því gerðar ríkari kröfur en í 1. mgr. 115. gr. laganna þar sem lægstu sektir koma hér einvörðungu til álita. Þá verður máli ekki lokið á þennan veg ef brot getur varðað öðrum viðurlögum en sekt, svo sem réttindasviptingu eða eignaupptöku.
    Í 1. mgr. segir einnig hvað koma skuli fram í sektarboði til sakbornings. Þar skal koma fram stutt lýsing á broti, hvar og hvenær það var framið og þau refsiákvæði sem það varðar við. Mikilvægt er að vandað verði til þessarar lýsingar á viðkomandi broti þar sem hún felur í sér afmörkun á því sakarefni sem dómari getur eftir atvikum ráðið til lykta með áritun á sektarboð. Þá skal beinlínis tekið fram í sektarboði til sakbornings hverjar geti orðið afleiðingarnar verði því ekki sinnt.
    Samkvæmt 2. mgr. skal tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum ef sakborningur hafnar sektarboði eftir 1. mgr. Sakborningur verður að tilkynna lögreglu þessa ákvörðun sína og kemur þá ekki til þess að sektarboðið verði sent til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt þeim reglum sem lagðar eru til með frumvarpinu. Þess í stað verður eftir atvikum að höfða opinbert mál á hendur sakborningi með útgáfu ákæru.
    Ef sakborningur sinnir ekki sektarboði lögreglustjóra innan 30 daga er í 3. mgr. mælt fyrir um heimild til að senda málið héraðsdómara til ákvörðunar sektar og vararefsingar. Til að mál hljóti þá meðferð verður sektarboð sannanlega að hafa borist sakborningi eða þeim sem birta mætti stefnu fyrir á hendur honum í einkamáli. Þessum áskilnaði verður fullnægt á ýmsa vegu. Þannig væri viðhlítandi í þessum efnum að sektarboð hefði verið birt af lögreglumanni skv. 20. gr. laga um meðferð opinberra mála. Einnig væri fullnægjandi að birting færi fram eftir reglum XIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Birting sektarboðs teldist því almennt sönnuð með vottorði stefnuvotts eða póstmanns um að hann hefði afhent það sakborningi eða einhverjum öðrum sem bær var um að taka við því í hans stað. Þegar dómara berst sektarboð, sem sakborningur hefur ekki sinnt innan tilskilins frests, tekur hann ákvörðun með áritun sinni á sektarboð um fjárhæð sektarinnar. Slík ákvörðun hefur sama gildi og dómur og getur því fjárnám farið fram til fullnustu sektar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Einnig ákveður dómari vararefsingu í refsivist með áritun á sektarboð og gilda í þeim efnum reglur 54. gr. almennra hegningarlaga.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að dómari hafni áritun á sektarboð ef hann telur hæfileg viðurlög við broti fara fram úr því sem greinir í 1. mgr. eða fyrirliggjandi gögn ekki nægileg til að sýnt sé fram á sök sakbornings. Slíkri ákvörðun verður ekki skotið til æðra dóms, en dómari er ekki bundinn af henni ef til saksóknar kemur vegna brotsins.
    Samkvæmt 5. mgr. getur sakborningur krafist þess að mál verði tekið upp á ný, enda færi hann fram varnir sem gætu hafa haft áhrif á úrslit málsins. Gert er ráð fyrir rúmri heimild sakbornings til að fá mál endurupptekið þannig að slíkri kröfu verði ekki hafnað nema varnir séu með öllu haldlausar. Kröfu um endurupptöku skal beint til þess dómstóls, þar sem máli var lokið, innan fjögurra vikna frá því að sakborningi varð kunnugt um sektarákvörðunina. Dómari ákveður með úrskurði hvort krafa verði tekin til greina. Slíkum úrskurði verður skotið með kæru til Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga um meðferð opinberra mála. Tekið er fram í ákvæðinu að verði krafa um endurupptöku tekin til greina falli ákvörðun um viðurlög úr gildi. Verður málið þá í beinu framhaldi rekið áfram fyrir dómi eftir almennum reglum, en þó með því fráviki að ákæra væri ekki gefin út í málinu, enda svarar efni sektarboðs skv. 1. mgr. í öllu verulegu til þess sem komið hefði fram í ákæru.
    Í 6. mgr. er að finna heimild fyrir ríkissaksóknara til að krefjast endurupptöku máls ef sakborningur hefur verið látinn sæta fjarstæðum málalokum. Verður þessari heimild beitt hvort heldur sem málalok eru fjarstæð sökum þess að þau eru of þung eða of væg.

Um 2. gr.

    Verði frumvarpið að lögum er lagt til að þau öðlist þegar gildi. Við gildistöku laganna geta þau mál sem þegar eru til meðferðar hjá lögreglustjóra sætt þeirri meðferð sem lögð er til með frumvarpinu þótt brot hafi verið framið fyrir það tímamark.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á
lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

    Í frumvarpinu er lagt til að meðferð minni háttar sakamála verði einfölduð og bættum árangri náð í sektarinnheimtu. Lagt er til að minni háttar sakamálum verði lokið með ákvörðun dómara um sekt og vararefsingu og er miðað við brot þar sem sekt fer ekki fram úr 50 þús. kr.
    Að mati fjármálaráðuneytis mun frumvarpið ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum. Gera má ráð fyrir að innheimta sekta batni og að tekjur ríkissjóðs aukist þar með en ekki er hægt að segja til um að hve miklu leyti.