Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 775 – 448. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um forkönnun á vegtengingu milli lands og Eyja.

Flm.: Árni Johnsen, Sturla Böðvarsson, Árni M. Mathiesen, Hjálmar Jónsson,


Guðjón Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Kristján Pálsson,


Magnús Stefánsson, Árni R. Árnason, Guðmundur Árni Stefánsson,


Ísólfur Gylfi Pálmason, Svavar Gestsson, Guðni Ágústsson,


Ragnar Arnalds, Kristín Ástgeirsdóttir, Lúðvík Bergvinsson,


Gísli S. Einarsson,     Vilhjálmur Egilsson,     Guðrún Helgadóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera forkönnun á gerð vegtengingar milli Vestmannaeyja og lands. Kannaðir verði tæknilegir möguleikar, hagkvæmni og fjárhagsleg arðsemi með tilliti til fólks- og vöruflutninga.

Greinargerð.


    Nú er gerð jarðganga undir utanverðan Hvalfjörð á lokastigi og hefur fengist þar góð reynsla sem nýta má við önnur neðansjávargöng á Íslandi. Erlendis hefur einnig fengist mikil reynsla undanfarin ár og framfarir orðið við gerð slíkra mannvirkja. Japanar eru þar framar lega í flokki, en þeir búa að mörgu leyti við svipaðar jarðfræðilegar aðstæður og Íslendingar, svo sem eldvirkni og jarðskjálfta. Nýlega luku þeir lengstu jarðgöngum í heimi, en það eru Seikan-göngin milli eyjanna Hokkaido og Honshu. Göngin eru alls um 54 km, og þar af eru 23,5 km undir hafsbotni. Þá má minnast á Ermarsundsgöngin og Stóra-Beltisgöngin sem bæði eru komin í notkun. Norðmenn eru mjög framarlega í þessum framkvæmdum, og þar í landi eru fullgerð eða í byggingu a.m.k. 18 neðansjávargöng fyrir bílaumferð, alls yfir 60 km. Þau dýpstu fara allt að 265 m undir sjávarmál, og af göngum sem eru á skoðunar- eða undirbúningsstigi fara þau dýpstu allt að 630 m undir sjávarmál.
    Milli Danmerkur og Svíþjóðar er nú unnið að gerð vegtengingar sem annars vegar er um brú og hins vegar um neðansjávargöng úr steyptum einingum (vegstokkur) sem hvíla á sjáv arbotni. Slík göng hafa víða verið gerð og á undirbúningsstigi vegtenginga milli stranda er slíkur kostur oft borinn saman við göng í bergi og/eða stórbrú.
    Norðmenn hafa á undanförnum árum gert töluverðar rannsóknir og hafið hönnun á flot göngum, þ.e. pípu sem rúmar tveggja akreina veg og marar í kafi en er oftast stöguð í hafs botninn. Slík lausn er einnig til skoðunar fyrir vegtengingu um Messínasundið á Ítalíu og milli eyja í Japan.
    Vestmannaeyjar hafa frá aldamótum óslitið verið ein afkastamesta verstöð landsins með miklum tilþrifum í útgerð og atvinnulífi. Umfangsmiklir flutningar hafa átt sér stað um langt árabil milli lands og Eyja, bæði fólksflutningar og vöruflutningar, og á síðustu árum lætur nærri að um 120 þúsund manns ferðist árlega milli lands og Eyja með flugvélum og skipum, en íbúar eru um fimm þúsund.
    Milli lands og Eyja eru 10 km á milli stranda þar sem styst er og mesta sjávardýpi er um 90 m á Álnum. Göng í bergi þyrftu að vera töluvert lengri, einkum þar eð djúpt er á berg í landi. Grjótvarðar fyllingar út frá Landeyjum og Eyjum mundu hins vegar stytta stokk eða pípu á botni að miklum mun. Berggöng yrðu væntanlega að mestu í móbergi eins og við sumar virkjanir hér á landi.
    Forkönnun á gerð vegtengingar milli lands og Eyja væri æskilegt að gera í tveimur áföng um:
     1.      Tekin yrðu saman öll tiltæk gögn um jarðfræði svæðisins, sem eru töluverð, og tæknilegar lausnir kannaðar út frá þeim upplýsingum. Þá yrði safnað upplýsingum erlendis frá um verkefni af svipuðum toga og gerð spá um fólks- og vöruflutninga milli lands og Eyja. Kostnaður yrði metinn miðað við innlenda og erlenda reynslu og hagkvæmni könnuð miðað við hugsanlega umferð um göngin. Í skýrslu um þennan áfanga kæmu einnig tillögur um framhaldsrannsóknir. Áætlaður kostnaður við þennan þátt er 1,5 millj. kr.
     2.      Í öðrum áfanga yrðu gerðar rannsóknir á botni og aðstæðum í Eyjum og í landi. Gerð yrði skýrsla um hagkvæmustu tilhögun og tæknilega lausn og um staðsetningu. Þá yrði kostnaðaráætlun endurmetin með tilliti til aukinna upplýsinga. Áætlaður kostnaður við þennan þátt er 5 millj. kr. Mun umfangsmeiri og dýrari rannsóknir þyrfti síðan að gera til undirbúnings framkvæmda ef af þeim yrði.
    Fjöldi þeirra sem ferðast til Vestmannaeyja hefur farið sívaxandi á undanförnum árum, en samgöngur eru að mörgu leyti erfiðar vegna veðurfars, bæði með tilliti til flugferða og sjóferða. Vegtenging milli Vestmannaeyja og fastalandsins mundi valda byltingu í samgöng um við þennan mikla athafna- og ferðamannabæ.


Fylgiskjal.


Bréf Björns A. Harðarsonar, yfirverkfræðings Hvalfjarðarganga,
um forkönnun á gerð jarðganga milli lands og Eyja.

(Janúar 1998.)

    Hugmyndin um gerð vegganga milli lands og Eyja er að mörgu leyti áhugaverð. Mikil reynsla hefur fengist undanfarin ár í gerð neðansjávarganga, bæði hérlendis og erlendis. Eng ar faglegar forathuganir hafa farið fram á gerð vegganga á þessu svæði en undirritaður telur mjög æskilegt að slík forathugun sé gerð.
    Í fyrsta áfanga slíkrar forathugunar yrðu öll tæknileg gögn um svæðið tekin saman og túlkuð í ljósi fenginnar reynslu í veggangagerð. Enn fremur yrði gert áhættumat með tilliti til náttúruhamfara á svæðinu. Niðurstöður þessa áfanga mundu væntanlega svara þeirri spurningu hvort yfir höfuð sé tæknilega raunhæft að kanna nánar þennan möguleika á vega sambandi við Eyjar.
    Ef niðurstöður fyrsta áfanga yrðu jákvæðar væri næsta skref að gera frumáætlun um heildarkostnað framkvæmda og þá kæmi í ljós hvort verkið væri fjárhagslega gerlegt.

Björn A. Harðarson
jarðverkfræðingur.




    Með tillögunni er dreift til þingmanna lokaverkefni í byggingatæknifræði við Tækniskóla Íslands 1994, Jarðgöng til Vestmannaeyja, athugun á vegtengingu og samgöngum.